Leita í fréttum mbl.is

Til heljar eða heim aftur ?

 

 

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga í mestu nauðvörn sem hann hefur komist í á öllum ferli sínum. Það er ekkert mál til sem hann getur notað sér til framdráttar nema ef vera skyldi andstaðan við Evrópusambandsaðild, sem er þó alls ekki á hreinu innan flokksins frekar en annað. En Sjálfstæðismenn sjá ekki neitt sem þeir geta frekar gert út á en það mál og virðast ætla að standa fast á því. Ég tel það í sjálfu sér gott en veit þó vel að flestir sjálfstæðismenn eru andvígir aðild á grundvelli ýmissa sérhagsmuna, eins og t.d. LÍÚ-klúbburinn er glöggt vitni um. Ég met þetta mál hinsvegar alfarið út frá því sjónarmiði, að almannahagsmunir liggi í því að við varðveitum sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétt fyrir okkur og ókomnar kynslóðir.

Sjálfstæðisflokkurinn ber, eins og flestir vita og viðurkenna, öllum öðrum fremur ábyrgð á því að íslenska þjóðin er sokkin á kaf í kreppu og skuldafen og það er kannski ekki að öllu leyti tilviljun að flokkurinn var stofnaður kreppuárið mikla 1929. Og menn skulu hugleiða það og minnast þess, að efnahagslegt hrun þjóðarinnar vegna þeirrar ábyrgðarlausu stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir, hefur gert það að verkum að sjálfstæði okkar er mjög takmarkað sem stendur og raunverulega vegum við nú salt á barmi hengiflugs varðandi allan ákvörðunarrétt yfir okkar málum.

Þessvegna er það grátbroslegt að heyra sjálfstæðismenn eins og Hannes heillumhorfna, tala um hvað það sé nöturlegt að hafa norðmann í stöðu seðlabankastjóra, en það er bein afleiðing þess hvernig þeir sjálfir léku öllu í strand í okkar málum. Það er vegna fjárhættuspils þeirra og ábyrgðarleysis að við þurfum að leita út fyrir landsteinana að fólki sem hægt er að treysta og ætla má að sé hafið yfir þá spillingu sem hér hefur viðgengist. Norðmaðurinn í Seðlabankanum og Eva Joly væru ekki hér að störfum ef mál væru ekki svo illa komin sem raun ber vitni - af völdum Sjálfstæðisflokksins !

Og nú erum við að fá stöðugt skýrari mynd af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að takast á við vandann og gera upp við frjálshyggjuna ?

Við eigum að fá aftur yfir okkur Bjarna Benediktsson, Illuga Gunnarsson, Guðlaug Þór, Pétur Blöndal, Birgi Ármanns og Sigurð Kára.......... endurnýjaða menn eða hitt þó heldur, allt fordekraða frjálshyggjumenn !

Það liggur líka fyrir að Bjarni Benediktsson verður kjörinn formaður flokksins því það verða hreint ekki svo fáir sem telja nóg að hann heiti þessu nafni. Hann þarf ekki að hafa neitt annað til að bera í augum fjölmargra flokksmanna.

Og svo til að kóróna skömmina, er hætta á því að Tryggvi Þór Herbertsson komist auk fyrrnefndra manna inn á þing með sín frjálshyggjuplön. Sjálfstæðisflokksforustan hefur bersýnilega ekkert lært og sér ekki nokkurn skapaðan hlut að frjálshyggjunni og ætlar sýnilega að taka upp sama þráðinn að nýju ef hún fær brautargengi til þess. Það hefur verið kallað eftir siðbót innan þjóðfélagsins en umfram allt þarf siðbót innan Sjálfstæðisflokksins og hana mikla. Meðan flokkurinn sem slíkur neglir sig við frjálshyggjusjónarmiðin og neitar að iðrast framinna misgerða, getur svo farið að lokum að það verði enginn ærlegur maður eftir innan hans vébanda nema Árni Johnsen !

Það vantar líka sárlega skúringakonur í Sjálfstæðisflokkinn og það liggur ljóst fyrir að Þorgerður Katrín, Arnbjörg og Ásta Möller duga ekki í slík hlutverk.

Það þarf að skrúbba flokksmaskínuna, sópa skúmaskotin og syngja við raust :

" Út með allan skítinn svo einhver vilji lít´inn ! "

En þar sem traustið er týnt og langan tíma þarf til að vinna slíkt upp aftur, er það von mín, fyrir hönd þjóðar minnar, að sem fæstir vilji líta inn til Sjálfstæðisflokksins á kjördag.

Íslenska þjóðin í heild þarf að gera það upp við sig hvort hún vill halda áfram á veginum til heljar eða snúa heim aftur - til eðlilegra íslenskra þjóðfélagsgilda ?

Það ber nefnilega að hafa það í minni, að það verður fyrst og fremst kosið um tvennt í vor, ætlar fólk að skapa forsendur fyrir áframhaldandi samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, styðja að því stjórnarfyrirkomulagi sem vinna mun eftir hugsjónum félagshyggju og jafnaðar eða ætla menn virkilega að opna möguleika fyrir endurupptöku samstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar -  eða með öðrum orðum - ana út í  nýtt frjálshyggjufen sem mun trúlega endanlega gera út af við þessa þjóð  ?

Við kjósendur höfum valið um það í komandi kosningum hvor leiðin verður farin  ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 1163
  • Frá upphafi: 316849

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 865
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband