Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Óskiljanleg stefna


Það hefur vafist fyrir mörgum að skilja hve langt Clinton-stjórnin gekk á sínum tíma í stuðningi sínum við Ushtria Clirimtare e Kosove ( UCK ) eða svonefndan frelsisher Kosovo, Kosovo Liberation Army ( KLA ). Forusta Múslíma í Bosníu-Herzegóvínu undir Izetbegovic studdi KLA mikið, en  það er kaldhæðnisleg staðreynd að fjandríkin Bandaríkin og Íran skuli bæði hafa stutt þessa umdeildu hreyfingu allt frá 1992. Það má benda á það að ýmsir þræðir lágu á milli Bosníu og Arkansas áður en Clinton varð forseti. Aprílmánuður 1992 var t.d. yfirlýstur af Bosníu-Múslimum sem " Mánuður Bosníu-Herzegovínu og Arkansas ".  En stuðningur Bandaríkjanna við KLA verður þó enn undarlegri þegar á það er litið að einn helsti foringi úrvalssveita þess hers, Muhammed al-Zawahiri er bróðir Ayman al-Zawahiris stríðsforingja Osama Bin Ladens, hryðjuverkamannsins sem er auglýstur sem óvinur alþjóðasamfélagsins nr. 1 af  hálfu Bandaríkjanna.

Ayman al-Zawahiri er talinn hafa átt þátt í tilræðinu við Hosni Mubarak 1995 í Addis Ababa. Og sem náinn samverkamaður Osama Bin Ladens er hann ásamt honum talinn ábyrgur fyrir þeim hryllingsverkum sem framin voru 11. sept. 2001 í Bandaríkjunum. Margir bandarískir sérfræðingar, jafnvel þeir sem hafa verið fjandsamlegir í garð Júgóslavíu, voru frá upphafi ákaflega ósáttir við þau nánu bönd sem sköpuðust milli Clinton-stjórnarinnar og KLA. Ben Works, forstjóri Strategic Research Institute of USA  sagði til dæmis : " Það er enginn vafi á því að menn Bin Ladens hafa verið í Kosovo og hjálpað til við að vopna, birgja upp og þjálfa lið KLA. Stefna Bandaríkjastjórnar í Kosovo hefur verið hjálp við Bin Laden og það er engu líkara en Clinton-stjórnin hafi þar frekar orðið til að ýta undir hryðjuverkastarfsemi heldur en hitt ".

Harry Summers, þekktur hernaðarsérfræðingur og dálkahöfundur, áður ofursti í Bandaríkjaher, sagði þann 12. ágúst 1998 : " Í Kosovo hafa Bandaríkin gengið fram í því að styðja Islamska bókstafstrúar og hryðjuverka-hreyfingu af því tagi sem flokkast undir verstu óvini okkar alls staðar annars staðar !"

Í þessu sambandi er þó skylt að taka það fram að KLA er ekki samnefnari fyrir alla Kosovo-Albani, en hófsamari öfl innan þeirra raða hafa hinsvegar verið miklu minna í sviðsljósinu. Öfgamennirnir hafa aftur á móti vaðið uppi þar sem annarsstaðar og bætt olíu á eld haturs og aðskilnaðar.

Miðað við það hvernig Bandaríkin og fylgifiskar þeirra hafa haldið á málum í Kosovo, má segja að með því hafi verið viðurkennt að Suðurríkin hafi verið í fullum rétti með að segja sig úr bandaríska ríkjasambandinu á sínum tíma.  Í apríl 1966 sagði William Fulbrigt: " Nú er svo komið, að það er einungis á færi sálfræðinga að skilja utanríkisstefnu Bandaríkjanna ". Hvað myndi sá ágæti maður hafa sagt um stöðu mála í dag ? 

 

( Greinin fékkst ekki birt í Mbl. )

 


ENN UM EVRABÍU


 

 

Það er sannarlega kominn tími til þess að menn geri sér grein fyrir því að framtíð Evrópu sem vöggu Vesturlanda er í hættu.

Hættan er sú að gróin gildi okkar eiga í vök að verjast vegna þeirra gilda sem innflytjendur koma með í sínu farteski. Þau eru sum hver langt frá þeirri hugsunarstefnu sem hefur verið okkar til þessa. Það er opinbert leyndarmál að stærstur hluti innflytjenda er ekki að koma til að verða hluti af okkar samfélögum og aðhyllast okkar lífsgildi. Það er eingöngu verið að ásælast þau lífskjör sem hafa verið byggð upp með súrum sveita forfeðra okkar.

Félagsleg hjálp í norrænum ríkjum fer að drjúgum hluta til innfluttra aðila sem njóta fullrar framfærslu á kostnað annarra, en sýna viðkomandi ríkjum enga hollustu eða trúmennsku á móti. Þetta er það sem fjölmenningarfarsóttin hefur fætt af sér með umburðarlyndi heimskunnar.

" Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir " er sagt við rándýrin. Klifurmúsin segir þetta við refinn en er étin upp til agna á sömu stund og svo fer fyrir öðrum sem hegða sér með viðlíka vitleysishætti.

Ég hef reynt að opna þessi mál til umræðu fyrir þá sem hafa ef til vill vilja og getu til að hugleiða framvindunu á raunsæjum forsendum. Það hefur aldrei þótt framsýni í því að fljóta sofandi að feigðarósi. Heimurinn er ekki eitthvað sem stendur í stað, hann er sífellt að breytast og sumt sem fær að breytast með þegjandi samþykki Vesturlanda er lífsgildum okkar síður en svo í hag.

Þau gildi sem hafa ráðið í okkar heimshluta eru vissulega komin í nauðvörn á mörgum sviðum. Erum við tilbúin að slá þau endanlega af, til að friða háværa minnihlutahópa innflytjenda sem streymt hafa inn í lönd okkar og eru þegar farnir að krefjast þess að þeirra gildi ráði þar lögum og lofum ?

Erum við tilbúin að gera einhver Munchensamning og kasta vænum bita í þann sem heimtar með frekju og yfirgangi ?  

Halda menn að slíkt stöðvi ágengnina, að taka að sér hlutverk Chamberlains, " Sjá, ég boða yður frið um vora daga " !

Nei, bitarnir verða margir áður en lýkur og fátt mun standa eftir þegar upp verður staðið ef fer sem horfir. Það er eitt sem er víst og satt.

Evrópa er í dag hugsjónalaus álfa, laustengd við allt það sem veitti henni fastari grundvöll áður fyrr. Mammon er guðinn og markaðslögmálin eina siðakerfið sem menn vilja fara eftir, þó vitað sé að þar sé margur pottur brotinn svo ekki sé meira sagt.

Varla viljum við, núverandi íbúar Evrópu, að álfan breytist á komandi árum í Evrabíu - fjölmenningarríki trúlausrar efnishyggju, sem á að hreinsa allan sannan málm úr mönnum og leggja afganginn saman í eina sorabræðslu ?

Auk þess vitum við vel, að þó að stefnt sé að slíku marki, munu múslímar erfa landið því vald trúarinnar ræður mestu í þeirra hugsun.

Þar sem Tító var Króati en Serbar stærsta þjóðin í ríkjasambandinu, reyndi hann leynt og ljóst að takmarka áhrif þeirra. Albanir sem flýðu einræðisstjórn Hoxha í Albaníu fengu að setjast að í Kosovo með blessun Títós sem sá í því möguleika á mótvægi við áhrif Serba. Hann hyglaði ungverska minnihlutanum í Vojvodina á sama hátt og iðjuver og rafstöðvar voru byggðar í Króatíu eða Slóveníu fremur en í Serbíu, jafnvel þótt þar væru vatnsmestu fljótin.

Á sama hátt og réttur Albana er nú af svonefndu alþjóðasamfélagi talinn ótvíræður í Kosovo, getur réttur manna til eigin lands hvar sem er í heiminum vikið, ef fólk af öðru þjóðerni fær að setjast þar að í stórum stíl. Kosovo var að öllu leyti serbneskt land áður en innflutningur Albana þangað breytti aðstæðum.

Að því kom að þeir sem fengu landvistarleyfi þar eignuðu sér landið og hófu að þrengja að kostum þeirra sem fyrir voru. Þegar brugðist var til varnar, og því miður með hörðum og ofbeldisfullum aðferðum, var rekið upp Ramakvein og kvartað yfir ofsóknum.

Í kjölfarið fylgdi stríð við Serba og svo var land þeirra tekið eignarnámi í nafni friðar og mannréttinda. Síðan hófu Albanir í Kosovo ofsóknir á hendur Serbum þar, beint undir vernd friðarliðsins, og kirkjur, klaustur og menningarminjar, sumt á verndarskrá S.Þ. voru eyðilagðar, sprengdar í loft upp og brenndar. Aðilinn sem var ofsóttur hóf ofsóknir strax og hann taldi sig hafa stuðning og aðstöðu til þess. Og hatrið safnast fyrir enn og aftur uns það brýst út einn daginn með endurteknu ofbeldi.

Enn og aftur segi ég: Það fer best á því að hver og einn rækti sinn heimagarð og

alþjóðlegt hjálparstarf þarf að byggjast á því að gera mönnum það mögulegt.

Gestrisni er góð að eðlilegum mörkum, en við bjóðum ekki gestum inn í stofur okkar með það í huga að þeir eigi að taka völdin þar. Þá eru heimili okkar ekki lengur okkar.

Þjóðfélagið sem við lifum í er sameiginlegt heimili okkar allra - viljum við að aðrir ráði þar en við ?

 

 


Á EVRÓPA AÐ VERÐA EVRABÍA ?

 


 

Á síðustu áratugum hefur sú stefna verið í gangi víðsvegar um Evrópu, að innflytjendur frá múslímaheiminum hafa fengið að flæða inn í álfuna án þess að

menn hafi haft andvara á sér gagnvart þeim vandamálum sem því hafa fylgt. Nú eru menn hinsvegar farnir að sjá ýmsar brotalamir á þessu ferli, einkum vegna þess að háværir minnihlutar múslíma í þessum löndum eru farnir að gera ýmsar kröfur sem samrýmast enganveginn þeim gildum sem Evrópumenn hafa viljað standa fyrir. Nýleg skoðanakönnun í Bretlandi sýnir að um 40 % þarlendra múslíma aðhyllast svonefnd Sharialög, sem kveða á um trúarlegt yfirvald í þjóðfélagsmálum. Auk þess er ljóst að ýmis hryðjuverkasamtök hafa notið stuðnings og samúðar hluta þeirra múslíma sem búa á Vesturlöndum. Með áframhaldandi streymi múslíma inn í Evrópu er sýnilegt að álfan fer undir forræði múslíma og meirihlutavald.

Í því sambandi má benda á hvernig aldagamalt serbneskt land hefur nánast verið afhent Albönum sem eru þar nú í meirihluta og á ég þar við Kosovohérað, vöggu serbneskrar menningar.

Í kvikmyndinni Braveheart er Játvarður Englandskonungur látinn segja í ergi sínu yfir gangi mála í Skotlandi: " Vandinn við Skotland er að það er fullt af Skotum !" Á sama hátt hugsa sennilega ýmsir leiðtogar múslíma með sér, að vandinn við Evrópu sé að hún sé full af kristnum mönnum. Játvarður komst að þeirri niðurstöðu, að lausnin væri  að planta niður Englendingum í Skotlandi svo að Skotar yrðu smám saman minnihluti í eigin landi. Og ekki ber á öðru en þróun mála bendi til að múslímskir leiðtogar geti hafa komist að sömu niðurstöðu varðandi Evrópu. Fylla skuli álfuna af múslímum svo að  vandamálið með kristindóminn verði úr sögunni.

Þá verða kristnir menn ef til vill annars flokks borgarar í sinni gömlu álfu, eins og dhimmis-borgarar eru og hafa verið í múslímalöndunum, borga sérstaka aukaskatta og búa við kerfisbundna auðmýkingu vegna höfnunar sinnar á Islam. Þá verður álfan ekki lengur Evrópa heldur Evrabía. Vín verður endanlega fallin ásamt öðrum höfuðborgum kristinnar menningar og frjáls framþróun sett bak við lás og slá um ófyrirsjáanlegan tíma.

Í bók sinni  " Eurabia: The Euro-Arab Axis " lýsir sagnfræðingurinn Bat Ye´or  líklegri framvindu þessara mála og ættu áhugasamir að kynna sér þessi efni og vera vakandi fyrir þeim hættum sem stefna evrópskra valdamanna er að byggja undir.

Ef upphaf þess að breyta Evrópu í Evrabíu liggur í einhverri hernaðaráætlun franskra Gaullista sem dreymdi um að skapa mótvægi gegn Bandaríkjunum, er það óhuggulegt mál, en verst er þó að svo virðist sem Evrópusambandið hafi í raun tekið upp þessa stefnu, sem felur í sér að sameina Miðjarðarhafssvæðið að norðan og sunnan undir einni og sömu yfirstjórn.

Og það er ekki bara Evrópusambandið sem er undir þetta selt, því Sameinuðu þjóðirnar hafa líka tekið fjölmenningarsambræðsluna upp á sína arma. Þar á bæ hafa hugtök lengi verið vandlega valin til notkunar í fjölmiðlum og hin frjálsa hugsun oft verið sett út í horn.

Nafnkristin evrópsk valdaöfl hafa um skeið nýtt sér múslímskar trúarhreyfingar í þeirri valdabaráttu sem háð er um framtíðaryfirráð í álfunni og heiminum öllum. En þær hreyfingar munu ekki láta að slíkri stjórn til lengdar, því markmiðin eru alls ekki þau sömu og múslímar munu ekki skiljast við trú sína svo auðveldlega þó kristnir menn kunni að gera það.

Í bók Bat Ye´or er því haldið fram að ýmis sterk öfl hafi unnið að þessu máli síðastliðin 35 ár og innflutningur múslíma til Evrópu sé  veigamikill hluti þeirrar áætlunar sem í gangi sé.

Bat Ye´or segir: " Við eigum ekki að biðja hófsama Múslíma um að bjarga okkur, við eigum að breyta þessu ferli sjálf. Það er skylda okkar gagnvart börnum okkar og forfeðrum. Ég tel að við getum ekki hafist handa í því verki af ábyrgð, ef við skiljum ekki forsendur þær sem andstæðingurinn gefur sér, andann sem er þar að verki og hugsunina að baki Evrabíu. " Hún segir líka, að upphaf þeirrar hugsunar sé evrópsk, komin innanfrá en ekki að utan. Eyðilegging kristinnar menningar af hálfu múslíma sem berjast í nafni heilags stríðs, hafi oftast átt rætur sínar hjá valdaaðilum sem segjast vera kristnir en eru fyrst og fremst að hugsa um að gína yfir öllu valdsins vegna.

Í þeirri viðleitni sinni hafa slíkir aðilar verið fúsir til að taka hvern sem er í þjónustu sína. Þetta innifelur m.a. skýringuna á því hversvegna ekkert hefur verið gert í því að hindra niðurbrot kristinna klaustra og menningarminja í Kosovo. Í augum hinna svartsáluðu valdhafa í Evrópu, er kristnin að verða meginhindrunin í vegi hins sameiginlega valds sem verið er að reyna að skapa. Meginveilan í allri þessari áætlun er hinsvegar sú, að þó kristnir menn séu margir tilbúnir til að versla með trú sína, eru múslímar það yfirleitt ekki. Fyrir þeim er trúin annað og meira og því mun Evrópa verða þeirra, ef fer sem horfir, og þeir sem halda nú að þeirra bíði dýrð hins margfalda valds munu tapa öllu.

Látum ekki Evrópu verða að Evrabíu - stöndum vörð um okkar kristna arf !


UM LÆRÐA ASNA OG LÍTIÐ VIT

 


Það er alkunn staðreynd að þegar smíða á eitthvað sem þarf að vera traust og ábyggilegt, þarf að velja efniviðinn vel. Deigir málmar nýtast ekki eins og stál og greni er ekki það sama og eik. Náttúrulegar eðliseigindir hljóta alltaf að skipta miklu þegar hugmyndin er að skapa eitthvað sem á að skila sér verulega vel. Þau grundvallaratriði hafa ekki síður mikið að segja þegar búa á til úr mönnum meiri menn í krafti aukinnar menntunar.

Við lifum á tímum þar sem búið er að gera hugtakið  - menntun -  að miklu töfraorði. Sumir ganga svo langt í opinberri umræðu að tala eins og menntun sé lausnin á öllum vandamálum heimsins. Það þurfi bara að mennta alla og þá sé allt komið í himnalag. Menntunin muni leiða allt mannkynið til ljóss og friðar.

Slíkar staðhæfingar eru fjarri öllum sannleika, þar sem menntun getur stundum beinlínis verið orsök vandamála og nægir þar að benda á afleiðingar menntahroka manna fyrr og síðar. Það er heldur ekki margt sem segir okkur í gegnum almenna skynsemi að menntaða fólkið sé besta fólkið í heiminum. Margir myndu hiklaust telja að því væri þveröfugt farið.

En nútíminn býður upp á meira aðgengi að svokallaðri menntun en áður hefur þekkst og í dag erum við að mennta fólk langt umfram það sem efniviðurinn býður upp á. Þó að fólk fari með einum eða öðrum hætti í gegnum skólakerfið og fái sínar gráður þar, getur veruleikinn sýnt það með skýrum hætti, að þrátt fyrir langskólamenntun geta menn verið mestu asnar.

Þegar allir ætla að verða sérfræðingar kemur einfaldlega í ljós að það hafa ekki allir innviðina til þess. Sumir eru bara þannig gerðir að þeir eru asnar að upplagi og menntakerfið er ófært til að af-asna þá. Þeir skakklappast einhvernveginn í gegnum skólana en verða þó aldrei meira en lærðir asnar eftir menntunina.

Og þó að venjulegur asni geti svo sem verið nógu afleitur í mannlegum samskiptum, þá þarf enginn að velkjast í vafa um það að lærður asni er honum miklu verri.

Þessir lærðu asnar fá margir hverjir ýmis embætti, einkum í ríkiskerfinu, út á gráður og loðin lærdómsstig, og geta þannig orðið beinlínis hættulegir fyrir samfélagið. Þeir fá völd sem þeir eru ekki menn til að fara með og geta þannig valdið miklum skakkaföllum og þurfa þó sjaldnast að bera nokkra ábyrgð þegar illa fer. Þegar asnaskapurinn sem veldur skaðanum kemur í dagsljósið, er nefnilega fyrsta spurningin : Hver réði þennan asna ?

Þá berast böndin að öðrum og hvar endar það ? Af þeirri ástæðu hefur kerfið  jafnan kosið að vernda sína asna og samtryggja asnaskapinn. Það fer þó senn hvað líður að verða óvinnandi verk þar sem menntuðum ösnum hraðfjölgar.

Það má heita að nú sé staðan sú,  að þar sem einn slíkur asni var fyrir hendi fyrir aldarfjórðungi séu tíu í dag og þó að menntakerfið reyni stöðugt að gera greni að eik eða ál að stáli, þá gengur það ekki og mun aldrei ganga því efniviðurinn leyfir það ekki.

Með öðrum orðum, það geta ekki allir orðið fræðingar og forsjármenn annarra.

Þegar asnar eru látnir fá forustuhlutverk út á menntun sem þeir hafa fengið með einhverjum framhjáhlaupum í skólakerfinu, er ekki sáð fyrir vænlegri útkomu. Og þegar menn sem almennt hafa verið taldir skynsamir láta leiðast af slíkum ösnum er full ástæða til að efast um skynsemi þeirra. Þjóðfélag sem er að fyllast af lærðum ösnum er því ekki á góðum vegi þegar litið er til framtíðar. Það nýtur kannski enn ávaxtanna af verkum fyrri kynslóðar, en stendur ekki að gæfulegri sáningu í eigin lífsverki.

Menntun er hverju þjóðfélagi eðlilega mikil nauðsyn, en sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á hana í seinni tíð hefur að sumu leyti verið skaðleg. Þjóðin þarf á fleirum að halda en langskólagengnu fólki og margt af því fólki sem í dag hefur skriðið með harmkvælum út úr þessu skólakerfi okkar hefur einfaldlega ekki þá andlegu burði sem ættu að liggja til grundvallar menntunarstigi þess.

Það gengur fram í hroka og sjálfsdýrkun sem sýnir hvað andlega hliðin er lítilfjörleg og gerir lítið annað en að vera hluti af hinum sístækkandi hópi hinna lærðu asna. Í þeim hópi virðist almenn dómgreind vera nokkuð sem kemur ákaflega lítið við sögu.

Ég á vissulega þá frómu framtíðarósk til handa þjóð minni, að hún megi verða sem mest laus við lærða asna og þeirra forsagnir, og fari jafnan sem mest eftir því sem er í takt við almenna skynsemi.

Hinsvegar verður að segjast eins og er, að flest virðist benda til þess að ferli mála sé og komi áfram til með að verða alveg öfugt við þessa frómu ósk.

Ég óttast því að komandi tímar eigi eftir að verða býsna asnalegir !

 

 

 


SÚLUDANS Í VIÐEY ?

Mér skilst að það eigi að fara að reisa friðarsúlu í Viðey samkvæmt sérstakri beiðni frá Yoko Ono. Einn af merkari sögustöðum okkar er þar notaður til að auglýsa kúltúrsnobb af versta tagi !

Af hverju af versta tagi ? Jú, þegar fræga fólkið er að nudda sér utan í heimsfriðarmál í sjálfsupphafningarskyni, til að fá viðurkenningar og Sir eða Lady fyrir framan nafnið sitt, er um að ræða kúltúrsnobb af versta tagi.

Að mínu áliti er Yoko Ono á margan hátt dæmigerð hvað þetta snertir. Hún verður að minnsta kosti seint í mínum augum einhver Móðir Theresa eða viðlíka boðberi fórnfýsi og náungakærleika á þessari jörð.

Hún er aðeins ein manneskja af mörgum sem hafa of mikla peninga milli handanna og notar þá til að skapa list og menningu á Yoko Onískan hátt, líklega til að minna fólk á það hvað hún er nú einstök, ef menn skyldu nú ætla að gleyma því.

Þessi friðarsúla ætti auðvitað aldrei að rísa út í Viðey og mér er sem ég sjái svipinn á Skúla fógeta yfir því bruðli sem þarna er á ferðinni. Hann hefði trúlega séð aðrar forsendur til að nýta aurana sem eiga að fara í þessa vitleysu.

Hefði ekki verið nær að nota fjármunina í þágu landsins barna eða heimsins barna öllu heldur ?

Og þó að við gerðum því nú skóna, þar fyrir utan, að það hefði einhvern raunhæfan tilgang að reisa slíka súlu, ætti hún þá ekki fremur að rísa í Bagdad, þar sem nú er einna mest þörfin á að minna menn á gildi friðarins ? Við þurfum ekki að láta minna okkur á frið í Viðey - hann er fyrir hendi þar og hefur lengi verið.

En Yoko Ono vill auðvitað ekki reisa dýrmætu friðarsúluna sína á stað þar sem hún gæti verið sprengd í tætlur eða eyðilögð með einhverjum öðrum hætti.

Hún þarf náttúrulega að vera þar sem hún fær að standa um langan aldur sem skínandi vitnisburður um blessaða friðarkonuna sem lét reisa hana.

Til eru þeir sem hafa mjög ólíkt mat á dauðum hlutum og lifandi fólki. Og þar eru dauðu hlutirnir svo langtum dýrmætari - að því er virðist.

Skítt með mannfólkið þó það fari í ótal pörtum út um allt í sprengingum hér og þar, ef menningarlegir dýrgripir verða bara ekki fyrir hnjaski.

" Það er alltaf hægt að fá nýtt fólk ", sagði forstjórinn þegar fólkið sýktist af eitrun í verksmiðjunni forðum ! " Það er því nokkuð ljóst að friðarsúlu byggir enginn þar sem ófriðarástand ríkir. Það gæti leitt til þess að ómetanleg menningarverðmæti færu forgörðum.

Að hugsa sér ef táknræn friðarsúla af þessu tagi yrði sprengd í þúsund agnir vegna mannlegrar villimennsku.

Enginn almennilegur kúltúrsnobbari lætur sér náttúrulega detta í hug það ábyrgðarleysi að reisa friðarsúlu á ófriðarsvæði. Það segir sig sjálft.

Viðey er hinsvegar trúlega nógu langt frá Bagdad til að tryggja að hin Yoko Onísku menningarverðmæti geti átt sér langa framtíð.

Og framtakið á örugglega eftir að hlaða utan á sig og varla verður langt þangað til kúltúrsnobbararnir taka sig til og fara að auglýsa súludans í Viðey - í þágu heimsfriðarins !


ÍSLENSKA KÚLTÚRSNOBBIÐ

 


Því hefur löngum verið haldið fram að svokölluð menning hafi alltaf verið mikill gerandi í því að skapa velmegun meðal fólks. En það er nú enganveginn rétt að því er tekur til almennings. En það hafa alltaf verið til yfirstéttarklíkur og stórborgarar sem hafa haft tilhneigingar til að framleiða menningar-uppákomur af ýmsu tagi. Þær hafa hinsvegar yfirleitt verið gegnum-snobbaðar og lítt við hæfi venjulegs fólks. Þar hefur því ekki verið um menningu að ræða með sönnum hætti, heldur gervimenningu og hégóma sem aðeins hefur snúist um yfirborð og ekkert nema yfirborð.

Jónas heitinn Árnason rithöfundur segir margt gott í viðtalsbók sem gefin var út árið 1985. Hann vandar þar kúltúrsnobbinu ekki kveðjurnar og bendir á  misræmið milli þess og lífskjara fólks. Í þessari bók segir Jónas með spámannlegum orðum:

" Ég veit ekki hvenær ellilaun hér á landi komast upp í það að hætta að vera viðurstyggileg móðgun við gamalt fólk. Ég veit ekki heldur hvenær láglaunafólki verður tryggður sá dagvinnutaxti að það geti lifað mannsæmandi lífi. En mér sýnist ýmislegt benda til þess að löngu áður en til slíks komi, verði risið tónlistarhús á heimsmælikvarða í Reykjavík ".

Og  hvað höfum við fyrir augunum í dag. Menningarmafían er á reykvískum   rottuspretti eftir hégómanum svo það sem Jónas heitinn sagði fyrir rúmum 20 árum er að koma fram. Tónlistarhöllin sem er verið að byggja, verður aldrei fyrir almenning þessa lands, ekki frekar en synfónían þar sem miðar kosta um 5000 kr. á hverja tónleika. Þarna er aðeins á ferðinni dæmigerð framvinda menningar á gerviforsendum, sérverðlögð menning fyrir svokallaðra betri borgara, en fólkið, hinn breiði fjöldi, er ekki með. Venjulegt fólk hefur engin efni á bruðlinu sem gervimenningin útheimtir því hégóminn er dýr.

Stefán heitinn Jónsson sagði eitt sinn að " snobb væri yfirveguð leit eftir einhliða gyllingu ! "

Það er nokkuð beinskeytt lýsing.

En áfram heldur kúltúrsnobbið að vaxa og vera til, því hégómi er nokkuð sem mannskepnan virðist ætla að ala með sér alla tíð. Kúltúrsnobbarar eru sannnefndir hégómar hégómans. Það sést best á því hvað þeim þykir nauðsynlegast að gera.

Allt er sett í gang til að fá heimsfræga einstaklinga til að koma til Íslands á uppblásnar menningarhátíðir, til að syngja, spila og dansa eða láta bara sjá sig á kaffihúsum íslensku menningarborgarinnar. Og forstjórarnir sem hafa fitnað á arfleifð sambandsins sáluga eða á hliðstæðan hátt, borga tugmilljónir króna til að fá heimsfrægðar-listamenn til að koma og troða upp fyrir samkvæmishópinn.

Þvílík gervimennska, þvílíkt menningaröfugstreymi, þvílík eftiröpunardella !

Er hægt að komast lengra í andlegum aumingjadómi ?

 

 

 

 

 

 

 


EINSTAKLINGA -ÞJÓÐFÉLAGIÐ !

Eru Íslendingar þjóð ? Er í rauninni hægt að nota slíkt samheiti yfir jafn óstýrilátan og einþykkan söfnuð ? 

Er ekki full ástæða til þess, að við veltum því örlítið fyrir okkur hvernig við erum að standa okkur sem þjóð ef við verðskuldum þá að heita það ?

Sumir tala um að hér búi 300.000 einstaklingar sem flestir vilji sem minnst af öðrum vita þegar allt kemur til alls. Það viðhorf virðist víða fyrir hendi að kynni af fólki bjóði aðeins upp á vandræði. Sérstaklega er sú afstaða áberandi í óðaþéttbýli höfuðborgartorfunnar. Þar getur fólk búið í sama stigaganginum í blokk árum saman án þess að hafa nokkur samskipti við granna sína þar.

Það hugsar sennilega með sér : " Ég ætla ekki að fara að venja eitthvað pakk á að leita til mín ! ". Já, framkoman getur verið þögul og fjandsamleg, fólk horfir ekki á hvert annað þegar það mætist á göngunum og byggir stöðugt upp veggi milli sín og annarra. Það telur sig trúlega vera að að verja sig með þessu atferli fyrir hugsanlegu áreiti.

Svo fer það kannski á mótmælafund gegn Ísrael og krefst þess að veggurinn sem þar hefur verið byggður verði rifinn niður. Hann sé ómanneskjulegt fyrirbæri og hindri eðlileg samskipti. En þar hafa menn þó verið að verja sig fyrir áþreifanlegu áreiti sem hefur kostað marga lífið. En þar fyrir utan leysa múrar milli fólks aldrei neinn vanda - en það gera hinsvegar samskipti ef þau eru byggð á þeim grunni að fólk geti talast við.

Einstaklingshyggjan er rík í Íslendingum og verst er að fylgja hennar er svo oft lítilsvirðing á félagslegum tengslum og sam-mannlegum gildum. Þeir sem frekast hafa misnotað félagslega aðstöðu eru oftast þeir sem vaða fram í oftrú á eigin rétti en traðka jafnframt á rétti annarra. Það gerir enginn maður sem er trúr félagslegum lausnum og hefur til að bera heilbrigða samfélagskennd.

Ég hef kynnt mér nokkuð atferli manna varðandi þessi mál og veit um allnokkur tilfelli þess að fólk sem vill rústa félagslegum kerfum, er oft allra frekast í að fá fyrirgreiðslu í gegnum þau. Það getur því ekki flokkast undir það að vera sjálfu sér samkvæmt. En þar kemur til þessi ofvaxna einstaklingshneigð sem er svo sjálfhverf að það er hiklaust brotið á rétti annarra. Sá sem einblínir með slíkum hætti á sinn rétt tekur bara ekki eftir því þegar hann valtar yfir aðra með yfirgangi og frekju.

Sumir eru þjóðarþegnar með réttu og hafa til að bera þá heildarhugsun sem skilur þá stöðu, en aðrir eru bara einstaklingar og ekkert nema einstaklingar. Þeir gerast kannski aðilar að þessu og hinu, en alltaf er hugsunin sú að hafa eitthvað upp úr hlutunum. Þeir líta á sig sem hluthafa í þjóðfélaginu og vilja stöðugt fá góðan arð út á sitt hlutabréf, hvernig svo sem markaðsstaðan er.

Þegar illa gengur vilja þeir fá óafturkræfan styrk frá samfélaginu en þegar vel gengur vilja þeir gleypa allan arðinn. Slíkir einstaklingar hafa svikið og hlunnfarið íslenskt þjóðfélag meira en nokkrir aðrir í áranna rás.

Viljum við hafa hér þjóðfélag 300.000 einstaklinga af slíkri gerð eða viljum við stefna áfram að því að reyna að vera ein þjóð sem stendur saman um félagslegt jafnrétti og réttlæti öllum til handa ?

Er það ekki knýjandi mál að hver og einn svari því fyrir sig ?


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband