Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
27.4.2008 | 17:14
Nokkur orð í fullri meiningu
En hvernig hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn hagað sér undanfarna daga og vikur - hún hefur komið fram í fjölmiðlum og talað gjaldmiðilinn okkar niður eins og hún hefur mögulega haft tunguna til !
Á hún ekki að verja krónuna, á hún ekki að tala hana upp, á hún ekki að vera ásamt ríkisstjórninni í heild handhafi þeirrar meginskyldu að halda uppi þeirri arfleifð Jóns Sigurðssonar, að tala með því sem íslenskt er ?
Af hverju var Jón Sigurðsson kallaður sómi Íslands, sverð og skjöldur ?
Af því hann varði íslenska þjóðarhagsmuni í einu og öllu. Hjarta hans var íslenskt en ekki danskt. Hann hefði aldrei getað borið Brussell-hjarta í brjósti eins og sumir virðast gera nú til dags í einhverri kæruleysisvímu gagnvart sjálfstæðismálum þjóðarinnar.
Er það íslenskt þjóðræknismál að tala sífellt um evruna sem lausn allra mála en óska krónunni okkar norður og niður ?
Utanríkisráðherra hæddist jafnvel að gjaldmiðlinum okkar í sjónvarpi fyrir skömmu og talaði um örkrónu eða eitthvað í þeim dúr. Fær hún borguð ráðherralaun fyrir svona niðurrifstal ?
Er það hennar hlutverk að telja landsfólkinu trú um að krónan okkar sé einskisvirði og það eigi bara að kasta henni og taka upp erlendan gjaldmiðil ?
Sér einhver Geir Haarde fyrir sér tala með þessum hætti ?
Ég veit ekki til þess að hann hafi talað annað í þessum efnum en það sem skyldan býður.
Ber utanríkisráðherra landsins ekki að verja sjálfstæði okkar á sama hátt og allt það sem við þurfum til að geta verið sjálfstæð þjóð, þar á meðal gjaldmiðilinn okkar ?
Hvað með fánann okkar ?
Þætti mönnum allt í lagi að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands færu að tala um hann sem dulu eða druslu og réttast væri að taka upp annan fána ?
Hvernig hugsa þeir ráðherrar um þjóðréttarmál Íslendinga og sjálfstæði okkar sem virðast alfarið vera með evru í hjartastað og horfa til Brussell eins og sumir horfa til himins ?
Sem utanríkisráðherra á Ingibjörg Sólrún að halda á hagsmunamálum þjóðarinnar og það gerir hún ekki með því að níða niður íslensku krónuna eins og hún hefur gert. Hún getur gert það á lokuðum fundum hjá Samfylkingunni en ekki þegar hún er í vinnu hjá okkur á ráðherrakaupi !
Það er grafalvarlegt mál, þegar ráðherra beitir sér með þessum hætti í fjölmiðlum og notar áhrifavald sitt til að grafa undan því sem honum ber skylda til að verja. Hverskonar ábyrgðarkennd býr eiginlega í manneskju sem hegðar sér svona ?
Það er áróðursstríð í gangi og vegið hart að gjaldmiðli okkar og þá fer manneskja sem á að vera í fylkingarbrjósti í okkar liði að tala þveröfugt við það sem henni er samkvæmt sínum starfsskyldum skylt að gera !
Er hægt að bera traust til slíkrar manneskju, er hægt að treysta á hollustu hennar gagnvart íslenskum þjóðarhagsmunum og íslensku sjálfstæði ?
Ég segi nei - ég vil ekki sjá ráðherra sem hegðar sér með þessum hætti .
Í mínum huga jafngildir svona framkoma svikum við íslenskan málstað.
Aldrei hef ég haft álit á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og tel hana hafa verið mjög ofmetna sem stjórnmálamann. Þessar umsagnir hennar að undanförnu í fjölmiðlum um íslensku krónuna styðja að mínu mati það álit mitt.
Guð forði okkur frá varnarmönnum af þessu tagi því slíkir eru náttúrulega verri en gagnslausir.
Í mínum huga hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrirgert stöðu sinni sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands og ætti raunar að segja af sér og myndi vafalaust verða að gera það, ef pólitíkin hér og árvekni hins almenna borgara væri með eðlilegum hætti.
Ég tel að verkstjórinn í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann, eigi í svona tilfelli að ítreka það við ráðherra sína, að muna fyrir hvað þeir eigi að standa og axla þá ábyrgð sem því fylgir með þeim hætti sem Jón Sigurðsson hefði trúlegast gert í þeirra sporum.
Ef ríkisstjórnin væri einhuga um slíkt ráðslag væri margt í betra fari en virðist nú um stundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook
23.4.2008 | 20:07
Siðferðileg utanríkismálastefna - eða ?
Í tvískiptum leiðara Mbl. 18. mars sl. var komið inn á býsna athyglisverða hluti. Fyrri hlutinn fjallaði um Kína og nágranna en seinni hlutinn um Ísrael og nágranna. Ég ætla í þessum pistli að fjalla um það sem sagt var um Kína og nágranna þess en læt seinni hlutann bíða betri tíma. Í umfjöllun sinni um Kína fór leiðarahöfundur Mbl. hörðum orðum um þetta stórríki austursins.
Hann sagði að Kína væri ríki sem kúgaði fólk ! Þar ríkti einræðisstjórn í nafni kommúnismans ! Og eins og í öðrum kommúnistaríkjum væri fólk kúgað í Kína ! Það nyti ekki frelsis ! Það nyti ekki skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis !
Já, sumum virðist ákaflega annt um frelsið - einkum þegar það hentar pólitískum markmiðum og hægt er að koma höggi á réttan aðila.
Við getum nú haldið ýmsu fram um kúgun og sviptingu frelsis hér og þar og það er eins og mig hálfminni að Mbl. hafi jafnan farið fáum orðum um ástandið í Chile á tímum Pinochets. Ég trúi því þó varla að það hafi beinlínis verið vegna þess hvað frelsisvöntunin í Suður-Ameríku hefur mikið tengst bandarískum áhrifum þar syðra, en óneitanlega virðist þó sem leiðarahöfundi Mbl. séu öllu hugstæðari frelsisskerðingarnar þarna austurfrá !
En svo kemur leiðarahöfundur auðvitað að meintri kúgun Kínverja á Tíbetum, sem er sagður einn ljótasti bletturinn á okkar samtíma ! En samt hafi þessi kúgun farið býsna leynt og svo er sagt umbúðalaust að það sé vegna þess að það henti ekki hagsmunum Vesturlanda að styggja kínverska stórveldið !
Þetta er nokkuð merkileg niðurstaða í leiðara Mbl. Það hefur ekki tíðkast mikið þar á bæ að skamma " góðu gæjana " jafnvel þó þeir hafi verið staðnir að því að vera í vondum félagsskap og iðulega gera margt slæmt. Þessi leiðari flokkast því sennilega undir framfarasinnuð skrif !
En svo fara hugleiðingar leiðarahöfundar heldur versnandi að minni hyggju.
Þá er nefnilega farið að tala um Taiwan og þörf íbúanna þar á því að fá sjálfstæði. Síðan er farið ýmsum orðum um það mál og undrast að við Íslendingar skulum ekki vera tilbúnir að samþykkja sjálfstæði Taiwan og inntöku þess sem ríkis í SÞ. Varðandi það er auðvitað bent á Kosovo sem fordæmi og það á sem sagt að bæta einni vitleysu við aðra.
Nú er það svo, að það er ekki hægt að bera saman Tíbet og Taiwan í þessu sambandi. Tíbetar eru sérstök þjóð sem á sitt sérstaka land, þó það sé hernumið eins og sakir standa.
Ég hef aldrei getað skilið hversvegna Kínverjar fóru að hernema Tíbet og tel að þeir hafi haft lítið upp úr því nema skaða og skömm.
En þegar við lítum á Taiwan er þar um að ræða land sem tilheyrt hefur Kína frá alda öðli. Japanska yfirtakan á eyjunni breytti engu um það.
Íbúar Taiwan eru og hafa að mestu verið kínverskir, svo aldrei hefur verið um að ræða í því tilfelli sérþjóð með sérstök landsréttindi.
Það er því ljóst að þó ríkisstjórnin í Peking hafi engin réttarfarsleg rök fyrir yfirráðum í Tíbet, hefur hún sitthvað að segja um yfirráð yfir Taiwan.
Þar er um að ræða kínverskt land, sem byggt er Kínverjum og aðskilnaður eyjarinnar frá meginlandinu skapaðist eingöngu af pólitískum ástæðum.
Ég fæ ekki séð að Pekingstjórnin muni undir nokkrum kringumstæðum gefa rétt sinn til Taiwans eftir. Taiwanstjórn Chiang-Kai-shek og eftirmanna hans var í fleiri ár viðurkennd innan SÞ sem fulltrúi kínversku þjóðarinnar - þó hún væri það ekki. Bandaríkin tryggðu þann yfirgang með ofurvaldi sínu.
Þá þótti fulltrúum svonefndra frjálsra ríkja eðlilegt að fjölmennasta ríki jarðarinnar ætti engan fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna og menn geta ímyndað sér hvað það bætti nú öryggið og friðinn í heiminum að halda Kína þar fyrir utan með bolabrögðum til fleiri ára.
En dettur leiðarahöfundi Mbl. og yfir höfuð einhverjum heilvita manni það í hug, að Taiwan geti fengið sjálfstæði og þannig sé hægt að ræna kínversku landi undan heimatorfunni ?
Það er að vísu bent á Kosovo sem dæmi um slíkt, en þó að vesturveldin hafi getað kúgað Serba með stríði og hervaldi og stolið af þeim landi, þá á ég nú eftir að sjá að þeir leiki sama leikinn gagnvart Kína.
Taiwan verður því sennilega aldrei sjálfstætt ríki og kínverska þjóðin verður varla nokkurntíma tveggja ríkja þjóð eins og Albanir hafa nú verið gerðir.
Að bera saman Tíbet og Taiwan í þessu sambandi er því ósanngjarnt gagnvart Tíbetum sem vissulega eru að berjast fyrir þeim sjálfstæðisréttindum sem af þeim voru tekin með hervaldi á sínum tíma.
Í lok umfjöllunar sinnar um þetta efni, kastar leiðarahöfundur Mbl. hinsvegar fram mjög góðri hugmynd, sem gengur út á það að við Íslendingar ættum að hefja nýja utanríkismálastefnu til vegs og virðingar, byggða á siðferðilegum grundvelli. Að gjöra rétt án tillits til hagsmuna !
Síðan segir leiðarahöfundur réttilega, " slík utanríkispólitík er hvergi rekin " !
Af hverju skyldi það nú vera ?
Ég vil reyndar ekki tala um pólitík í þessu sambandi, heldur um stefnu, en vissulega væri það stórt skref til góðrar áttar, að byggja samskipti okkar við aðrar þjóðir á því viðhorfi einu að framfylgja réttlæti á sönnum siðferðisgrundvelli.
En hræddur er ég um að siðferðilegur styrkur okkar Íslendinga sé ekki slíkur um þessar mundir, að stjórnvöld okkar hafi getu og vilja til að framfylgja því sem rétt er af þeirri einu ástæðu að það sé rétt !
Ég hygg því miður að þau muni áfram sem hingað til hafa fullan hug á því að halda okkur í hópi þeirra " staðföstu ríkja " sem hylla hagsmunapólitíkina umfram allt - að mestu án tillits til þess hvernig það fer með blessað réttlætið !
En ég vil þakka leiðarahöfundi Mbl. fyrir mjög merkilega hugmynd sem kemst trúlega í framkvæmd þegar mannlegur þroski leyfir það - segjum eftir svona 2000 ár héðan í frá !
19.4.2008 | 21:13
Alþjóðlega fjármálaríkið - Ísland - halló, halló !
Þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir og yfirlýstir fjármálasnillingar landsins komust út í takmarkalaust markaðsfrelsið, byrjaði nýr kapítuli í sögu þjóðarinnar. Alikálfarnir hlupu út í vorblíðuna og slettu rosalega úr klaufunum.
Hin fjármálalega útrás var hafin með glans og ekki skyldi lengur í neinu miða markhópinn við þessar þrjú hundruð þúsund kuldakræklur hérna uppi á klakanum. Hagfræðingar og verðbréfaspámenn, greiningarsérfræðingar og gróðaspírur af öllu tagi fóru á handahlaupum upp metorðastigana í bankakerfinu hver í kapp við annan.
Umræðan sem áður hafði að mestu tekið mið af litla Íslandi, fór nú að snúast um miklu stærri hluti. Menn ætluðu nefnilega að leggja heiminn að fótum sér !
Nú var líka farið að tala um milljarða þar sem áður var talað um milljónir.
Svo var farið að agnúast út í litla krónu og lítið hagkerfi og vöntun á betri spilaaðstöðu. Það væri geysilega aðkallandi þörf fyrir alþjóðlegan gjaldmiðil og miklu stærra hagkerfi svo svigrúm yrði fyrir ótakmarkaða hæfileika hinna íslensku fjármálasnillinga.
Óánægjan fór því brátt að krauma í fjármálaséníunum sem voru ekki lengi ánægð með að hafa fengið bankana okkar á pólitískri útsölu.
Það var fárast út í smáborgaraskapinn hér heima og nesjamennskuna, aumingjadóminn á öllum sviðum og talað um að menn ættu að tengja sig við nýja tíma, hugsa stórt og vera framsýnir.
Fjölmiðlar voru teknir í áróðursþjónustu hinna nýju viðhorfa og látnir pumpa í sífellu fréttum um hvað það gæti verið miklu betra að eiga fjármálalegt heimili við aðrar og betri aðstæður, t.d. í Brussell, og kaupa sína matarkörfu þar.
Það mátti segja að það væri stöðugt verið að hella óþjóðlegum viðhorfum yfir landslýðinn því eins og menn vita þekkir fjármagnið engin landamæri og allra síst útþenslufjármagn, fengið að láni hér og þar, en einkavæddir bankarnir voru í óða önn að fjárfesta erlendis með gunnfána útrásarmarkmiða við hún.
Og almenningur á Íslandi sem hafði til þessa verið sæmilega sáttur við þjóðlega stöðu sína, fór smám saman að trúa því að við ættum að hegða okkur eins og við hefðum ótakmarkaða vaxtarmöguleika í efnahagslegu tilliti.
Gömul ráðdeild hvarf á nokkrum árum og andi neysluhyggjunnar fór í hæðir með tilheyrandi eyðslu og vellystarfylleríi. Allskyns verslunarkort ýttu undir aukin útgjöld fólks og endalaus gylliboð runnu í stríðum straumum inn á borð neytenda.
Svona gekk það eiginlega ótrúlega lengi, en svo kom skyndilega dálítið bakslag í málin. Bankarnir sem höfðu talað fyrir framsýni og voru með heilan her á launum til að greina sérhvern vanda með góðum fyrirvara, stóðu allt í einu frammi fyrir því að væntingar þeirra voru ekki að skila sér.
Skyndileg dýfa á fjármálamörkuðum kom þeim í opna skjöldu og offjárfestingar hinnar hóflausu bjartsýni leiddu til erfiðrar rekstrarfjárstöðu og allt í einu var leikur alikálfanna að breytast í það að verða að martröð þjóðarinnar.
Byrjað var að tala með nýjum hætti, þingmenn úr hópi sjálfstæðismanna fóru að tala um að bjarga yrði bönkunum, og skyndilega fór fólk að átta sig á því að sérgæskuliðið vildi hafa ríkisábyrgð í bakhöndinni fyrir hin einkavæddu fjármálamusteri !
Það var nýbúið að gera kjarasamninga þar sem verðbólgugrýlan var óspart notuð á almenning, en fyrrnefndir þingmenn virtust telja að verðbólga væri ekki það versta, aðalmálið væri að bjarga bönkunum, þó almenningur yrði að axla kostnaðinn.
Sem sagt, búið er að gera marga meira en forríka í gegnum einkavæðingu bankanna, en þjóðin á að bera alla ábyrgð ef illa fer.
Svona var þetta með Flugleiðir, sótt um óafturkræfan styrk til ríkisins þegar illa áraði, en hluthöfum greiddur arður eftir veltuár.
Ólafur Þ. Stephensen skrifaði leiðara í 24 stundir 20. mars sl. um einkavæðingu og er það nokkuð skrautleg lesning. Hann talar þar um að markmið einkavæðingar eigi að vera auðstjórn almennings, en heldur illa hafi tekist til í ýmsu og nefnir hann t.d. sölu Símans. Þar hefðu menn getað alið einkavæðingunni óskabarn, en málum verið klúðrað !
Halló, halló, var málum klúðrað ? Var framkvæmdin ekki einmitt eins og að var stefnt - í raun og veru ?
Allt í þessu ferli gengur út á eitt, að færa eigur í almannaeign til séraðila - á tombóluverði. Þegar menn reyna að segja að ríkiseignir ( eignir almennings ) eigi að fara í einkavæðingu til þess að fólkið geti eignast þær, er um svo ótrúlega vitleysu að ræða í málflutningi að engu tali tekur.
Síminn átti t.d. að geta boðið upp á mun betri kjör eftir einkavæðinguna, en hefur einhver orðið var við þá kjarabót ?
Nei, það er aldrei stefnt að því að gera eitthvað fyrir almenning með einkavæðingu - það veit Ólafur Þ. Stephensen jafnvel og ég, og að gefa almenningi kost á að kaupa fyrir hundruðir milljóna eða milljarða eignir sem hann á í sameiginlegum potti fyrir, er íhaldsgálgabrandari af versta tagi.
Geir H. Haarde sagði í sjónvarpi nýlega vegna þotumálsins, að hann hefði ekki staðið þannig að málum á sínum ferli að fara illa með fjármuni almennings !
Ég er samt einmitt á því að það hafi hann og Sérhagsmunaflokkurinn hans gert undanfarin ár - meira en nokkru sinni áður.
Ragnar Önundarson segir í grein í Mbl. að bankarnir hafi verið reknir eins og óregluheimili og vandar þeim ekki kveðjurnar sem hafa haldið þannig á málum. Kona sem þekkir vel til í bankaheiminum sagði í sjónvarpi nýlega að allir þar hefðu verið svo hugfangnir af útrás og stækkun - að það mátti bara ekki tala um að fara varlega. Það var strax stimplað sem neikvæð hugsun og niðurrifstal eins og hjá Danskinum sem átti bara að vera svo öfundssjúkur vegna hinnar íslensku fjármálasnilldar.
Nei, það mun verða leitt í ljós, þó síðar verði, að kvótakerfið til sjávar og sveita, einkavæðingin á bönkunum, Símanum o.fl. hefur farið verr með lýðræði á Íslandi og almenningshagsmuni en nokkuð annað í allri lýðveldissögu þjóðar okkar.
Og aðalsökudólgurinn í þeim efnum er auðvitað stóri Sérhagsmunaflokkurinn og hækjan sem hann studdist við til óþurftarverkanna.
Það ber að hafa í huga þegar að reikningsskilunum kemur.
13.4.2008 | 17:38
Um gæskuverkin grósseranna
Fyrir nokkru las ég viðtal í blaði sem vakti mig virkilega til frekari skoðunar á vissum hlutum. Viðmælandinn var eiginkona eins af þeim mönnum sem eru í hópi hinna ríkustu hér á landi. Ég ætla ekki að ræða um það hvernig ríkidæmi hans er tilkomið, sem hefur þó sínar skuggahliðar að mínu mati, heldur segja frá því sem þessi aumingja kona lét út úr sér í þessu viðtali. Hún sagði að hún og eiginmaðurinn teldu það sjálfsagt, fyrst þau hefðu verið svo gæfusöm að eignast þennan auð, að láta sitthvað af hendi rakna - aftur til samfélagsins ?
Svo gekk efnið í þessu viðtali út á það, að þau hjónin væru að styrkja ýmis mál í annarri heimsálfu og væru fjarska góð við þarlent fólk. Allt var viðtalið í þessum dúr því ekki má nú gleyma að auglýsa velgjörðirnar !
En í hvaða samfélagi urðu auðæfi hjónanna til og hversvegna var ekkert spennandi við það að skila einhverju aftur inn í eigið samfélag ?
Er ekkert til á Íslandi sem auðkýfingar af þessu tagi, íslenskir oligarkar, sjá ástæðu til að færa til betri vegar ? Ég efast ekki um að í þessari heimsálfu þar sem umrædd hjón ætla að láta gott af sér leiða, og náttúrulega með kastljós fjölmiðlanna yfir sér, er ærin þörf á hjálpandi höndum, en konan talaði hinsvegar um að láta eitthvað af hendi aftur til samfélagsins, væntanlega þess samfélags sem skaffaði þeim fenginn !
Það hefur sannast á Íslandi að hérlendir menn sem hafa orðið stórríkir á einni nóttu í gegnum alikálfastefnu stjórnvalda, eru ekki hótinu skárri gagnvart þeim sem minna mega sín en stallbræður þeirra í öðrum löndum. En mikið er hinsvegar lagt upp úr því að búa til mannvænlega ímynd og reyna að viðhalda henni. Það er í stíl við það þegar John D. Rockefeller lét taka myndir af sér við að gefa börnum klink !
Muna menn eftir því þegar leitað var til almennings fyrir nokkrum árum eftir peningum í tiltekna söfnun vegna hungurs og neyðar út í heimi ?
Þá voru birtar myndir af forríku fólki með söfnunarbaukana á lofti, þar á meðal Björgólfi Guðmundssyni og Dorrit Moussajev !
Ég man hvað ég fékk mikið óbragð í munninn og ákvað á stundinni að koma ekki nálægt söfnun sem flaggaði slíkri hræsni.
Auðmannadýrkun er greinilega ekki minni hérlendis en víða annars staðar. Landssöfnun á Íslandi, til hjálpar þeim sem minna mega sín, er í mínum huga rekin á röngum forsendum, ef það á jafnframt að nota hana sem uppslátt fyrir fólk eins og fyrrgreindar persónur, og lýsa þeim sem einhverjum sérstökum vinum lítilmagnanna. Auðkýfingar þessa heims hafa allflestir - fyrst og fremst - auðgast vegna arðráns sem er beinlínis ástæðan fyrir því að svo margir bera svo lítið úr býtum sem raun ber vitni.
Og þegar auglýst er í botn hvað slíkir aðilar séu nú góðir að gefa til baka agnarögn af innkomunni - þá býst ég við að fleirum en mér verði óglatt !
Þó Björgólfur Guðmundsson sé sýndur á mynd í gönguskóm með söfnunarbauk á lofti og Dorrit Moussajev taki gamla reiðhjólið sitt fram til að hjóla fyrir smáfólkið, hreyfir það ekki hót við mér nema til að vekja ógeð mitt á tilgerðinni, falsinu og gervimennskunni.
Það er nefnilega sannfæring mín að auðmenn muni aldrei bæta samfélagsheild okkar á nokkurn hátt til almenningsheilla frekar en annar forréttindalýður fyrr og síðar.
Sagt er að blóðsugur hafi aðeins eina eðlishneigð - að sjúga blóð hvar sem í það næst !
6.4.2008 | 10:18
Frjálsar pælingar
Við lifum í síbreytilegum heimi. Það er víst og satt. Maðurinn fer í stöðuga hringi í fremdarsókn sinni og týnir jafnan einhverju úr pússi sínu þegar hann grípur ætlaðan ávinning upp af götu sinni. Í hálfa öld streðar hann kannski við að skapa félagsleg verðmæti til gagns fyrir heildarhag og þegar gæðin hafa verið framkölluð til fulls byrjar sérgæskan að heimta sitt. Næstu fimmtíu árin fara svo í gagnstæða tilburði þar til allt er komið á byrjunarreit baráttunnar aftur.
Alltaf er verið að sögn að byggja upp mannréttindi og tryggja frið og jafnstöðu manna um veröld alla, en myndir veruleikans benda samt í allt aðra átt.
Sameinuðu þjóðirnar hafa t.d. vanþróast eftir bestu væntingum valdamanna sem stofnun. Með þeim var komið upp alþjóðlegu leiksviði fyrir hvern þann skollaleik sem settur skyldi á fjalirnar í veröldinni. Þetta leiksvið er mjög þarflegt fyrir ráðamenn heimsins því það gerir flesta minni háttar aðila sem blandað geta sér í mál svo upptekna á kjaftaþingum, að stórveldin geta jafnan farið sínu fram.
Eftir að frjálshyggjan fór að vaða yfir alla félagslega hugsun hjá mannskepnunni, virðist sú skoðun hafa komist í nýgildi, að talsverður hluti mannkynsins ætti bara að búa í kofum um alla framtíð.
Engin ástæða væri til þess að stefna að því að hjálpa vanþróuðum þjóðum upp af kofastiginu eða yfirleitt vinna gegn fátækt og mismunun. En jafnframt var þeim áróðri beint að mönnum, að - þeir - ættu auðvitað ekki að búa í kofum heldur einhverjir aðrir !
Við áttum sem sagt alltaf að hafa einhvern annan á kofastiginu og telja það hið besta og eðlilegasta mál. Í takt við þessa heimsskoðun frjálshyggjunnar var svo ráðinn forstjóri fyrir S.Þ. sem hét nafni sem smellpassaði við línuna - Kofi Annan !
Og svo hafa árin liðið og frjálshyggjan og auðvaldsstefnan vaðið yfir allt og alla með útrás og áróðri peningaspilsins, hampandi yfirlýstum gulldrengjum í sigursælli gróðavímu. Og nú er svo komið að bankar og fjármagnsgreifar hafa læst klónum í nánast alla skapaða hluti sem félagshyggjan byggði upp fyrr á árum og sést það ekki hvað síst hér á landi.
Margt af því sem íslenska þjóðin eignaðist fyrir samvinnu allra hefur nú farið fyrir lítið í klær óþurftaraðila sem stjórnast af anda sem aldrei hefði átt að endurvekja og á ekki heima þar sem sagt er að mannréttindi og siðuð viðhorf eigi að ráða gangi mála.
Og nú hefur áherslum sjáanlega enn verið breytt hjá S.Þ. og nýr framkvæmdastjóri ber nafn sem hentar enn sterkari frjálshyggjutímum.
Ban-Ki Moon er prýðilegt nafn sem er vel til þess fallið að minna okkur á tök bankanna í nútímanum sem eru svo yfirgripsmikil að þau ná sjálfsagt til tunglsins og jafnvel lengra !
Og almenningur heimsins fer nú í æ meiri mæli að borga kostnaðinn við framfærslu yfirstéttanna - alveg eins og forðum, þegar aðallinn og klerkastéttin réðu öllu og enginn hafði enn heyrt talað um þriðju stétt hvað þá fjórðu stétt, né yfir höfuð verkalýðsfélög og vinstristefnu.
Og það er eins og fólk sé andlega sofandi og skilji ekki að það er stöðugt verið að reyta af því áunninn rétt - rétt sem vannst með 150 ára þrotlausri baráttu -.
Skilaboð nútímans eru að nálgast endurútgáfu frá gamalli tíð :
Þú skalt þræla langan dag og svo máttu húka með þínu hyski í þínum kofa, forréttindin tilheyra þeim sem auðinn eiga, bankaeigendum og tunglskins-tauhálsum peningatískunnar - hinum nýja aðli sem vígður virðist vera til sérstakrar musterisþjónustu við Mammon og Mólúk á dagatali sérgæskunnar.
Þarf ekki að fara að huga að endurfæðingu alvöru verkalýðshreyfingar í stað þess liðónýta og steindauða skriffinskukerfis sem kallað er verkalýðshreyfing í dag ?
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 22
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 591
- Frá upphafi: 365489
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)