Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
28.7.2009 | 21:05
Uppréttir viljum við standa
Að vera Íslendingur hefur verið Frónbúans fylgja allt frá því að forfeðurnir kvöddu Noreg og konungsvaldi var hafnað í fyrsta sinn. Að vera frjálst fólk á eigin ættjörð hefur alltaf átt rík ítök í hjarta Íslendinga og þjóðarsálin hefur ekki verið til sölu fyrir aðkeypt efni, þó fimmtu herdeildar menn hafi verið til hér sem víðar. En það hefur vissulega oft verið erfitt að vera Íslendingur.
Það hefur kostað sitt að halda reisn og þjóðlegum metnaði. Því neitar enginn maður. En hingað til hefur að mestu verið sátt um það, að þjóðin haldi fast í það fullveldi og það sjálfstæði sem vannst á ný eftir aldalanga áþján - og það fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.
1944 höfnuðu Íslendingar konungsvaldi aftur og kusu að búa eftirleiðis við lýðræðisfyrirkomulag. Þá voru nánast allir búnir að sjá hvers virði það var að fá að ráða eigin málum og hvílíkt þrautaferli gat fylgt því að þurfa að dansa eftir annarra pípu með alla hluti. Og þá þótti ekkert að því að menn væru þjóðlegir og töluðu um það að Íslendingar ættu að hlynna að sínum garði sem best.
Og framyfir 1970 héldu landsmenn sínum þjóðlegu einkennum og stefndu áfram í málum sínum sem þjóð. En þegar kom fram undir 1980 fóru að hrannast upp óveðursský á stjórnmálahimninum - einkum vegna þess að margnefnd frjálshyggjuófreskja var mætt til leiks. Félagsleg gildi voru úthrópuð á næstu árum og sérhyggjan byrjaði að undirbúa komu keisarans sem birtist síðan og settist að völdum 1991.
Samfara frjálshyggjunni var rekinn öflugur áróður fyrir því að fólk ætti að vera upplýst og víðsýnt, en í raun gekk sá áróður út á það að framhaldsmennta fólk hér til að vera óþjóðlegt. Milli menntaðs fólks og fortíðar í torfkofum var settur upp veggur sem rauf öll tengsl þar á milli. Í augum gráðufólksins sem innan tíðar varð svo gráðuga fólkið, var ekkert varið í það að vera Íslendingur og allt sem íslenskt var þótti menningarlega lítilvægt. Þetta fólk horfði hungruðum augum til Bretlands, Frakklands og Þýskalands í hámenningarlegri tilbeiðslu.
Þannig byrjaði Evrópusýkin að geisa meðal íslenskra menntamanna - fyrst og fremst á kostnað þjóðmenningarlegra gilda.
Áður höfðu menntamenn þjóðarinnar staðið fremst í víglínu fyrir slíkum gildum en nú fór allnokkur hluti þeirra að tilbiðja skurðgoð - í heimsmenningarlegum tilgangi - að sagt var. Íslensk þjóð var þá komin í þá óskemmtilegu stöðu að vera að mennta fólk, ekki til að vera þjóðlega varnarmenn gegn aðsækjandi niðurrifsöflum, heldur til að vera fimmta herdeild ásælins erlends valds.
Menntamusteri þjóðarinnar sem áður voru hennar sterkustu varnarvé, fóru í framhaldi af þessu að breyta um áherslur og nú er helst eins og engan Íslending með eðlilega tengingu við land og þjóð sé þar að finna.
Nýlega ræddi Guðni Ágústsson í grein í Mbl. um Gissur Þorvaldsson í höfði Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að Gissur Þorvaldsson og hans verk eigi miklu meiri samleið með því sem Guðni og hans félagar gerðu hér meðan þeir sátu að völdum. Gissur er að mínu mati, í því samhengi, ekki svo fjarri höfði Guðna, og sennilega ætti sá síðarnefndi að halda sig bak við eldavélina héðan af og láta aðra um umræðuna. Guðni sagði einnig í grein sinni að hann væri löngu búinn að fyrirgefa Gissuri það sem hann gerði, en það gerir enginn Íslendingur sem veit í raun hvað Gissur kallaði yfir þjóð sína með því að véla hana af eiginhagsmunaástæðum undir konungsvald.
Og ég fyrirgef heldur ekki Davíð, Geir, Halldóri, Valgerði og Guðna og þeirra fylgifiskum, ábyrgðarleysið sem þeir sýndu gagnvart íslenskum þjóðar málstað með því að þvæla okkur til stríðsþátttöku, viðhalda kvótasukkinu og stefna hér öllu til hruns með helmingaskipta-svínaríinu.
Annar maður ræddi nýlega í Mbl. um Evrópusambandsmál og vildi að menn væru ekki með sögulegar tengingar í því sambandi og allra síst við Jón Sigurðsson. Sennilega má af því þekkja hvar sá maður stendur.
Við skulum líta aðeins yfir söguna, þvert á hans ráðgjöf.
Hefði Jón Sigurðsson viljað ganga í Evrópusambandið ? Hefðu Fjölnismenn viljað það, Jón Eiríksson eða Skúli Magnússon ? Nei, ég hygg að þeir hefðu seint viljað það.
Við getum hinsvegar nokkurnveginn gefið okkur að Sturla Sighvatsson, Gissur Þorvaldsson og Þorgils skarði, Jón skráveifa og þeirra líkar hefðu gerst þjónustumenn konungserinda frá Brussel engu síður en frá Noregi.
Höfuð Gissurar er því víða til í okkar landi enn með sínar hugsanir og Jón skráveifa gengur um ljósum logum - en nú er hann bara orðinn hámenntaður og heimsmenningarlegur í þokkabót og ekki á dönskum skóm - heldur á skóm frá Brussel. Það vantar ekki gyllinguna á slíka fugla, sem flíka höfði Gissurar jarls í annan endann og Brussel-skóm í hinn.
Guð forði okkur frá öllum þeim sem vilja draga þjóðina í dýflissu ófrelsis og arðráns. Stöndum fast í gegn öllum slíkum hvar í flokki sem þeir standa.
Uppréttir Íslendingar viljum við vera áfram og lifa sem frjálsir menn.
26.7.2009 | 19:22
Skollaleikurinn kringum sjálfstæðið
Það er margt skrítið í veröldinni. Ekki síst íslenski Sjálfstæðisflokkurinn !
Um áramótin síðustu gerðist eiginlega kraftaverk í íslenskri pólitík - einn sérkennilegasti viðsnúningur sem þar hefur átt sér stað og er þá mikið sagt. Sjálfstæðisflokkurinn sem var búinn að ganga þannig um íslenskt þjóðarbú að fjárhagslegt sjálfstæði okkar var glatað, komst allt í einu að þeirri niðurstöðu að sjálfstæðið okkar væri dýrmætasta eign okkar og í raun algerlega ómetanlegt.
Þannig sannaðist hið fornkveðna : " að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur !"
Flokkurinn virtist sem sagt skyndilega átta sig á því hvar hin raunverulegu verðmæti lágu. En því miður átti kraftaverk þetta sér ekki stað fyrr en alikálfar flokksins og hækjuvalds hans voru búnir að hirða til eigin brúks nánast allt sem taldist til efnislegra verðmæta hjá ríki og þjóð !
Það verður því að segjast, að ljós þekkingarinnar hafi ekki runnið upp fyrir flokknum fyrr en í síðasta lagi. En sjálfstæðið varð allt í einu það eina sem skipti máli og jafnvel hinn nýi formaður, hinn nýi Bjarni Ben, virtist orðinn andvígur aðild að Evrópusambandinu, sem margir höfðu nú efað fram að því.
Á sínum tíma varð það illa ræmt þegar Sjálfstæðisflokkurinn afgreiddi hlutleysis stefnu íslenska lýðveldisins með því að hlutleysið yrði best varðveitt með því að fórna því. Það þótti einkennileg rökfræði.
En svo var hlutleysinu fórnað og flokkurinn hljóp inn í Nató og dró þjóðina þangað nauðuga með sér. Þá vildu Sjálfstæðismenn ekki heyra nefnda neina þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, enda vissu þeir að þá myndu þeir liggja í því.
Nú bregður svo við að flokkurinn splundrar fjárhagslegu sjálfstæði okkar og segist svo vilja verja það sama sjálfstæði með ráðum og dáð og heimtar þjóðaratkvæðagreiðslu um málin og það jafnvel tvöfalda..........!
Í 100 daga eftir bankahrun velti yfirstjórn flokksins því fyrir sér í ríkisstjórn hvernig ætti að fara að því að bjarga málunum, en ekkert kom út úr því. Það mátti nefnilega ekki snerta við alikálfunum.
Og nú er það spurningin hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun með þá stefnu að sjálfstæðinu verði best bjargað með því að fórna því og vilji í raun inn í ESB ?
Ekki kæmi það mér á óvart eftir allt það sem á undan er gengið.
Þegar örlög Íslands lágu í höndum alþingismanna nú fyrir skömmu, sat Þorgerður Katrín hjá. Sjálfur varaformaður Sjálfstæðisflokksins sat hjá !
Örlög Íslands komu Þorgerði Katrínu ekki við. Sama var að segja um Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hjá Vinstri grænum. Hún sat líka hjá !
Halda þessar þingkonur að þær hafi verið kosnar til þess að vera stikkfrí þegar á hólminn er komið ? Voru þær ekki kosnar til að taka afstöðu til mála og var þetta ekki stærsta málið ?
Má ekki halda því fram að þær manneskjur sem standa þannig að málum í örlagamálum þjóðar sinnar séu druslur og gungur ?
Það er sagt í Ritningunni að betra sé að vera kaldur en hálfvolgur. Það er líka sagt þar að ræða manna eigi að vera já eða nei. En Guðmundur Steingrímsson segir að ræða manna eigi að vera kannski, kannski, kannski !
Það er greinilegt að undir Samfylkingarslepjunni sem Guðmundur smurði áður á sig, hafa leynst hin ættlægu Framsóknargen, sem hafa svo brotist til valda í persónu hans þegar von um þingmannsstól var í augsýn.
En vegna þess að Guðmundur er enn undir áhrifum af Samfylkingar-slepjunni kaus hann að taka afstöðu með fyrri félögum. En það gerði hann áreiðanlega hvorki í anda föður síns né afa.
Að mínu mati er hver sá aumur þjóðfulltrúi á alþingi sem er opinn í báða enda og segir kannski, kannski, kannski !
Ég sé enga ástæðu til bjartsýni varðandi framhald mála, ef svo reynist að þjóðin hafi gefið rétta mynd af sjálfri sér með því þingi sem hún kaus yfir sig í vor !
23.7.2009 | 00:03
G - 8 - þefur !
Það fer alltaf viss titringur um marga, þegar leiðtogar og fulltrúar voldugustu iðnríkja heims, svonefndur G-8 hópur kemur saman til fundar. Það er nefnilega flestum ljóst, að þær ákvarðanir sem teknar eru af viðkomandi fulltrúum á þessum fundum, varða heiminn allan og lífsskilyrði jarðarbúa í nútíð og framtíð.
Það eru því fullar forsendur fyrir því, að öllum komi það við sem ákvarðað er á þessum fundum um þessi mál. Því verður heldur ekki neitað að mikil tortryggni ríkir í garð þeirra sem sitja þessa fundi og traust til þeirra er víðasthvar í lágmarki meðal venjulegs fólks.
Margt af því sem ríkin í G-8 hópnum hafa gert og gera eflaust enn, hefur nefnilega ekki verið sérlega vel til þess fallið að gera heiminn að vistvænni stað fyrir þá sem í honum búa. Margir telja að meðal umræddra ríkja séu mestu umhverfissóðar jarðarinnar og ólyktin af yfirgangs verkum þeirra gagnvart náttúrunni og eðlilegri hringrás lífsins, berist stöðugt með tilheyrandi skaða um heim allan. Það sem hefur t.d. verið sökkt í höfin á umliðnum áratugum af hættulegum úrgangsefnum af hálfu iðnríkjanna, er ærinn höfuðverkur með tilliti til framtíðar og þeirrar hættu sem stafað getur af vistkerfisbreytingum.
Fólk sem er andvígt sívaxandi hnattvæðingartilburðum og stöðugri samþjöppun valds, telur því gild rök fyrir því að G-8 hópurinn sé helsti málsvari slæmra hluta og eitt af því versta sem berst að vitum umhverfissinna er því G-8 þefur !
Því hefur verið með ýmsum hætti haldið að fólki undanfarin ár, að hnattvæðing og það að smala öllu fólki inn í ákveðin kerfi, sé eina rétta leiðin til paradísar á jörð. Þá geti allir orðið vinir í mannlífs skóginum mikla.
En það eru í orðsins fyllstu merkingu ljón á veginum í þeirri uppsetningu málanna. Það er nefnilega svo að þegar rándýrin eru búin að króa fórnarlömbin af, verður eftirleikurinn auðveldari. Þá er ekki vandgert að flá og fletta.
Við skulum aldrei vera svo græn að halda að það séu engin rándýr í skóginum og við skulum heldur ekki gleyma á hverju þau lifa.
Hnattvæðingartilburðir heimsauðvaldsins miða að því einu að koma fólki almennt í stöðu rakkans undir borðinu, sem gerir engar kröfur og þiggur það með sinni hundslegu undirgefni, að fleygt sé beini til hans öðru hverju.
Sú hugsun hefur lengi verið fyrir hendi innan auðhringanna að þurrka verði út ávinning lýðræðis og verkalýðsbaráttu liðinna áratuga með einum eða öðrum hætti. Vald fólksins er af slíkum aðilum talið þröskuldur í vegi fyrir aukinni einokun hinna stóru á auðlindum hnattarins. Verkalýður heimsins á að vera í hlutverki hins réttlausa rakka, að mati þeirra sem stunda og vilja stunda, í eigingjarnri græðgi sinni, rányrkju um alla jörð.
En þeir eru sem betur fer margir sem finna G-8-þefinn og eru staðráðnir í því að vera menn en ekki rakkar og berjast fyrir eðlilegum framgangi lífsins gegn öllum kaupmönnum dauðastefnunnar.
Jörðin er nefnilega sameign okkar allra, lífsrými mannkynsins !
Við þurfum því að standa vörð um allt það sem stuðlar að breyttri og betri hugsun viðvíkjandi náttúrunni og vistkerfinu og hlynna að jörðinni, móðurskipi lífs okkar í nútíðinni og þeirrar framtíðar sem á að tilheyra þeim sem koma á eftir okkur.
Höfum opið hjarta fyrir landinu okkar og þeim arfi sem börnin okkar eiga að taka við úr okkar höndum. Gerum hann sem mestan og bestan.
Við munum ávallt þurfa hreint loft og heilnæmt súrefni sem forsendu fyrir áframhaldi lífsins. Og framþróun lífsins segir að við sem lifum í dag munum lifa áfram í börnunum okkar og þau í sínum börnum, ef við búum þeim áframhaldandi skilyrði til lífs á þessari jörð.
Gleymum því heldur ekki að framtíðarheillin ræðst mikið af því sem við gerum í núinu. Við erum hlekkir í keðju kynslóðanna og sú keðja á að liggja upp á við en ekki niður.
Verum þess jafnan minnug að heilsuspillandi G-8-þefur getur aldrei komið í stað þess lífslofts sem er og mun áfram verða sameiginleg þörf okkar allra sem búum á hótel Jörð.
15.7.2009 | 21:26
Um fyrningarleiðina og fleira
Það hefur verið ótrúlegt að upplifa viðbrögð kvótagreifanna og fylgifiska þeirra við hugmyndum sem miða að því að vinda ofan af hinu illræmda misréttiskerfi, með fyrningarleið eða einhverjum slíkum valkostum.
Menn hafa bókstaflega umturnast og sumir sem eru gjörsamlega vanhæfir til að fjalla um málið, vegna þess að þeir eru margflæktir inn í það hagsmunalega, hafa farið hamförum gegn þessum sjónarmiðum, og þóst gera það á einhverjum réttlætisforsendum. Það er hinsvegar óravegur á milli kvótakerfisins og réttlætisins og engin samsvörun þar á milli.
Það er og hefur verið skýrt í lögum, að kvóta-aðallinn á ekki sjávar-auðlindina og hefur aldrei átt hana. En viðbrögð innankerfismanna sýna svo ekki verður um villst að þeir hafa litið svo á að auðlindin væri í raun þeirra eign. Svo lengi er búið að ala þessa ríkisómaga á auðlind þjóðarinnar að þeir eru ekkert nema heimtufrekjan og hrokinn. Enda má nú minna sjá og heyra !
Þarna hafa þeir setið í fullan aldarfjórðung í veislusalnum miðjum og hámað í sig vellystingarnar - á kostnað þjóðarinnar - fitað sig og sína, og svo þegar loks virðist komið að því að réttlætiskennd þjóðarinnar sé nóg boðið - og það þarf nú nokkuð til - þá verða þeir alveg vitlausir yfir því að það eigi að taka frá þeim spenann sem þeir hafa með áfergju sogið allan þennan tíma og það meira að segja blóðsogið í óseðjandi græðgi sinni !
Er hægt að hugsa sér meiri öfugsnúning í sálarlífi manna gagnvart réttlætiskennd og heilbrigðum siðalögmálum ?
Og svo koma fram áhrifamenn í þjóðmálum, úr flokkunum sem komu kvótakerfismisréttinu á, sem gefa yfirlýsingar sem eru svo siðvilltar að það tekur engu tali. Og til að kóróna skömmina, koma svo bæjarstjórar og sveitar-stjórnarmenn af landsbyggðinni, sem hefur nánast blætt út vegna kvótakerfisins, og fullyrða að allt fari í rúst ef fyrningarleiðin verði farin. Sjá mennirnir ekki enn allt það sem hefur verið sett í rúst með afleiðingum kvótakerfisins ?
Nei, því þeir virðast miklu frekar líta á sig sem tiltekna flokksmenn en ábyrga og föðurlandssinnaða þjóðarþegna.
Hvar eru heimaútgerðirnar í þorpum landsbyggðarinnar ? Menn hafa selt kvótann og síðan flatmagað í maurasænginni, meðan atvinnan sem allt mannlífið byggðist á hefur verið tekin burt eða er í dauðateygjunum heima fyrir. Sömu sögu er að segja í þeim efnum um landsbyggðina alla.
Hvar er atvinnuþróunin, hvar er nýsköpunin, hvar er það sem segir ungu fólki að hægt sé að lifa í þorpum landsbyggðarinnar í framtíðinni ?
Hvar er vongleðin sem logaði í brjóstum manna eftir l970, þegar hafist var handa um að byggja upp á landsbyggðinni ? Síðan þá hefur engin landsbyggðar-væn ríkisstjórn verið við völd á Íslandi ?
Allt hefur miðast við Reykjavík og þarfir suðvesturhornsins. Jafnvel í miðju efnahagslegu hruni þjóðarbúsins, er að finna einbeittan brotavilja hjá stjórnvöldum fyrir því að halda áfram byggingu tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn, sem á að verða ein menningarsnobbhöllin til og sennilega sú dýrasta. Er þessari þjóð alls ekki viðbjargandi ?
Eigum við virkilega skilið að þurfa að þola áfram allt það siðvillta forustufólk, sem hefur svo lengi fleytt rjómann ofan af öllu í samfélaginu til eigin þarfa, en virðist hvergi að gagni fyrir þjóðarheildina ?
Niður með bölvað kvótakerfið og misrétti þess, sem var upphafið að hruninu, og upp með þjóðlega endurreisnarhugsun !
12.7.2009 | 17:49
Pólitískur ólifnaður
Þegar svo er komið í einhverju landi, meðal einhverrar þjóðar, að pólitíkin virðist vera hætt að taka mið af siðrænum gildum, er virkilega vá fyrir dyrum.
Þá standa menn frammi fyrir því að stjórnmálaöfl þjóðfélagsins eru í raun að stunda pólitískan ólifnað, siðlaust athæfi sem getur ekki annað en komið í bakið á viðkomandi þjóð.
Það virðist margt benda til þess að við Íslendingar séum nú staddir mitt í óskemmtilegum veruleika af þessu tagi. Það er orðin býsna almenn skoðun eftir bankahrunið síðastliðið haust, að þjóðfélagskerfið sé svo til allt sundurgrafið af spillingu. Þar sé í raun engu lengur hægt að treysta !
Við vitum hvernig framkvæmdavald og löggjafarvald hafa hrunið í áliti á síðari tímum og nú virðist sem dómsvaldið og réttarkerfið sé komið í sömu stöðu. Margir segja það fullum fetum, að réttarkerfið sé orðið að fáránlegum sirkus-leikvelli fyrir lögfræðinga og hagsmunir venjulegs fólks séu þar hvergi tryggðir.
Þeim fjölgar stöðugt sem lýsa því yfir að þeir hafi enga trú lengur á kjörnum fulltrúum hinna þriggja meginstofna lýðræðis-skipulagsins.
Svo illa virðast leiðandi menn vera búnir að halda á málum fyrir þjóðina og það er afspyrnu vond niðurstaða. Yfirvöld sem eru ófær um að skapa sér virðingu vegna pólitísks ólifnaðar, geta aldrei fært hlutina í rétt og eðlilegt samhengi á ný.
Fólkið í landinu vill auðvitað geta átt sér heilbrigðar fyrirmyndir í þeim sem fremstir fara - en því virðist hreint ekki að heilsa.
Það hefur leitt til þess að þjóð sem var löghlýðin, vinnusöm og heiðarleg, virðist ekki lengur telja unnt að komast af í þessu þjóðfélagi með þær eigindir að veganesti. Það virðast því æ fleiri grípa til þeirra óyndisúrræða að beita andstæðum eigindum sér til framdráttar í lífsbaráttunni, sem dregur svo samfélagið meira og meira niður í svaðið.
" Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það ! "
Það er hver höndin upp á móti annarri á þingi og víðar, ekki síst núna þegar aðstæður ættu að krefjast þess að menn standi saman um heill þjóðarinnar. Þó að menn viti að staða mála sé slík, að neyðarástand ríki og lífsnauðsyn sé á samstöðu, er haldið áfram á fullu í skotgrafahernaði, meindýramálatilbúnaði og óþjóðlegri niðurrifsstarfsemi af hálfu stjórnmálaflokkanna, sem ættu að skammast sín fyrir slíkt framferði. Og spilling er enn varin og vernduð vegna pólitísks ólifnaðar.
Heilbrigt hugsunarferli, til uppbyggingar fyrir siðræna undirstöðu þjóðarinnar, virðist smám saman vera að fjara út, enda sýnist viðvarandi hugarfar fjölmargra að miklu leyti komið á algerar villugötur. Þar eru brestirnir orðnir meiri en nokkur maður ætti að geta sætt sig við.
Þegar rangsnúin hugsun er farin að stjórna þjóðfélaginu meira og minna er ekki von á góðu. Siðlaus undirstaða fær hvergi staðist til lengdar í samfélagslegu tilliti og við virðumst komin þar fram á brún hengiflugsins.
Staða mála hlýtur að vera þannig, þegar menn tala um spillingu sem skilar þeim peningalegum ávinningi, sem eitthvað sem sé allt í lagi, en fjalla svo um spillingu sem bitnar á þeim sem óþolandi ranglæti. Í þeirri afstöðu felast skýr skilaboð um að siðræn staða manna sé alls ekki eðlileg.
En fjöldi manns virðist geta litið á hlutina með þessum augum. Einkum hefur þetta komið skýrt í ljós þegar um skítpólitískar ákvarðanir hefur verið að ræða sem hafa hyglað sérútvöldum á kostnað heildarinnar. Í slíkum tilfellum hafa svo margir fitnað efnalega á ranglæti og mismunun - jafnvel til fleiri ára - að þeir virðast gjörsamlega ófærir um að þekkja muninn á réttu og röngu. Menn verja þá rangindin af öllum lífs og sálarkröftum en óskapast jafnframt yfir ýmsu öðru sem þeir kalla spillingu.
Þeir virðast þannig geta gengið um dags daglega með tvöfaldan siðamælikvarða sem mælir rangt í báðar áttir.
Og hinn pólitíski ólifnaður í stjórnunarmálum lands og þjóðar, sem tútnaði út við áralangt þenslubrjálæðið og græðgishyggjuna, ýtti undir þessi rangsnúnu viðhorf og átti sinn stóra þátt í því hruni sem hér varð.
Menn gleymdu gömlu góðu gildunum - gildunum sem koma alltaf aftur - gildunum sem aldrei glata inntaki sínu, gildunum sem alltaf eru sönn;
menn gleymdu því að traust er undirstaða allra mannlegra samskipta og í raun heilbrigðisvottorð þeirra.
Nú þarf að víkja af villuveginum og finna aftur gömlu göturnar, sem feður og mæður, afar og ömmur, gengu á undan okkur - í heiðarleika og réttlætistrú.
En skyldum við enn vera fær um það ?
1.7.2009 | 22:57
" Icesave "
Það gengur mikið á nú sem fyrr út af hinu illræmda Icesafe-máli og það er meira en skiljanlegt. Ekkert við það mál er ánægjulegt eða gott fyrir Íslendinga. Núverandi stjórnvöld eru þó vonandi að reyna að gera það sem hægt er til að leysa málið, en þeir sem sköpuðu vandamálið fara hinsvegar hamförum og segja : " Við borgum þetta ekki neitt !"
Ætli málið sé virkilega svo einfalt að hægt sé að afgreiða það með slíkum hætti ?
Af hverju létu sjálfstæðismenn það viðgangast að " Icesave " reikningarnir væru baktryggðir af íslenska ríkinu og þar með íslensku þjóðinni ? Var ekki Landsbankinn bankinn sem kom í þeirra hlut við skiptin á ránsfengnum á sínum tíma ? Áttu þeir ekki að gæta þess að þar væri allt í sómanum ?
Af hverju hamast Framsóknarmenn með þeim hætti sem þeir gera og formaðurinn alveg sérstaklega ? Væri ekki ráð fyrir hann að hugsa aðeins um öll skítamálin í kringum Kaupþing sem voru unnin og gerð á ábyrgð Framsóknarflokksins ? Hverskonar siðferði er það þegar aðilarnir sem ollu hruninu með ábyrgðarleysi sínu þykjast nú vera þjóðræknastir allra manna ? Hvernig kom Icesafe-málið til, hverjir voru heilarnir á bak við það dæmi í Landsbankanum ? Hverjir eru þar ábyrgir fyrst og fremst ?
Er það Björgólfur Guðmundsson eða eru það Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason ? Hvar og hvernig kom Edda Rós Karlsdóttir við sögu í því máli ? Af hverju fást ekki nein svör við þessum og þvílíkum spurningum ?
Má aldrei tala um persónulega ábyrgð fólks af þessu tagi ?
Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ganga fram með miklum hamagangi í þessu máli og virðast ekki vilja hugleiða þá staðreynd eitt andartak, að þetta eru afleiðingarnar af þeirra eigin verkum ?
Þeir sköpuðu vandamálið, þeir lögðu þessar byrðar á þjóðina en héldu víst að skuldadagar væru ekki til. Það virðist aldrei hafa verið hugsað til þeirrar hættu sem búin var til með þessu fyrir íslenska þjóðarbúið. Og nú segja fulltrúar þessara sömu afla, "við borgum ekki neitt / eða / við semjum bara aftur og þá um betri kjör !"
Halda þeir að íslenska þjóðin, komin í ruslflokkinn, geti fengið betri kjör en fyrirliggjandi samkomulag býður upp á, þegar búið er að rústa orðstír hennar gersamlega og ríkisbúið tæknilega séð gjaldþrota ? Halda þeir það í raun og veru ? Eða skyldu þeir kannski bara vera að halda uppi lýðskrumi í von um betri útkomu við næstu kosningar - ábyrgðarlausir sem fyrr !
Núverandi stjórnvöld eru að glíma við að moka yfirgengilegan skítahaug sem samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins bjó til á sínum þjóðarógæfuferli - það er alveg ljóst að sá haugur verður ekki hreinsaður burt nema með miklum fórnum - fórnum sem munu koma við alla þegna ríkisins.
Þær væntingar sem ýmsir kjósendur virðast hafa haft til Vinstri grænna eru því miður algjörlega óraunhæfar - það eru engar forsendur til þess að " redda öllu - einn, tveir, þrír !" Ef einhver heldur það, þá hlýtur sá hinn sami að vera heiladauður að þó nokkru leyti.
Við erum í djúpum skít, og það er virkilega illþolandi að sjá þá sem helltu þessum skít yfir okkur, fólkið í þessu landi, þykjast vera riddara réttlætisins í þessu hrikalega Icesave máli.
Þar standa þeir á leirfótum lyginnar.
Ætla þeir aldrei að læra að skammast sín og þegja ?
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 26
- Sl. sólarhring: 75
- Sl. viku: 595
- Frá upphafi: 365493
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 508
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)