Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Spjall um dýrkendur Davíðs og fleira

Það kom mér vissulega á óvart, að Davíð Oddsson skyldi gerður að ritstjóra Morgunblaðsins, jafnvel þótt það mætti svo sem teljast fyrirsjáanlegur leikur af hálfu Óskars Magnússonar, sem er áreiðanlega í þeim hópi manna sem kallast mega dýrkendur Davíðs.

Það hefur lengi verið ljóst og vitað mál, að það er tiltekinn hópur innan vébanda Sjálfstæðisflokksins sem dýrkar Davíð og hefur hann á stalli og sér ekkert og mun aldrei sjá neitt athugavert við framferði hans og feril. Þessi hópur er mjög áþekkur sértrúarsöfnuði upp á bandaríska vísu. Hann þarf að hafa sinn spámann, sinn andlega leiðtoga, sinn óskeikula forsjármann. Davíð Oddsson er og hefur verið þessi leiðtogi í augum þeirra sem fylla þennan hóp, og þótt Ísland færi forgörðum og  himinn og jörð að auki,  myndi ekkert geta breytt tilbeiðslunni á honum af hálfu þeirra sem hópi þessum tilheyra .

Óskar Magnússon mun vera sonur Magnúsar Óskarssonar borgarlögmanns, sem var áreiðanlega á sínum tíma afar harður sjálfstæðismaður. Hann skrifaði oft smápistla í Moggann hér á árum áður, sem sýndu ljóslega mjög flokkspólitíska, og að minni hyggju, einsýna afstöðu til þjóðmála

En Magnús gat svo sem líka verið glettinn og gamansamur maður þegar sá gállinn var á honum og því fannst manni gerlegt að fyrirgefa pólitíska einsýni hans, þótt hún kæmi manni oft ærið undarlega fyrir sjónir. En hvað sem um þá hluti væri frekar hægt að segja, þá virðist Magnúsi hafa tekist uppeldið á syninum bærilega, því þar er sannarlega skeggið skylt hökunni og viðhorfin í sama fari.

Varðandi pistla Magnúsar Óskarssonar vil ég líka segja það, að þeir koma stundum í huga minn þegar ég les hliðstæða pistla í Mbl. eftir Svein Andra Sveinsson. Sveinn virðist nefnilega skrifa út frá líku hugarfari og Magnús og að minni hyggju svipaðri einsýni til mála og virðast viðhorfin byggjast á því að flokksleg hollusta eigi að ríkja öllu ofar og líka þar sem ég myndi segja, að þjóðleg hollusta ætti fyrst og fremst að ráða.

En höldum áfram með smjörið eða öllu heldur smjörklípuna.

Davíð Oddsson sem var að flestra áliti kominn út úr pólitíkinni, er nú sem sagt orðinn ritstjóri Mbl. og það þýðir náttúrulega að hann er kominn inn í pólitíkina aftur. Það þýðir sennilega líka að Mbl. hefur snúið sér frá þeirri frjálslyndu stefnu sem það þóttist vera búið að taka upp og framvegis mun það eflaust þjóna með pólitískari og líklega flokkshollari hætti en það hefur gert lengi. Þröngsýnin mun vafalaust aukast og bláhandarleg vinnubrögð munu trúlega fara að sjást í vaxandi mæli. Umræðan mun þá jafnframt verða einsleitari í blaðinu og það mun færast í það horf að verða flokksmálgagn aftur. Ólíklegt er að rekstur blaðsins komi til með að standa betur undir sér þegar svo verður komið málum.

Auk Davíðs sest í ritstjórastól á blaðinu Haraldur Johannessen, sem er trúlega af ætt gamla Matthíasar Moggaritstjóra. Ég fæ ekki betur séð en hann sé nauðalíkur Matta svo það er engu líkara en sá gamli sé aftur kominn í djobbið, einhvernveginn erfðafræðilega uppfærður eins og Dolly forðum.

Það er hræðileg niðurstaða, ef það er engan veginn hægt að losna við svona grameðlur gengins tíma og fá eitthvað ferskt í staðinn. Það virðast bara koma fram uppfærð eintök af gömlu settunum sem tyggja gömlu slagorða lummurnar af engu minni áfergju en þau gerðu fyrir hálfum mannsaldri.

Er þetta virkilega tillag Mbl. til uppbyggingar Nýja Íslands, að gera Davíð Oddsson og Harald Johannessen að ritstjórum blaðsins ?

Svei því segi ég og auðvitað sagði ég blaðinu upp samstundis, þó ég komi til með að sakna vissra efnisþátta í því, en spurning er náttúrulega hvort þeir verði óbrenglaðir áfram, úr því að yfirstjórnin er orðin sú sem hún er.

Slæmur þótti Ólafur Thors afturgenginn, segir í þekktri vísu eftir Halldóru B. Björnsson, en það eru smámunir hjá því að sjá Davíð Oddsson aftur genginn fram á pólitíska sviðið og nú starfandi á Mogga og það sem ritstjóri.

Og ekki bætir það úr að nauðalíkur ættmaður gamla Mogga-Matta er líka sestur í stjórastól á blaðinu !

Það er sem sagt bert orðið og augljóst núna, að það hefur átt sér stað helblár flokkspólitískur samruni milli yfirstjórnar Moggans og hins fyrrgreinda sértrúar-safnaðar Sjálfstæðisflokksins og umskiptingurinn sem hefur orðið til við þessar innpólitísku samfarir er sjáanlega alfarið þess sinnis, að vilja halda af öllum kröftum í gamla Ísland. Sá blágotungur ætlar sér greinilega ekki að vera með í för, í því verkefni að byggja upp gagnsæja og gildisholla framtíð fyrir land og þjóð.

Ég hef satt best að segja enga trú á því að hinir nýju ritstjórar muni standa fyrir nokkru góðu í störfum sínum og tel reyndar að annar þeirra hafi þegar reynst þjóðinni hinn óþarfasti maður.

Ég get því hvorki óskað Davíð Oddssyni né Haraldi Johannessen gengis í þeim störfum sem þeir hafa tekið að sér við það fyrirbæri sem áður var oft kallað

 " blað allra landsmanna ", og vona bæði mín vegna og þjóðarinnar, að vera þeirra á ritstjórnarstólum hjá Morgunblaðinu verði sem allra, allra styst.


Heimssýn eða Evrópusýn ?

 

 

Því er iðulega beitt í áróðri af hálfu Evrópusambandssinna hérlendis, að þeir sem andvígir séu aðild að auðvaldsklúbbnum stóra í Brussel, séu þröngsýnir og aðhyllist einhver afgömul torfkofaviðhorf sem eigi ekki við í nútímanum.

Því er til að svara að þröngsýnin er þvert á móti bundin við Brussel-sinna, sem sjá ekki skóginn fyrir trjám fremur en heiminn fyrir Evrópu.

Það er því nokkuð hlægilegt að heyra þá tala um víðsýni sem hafa augun föst við skráargat skammsýninnar og einblína á Brusselklúbbinn sem lausn allra mála.

Evrópa er vissulega þýðingarmikill hluti af veröldinni en hún er enganveginn allur heimurinn. Og Evrópusambandið og Evrópa er heldur ekki eitt og hið sama. Annarsvegar erum við að tala um pólitíska valdasamsteypu sem er þannig upp byggð að hún getur ekki varað til langframa, og hinsvegar erum við að tala um heimsálfu sem á sér litríka sögu mikilla þjóðmenninga langt aftur í aldir.

Evrópusambandið sem slíkt hefur hinsvegar ekki verið neinn hvati að eflingu þjóðmenningarlegra gilda. Miðstýringarvaldið í Brussel vill helst steypa öllum þjóðum Evrópu í eitt mót þannig að meðfærilegra sé að deila og drottna.

Sá andi sem þar býr að baki er ekki nýr og hefur sýnt sig í ýmsum myndum gegnum aldirnar og aldrei skilað sér til góðs fyrir mannkynið.

En það er alltaf til nóg af fólki sem sækist nánast eftir því að falla fyrir blekkingum og það vantar heldur ekki þá manngerð í hjörðina sem lofsyngur Brussel báknið og heldur að þar sé verið að hanna himnaríki á jörð.

En það sem í valdi því felst sem Evrópusambandið hefur safnað að sér með allskonar pólitískum hrossakaupum og grímuklæddum yfirgangi, á undanförnum árum, er ekkert annað en það kúgunarinnihald sem við Íslendingar höfum alltaf viljað forðast. Við höfum bitra reynslu af erlendu valdi og þó að margir nú á tímum virðist halda að mannkynið sé orðið upplýstara og betra en það hafi nokkurntíma verið, vil ég leyfa mér að efast um að það sé rétt.

Því er ekki síður varasamt í dag að gangast undir erlent vald og það var hér áður fyrr. Undirrótin að ásælni annarra þjóða er alltaf hin sama - arðrán og kúgun þegar fram í sækir. Fyrst er boðið upp á sætan rétt - beitu sem ginið er við - svo koma klærnar í ljós þegar bráðin er orðin föst í netinu og þá er of seint að iðrast eigin skammsýni og heimsku.

Það virðist sem sumir telji sérstakt lag nú til að koma Íslandi inn í Evrópusambandsdilkinn, þar sem íslenska þjóðin hafi ekki náð vopnum sínum á ný, eftir að sofandi stjórnvöld létu gráðuga fjársýslumenn komast upp með alla hluti, sem svo leiddi til hruns og viðvarandi þjóðarógæfu.

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að einkennilega séu þeir menn innréttaðir til anda og sálar, sem virðast helst hugsa um það við slíkar aðstæður, að greiða þjóðlegu sjálfsforræði okkar banahögg.

 

( Greini var birt í dag í Mbl. 23.9.´09 )

 

 


Hugarfarsspilling frjálshyggjutímans

Meðal þess versta við hrunvaldandi veisluhöld frjálshyggjumannanna í samfélaginu, eru siðlægingaráhrifin alræmdu sem segja til sín nánast hvar sem er. Hinar gömlu dyggðir voru keyrðar á bak aftur og gert lítið úr þeim á allan hátt. Það sem áður var talið mönnum til gildis, svo sem heiðarleiki, nægjusemi og tillitssemi, var ekki hátt skrifað í útrásarfræðunum. Í stað heiðarleika kom það sem kallað var ótakmörkuð sjálfsbjargarviðleitni, í stað nægjusemi kom græðgi, í stað tillitsemi kom yfirgangur. " Valtaðu yfir aðra " var boðorð dagsins !

Og það leyndi sér ekki að siðferði manna lækkaði eftir því sem peningaeign þeirra óx. Enginn varð meiri persóna fyrir græðgina heldur þvert á móti.

Samfélagið tapaði jafnt og þétt eftir því sem samhjálpin minnkaði og náungakærleikurinn kólnaði innan þess. Og þeir sem næstir stóðu Mammon og tákni hans, gullkálfinum, réðu ferðinni og stefnan var stöðugt til ills.

Á undra skömmum tíma urðu gulldrengirnir og stuðningslið þeirra að siðleysingjum samfélagsins. Þeir gengu eins og Vandalar um fjármálakerfi þjóðarinnar og lugu og sugu út fjármagn á fölskum forsendum hvar sem þeir gátu því við komið. Hinir einkavæddu bankar urðu fullkomin Mammons musteri fyrir þeirra tilverknað. Þjóðin var í augum þeirra yfirdjöfla sem stjórnuðu dansinum, bara eitthvað fyrirbæri sem átti að arðræna og mergsjúga út í það óendanlega. Samviskuleysið og siðvillu-hugarfarið var yfirgengilegt.

Aldrei fyrr í sögu þessa lands höfðu menn lagst svo lágt. Það var ekki til vottur af samfélagslegri ábyrgðarkennd í hugsun hinna gráðugu gamma, sem léku sér með fjöregg þjóðarinnar í stanslausum leik óþokkabragðanna á markaði hinnar óheftu frjálshyggju. Mammon fitnaði án afláts og skrattanum var skemmt.

Siðleysingjarnir lögðu ríkiskerfið hreinlega undir sig og sína og þáverandi ríkisstjórnarflokkar létu það gott heita og sögðu ekki orð. Kannski hugsuðu einhverjir ráðherranna með sér eitthvað í takt við Lúðvík XV, varðandi framtíð ríkisins, " það lafir líklega meðan við erum í þessu !"

Ábyrgðarkennd þeirra sem báru ábyrgð á kerfinu var engin og þeir sem lögðu það undir sig voru eingöngu að hugsa um að fita sig á kostnað þjóðarinnar.

Hvaða orð nær betur yfir slíkar gjörðir en siðleysi - algjört siðleysi ?

En nú er spurningin, er þetta siðleysi komið til að vera ?

Ætlum við Íslendingar virkilega að sitja uppi með til framtíðar þessa illu og mannskemmandi eitrun í þjóðarsálinni ?

Getum við byggt eitthvað gott upp meðan við erum haldin af þeirri hugarfarsspillingu sem frjálshyggjan og fylgifiskar hennar grófu sem sitt einkavædda illgresi í íslensku þjóðarsálina ?

Ég er ekki í neinum vafa um að það verður að hreinsa andrúmsloftið í þjóðmálunum, það verður að skapa traust á ný og losna við hina pólitísku mengunarvalda út af þingi og út úr ríkiskerfinu, út úr málum hvar sem er. Hreinsuð og endurvakin þjóðarsál á að segja við þá það sama og Oliver Cromwell sagði forðum : " You have sat too long for any good you have been doing. Depart, I say, and let us have done with you. In the name of God, go" !

 

 


Hvað segir þjóðin..................?

Hvað segir þjóðin við þessu og hinu,

þolandi alls í landinu ?

Rekin í gegn af ranglætinu,

ráðvillt í flokkastandinu ?

 

Hvað segir þjóðin þreytt og svikin,

þrúguð af skuldasúpunni ?

Er hanarnir flykkjast á hefðarprikin

þó hún sé alveg á kúpunni ?

 

Hvað segir þjóðin um þjóðarhaginn

er þingsins geta í öllu deyr ?

Er hænurnar sækja í hana slaginn

og hegða sér jafnvel verr en þeir ?

 

Hvað segir þjóðin með þunga á herðum

við því sem frjálshyggjan kom af stað ?

Svo ranglæti byggt á reglugerðum

réttlætishugsun træði í svað ?

 

Hvað segir þjóðin í þrauta hrinu,

við þá sem settu hér allt í steik,

sjálfstæðismennina er sjálfstæðinu

sundruðu í græðginnar háskaleik ?

 

Hvað segir þjóðin sem þurfalingur,

þekkjandi engan bjargarvað ?

Frjálshyggjan varð henni vítahringur,

vill hún kannski ekki skilja það ?

 

Hvað segir þjóðin við þá sem standa

með þúsundföld hennar meðalkjör ?

Er ágúst er liðinn og lýður í vanda,

og lendandi hvergi í Bakkavör ?

 

Hvað segir þjóðin hin þreytta og smáa,

þrotin að kröftum, mædd og veik ?

Hræðist hún kannski að höndin bláa

hefji sig upp á nýjan leik ?

 

 


Greiningardeilda vísindin og gráðungakerfið

Flestir landsmenn vita að einkavæðing bankanna átti að gera Ísland að efnahagslegu stórveldi. Þannig töluðu frjálshyggjupostularnir í Sjálfstæðis-flokknum og þeir voru ekki í vafa um, að þegar " séníin þeirra " myndu fá svigrúm fyrir hæfileikana, myndi heimurinn falla fram og tilbiðja Ísland.

Margir gengust inn á þessa svikulu og síuppsettu tálmynd og fóru að trúa á goðin ! En þessar hugmyndir voru aldrei raunhæfar og beinlínis þjóðhættulegar eins og kom á daginn með skelfilegum afleiðingum.

Hin alræmda mynd af Geir Haarde og Valgerði Sverrisdóttur við að undirrita gjörninginn við Björgólfsfeðga ætti héreftir að hanga uppi á hverju íslensku heimili sem viðvörunarmerki undir forskriftinni " ALDREI AFTUR " !

Ógeðslegri mynd hefur varla verið tekin á seinni tímum - enda boðaði hún ekkert gott fyrir land og þjóð.

En nú skulum við athuga pínulítið hvernig þessir einkavæddu bankar störfuðu. Það voru settar á fót greiningardeildir til að sjá með góðum fyrirvara hverja hættu sem að steðjaði, svo hægt væri að bregðast við henni fljótt og örugglega. Hámenntað gráðufólk ( gráðungar ) í fjármálavísindum, var sett þar til starfa og ekki á neinum smálaunum. Edda Rós Karlsdóttir sem stjórnaði deildinni hjá Landsbankanum var með yfir 7 milljónir á mánuði og það er skrítið hvað starfsbræður hennar hjá Kaupþingi og Glitni voru lágt metnir miðað við hana, með rétt um 2,3 milljónir. En þetta var náttúrulega talið toppfólk innan fjármálablindgötugeirans.

En þegar þetta fólk kom í sjónvarpi í viðtal til að skýra út stöðu mála, var aldrei hægt að henda reiður á því sem það sagði. Það var sama hvort það var Edda Rós, Ásgeir Jónsson eða Ingólfur Bender.

Það voru alltaf hafðir uppi sömu frasarnir. " Við verðum að sjá hvað markaðurinn gerir ", " við verðum að bíða og sjá ", " Það er erfitt að spá í stöðuna eins og hún er núna " o.s.frv. o.s.frv........................ !

Fólkið virtist aldrei vita neitt hvað var að gerast. Það var í forustu fyrir varnar viðbragðadeildum bankanna, en virtist aldrei vita hvað var á seyði. Var virkilega verið að borga frá 2,3 upp í rúmar 7 milljónir á mánuði fyrir svona varðgæslu ? Svo kom hrunið, sem ekkert af þessu fólki sá fyrir og engar varnir voru settar við.

En eftir það er einmitt þetta fólk, þetta sama fólk, að flytja fyrirlestra, skrifa " lærðar greinar " og jafnvel " bækur " um hrunið, eins og t.d. Ásgeir Jónsson. Þá er allt ljóst og liggur þeim í augum uppi og enginn vandi fyrir þetta lið að teygja lopann með hagfræðilegum útskýringum og hvaðeina.

En eftir situr, að þegar þetta fólk var í lykilstöðum á hólmi fjármálanna, virtist það ekki vita neitt í sinn haus, varaði ekki við neinu og var alltaf að bíða eftir því að markaðurinn léti frá sér heyra !

Það var á háum launum til að sjá hlutina fyrir, svo hægt væri að bregðast við í tíma og byggja upp varnir. Það hafði allar mögulegar forsendur til að vega og meta málin, upplýsingar hvaðanæva að o.s.frv. En útkoman og eftirtekjan virðist sannarlega hafa orðið eitt stórt núll fyrir íslenska samfélagið. Toppfólkið var líklega ekkert toppfólk þegar allt kom til alls. Það stóð enganveginn undir væntingum þeirra sem treystu á getu þeirra og greiningarhæfni.

Það virðist hafa hirt sín háu laun út á verðleika sem voru ekki fyrir hendi eða reyndust allt of hátt metnir.

Þetta er nú eitt dæmið um þá vitleysu sem kemur upp þegar menntagráðurnar einar eru látnar ráða för, án nokkurrar samfylgdar reynslu og almennrar skynsemi !

Gunnar Tómasson hagfræðingur segir að það sé verið að reyna bjargráð sem séu engin bjargráð, því allra leiða sé leitað til að halda áfram að hygla þeim sem hyglað hefur verið undanfarin ár. Meðan ekki sé haldið á efnahagsmálum og peningastjórnun í landinu af neinu viti, sitji menn alltaf í sama feninu.

Það er ekki krónan sem er vandamálið. Það er meðferðin á krónunni eins og hún hefur verið, í höndum óhæfra manna sem allt of lengi hafa farið með þau mál til tjóns og skaða fyrir almenning þessa lands - þjóðina sem býr í þessu landi !

Árinni kennir illur ræðari. Krónan er og hefur verið verkfæri í höndum manna sem kunna ekki með hana að fara. Því þarf að linna.

Þjóðin sjálf - í heild sinni - er og á að vera besta greiningardeildin sem við höfum. Fyrir gullkálfsdans Davíðsáranna var til næg almenn skynsemi í þessu landi. Vekjum hana að nýju til vegs og virðingar og látum rök hennar ráða en ekki hálaunaheilabræðing gráðunganna.

Dekrið við sérfræðingana og sérgæðingana er búið að vera okkur nógu dýrt til þessa. Eltum ekki meira ólar við ábyrgðarlaust greiningarlið.

Við þurfum nýja þjóðarsýn, nýja hugsun til valda, hugsun sem tekur mið af þjóðarhagsmunum en ekki einkahagsmunum einhverra Bakkabræðra hér og þar.

 

 


Engin kreppa varðandi tónlistarhúsið !

Þó að það sé kreppa í landinu, þó að íslenska ríkið sé á hvínandi kúpunni, þó að niðurskurður á spítölum sé og verði hrikalegur áfram um ófyrirsjáanlega tíð, þá er haldið áfram að byggja fokdýra menningarsnobbhöll í Reykjavík !

Höfuðsnobbarinn að framtakinu er reyndar kominn út úr málinu vegna Icesave og annarra rúllettuleikja, en nógir virðast eftir til að keyra vitleysuna áfram.

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var mynd af Vladimir Azhkenazy skælbrosandi, þar sem hann segist dást að vilja fólksins í landinu við þessar aðstæður, að ætla sér að koma húsinu upp ?

Hvaða della er þetta í Azhkenazy, er hann kominn með elliglöp ?

Sú ákvörðun að halda áfram með þetta bannsetta hús er algjörlega tekin framhjá fólkinu í landinu. Reyndar eins og svo margt annað.

Lýðræði Íslands er nefnilega svo oft í skötulíki. Fagurlega talað um það, en framkvæmdin á því einstaklega ömurleg í flestum tilvikum.

Það er hinsvegar ekki undarlegt að Morgunblaðið flaggi Ashkenazy rétt eina ferðina. Hann var á dögum kalda stríðsins einn ástsælasti rússi veraldar í augum Moggamanna. Matthías gerði hann heimsfrægan á Íslandi og þreyttist aldrei á því að dásama þennan listamann sem hafði, að hans sögn, orðið svo mikill og stór, þrátt fyrir að vera á móti hinu ægilega sovétvaldi.

En eftir kalda stríðs tímabilið hefur einhvernveginn orðið miklu hljóðara um Ashkenazy og jafnvel spurning hvort hann sé enn heimsfrægur á Íslandi ?

En það er annars athyglisvert að hin rísandi snobbhöll í Reykjavík skuli ekki taka mið af einhverju þjóðlegu heiti ? Venjan er sú að kenna allt við þjóðina sem byggt er fyrir Reykvíkinga á kostnað þjóðarinnar, sbr. Þjóðleikhúsið, Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið  o.s.frv.

Af hverju skyldi húsið ekki hafa verið látið heita  Tónlistarhús þjóðarinnar ?

Kannski vegna þess að þetta hús á að vera fyrir tauhálsalýðinn í Reykjavík, yfirklassahyskið, en ekki fyrir almenning þessa lands. Það er ekki einu sinni byggt fyrir almenning í Reykjavík. Og það er nú svo, að jafnvel þeir sem halda að þeir séu miklir menn og menningarlega sinnaðir úti á landi, mælast ekki samkvæmishæfir í yfirstéttarpartíum í Reykjavík. Allt landsbyggðarpakkið upp til hópa, er víst í þeim rómversku rassveislum skilgreint sem ódannaður torfkofalýður - fussum fei !

Tónlistarhúsið er ekki fyrir þjóðina, það er byggt fyrir tíu prósenta topplýðinn !

Og það skal upp, þjóðin skal verða látin borga fyrir þetta bölvað hrokahýsi, hvað sem í skerst og hvernig sem málin fara. Heldur verður öll starfsemi lögð niður á spítölum og í heilbrigðiskerfinu, en að hróflað verði við hinni rísandi snobbhöll.

En það er kýrljóst, að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi byggingu þessa húss hefði kolfellt slík áform. Þessvegna var auðvitað farin hin ólýðræðislega leið til að ná markinu sem menningarelítan heimtaði og hinn Íslands heimsfrægi Ashkenazy segist vera þjóðinni þakklátur !!!

Fjandinn hirði þessa byggingu, segi ég, það er móðgun við þjóðina, að haldið sé áfram að ausa peningum í þetta elítumannvirki, þegar allt velferðarkerfið er í æpandi þörf fyrir fjármagn til að hlynna að illa stöddum manneskjum.

Fólki blæðir um allt land, en eins og Neró spilaði ótruflaður á fiðlu sína yfir brennandi Róm, halda stjórnvöld hér áfram að byggja þetta bruðlhýsi, eins og ekkert sé.

Það að koma almenningi til hjálpar er sjáanlega það síðasta sem íslensk yfirvöld munu gera, sama hvaða flaggi þau þykjast ganga undir. Íslensk kerfisspilling er nefnilega alls staðar, í öllum flokkum, og sýking hugarfars manna í stjórnkerfinu geigvænleg viðvarandi staðreynd.

Verða kannski framtíðardraumar ungs menntafólks hérlendis brátt bundnir því takmarki einu að verða spilltir embættismenn eins og Morgunblaðið segir raunina vera í Kína ?

Það er að miklu leyti búið að gera Ísland að afskræmingu þess sem það var !

Hvenær ætla menn að vitkast ?


" Málsvarar fólksins " ?

 

Athygli hefur vakið hvað ýmsir arkitektar frjálshyggjustefnunnar innan Sjálfstæðisflokksins hafa í seinni tíð reynt mikið til að koma fram sem " málsvarar fólksins ". Það er sama hvort í hlut á Bjarni Benediktsson, Pétur Blöndal, Kjartan Gunnarsson eða Hannes Hólmsteinn Gissurarson, já, eða sjálfur ofurgúrúinn Davíð Oddsson. Allir eru þeir að reyna með einum eða öðrum hætti að samsama sig fólkinu sem líður í dag fyrir pólitískar gjörðir þeirra. Mikið hefði það nú verið gott ef þeir hefðu sýnt slíka tilburði meðan þeir voru við völd, í stað þess að hafa það nánast eitt í sigtinu að hygla sérútvöldum.

Bjarni hefur nú komist að raun um að sjálfstæði landsins sé heilagt og dýrmætt, en því miður sá hann það ekki fyrr en eftir að flokkur hans hafði átt höfuðþáttinn í því að efnahagsmál okkar komust á erlenda gjörgæslu ; sem þýðir náttúrulega að við erum ekki lengur sjálfstæð eins og við vorum.

Pétur Blöndal talar mikið um vanda heimilanna og nauðsyn þess að leysa hann, en vandinn er að mestu tilkominn vegna þeirrar feigðarstefnu sem hann hefur alla tíð blóðsvarið sig til að standa fyrir. Og nú er svo komið, að Kjartan Gunnarsson, já, ég sagði Kjartan Gunnarsson, er farinn að skrifa miklar vandlætingargreinar í blaðið sitt um hvernig mokað sé úr skítnum sem flokkur hans skildi eftir sig og hann og félagar hans í Landsbankanum.

Sem betur fer tók Jón Baldvin Hannibalsson heldur betur í lurginn á honum og sýndi með fullum rökum fram á dæmalausa siðblindu varðandi umrædd mál. Fleiri hafa séð ástæðu til að benda á það hvað Kjartan er vanhæfur til að fjalla um þessi mál og er það vel. Hannes Hólmsteinn hefur mætt á Austurvelli til að reyna að standa þar sem maður meðal fólksins, en varð að forða sér inn í þinghúsið, því mótmælendur vildu víst enga óværu í sínum hópi.

Davíð hefur einnig reynt að taka sér viðlíka stöðu, en Sagan á eftir að greina ábyrgð hans varðandi einkavæðingu bankanna og fjölmargt annað sem gerðist á hans valdatíma og það er ætlun mín að þá verði fátt eftir af fyrri dýrðarljóma þessa mjög svo ofmetna leiðtoga.

Málsvarar fólksins - já, ef slíkir menn ætla sér að gerast málsvarar fólksins, þá er margt farið að ganga verulega öfugt fyrir sjónum manns. Við vitum hverjir þessir menn eru, þeir hafa allir tilheyrt þeirri valdaklíku sem jók hér mismunun meira en þekkst hefur, tók auðlindir þjóðarinnar hernámi og færði eignarhald þeirra yfir á sérgæðinga og braskara, kastaði fjöreggi sjálfstæðis og þjóðlegs öryggis í fúlan pytt, steypti afkomu þúsunda manna í vítahring böls og skulda og hjó niður undirstöður heimilanna í landinu.

Svo ætla þessir þjónar frjálshyggjunnar, hins blinda auðvalds græðginnar, allt í einu að fara að faðma að sér fólkið í einskærri umhyggju, þegar ófreskjan sem þeir sköpuðu er búin að rústa öllu mannlegu öryggi í landinu ?

Nei, málsvarar fólksins geta slíkir menn aldrei orðið. Þeir eru úlfar í sauðargæru og verðskulda ekkert traust - aðeins ískalda, rammíslenska fyrirlitningu alþjóðar.

Látum ekki glepjast af ósannindavaðli þeirra og falsáróðri. Það voru þeir sem  ollu hruninu, það voru þeir sem sýndu ábyrgðarleysið mikla sem leiddi til þess að baráttu kynslóðanna var stefnt hér í algeran voða.

Vigdís Hauksdóttir þingkona hins nýja, engilhreina Framsóknarflokks, talaði fyrir nokkru um föðurlandssvikara........ hvað skyldi henni finnast um forvera sína, Framsóknarmennina, sem tryggðu Sjálfstæðismönnum meirihluta á þingi til að vinna með stefnu sinni þau þjóðarspjöll sem unnin hafa verið ?

Skyldi hún eitthvað hugsa um þá hluti ? Nei, sennilega ekki mikið, það er auðvitað of hvimleitt og ergjandi að vera að spá í það.

Kannski telur hún sig bara starfa undir nýrri kennitölu í dag og pólitísk ábyrgð Framsóknarmanna sé orðin hrein og tær og fögur.

En froðubað sýndarmennskunnar þvær ekki burtu vesaldóm Framsóknarmanna, sem lágu hundflatir fyrir fótum Davíðs keisara og hjálpuðu honum hver um annan þveran við að brjóta niður stoðir félagshyggju og jöfnuðar í samfélaginu, svo að Ísland varð á fáum árum undir þeirra stjórn að velferðarríki andskotans !

Velferðin var nefnilega smátt og smátt einokuð af auðmönnum á kostnað þjóðarinnar, eins og uppsetning kvótakerfisins spáði fyrir um.

Forusta Sjálfstæðisflokksins er sennilega í nokkurri tilvistarkreppu þessa stundina. Flokkurinn hefur verið svo lengi við völd, að hann hefur ekki enn höndlað lýðræðislegt hlutverk sitt sem stjórnarandstöðuflokkur. Forustan er eins og fyrrverandi stjórn í VR, telur sýnilega að eignarréttur þeirra á völdunum sé og eigi að vera viðurkenndur - hefðin mæli með því.

En þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi dregið þessa þjóð nokkuð lengi á asnaeyrum og talið henni trú um að einkavæðing væri af hinu góða, mun þó enn nokkuð langt í land með að flokknum takist að einkavæða völdin og lýðræðið í landinu.

Ég, fyrir mitt leyti, gæti þó alveg trúað þeim sem þar fara með ráðin, til að stefna að slíkum markmiðum, eftir það sem á undan er gengið.

Kannski á þjóðin enga raunverulega málsvara lengur í þessu auma liði sem nú situr á þingi og virðist sanna þar getuleysi sitt á hverjum degi, en séu þeir einhverjir, þá er þeirra áreiðanlega ekki að leita í þingliði Sjálfstæðismanna, það eitt er víst og satt.


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 138
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 707
  • Frá upphafi: 365605

Annað

  • Innlit í dag: 134
  • Innlit sl. viku: 619
  • Gestir í dag: 134
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband