Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Tvennskonar sjálfstæðisflokksmenn" !

Það er oft mjög fróðlegt að heyra hvernig menn halda á málum. Þá koma stundum óvænt fram viðhorf sem innra fyrir búa án þess að þau hafi verið viðkomandi einstaklingi og öðrum ljós. Þá fer allt í einu að glytta í eitthvað sem virðist vera til hugarhúsa á alröngum stað. Þetta hef ég sérstaklega reynt hjá ýmsum mönnum sem seint mundu vilja telja sig heimilisfasta hjá sjálfstæðisflokknum svonefnda (  ég skrifa nafn þessa flokks af ásettu ráði með litlum staf, hann á ekki meira skilið !), en eru í raun að innréttingu og hugarfari hluti af fylgdarliði þess flokks !

Það er nefnilega svo að harðsoðin einstaklingshyggja, nokkuð sem gerir menn svo til ónæma fyrir félagshyggju og samfélagskennd, er til býsna víða, þó hana sé yfirleitt frekast að finna hjá flokksbundnum sjálfstæðisflokksmönnum. En svo eru það þessir óflokksbundnu „sjálfstæðisflokksmenn" sem margir hverjir virðast lítt sáttir við sjálfstæðisflokkinn en eiga það þó sameiginlegt með flokksmönnum þar, að horfa á býsna mörg mikilvæg þjóðfélagsmál nákvæmlega á sama hátt og þeir !

Ég hef alla tíð verið í fullkominni andstöðu við sjálfstæðisflokkinn og þann anda sem þar býr að baki hlutunum og hef aldrei sparað að láta það í ljós. Sá andi er að mínu mati fullur af sérgæsku og eigingirni. En af tvennu illu vil ég heldur fást við flokksbundna fyrirbærið en það óflokksbundna. Þeir sem flokksbundnir eru vita þó að þeir eru í flokknum og vita líka upp á sig skömmina sumir hverjir þegar deilt er á þá fyrir ódáðir flokksins, en hinir óflokksbundnu telja sig hvergi til húsa í pólitískum skilningi og þykjast því lausir allra mála, en tala samt í raun út frá sömu forsendum og geta verið öllu viðsjárverðari fyrir vikið.

Svo eru náttúrulega til menn í flokkum þeim sem kenna sig við Framsókn og Samfylkingu sem eru ekkert nema sjálfstæðisflokksmenn að innviðum til, og hugsanlega mætti jafnvel finna einstaka slíka hjá Vinstri grænum ef vel væri leitað, en þá erum við líklega komnir niður í svo takmarkað mannlegt atgervi að það tekur því ekki einu sinni að tala um það !

En það eru þessir óflokksbundnu sjálfstæðisflokksmenn sem hafa oft valdið mér talsverðum heilabrotum. Hvers vegna skyldu þeir ekki vera í stíunni sem þeir stjórnast greinilega af ? Ég hef tekið eftir því að þeir tala alltaf eins og þeir séu með einhvern rekstur og fjármálaumsvif og virðast skilja manna best erfiðleikana við slíkt. Hugmyndafræðileg verkalýðshugsun er þeim hinsvegar fjarlægari en flest annað og það er eins og þeir hafi aldrei meðtekið það hlutverk sem þeir hafa þó velflestir á hendi - að vera réttir og sléttir launþegar !

Það er líka athyglisvert að þeir sem þeir dást mest að, virðast yfirleitt vera þeir sem hafa komist áfram í heiminum, eins og það er kallað, eru ríkir og kaupglaðir, standa í stórum viðskiptum og virðast hafa úr nógu að spila. Það virðist ekki skipta neinu máli eða bregða nokkrum skugga á aðdáunina, þó að talið sé að sori og óhreinleiki sé til staðar í lífi viðkomandi „stórmenna" ! Eftir virðist sitja að berlusconar viðskiptalífs og veraldarumsvifa séu glæstar fyrirmyndir í hugarheimi utanflokks sjálfstæðisflokksmanna og það engu síður en þeirra sem ganga með flokksskírteinið upp á vasann. Að hugarfari til virðist afstöðumunur þar sannarlega lítill sem enginn og eðlishneigðir vera hallar undir nákvæmlega það sama.

Maðurinn er óneitanlega nokkuð margbrotið fyrirbæri. Sumir menn geta þannig verið að berjast mestan hluta ævi sinnar gegn því sem þeir sjálfir eru í raun og veru. Þeir virðast aldrei hugleiða það með sjálfum sér hvar þeir raunverulega standa og vanþekking þeirra á eigin eðlishneigðum getur og hefur oft sett þá þar sem síst skyldi. Og þá koma þeir náttúrulega upp um sig með því að tala þveröfugt við það sem búist er við af þeim. Það er samfélagslega vont að mínu áliti að menn skuli yfir höfuð vera sjálfstæðisflokksmenn, en verra finnst mér þó að sumir skuli vera það án þess að vita af því sjálfir !

Þeir sem tilheyra þannig flokknum hugarfarslega en eru ekki í honum, eru nefnilega enn ólíklegri en hinir til að fá samviskubit, þó það mannlega einkenni að fá samviskubit, sé að mínu mati samt sem áður afar sjaldgæft meðal sjálfstæðis-flokksmanna. Það er meðal annars vegna þess að þeir hafa löngum haft innmúraða, sjálfsefjandi sannfæringu fyrir því að þeir hafi aldrei gert neitt af sér - nema gott !

 

 


Verðtrygging vítisafla !

Það er athyglisvert hvað hlutirnir virðast geta gengið liðlega fyrir sig í kerfinu þegar á að níðast á fólki. Þannig rann verðtryggingin í gegn á sínum tíma eins og ekkert væri sjálfsagðara, þó að eðlileg réttlætiskennd hefði átt að mótmæla hástöfum. En þar var náttúrulega um að ræða mál sem leitt var framhjá allri réttlætiskennd eins og svo mörg önnur, þegar brotið er á almannahag til hagsbóta fyrir sérgæskuaðalinn í þessu landi.

Stundum er staðið þannig að samfélagsmálum að það er eins og vítisöfl séu þar að verki. Ranglætið er svo yfirgengilegt og svívirðan og samviskuleysið með svo miklum ólíkindum. Verðtryggingin eins og hún var hugsuð, hefði því frekar getað átt upphaf sitt í heila útsendara úr neðra en venjulegum mannsheila, en það virðist stundum svo að skilin milli djöfuls og manns geti verið mjög óglögg og margir ali með sér hugsanir sem ekki er með nokkru móti hægt að skilgreina mannlegar sem slíkar !

Það er morgunljóst mál að á Íslandi er af almanna hálfu mikil eftirspurn eftir hæfum stjórnmálamönnum, en framboðið virðist sannarlega vera sárlega rýrt. Og það er orðið miklu erfiðara að átta sig á hinu pólitíska landslagi þegar menn tala eins og stjórnmálamenn temja sér - að því er virðist - yfir línuna í dag, að vera svo tækifærissinnaðir að þeir eru bókstaflega með opið á allt.

Stundum tala þeir sem hafa verið taldir vinstri menn og jafnvel róttækir sem slíkir alveg eins og forstokkaðir hægri menn, og stundum tala slíkir hægri menn eins og þeir séu róttækir vinstri menn ! Áður var þó hægt að greina á milli og stundum voru til menn sem virtust eiga sér einhvern málstað og höfðu tilhneigingu til að halda tryggð við hann, en nú virðist þetta pólitíska lið vera sama sullumbullið hvort sem litið er til hægri eða vinstri. Hvernig á fólk að átta sig á ólíkindatólum sem aldrei eru sjálfum sér samkvæm og bregðast alla daga við aðstæðum eins og vindhanar á húsmæni, sem snúast við minnsta andgust ?

Allt frá hruni hefur verið mikið talað um að persónugera ekki hlutina þegar fjallað er um pólitískar misgerðir og annað slíkt sem greinilega hefur átt sér stað í þeim efri hluta þjóðfélagsins sem mætti víst kalla „hinn ósakhæfa geira" ! Það virðist vera þar mikil tilhneiging til að búa svo um hnútana að samkvæmt lögum verði pólitísk ábyrgð ekki til í raun. Geir Haarde sagði rétt eftir hrunið sem alræmt var „ að menn ættu ekki að vera að persónugera hlutina" og fyrir nokkru talaði Katrín Jakobsdóttir fjálglega um að menn ættu að temja sér að fara í boltann en ekki manninn ! En spakmælið segir „ vandi fylgir vegsemd hverri „ og í þeim skilningi þýðir orðið vandi sama og ábyrgð !

Af hverju talar þetta fólk svona, að því er virðist jafnt til hægri og vinstri ? Er það að reyna að tryggja það að það verði aldrei neinn stjórnmálamaður sóttur til saka fyrir meintar misgerðir gagnvart þjóð og þjóðarhagsmunum ? Við skulum nefnilega gera okkur grein fyrir því að stjórnmálamenn hafa völd og sumir hreint ekki svo lítil völd. Misbeiting á slíku valdi getur valdið fjölda fólks ómældum skaða, eins og dæmin sanna. Á ekki að vera hægt að sækja menn til saka fyrir slíkt ?

Til hvers er verið að lögsækja venjulega borgara sem brjóta af sér fyrir afbrot allan ársins hring, ef það á bara að skella skuldinni á einhverjar aðstæður en ekki manninn sjálfan ?  Á persónulega ábyrgðin kannski að vera meiri þar, þó að afbrotin séu oft ekki stór að vöxtum, og hreint ekki líkleg til að valda efnahagslegu hruni heillar þjóðar ? 

Það er oft talað um að kjósendur hafi aðeins skammtímaminni. Og líklega má færa nokkuð sterk rök fyrir því að svo sé. Að minnsta kosti er ljóst að stjórnmálamenn og reyndar einnig aðrir valdamenn þjóðfélagsins tala oft eins og þeir gangi út frá því að borgarar landsins muni ekkert stundinni lengur. Muna menn ekki eftir því sem sagt var um Gugguna forðum daga, að hún yrði áfram gul og gerð út frá Ísafirði ? Gildi þeirrar yfirlýsingar stóð ekki lengi og sá sem hana gaf er sagður hafa sagt ergilegur í meira lagi síðar: „ Hvað eru menn að velta sér yfir því sem ég sagði fyrir sex mánuðum ?

Ég minnist þess líka hvað núverandi heilbrigðismálaráðherra var oft galvaskur í ræðu um heilbrigðismálin í tíð fyrri stjórnar. Hann hafði, að því er virtist, lausnir á takteinum varðandi flest í heilbrigðismálakerfinu og einna helst var á honum að skilja að ástæðan fyrir vandanum þar væri eiginlega bara aumingjadómur stjórnvalda. Svo verður þessi galvaski maður ráðherra þessa málaflokks og hvað gerist þá ?

Ég er nú orðinn ýmsu vanur, en þegar ég heyrði sagt frá því í fjölmiðlum, eftir hinum nýbakaða ráðherra, að vandi íslenska heilbrigðiskerfisins væri slíkur að hann yrði ekki leystur á næstu árum, setti mig eiginlega hljóðan ! Hvar voru lausnirnar sem viðkomandi hafði jafnan haft á takteinum meðan hann var í stjórnarandstöðu og hvar var aumingjaskapinn nú að finna ?

Valdamenn eru stundum býsna Gugguglaðir í yfirlýsingum sínum en þegar á hólminn kemur verður oft lítið úr þeim og stóru orðin reynast þá heldur betur innihaldslaus og brigðul ! Nútíma stjórnmálamaður á Íslandi þarf sjáanlega fyrst og fremst að kunna þá öfugu listgrein að vera aldrei sjálfum sér samkvæmur og ef slíkt forustulið á að leggja línurnar áfram fyrir þjóðina líst mér ekki á framtíðina !

Verðtryggingunni þarf að skola niður til vítis sem fyrst, því hún er séríslenskt ranglætismál og efnahagslegt mismununartæki sem engin mannleg rök geta varið. Ef þjóðin á að ná saman og verða einhuga í baráttu sinni fyrir samfélagslegum ávinningi þarf að hreinsa út hluti eins og verðtrygginguna, kvótakerfið og annað sem hyglar stöðugt einstökum auðmannaklíkum á kostnað heildarinnar. Verði það ekki gert, mun óeiningin bara vaxa og engar forsendur skapast fyrir friði í landinu okkar á komandi árum !         

 

 

 

 


Stórabróðurstefna hins allsráðandi eftirlits !

Í fjölskyldulegu samhengi er það oftast talið hið besta mál að eiga stóran bróður. Þá er hugsað til þess að þar sé einhver til staðar sem gætir manns og sér um að enginn sé að abbast upp á mann.

Og það sækir mig áleitinn grunur um - að nokkuð margir smásálarlega innréttaðir landsmenn hafi meðvitað eða ómeðvitað þá afstöðu til Evrópu-sambandsins, að það sé einhverskonar stóri bróðir sem muni passa upp á hagsmuni litla bróður, það er að segja Íslands, þegar fjölskyldusamhenginu hefur verið komið á !

Það eru nefnilega svo ótrúlega margir sem vilja áfram láta einhvern passa sig, eins og gert var meðan þeir voru börn. Þeir virðast enn á því þroskastigi, þó fullorðnir eigi að teljast, að halda í barnaskapinn og vilja ekki leggja hann niður !

En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að þegar sú staða kemur upp, að einhver valdamaður eða valdaklíka vill taka upp það hlutverk að verða með sjálfskipuðum hætti umsjónaraðili allra þegna þjóðfélagsins, er virkileg hætta á ferðum. Svo allt um grípandi og viðamiklu „umönnunar-hlutverki" verður nefnilega ekki komið á nema með drjúgmiklu eftirliti. Og þá kemur trúlega að því þjóðfélags-ástandi sem George Orwell fjallar um í bók sinni 1984. Þar er Stóri bróðir kominn ofan í hvers manns kopp og enginn lengur óhultur fyrir njósnum og eftirliti !

Og hver vill búa við slíkt, líklega enginn og alls ekki til lengdar þegar ískaldar staðreyndir stöðunnar fara að tala sínu máli ?

Það tekur nefnilega á taugarnar að vera undir stöðugu eftirliti, því það skerðir að sjálfsögðu frelsi hvers manns, og það kemur nánast alltaf að því að kerfisbundið eftirlit verður með einum eða öðrum hætti að kúgunarkenndu fyrirbæri. Jafnvel þó að svo virðist sem til séu enn hér á landi menn sem trúa því að bandaríska leyniþjónustan CIA starfi á svipaðan hátt og Rauði krossinn, og aðrir sem halda að yfirþjóðlega valdasöfnunarkerfið í Brussel sé til þess eins skapað að hægt sé að gegna umhyggjusömu barnapíuhlutverki fyrir þjóðir álfunnar, mundu slíkir dáleiðsluþegar fljótlega hrökkva óþyrmilega upp úr dvala sínum, ef þeir færu að búa við stöðugt áreiti Stóra bróður í orwellskum skilningi.

Og við skulum hafa það hugfast að kerfisleg eftirlitsárátta hefur stóraukist í okkar þjóðfélagi á síðustu árum og nú starfar fjöldi manns við það á vegum ríkis og sveitarfélaga að hafa eftirlit með fólki og fylgjast með því hvað það er að gera og hvort það hegði sér eftir settum reglum. Menn geta ekki lengur lagt silunganet í sjó án þess að sækja um sérstakt leyfi og lúta allskonar skriffinsku-ritúali og hefur þó leyfilegur tími á viku verið skertur að hálfu, líklega vegna hagsmuna laxveiði-aðalsins sem er yfirleitt nátengdur Stórabróður-valdinu.

Eins er það með að fá byssuleyfi. Nú þurfa menn að fara á námskeið og taka próf, kaupa veiðikort og henda líklega um 50 þúsundum í kerfið og eftirlitshéppa þess, til þess að geta til dæmis skroppið í rjúpnaveiðitúr. Eftirlitsmennskan er dýr fyrir fólkið í landinu og það eykur ekki ábyrgðarkennd og samviskusemi einstaklinga að þeir fari að hafa það sí og æ á tilfinningunni að það sé verið að fylgjast með þeim. Á góðum stað stendur - Traust er undirstaða allra mannlegra samskipta, en á sama hátt má segja að samfélag sem er sífellt að auka kerfislega eftirlitsmannahjörð sína sé ekki á góðum vegi. Því meira sem eftirlitið verður, því minna verður um traust milli manna !

Og hvenær kemur að því að farið verður að skapa innra eftirlit, að hafa eftirlitsmenn til að vakta aðra eftirlitsmenn ? „Hver á að gæta varðanna" var eitt sinn sagt og ekki að ástæðulausu !

Frelsi mannsins er eitt það dýrmætasta sem hann getur átt og því hefur verið ógnað á öllum tímum með fjölbreytilegum aðferðum yfirvalda og annarra Stórabróður-sinna. Að ýmsu leyti má segja að því sé ógnað í dag með lúmskara hætti en áður. Það er yfirleitt látið í veðri vaka að það sé verið að hjálpa upp á þig meðan frelsisfjaðrirnar eru plokkaðar af þér, ein af annarri !

Lýðræði hefur aldrei fengist ókeypis, mannfrelsi ekki heldur. Það þarf að berjast fyrir öllum góðum gildum í þessum heimi - og sú barátta mun aldrei líða undir lok. Verum á verði fyrir öllum áhrifum sem leitast við að gera stjórnkerfi að ómanneskjulegu bákni boða og banna, eftirlits og persónunjósna.

Látum Stóra bróður hrollvekju Orwells aldrei verða að veruleika !


"Ólafur afturgenginn, er Ólafur verri en fyrr !"

Sú var tíðin að andlegir tvíburabræður voru við völd í þessu landi og gerðust meðal annars umsvifamestu seljendur ríkiseigna sem þjóðarsagan kann frá að greina. Þeir seldu bankana og lýstu því fjálglega yfir hvað það væri gott að fá svo öfluga innspýtingu í íslenska hagkerfið sem bjórmilljarðana frá Björgólfunum. Þeir settu Ísland prívat og persónulega inn á stríðsrás bandarískra hauka og svo seldu þeir Símann til að fjármagna hátæknisjúkrahús sem yrði landsmönnum öllum kærleiksheimili allrar velferðar.

Þetta sem hér er sagt er nú bara brot af afrekum þessara valdatvíbura sem voru turnar sinna flokka á þessum tíma. Svo sprakk allt í höndunum á þeim og flokkum þeirra og landsmenn sátu eftir í sárum og svo mun lengi verða. Það er greinilega ekki gott að byggja þjóðlega farsæld á tvíburaturnum, hvorki af holdi og blóði né öðrum efnum. Það hefur áþreifanlega sannast í Stóru-Ameríku og hér í litlu eftirlíkingunni !

Bankasalan er einn alræmdasti gjörningur íslenskra stjórnvalda frá upphafi og er ljóst að þar verður aldrei rannsakað eitt eða neitt með nokkrum skilum, því svo skítlegt var allt við málið að það tekur engu tali. Aldrei kom nein milljarða innspýting í íslenska hagkerfið því Landsbankinn var einfaldlega keyptur fyrir lánsfé frá Kaupþingi. Það er að segja, það sem borgað var.

Milljarðarnir eftirsóttu munu fyrst og síðast hafa verið notaðir af handhöfum sínum til alþjóðlegra fjárfestinga og komu því aldrei við sögu í íslenskum þjóðarbúskap eða þvottavélum hérlendis. Hátæknisjúkrahúsið er enn í draumheimum Davíðstímans, og peningarnir sem inn komu fyrir Símann, það sem kom á annað borð, voru líklega settir í geymslu svo utarlega í sólkerfi sérgæskunnar, að engan rekur lengur minni til þess hvar þeir eru og hvað hefur orðið af þeim. Og nú er talað um þjóðarátak til að koma þessu margumtalaða sjúkrahúsi upp, þessari Hörpu heilsugæslunnar í landinu !

Það þýðir að almenningi er ætlað að borga þetta í gegnum einhverja fjáröflunarherferð, sem verður náttúrulega pumpuð upp í gegnum fjölmiðlana rétt eina ferðina. Síminn var sem sagt seldur eða gefinn á fölskum forsendum og seint verður því haldið fram með réttu að þjónustan þar á bæ sé betri en hún var. En kannski eignast þjóðin kærleiksheimili allrar velferðar þegar hún verður búin að borga hátæknisjúkrahúsið tvisvar sinnum. Þá verður svo gott að vinna á tæknitorgi heilbrigðismálanna, að okkar ástkæru landflótta læknar, sem hafa náttúrulega lifað árum saman við sult og seyru í útlöndum, munu koma fagnandi heim til að lífga upp á landann og almennt heilsufar Íslendinga !

Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn, sjálfstæðisflokkurinn með litlum staf, eða bara íslenska teboðshreyfingin, er nú komin í það sögulega far að sitja í ríkisstjórn undir forustu Litla Þjóðarógæfuflokksins. Slíkt gerist ekki nema ákveðið skilyrði sé uppfyllt að mati forustu stóra bölvaldsins, það er að hún geti verið viss um að formaður litla bölvaldsins sé í raun sjálfstæðismaður og ekkert annað. Og nú telur valdaklíka Valhallar sjáanlega að því skilyrði hafi verið fullnægt og rúmlega það, og þjóðin fer hugsanlega að sjá hvað úr hverju að það muni rétt vera.

Það er slæmt þegar menn eru í skökkum flokkum og enn verra þegar þeir verða þar formenn og gera viðkomandi flokka að einhverju allt öðru en þeim var ætlað að vera. Það ónáttúruferli virðist vera að gerast í annað sinn á stuttum tíma með flokkinn sem eitt sinn var þekktur undir nafninu Framsóknarflokkurinn en varð að Litla Þjóðarógæfuflokknum sem handbendi Stóra Þjóðarógæfuflokksins og ætti kannski helst í dag, með sérstöku tilliti til síðustu kosninga, að heita Atkvæðasóknarflokkurinn !Hver er annars munurinn á núverandi ríkisstjórnarflokkum ? Er þar ekki bara um að ræða tvö höfuð á sama finngálkninu ?

Íslenskir kjósendur eru vissulega stundum óþolinmóðir en stundum líka undarlega þolinmóðir. Eftir samfelldan valdatíma Stóra Þjóðarógæfuflokksins frá 1991 fram í janúar 2009, þar sem staðið var þannig að málum að allt endaði með kollsteypu og efnahagslegu hruni, fengu vinstri flokkarnir fjögurra ára umboð til að þrífa upp allan skítinn, allan flórinn eftir Davíðstímann og frjálshyggjufylleríið mikla.

En eftir þessi fjögur ár var þolinmæðin á enda hjá kjósendum gagnvart stjórnvöldum og þau skömmuð í bak og fyrir að hafa ekki mokað út á þessum tíma og komið öllu í lag aftur ! Og svo var þjóðarólánsklíkan kosin á ný til valda, þó þúsundir Íslendinga séu enn í sárum eftir afleiðingar fyrri valdaferils hennar og verði það um ófyrirsjáanlega tíð.  En nú virðist þolinmæðin aftur sest að í hugum kjósenda og þeir virðast ætla að bíða og vona og vona og bíða eftir því að silfurskeiðardrengir sérhagsmunanna standi við gefin loforð um viðreisn almannahagsmuna í þessu landi, viðreisn heimila ásamt afnámi verðtryggingar og skuldaleiðréttingu vegna stökkbreyttra svikræðislána hins einkavædda bankakerfis !

Það eru þá menn við stjórn eða hitt þó heldur sem líklegir eru til að framkvæma þessi réttlætisverk ! Ætli glóruleysi hinnar takmarkalausu trúgirni í íslenskum stjórnmálum geti yfir höfuð orðið öllu meiri ?

Endurkoma fulltrúa hrunsflokkanna að stýri þjóðarskútunnar er hreint ekki góður vitnisburður um heilbrigða dómgreind íslenskra kjósenda. Í því tilfelli verður mér hugsað til vísu sem ég held að Halldóra B. Björnsson hafi ort eitt sinn þegar Ólafur Thors fór frá og kom svo brátt aftur til valda: „ Góður er sérhver genginn / geti hann þá legið kyrr/ En Ólafur afturgenginn / er Ólafur verri en fyrr !

 

 

 


Um hugtök á reiki og sögufalsanir !

Oft er það svo að fólk fjandskapast við hugtök án þess að hafa nokkra skýra mynd af því fyrir hvað þau standa. Stundum er ástæðan einfaldlega sú, að einhverju hefur verið spýtt í menn án þess að þeir hugleiði það með sjálfum sér.

Þeir taka bara við sendingunni og svo lifir hún með þeim sem óværa eftir það, svipað og sendingar frá svokölluðum galdramönnum í gamla daga eða lús í hári.

Og víst má segja að það séu að einhverju leyti galdramenn sem geta blásið mönnum það í brjóst að fylgja hugmyndum sem ganga þvert gegn lífsgildum og lífsgæðum þeirra sjálfra. Ef við ættum að taka saman lista yfir hugtök sem hafa verið stórlega rangtúlkuð í umræðu, hljóta orðin lýðræði og frelsi að vera þar ofarlega á blaði. Þær eru ekki svo fáar „frelsishetjurnar"  sem hafa endað sem einræðisherrar og  „lýðræðispostularnir"  sem hafa í valdastólum snúist gegn öllu því sem þeir þóttust standa fyrir.

Bolsévíki var í eina tíð ekki svo lítið skammaryrði hérlendis og kommúnisti var og er í hugum margra hugtak sem jafngilti því að vera vondur maður. Samt var það svo lengstum í þessu landi, að þeir sem kallaðir voru kommúnistar voru jafnan fremstir í víglínu verkalýðsins hér fyrr á árum og fúsastir manna í baráttunni fyrir rétti hins almenna manns til sómasamlegra kjara.

Nú er það svo að bolsévíki þýðir í raun meirihlutamaður og er þannig ekki stórhættulegt fyrirbæri í orðsins merkingu. Meirihlutamenn eru víða fyrir hendi og sennilega kjósa flestir að vera meirihlutamenn þó þeir vilji áreiðanlega og alls ekki vera kallaðir bolsévíkar.

Neðri deild breska þingsins hefur löngum heitið  House of Commons, sem þýðir að menn af hálfu almennings gátu hlotið þar setu, en andstæðan var efri deild þingsins sem var aðalsklíka eða House of Lords. Neðri deildin byggði tilvist sína þannig á almennum mannréttindum en efri deildin á arfi sérréttinda.

En House of Commons hýsti þó yfirleitt ekki þá sem kallaðir voru kommúnistar, menn sem áttu að halda fram réttindum hins almenna fólks fyrst og fremst, the common people. Þar sátu oftast fulltrúar velmegandi borgarastétta sem voru stundum síst minni böðlar almennings en hið svokallaða aðalsfólk. Að vera lávarður eða stórborgari varð þó aldrei að skammaryrði í munni fólks hvernig sem á því stóð og hefði það þó margra hluta vegna átt að vera skiljanlegra.

Þegar einhverjir afburðamenn komu fram í neðri deildinni, þótti hið snjallasta ráð að gera þá að lávörðum, svo þeir flyttust yfir í efri deildina og hættu að vera ógn fyrir aðalinn. Þannig voru margir „keyptir" fyrr á árum og nægir þar að nefna William Pitt eldri og Thomas Wentworth.

Þegar borgarastyrjöld  braust út milli konungs og þings í Bretlandi um 1640, var það málstaður þingsins sem var miklu frekar málstaður fólksins í landinu.

Karl I. Stúart var langt frá því að vera góður konungur eða virðingarverður sem slíkur. Það var lán fyrir England að hann komst ekki upp með yfirgang sinn gagnvart þjóðinni og þó að hann missti höfuð sitt að lokum var það honum mátulegt því aldrei lærði hann að nota það í þágu þjóðar sinnar.

En Bretinn er samt alltaf samur við sig í konungsdýrkun sinni og aðalsdekri.

Allar sögulegar skáldsögur frá þessu tímabili eru með hetjurnar á bandi konungs en þeir sem börðust fyrir þingræðið og almenning í landinu eru yfirleitt stimplaðir þar sem hálfgerðir óþokkar og misindismenn.

Oliver Cromwell er samt slík stærð í enskri sögu að hann og valdatími hans verður ekki svo auðveldlega þaggaður í hel. En konungssinnar voru svo blindir í hatri sínu á þessum andstæðingi sínum, að þeir létu grafa lík hans upp og höggva af því höfuðið og hengja það og aðrar líkamsleifar hans upp til sýnis. Þar sýndu þeir best eðli sitt  - með því að níðast á líki látins andstæðings !

Englendingar tala um tímann eftir 1660 sem endurreisnina, en þá tók við valdatími Karls II. Stúarts, sem er líklega einn versti sjálfselskupúki og saurlífisseggur sem setið hefur á konungsstóli í Englandi og er þá mikið sagt.

Það var sem sagt endurreisn í lagi - eða hitt þó heldur !

Fyrir ekki svo löngu voru öll ríki með hermálaráðherra sem stundum var jafnvel kallaður stríðsmálaráðherra. En þegar ráðamenn fóru að skilja fyrir alvöru að fólk var yfirleitt ekki hrifið af stríði eða tindátamennsku, var embættisheitinu breytt og nú eru öll ríki með varnarmálaráðherra !

Með því þykjast menn vera að segja, „ef ráðist verður á okkur verðum við náttúrulega að geta varið okkur!" Og svo þykist enginn ráðast á annan en samt eru alltaf stríð í gangi ! Blekkingar af þessu tagi eru orðnar að föstum lið í lífsumhverfi okkar í dag. Jákvæð hugtök eru notuð til að tryggja neikvæðum hlutum framgang - og fyrir vikið blæðir fólki um allan heim !

 

 


Um sáttmála samleiðar og gildi Guðs Orðs !

Þjóðfélag verður til þegar fólk sem á í öllum meginatriðum samleið, kýs að gera sáttmála sín á milli um þau grundvallarmál sem það kýs að heiðra. Meðan trúnaður varir gagnvart gildum sáttmálans er fólk áfram á sömu göngu í gegnum lífið, en þegar sá trúnaður er rofinn gerist það vegna þess að einhver eða einhverjir vilja fara aðra leið. Stundum er eins og sumt fólk fái leið á öllu með tímanum, sama hvað gott það er eða hefur verið og vilji fá breytingar breytinganna vegna !

En þegar vegið er að rótgrónum siðagildum og reynt að brjóta þau niður með allskonar áróðri í ræðu og riti, er hætt við að hrikti í mörgum þjóðfélagsstoðum. Þá getur margt farið forgörðum sem átti kannski ekki að glatast, en þegar menn höggva tréð en vilja halda í greinarnar verður niðurstaðan skiljanlega með þeim hætti. Ég veit heldur ekki til þess að þeir sem að slíkum hlutum standa, séu að boða okkur einhvern fastari grunn til að standa á. Þeir virðast vera of önnum kafnir við að rífa niður til að huga að slíku. Það eina sem virðist fast í hugum þeirra er að herja á þann siðferðilega og trúarlega grunn sem þjóð okkar hefur haft til að standa á um aldir og viðleitnin sýnist öll í þá veru að brjóta hann niður. En hvað skyldi eiga að koma í staðinn ?   

Það er nú það !  Oftast er það svo með þá sem vilja ekkert með Guð hafa, að þeir vilja hefja manninn á stall „í öllu sínu veldi!"  Í staðinn fyrir Guðsdýrkun vilja þeir standa fyrir manndýrkun !  Oft á þessi afstaða samleið með mönnum sem eru orðnir það sem ég vil kalla oflærðir. Þeir fá ekki meðtekið á sínum lærðu forsendum þá skilgreiningu sem Biblían gefur fyrir trú. Þar segir nefnilega „ trú er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá !"

Samkvæmt vísindalegum rannsóknarforsendum nútímaviðhorfa er ekki hægt að meðtaka svona boðskap. Þar sem  lærdómsspekingar háskólasamfélaga hafa hvorki möguleika á því að setja mælistiku fræða sinna á Guð né Orð hans, virðist sú lausn nærtækust hugsun þeirra að loka á þetta hvorttveggja og úthýsa því úr mannlegu samfélagi. Guð er samkvæmt hugsun slíkra aðila ekki til og þar af leiðandi ekkert Guðsorð heldur. Biblían er í hugum oflærðra bara samanhrúgað mannasetningarit og engin ástæða til að taka hana alvarlega. En á móti þessari oflærðu afstöðu kemur inn í dæmið önnur afstaða sem er kannski ekki svo ýkja lærð, en virðist alltaf búa í miklum styrkleika í mannlegum sálum, en það er sú staðreynd að maður án trúar er varla til. Allir virðast þurfa sinn átrúnað. Þeir sem villst hafa frá Skapara sínum og þykjast guðlausir og náttúrulega að sama skapi víðsýnni en aðrir, hafa til dæmis margir Mammon fyrir sinn guð, jafnvel án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. Og þau geta orðið mörg skurðgoðin í lífi manna sem vita ekki að Guð sem er sannur Guð verður aldrei búinn til af mannahöndum eða huga.

Þeir sem standa á móti kristnum gildum í samfélagi okkar og eru þar andlega séð bandamenn, herja í raun á aldagamlan trúarlegan bakgrunn þjóðarinnar og vilja skipta honum út og fá eitthvað sem hentar þeim betur í staðinn. Þeir vilja ekkert með afskiptasaman Guð hafa, Guð boða og banna, Guð sem segir þeim hvernig þeim ber að breyta og heimilar þeim ekki að gera allt að eigin vild. Slíkur Guð er í þeirra augum bara guð sem er til vandræða !

Og hinir háværu minnihlutahópar þeirra uppreisnarafla í samfélaginu sem vilja annaðhvort þurrka kristindóminn út eða þynna hann niður í gildisleysi, hópar sem eru í raun bandamenn í sókn að slíku marki, fara nú á dögum með miklum gný um þjóðfélagið og þykjast þar meðal annars höfuðverjendur allra mannréttinda. Í þeim umræðufarvegi sé ég ekki betur en að til dæmis Siðmennt og Samtökin ´78 séu sem í einum anda, þegar öllu er á botninn hvolft. Afneitun á kristindómi og vilji til útþynningar kristindóms niður í gildisleysi, er í raun það sama !

Íslenskt samfélag hefur þroskast í gegnum aldirnar við geysilega mikinn samruna sögu, menningar og trúar. Grundvallarþættirnir í haldreipi þjóðarinnar fyrir lífi og velferð eru ofnir úr andlegum kjarna þessarar þrennu. Ég held að þar verði ekki eitt skilið frá öðru nema með hrikalegum afleiðingum. Ég fæ ekki séð að nokkur sómakær Íslendingur vilji í alvöru afskrá hið liðna með þeim hætti, jafnvel þó ég persónulega þekki menn sem virðast hafa vilja til að höggva tréð en halda lífi í sumum greinum þess.

Frá mínum bæjardyrum séð, myndi heiðingi sem væri samkvæmur sjálfum sér, vera öllu virðingarverðari en nokkur af þeim sem vilja smækka kristindóminn niður í persónulega vasaútgáfu eigin vellystar, en svo heiðarlegan heiðingja hef ég aldrei hitt til þessa og geri varla ráð fyrir því að svo verði héðan af. Ég get hugsað mér að slíkir heiðingjar hafi verið til fyrir kristnitöku, til dæmis Runólfur goði í Dal, en í dag eru þeir sem amast við kristinni trú, að mínu áliti, menn af allt öðru og lakara sauðahúsi. Þar er dansað við tíðarandann, dansað við sjálfið og eigið ágæti, og ekkert viðurkennt sem því æðra að gildi !

Það er til fólk, bæði hérlendis og erlendis, sem telur sig ekki hafa neitt til Jesú Krists að sækja ; ef til vill telur það sig of menntað til þess eða þá of gáfað, en það er greinilegt að hluti af boðskapnum til safnaðarins í Laódíkeu í Opinberunarbókinni á við þá sem þannig er ástatt með, en þar stendur : „ Þú segir : „Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis. Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn. Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl til að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi !"

Laodíkeu-andavaldið leikur lausum hala í dag og það er nákvæmlega eins og Ritningin sagði fyrir að það myndi verða. En þegar allir guðleysingjar samtímans verða orðnir að dufti og ösku, mun Orð Guðs sem þeir ætluðu að tortíma, halda velli heilt og óhaggað sem fyrr. Enginn mannlegur máttur stendur til lengdar gegn Guði og framgangi áætlunar þeirrar sem hann hefur með þennan heim !

 


Kvöldstund með Lincoln - eða þannig !

Allir eiga sér drauma og þannig á það líka að vera. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það gæti verið fróðlegt ef ég gæti setið eina kvöldstund að spjalli með Abraham Lincoln ! Nú gæti ég svo sem vel hugsað mér að geta hlustað á fleiri stórmenni Sögunnar, sem átt hafa merkan og manneskjulegan feril, segja frá ýmsu og skýra frá því hversvegna þetta og hitt fór eins og það fór eða hvernig það hefði átt að fara. En það er sérstök ástæða fyrir því að ég nefni Lincoln. Hann var nefnilega ekki bara mikill Bandaríkjamaður heldur líka mikill maður. Þetta tvennt þarf því miður ekki að fara saman og hefur heimurinn að mörgu leyti goldið þess misræmis á margan hátt, ekki síst síðustu áratugina.

Abraham Lincoln hugsaði langt. Hann lærði vel af því liðna, sá öðrum betur þjóðlegar þarfir líðandi stunda og hugleiddi ókominn tíma. Í ýmsum ræðum varaði hann við ýmsu sem hættulegt væri fyrir Bandaríkin og þær hugsjónir sem voru grunnurinn undir stofnun ríkisins. Og í því sambandi má ekki gleyma því að stofnun Bandaríkjanna vakti á sínum tíma gífurlegar vonir um manneskjulegri heim, enda  frumherjarnir margir hverjir afburðamenn að hugsjónum og manngöfgi.

Norðurríkin sigruðu Suðurríkin í borgarastyrjöldinni en stefna Lincolns fékk ekki að ráða gagnvart hinum sigruðu uppreisnarmönnum. Hann vildi binda um sárin og sameina þjóðina aftur í nafni góðra gilda, en framganga herstjóra sambandsstjórnarinnar næstu 12 árin eða svo í Suðurríkjunum var oftast með þeim hætti að ný sár urðu til. Eins og ég hef oft komið inn á áður, fengu bandarískir ráðamenn í fyrsta skipti verulegt nýlendubragð í munninn þá og siðspillingar-þættir stríðsáranna margfölduðu sig á komandi tímum.

Lincoln sagði nokkru áður en hann var myrtur: „ Ég sé í framtíðinni kreppu nálgast, sem ég óttast og veldur mér áhyggjum um öryggi lands míns. Voldug auðfélög hafa risið upp í kjölfar styrjaldarinnar; tímabil spillingarinnar á æðstu stöðum landsins mun af því leiða og peningavaldið í landinu mun reyna að lengja drottnunartímabil sitt með því að auka sér í vil hleypidóma fólksins, þangað til allur auður hefur safnast á fáar hendur og lýðveldið er eyðilagt. Mig uggir nú meir um öryggi lands míns en nokkru sinni fyrr, jafnvel meir en þegar styrjöldin var verst !"

Og þessi sýn Lincolns á hættuna sem fyrirbúin var lýðræði Bandaríkjanna varð að ísköldum veruleika á þeim árum sem í hönd fóru. Auðvald Bandaríkjanna talaði fjálglega um lýðræði og frelsi meðan það tróð þetta sama lýðræði undir fótum og afneitaði hugsjónum Jeffersons og Lincolns. Í stað þeirra setti það sinn eigin umskipting  - amerísku Mammonsútfærsluna, íklædda einræði peningavaldsins !

Og ef ég hefði möguleika á kvöldspjalli við Abraham Lincoln myndi ég að sjálfsögðu vilja ræða þessi mál. Ég myndi spyrja hann að því hvað honum fyndist um Bandaríkin í dag og hvernig honum líkaði framganga þeirra allar götur frá 1865 ? Og ég er ekki í neinum vafa um það að hann myndi ræða þau mál, gripinn af þungum harmi, því það sem hann óttaðist mest kom fljótt fram og eyðilagði allt það besta við lýðveldið sem hann unni svo heitt.

Það sjá það líklega flestir í dag að Bandaríkjamenn búa ekki lengur við það stjórnarfyrirkomulag sem Lincoln kallaði í ávarpi sínu í Gettisburg, „Government of the people, by the people and for the people". Þeir búa við „Government of the Big Business, by the Almighty money power and for the Consuming Capitalism !" Þeir búa við áskapaða afskræmingu lýðræðis og stjórnarfarslegs ábyrgðarleysis, eins og sést best á ástandinu vestra í dag. „Hið mikla Marshallhjálparríki" er skuldum vafið í dag, ekki síst vegna þess  að það hefur lengi verið mergsogið af eigin þegnum - þeim ríkustu. Fjármagnið hefur flætt án afláts frá ríkinu til auðhringanna og allra handa græðgisvæðingarreksturs og nú er nánast sjóðþurrð í Washington.

Það var eiginlega miskunnsamur örlagadómur sem réði því að Abraham Lincoln var ráðinn af dögum í stríðslok 1865. Það var nefnilega enginn staður fyrir mann eins og hann í stjórnkerfi Bandaríkjanna eftir stríðið. Hann var hrifinn burt eftir að hann hafði unnið sitt verk og því meta Bandaríkin hann sem eitt sitt mesta mikilmenni í dag. Hefði hann hinsvegar lifað lengur, hefði hann verið eyðilagður af því sama bákni sem heiðrar nafn hans í dag, sér til framdráttar, en virðir ákaflega lítils þær hugsjónir sem hann lifði fyrir og dó fyrir. Bandaríkin eru í dag heltekin þeirri uppdráttarsýki sem hefur valdið hruni flestra stórvelda Sögunnar ; ég held að þau eigi sér tæplega viðreisnarvon úr þessu.

Hefðum við Lincoln getað rætt þessi mál eina kvöldstund eða svo, þætti mér ekki ólíklegt að við hefðum orðið sammála um að orsakir leiði til afleiðinga, sáning til uppskeru og að Bandaríkin hafi fyllt mæli misgjörða sinna með langtíma hnattrænu ofríkisframferði sínu. Syndagjaldatíminn er þar einn eftir !

 

 


Þrjár meginspurningar !

Þrátt fyrir alla hina marglofuðu menntun og þekkingu nútímans, erum við mennirnir engu nær um svörin við hinum stóru meginspurningum jarðlífsins:

 Hvaðan komum við, hversvegna erum við hér og hvert förum við ?

Af hverju miðar þekkingunni ekkert áfram í þessum efnum ? Það ætti þó að vera um nokkurt hagsmunamál að ræða fyrir hvern og einn að geta vitað eitthvað um raunverulegan tilgang eigin ferðalags á þessari jörð ? Það skyldi þó aldrei vera að þessi þekking sé eitt af því sem okkur er ekki ætlað að vita og það sé þessvegna sem við erum engu nær um svör þrátt fyrir allt okkar fjölþætta menntastig ?  En öll viljum við vita eitthvað um þetta, ekki síst hvað tekur við ? Sú forvitni er sameiginleg öllum mönnum um allan heim !

Prédikarinn heimsfrægi Billy Graham þekkti marga forseta Bandaríkjanna náið og margir þeirra leituðu stuðnings hjá honum og ráðgjafar þegar þannig stóð á. En það var ekki auðvelt að svara því sem brann á þeim sumum. Eisenhower spurði: „Hvernig get ég vitað að ég muni fara til himna ?" „Trúir þú á endurkomu Krists ?" spurði Kennedy. „ Mun ég sjá foreldra mína þegar ég dey ?" spurði Johnson !

Er þetta ekki það sama sem við viljum öll vita ? Og erum við eitthvað á leiðinni að lausnum hvað þetta snertir ? Nei, því miður sé ég ekki að framvinda mála sé á þá leið. Andlega séð höfum við verið að ganga aftur á bak um allnokkurt skeið. Meðan ytri umbúnaður lífs okkar hefur blásið út fyrir aukna tækni og vélræn þægindi, hefur innri maðurinn dregist saman og rýrnað að sönnu andlegu gildi.

Sálarleg staða mannsins er áreiðanlega verri í dag en hún hefur verið um langa hríð. Uppreisn gegn trú og gömlum og góðum siðagildum hefur sett mark sitt á manneskjuna og þunglyndi og vanlíðun hefur, mitt í ytri þægindunum, margfaldast í hraðæstum nautnadansi nútímans, sem eltist við sjálfið í öllu. En það er gamalkunn saga, að þar sem ekkert rúm er fyrir Guð er nóg rúm fyrir djöfulinn !

Við þurfum að gera okkur grein fyrir að sumt er jákvætt en annað neikvætt. Sumt er jákvætt að öllu inntaki en sumt er neikvætt að sama skapi. Það jákvæðasta af öllu jákvæðu er að trúa því að Guð sé til, að eiga trú á Drottin, Skapara himins og jarðar, en það neikvæðasta af öllu neikvæðu er að vera í uppreisn og gefa sig djöflinum á vald og því sem hann stendur fyrir !

Við segjum kannski stundum við okkur sjálf: „ Ég ætla að gera pínulítið af þessu, ég veit að það er ekki af því góða, en mig langar samt aðeins til að vita hvernig þetta er !" Hvað skyldu margir djúpt sokknir eiturlyfjaneytendur hafa byrjað að eiga við hið neikvæða afl með slíkt viðhorf í huga ? En það hefnir sín að leika sér að eldi og afleiðingar þess geta verið ævarandi glötun !

Við eigum að skoða vel hvað er jákvætt að eðli og inntaki og tileinka okkur það, en varast það sem hefur öfugar verkanir á líf okkar. Við eigum ekki að afhenda djöflinum yfirráð yfir neinu í lífi okkar, við eigum að vita að hann herjar stöðugt á okkur, við verðum öll fyrir árásum af því tagi. Við þurfum að glíma við alls kyns freistingar og ótal gildrur eru lagðar fyrir okkur, til að breyta okkur frá því mannlega yfir í hið ómannlega, til að draga okkur af sviði hins jákvæða yfir á svið hins neikvæða.

Og við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að þegar við erum unnin yfir á það svið, eru afar litlar líkur á því að við getum í nokkru lifað þar okkur sjálfum og öðrum til góðs. Þar sem neikvæðir andlegir straumar ríkja er ekkert jákvætt til sem byggir manneskjuna upp. Á þeim vegi  höldum við bara áfram inn í svartnættið !

Í gömlu og góðu kvæði segir : „ Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu,/ hreyk þér eigi, þoldu, stríddu./ Þú ert strá, en stórt er Drottins vald./ Hel og fár þér finnst á þínum vegi ; / fávís maður, vittu, svo er eigi,/ haltu fast í Herrans klæðafald !/ Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða / lífið hvorki skilur þú né hel: / Trú þú: - upp úr djúpi dauða / Drottins rennur fagrahvel !"

Og það er mál Sannleikans sem býr í þessum innblásnu hendingum. Það er að treysta kjarna hins jákvæða, handleiðslunni að ofan, og standa í gegn öflum hins neikvæða, andavaldi vonskunnar í himingeimnum, sem vill tortíma okkur öllum. Það eru aðeins heimskingjar sem segja „ Enginn Guð ! Sjálft sköpunarverkið segir þér, ef það er einhver andlegur lífsvottur í þér, að Guð er svo sannarlega til !

Við vitum ekki hvaðan við komum, við vitum ekki hversvegna við erum hér, eða hvert við förum, en við getum átt trú fyrir því að Guð leiði okkur og að Hann muni vel fyrir sjá. Segir ekki Ritningin : „Allir sem leiðast af Anda Guðs eru Guðs börn" ( Róm.8.14). Það jákvæðasta sem við getum gert í jarðnesku lífi okkar, er að fela Guði vegi okkar og horfa í trú og von fram til þeirrar miklu stundar, þegar kraftaverk lífsins opnast í allri sinni undursamlegu fegurð við þeim sem það hafa þráð,  - þegar upp úr djúpi dauða /Drottins rennur fagrahvel.

Þá fáum við líka svörin við þeim meginspurningum sem hafa brunnið á okkur í gegnum allt okkar jarðneska líf, þá verðum við leidd í allan sannleika varðandi tilgang og niðurstöðu ferðalags okkar hér á jörðinni !

 

 


Menntunarleg vegtyllusýki án samfélagslegs skilagjalds !

Það hefur oft komið fram á fréttamyndum, að háttsettir menn í einræðisríkjum eru oft í flottum einkennisbúningum og orðum skreyttir. Þetta á ekki hvað síst við um yfirmenn heraflans, hvort sem um er að ræða landher, flota eða flugher. Menn ganga um bísperrtir með brjóstið alþakið orðum. Það á sem sagt ekki að fara framhjá neinum að það séu engin smámenni á ferð þar sem slíkir fara !

Svo heita þessar orður ýmislegt sem ekki er heldur af smærra taginu. Hetjuorðan, Afreksorðan o.s.frv.o.s.frv. Það er sem sagt alltaf verið að reyna að hefja manninn á stall sem eitthvað yfirmannlegt fyrirbæri. Allt er þetta afskaplega heimskulegt og hégómlegt og eitt af því sem mannfólkinu lærist sennilega seint að þroska sig frá. En þessi vegtyllu-veikleiki er ekki bara áberandi í einræðisríkjum, það er ekki minna um hann á Vesturlöndum, þó birtingarmyndirnar þar séu kannski með öðrum hætti.

Eftir að Ísland varð fullvalda ríki var í skyndi hróflað upp orðubanka hérlendis því dannebrogsorðan þótti ekki lengur eins eftirsóknarverð og hún var meðan embættismannaliðið taldi sér til gildis að vera dansksinnað í húð og hár. Stofnuð var svonefnd Fálkaorða sem í munni almennings er reyndar stundum kölluð Skálkaorða ! Sumir forsetaframbjóðendur hafa nefnt fyrir kjör sitt í embættið, að þeir ætluðu að draga úr orðuveitingum, en það hefur aldrei komist í verk, því sendiherrar, stórkaupmenn, ráðuneytisstjórar og ríkisforstjórar, blátt áfram öll medalíu-merkikertin -  þurfa áfram að fá sitt, og hvað getur Forseti Íslands þá gert annað en að deila út djásnunum ?

Það virðist sem alltaf þurfi að vera eitthvað til staðar til að mæta fordild manna og eftirsókn í hégóma, samanber vísu Steingríms Thorsteinssonar „ Orður og titlar, úrelt þing/ eins og dæmin sanna/ notast oft sem uppfylling/í eyður verðleikanna !"  Það er leitt til þess að vita, að þegar Steingrímur var orðinn gamall maður og hugsunin farin að gefa sig frá því sem áður var, tókst snobbliðinu að fá hann til að taka við dannebrogsorðu og þá var kátt í hyskishöll, því þar með var haldið á veitingavöllum titlatogsins að fyrrnefnd vísa væri orðin ógild, en ýmsum þar hafði lengi sviðið undan efni hennar. En vísan sú stendur áfram fyrir sínu og segir sannleikann þó höfundurinn hafi álpast út í skynvillufen á gamals aldri.

Viðurkenningarþrá manna er mikil og allt í lagi með hana sem slíka því oft er hún sterkur hvati að afrekum, en þegar hún beinist eingöngu að einhverju yfirborðskenndu fánýti, getur hún orðið sem skurðgoð í lífi einstaklinga. Það má sjá mörg dæmin um slíkt. Menn strita við að reyna að bæta alin við hæð sína með sokkabandsorðum og sigurtáknum af öllu tagi, og skreyta sig yfir brjóst og upp á haus baki brotnu árum saman, svo fer þetta dinglumdangl á haugana eftir þeirra dag, eins og hvert annað brotajárn !

Við þekkjum til dæmis verðlaunasafnarana.  Ég hef heyrt að einn þekktur keppnismaður í ákveðinni grein íþrótta hérlendis, hafi byggt heilt hús yfir sína verðlaunagripi. Þar eiga náttúrulega allar hinar hlöðnu hillur að æpa sitt þögula en hástemmda lof um verðleika viðkomandi manns !

Í skólakerfinu sýndu menn í gamla daga verðleika sína með því að skrifa lærðar bækur um sín sérsvið. Og auðvitað urðu menn doktorar og prófessorar í þessu og hinu þá eins og nú. En gamla kerfið var hinsvegar greinilega ekki nógu gott til lengdar. Það kom ekki nándar nærri nógu vel til móts við athyglisþörf menntaðra einstaklinga. Og það hefur leitt til þess að í dag er þeirri vöntun svarað með ýmsum hætti.

Það eru skrifaðar ritgerðir eins og í gamla daga, en nú heita þær meistararitgerðir og þúsundum saman fá menntamenn samtímans meistaragráðu í þessu og hinu. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það sé einhver risaskápur uppi í háskóla sem hefur því eina hlutverki að gegna að geyma allar þessar meistararitgerðir, í þeirri langsóttu von hinna akademísku yfirvalda að einhverntíma komi þær hugsanlega að einhverju gagni !

Og í framhaldi fer ekki hjá því að maður hugsar með sér, ætti ekki þjóðfélagi, sem hefur á að skipa fullt af fólki með meistaragráður, að vegna vel ? Ætti það ekki að vera mikil samfélagsleg innistæða fyrir okkur öll að eiga völ á öllu þessu hámenntaða og afburðahæfa fólki ?

En svo dapurlegt sem það er, virðist svarið við því hreint ekki bjóða upp á mikla bjartsýni hvað snertir samfélagslega velgengni. Það er því miður nánast ekkert sem segir okkur að öll þessi hástemmdu menntunarstig séu að skila sér með einhverjum ábyrgum hætti til þjóðlegrar hagsældar !

Eins og í einræðisríkjunum ganga einstaklingar um orðum skreyttir eða þá menntagráðu-skreyttir, en afrekin virðast láta á sér standa. Hæfnin virðist býsna oft stranda og verða innlyksa á skeri einkahagsmunanna. Meistaranámsfólkið hverfur að mestu leyti inn í lokaðan hring sinna eigin lífsþarfa og þjónar þar líklega sínu vel, en það fara minni sögur af dáðum þess í þágu samfélagsins !

Og ég spyr í fávisku minni, er verið að mennta þetta fólk og hámennta það í þokkabót, til þess eins að það geti komið betur fótum undir sig sjálft, til þess að það geti lifað á meistaragráðunni sinni einni saman allt sitt líf eins og hún sé einhver eilífðar-undirstaða af gulli gerð og það í efnahagslegum þjóðfélagsrústum ?

Það hefur víða verið til þess vitnað, að Franklin D. Roosevelt kom sér upp sérfræðingahópi hálærðra skólamanna þegar hann tók við sem forseti í kreppunni forðum. Þessi hópur var kallaður Brain Trust og á hugmyndum hans grundvallaði forsetinn stefnu sína um nýja gjöf ( New Deal) !

Áttum við Íslendingar enga menn í okkar háttvirtu gráðum prýddu menntamannaklúbbum sem gátu myndað Brain Trust hóp eftir hrunið ? Hóp sem hefði getað lagt til einhverjar nothæfar lausnir, því öll vitum við nú hvernig stjórnmálamennirnir okkar eru og auðvitað vitum við líka að það hefði ekki orðið neitt hrun ef þeir væru ekki eins og þeir eru !

Og því spyr ég, áttum við þá og eigum við nú - bara tómt meistaragráðulið, - vita gagnslaust til þjóðfélagslegra þarfaverka, og ef svo er, til hvers er þá öll menntunin  ?

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 365488

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband