Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
30.11.2013 | 10:44
Í skotgröfum skítmennskunnar !
Umræða á Íslandi vill oft verða nokkuð snúin og stundum leiðist hún svo langt frá vitrænu samhengi að furðu gegnir. Þegar svo fer þarf auðvitað ekki að búast við neinum rökréttum niðurstöðum, því þá eru flestir í önnum við að koma sér fyrir í skotgröfum og hafa engan tíma fyrir skynsamlega yfirvegun mála.
Ég held að allt of margir Íslendingar séu andlegir flokksþrælar. Í stað þess að hugsa um stjórnmálaflokk fyrst og fremst sem tæki til úrbóta á hinum ýmsu vandamálum samfélagsins, er flokkurinn settur á stall og dýrkaður, menn nálgast hin flokkslegu vé á trúarbragðalegum forsendum og verða innvígðir og innmúraðir í flokkinn á eiginhagsmunalegum grundvelli. Mottóið verður - Ég fylgi flokknum ( sama hvað hann gerir ) og þið sjáið um mig og mína hagi !
Sumir myndu telja að þessi forskrift væri helst bókuð upp á sovéska siðfræði í pólitískum veruleika, en svo undarlegt sem það er, á hún hérlendis mun meira við um sjálfstæðisflokkinn en aðra flokka, enda er þar um að ræða svo sálargróið hagsmunabandalag á hinu pólitíska sviði, að kannski er samlíking við sovéska kommúnistaflokkinn enganveginn út í hött !
Það var ótrúleg upplifun að heyra núverandi innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur segja í útvarpi í sambandi við Landsdómsmálið, að það væri hennar persónulega skoðun að réttarhöldin sem fóru fram í Landsdómi hefðu ekki átt neinn rétt á sér og að slík réttarhöld yfir stjórnmálamönnum ættu aldrei rétt á sér - ættu aldrei rétt á sér !
Stjórnmálamenn eiga sem sagt að vera ofar lögum, og þeir sem geta gert slík voðamistök í krafti valda sinna, að það stórskaði lönd og þjóðir, eiga aldrei að þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Þar höfum við það ! Við erum sem sagt með starfandi innanríkisráðherra sem hugsar svona varðandi eigin ábyrgð og annarra í pólitískum veruleika !
Geir H. Haarde heldur því fram að Landsdómsmálið hafi fyrst og fremst verið pólitísk aðför að honum og sjálfstæðisflokknum. Hann spyrðir þar málshagsmuni sína fast við flokkinn og er það venja manna í svona tilfellum, því maðurinn einn er ei nema hálfur, með flokknum er hann meiri en hann sjálfur !
Að tala um pólitískar aðfarir, virðist vera úthugsuð lausnarkenning varðandi það að firra stjórnmálamenn ábyrgð. Þá er látið að því liggja að það sé engin hugsun sem tengist kröfu um réttlæti í gangi, heldur aðeins vilji til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi. Þar gildir kannski viðhorfið - Margur heldur mig sig -, þegar menn ætla kannski öðrum það sem væri þeim sjálfum kannski ekki svo fjarlægt ef aðstæður leyfðu !
En það varð hér efnahagshrun, sem leiddi skýrt í ljós að farið hafði verið með fjöregg lands og þjóðar á þann hátt sem vítavert er. Afleiðingarnar urðu meðal annars þær, að tugþúsundir landsmanna hlutu ómældan skaða af og sumir ná sér aldrei eftir það. Öryggiskerfið sem við borguðum svo mikið fyrir og treystum flest, reyndist að miklu leyti verra en gagnslaust þegar á það reyndi.
Það hlýtur að vera hverjum sæmilega skynsömum manni ljóst, að menn bera mikil sár eftir þær manngerðu hörmungar sem áttu sér stað, og því er það undarlegt að svo virðist sem það megi eiginlega hvorki rannsaka eða ákæra varðandi þessi mál. Öll dýrin í skóginum eiga bara að halda áfram að vera vinir þó sum þeirra séu stöðugt að éta önnur. Sú rannsóknarvinna sem hefur verið sett í gang, virðist fyrst og fremst vera til málamynda, sýnist einna helst vera til þess ætluð að láta almenning standa í þeirri trú að það sé verið að gera eitthvað !
Nú má spyrja þeirrar spurningar, hverjir settu lög um landsdóm, og í framhaldi þeirra spurninga, til hvers var það gert og hvenær á að nota landsdóm ?
Svar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur varðandi það virðist liggja ljóst fyrir. Það á aldrei að nota Landsdóm og margir stjórnmálamenn eru henni trúlega sammála. Það líkar fæstum að vita einhvern refsivönd yfir sér ef illa fer. Landsdómur var bara sýndargagn og átti bara sem slíkur að vera hluti af ónýtu öryggiskerfi !
En íslensk pólitík, sem virðist fyrst og fremst ganga fyrir sig sem umræðuhernaður úr skotgröfum skítmennskunnar, þarf sannarlega á því að halda að hafa lagalegt, siðferðilegt og þjóðlegt aðhald og það þarf að auka frekar en hitt.
Því hvað á að gera ef valdsmenn hafa brotið illa af sér varðandi þjóðarheill ? Átti t.d. ekki að sækja Nixon til saka fyrir Watergate, var þar kannski bara á ferðinni pólitísk aðför að valinkunnum sæmdarmanni ? Ekki er ósennilegt að margir republikanar hafi litið svo á, en bandaríska þjóðin var ekki sama sinnis, hún hafði aðra skoðun á málinu og Nixon átti engan annan kost í stöðunni en að víkja !
Íslenska réttarkerfið er ákaflega vanþroskað fyrirbæri að mínu mati, og ég tel einnig að lögfræðingar landsins leggi lítið til mála varðandi þroskaferli þess. Ég tel réttlætisgæslu fyrir hönd almennings ekki í góðum höndum innan kerfisins og hefur margt gerst í málum á síðustu árum sem hefur styrkt þá skoðun mína.
Á sínum tíma kom í ljós að réttarkerfi landsins klúðraði öllu sem hægt var að klúðra í sambandi við Guðmundar og Geirfinnsmálin og brotöldur mistaka þeirra sem þá voru gerð af opinberri hálfu, eru enn að skella á þjóðinni. Lærdómurinn af því fargani virðist ekki hafa skilað sér svo neinu nemur !
Ég er sannfærður um að íslenska réttarkerfið sé ófært og vanhæft til að fjalla um efnahagshrunið og brotamál í tengslum við það, og ég treysti engum íslenskum lögfræðingum til að fara með þau mál svo réttlætinu sé sómi að.
Mér verður það lengi minnistætt, að einn sem sagður er mjög virtur í þeim hópi, sagði um þá sem fyrir sökum voru hafðir í Guðmundar og Geirfinnsmálum, að þetta væru nú engir kórdrengir !"
Það var enginn að tala um slíkt ! Viðkomandi sakborningar áttu bara að dæmast út frá því hvort þeir reyndust sekir um þau afbrot sem á þá voru borin, en líf þeirra og ferill þar áður hafði ekkert með málið að gera eða gat sagt til um slíka sekt. Það var eins og lögfræðingurinn virti væri að segja: Ja, þó þeir hafi kannski ekki gert þetta, hafa þeir nú verið bölvaðir þrjótar, og verðskulda því það sem yfir þá hefur dunið !"
En svona eiga menn auðvitað ekki að tala og þaðan af síður menn sem eiga að hafa lært lög !
Ég tel að stjórnmálamenn landsins eigi ekki að vera hafnir yfir lög. Ég veit ekki til þess að neinn af þeim ætti að vera tekinn í guðatölu, þó einn þeirra hafi nánast komist í þá stöðu fyrir nokkrum árum. Mér hefur sýnst stjórnmálamenn okkar alveg jafn færir um það að vera breyskir menn og við hin sem lifum í þessu landi og sumir þeirra jafnvel flestum færari varðandi það.
Mér hugnast því enganveginn að þeir séu gerðir enn ábyrgðarlausari en þeir hafa verið og eru, með því að ekkert sé sett þeim sem víti til varnaðar. Landsdómur getur verið ágæt áminning til þeirra varðandi það að vandi fylgi vegsemd hverri og menn þurfi að vera vakandi í verkum sínum fyrir heill lands og þjóðar.
Ég tel nefnilega kýrljóst, að margur sem var á háum launum fyrir hrun, vegna þess að hann átti að vera vakandi, hafi í raun verið sofandi og látið allt fljóta að feigðarósi. Við höfum ekki efni á að eiga réttindagæslumenn sem sofa á öryggisvaktinni og við höfum þaðan af síður efni á því að eiga ábyrgðarlausa stjórnmálamenn - þó við höfum - að flestra mati - átt þá býsna marga !
Og að síðustu vil ég bæta þessu við. Guð blessar ekki ranglæti, ábyrgðarleysi, lygar og ótrúmennsku, Guð blessar ekki Mammonsdýrkun og gullkálfsdansa !
Á haustmánuðum 2008 gat því ekki verið nein Guðsblessun yfir Íslandi, en það geta þeir menn auðvitað ekki skilið sem eru innmúraðir og innvígðir í einhverjar pestarhjarðir samfélagsins, og nota nafn Guðs bara þegar þeim finnst það heppilegt - fyrir sjálfa sig og augnablikið !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook
23.11.2013 | 09:31
Óíslenskur hugsunarháttur !
Íslenskt þjóðfélag var að flestu leyti sjálfu sér miklum mun samkvæmara fyrir daga frjálshyggjunnar. Það var til nægjusemi og ráðdeild, ábyrgðarkennd og samfélagsleg hugsun. Það var meira að segja til ærleg einstaklingshyggja og allflestir voru heiðarlegir, að minnsta kosti miðað við það sem síðar hefur orðið uppi á teningnum. Þá var nefnilega síður en svo talið mönnum til gildis að svíkja út fé og nota allskonar skálkaskjól í kerfi og eignarhaldsfélögum til að auðgast á kostnað lands og þjóðar !
Margir virðast hafa það mikið í sér að líta upp til auðmanna og vera tilbúnir að bugta sig og beygja fyrir slíkum, jafnvel þó vitað sé að auður þeirra sé fenginn með vafasömum viðskiptum svo ekki sé meira sagt. Mörg dæmi eru til um auðsýndan sleikjuhátt einstakra manna við gróðafíkla viðskipta og verðbréfa, ekki síst á árunum fyrir hrunið. Ef slíkir hentu einhverjum upphæðum í fólk í svokölluðum lista og menningargeira, voru viðkomandi lofsungnir í bak og fyrir og beinlínis hafnir til skýjanna af hinum frjálsu listamönnum" !
Mér er í minni hvað Björgólfur Guðmundsson virtist lunkinn við að láta vel að þessu liði. Hann birtist skyndilega á sviðinu í gulu,teinóttu fötunum sínum, með tommu á milli teina, reffilegur og jafnvel hálf Rockefellerslegur í framgöngu; talaði slétt og fallega og lét eitthvað af höndum rakna, svo hið sífjársoltna menningar og lista lið ætlaði að tryllast af hrifningu ! Já, Björgólf skorti ekki áróðurstæknina og fjölmiðlarnir máluðu hann svo upp sem sérstakan menningarfrömuð og listavin, og enginn hafði neitt við það að athuga - meðan peningarnir streymdu frá honum ofan í garnagaulandi menningarhítina !
Fjölmiðlafólk átti það iðulega til að skríða fyrir auðmönnum og sjást þess merkin í mörgu enn. Það virtist oft fyrir hrun eins og ýmsir þar á bæ væru mjög ákafir um að skapa sem besta og jákvæðasta ímynd af þessum peningagreifum sem þá voru oftast kallaðir útrásarvíkingar, þó nafn það væri mjög ósanngjarnt hugtak gagnvart gömlu víkingunum sem voru, að mínu mati, ólíkt betri menn, margir hverjir. En þótt samanburðurinn væri þeim í hag voru þeir samt flestir á sínum tíma langt frá því að vera góðir !
Ég man eftir kvikmyndinni Magic Town með James Stewart og Jane Wyman. Hún er nokkuð góð þó gömul sé. Það er athyglisverður söguþráður í henni og ef við setjum Ísland í staðinn fyrir Magic Town getum við alveg heimfært það sem gerist í myndinni upp á aðdragandann að hruninu og hrunið sjálft. Þar er um vinalegan og fallegan smábæ að ræða sem umturnast í gróðagræðgisvíti á örskömmum tíma, mest fyrir uppblásin sérhagsmuna-sjónarmið þeirra sem leiðandi voru í bænum. Það lá við að maður heyrði bæjarstjórann fullan af hroka, segja brattan og kokhraustan við fjölmiðlamennina: You ain´t Seen Nothing Yet !"
Vildu innlendir hagspekingar og töframenn tölfræðinnar í viðskiptageiranum ekki meina fyrir 2008 að Ísland væri toppurinn á tilverunni ? Var ekki kominn Wall-Street andi frá 1929 í spilastokk þeirra sem leiddu málin síðan fram á ystu nöf ? Þóttust ekki Reykjavíkurburgeisarnir á þeim tíma þess fullvissir að þeir væru Masters of the World Finances in Magic Town ?
Hvernig gátu forráðamenn þjóðarinnar virkilega trúað því að íslenskir fjármálamenn - með ótvíræða gæsalappatengingu - væru fremstir allra í heiminum, að þeir væru gæddir slíkri snilligáfu að þeir gætu hreint og beint tekið forustuna í efnahagsmálum hnattarins ?
You ain´t Seen Nothing Yet !" Þvílíkt mikilmennskubrjálæði og þvílíkur barnaskapur !
Og allt sem þessir uppreiknuðu vindhanar viðskiptalífsins gerðu var að vaða um tíma í hafsjó af lánsfé og hver svikafléttan af annarri gekk út á það að ná í fé með einhverju móti ! Snilld var aldrei til staðar, heldur hrein og klár óskammfeilni, blygðunarlaus frekjugangur og himinhrópandi kæruleysi gagnvart lífsréttarlegri heill fólks í þúsundatali, bæði hér heima og erlendis. Gróðafíknin var orðin slík að hún ógnaði öllu samfélaginu og flestum þeim gildum sem þarf að virða svo það haldist við ! Það var enginn Óli sparigrís til í þeim leik - aðeins Óli gróðagrís !
Við þurfum að komast frá þessum hugsunarhætti sem er enn eins og eitrun í þjóðlífinu. Við þurfum að átta okkur á eðlislægum rótum okkar og leita hugarfarslega til upphafsins til að ná áttum á ný. Við erum Íslendingar og saga okkar, menning og öll arfleifð okkar, leggur okkur skyldur á herðar. Við eigum ekki að vera spilafífl og spellvirkjar þjóðhagslegra verðmæta !
Við eigum að hugsa á sanníslenskum nótum, ekki að tileinka okkur sem hugarfarslega fæðu aðkomin spillingarefni. Við eigum ekki að hegða okkur eins og einhverjir Al-Thani sinnaðir gróðafíklar í rúllettuleik glæframennskunnar. Það er sögulega,menningarlega og landsréttarlega óíslensk framkoma !
Ef við hegðum okkur þannig, erum við ekki lengur við sjálf og það sem við eigum að standa fyrir. Liðnar kynslóðir gætu þá með engu móti kannast við okkur sem gildisbæra niðja sína. Fylgjum ekki röngum hugsunarhætti, snúum af vegum sem leiða til falls; byggjum Ísland upp með þeim hætti að við getum aftur verið stolt af því að vera ÍSLENDINGAR !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook
20.11.2013 | 19:14
Vankasauðir lýðræðisins !
Við Íslendingar erum yfirleitt skilgreindir nú á dögum sem nokkuð viðurkenndir ábúendur á lýðræðis helgaðri fósturjörð. Það má samt velta ýmsu fyrir sér varðandi þá skilgreiningu, einkum með hliðsjón af lýðræðiskerfinu sem við erum sögð búa við !
Lítum á nokkur atriði :
Við erum með forsetaembætti sem er svo illa skilgreint í stjórnarskrá og lögum, að enginn lifandi maður virðist vita hvað forsetinn má gera eða má ekki gera - og þaðan af síður hvað hann á að gera ! Þetta óvissumál hefur til dæmis leitt til þess, að núverandi forseti gerir bara það sem honum sýnist. Við höfum fengið að heyra og sjá hvernig þau mál hafa gengið.
Forseti hefur, samkvæmt því sem fullyrt er af málsmetandi aðilum,tugtað ríkisstjórnina til á ríkisráðsfundum og svo hefur hann lesið alþingi pistilinn við þingsetningar og allt liðið hefur setið undir slíku ákasti með roða í kinn og látið hríðina yfir sig ganga. !
Og hversvegna ? Af því að enginn virðist vita hvort forsetinn sé í rétti með að gera slíkt eða ekki. Það færi því líklega talsvert nær því sem veruleikinn túlkar, ef stjórnarskráin segði bara í þessum efnum: Forseti lýðveldisins fer með vald sitt eins og honum þóknast og hann telur best fyrir land og þjóð !"
En í lýðræðisþjóðfélagi á forseti ekki að leika kóng og það þarf miklu skýrari og afdráttarlausari línur í stjórnarskrána varðandi valdsvið forsetans !
Ríkisstjórn landsins, sem hefur framkvæmdavaldið með höndum í stjórnskipuninni, hefur oft og iðulega valtað yfir lýðræðislegar stofnanir þegar ráðherrar og aðrir toppskarfar hafa viljað svo við hafa. Skemmst er að minnast hvernig tveir helstu valdsmenn landsins bókuðu á sínum tíma prívat og persónulega land og þjóð á vinsældalista hjá bandarískum stjórnvöldum vegna Íraksstríðsins. Utanríkismálanefnd kom þar hvergi við sögu eða þingið yfirleitt. Slík vinnubrögð eru til að grafa undan lýðræðinu og eru náttúrulega einræðiskennd og algjörlega röng !
Alþingi sem fer með löggjafarvald þjóðarinnar hefur oft sett lög sem hafa reynst gagnslaus vegna þess að ekkert fjármagn hefur jafnframt verið sett í það að tryggja framgang laganna. Til eru dæmi um að einstakir embættismenn hafi gengið gegn ráðherravaldi og fylgt þar lagasetningum sem hafa verið í fullu gildi, en verið settar í frystingu af stjórnvöldum vegna fjárskorts. Í að minnsta kosti einu tilfelli sem ég man vel eftir, var embættismaðurinn rekinn af ráðherra fyrir vikið, fór í mál við ríkið og vann það og fékk greiddar talsverðar miskabætur - af almannafé. Ráðherrann sat hinsvegar sem fastast !
Af mörgu er að taka en allt eru þetta dæmi um skort á skilningi gagnvart því hvernig lýðræðið á að virka. Forsetinn á ekki að tala niður til stjórnar eða þings, framkvæmdavaldið á ekki að valta yfir löggjafarvaldið og löggjafarvaldið á ekki að setja lög sem ekki er hægt að framkvæma. Það grefur bara undan löghlýðni manna og virðingu fyrir lögum.
Og svo eiga menn sem eru skipaðir ráðherrar ekki að sitja líka sem þingmenn ! Það á ekki að líða það að sömu menn sé handhafar framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Það er eitt skýrasta villudæmið í okkar kerfis-uppstillingum og slíkt þekkist aðeins þar sem vankasauðir lýðræðisins ráða ferðinni.
Og svo eru það prófkjörin ! Þegar einstaklingar bjóða sig fram til starfa fyrir almenna kjósendur, sem eru borgarar þessa lands, verða þeir að skilja að þeir eru að leggja sjálfa sig á metaskálar og það á að vera lýðræðislegur vilji kjósenda sem á að ráða hvernig fer. En margt framboðsfólk virðist bara fara í fýlu þegar það nær ekki sínum markmiðum og segir með sínum hætti: Þið voruð vond við mig, ég hætti bara !
Hvar er lýðræðislegur skilningur fólks þegar það lætur svona, veit það ekki að í viðurkenndu lýðræðisþjóðfélagi er valdið hjá fólkinu, hvað með þjónustuna sem það var að bjóða sig fram til að gegna ? Ef manneskja er virkilega áhugasöm fyrir því að starfa í þágu almennings, á ekki að skipta höfuðmáli hvort hún lendir í 3. eða 4. sæti á framboðslista í prófkjöri !
Viðkomandi manneskja á að líta á málið með því viðhorfi að hún hafi fengið stöðu sem geri henni kleyft að þjóna almenningi og sýna hvað í henni býr. En vegna vankasauðs-tilhneiginga fara margir bara í fýlu og neita jafnvel að taka það sæti sem prófkjörsúrslitin hljóðuðu upp á.
Sandkassinn virðist býsna oft nálægur í pólitískum uppákomum !
Það er ljótur annmarki þegar einstaklingar, allt frá lágum kjörstigum almannaþjónustu upp í æðstu embætti, hefja eigið persónugildi yfir lýðræðið og gildi þess. En það er einmitt það sem við sjáum svo víða. Forsetinn er, frá mínum bæjardyrum séð, afar sjálfhverfur maður. Ráðherrar eru yfirleitt eða verða fljótlega sjálfhverfir og þingmenn eru það nánast upp til hópa. Allir virðast vera að hugsa um ferilinn, virðast fyrst og fremst vera að einbeita sér að því að bæta stjörnu í skrána, að verða meiri í dag en í gær !
Þetta er svo sem ekki séríslenskt vandamál, en það er ótrúlega yfirgripsmikið miðað við það hvað þjóðin er fámenn og kerfið smátt í samanburði við aðrar þjóðir. Og með hliðsjón af því hvað það er stutt síðan við Íslendingar vorum sæmilega heilbrigðir í þessum efnum, er það dapurlegt hvað okkur hefur á stuttum tíma rekið langt af leið. Valdhroki, merkilegheit, drýldni og drambsemi, allt kerfið virðist bókstaflega vera orðið kvikt af þessum bölvuðum ófögnuði !
Hvenær ætlum við að taka okkur ærlegt tak og verða lýðræðisþjóð - í alvöru ?
16.11.2013 | 14:53
"Aðstoðarmenn aðstoðarmanna ráðherra !"
Simmi silfurskeið og BB hafa sýnt það eins og margir á undan þeim, að það er annað að sitja í ríkisstjórn en vera í stjórnarandstöðu. Það sem þeir bannsungu í stjórnarandstöðunni hjá fyrri ríkisstjórn er nú gott og gilt og svei mér þá ef þeir eru ekki búnir að finna alveg nýja leið til að gera löggjafarvaldið enn undirgefnara og háðara framkvæmdavaldinu en það var áður. Hefur þó sjaldnast þurft að auka þar við því svo hundflatt hefur þingið yfirleitt verið gagnvart framkvæmdavaldinu að það er löngu alræmt innanlands og aðhlátursefni í nágrannalöndum okkar sem búa við miklu meiri þingfestu í störfum en þekkist hér.
Ásmundur Einar Daðason þingmaður sem var í VG þegar sannfæring hans var á þeirri línunni, en hefur verið í Framsókn síðan sannfæringin í sellum hans vék sér aðeins til hægri, hefur verið útnefndur sérstakur auka-viðbótar-aðstoðarmaður Simma silfurskeiðar og verður hann þannig flugnæmur tengill þings og stjórnar, sá fyrsti sinnar tegundar þessu landi á", eins og segir á vísum stað.
Ekki þarf að efast um það að á komandi árum verði þingmenn í allskonar aukahlutverkum á vegum ráðherra og framkvæmdavaldsins og að sjálfsögðu ólaunaðir sem slíkir. Menn geta nefnilega sinnt ýmsum aukastörfum meðan þeir eru á þingmannslaunum og svo eru sérskipaðir yfirþjónar í stjórnarráðinu líklegir til að öðlast aukin völd og áhrif sem alltaf geta skilað einhverju, þó það verði ekki komið neinni sérstakri krónumælistiku á þann ágóða.
Ég spái að þau verði fleiri nýmælin sem Simmi silfurskeið muni brydda upp á í stjórnarráðinu því hann er maður sem hikar ekki við að breyta hlutunum ef hann telur, prívat og persónulega, að það geti orðið til batnaðar. Svo það verður ef til vill áleitin spurning hversu dómgreindarlegur ráðherrann kemur til með að verða í sínum breytingaplönum og hvað mikið af þeim verði í raun til batnaðar ?
Ef til vill eigum við eftir að upplifa það, að útnefndur verði nýr ráðherra á næstunni, svokallaður Loforðamálaráðherra, til að annast þann mikla málaflokk sem Nýi Framsóknarflokkurinn hefur skapað í þeim efnum. Sá ráðherra getur svo haldið áfram að skipa í nefndir, safna upplýsingum, reikna út, vega og meta, skilgreina og fella hugsanlega að lokum úrskurð um það hvort ríkisstjórnin eigi eða þurfi að standa við skuldaleiðréttindaloforðin sem fleyttu henni til valda í vor !
Það sjá það náttúrulega allir að það mun taka sinn tíma að komast að niðurstöðu í þessum viðamiklu efnum og viðbúið að kjörtímabilið fari í það og gott betur ! Það er trúlegt að bæði Simmi og BB vilji vanda þar vel til verka og báðir telji það verjandi þó seinkun verði á hlutunum. Það er nefnilega allt annað að þjónusta kvótaaðalinn en landslýðinn, fyrri aðilinn þarf forgangsþjónustu eins og hann er vanur að fá úr kerfinu en fólkið getur beðið !
Nú virðist stefna í það, að aðstoðarmenn ráðherra fari að hafa svo mikið að gera, að þeir þurfi líka á aðstoðarmönnum að halda, enda er hagræðing á kostnaðarmálum ríkisstjórnarinnar þegar staðfest mínushagræðing á stofnanamáli. Kerfisútþenslan lætur ekki að sér hæða og íslenskt stjórnkerfi endar líklega með því að verða pýramídi á haus ; undirstaðan verður engin en yfirbyggingin svakaleg ! Og ef svo fer, mun allt taka að róla til vegna brotinna burðarlögmála og falla svo líkast til heldur þyngslalega á hægri hliðina - eins og síðast !
Sá sem forherðist og vill ekki læra af fyrri brotum, endar oftast með því að fremja meiri og verri brot. Þeir flokkar sem voru arkitektar efnahagshrunsins með stefnu sinni, hafa ekki sýnt á neinn gildisbæran veg að þeir hafi axlað ábyrgð eða sýnt með orðum og gjörðum iðrunarvilja og afturhvarfshugsun. Það er ills viti og þó að þeir hafi fengið tækifæri sem fáir hreppa sem líkt hefur staðið á fyrir, til að bæta fyrir afglöp sín og rísa frá brotlendingu til betri siða, hef ég vondan grun um að þannig verði ekki staðið að málum.
Simmi silfurskeið á líklega stysta stjórnmálaferil íslenskra forsætisráðherra upp í þann eftirsótta valdastól, en það er spurning hvort hann komi ekki líka til með að eiga einn stysta stjórnmálaferil sem um getur sem pólitískur forustumaður, því ef hann landar ekki loforðum sínum með sæmilega viðunandi hætti, er meir en líklegt að fólk taki ekki mikið mark á honum eftirleiðis !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook
13.11.2013 | 21:18
Palladómur um meintan ,,sjallasleiki" !
Össur Skarphéðinsson heitir maður einn og kannast margir við gripinn. Hann hefur víða komið við og talið sig vera á ýmsum stöðum til húsa, þó ekki hafi þar mál alltaf gengið upp samkvæmt skráningu þess marks sem upp hefur verið gefið. Um tíma þóttist maðurinn vera róttækur vinstri maður og sem slíkur mun hann hafa bankað upp á hjá Þjóðviljanum og gerst þar innanbúðarmaður um skeið. En Össur var auðvitað enginn róttæklingur og það var orðið flestum ljóst talsvert löngu áður en hann uppgötvaði það sjálfur.
Það sem helst sat náttúrulega í genum Össurar var mikil löngun til að komast áfram í lífinu og eignast nokkuð skrautlega ferilskrá. Hann sá því fljótlega að hann hafði farið illa með tímann með því að vera að hangsa á Þjóðviljanum því það bauð auðvitað ekki upp á mikinn frama. Líklega skemmdi það ferilskrána frekar en hitt og eftir að Össur hafði sannfærst um að framaleiðin væri ólíkt tryggari í herbúðum krata, þótti honum í raun ósköp leitt að hafa verið svo mikið flón í eina tíð að hafa verið búrkoppur á Þjóðviljanum.
En þar sem Össur er alla jafna hress í lund og getur verið skemmtilega glettinn þó hann telji sig nú krata, lætur hann oftast sem Þjóðviljadvöl hans hafi aðeins verið æskuóratími og hann hafi svo þroskast og séð að hann væri ekki á réttum stað og þaðan af síður að gera rétta hluti. Slíkar afsakanir hafa fallið afskaplega vel að eyrum sumra og einkum þeirra sem Össur telur nú vænlegast að hafa góða.
Össur hefur gegnt ýmsum háum stöðum síðustu árin, ekki síst vegna leikni sinnar í að hafa ekki neinar fastmótaðar skoðanir heldur taka nótus af veðri og vindum hverju sinni. Hann kann að tala þannig við fjölmiðlamenn að þeir fái það á tilfinninguna að honum þyki hreint og beint vænt um þá, svo þeir verða mjúkir á manninn við hann og eru ekkert að angra hann með óþægilegum og leiðinlegum spurningum.
Össur er líklega mesti urriðasérfræðingur landsins og kann því öllum pólitíkusum betur að lepja strauma og bíða færis. Hann hefur líka haldist nokkuð vel á sinni pólitísku sporbraut á meðan fljúgandi furðuhlutir í halastjörnulíki eins og Ingibjörg Sólrún, hafa kastast langar leiðir af sinni sporbraut og hafnað einhversstaðar í Fjarskanistan!
En Össur væri hinsvegar löngu orðinn óumdeildur Samfylkingarhöfuðgoði, ef hann hefði haft burðina til þess. Þó ferilskráin hefði sannarlega orðið mun skrautlegri við það, hefur komið glöggt í ljós að Össur er ekki þeim hæfileikum búinn sem geta gert hann að óumdeildum foringja - ekki frekar en Árni Páll !
Svo Samfylkingin má enn um sinn búa við það foringjaleysi sem hefur hrjáð hana frá fyrstu tíð, og víst er að þó Össur lepji strauma lengi enn, verður hann aldrei sá maður sem leysir þann forustuvanda. Hans tími varðandi það mál er liðinn og bætti litlu við hans persónulegu gengismál.
En Össuri er samt enganveginn alls varnað. Hann er glaðbeittur í tali og sæmilega ritfær. Hæfni hans með pennann slípaðist kannski helst og best á Þjóðviljanum forðum, en það myndi hann aldrei viðurkenna eða fallast á nú til dags, enda ættu flestir að geta skilið það. Hann segist bara vera ritfær vegna þess að hann hafi fæðst með þann hæfileika og séð sjálfur um að þjálfa sín stílbrögð.
Og nú hefur Össur gefið út bók og nýlega var ritverk það til umræðu hjá Bylgju-Láfunum og vantaði ekki að þeir gæfu því góða umsögn og þarf víst enginn að vera hissa á því. Össur hefur náttúrulega til margra ára verið eins og góður húsköttur upp við fætur íhaldsins og nuddað sér þar fram og aftur og það hefur áunnið honum mikla velþóknun þar á bæ.
Það var dálítið annað hljóð í Bylgju-Láfunum gagnvart bók sem Steingrímur J. Sigfússon hefur skrifað um hrunið og eftirmál þess, en það kom heldur ekki á óvart, því frjálshyggju-málpípur eru svo sem alltaf auðþekktar á rophljóðinu úr endagörninni !
En Össur á það auðvitað skilið að íhaldið víki góðu að honum, eins og hann hefur nú verið þægur og ljúfur við það í öllum samskiptum undanfarinna ára. Það er til dæmis haft fyrir satt að hann hafi aðstoðað Árna Matt við að fá vinnu eftir hrunið, og í margskonar hjálp við nauðstadda sjálfstæðismenn, hefur Össur eiginlega viljað vera - eins og Rauði krossinn holdi klæddur, - allt frá hruni !
Sumir hægri menn hafa því nánast það álit á Össuri að hann sé eins og jólasveinn sem komi með fullt fangið af gjöfum þegar mest á ríður og víst er að maðurinn hefur að gamalgrónum kratasið virst hafa mest yndi af því að stjana við sjálfstæðismenn. Nú vitum við að gömlu jólasveinarnir okkar hétu ýmsum merkilegum nöfnum sem tóku mið af helstu tilhneigingum þeirra, svo sem Gluggagægir, Bjúgnakrækir, Hurðaskellir og Þvörusleikir............ Kannski hefði Össur - ef hann hefði nú verið ekta jólasveinn - sem best getað heitið Sjallasleikir !
Það má að minnsta kosti hafa það í huga, þegar bók hans er lesin, að viðkvæmni hans gagnvart sjálfstæðismönnum sé líkleg til að gera umsagnir hans um þá heldur innihaldslausar. Að sama skapi gætu svo umsagnir hans um aðra - þar sem viðkvæmni er ekki þröskuldur í vegi - verið stóryrtari en ella !
Mér hugnast ekki bækur þar sem starfandi pólitíkusar láta gamminn geisa hver um annan. Flest myndi ég heldur vilja lesa. Og þar að auki er það lið sem situr á þingi, að mínu mati, ólíklegast allra í landinu, til að verða manni til einhverrar ánægju !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.11.2013 kl. 23:18 | Slóð | Facebook
9.11.2013 | 11:18
Það loðir við landið sem leiðir í strandið !
Það er ýmislegt sem loðir við landið og virðist ekki geta lagast á nokkurn hátt. Frjálshyggjubullurnar sem óðu hér yfir allt á árunum fyrir hrun eru enn með fullar hendur fjár og vilja fjárfesta í því sem eftir er af eignum landans. Stjórnmálamafían sem baktryggði allan feril gróðabrallsmannanna er enn við sama heygarðshornið og hún var og hefur ekkert lært og reyndar er hún öllu forhertari eftir hrunið og stöðuga afneitun allrar ábyrgðar í meira en fimm ár !
Almenningur situr enn í sárum og enginn tekur upp hanskann fyrir hann. Það er sannfæring mín að venjulegt fólk í landinu eigi enga málsvara á alþingi í dag. Áður var talað um verkalýðsflokka og það voru oft á þingi einhverjir sem töluðu máli venjulegs launafólks, nú er enginn þar í þeim anda !
Menn sem þykjast vera þar á vinstri vegum eru að verða litlu skárri en afæturnar til hægri. Síðustu kosningar sem leiddu til þess að pólitískar valdablokkir hrungerenda hafa komist aftur til valda í þessu landi munu sanna sig sem afdrifarík mistök. En hvernig á fólk að vita hvernig það á að verja atkvæði sínu þegar enginn góður kostur virðist í boði ? Jóhanna með sinn tíma í höndunum talaði um að mynda skjaldborg um heimilin í landinu og hvernig var svo staðið við það loforð, og nú er Simmi silfurskeið að falla á tíma með fyrirheitið um skuldaleiðréttinguna miklu sem fleytti flokki hans til valda.
Allt sem fyrri stjórn gerði sem hjó eitthvað í aðstæður forréttindahópa landsins, er nú sem óðast að ganga til baka fyrir aðgerðir núverandi stjórnvalda, sem eru fyrst og fremst á verði fyrir hagsmunum þeirra sem mest mega sín. Kögunarkapítal og Engeyjarvald eru í mínum huga ljóslega af sama meiði þó annað sé haft uppi við. Það þurfti því engan speking til að sjá eftir síðustu kosningar að Simmi og BB myndu ná saman, enda var alltaf að því stefnt og engu öðru.
Íhaldið hefur alltaf ráðið í þeim stjórnum sem það hefur setið í - óklofið. Og oftast hefur það verið skilyrði að það hefði stjórnarforustuna. En þegar menn eins og Halldór Ásgrímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru annarsvegar getur íhaldið vel hugsað sér vissan undanslátt í þeim efnum, til að mæta persónulegri framalöngun manna, enda vitað að umræddir menn eru í allri hugsun svo nátengdir þeim sem ráða í Valhöll að þar skilur sáralítið á milli. Þeir hafa því báðir fengið að verða forsætisráðherrar en þeir hafa setið sem slíkir fyrir náð sjálfstæðisflokksins og slík náð er alltaf skilyrðum háð !
En er ekki kominn tími til að einhverjir fulltrúar launafólks og almennings í landinu verði kosnir til að gæta hagsmuna þjóðar-grasrótarinnar á alþingi ? Druslur Samfylkingar gera það ekki og nú er Össur búinn að skrifa heila bók sem hefði líklega helst átt að heita Að sleikja íhaldið enda á milli" !
Vinstri grænir virðast orðnir svipur hjá sjón og lítils af þeim að vænta. Tveir krataflokkar á alþingi er allt of stór skammtur af froðuliði og ómerkingum til vinstri. Við þurfum fólk á þing sem er með lifandi blóð á hreyfingu í æðum, en ekki steindauðar kerfisblækur sem megna ekki á nokkurn hátt að standa í gegn forréttindapakkinu og frjálshyggju-græðgisliðinu til hægri og er að sumu leyti orðið samdauna því.
Sumir tala hástemmt en eru ekkert nema lýðskrumsmenn. Við þurfum ekki menn eins og Franklín inn í okkar pólitík. Hann virðist vilja verða hinn íslenski Sakashvili en slíkir sérhyggjupostular sýna yfirleitt fljótt hverju þeir gangast fyrir og það er að mínu mati hvorki þjóðlegt né gott. Auk þess er hugtakið hægri grænir" bara blekking !
Við þurfum vakningu á þjóðlegum grunni ! Við þurfum að sækja á ný á gömul mið. Við þurfum að endurnýja ungmennafélagsandann og samvinnuhreyfingarhugsjónirnar og verkalýðskraftinn, allt það sem kveikti hin félagslegu ljós síðustu aldar og hóf þessa þjóð upp úr fátækt til bjargálna og síðan velferðar.
Íþróttahreyfingin var um og upp úr 1980 gleypt af peningaöflum og er enn í hörðum klóm slíkra, þar er ræktun lands og lýðs algjörlega gleymt mál. Samvinnuhreyfingin var eyðilögð af dollarasjúkum gróðapungum og hugsjónirnar afskrifaðar á markaðstorgi Mammons. Verkalýðshreyfingin var rústuð af siðlausum pólitískum kjaftaskúmum og mönnum sem aldrei hefðu átt að fá að koma þar nærri nokkrum hlutum. Forustumennirnar þar í dag eru talandi dæmi um stöðu mála þar, gagnslausir menn í huga og hjarta á háum launum, menn sem þekkja ekki alþýðu Íslands nema kannski af afspurn !
Þessum spillingaröflum þarf að ryðja út, öllum þeim aðilum sem eru alltaf tilbúnir að setja silfur sitt á markað sérhagsmunanna og hafa aldrei átt heima þar sem félagsleg samstaða þarf að vera grundvöllur mála. Í herbúðum sérhagsmunaliðsins snýst allt um að fá verðlaun í gulli eða silfri, að virða verðlaun sín til fjár og selja þau ef svo ber undir eða fá andvirði þeirra greitt út með annarra fé - helst almenningsfé ! Siðfræðin í kortunum þar er engin enda jafnvel engin kort til í þeim efnum !
Látum ekki spillt yfirvöld og markaðsrefi eyðileggja allt sem íslenskt er og gott. Hlustum ekki á sérprentaða útsendara auðvalds og sérhagsmuna, menn eins og Má Guðmundsson seðlabankastjóra, tala niður til almennings og gera kröfu um að menn geri engar kröfur eftir allar þær launalækkanir sem átt hafa sér stað. Það hefur öllu í sambandi við hrunið verið sturtað niður til almennings. ÖLLU !
Almenningsvæn hagstjórn á Íslandi hefur aldrei verið til, það er allt í þeim efnum sniðið að þörfum hins íslenska aðals", sem er í raun ekki íslenskur heldur afskræming alls þess sem íslenskt er. Afneitum því þeirri misbeitingu réttlætis og mannréttinda sem þar á sér stöðugt stað. Tíu þúsund króna seðillinn er talandi tákn um það að við séum enn á sömu feigðarferð og áður. Það var líka athyglisvert að hann féll á gólfið úr höndum seðlabankastjóra og kannski engin tilviljun. Endum við kannski með gjörsamlega verðlausan milljón króna seðil í höndunum ?
Verum vakandi og mótmælum öll hverskonar yfirgangi yfirvalda í landinu gagnvart þjóðréttarlegum mannlífsgildum, hvort sem er á ríkismálasviði eða sveitarstjórna. Verum tilbúin hvenær sem þörfin krefur að verja íslenska mannfrelsis arfleifð - með búsáhöldum og öðru sem til þarf !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.11.2013 kl. 11:07 | Slóð | Facebook
6.11.2013 | 19:29
Smáspjall um borgarpólitísk mál !
Senn úr stólnum stekkur Gnarr,
stutt hann þjáði valdasýkin.
Samt í fáu ber sitt barr
borgarmálapólitíkin !"
Sumir hafa tilhneigingu til að hætta á toppnum", vilja ekki bíða eftir niðurtalningunni ! Jón Gnarr var kosinn borgarstjóri við þær aðstæður að söguleg niðurtalning á gildi framboða í borginni stóð yfir. Hann þurfti ekki einu sinni að hafa stefnu. Það var nóg fyrir hann að sitja með órætt glott á vör og láta hina um að skemma fyrir sér. Allt varð sjálfkrafa vatn á hans myllu. Þannig varð hugtakið Besti flokkurinn" til !
Í huga Jóns Gnarrs og félaga hans hlaut nýtt framboð að vera betra en hin, það sagði sig eiginlega bara sjálft. Og þeir voru hreint ekki svo fáir sem samþykktu það. Kjósendur í Reykjavík voru í raun að gefa gömlu framboðunum pólitískan löðrung með því að kjósa Besta flokkinn. Kjaftshöggið átti að kenna þeim að hegða sér betur !
Og kannski hefur einhver dvergútgáfa að siðbótarvakningu átt sér stað ? KANNSKI !!!
Hanna Birna er að minnsta kosti farin og Gísli Marteinn líka, Dagur virðist eitthvað öðruvísi en hann var, ekki alveg jafn sjálfumglaður, kannski farinn að hugsa eitthvað um grasrótina, og Sóley virðist bara blómstra þokkalega - í túni fífla ! Má ekki telja þessi atriði svolítil tilvísunarmerki um einhverjar jákvæðar breytingar ?
Og svo er Gnarrinn sjálfur að kveðja sem ef til vill er stærsta breytingin til betri siða þegar á allt er litið. Þegar hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta, sagði hann í ópólitískri hreinskilni sinni ýmislegt sem pólitískt séð hlýtur að teljast athyglisvert. Hann sagði að Besti flokkurinn hefði í raun aldrei verið flokkur, heldur miklu frekar ákveðið hugarástand og ég hygg að þessi umsögn hans feli í sér býsna glögga greiningu á því sem hann var að fjalla um. Jón Gnarr ætti að vita hvað hann er að tala um þegar hann talar um það sem hann sjálfur var potturinn og pannan í !
Skilgreint áframhald mála á svo víst að verða það, að fylgjendur Besta flokksins snúi stuðningi sínum að Bjartri framtíð en hugtakið Besti flokkurinn falli niður. Það var auðvitað ljóst að það hugtak átti sér enga bjarta framtíð í höndum nýrrar forustu flokksbrots sem þegar er farið að stikla nokkuð kerfisbundið um stíga gömlu flokkanna. Björt framtíð gat því ekki verið Besti flokkurinn og Besti flokkurinn gat ekki átt sér bjarta framtíð úr því sem komið var. Samruninn verður því líklega kostalítill af beggja hálfu og því ekki hægt að gera út fyrir kosningarnar með einhverjum slagorðum í stíl við eftirfarandi áróðursvísu :
Þó kvalið fólk af kerfis spjöllum
kvarti í samtíð,
Besti flokkurinn býður öllum
Bjarta framtíð !
En sem sagt, það liggur fyrir að Jón Gnarr er hættur í borgarmálapólitíkinni og vonandi finnur hann sér einhvern stað þar sem gagnsemi hans verður viðurkenndari en á fyrri starfsvettvangi. Það er engin sérstök ástæða held ég fyrir einn eða neinn að vera beinlínis illa við manninn, enda er það hverjum einstaklingi til sóma þegar hann játar það blátt áfram að hafa álpast inn í aðstæður þar sem hann á ekki heima, svo best er líklega að óska honum bjartrar framtíðar í einhverju hlutverki sem hann ræður við !
En þó einhver hreinsun eigi sér stundum stað á pólitískum vettvangi, er alltaf spurning hversu raunhæf og endingargóð hún verður og þá ber meðal annars að horfa til nýrra frambjóðenda og hvað þeir hafi til brunns að bera. Og ég verð að segja að mér líst ekki vel á þá sem virðast vera að koma þar inn af hálfu sjálfstæðisflokksins, flokksins með litla upphafsstafnum !
Og þar má kannski bæta því við, að þegar nýr ættliður virðist eiga að taka við af gömlum við klíkuborð flokksins, er tilboð þeirrar nýliðunar í hæsta máta umdeilanlegt. Það mætti líkja því við að skipt sé um varðhund en áfram sé verið að gæta nákvæmlega sömu hagsmuna í þrengsta skilningi. Þar sem sjálfstæðisflokkurinn er jafnframt íslenska teboðshreyfingin, er kannski skiljanlegt að fram komi þar einhver íslensk Sarah Palin og bjóði sig til forustu, en það er líklega flestum fyrir bestu að það framahopp nái ekki lengra !
Augljóst virðist út frá þeirri stöðu sem er að skapast og skýrast, að atgervisbirgðir í borgarstjórnarflokki íhaldsins eru hreint ekki að aukast og því hverfandi líkur á því að flokkurinn drýgi sitt fylgispund í komandi kosningum. Tímar ofurvalds flokksins í Reykjavík eru liðnir og meirihluti borgarbúa virðist hafa áttað sig til fulls á þeirri gleðilegu staðreynd, að þó sjálfstæðisflokkurinn sígi og dali þarf borgin alls ekki að gera það líka. Það eru nefnilega fullar forsendur fyrir lífi í Reykjavík þó sjálfstæðisflokkurinn komi þar hvergi við sögu og meira að segja betra lífi, og það á reyndar við um Ísland allt !
Svo lífið mun halda áfram með sveiflum árstíðanna, jafnt í veðri sem pólitík. Dagur nýr tekur við af þeim sem á undan fór - með nótt á milli, og alveg mætti það svo sem sannast áþreifanlega eftir næstu borgarstjórnarkosningar - því vonandi verður staðan betri þá og Sóley ekki ein - í túni fífla !
2.11.2013 | 09:19
Um svigrúmið til sáningar !
Lífið gefur okkur flestum svigrúm til athafna og það er val okkar hvernig við stöndum að verki. Við höfum skyldum að gegna við þá sem á undan okkur gengu og þá sem á eftir okkur koma. Við höfum skyldur við foreldra okkar og börn.
Sumir kynnast aldrei foreldrum sínum, þeir hafa dáið snemma eða einhver afbrigði orðið sem hafa leitt til þess að vegir skildust. Sumir hafa aldrei þekkt föður sinn og sumir aldrei móður sína. Slíkt er oftast hryggðarefni vegna þess að í flestum tilvikum innifelur það missi hluta sem okkur öllum eru nauðsynlegir fyrir vegferðina út í lífið. En sumir eiga foreldra lengi, foreldra sem orðnir eru aldraðir og jafnvel komnir á dvalarheimili. Í mörgum tilfellum virðast þeir svo gleymast þar - því miður - , svo að heimsóknir strjálast og falla jafnvel alveg niður !
En það er mikilsvert mál að eiga móður eða föður eða báða foreldra á lífi. Jafnvel þó heilsa þeirra kunni að vera orðin tæp og minnið gloppótt , er það viðvarandi náð að eiga enn aðgang að þeim sem leiddu okkur á legg og voru okkur eitt og allt fyrstu árin. Það er þá enn hægt að vera það sem hönd er hendi og fótur fæti.
Ég las einu sinni sögu. Hún var um mann sem hét Henriksen, hann var auðugur og átti stórt og gott heimili og það sem meira var góða fjölskyldu, eiginkonu og nokkur börn. Hann sat eitt sinn í stofu sinni ásamt konu sinni og börnum. Sigga litla sat hjá pabba sínum og var að lesa í barnablaði, Alma var að klippa út pappírsmyndir en Mími og Óli fylgdust hrifin með. Nei, sko gamla manninn með langa skeggið !" sagði Óli. Hann situr og er að lesa í Biblíunni. Mér finnst hann vera svo líkur honum pabba !"
Ja, Óli, hvað þú ert heimskur !" sögðu litlu systurnar hlægjandi. Pabbi er þó sannarlega ekkert líkur þessum gamla karli, með hvítt hár og skegg og djúpar hrukkur í andlitinu." En pabbi getur nú samt orðið líkur honum þegar hann er orðinn gamall, eins og afi," svaraði Óli litli ; og aumingja pabbi minn þá !"
Því segirðu þetta ?" spurði Alma. Hversvegna kennirðu svo mikið í brjósti um pabba þá ?" Jú-ú," svaraði Óli hægt og hugsandi, því að þá verður pabbi að sitja einn í herberginu sínu eins og afi situr nú aleinn í sínu herbergi, við þröngan og ljótan stíg inni í borginni, og hefur engan nema Maríu þvottakonu til að sinna um sig."
Tárin komu fram í augun á Óla litla við umhugsunina um það hve bágt pabbi hans mundi þá eiga. En sú vitleysa í þér Óli ! Heldurðu að við látum hann pabba okkar vera einan þegar hann er orðinn gamall ?" sagði Alma. Ég hugsa að við verðum hjá honum þá alveg eins og núna."
En Óli hristi bara höfuðið og svaraði hugsandi: Ónei, sjáðu til, þegar við erum orðin stór og búin að eignast börn, kærum við okkur víst ekkert um að heimsækja pabba, ekki fremur en hann og mamma hirða nú um að koma til afa. En María gamla segir að afi sé ævinlega glaður þó að hann sé aleinn því að hann hafi Guð hjá sér og Biblíuna sína. En það getur pabbi ekki því að hann segir sjálfur að hann hirði ekkert um slíka hluti, og þess vegna hlýtur honum þá að líða enn verr en afa nú !"
Henriksen hafði setið og verið að lesa í dagblöðunum. Hann tók eftir samtali barnanna og fölnaði af geðshræringu. Svo reis hann á fætur og fór að ganga um gólf, fremur órólegur að sjá. Um kvöldið átti hann langt samtal við konu sína. Og nokkru síðar fór hann til borgarinnar og sótti gamla föður sinn og flutti hann heim á hlýja og góða heimilið sitt. Þar fékk nú afi gamli sólríkt og fallegt herbergi og tíðar heimsóknir barna sinna og barnabarna. Og hann var svo hjartanlega glaður að hann fórnaði oft höndum og þakkaði Guði. Og marga fallega söguna fékk Óli litli blessaður að heyra hjá honum afa sínum.
En pappírsmyndin sem Óla fannst vera svo lík pabba sínum, hún var sett á skrifborð föður hans og ef einhver spurði hvers vegna hún væri látin vera þar, svaraði Henriksen því til að þessi mynd hefði flutt sér þann boðskap sem verða skyldi honum til blessunar um tíma og eilífð !
Þessi saga gerist náttúrulega í allt öðrum tíma en þeim sem æðir með tillitsleysi tíðarandans um traðir í dag, en hún segir samt frá hlutum sem ættu að hafa sitt að segja fyrir mannlíf á öllum tímum. Er ekki eitthvað sem vantar á að við sinnum skyldum okkar, þurfum við ekki að skoða þau mál aðeins betur, erum við að gleyma einhverju eða einhverjum - í hraðflugi tímans ?
Erum við að glata svigrúmi sem við höfum haft til að endurgjalda kærleiksgjafir sem okkur hafa verið gefnar á liðnum árum ? Vitum við hvar við erum stödd í lífinu og hvað okkur ber að gera öðru fremur ? Gleymum við kannski öldruðum foreldrum og sinnum þeim ekki ?
Ef við lifum lengi getum við orðið aldraðir foreldrar og hvaða leiðsögn höfum við gefið börnum okkar varðandi þá stöðu mála ? Verðum við ein og yfirgefin, kannski gleymd á góðum stað, eða njótum við áfram samvista við ástvini í gegnum hlýjar heimsóknir og kærleiksfullt samband ?
Gleymum ekki mannskyldum okkar meðan við erum og heitum, notum svigrúmið sem okkur er gefið til að inna þær af höndum með trúverðugum hætti. Sinnum foreldrum, vinum og vandamönnum eins og okkur ber að gera og gerum samfélag okkar betra fyrir vikið. Munum það, að öll uppskera samskipta manna á milli fer eftir því hvernig sáð hefur verið !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 57
- Sl. sólarhring: 105
- Sl. viku: 626
- Frá upphafi: 365524
Annað
- Innlit í dag: 53
- Innlit sl. viku: 538
- Gestir í dag: 53
- IP-tölur í dag: 51
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)