Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Um spurningar dagsins og hrunvalda hagsins !

Spurningar dagsins geta löngum verið margar og hér er ein af þeim :

Hvað er hinn sérlegi saksóknari að gera, hvað hefur komið út úr vinnu hans hingað til og hvers er að vænta í þeim efnum ?

Sumir eru bjartsýnir að eðlisfari en kannski ekki ýkja raunsæir. Bjartsýni er oft góð en hún má ekki spilla fyrir eðlilegri sýn á stöðu mála. Og sýn okkar á starf hins sérlega saksóknara þarf að vera raunhæf til þess að við getum skilið orsakasamhengi hlutanna og áttað okkur á því hvað er raunverulega í gangi.

Og ég verð að segja, að eftir að hætt var að minnast á rannsóknarskýrslu þingsins, hef ég talið að litlar sem engar væntingar þyrfti að hafa varðandi hina svokölluðu opinberu tiltekt á hlutunum.

Hlutverk hins sérlega saksóknara  og yfirlýst rannsóknarviðvera, er að mínu mati aðeins til þess að láta fólk halda að eitthvað sé verið að gera í málunum. En það hefur líklega aldrei staðið til að nein hreinsun verði gerð, það á bara að breiða nýja silkimottu yfir kerfisskítinn og öll hin spilltu hagsmunatengsl !

Og það virðist nánast hafa verið fullkomin pólitísk samstaða um það á þingi, að það verði gert og það eitt. Svo rotin er nú ráðabreytnin !

Líklega verður svo öll spillingarsamtryggingin dulkóðuð í bak og fyrir að þessu sinni, þannig að skuggamálaráðuneyti skrattans geti enn frekar leikið lausum hala hér eftir !

En af hverju er staðið svona að málum, af hverju þurfa yfirvöld þessa lands alltaf að stunda óhreinan feluleik við fólkið í landinu ? Af hverju er þetta litla ríkiskerfi okkar gert að þeirri meinbölvuðu myrkrastofu sem það er ?

Skyldi það geta verið af því að það séu alltaf einhver svikráð í gangi af hálfu stjórnvalda gagnvart almannaheill ?

Sjáum til dæmis verðtrygginguna ! Aldrei hefði svo glæpsamleg lagasetning verið samþykkt af mönnum sem haft hefðu hjarta fyrir velferð fólksins í landinu. Sá gjörningur var að öllu leyti óþjóðlegur sérhagsmuna-samtryggingarverknaður og andstyggileg aðför að borgaralegu jafnræði í landinu. Bölvun hlýtur að fylgja öllum sem standa með slíkum hætti að setningu laga, því með slíkum vinnubrögðum er opnuð leið til víðtækrar kerfisspillingar.

Það er langt síðan sæmilega almenningsvæn ríkisstjórn hefur setið að völdum á Íslandi. Nú má sjá svipaðar doðadruslur til hægri og vinstri. Það virðast ekki finnast neinir hugsjónamenn lengur í stjórnmálaflokkunum sem vilja standa fyrir ræktun lýðs og lands. Þar skríða aðeins um einhverjar leikbrúður með læpuskapsódyggðir sem vilja hafa það gott á alþjóðar kostnað.

Troða upp með tignargráður

tauhálsar í kerfinu.

Valdahítin verri en áður,

veifar falska gervinu !

Já, hvað er hinn sérlegi saksóknari að gera, hvað hefur komið út úr vinnu hans hingað til og hvers er að vænta í þeim efnum ? Væri ekki ástæða til að hver þegn þessa þjóðfélags velti því dálítið fyrir sér ?

Þessi tiltekni embættismaður telur sig kannski á ákveðnum tíma hafa nægar sannanir fyrir sekt þessa eða hins og leggur síðan málið fyrir dómstóla. Og hvað gerist svo ? Dómskerfið sleppir öllum sakborningum út í gegnum gatslitna yfirbreiðslu úreltrar lögskipunar !

Auðmenn landsins sem kepptust um að lýsa því yfir í sjónvarpi rétt eftir hrunið að þeir væru nánast slyppir og snauðir, virðast engu að síður alltaf hafa efni á dýrustu lögfræðingum landsins og þeir vinna sýnilega af mikilli alúð og velþóknun fyrir þessa skjólstæðinga sína. Þeir verja og véfengja, vanda um og vísa öllu á bug og segja sig jafnvel frá málum svo setja verði allt leikverkið upp að nýju !

Og hver borgar brúsana, auðvitað hin sírænda almenningspyngja ?

Einn auðmaðurinn sagði að hann ætti kannski ennþá fyrir Diet Coke, annar sagði klökkur að hann væri ekki ríkur maður í dag, hinn þriðji, alþjóðlegur fjárfestir með meiru, sagði - líklega yfirfullur af þjóðhollustu, - að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að rétta Ísland við að nýju !

Hafa menn heyrt eitthvað af afrekum hans í því sambandi ?

Sumir Íslendingar virðast geta verið með þeim hætti gerðir, að betra væri að hafa hér útlendinga með lágmarks hollustu í garð lands og þjóðar en slíka ættlera !

Sérgæskan hefur á síðustu árum komist á verulega hættulegt stig í þessu landi og veikt samfélagið að sama skapi.

„Lubbar svíkja land og þjóð,

ljúga að hætti greiðum.

Júdasar með silfursjóð

sjást á markaðsveiðum !"

Hinn sérlegi saksóknari gerir auðvitað ekki stóra hluti í hreinsunarstarfi í harðsoðnu sérhagsmuna-samfélagi. Jafnvel þó hann sé allur af vilja gerður til að koma einhverju í verk, mun hann stöðugt reka sig á ósýnilega veggi. Maður getur ímyndað sér hvernig slíku rannsóknarstarfi gæti miðað í hinum ósnertanlegu kerfisdeildum. Þar réðu vafalaust viðbrögðum í einu og öllu, hin tefjandi og dragbítslegu viðkvæði pirraðra möppudýra:

„ Heyrðu karlinn minn, þú þrífur ekkert hér, hér er allt eins og það á að vera !"

„Farðu burt með kúst og klút,

koma þín er bagi.

Hundskast skaltu héðan út,

hér er allt í lagi !"

Þrifnaðurinn má nefnilega ekki verða raunhæfur, því þá verður lifnaðurinn á gráðuvöllum goggunarkerfisins ekki það aðdráttarafl sem hann hefur verið fyrir hið framasjúka forréttindalið, -  hinar þjóðfélagslegu afætur, -  blóðsugur af báðum kynjum, sem fylgja greinilega einu og aðeins einu leiðarstefi í lífi sínu og það er  „EKKERT SKIPTIR MÁLI NEMA ÉG !"

 

 

 

 

 

 

 

 


Hin hlægilega gerviveiðimennska !"

Það er gaman að veiða ! Frá alda öðli hafa karlar haft það í sér að vera veiðimenn. Þeir veiddu, þeir færðu afla sinn heim og fjölskyldur þeirra sultu ekki á meðan veiðimaðurinn stóð fyrir sínu. Þannig gekk það öld af öld, konur söfnuðu allskyns vistum og bjuggu í haginn fyrir heimilið, en karlar stunduðu veiðiskapinn.

Svo kom að því á okkar tímum, að hin arfborna og virðingarverða veiðimennska fór út af sporinu. Hætti að vera það sem hún hafði alltaf verið og varð eiginlega að hlægilegri andstæðu sinni.  Kannski var það vegna þess að karlarnir þurftu ekki lengur að veiða sér og sínum til matar eða kannski vegna þess að konur voru farnar að eiga við veiðiskap og byrjuðu náttúrulega strax á því að vorkenna aumingja fiskunum !

En hvernig sem það orsakaðist er ljóst að einhver undarlegheit fóru af stað. Allt í einu fór veiðimennskan nefnilega að ganga út á það að veiða ekki !

Það er að segja, menn kræktu að vísu önglum sínum í fiskana eftir sem áður, þreyttu þá og drógu að landi, en slepptu þeim svo............... !!!

Hverskonar veiðiskapur var það eiginlega sem sýndi sig í slíku atferli ?

Jú, þetta átti víst að vera miskunnarríkur og víðsýnn gjörningur til að styðja við bakið á Móður Jörð. Það mátti sem sagt krækja í fiskinn, leika sér einhliða að honum, en ekki drepa hann ! Nýja veiðimennskan gekk út á það að gera hlutina svona. Svo voru bara teknar myndir af veiðimanninum með fenginn, til að sanna að eitthvað hefði veiðst, en síðan fékk fiskurinn frelsi sitt og veiðimaðurinn varð hálfu meiri maður fyrir vikið í eigin augum og annarra því hann hafði auðgað umhverfið og náttúruna um einn fisk !

En auðvitað voru margir fiskar svo illa farnir eftir öngla og krækjur, að þeir drápust bara þrátt fyrir alla manngæskuna sem þeim átti að vera sýnd með þessu !

En aðalatriðið hafði samt sem áður verið leyst af höndum, sem sé að sýna að veiðimaðurinn væri meðvitaður um ábyrgð sína gagnvart Móður Jörð og náttúrunni og hegðaði sér samkvæmt því. Og þeir hafa verið ófáir stórlaxarnir sem hafa sleppt stórlöxum með þessum hætti og snúið svo hressir og glaðir og endurnærðir heim eftir „veiðitúrinn" og haldið áfram að reka sínar reykspúandi, mengunar-mögnuðu verksmiðjur með góðri samvisku !

Móðir Jörð er líklega sögð heppin að eiga slíka velunnara að, en veiðimennska með þessum hætti er náttúrulega bara orðin að kjánaskap og vitleysu. Annaðhvort veiða menn eða ekki !

En það eru sjálfsagt margir veiðimenn af þessu tagi sem eru bara fegnir að þurfa ekki að koma með aflann heim, kannski bara af því að þeim þykir fiskur ekki góður matur.  Fyrir slíka er það líklega hið besta mál að sleppa aflanum með þessu móti og láta slá sig til riddara um leið fyrir náttúruvæna hegðun !

Ég hef alltaf haft gaman að því að veiða, en þá meina ég að veiða í alvöru ! Að afla í soðið, að fylgja hinu ævagamla veiðimannshlutverki af fullri trúmennsku.

Nýja veiðimennskan er auðvitað engin veiðimennska sem slík, hún er bara sýndarmennska og hlægilegur leikaraskapur, eitt af mörgum fáránlegum uppátækjum fólks í samtíðinni sem vill láta líta á sig sem einhverja sérstaka hollvini náttúrunnar.

Með sama áframhaldi gæti ég vel trúað því, - að þetta gervi-veiðimennskulið tæki upp á því, eftir svo sem 10-15 ár, að beita sér fyrir því að fiskum verði veitt áfallahjálp eftir þolraun þreytingarinnar, - auðvitað á ríkisins kostnað - svo að þeir verði örugglega búnir að jafna sig áður en þeim er sleppt !

 


Vaxtabætur til venjulegs fólks skornar niður !

Það hefur ekki farið leynt að geysileg vonbrigði hafa gert vart við sig hjá fólki vegna útgreiddra vaxtabóta í ár. Þær eru víða ekki nema brot af því sem þær voru í fyrra og enginn virðist skilja hvað valdi þessu og skýringar liggja ekki á lausu.

Þessar vaxtabætur voru eins og menn vita liður í því að létta skuldabyrði fólks, byrði sem margfaldast hafði vegna óstjórnar og ábyrgðarleysis yfirvalda í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ekki hefur byrðin léttst en nú ákváðu yfirvöld að láta sem þau vissu ekki af henni. En þótt skýringar vanti vitum við svo sem að margt hefur gerst sem breytt hefur stöðu mála frá því í fyrra !

Nýir valda-aðilar eru til dæmis komnir á stjórnarkoppinn og kannski hefur það einmitt eitthvað með þennan niðurskurð vaxtabótanna að gera ? Það er komin ríkisstjórn sem hefur á stefnuskrá sinni - í orði kveðnu - skulda-afléttingu, en áður en af því geti orðið, verða stjórnvöld greinilega fyrst að ná peningum af fólki, því fyrirheitna skulda-afléttingin verður auðvitað borguð af fólkinu sjálfu á einn eða annan veg. Það er venja stjórnvalda af þessu tagi að naga rót þjóðarmeiðsins sem mest, sjúga sem frekast blóð úr hjarta hinnar vinnandi alþýðu.

Þetta stórfellda bakslag með vaxtabæturnar í ár virðist í hrópandi ósamræmi við þá stefnu sem fylgt var síðasta kjörtímabil af fyrrverandi stjórn. En nú eru líklega komin önnur viðhorf til valda, þau ævagömlu sjónarmið forréttindahópa, að réttarbætur til venjulegs fólks eigi hvergi að fá framgang og slíkt sé að fara illa með fjármagn. Silfurskeiðarstjórnin er ekki líkleg til að rétta hlut lægri tekjuhópa í þjóðfélaginu hvað sem líður loforðum og yfirlýsingum um annað.

 „Dylst ei þjóð um dal og strönd,

djúp þar vissan fengin,

yfirvalda hjálparhönd,

hálfu verri en engin !"

Fyrr á öldum fullvissaði páfinn og legátar hans kónga og yfirvöld í Evrópu um að loforð gefin heiðingjum og trúvillingum þyrfti ekki að standa við. Það virðist gilda það sama í dag þegar fulltrúar forréttinda setjast í valdastóla, að loforð gefin venjulegu fólki, almenningi, þjóð, þurfi ekki að standa við. Það sé bara pólitísk nauðsyn að gefa þau svo komast megi til valda !

Síðasta ríkisstjórn gæti með réttu kallast vaxtabótastjórnin í samanburði við þá ríkisstjórn sem nú situr og stefnir fyrst og fremst að því að hygla forréttindahópum eins og gert var allan Davíðstímann og leiddi til hruns og þjóðarógæfu.

Í leiðara Akureyrar vikublaðsins í þessari viku fjallar ritstjórinn um frussandi ofstæki samtímans og þar stendur:

 „ Það hefur lítið gott gerst milli þeirra sem bera sök á efnahagshruninu hér á landi árið 2008 og hinna sem bera byrðar hrunsins á blóðugum öxlum ; íslenskum almenningi. Uppgjörinu er enn ólokið. Því er alltaf frestað. Ekki bara á Landsfundi sjálfstæðisflokksins heldur alls staðar þar sem ábyrgðin er mest. Óháðar rannsóknarskýrslur eru rakkaðar í svaðið, spunameistararnir sitja í æðstu stólum. Ritstjóri Morgunblaðsins gjammar látlaust í átt að þeim sem ekkert hafa til sakar unnið, svo sem faglega hlutlægra fréttamanna Ríkisútvarpsins. Auðvitað eru frávik, alltaf má finna útlaga í öllum hópum og stéttum en sjái Davíð Oddsson eina frétt sem honum er ekki að skapi stimplar hann alla fréttamenn sem einhver vinstri fífl. Og Vigdís Hauks lærir af. Ætlum við að láta ritstjóra Morgunblaðsins komast upp með að fella okkur fyrst efnalega og svo aftur vitsmunalega ?"

Þetta er óvenju skeleggur leiðari og einkum athyglisverður fyrir það að ritstjórinn þorir að anda á frjálshyggjupáfann Davíð Oddsson og kallar málflutning hans frussandi ofstæki sem beri vitni um botnlausa heift.

En nú eru menn Davíðs Oddssonar aftur komnir til valda, sjálfstæðismenn tveggja flokka, sem eru áreiðanlega einhuga í því að rýra hlut almennings í öllu eftir því sem þeir geta. Hversvegna kýs fólk yfir sig sama helsið aftur og aftur ? Hversvegna trúir það lygum frekar en sannleika ?

Vaxtabóta-niðurskurðurinn er ábending um hvert kerfið stefnir. LÍÚ er allt annað en venjulegt fólk. Peningar eru ekkert mál þegar slíka aðila vanhagar um fyrirgreiðslu, en venjulegt fólk verður flegið og svikið. Í augum silfurskeiðarstjórnarinnar er það áreiðanlega sjálfsagt mál að níðast á venjulegu fólki og hafa af því allar leiðréttingar. Slík stjórnvöld á að senda út á sextugt djúp og það sem fyrst !

„Mæld er neyð á miskavog,

mörg þar eyðist fórnin.

Situr gleið við svikatrog

silfurskeiðarstjórnin !"

 

 


Kvittað fyrir sérborgaralega sálgreiningu !

„Einn með lyndis lausan merg,

lífs við æfða skreytni,

ristir sína rún í berg

ráðasmárrar breytni !"

Fyrir nokkru varð mér það á að skrifa um mál sem átti víst að vera tabú ! Það er reyndar nokkuð sem kemur oft fyrir mig, því ég ber litla virðingu fyrir launhelgum, hvort sem í hlut eiga frímúrarar eða aðrir sem vilja fremja sitt í leynum. Þetta varð til þess að einhverjir samborgarar mínir hneyksluðust á mér á fésbók og kannski víðar og er það í góðu lagi mín vegna.

Ég er hinsvegar ekki á fésbók og því hef ég ekki séð þessar umsagnir, en tek það fram að fólki er velkomið að gera allar þær athugasemdir við skrif mín sem geta hentað innræti þess og eðlisfari. Það er réttur minn að hafa mínar skoðanir og tjá þær og aðrir mega auðvitað hafa sínar skoðanir og tjá þær á sama hátt.

En einn góður vinur minn vakti nýlega athygli mína á nokkrum umsagnarorðum á fésbók, þar sem ævintýramaður nokkur, sem er reyndar sambæjarmaður minn, geisar dálítið út af skrifum mínum um hið staðlæga tabú-mál. Ég verð eiginlega að fara nokkrum orðum um það efni, kannski bæði í gamni og alvöru. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart þó að viðkomandi maður sem farið hefur holu í höggi, vilji verja það sem hann vill kannski kalla á sínu máli árás á golfparadís ( 5% ) Skagastrendinga !  En viðbrögð hans byggjast greinilega á skynvillu gagnvart þeirri ádeilu sem í grein minni fólst og beindist að allt öðru !

En auðvitað þurfti ég ekki að búast við því að umræddur maður skildi hvað ég væri að fara þar sem hugsanagangur hans er áreiðanlega víðs fjarri mínum. En samt finnst mér afstaða hans vera dálítið hláleg, einkum í ljósi þess að hann hefur talið sig vera jafnaðarmann og ætti því líklega að hugsa meira um hagsmuni þessara 95% íbúa Skagastrandar sem koma lítið sem ekkert út á golfvöll - og heildarhagsmuni almennt. En þar sem ég hef nú alltaf talið mig vita að blessaður maðurinn væri í raun sjálfstæðismaður, furðar mig svo sem ekkert á því þó sérhagsmunirnir liggi hjarta hans nærri !

Eitt það skemmtilegasta við skrif þessa manns er að hann gerir tilraun til að sálgreina mig. Sálgreining hans felst að mestu í eftirfarandi niðurstöðum  :

 „Ég á að vera af manngerð sem er á móti framförum. Ég á að vera í hópi miðaldra, vansælla karlmanna sem hafa einangrast frá samfélaginu og hafi rörsýn á allt og alla. Ég á að vera geðillur og láta það bitna á öðrum og svo á ég að vera dauðhræddur við mitt nærsamfélag vegna þess að ég hafi þá trú að allir sitji á svikráðum við mig !!!"

Þarna hef ég sem sagt fengið að vita óumbeðið hvaða álit þessi samborgari minn hefur á mér. Það er ekki lítilsvirði að fá að vita hvar maður hefur mann sem yfirleitt engir vita hvar þeir hafa.

En nú ætla ég til gamans að fara ofurlítið yfir þessa sálgreiningu, sem er auðvitað sérborgaraleg í eðli sínu og inntaki eins og höfundurinn.

Fyrsta umsögnin hefur alltaf verið mjög mikið notuð gegn mönnum sem gagnrýna elítu-vinnubrögð, gagnrýna valdaklíkur og alla misnotkun lýðræðisins. Þá eiga menn að vera á móti framförum ! Svei mér þá ef þetta er ekki bara kennt á flokksnámskeiðum í Valhöll og kannski hefur ævintýramaðurinn okkar einhverntíma sótt vítamínin sín þangað ?

Ekki held ég nú að ég sé vansælli en gengur og gerist í þessu vansæla þjóðfélagi okkar, en vissulega hefur árunum fjölgað, þó ég sé ennþá aðeins yngri en sálgreinirinn minn og verði það líklega áfram. Hvað snertir ætlaða rörsýn mína, tel ég mig alla ævi hafa lagt mig fram um að lesa um mál, fjalla um mál og skilja mál. Ég hef haft og hef enn samskipti við fjölda fólks, innanlands sem utanlands, og tel mig hafa lært mikið af þeim samskiptum. Hugsast gæti því að maður sem hefur líklega rörsýn á lífsstíl 5% Skagstrendinga gæti farið flatt á því ef þekking okkar á mönnum og málefnum væri borin saman !

Hvað geðslag snertir tel ég mig lengstum hafa verið nokkurn jafnaðarmann á því sviði, enda reiðist ég sjaldan, en ef ég reiðist mætti vel ætla að það myndi ekki fara framhjá mörgum í nærsamfélagi mínu. En það skal líka sagt, að Skagstrendingur er ég og Skagstrendingur vil ég vera, en mér er ekki alveg sama hvað gert er úr Skagaströnd í almennings nafni og það kannski af 5% íbúanna ! Aldrei hef ég setið á svikráðum við neinn mann og hef aldrei kunnað að meta fals í samskiptum, en það er sjálfsagt að játa það að traust mitt á yfirvöldum þessa lands hefur fallið jafnt og þétt á síðustu árum og lái mér það hver sem vill.  

Sálgreinirinn minn á nú að þekkja mig betur en hann virðist þora að kannast við, því í gamla daga þótti honum sem fleiri yfirlýstum krötum að ég væri einna leiðinlegasti maðurinn í Alþýðubandalaginu vegna þess að það væri ekki hægt að semja við mig ! Og um hvað átti að semja ? Auðvitað um málamiðlanir, auðvitað um afslátt á því sem ég taldi vera rétt. Ég vildi ekki semja um slíkt og þannig hef ég alltaf verið. Það er varla von að ævintýramenn sem alltaf hafa flotið á málamiðlunarhafinu mikla skilji slíka afstöðu. Og þegar menn eru ekki málamiðlunarhæfir að mati slíkra sérgæðinga, virðist eina ráðið að segja að þeir séu á móti framförum. Ég hef svo sem fengið að heyra það áður !

Ég hef oftastnær gaman að skoðanaskiptum og hefði þessi meinti laumu-sjalli sem ég tel mig nú þekkja allvel, en tek skiljanlega ekki mjög alvarlega, komið og bankað upp á hjá mér og viljað ræða málin, hefði ég sannarlega boðið honum í bæinn í kaffi og vafalaust hefðu hressilegar umræður getað fylgt á eftir. En þess í stað kaus blessaður maðurinn að reyna að sálgreina mig á fésbók !

Ég verð nú líklega að þakka fyrir þá fræðslu sem ég hef fengið í gegnum þá sálgreiningu, ekki um mig, heldur um persónugerð viðkomandi manns ; en ég verð jafnframt að taka það skýrt fram, að ég mun hér eftir sem hingað til, tjá mig um það sem mér þykir þörf að fjalla um, hvað sem líður sálgreiningum manna sem virðast eiga erfitt með að þola það að aðrir hafi skoðanir !

 

 


Nokkur orð um neytendamál og lýðræði !

Jóhannes Gunnarsson hefur lengi leikið hlutverk Ralph Naders í málum íslenskra neytendasamtaka. Hann er búinn að vera svo lengi í forustu á þessu félagslega sviði, að enginn virðist muna til þess að þar hafi einhver annar lagt hönd á plóg. Rödd Jóhannesar hefur hljómað í fjölmiðlum í áraraðir og hann hefur varað við þessu og hinu, alvarlegur í bragði og oft með miklum áhersluþunga. En hann virðist yfirleitt láta þar við sitja. Svo heyrist ekki meira og heldur lítið gerist.

Einhvernveginn finnst manni að svo reynslumikill maður, sem Jóhannes hlýtur að vera eftir allan þennan starfstíma, eigi að geta bent á einhverjar góðar leiðir til lausna þegar neytenda-vandamál eru annarsvegar, en ekki virðist hafa farið mikið fyrir því !

Og þó að Jóhannes hafi líklega ekki verið yfirmáta hálaunaður maður í starfi sínu, allavega miðað við fyrirhruns gengi, er það samt æskilegt að skilgreindur árangur mælist í gegnum störf hans eins og annarra og sé almenningi ljós.

Frjáls félagasamtök geta verið mjög öflugur vettvangur fyrir samfélagslegt umbótastarf, sérstaklega þegar valddreifing og góð félagsleg breidd er til staðar og maður til að taka við af manni. Stundum er hinsvegar staðan sú þar eins og í sjálfu stjórnkerfinu, að sömu menn stjórna málum allt of lengi og verða vallgrónir í sínum valdastólum.

Neytendasamtökin virðast í margra augum helst vera einhverskonar hreiður fyrir Jóhannes Gunnarsson og ef svo er, er það ekki nógu gott. Þau voru eiginlega ætluð til gagns og gæða í víðari skilningi.

Líklegt er - að ef einhver yfirmáta skilningsríkur neytandi væri spurður um Neytendasamtökin gæti viðtal við hann sem best innifalið eftirfarandi efni:

„Hvað eru Neytendasamtökin ?"

„Þau eru Jóhannes Gunnarsson ! "

„Til hvers eru Neytendasamtökin ? "

„Til að skapa Jóhannesi Gunnarssyni framfærslu !"

„Er þörf á Neytendasamtökunum ?"

„Jóhannes Gunnarsson þarf að lifa eins og aðrir ! "

 

En Neytendasamtök þurfa auðvitað að vera eitthvað meira en einn maður, jafnvel þó hann kunni hugsanlega að vera nokkuð góður. Og því er löngu kominn tími til að hrist sé upp í þessum samtökum og hætt við þetta æviráðningarkerfi sem þar virðist vera við lýði.

Það þarf að gefa Jóhannesi Gunnarssyni frí svo hann geti notið þess að vera almennur neytandi í þessu landi og væntanlega glaðst í þeirri stöðu yfir árangri eigin verka.  Eftir áratugalangt starf hans í formennsku Neytendasamtakanna  skyldi maður ætla að það ætti að vera orðið sæmilega gott hlutskipti að vera almennur neytandi á Íslandi !

Jóhanna Sigurðardóttir sagði eitt sinn sem frægt var, að hennar tími myndi koma og það varð. En tíminn stendur aldrei í stað og tími einstaklinga í embættum og valdastólum má ekki vera of langur. Menn þurfa að geta hugsað eins og Nelson Mandela : „ Nú er minn ráðsmannstími liðinn og komið að öðrum að taka við !"

Hæfileikaríkir einstaklingar eru víða til og slíkir geta komið mörgu góðu til leiðar um tíma, en það er aldrei gott að menn festist til langframa í ákveðnum embættum og fari að líta á þau sem ævitryggt hlutskipti.

Bitið vill oft fara nokkuð fljótt úr eggjum framtaksviljans og athafnaseminnar þegar menn leggjast þannig við stjóra og nýir vendir sópa best.

Það skiptir engu hvort við tölum í þessu sambandi um sjálft forsetaembættið, formennskuna hjá Neytendasamtökunum eða bara sveitarstjórastöðuna á Skagaströnd !  Það er bara ekki af því góða að menn festist í hlutunum til langframa og lifi þar bæði sjálfa sig og aðra. Endurnýjun er nauðsyn með vissu millibili og lýðræðinu er enginn greiði gerður með embættislegri æviráðningu einstaklinga.

Neytendur ávaxta lýðræðisins þurfa jafnan að eiga aðgang að tiltölulega ferskum afurðum, en ferskleiki áratugagamals setuliðs í embættum er auðvitað löngu horfinn og bragðgæðin þar oft orðin í staðinn beiskju hlaðin !

Við þurfum öll sem eitt að geta búið við næringarríkar aðstæður sem neytendur lýðræðis á samfélagslegum vettvangi, og þessvegna þurfum við að gera okkur fulla grein fyrir því að í stöðnuðu lýðræði felst engin hollusta fyrir land og lýð.

Mosagrónir embættismenn þurfa að víkja svo ferskleikinn fái að ríkja !


Veltikefli í vinsældaleit !

„Rýrt er efni í roði þunnu

rop þó vaxi í karranum.

Bylur hátt í tómri tunnu,

til að mynda Gnarranum !"

Flestir menn hafa hingað til haft þá sómatilfinningu að blanda ekki Jesú Kristi inn í lágkúruleg sjónarmið hins daglega kjaftaþings með þeim hætti sem Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur gerði nýlega á erlendum vettvangi !

Stundum búast menn að vísu að heiman í fullmiklum flýti þegar um ferðalög er að ræða, og þá vill hitt og þetta verða eftir. Kannski varð sómatilfinningin eftir heima í þetta skipti hjá Jóni Gnarr því stundum getur ýmislegt verið svo smátt að vöxtum að auðvelt sé að missa það frá sér !

Jón Gnarr er sjáanlega maður sem er þannig gerður, að hann ætti ekki að þurfa að koma á óvart með það sem hann lætur út úr sér, jafnvel þó það sé þess eðlis að það myndi koma á óvart frá flestum öðrum. Stefnumark hans virðist nefnilega fyrst og fremst vera að vekja á sér athygli með einum eða öðrum hætti. Ein helsta leið hans til þess hefur sýnilega verið að viðra sig upp við þrýstihópa sem eru kannski ekki svo ýkja fjölmennir en hafa mjög hátt og láta mikið á sér bera. Jón Gnarr fellur greinilega eins og flís við rass þegar um slíka hópa er að ræða, enda líklega sinnið og skinnið þar til húsa í öllum skilningi.

Það býr margt í borg eins og Reykjavík og það ber mikið á ýmsum svonefndum menningarhópum þar sem sumir hverjir virðast hafa það eitt á stefnuskrá sinni að níða niður allt sem öðrum er heilagt eða einhvers virði. Það virðast nefnilega sumir þannig hugsandi í sinni uppskrúfuðu menningarviðleitni að frjálslyndið eigi að vera takmarkalaust, aðeins þannig sé það ekta ! Fólk með þessum hugsunarhætti virðist oft og einatt vilja tengja sig við hluti sem lengstum hafa ekki þótt sérlega eftirsóknarverðir til viðmiðunar, eins og þegar það til dæmis spyrðir nafn borgar sinnar við Sódómu.

Og nú um skeið hafa Reykvíkingar haft borgarstjóra sem virðist fylgja skoðunum þessara hópa að öllu leyti. Hann talar sem borgarstjóri á erlendum vettvangi með þeim hætti að það getur hvorki talist honum til sóma né borginni sem hann er fulltrúi fyrir. Kristur sjálfur getur ekki í hans huga hafa verið annað en hommi fyrst hann var ekki að flangsast utan í kvenfólki !

Það er ekkert nýtt í umræðunni að aðilar af hálfu homma og lesbía komi fram með yfirlýsingar um að ýmis stórmenni Sögunnar hafi verið samkynhneigðir einstaklingar, en hingað til hefur Kristur þó verið látinn að mestu í friði. En svona hegðar þetta fordómalausa fólk sér þegar það segist vera að berjast gegn fordómum annarra ! Eignar látnum einstaklingum kynhneigð sem engar sannanir eru fyrir að verið hafi til staðar, tekur sér þann rétt og brýtur á mannréttindum látins fólks og minningu þess !

Reykvíkingar kusu Jón Gnarr og hans fylgifiska yfir sig á sínum tíma til að sýna að þeir hefðu skömm á hinum frambjóðendunum. Jafnvel hann átti að vera betri en þeir. Þannig var það og flestir vita það og viðurkenna. Gnarrinn var ekki með neina stefnu, hann sat bara með órætt glott á vörum og vann sinn kosningasigur út á það. Ef hann hefði tjáð sig eitthvað að ráði hefði hann skiljanlega tapað á því. En vegna þess að hann sagði svo lítið, talaði hann minna af sér fyrir vikið !

Við Íslendingar eigum spakmæli yfir flestalla hluti og eitt þeirra hljóðar þannig :  „Lengi getur vont versnað"! Jón Gnarr hafði ekki lengi setið í embætti borgarstjóra þegar æði margir sem kusu hann iðruðust gerða sinna. Þeir sáu að þó hinir frambjóðendurnir hefðu vissulega verið slæmir þá var Gnarrinn verri ! Hann fór að birtast þeim sem einhverskonar margflókinn persónugervingur óljósra viðhorfa í flestum málum og því má segja að  misjafn Dagur og breytileg Nótt hafi tekið völdin í borg óttans og hlutföllin þar á milli hafi orðið og séu býsna ójöfn !

Jón Gnarr hegðar sér oft eins og trúður og hefur sýnilega gaman að því og telur sig jafnvel geta skemmt öðrum með því. En með afskiptum sínum af pólitík er hann hinsvegar afskaplega vafasamt fyrirbæri og ólíklegur til afreka á því sviði. Hann virðist þegar hafa spillt því tækifæri sem honum gafst þar, með þeim hætti að varla verður um bætt. Sumir telja reyndar að hann sem pólitíkus sé bara á undan sinni samtíð, hann sé eins og pólitíkusar verði almennt eftir 10-15 ár. Þá verði loddarar í aðalhlutverkum í öllu stjórnmálalífinu ! Hver veit, kannski verður það svo, og reyndar bendir ýmislegt til þess að svo verði. En það er vandamál komandi tíðar en Jón Gnarr virðist hinsvegar vaxandi samtíðarvandamál þeirra sem hann á að vera fulltrúi fyrir.

Reykvíkingar eiga sér borgarstjóra sem - er að verða og er jafnvel þegar orðinn -kunnur fyrir nokkuð sem margir myndu kalla „ótilhlýðilega framkomu" ! Maðurinn virðist hafa mikla þörf fyrir að tjá sig - beinlínis til að hneyksla !

Það er ef til vill ekki hægt að sakast svo mikið við hann fyrir það að honum sé ekkert heilagt. Skýringar á því liggja vafalaust í ýmsum hlutum í fortíð hans og ferli fram á þennan dag. Hitt er öllu verra þegar maður sem telur sig líklega fordómalausan, virðist hafa svo mikla tilhneigingu sem raun ber vitni, til að gera lítið úr því sem öðrum er heilagt. Í því framferði sýnast mér koma fram fordómar sem mæla ekki með þeirri innréttingu sem viðkomandi persóna hefur.

Ég hefði haldið að Jón Gnarr ætti að halda Jesú Kristi utan við sínar pælingar. Það virðist nefnilega ekkert benda til þess að hann hafi lifandi mannskilning á þeim hreinleika sem býr í eðli Krists og anda og sem hefur verið birtugjafi á vegi allra kristinna kynslóða í þessum heimi síðustu tvö þúsund árin.

Jón Gnarr er sýnilega með hugann við allt annað og ólíkt heimslegra sjónarmið í sínum þankagangi og pælingar hans eru þess eðlis að þær gera hann síður en svo að meiri manni eins og yfirlýsingar hans oftar en ekki sanna best. Það er einlæg von mín að borgarstjóratíð hans verði senn á enda og jafnframt el ég þá von í brjósti, að Reykvíkingar sem aðrir kjósendur í þessu landi, átti sig til fulls á því - að „lengi getur vont versnað" og kjósi ekki yfir sig ómerkinga vegna þess eins að aðrir séu svo slæmir !

Sérhvern valkost í kosningum ber að vega og meta í ljósi þess hvað hann hefur fram að færa og hvort það sé eitthvað sem orðið geti til gagns og gæfu fyrir samfélagið í heild. Gagnrýnin hugsun og greining af því tagi gæti til dæmis sýnt kjósendum það með afgerandi hætti - að „Besti flokkurinn"  væri hreint ekki besti flokkurinn þegar allt kæmi til alls !

 


Rokkið kom í ljósengils líki !

Þegar Elvis Presley kom fram á sjónarsviðið upp úr miðri síðustu öld, vakti hann sterk hughrif, einkum meðal ungu kynslóðarinnar sem var sú fyrsta sem ólst upp í skugga kjarnorkuógnarinnar. Unga fólkið sem vissi ekki nema að heimurinn væri á hverfanda hveli, vildi umfram allt fá að njóta einhvers frelsis í lífi sem var ef til vill ekki til langframa.

En hömluleysið sem fylgdi hinum nýju lífsháttum varð svo kröftugt að ekkert stóðst því snúning. Aginn í samfélaginu lét undan, foreldravald gufaði upp og með því að mestu virðingin fyrir reynslu þeirra sem eldri voru.

Og hetjurnar sem sköpuðust við þessa uppreisn urðu söngvarar, tónlistarmenn og kvikmyndastjörnur, fólk sem túlkaði lífið í leik og tónum í villtri og seiðandi sveiflu augnabliksins, fólk sem var miklu nær því að vera túlkunarmyndir ímynda en veruleika.

Hin dökka heimsmynd, grá fyrir járnum, vék úr hugum unga fólksins og það varpaði sér í gleðskaparvímuna af lífi og sál og afleiðingar urðu æði oft hörmulegar. Drykkjuskapur, eiturlyfjaneysla, hraðakstur, ofbeldi og stundum þetta allt í bland, setti stórt strik í líf ungs fólks, ekki síst í Bandaríkjunum, sem varð svo ávísun á svipaða hluti í öðrum löndum.

Og idolin hrundu hvert af öðru fyrir eyðingarmætti þeirra afla sem þau voru birtingarmyndir fyrir, James Dean fórst 24 ára í hraðakstri, Janis Joplin dó 27 ára vegna eiturlyfjaneyslu, Jim Morrison fór 27 ára sömu leiðina, Jimi Hendrix 27 ára sömu leið og Kurt Cobain sömu leið 27 ára !

Áfram mætti telja mörg goð af slíku tagi sem brunnu út á nokkrum árum og voru bókstaflega étin upp af eyðingarmættinum eða sjálfseyðingarhvötinni sem bjó í hömlulausum lífsháttum þeirra og réði alfarið gangi mála.

En Presley sem var í fjöldans augum einn helsti frumkvöðull rokksins og stóra idolið, náði að lifa framyfir fertugt, en sennilega hefur hann ekki haft mikið af hamingjunni að segja og síðustu ár hans munu hafa verið honum þungbær og erfið. Áhrif hans á þá sem á eftir fylgdu voru hinsvegar gífurleg og hafa margir

viðurkennt það með afgerandi hætti.

John Lennon sagði eitt sinn:

„ Ekkert hafði raunveruleg áhrif á mig fyrr en ég heyrði í Elvis. Ef Elvis hefði ekki komið til hefðu Bítlarnir aldrei orðið til ! ´´

Rod Stewart sagði :

 „ Elvis var kóngurinn, án alls vafa. Menn eins og ég, Mick Jagger og allir hinir fetuðum bara í fótspor hans ! ´´

Paul McCartney sagði :

 „ Þegar við vorum lítil börn í Liverpool þráðum við ekkert heitar en að verða Elvis Presley ! ´´

Johnny Cash sagði :

 „ Elvis var svo góður drengur, hæfileikaríkur og heillandi. Hann elskaði ostborgara, stelpur og móður sína. Þó ekkert endilega í þessari röð !´´

Bono sagði :

„ Elvis er eins og stóri hvellur rokksins. Þetta byrjaði allt þar ! ´´

Álíka umsagnir hafa verið hafðar eftir Frank Sinatra og Bob Dylan.

Elvis Presley var kannski í eðli sínu ljúfur mömmudrengur, en hann var notaður sem boðberi tónlistarlegrar nýaldarsköpunar og með persónutöfrum sínum og sindrandi útgeislun ruddi hann rokkinu braut betur en nokkur hinna grófari idola sem á eftir hann komu hefðu getað gert. Hann er því réttnefndur ljósengill rokksins og ef beitan er góð veiðist vel á hana !

Rokkbyltingin var uppreisn gegn skipulagi og öguðum lífsháttum og smám saman varð til lífsstíll sem gekk út á þessa hluti. Og svo var farið að tengja !

Lífsstíllinn krafðist tenginga við jákvæð gildi til að setja hulu yfir það neikvæða sem var þó ráðandi í öllu. Blekkingar af slíku tagi hafa verið stundaðar frá alda öðli með miklum árangri en lygar eiga aldrei samleið með sannleika !

Það hefur til dæmis mörgu verið klínt við kristindóminn sem á í raun litla sem enga samleið með honum og rokkið er eitt af því.

Margt tónlistarfólk spilar svokallað kristið rokk, en auðvitað er ekkert til sem getur heitið því nafni. Það er auðvitað til rokk og þungarokk og eflaust fleiri afbrigði af þessari tónlist, en kristindómur og rokk fara ekki saman.

Boðskapur að ofan verður ekki túlkaður með tónlist sem kemur að neðan !

En samt er það svo, að margt kristið fólk sér ekkert athugavert við rokkið og telur það alveg geta verið forsvaranlega andlega músík og að sjálfsögðu segir það sitt um grundvöllinn sem það gefur sér og viðmiðin sem það hefur !

Það er því ekki að furða þótt kristindómsboðunin sé víða orðin nokkuð lituð af villandi aðskotaefni en röng boðun leiðir aldrei til réttrar viðtöku.

Þó að eitthvað sé fram borið af einhverjum í ljósengils líki er ekki þar með sagt að það sé trygging sannrar lífsblessunar  -  uppskeran mun alltaf sýna hvaðan sæðið er fengið og uppskera rokksins hefur aldrei verið góð fyrir mannlegt líf !

 

 

 


Erum við sjálfbært samfélag eða ekki ?

Eitt af því sem sett hefur afgerandi mark sitt á síðustu tvo áratugi, er sífellt dekur stjórnvalda við fjárfesta. Samfélagið allt, sem á auðvitað fyrst og fremst að reka í samræmi við heildarhagsmuni þjóðarinnar, er sí og æ látið gefa eftir í þeim efnum vegna einhverra auðugra aðila, innlendra sem erlendra, sem krefjast stöðugt verulegrar afsláttarþjónustu ef þeir eiga að leggja peninga sína í eitthvað.

Nú er það svo, að við þurfum að geta litið á ríkið eða þjóðfélagið sem fyrirtæki okkar allra, sem hlutafélag sem við erum allir hluthafar í, sem heilbrigða rekstrar-einingu sem þarf að geta skilað okkur öllum mannsæmandi lífskjörum.

En þá kemur sérgæðingshátturinn fram í sumum með þeim hætti, að þeir vilja nýta afrakstur samfélagsins til að hlaða undir sig og sína og láta aðra vera afskipta. Það hafa verið mynduð félög og flokkar beinlínis í þeim tilgangi að skekkja heilbrigð og réttlát viðmið og í mörgum tilvikum hefur aðilum af sæði sérgæskunnar tekist það ætlunarverk sitt að koma ranglætinu fyrir í kerfinu með ýmsu andfélagslegu ráðabruggi. Þannig komast jafnvel á lagasetningar sem stríða gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar og eru viðurstyggð.

Lög sem þjóna ranglæti og mismuna þegnum þjóðfélagsins eru auðvitað ekki lög sem ber að hlýða. Siðferðileg viðmið taka þar af allan vafa !

Það er líka ein spurning sem krefst afgerandi svars og hún hljóðar þannig :

Erum við Íslendingar í krafti auðlinda okkar til lands og sjávar,  alls þess sem við getum lagt fram sem þjóð, fær um að reka hér sjálfbært samfélag ?

Geta tekjur samfélagsins staðið undir eðlilegum kostnaði við að reka slíkt samfélag á grundvelli velferðar og félagslegs réttlætis ?

Ef svo er, hversvegna er þá alltaf verið að kalla eftir fjárfestingum erlendra aðila hérlendis - fjárfestingum sem oftar en ekki eru beinlínis skaðvænlegar hagsmunum lands og þjóðar ?

Skyldi það geta verið að þeir sem annast milligöngu í þeim efnum fái svo mikið í sinn hlut að það ráði úrslitum ?

Að einhverjir valdaaðilar í ríkiskerfinu eða stjórnmálamafíunni maki krókinn verulega í kringum slík viðskipti ?

Ekki þykir mér ólíklegt að svo sé, því fjármálaspillingaröfl virðast þrífast svo vel hérlendis að það hljóta að vera oft sérlega feitir bitar í þeim potti sem þau fá að hræra í og yfirleitt - að því er best verður séð -  svo til óáreitt !

Menn geta auðvitað horft á þessa hluti með ýmsum hætti, en allra hluta vegna þurfum við að fá úr því skorið hvort við séum sjálfbært samfélag sem getur haldið uppi forsvaranlegum lífskjörum í landinu, í krafti þeirra náttúruauðæva sem landið gefur og þeirrar verðmætasköpunar sem við sem búum hér innum af höndum ?

Við skulum nefnilega gera okkur það ljóst að við verðum aldrei sjálfbært sérhagsmunasamfélag !

Þar sem græðgi ræður verður aldrei neitt sjálfbært. Allt við slíkar aðstæður byggist á því að hafa af og hirða ávinning af öðrum !

Það er því ekki erfitt að skilja að þeir sem jafnan hafa æpt mest eftir erlendum fjárfestingum, hafa alltaf fyrst og fremst verið í hópi þeirra sem eru fulltrúar sérhagsmuna og græðgis-sjónarmiða spillts einkaframtaks í þessu landi !

Og það ættu náttúrulega allir að vita hvaða aðili hefur tekið að sér það hlutverk að vera í öllu varnar og sóknarþing slíkra viðhorfa hérlendis og þannig reynst þessari litlu þjóð við ysta haf mesti bölvaldur sem hér hefur þekkst frá því að sögur hófust.

Nú virðist til dæmis hafinn nýr kafli í sögu sem gæti heitið á endanum „Greifadæmið á Grímsstöðum" og það er skoðun mín að sú saga verði lítill skemmtilestur fyrir íslenska lesendur þegar fram í sækir, að minnsta kosti ekki þá sem hugsa eitthvað af ábyrgð til framtíðar sjálfstæðrar stöðu okkar Íslendinga í landinu okkar.

Oft er það nefnilega svo að byrjunarleikir mála virðast svo saklausir að fæsta rennir grun í hvað á eftir kemur. Þannig var það þegar einn kóngurinn bað um Grímsey fyrir tæpum 1000 árum. Það leit nógu sakleysislega út, en Einar Þveræingur sá og gerði sér grein fyrir hættunni og vakti aðra til vitundar um hana. Það er alltaf þörf að vera á verði fyrir réttarstöðu lands og þjóðar því nógir eru þeir til sem villa á sér heimildir og eru ekki allir þar sem þeir eru séðir !

Öfugsnúin skuldaskil

skapast vegna pretta.

Litla fingur fjandans til

forðast skal að rétta !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 19
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 588
  • Frá upphafi: 365486

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 501
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband