Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014
26.2.2014 | 18:55
"Tækifærissinnuð vinstri-ó-mennska !"
Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvernig á því standi að þeir menn sem byggðu upp vinstri hreyfinguna hérlendis á sínum tíma, hafi verið svo miklu heilsteyptari menn að gerð en þeir sem á eftir þeim komu og þóttust kjörnir til að taka við kyndlinum af þeim. Ef við tökum til dæmis menn eins og Einar Olgeirsson, Brynjólf Bjarnason og Sigfús Sigurhjartarson, sjáum við að þessir menn lifðu í samræmi við hugsjónir sínar og sjónarmið. Það gaf þeim tiltrú og vægi. Þeir hlupu ekki út og suður í málum eins og síðar varð svo algengt, þeir stóðu á sínu og allir vissu fyrir hvað þeir stóðu !
Og það mætti nefna allmarga fleiri af þeirra kynslóð sem stóðu sig engu síður og voru heilir í málum og sjálfum sér samkvæmir. Þeir sem lærðu að starfa undir handleiðslu slíkra manna, stóðu sig líka sæmilega sumir hverjir, en eftir 1960 og aðallega þó eftir 1970 fór eigingirnin og sérgæskan að spila alvarlega inn á sálarlíf margra þeirra vinstri manna sem þóttust þó vera fæddir til að leiða aðra !
Þetta mátti auðveldlega sjá og greina í stigvaxandi mæli á þessum tíma, jafnt í forustu Alþýðubandalagsins sem og í verkalýðshreyfingunni. Ég er hér að tala um þá sem þóttust í raun vera vinstri menn, en á þá ekki við krata, sem hættu flestir að vera vinstri menn fyrir 1960 og voru eftir það að mestu taglhnýtingar íhaldsins með einum eða öðrum hætti !
Eftir 1980 er viðvarandi forusta Alþýðubandalagsins orðin lítið annað en hugmyndafræðileg flatneskja. Þar er enginn maður eftir sem hefur burði til að halda uppi sósíalískum sjónarmiðum og verkalýðstengingin er þá orðin býsna veik. Á þeim tíma breytist Alþýðubandalagið raunverulega í þann krataflokk sem Brynjólfur Bjarnason sá fyrir þegar í byrjun að það myndi að lokum umpólast í. En það var ekki nóg með það, heldur urðu margir, sem í forustu höfðu verið í flokknum, ekki bara kratar, heldur sýnilega mjög tækifærissinnaðir kratar ! Þeir sem í raun vildu halda í sósíalískar hugsjónaáherslur og fyrri viðhorf til verkalýðsbaráttu áttu því brátt engan pólitískan bakgrunn í Alþýðubandalaginu !
Nýju kratarnir sem komu fram í birtingu hins útþynnta Alþýðubandalags, fóru brátt að verða svo aðsópsmiklir sem slíkir, að gömlu tækifærissinnuðu krötunum í Alþýðuflokknum þótti nóg um. Það er þannig mikil spurning hver yfirtók hvern í því sambandi ? Margrét Frímannsdóttir var svo gerð að formanni, enda líklega valin með hliðsjón af því hvernig ástandið var orðið í flokknum og hún rak svo endahnútinn á Alþýðubandalagið, þó það væri að öllum líkindum andlega sálað nokkrum árum fyrr. Þar virtist að minnsta kosti engin hugsjónaglóð til staðar síðustu tíu árin eða svo !
Og nú væri fróðlegt að kanna hvar ýmsir fyrri forvígismenn Alþýðubandalagsins eru staddir í núinu og hvernig þeir hafa ræktað sinn hugsjónalega lífsgarð" á síðustu 15-20 árunum ? Hver skyldi ferill slíkra einstaklinga hafa verið á umræddum tíma og skyldu þeir hafa verið að fást við eitthvað á þessum árum sem hefur haft einhvern samhljóm við fyrri feril og störf ?
Ég er hræddur um að í allnokkrum tilfellum höfum við þar dæmi um sósíalista sem hafa farið á handahlaupum yfir í markaðshyggju, auðsöfnun og brask ! Ég heyrði meira að segja þau orð viðhöfð fyrir skömmu um einn sem gæti alveg átt heima í þessum hópi, sögð um hann varðandi fjölskylduframfærslu og einkahagsmuni, að hann skaffaði vel ? Og í því tilefni þykist ég viss um að svo sé - að viðkomandi maður skaffi vel núorðið !
En hann er samt í mínum huga orðinn vesæll umskiptingur þess sem hann var. En líklega hefur hann aldrei verið heilshugar í þeim málum sem hann talaði fyrir hér á árum áður, enda brotalamirnar hvað það snertir löngu komnar skýrt fram í persónugerðinni. En hann hefur líklega talið sig hafa þroskast, eins og þeir sjálfstæðisflokksmenn segja um sjálfa sig, sem voru vinstri menn ungir en féllu svo í eiginhagsmunahítina og urðu þaðan í frá afskræmi þess sem þeir voru !
Það er enginn vafi á því að tækifærissinnaðir vinstri menn hafa sumir hverjir auðgast með endemum á undanförnum árum, engu síður en hliðstæður þeirra til hægri, og einhvernveginn hef ég nú öllu meiri skömm á þeim fyrir vikið. Það er nöturlegt að sjá slíka menn, með hliðsjón af fyrri ferli þeirra, gengna í bláu björgin, heltekna af sérgæsku og eiginhagsmunapoti, enda þóttust þeir hinir sömu til annars vígðir á sínum tíma !
Heilindi eru sannarlega ekki öllum gefin og fyrrverandi sósíalistar sem skaffa vel" í dag eru að minni hyggju öðrum mönnum fyrirlitlegri, enda eru þeir sem svíkja hugsjónir yfirleitt öðrum líklegri til að geta svikið allt !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook
19.2.2014 | 18:18
"365 konudagar á ári" ?
Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með umræðu dagsins og hlusta á auglýsingar og annað með tilliti til þeirrar gerjunar sem virðist eiga sér stað í samfélaginu og einkum varðandi hin síbreytilegu samskipti kynjanna.
Og nú rennur senn upp hinn margrómaði KONUDAGUR !
Það hefur heldur ekki farið leynt þessa síðustu daga, sem eru auðvitað aðfangadagar þessa merka dags, að brátt er enn einu sinni komið að þessum mikla áfanga á dagatalinu !
Það hefur til dæmis komið skýrt fram í auglýsingum, það er sungið fyrir konur, það er samkoma kvenna, það eru kvennamót og kvenna, kvenna, kvenna, - út um allt ! Og það liggur við að sumir hugsi með sér - og þá líklega helst karlar - hverskonar útilokunarstarfsemi er þetta eiginlega ?
Hvar er jafnréttið ?
Sú var tíðin að gerðar voru athugasemdir við ýmsar auglýsingar og fleira, af hálfu forsvarsmanna kvenrembuhópa, og sagt að þar mætti ekki mismuna með kyngreindum hætti. Það átti til dæmis að vera beinlínis kúgunaratriði að tala um að ráða karlmann til starfa ! Og brátt var farið að tala um starfskraft í þeim efnum. Við þekkjum líka orð eins og " ræstitæknir " og rámum í að einhver önnur starfsheiti hafi verið við lýði þar á undan og ekki þótt mikið !
En við erum komnir á allt aðra braut í dag og stefnan er sennilega að hér verði í þessu samfélagi 365 löghelgaðir konudagar á ári að einum degi viðbættum fjórða hvert ár !
Aðeins með svo afgerandi hætti ætti að vera hægt að tryggja fullt jafnrétti kynjanna í þessu landi samkvæmt mati kvenrembuelítunnar !
Þar er ekki verið að höfða til neinnar stefnu sem á að hljóða upp á jákvæða mismunun til einhvers ákveðins tíma, heldur er þar verið að enduróma nokkuð sem talið er af mörgum í dag vera eðlileg framvinda þess þjóðfélagsástands sem gerir háværastar kröfur í nútímanum. Og karlar eiga hreint ekki að koma þar neitt við sögu, það er bara sagt við þá : Þið eruð búnir að gera nógu miklar skammir af ykkur hingað til og þið skuluð bara hafa ykkur hæga ! "
Svo það verður sem sagt ekki sungið neitt spes fyrir karla eða lagt upp úr einhverju karla þetta og karla hitt.............!
Karlar eiga nefnilega - hreint út sagt - ekki neitt gott skilið !
Nú verður árið bara undirlagt konudögum og það er hin eina ásættanlega framtíð, " segir kvenrembuforustan í landinu og sumar í hópnum tala um að hér verði sko ekki stefnt að neinu karlgerðu efnahagshruni aftur, heldur byggt á hugmyndum hinnar hagsýnu húsmóður ! Og þetta fær maður að heyra á þeim tímum þegar engin kona er lengur hvött til þess að verða húsmóðir heldur þvert á móti, enda hafi húsmóðurstarfið bara verið þrælsstaða !
Og hugmyndafræðin gengur víst út á það að kvenremban eigi fullan rétt á sér vegna þess að hún sé mótvægi við karlrembuna sem nánast allir viti að sé ógeðsleg ? Og maður getur næstum því heyrt eina valkyrjuna segja: Við verðum að sigrast á þeim með því að beita þeirra eigin ósiðum gegn þeim því í okkar höndum verða það ekki ósiðir ! "
Af öllum tímum veraldarsögunnar hefur líklega enginn tími staðið fyrir jafn undarlegum hlutum varðandi - mannréttindi - eins og okkar síbreytilega og sveiflukennda samtíð !
Nú er svo margt dregið undir þennan lið samkvæmt rétttrúnaði tíðarandans, að ég vil leyfa mér að hafa fyllstu efasemdir gagnvart því að þar séu um að ræða sannréttindi fyrir þjóðfélagslegri heill !
Þessvegna get ég ekki óskað því öfgaliði fararheilla sem virðist standa í þeim stórræðum að skapa einhverja útópíska framtíð í nafni kvenréttinda allra þjóða.
En hitt er svo annað mál, að ég hef ekkert á móti því og tel alveg sjálfsagt að allir dagar ársins verði framvegis skilgreindir sem sérstakir konudagar - að hálfu leyti !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook
15.2.2014 | 17:12
Um lekamál og lausar skrúfur !
Það gengur sitthvað á í þeirri rúllettu sem íslensk pólitík er og margt getur komið þar upp á sem erfitt hefði verið að spá fyrir. Í eina tíð iðkuðu menn hráskinnaleik til að sýna styrk sinn og toguðust á um feldi þangað til þeir voru slitnir í tætlur. Stundum virðist pólitíkin ganga út á þetta, að slíta hlutina svo í tætlur að ekkert verði eftir sem hægt væri að hafa gagn af, hvorki fyrir þjóð né land !
Oft virðist það einkenna pólitík og þá ekki síst íslenska pólitík, einkum þegar stór mál liggja fyrir sem menn virðast varla þora að taka á, að menn hvolfa sér þess í stað yfir einhver minni mál og hafa hátt og gera mikið með þau. Það er eins og það sé leiðin til að fá athygli fjölmiðla og annarra á hættuminni forsendum !
En þá eru menn að reyna að forðast þá ábyrgð sem þeir eiga að axla sem kjörnir þingmenn og þjóðin hefur náttúrulega lítið við slíkan mannskap að gera. Sumir halda þó að drjúgur hluti af því liði sem á þingi situr, sé nokkuð brenndur þessu marki.
Um heimsbyggðina hafa nú um hríð - verið nokkuð fyrirferðarmikil, -svonefnd lekamál. Bandaríska þjóðaröryggið virðist lengi hafa byggst á því viðhorfi, að njósnum þurfi að halda uppi um nánast hvað sem er. Og þar sem vinir Bandaríkjanna hafa, að því er virðist þótt ótrúverðugir í meira lagi, hefur - eftir því sem fréttir herma - verið fylgst mjög náið með þeim. Allt gekk þetta eftirgrennslunarstarf ljómandi vel árum saman og menn gengu spenntir til starfa dag hvern á bandarísku öryggisvaktinni, og svöluðu forvitni sinni um það hvað væri í gangi hér og þar. En svo brá allt í einu skugga á alla dýrðina... Höggormur reyndist hafa dvalið í þessari upplýsinga-paradís, svo ótrúlegt sem það var. Þar var um að ræða náunga, sem starfað hafði á þessu mikla þjóðargagnssviði, mann sem tók upp hjá sjálfum sér að bregðast liðsheildinni og fara að leka upplýsingum út um víðan völl !!!
Og nú er það lekavandamál orðið svo mikið að vöxtum, að heimspólitíkin er farin að kikna undan því. Sumir á stóra leiksviðinu eru að sögn hættir að talast við og allra síst í síma. Allt sem áður var tekið gilt virðist orðið ótryggt og svalir vindar leika nú um svið sem áður voru umvafin vinarhlýju og trausti !
Og í viðbót við þessa óáran, hefur það nú gerst sem enginn bjóst við og enginn hefði getað spáð fyrir, að íslensk ráðuneyti eru líka farin að leka.... - íslensk ráðuneyti ! Það bendir vissulega til þess að fáu sé treystandi núorðið og nú virðist þetta séríslenska lekamál yfirskyggja öll önnur mál, og afstaða manna til þess segir okkur jafnframt glöggt til um það hvar menn standa í flokkum, hafi fólk ekki vitað það áður.
Og það má spyrja, hvernig er það með þjóðaröryggi Íslands, er einhver að sinna því ? Verður ekki að passa upp á það að kerfislegar upplýsingar um einkahagi fólks haldist bara þar sem þær eiga að vera, það er að segja - í kerfinu, og að opinberir njósnarar sjái til þess að þær liggi ekki á glámbekk við götu fjórða valdsins ? Verður ekki að ganga í að herða lausar skrúfur í stoðum kerfisins og komast að því fyrir víst hvar skaðinn skapast ? Vandinn er nefnilega augljós og kristallast í eftirfarandi vísu:
Innanríkisráðuneytið
reynist illa þjáð af leka.
Gæsalappa gráðuneytið
greinir hvergi neina seka !
Það er auðvitað stór vá fyrir dyrum ef hin harðlokuðu ráðuneyti hérlendis fara að leka og enginn finnst sem ber ábyrgð á því. Það getur valdið mörgum innan kerfis og flokka höfuðkvölum og svefnleysi ef upplýsingalekar fara að verða daglegt brauð hér, og forsjónin forði okkur frá því. Lekamál getur skiljanlega haft afskaplega slæmar afleiðingar.
Það skapar viðhorf vandasterk
og værð frá mörgum hrekur,
og hægri menn fá höfuðverk
ef Hanna Birna lekur ?
En það veit þó enginn hvernig umræddur leki er tilkominn, og kannski eru sumir að koma höggi á suma í kringum málið og það væri þá ekkert nýtt. Og svo verður að taka nótus af því, að þegar fólk í valdastöðum fullyrðir að það hafi hreinan skjöld í málum, ber hikstalaust að taka það gott og gilt.
Þó pólitíkin magni mein
á móti Hönnu Birnu,
samviskan þar helg og hrein
heldur góðri spyrnu !
Kannski þarf að stofna nýtt ráðuneyti til að takast á við vandann - Lekamálaráðuneytið - og mér dettur þegar í hug hver gæti verið þar ráðherra með mestum sóma. Sá sem hefur kynnst slíku vandamáli í mestu návígi er auðvitað best til þess fallinn að glíma við það. Það hljóta allir að sjá að héðan af verður ekki unað við óbreytt ástand og það er líka ljóst að þjóðaröryggismál Íslands mega ekki verða neitt aðhlátursefni, hvorki hérlendis né erlendis !
Ógnað getur öllum friði,
opnað leið að gagnaveitum,
hættan sú að lekaliði
leiki sér í ráðuneytum !
Nú verða allir góðir Íslendingar að standa saman og forða því að öryggi okkar fari út um víðan völl. Það má bara ekki gerast. En ef verulega illa fer eða enn verr en áhorfist, og menn verða að standa upp frá baráttunni hrekktir og hrumlaðir, er hægt að hugga þá sem staðið hafa í eldlínunni þar, í návíginu þar, í skarðinu þar, með ævagömlum uppörvunarboðskap þjóðlegrar og góðrar vísu:
Þó sumir líkt og lekahrip
lagt sig hafi í bleyti.
Alltaf má fá annað skip
og annað ráðuneyti !
12.2.2014 | 21:51
Síðasta mikilmennið ?
Það hefur löngum verið svo, að heimurinn hefur átt einstaklinga sem hafa risið svo hátt með afrekum sínum, hetjuskap, göfugmennsku og fórnarlund, að þeir hafa í augum milljóna orðið táknmynd um sannkallað mikilmenni !
Tuttugasta öldin sýndi okkur allmarga slíka einstaklinga, við getum t.d. nefnt Fritjov Nansen, Albert Schweitzer, Móðir Teresu, Woodrow Wilson, Franklin D. Roosevelt, Winston Churchill, Vladimir Ilitsj Lenín, Mahatma Gandhi, David Ben-Gurion og Nelson Mandela. Allir þessir einstaklingar heyra nú sögunni til og sá þeirra er síðast kvaddi var Nelson Mandela sem lést í lok síðasta árs.
Og við burtför hans af þessum heimi, vil ég spyrja, var hann síðasta mikilmennið ? Hvernig stendur á því að hvergi í heiminum er maður með slíkan eða viðlíka orðstír uppistandandi í dag ? Hvernig eru ráðamenn í Suður Afríku í dag, hafa þeir tekið Mandela sér til fyrirmyndar ? Er Jakob Zuma einhver upprennandi Mandela ? Ég held að fáir myndu svara þeirri spurningu játandi !
Hvað með Bandaríkin, hvernig stendur á því að þar hafa kjörnir forsetar verið meðalmennskan holdi klædd um langt skeið ? Er ekki hægt að skapa frambærilegt mikilmenni í sjálfu heimalandi frelsisins ?
Hvað með gömlu stórveldin í Evrópu ? Þar virðist ekki um auðugan garð að gresja, ekkert virðist vera nema miðlungsmenn og þaðan af verra í forustu þeirra. Getur einhver fundið mikilmenni í þeim hópi, ég hefði gaman að því að vita hver það ætti svo sem að vera ? Og ef við lítum til alþjóðlegs samstarfssviðs þjóða, eru einhverjir þar sem hafa vakið sérstaka athygli fyrir stórbrotin tilþrif í starfi og háleitar hugmyndir um viðgang og heill mannkynsins ? Nei, Nei, Nei, síður en svo !
Asía, Afríka, Suður Ameríka, Ástralía, má finna einhversstaðar í þessum löndum nokkurn þann leiðtoga sem nýtur álits um víða veröld ? Þar virðast allir í hversdagslegum sauðalitum meðalmennskunnar og enginn er þar sýnilegur þungavigtarmaður áhrifa á heimsvísu !
Og Sameinuðu þjóðirnar ? Hvar skyldu þær nú vera á vegi staddar í óstöðugum heimi, þessi mikla von mannkynsins um miðja síðustu öld, sem fædd var fram eftir blóðsúthellingar upp á 50-60 milljónir mannslífa ? Jú, fólk veit ekki lengur hvað aðalritarinn heitir og er slétt sama um það !
Í upphafi voru þó Sameinuðu þjóðirnar og nöfn fyrstu aðalritaranna Trygve Lie og Dag Hammarskjöld á hvers manns vörum. Allir vissu hvað aðalritari Sameinuðu þjóðanna hét á þeim tímum. En nú er þetta allt gengið svo til baka, að það er enginn að leggja það á sig að muna hvað einhver skrifstofublók vestur í Bandaríkjunum heitir ! Margir líta svo á að þar sé bara enn einn borgaralegur búrhundur til staðar sem er áskrifandi að háu kaupi þó hann geri ekki neitt og enginn sjái lengur nein merki þess að til þess sé ætlast !
Sameinuðu þjóðirnar hafa fallið á prófinu eins og Þjóðabandalagið undanfari þeirra, og nú er það viðtekin skoðun manna um heim allan, að þar séu bara kerfisdruslur til staðar sem eru hvergi til nokkurs gagns !
Og enn spyr ég, hvar eru mikilmenni jarðar í dag ? Er kvenréttindahreyfingin kannski búin að koma sér upp einhverju mikilmenni ? Nei, ónei, hvergi fæ ég séð að einhver von sé um slíkt á þeim bæ, þó réttlætisvaktin eigi víst að vera þar til staðar á heimsvísu !
Ísland getur ekki heldur komið heiminum til bjargar varðandi þessa ömurlegu vöntun, þar sem ætlaðir heimsleiðtogar okkar, félagarnir Ólafur Ragnar og Davíð, hafa báðir fallið á prófinu, og eru aðeins skilgreindir sem mikilmenni í dag af ungum sjálfstæðismönnum, sem eru náttúrulega ekki marktækir álitsgjafar !
Svo því miður virðist staðreyndin ómótmælanlega vera sú, að það sé ekkert mikilmenni á lífi og til staðar í þessari veraldarskonsu okkar nú þegar Nelson Mandela er horfinn af sviðinu !
Í heimssögulegu samhengi, er það furðulegt að við ein bestu menntunarskilyrði sem til hafa verið á þessari jörð, skuli ekki hafa verið hægt að skapa eitt einasta mikilmenni á undanförnum árum, mann sem nyti virðingar í dag um allan heim !
Er efniviðurinn virkilega orðinn svona lélegur ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook
8.2.2014 | 12:57
Um stjórnunarmálefni heimaslóða !
Enn einu sinni fer gömul áróðursplata að snúast, um ætlaða hagkvæmni þess að gera heilar sýslur að einu sveitarfélagi. Þeir sem vilja slíka tilhögun virðast yfirleitt fá einhverja margstimplaða ábyrgðaraðila til að gefa út skýrslu sem undirstrikar alla hagkvæmnina. Svo er látið mikið yfir vandaðri rannsókn á því hvað íbúum viðkomandi svæðis komi þetta vel og að heilmiklir fjármunir sparist og geti nýst í annað. Þjónustan á að komast á sérstakt gæðastig og allt á að verða miklu betra !
Það kemur heldur ekki á óvart að þeir sem tala mest fyrir slíkum sameiningum, eru yfirleitt sveitarstjórnarmenn eða áhrifamenn í stærsta þéttbýliskjarnanum, enda klæjar þá líklega í fingurna eftir því að hafa úr meira fjármagni að spila. En ég er hreint ekki viss um að í því sambandi séu þeir endilega með þarfir alls svæðisins í huga, heldur gæti ég miklu frekar trúað því að þeim sé töluvert annarra um að hlynna að því sem næst þeim er, en vilji fá aðkomna fjármuni til þess, þar sem eitthvað vanti kannski til þess á heimaslóðum !
Og menn geta vissulega hugsað sér að hlynna að sínu næsta umhverfi með margvíslegum hætti, en hitt er jafn víst að sumar aðferðir til þeirra hluta lýsa ekki jafn hreinum viðhorfum sem aðrar. Það er nefnilega einnig sjónarmið þeirra sem gjalda varhug við stórum sameiningum, eða eru þeim beinlínis andvígir, að þeir vilja hlynna að sínum heimaslóðum, en með þeim ærlega hætti að fá í friði að nota eigin fjármuni til þess, en sækja þá ekki í annarra vasa eða láta taka þá af sér með stjórnsýsluskipun að sunnan. Og sú afstaða er í hæsta máta virðingarverð að mínu mati og ekkert við hana að athuga !
Það vita allir sem hafa spáð í þessi sameiningarmál sveitarfélaga, að stærsta ögnin í gerinu er yfirleitt alltaf hlynnt sameiningu og þrýstir frekast á að fá hana í gegn. Það er einkum vegna þess að slík sameining verður til þess að valdið dregst saman á þeim miðstjórnarpunkti sem stærsti þéttbýliskjarninn verður óhjákvæmilega. Þar skapast svo fljótlega heimakær svæðisstjórn sem hefur allt fjárhagssvald í sínum höndum. Þá blómstrar þetta hryggjarstykki hagkvæmninnar, en því miður oftast á kostnað útlimanna. Þetta vita þeir menn sem ákafastir eru í sameiningar af þessu tagi, enda eru þeir oftast staðsettir þar sem blómabreiðan verður helst til húsa.
Við Skagstrendingar erum, að mínu áliti, flestir þeirrar hyggju, að við viljum eiga gott samstarf við Blönduós, og jafnframt önnur sveitarfélög í nágrenninu, en við höfum samt engan sérstakan áhuga fyrir því að færa stjórn okkar sveitarfélags inn á Blönduós. Það má vissulega margt bæta í stjórnun mála hér hjá okkur, en það er í hæsta máta ólíklegt, að félagslegar endurbætur í hinum ýmsu málaflokkum muni koma frá einhverju vélrænu, mistjórnarmenguðu kerfisstýri sem staðsett verði á Blönduósi. Ég leyfi mér að hafa fyllstu efasemdir um það !
Ég held því að það sé best eins og sakir standa, að hver sveitarstjórn hlynni að sínum reit og geri það í góðri samvinnu og sátt við aðrar sveitarstjórnir á svæðinu. Það er ekkert að því að við Húnvetningar ræktum hið héraðslega tún okkar sameiginlega varðandi sögu og menningu, og tökum saman höndum í hverju því máli sem til framfara getur horft fyrir okkur öll, en það er engin ástæða til að troða öllum mannlífsþúfum héraðsins undir einhverja misvitra miðstjórn !
Við Skagstrendingar höfum ekki talið okkur í neinni þörf fyrir það að horfa til Blönduóss á sama hátt og segja má að Evrópusambandssinnar mæni til Brussel. Það er ekki af engu sem helstu viðhlægjendur Evrópusambandsins hérlendis eru búsettir á Reykjavíkursvæðinu, þar sem slíkir ætla sér vafalaust aldeilis að maka krókinn í væntanlegu kommissarakerfi sæluríkisins. Enda er það ljóst, að margir úr þeim hópi eru orðnir svo úteygir af eftirvæntingu til gæðanna að utan, að íslensk landsbyggð er áreiðanlega það síðasta sem þeim gæti komið til hugar að ætti að eiga einhvern tilverurétt í stærstu sameiningunni, sameiningu álfunnar !
En við Skagstrendingar getum að sjálfsögðu óskað Blönduósingum og bæjarstjórn þeirra alls góðs í nútíð og framtíð, en við vitum að það er fyrst og fremst í höndum okkar sjálfra að skapa gott og farsælt mannlíf á eigin slóðum, og að aðrir munu ekki gera það fyrir okkur. Og það má líka í því sambandi minna á það, að samvinna tveggja jafnrétthárra aðila er allt annað en yfirtaka eins á kostnað annarra !
Pöntuð skýrsla um hagkvæmni sameiningar sveitarfélaga tekur kannski sæmilegt mið af reikningsliðum rekstarmála, tekjum og gjöldum. En slík skýrsla getur aldrei innifalið þau mannfrelsisvænu sjónarmið, sem hafa mikið gildi í hverju byggðarlagi, og eru undirstaða þeirrar afstöðu að vald yfir eigin málum sé og eigi að vera í höndum heimamanna. Í hvert sinn sem það vald er fært eitthvað lengra frá fólki verður það ópersónulegra og við það veikist borgaraleg réttarstaða almennings í landinu. Sparnaður á lýðræði er því aldrei fólki í hag !
Það er sannfæring mín að best sé að Skagstrendingar hafi forræði fyrir eigin málum sem lengst, og þó að ég sé reyndar nokkuð fjarri því að vera ánægður með sveitaryfirvöld hér, tel ég engar líkur á því að ráðamenn, jafnvel þó einhverjir þeirra verði héðan af ströndinni, verði almenningsvænni eða upplýstari um heimabyggðar gagn og nauðsynjar við það eitt - að fá að sitja á einhverjum kontór við ósa Blöndu og fylgja þar einhverjum stöðluðum fyrirmælum á miðstjórnarvísu. Frelsi í eigin málum er að öllu jöfnu alltaf besti kosturinn !
Ég sé því enga ástæðu til þess að Skagaströnd fari í sveitarstjórnarlegt yfirstjórnar-samkrull með Blönduósi eða öðrum sveitarfélögum að svo komnu máli, ekki frekar en ég sé ástæðu til þess að Ísland sökkvi sér í það far - að leggjast sem hráefnanýlenda undir Evrópusambandið !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook
1.2.2014 | 11:02
Skipstjórar lognsins !
Sumar þjóðir búa við það böl að eiga ráðamenn sem kunna bara að sigla í logni. Þegar gefur á bátinn fórna þeir höndum og kasta frá sér stýrinu og leggjast jafnvel flatir undir þóftu og loka augunum. Þegar efnahag þjóðarinnar var rústað hér 2008, gat maður vel gert sér í hugarlund að viðbrögð margra í valdastöðum hafi verið með þeim hætti. En það er vont að hafa skipstjóra, sem kann bara að sigla í logni - á þjóðarskútu ! Það hlýtur alltaf að gefa á bátinn annað slagið og þá þarf að kunna lagið á því, en lognskipstjóri verður seint til blessunar fyrir áhöfn sína !
Við Íslendingar þekkjum vel til lognskipstjóra, við höfum haft þá nokkuð marga. Þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð þegar hvessir og öldur rísa. Þá vilja þeir jafnvel hluta menn fyrir borð eða fórna þessu og hinu af eignum áhafnarmeðlima til að létta skútuna. Ef mönnum er varpað fyrir borð til að blíðka Mammon eða önnur þau goð sem lognskipstjórar dýrka yfirleitt, er það kallað þjóðarsátt eða friðþæging. Ef létta þarf skipið fær til dæmis símakerfi áhafnarinnar að fjúka og pósturinn með !
En vandinn við slíkar aðstæður er ekki áhafnarinnar í sjálfu sér, það er stjórnin á skútunni sem er ekki í lagi. Það er ekki lengur logn og skipstjórinn veit ekki hvernig hann á að stýra þeim farkosti sem hann tók að sér að stýra. Hann vill helst leggjast niður, skríða undir þóftu og geirnegla sig þar á grúfu. Kannski hefur hann líka í eigin hroka og ofmetnaði talið sig geta stýrt út af litla lognblettinum sínum inn í viðsjálar ræningjarastir og stuldarstrauma þar sem eru hreint ekki góðar siglingaaðstæður fyrir lítilsmegandi lognskipstjóra, og kannski vildi hann einmitt sigla á slík mið einhverra hluta vegna !
Sigling þjóðarskútunnar okkar hefur, sem fyrr segir, aldrei tekið mikið mið af siglingafræði sem gengið hefur út á öryggi áhafnarinnar. Skútunni virðist alltaf vera stýrt um einhverjar vafasamar sérleiðir og hún er undantekningarlaust undir lognmollustjórn. Það fer því líklega óskaplega í taugar vakthafandi lognskipstjóra þegar einhverjar öldur rísa. Hann telur trúlega að hann og hans sérleið eigi að vera verðtryggð fyrir öllu slíku. En stundum gerist það að áhöfnin er ekki alveg sátt, þó oftastnær láti hún allt yfir sig ganga. Og þá verður lognskipstjóranum ráðafátt og hann skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið neina vitræna ákvörðun, eins og eitt sinn var sagt um einn slíkan á örlagastund !
Hversvegna eignumst við Íslendingar aldrei neitt sem rís yfir meðalmennskuna í lands-stjórninni, hvernig stendur á því að manndómsgildi manna þar virðist reynast því minna sem menntun þeirra er meiri ? Er þetta sérvandamál hjá okkur eða er þetta víðar til vansa ? Er þjóð upp á 300 þúsund manns of lítil til að koma sér upp þjóðskörungi, manni sem er treyst - út fyrir flokkinn, manni sem getur siglt þjóðarskútunni í vindi og ágjöf, manni sem er eitthvað annað og meira en linkulegar lognskipstjóri, grútartuskulegur kerfiskarl og í stuttu máli sagt -skítómögulegur skolli ?
Þurfum við Íslendingar til eilífðarnóns að tala um Jón Sigurðsson sem sóma Íslands, sverð og skjöld, vegna þess að enginn annar hefur haft eða er líklegur til að hafa burði til að gegna sambærilegu hlutverki í Íslandssögunni, hvorki nú eða eftirleiðis ?
Verður þjóð okkar að búa við þau örlög að eiga bara í nútíð sem framtíð - forustuvæflur, - lognskipstjóra skammtímasjónarmiða og sérgæskuháttar - að viðbættum óþjóðlegum flokkum og fjármálakerfi sem er svo spillt að það tekur engu tali ? Eru til menn, sem eiga að heita Íslendingar, sem hafa það eitt að lífstakmarki að sanka stöðugt að sér illa fengnum fjármunum, og er nákvæmlega sama þó það leiði til þess að óhamingja Íslands taki aldrei enda ?
Því miður virðist svarið við þeirri spurningu vera á máli sannleikans blákalt já, og það er staðreynd sem gengur þvert á allt sem íslensk þjóð hefur talið sig vera að berjast fyrir hingað til. Það hefur lengi verið sáð með miklum dugnaði og elju fyrir almannahag og þjóðarheill í þessu landi, en uppskeran hefur svo til öll verið hirt af sérhagsmunahirðinni sem er bölvun þessa lands !
Mál er að félagshyggjan fari upp á þjóðarhimin nútíðar og framtíðar og frjálshyggjan niður í það víti sem ól hana !
Nýjustu færslur
- ,,Einleikur á Eldhússborðsflokk ?
- Hverju er þjónustan eiginlega helguð ?
- Orðheimtu aðferðin !
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 9
- Sl. sólarhring: 260
- Sl. viku: 1289
- Frá upphafi: 367414
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 1130
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)