Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
26.4.2014 | 09:55
,,Silfurskeiðungar samfélagsins´´ !
Það er stundum býsna fróðlegt að lesa eða heyra það sem auðmenn og taglhnýtingar þeirra segja um samfélagsmál á Íslandi. Það segir manni ýmislegt þegar maður les efni eftir fólk eða heyrir í fólki, sem aldrei hefur þurft að dýfa hendi í kalt vatn, en telur sig þess samt alltaf umkomið að tala inn í aðstæður sem það þekkir ekkert til. Og það sem verra er, sem það kærir sig ekkert um að þekkja til !
Það fólk sem nú mætti kalla hérlendis háborgaralegt slekti, er yfirleitt í þessum gír. Þar er um að ræða einstaklinga sem eru af efnafólki komnir, búa að ættarauði og forréttindastöðu frá fyrri tíð og ganga þar inn í gefnar aðstæður, þekkja ekkert til þess hvað það er að þurfa að hafa fyrir lífinu eða heyja lífsbaráttu og líta í mörgu niður á það fólk sem þarf að standa í slíku og hafa fyrir hlutunum.
Fólk af þessu tagi virðist ekki hafa neina aðra sýn á þjóðfélagið en þá að það eigi að reka það með hagsmuni ríkustu 10 prósentanna að leiðarljósi. Og þannig hefur íslenskt samfélag verið rekið að miklu leyti, vegna valda og áhrifa hinna íslensku aðalverktaka allsnægtanna" fyrir sérhagsmuni topps tíu, og væri rekið það að öllu leyti - ef svonefndir félagshyggju-flokkar eða stjórnmálaöfl til vinstri - hefðu ekki þvælst nokkuð fyrir í þeim efnum og stundum náð marktækum árangri - í almennings þágu !
En nú er orðið býsna erfitt fyrir fólk að vita hvað er vinstri og hvað hægri, það er eins og allir fulltrúar í íslenskri pólitík séu orðnir sama skítapakkið," eins og ein virðingarverð kona á miðjum aldri orðaði það nýlega við mig, talandi um íslensk stjórnvöld, og sú var nú reið !
Danski rithöfundurinn Martin Andersen-Nexö segir frá því að hann hafi eitt sinn, í upphafi ferils síns, lesið sögu sem hann skrifaði, fyrir háborgaralega en mjög góðhjartaða vinkonu sína. Hún þagði langa stund á eftir, en sagðist svo ekki vilja taka afstöðu til sögunnar sjálf, kvaðst ekki alveg höndla hana, þetta er of erfitt fyrir mig", sagði hún, en vildi fá að senda söguna til systur sinnar til umsagnar. Síðan kom sú umsögn og hún var á þessa leið: Ég hef verið andvaka á næturnar út af þessari sögu, það ætti að banna mönnum að skrifa svona um fátæklingana!"
Og systirin góðhjartaða sagði við Nexö: Ég skal segja þér Martin, þú verður aldrei skáld ef þú heldur svona áfram, þú verður að skrifa eitthvað klassískt !"
En Nexö mat þessi viðbrögð á sinn hátt og var ánægður með þau. Hann hafði nefnilega náð tilgangi sínum. Honum fannst ekkert að því að geta skrifað þannig að góðborgurum fataðist bæði svefn og matarlyst. Og það gerði hann sannarlega eftirleiðis, í Pella sigurvegara, Dittu mannsbarni og öðrum verkum sínum. Það er ekki af engu sem hann var talinn taka við af Maxim Gorky sem helsta skáld verkalýðsstéttarinnar !
Hin meinta velferð hérlendis sem náðst hefur út fyrir þá sem ekki tilheyra toppi 10, hefur aðeins náðst fyrir mikla og fórnfúsa baráttu verkafólks, í gegnum þá samstöðu sem tókst að skapa meðal vinnandi fólks á öldinni sem leið. Þar voru þeir menn yfirleitt í forustu sem mest hafa verið níddir í þessu landi fyrr og síðar. En þeir stóðu vaktina samt með fullum sóma meðan þeir gátu.
Þó verkalýðshreyfingum sé í tröllahöndum sem stendur, þarf baráttan fyrir almennum mannréttindum að halda áfram, því þar verður enginn ávinningur öruggur til lengdar ef ekki er staðið stöðugt á verði yfir honum. Þar þarf maður að taka við af manni og halda kyndlinum uppi. Afætuliðið er nefnilega alltaf til staðar og tilbúið að éta frá þeim sem afla hlutanna hvar og hvenær sem er. Það er eðli þess og art og hefur alla tíð verið, eins og Abraham Lincoln undirstrikaði í kappræðunum við Stephen Douglas forðum, en fyrir þær varð hann kunnur sem málsvari almennra mannréttinda um öll Bandaríkin.
Ég hef alltaf verið andvígur því að einhver klíka í mannlegu samfélagi eigi að njóta forréttinda. Ég hef alltaf verið á móti allri mismunun og því að auðgildi eigi að ráða ofar manngildi. Ég er á móti því að sjálfskipað afætulið sitji við kjötkatla samfélagsins og blóðmjólki þar allt fyrir sig og sína. Ég er á móti öllu Mammonsvaldi !
Ég vil kalla þetta lið sem ég er að tala hér um, þetta afætulið þjóðfélagsins, - silfurskeiðunga ! Þeir eru að mínu mati siðferðilega vanhugsandi á svipaðan hátt og María Antoinette var á sínum tíma. Þeir skilja ekki lífsaðstæður venjulegs fólks og eigin forréttindi eru helgur réttur í þeirra augum, þó þau hafi nánast alltaf áunnist með ranglæti og svikum, kúgun og yfirgangi gagnvart öðrum !
Ég heyrði í gleiðmynntum Guðlaugi Þór á Bylgjunni um daginn. Hann var eitthvað að skíta í verk Steingríms J. og fyrri stjórnar, venju samkvæmt. Þá fór útvarpsmaðurinn, aldrei þessu vant, að tala um framferði manna fyrir hrun, græðgi í bankakerfi og víðar, og ástæðurnar fyrir því hvernig fór !
Þá fór Guðlaugur Þór allt í einu í þann gírinn að fara að tala afsakandi um mannlegt eðli og breyskleika manna. Hann vissi sem var að þegar umræðan var komin í þetta far, þurfti hann að verja sitt lið og þá fannst honum sjáanlega nærtækast að gera það með þessu móti.
En Steingrímur J. átti sér greinilega enga vörn eða afsökun í mannlegum breyskleika, enda leit Guðlaugur Þór augljóslega þannig á, að mæla þyrfti hans gerðir með allt öðrum og harðari hætti. Er þar ekki á ferðinni rétt einu sinni dæmigerð saga um flísina og bjálkann?
Ja, mikill er andskotinn" sagði maðurinn forðum, ,,það þjóna svo margir undir hann !"
Ég vil ljúka þessum pistli með einfaldri vísnaþrennu sem Enginn Allrason orti nýlega um hið óíslenska forréttindalið :
Stöðug rækt við lygar lögð
leitar gegn því sanna.
Sagan kynnir svikabrögð
Silfurskeiðunganna !
Þeir sem böðlar bræðralags
bót og rétti granda.
Sýna í ferli sérhvers dags
sjálfselskunnar anda !
Arðránsklíkan græðgisgjörn
gæðum vön að spilla,
leikið hefur landsins börn
löngum hart og illa !
................................
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook
24.4.2014 | 13:52
Að flagga gömlum tuskum !
Það þótti mörgum undarlegt mál þegar til virtist standa, að vekja Guðna Ágústsson upp, vegna meints forustuleysis í hópi Framsóknarmanna í Reykjavík, og bjóða hann fram sem glænýjan valkost" til borgarstjórnarstarfa ! Það hafði sosum meira en flögrað að mér að Framsóknarflokkurinn byggi við talsverðan vanda vegna atgervisvöntunar, en ég vissi ekki að flokkurinn væri talinn svo afgerandi illa staddur í þeim efnum sem raun virtist bera vitni.
Það er nefnilega alveg klárt mál, að þó að Guðni Ágústsson sé glaðbeittur og yfirlýsingaglaður maður og skemmti sumum að sögn, ætti hann fullkomlega að vita að hans tími er liðinn og valdaskeið þeirrar stjórnar sem hann tilheyrði vekur hreint ekki góðar minningar upp í huga fólks, þar sem það skapaði forsendurnar fyrir þá martröð sem þjóðin gekk í gegnum í hruninu og enn er ekki séð fyrir endann á. Traust á því liði sem þá var við völd mun því aldrei koma aftur !
Því verður heldur ekki neitað með nokkrum rökum, að Guðni Ágústsson tilheyri því liði, þó að hann hafi enganveginn verið sá versti í þeim hópi. En þar naut hann ásamt hinum valda og velmegunar í gegnum þann eyðsluveislutíma ábyrgðarleysisins sem þjóðin er enn að borga með skerðingum á allri velferð sem tveggja kynslóða strit hafði skapað með súrum sveita. Ég geri ekki ráð fyrir að þær skerðingar nái til eftirlauna Guðna Ágústssonar eða annarra úr fyrrnefndum hópi !
Ný forusta Framsóknarflokksins virtist skilja það fyrst eftir hrunið, að það væri ekki skynsamlegt að flagga þessu forustufólki sem hljóp út og suður eftir fyrirmælum Dabba í gegnum Dóra. En þar sem Guðni hafði stundum verið óþekkur við Dóra og haft tilburði til að standa uppi í hárinu á honum, slapp hann einhvernveginn betur frá hlutunum en aðrir, sem höfðu að mati fórnarlamba hrunsins ekkert sér til afbötunar. Guðni hefur líka þann kost að vera persónulega maður í geðþekkara lagi, en það verður hreint ekki sagt um alla þá sem í margnefndum forustuhópi voru. En það er líklegt, að hefði Guðni Ágústsson ætlað sér í pólitík aftur, hefðu fleiri falli vígðir" viljað fara á kreik, svo sem Lómatjarnarfrúin og aðrir, og ekki hefði það blásið ferskum vindi í veifur flokksins !
Það hefur aldrei þótt framgangsvænt mál að flagga gömlum tuskum og allra síst þegar þær kunna, að margra mati, að vera nokkuð skítugar eftir fyrri tíma notkun. Ef skuggavaldsklíka í einhverjum illgresisfylltum reit í bakgarði Framsóknar-flokksins, vill snúa til fyrri hátta og flagga á ný slíkum tuskum, er hún illilega úr takti við allan raunveruleika í núinu.
Guðni Ágústsson gerði því klárlega bæði sjálfum sér og flokknum greiða með því að gefa ekki kost á sér til framboðs í borginni. Hann sýndi með því að hann áttar sig betur á aðstæðum en þeir sem vildu ota honum fram. Reykjavík er ekki Árnessýsla !
Ef Framsóknarflokkurinn vill eiga erindi við þjóðina áfram, verður hann að gera upp við fyrirhrunsfortíð sína, viðurkenna mistök og vanhugsaðar aðgerðir þess tíma, óheilbrigðan anda í þjóðhagsgæslumálum, og veita tryggingar fyrir því að lært hafi verið af reynslunni og sanna að nýir kraftar og betri séu komnir að flokks-stýrinu !
Í slíkri viðleitni, sem felst í því að vinna sér traust á ný, er auðvitað ekkert rúm fyrir gamlar og misjafnlega hreinar tuskur !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.4.2014 kl. 12:12 | Slóð | Facebook
18.4.2014 | 18:45
Að kveikja í kirkjum !
Nú í aðdraganda páskanna virðist slæmur hlutur hafa átt sér stað á Akureyri, að gerð hafi verið tilraun til að kveikja í Akureyrarkirkju eða í það minnsta að valda skemmdum á henni. Þetta er þeim mun alvarlegra sem það virðist koma fram sem einhver andstaða gegn kristnu hátíðarhaldi páskanna.
Í Noregi hefur eitthvað borið á því að kirkjur hafi verið brenndar, jafnvel gamlar stafkirkjur, og virðist sem einhver andi sé kominn inn í norræn samfélög sem hatast við kirkjur og kristni. Hvernig skyldi sá andi vera tilkominn og hvað skyldi það vera sem ýtir undir hann í þessum ríkjum sem svo lengi hafa kristin verið og hafa öll merki krossins í þjóðfánum sínum ? Menn ættu kannski að velta því svolítið fyrir sér, því það gæti verið að nokkuð mikil hætta væri þar á ferðum !
Kristindómurinn hefur alltaf þurft að glíma við hatur utan frá og líka slæmar fylgjur þeirra sem vilja vera þar innan vébanda, en sjá ekki nokkra ástæðu til að mæta þeim kröfum sem þar eru gerðar og eiga að vera gerðar, og bæta sína innviði. Krafan í samtímanum er að allir eigi að geta tilheyrt kristinni kirkju á sínum eigin forsendum", en sú krafa á engan bakgrunn í Orði Guðs. En hver sem kemur að krossinum með iðrandi hjarta vegna rangrar breytni, á að vera þar velkominn !
Fyrirmæli Orðsins eru að elska beri syndarann en hata syndina. Allir menn eru syndarar en sú staðreynd á ekki að fyrirbyggja kærleikann, þeim mun meira þurfum við á kærleika að halda sem við erum meiri syndarar og höfum brotið meira af okkur. En það er falskur kærleikur og siðvilla að umfaðma synd í lífi syndara, sem eitthvað sem sé órjúfanlegur hluti af honum. Hver syndari þarf að losna við syndina úr lífi sínu, fyrr er hann ekki frjáls. Í því felst að Jesús er Frelsari, hann frelsar okkur frá syndinni, frá brotlegum ferli okkar, og hjálpar okkur til þess að verða ný sköpun fyrir iðrun og vilja til að ganga betri veg, veg hjálpræðisins !
Það er margt að í okkar þjóðfélagi og það er mörgu hossað í samtíðinni sem ekki er blessað í Orði Guðs. En það er ekkert sem segir að þar sé eitthvað á ferð sem sé fætt til varanlegrar framtíðar. Tíðarandinn er breytilegur og sem betur fer sveiflast hann ekki alltaf til hins verra. Sjúk samtíð getur valdið ýmsum ófögnuði og stýrt út af farsælum vegi í mörgum málum, en yfirleitt er stefnan svo leiðrétt og haldið til betra horfs, svo sjúk samtíð þarf ekki að vera nein ávísun á sjúka framtíð.
Hvert skyldi það andavald vera sem segir mönnum að kveikja í kirkjum, sem segir mönnum að hatast við kristindóm og vill tortíma öllu því sem tengist trú á Jesúm Krist ? Er þar eitthvað á ferðinni sem boðar heillavænlegri leiðir fyrir mannlegt samfélag ? Er það - að bera eld að kirkjum á náttarþeli, eitthvað sem á skylt við uppbyggilega starfsemi í samfélagslegu tilliti ?
Nei, auðvitað ekki, en kristindómurinn á erfitt uppdráttar í nútímanum. Við erum þar stödd mitt í Laodíkeu-öldinni, sem er eigingjörn og spillt og hálfvolg í öllu siðferðilegu tilliti. Lýsingin á henni í Ritningunni svarar nákvæmlega til þess hvernig hún er og það er ekki fögur lýsing !
Margir vilja fylgja málamiðlun í öllu sem trúnni viðkemur. Þeir velja það úr Orðinu sem þeir vilja hafa, en hafna hinu sem þeim líst ekki á og gerir kröfur til þeirra um að breyta sínu ráðslagi. Tíðarandinn kennir nefnilega, að það séu mannréttindi hvers og eins, að fá að ganga út í glötun, ef vilji viðkomandi kýs það. En er slíkt vilji viðkomandi manneskju, er það ekki annað vald sem þá hefur tekið við stjórn ?
Fjöldi manna sem játar trú á Krist og segist vilja standa fyrir það sem hann kenndi, er þrælbundinn ýmsum manngerðum kerfum, svo sem pólitískum flokkum, sem eru hreint ekki á þeim vegi sem Krists er. Þar er Mammon hinsvegar hylltur ótæpilega. Það eru mörg dæmi til um þessar tilhneigingar manna til að sameina það veraldlega og það andlega í einum pakka í hugskoti sínu.
Um miðja síðustu öld voru stofnaðir ýmsir pólitískir flokkar í Vestur-Evrópu sem kenndu sig við kristin viðmið. En það þurfti ekki mörg ár til að leiða það í ljós, að þar var bara verið að gera út á góða ímynd. Þessir flokkar urðu margir hverjir tiltölulega fljótlega gróðrarstía spillingar, sem varð jafnvel meiri en í öðrum flokkum. Menn urðu sem sagt kristilegir spillingarflokksmenn", og flestir ættu að geta séð, að ávinningurinn þar var alls ekki ávinningur kristindómsins í álfunni !
Skemmst er að minnast þess hérlendis, hvaða útreið tillaga um að heiðra kristin gildi, fékk á flokksþingi sjálfstæðismanna fyrir nokkru. Henni var hafnað, enda átti hún enga samleið með flokknum á þeim vegi sem hann hefur valið sér. En þótt þannig færi, veit ég samt ekki til þess að neinn hafi sagt skilið við flokkinn vegna þess. Menn segjast áfram vera Kristsmenn, en ætla víst að vera það í flokki sem hafnar þeim gildum sem Frelsarinn stóð og stendur fyrir ! Hvernig er slíkt hægt ?
Jú, það virðist vera hægt með því móti, að viðkomandi mannssál heiðrar stefnu Krists í orði en stefnu flokksins á borði ! En slík málamiðlunarleið gerir kristindóminn í lífi viðkomandi manna að annars eða þriðja flokks máli. Hún getur aldrei innifalið ærlegt val kristins manns og sýnir einungis að Mammon hefur þarna haft vinninginn. En menn velja því miður gjarnan slíkar leiðir, þegar þeir eru þrælbundnir efnalegum hagsmunum hins daglega lífs, öllum þeim hégóma sem mölur og ryð fær grandað !
Menn geta kveikt í kirkjum með ýmsu móti, en alvarlegasta íkveikjan er það þegar við mennirnir hlaupum eftir heimsins boðum, af veraldlegum hagsmunaástæðum, og brennum þá kirkju, það musteri sem á að búa í okkur sjálfum, það hús Andans sem Guð hefur skapað fullar forsendur fyrir að megi byggjast upp í lífi hvers manns. Það er íkveikja glötunarinnar fyrir mannssálina !
Það er dapurlegt þegar menn í hatri og uppreisn gegn Guði, ráðast gegn húsum þar sem menn vilja í friði fá að vegsama Skaparann. Það ætti öllum að vera ljóst hvaða andi býr að baki slíku framferði. En það hafa alltaf verið til menn sem hafa hatast við Guð og góða siði, en það hafa líka alltaf verið til menn sem hafa göfgast í lífinu og átt ljós í sínum sálum og veitt þeirri birtu til annarra. Það er hamingja mannkynsins að hafa átt slík ljóssins börn !
Einu sinni var gerð samfélagssátt um það á Íslandi, að þar sem Guðslög og landslög greindi á, þar skyldu Guðslög ráða. Í dag stöndum við frammi fyrir því á margan hátt að Guðslög og landslög greinir á, en nú virðist samfélagið á því að Guðslög eigi þá að víkja. Það segir mér, að afkristnun þjóðfélagsins sé komin á áður óþekkt stig, ekki bara í stjórnmálaflokkum heldur varðandi siðagildi yfir höfuð.
Hvar stöndum við gagnvart Guði og hvar og hvernig viljum við standa gagnvart Guði ? Er það ekki spurning sem mönnum er þörf á að hugleiða meðan við enn erum nokkurnveginn fær um að halda jól og páska í réttum anda ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.4.2014 kl. 13:16 | Slóð | Facebook
12.4.2014 | 10:05
"Þöggunarstöðvar þjóðfélagsins" !
Uppbygging mannlegs samfélags hefur um heillar aldar skeið eða þar um bil, verið sögð taka sterkast mið af velferð þegnanna - af almannaheill ! Hvernig hlutirnir voru þar áður er ekki efni þessa pistils né heldur hvað breytti málum, svo farið var að taka mið af hag þeirra sem alltaf höfðu gleymst.
Hér er bara ætlunin að fara nokkrum orðum um þetta grundvallar-sjónarmið í mannlegu samfélagi, að hafa hag heildarinnar í fyrirrúmi, og velta því aðeins fyrir sér hvernig til hefur tekist - ekki síst hin síðari ár.
Við skulum fyrst gera okkur grein fyrir því að engin þjóðfélagsleg réttindabarátta endar með fullnaðarsigri. Það geta unnist góðir sigrar og þá einkum fyrir öfluga samstöðu, en þegar værðin sækir á og slagkrafturinn minnkar, þegar fólk sofnar á verðinum, eru hlutirnir fljótir að leita í fyrra horf, því yfirleitt eru nógir til að þrýsta á það. Barátta fyrir réttindum þarf að vera viðvarandi og hún krefst þess að menn haldi vöku sinni - meðan lífið varir !
Í dag heyrði ég í Bjarna nokkrum Ben, öðrum með því nafni, en talandinn virðist mér sá sami og var í þeim fyrri. Viðkomandi er að vinna í því að lækka skatta á hærra þrep en hækka á lægra þrep, það er sanngjarnara, sagði þessi umræddi verndarengill allra stétta"...... Sanngjarnara gagnvart hverjum ? Skyldi maður ekki þekkja tóninn og vita hvað liggur að baki. Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá" sagði Frelsarinn forðum og ég veit nóg um Bjarna Ben og hans flokk til þess að fyrr frysi í helvíti en ég myndi nokkurntíma kjósa þá fordæmdu þjóðarbölvun yfir þessa þjóð. Dansinn í Hruna virðist vera að fara af stað aftur og Bjarni þessi er, að minni hyggju, vís til að reyna að sjá um það að hann gangi nokkuð vafningalaust fyrir sig í komandi tíð. En það verður aldrei þjóðvænn dans eða sanngjarn gjörningur !
En ég ætlaði að tala um stefnuna sem sögð er vera fyrir velferð allra. Það er varla von að maður geti haldið sig við það efni þegar maður fer að minnast á Bjarna Ben. Hann er stöðulega og stefnulega heilum ljósárum frá þeim sjónarmiðum.
Hvernig er velferð þegnanna í nútímasamfélagi tryggð ? Með allskonar eftirliti ! Og hvað ef eftirlitsstöðvarnar breytast í kerfislegar þöggunarstöðvar ? Margs er nefnilega hægt að spyrja í þeim efnum, er til dæmis landlæknisembættið eftirlitsstöð eða þöggunarstöð ? Er löggæslan til eftirlits eða þöggunar ? Er eftirliskerfið í heild kannski frekar þöggunarkerfi en hitt ?
Hvað oft höfum við verið vitni að því að upp hafa komið spillingarmál og mistakamál sem ekki áttu að geta komið upp vegna viðverandi eftirlits ? Og hversu oft hefur þá fulltrúi forsvarsaðilans komið fram og afsakað allt, sagt að allt yrði skoðað ofan í kjölinn og séð yrði til þess að slík mistök gætu ekki átt sér stað aftur ? Og svo hefur sagan endurtekið sig sex mánuðum síðar !
Það er eins og málið sé fyrst og fremst að þagga niður alla umræðu og umfjöllun fjölmiðla með því einu að lofa því að allt verði skoðað og skilgreint upp á ný. En efndir slíkra orða virðast láta standa á sér og kannski stóð aldrei til að efna neitt eða rannsaka nokkurn skapaðan hlut. Kannski er bara verið að kaupa sér frið með ódýrasta hætti, með því að segja eitt og gera svo ekki neitt ! Svo leggst kannski viðkomandi eftirlits-elíta bara aftur í sitt værðarból, á sínum varðmannslaunum, sem oft eru þó nokkuð drjúg, og falska öryggið fær að umvefja þjóðina áfram !
Hvaða tilgangur er í því, út frá þeirri hugsun að velferð allra þegnanna sé markmið allra markmiða og þungamiðjan í samfélagsgerðinni, að viðhafa þöggunartilburði af þessu tagi þegar vandamál koma upp, að svæfa hlutina en taka ekki á þeim, að sinna eftirliti sem er kannski ekkert eftirlit, að svíkja skyldur sínar við land og þjóð, við íslenskt samfélag ? Hvernig er yfir höfuð hægt að hegða sér svona ?
Sannaðist það ekki áþreifanlega í hinu manngerða efnahagshruni, að allt heila eftirlitskerfið var markleysa ? Við vorum látin borga milljarða fyrir falskt öryggi ?
Og hver skyldi staðan vera í dag, eftir rannsóknarskýrslu alþingis og aðrar rannsóknir sem hafa nú kostað sitt af almannafé ? Ég er sannfærður um að hún er ekki mikið betri. Það er enn verið að leika sama, gamla skollaleikinn ! Við þurfum að læra að varast þessar Tamiflu-tryggingar kerfis og kauðahringa, sem eru ekkert nemna svikamyllur og svívirða út í gegn. Tilræði við velferð almennings !
Hvar sem kerfisbundin, lögskipuð eftirlitsstöð sinnir ekki hlutverki sínu og breytist í þöggunarstöð, þar er spilling í gangi. Það er eitt sem við getum verið viss um. Hvar sem almannahagur er svikinn og falskt öryggi á ferð, þar er spilling á ferðinni. Þar er verið að taka laun fyrir störf sem eru ekki unnin eins og á að vinna þau.
Var ekki krafa þjóðarinnar eftir hrunið, að allt yrði sett upp á borðið, að allt yrði gagnsætt og unnið að því að vinna upp traust aftur í samfélaginu, þar sem staðan var orðin sú að helst enginn gat orðið öðrum treyst ?
Eitt er víst að traust milli manna er ekki á uppleið og allra síst traust á fulltrúum kerfisins, sama hvort litið er til ríkisstjórnar, þings eða dómstóla. Fjöldi fólks segist finna spillingardauninn af kerfinu og fulltrúum þess langar leiðir!
Það þarf að sigrast á þessum samtryggðu þöggunarhagsmunum sem búa um sig í kerfinu og eru ávísun á ranglæti og vonda hluti, lög sem eru sett slíku til stuðnings eru ólög sem ekki ber að virða. Salus Populi Suprema Lex Esto" - VELFERÐ FÓLKSINS ERU ÆÐSTU LÖGIN !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook
5.4.2014 | 09:18
Kratavillur og kvennagrillur !
Á síðustu fimmtíu árum eða svo hafa sósíaldemókrataflokkar Evrópu rekið stórhættulega stefnu í málefnum álfunnar. Þeir hafa víðast hvar verið í forustu fyrir þá fjölmenningardellu sem í gangi hefur verið, þeir hafa tekið afstöðu gegn öllum þjóðernishugsjónum og viljað varpa þeim út í ystu myrkur, þeir hafa markað ófarnaðarstefnu varðandi innflytjendur og svo mætti lengi telja !
Á fyrri hluta síðustu aldar áttu sósíaldemókratar ýmsa frambærilega forustumenn, en eftir þá komu aðrir sem voru þeim síðri á öllum sviðum. Þessir fyrri forustumenn krata voru margir einlægir í þeim ásetningi að jafna kjör fólks og byggja upp almenna velferð í löndum sínum, skapa þjóðleg verðmæti og viðhalda þeim með sem heilbrigðustum hætti. Víða tókst vel til í þeirri viðleitni og einkum þó í Skandinavíu og Danmörku.
En seinni tíma kratarnir tóku ekki við af þessum fyrirrennurum sínum með svipuðu hugarfari eða háleitum ásetningi. Þeir sýndu sig flestir vera af annarri og verri manngerð. Þeir vildu komast áfram, skapa nafn fyrir sig, öðlast völd og áhrif, verða prívat númer í númerasafni hégómleikans !
Jafnvel á Íslandi mátti finna þessa breytingu frá eðli frumherjanna í þeim sem á eftir komu. Jón Baldvinsson og Stefán Jóhann voru báðir kratar en þeir voru ekki kratar af sömu gerð og það fundu flestir þeir býsna fljótt sem þeim kynntust.
Þegar Efnahagsbandalag Evrópu var sett á fót, fór þessi síðari og síðri manngerð krata að ráða allt of miklu í málefnum álfunnar, í krafti flokkslegra áhrifa og inngróinnar kerfisstöðu á þeim tíma. Og nú í dag sjáum við áhrifin af stefnu þeirra og brambolti. Nánast í hverju landi Evrópu eru nú fullar forsendur fyrir öflugar fimmtu herdeildir óþjóðhollra aðila sem gætu þjónað utanaðkomandi öflum með örlagaríkum skaðræðishætti, ef sú staða kæmi upp og hún getur sannarlega komið upp og er jafnvel komin upp !
Það hefur verið tekið linnulaust á móti fólki frá öðrum löndum sem hefur ekki verið aðlögunarhæft og hefur í ýmsum tilvikum tjáð sig með svo fjandsamlegum hætti gagnvart hagsmunum þeirra þjóða sem eru að taka við þeim, að það gegnir mikilli furðu, að ekki skuli hafa verið brugðist við því á einhvern hátt með eðlilegum varnarviðbrögðum.Sjálfsvörn á nú einu sinni að vera grundvallar-réttur !
Í stað þess hefur allskonar innflutt lið verið sett á opinbert framfæri í þessum löndum og það hefur lengi vel verið að éta hægt og örugglega upp þann velferðarsjóð sem viðkomandi þjóðir hafa byggt upp fyrir sig og sína í gegnum baráttu liðinna áratuga. Og þessi ófarnaðarstefna er skrýdd ýmsum gyllingum áróðurs og töfraorðið þar er yfirleitt fjölmenning !
Í viðbót við þetta hafa svo komið fram nokkuð breyttar áherslur í pólitík við aukið kvennavald í flokkum og stjórnarfari álfunnar. Þær áherslur hafa því miður unnið samhliða og virkað með þeim kratavillum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Konur eru auðvitað ekki síðri en karlar, en þær hugsa málin dálítið öðruvísi og eru yfirleitt nær því að láta tilfinningarök tala í sínum málflutningi.
Þær eru því oftast fljótari en karlar til að finna til samúðar með einhverjum sem þeim finnst að eigi bágt. Og það eiga sannarlega margir bágt í þessum heimi. En þeir eru líka margir sem kunna út í æsar þá list að láta sem þeir eigi bágt. Og gagnvart slíkum aðilum er greiningarhæfni samúðarinnar ekki mikið til að stóla á og tilfinningarökin vís til að villa um fyrir þeim sem gjarnan leiðast af þeim. Og þó að karlar geri sér kannski ekki grillur varðandi slíkt, er konum líklegra hættara við því samkvæmt því sem að framan greinir.
Konur eru líka almennt margar mjög opnar fyrir yfirlýstum markmiðum fjölmenningarinnar, enda er það líklega mjög grípandi fyrir tilfinningalífið að sjá þá mynd fyrir sér, að öll dýrin í skóginum séu vinir. Konur í pólitík virðast ekki síður hallar undir slík sjónarmið. En það er margt að varast og þegar hænurnar halda að minkurinn sé vinur og bjóða honum inn í hænsnakofann, er fjandinn laus !
Margar áhrifamiklar konur í stjórnmálum hafa svo, eins og vitað er, tekið sér flokksstöðu með sósíaldemókrötum og geta þannig gengið fram í því að vera fulltrúar fyrir hvorttveggja fyrirbærið sem hér er rætt um - kratavillur og kvennagrillur. Þegar þannig stendur á, er að minni hyggju um að ræða heldur leiðinlega og jafnframt varasama innréttingu í einni og sömu manneskjunni.
Það er skoðun mín að eigi framtíð Evrópu að vera farsæl fyrir íbúa álfunnar, verði að vinda ofan af þeim mistökum sem gerð hafa verið síðustu fimmtíu árin eða svo og einn liðurinn í þeirri varnarstefnu og ekki sá minnsti, er að menn láti hvorki kratavillur eða kvennagrillur ráða för í málefnum álfunnar á komandi árum !
Menning okkar þarfnast varnar gegn þeim sem virða hana einskis og ef við veitum henni ekki þá vörn gerir það enginn !
1.4.2014 | 18:32
Límbandsrúllu-réttlætið !
Við Íslendingar erum sannarlega orðnir ýmsu vanir hin seinni ár varðandi ætlaða sambúð okkar við réttlætið. Eftir að trú landsmanna á dómskerfið fór að bíða hvern hnekkinn af öðrum eftir 1990, virtist ekki aftur snúið til sæmilegs umhverfis laga og réttar. Þann 17. júní 1991 gerði nýr forsætisráðherra landsins það að umræðuefni í hátíðarræðu sinni, að svokallað kaffipakkaréttlæti" væri ekki réttlæti sem nokkur þjóð gæti verið ánægð með eða stolt af.
Viðkomandi maður réði mestu í stjórnmálum landsins næstu 18 árin eða svo og þrátt fyrir yfirlýsta andúð sína á kaffipakkaréttlætinu" verður ekki séð á neinu að réttlætismál íslensks samfélags hafi batnað á hans langa valdatíma. Þvert á móti hefur virðing manna fyrir íslensku dómskerfi stórlega minnkað á þessum tíma og enn er það að glata tiltrú og virðist í öllu stefna niður á við.
Ég - til dæmis - hef enga trú á því lengur að dómskerfið í þessu landi sé með nokkra þjónustu við réttlætið í gangi sem hægt sé að virða eða taka mark á. Kerfisþjónusta við sérhagsmuni og annarleg sjónarmið virðist miklu frekar ráða för. Upptaka kvótahryllingsins í sjávarútvegi og á öðrum sviðum, þar sem fram hefur komið svívirðilegur mismununarvilji stjórnvalda varðandi svo til öll meginmál sem snerta almannaheill, hefur grafið svo undan réttarríkinu að það er farin að verða mikil spurning hvort Ísland geti í raun talist réttarríki í dag.
Óþrifnaðurinn í kringum kvótakerfið hefur skekkt svo sýn margra á réttlætið að fjöldi manns hefur sjáanlega farið þar út af sporinu. Stöðugar hyglingar kerfisins gagnvart sömu alikálfunum í umræddu kerfi hefur gert það að verkum að þeir hinir sömu hafa þá einu sýn á réttlætið í dag, að það eigi bara að vera eitthvað sem þjóni þeirra hagsmunum. Og margir trúa því núorðið að mönnum sé beinlínis komið fyrir á hinum ýmsu dómsstigum í kerfinu til að tryggja að hagsmunir hinna útvöldu fái alltaf fullan framgang !
Og nú hefur nýlegt mál fært okkur fyllstu sönnur á það, að það kaffipakkaréttlæti" sem gagnrýnt var í þjóðhátíðardagsræðu eins mesta valdamanns Íslandssögunnar fyrir 23 árum, er enn við lýði og í fullu gengi, en nú mætti sem best kalla það límbandsrúlluréttlæti". Kjarnaatriðið í þessu svokallaða réttlæti í íslenska kerfinu virðist vera, að það eigi að sleppa stórum brotaaðilum við dóma og refsingar, en beita fullri hörku þegar litlir eigi í hlut. Það er merkilegt að umræddur forsætisráðherra skyldi byrja sinn langa einvaldsferil á því að gagnrýna það í 17. júní ræðu 1991 sem hann kallaði kaffipakkaréttlæti", þar sem ekki verður annað séð en að það réttlæti" hafi á hans langa valdaferli haft blússandi framgang í öllum málum og staðið raunverulegu réttlæti fyrir þrifum ! Eða hver er munurinn á kaffipakkaréttlætinu" 1991 og límbandsrúlluréttlætinu" 2014 ?
Við Íslendingar höfum misst niður um okkur brækurnar í ótrúlega mörgum málum síðustu 25 árin eða svo. Þegar upp koma mistakamál í kerfinu, nánast sama hvar er, fer kerfisliðið allt í vörn, hamlar framvísun gagna og þvælist fyrir á allan hátt, að því er virðist til þess eins að koma í veg fyrir að eðlilegt réttlæti fái framgang.
Mér verður til dæmis hugsað til baráttu Ástríðar Pálsdóttur, ekkju Páls Hersteinssonar, fyrir því að fá fram viðhlítandi skýringar á þeim undarlegu spítala-vinnubrögðum sem viðhöfð voru í sjúkdómstilfelli manns hennar, og virðast einna helst hafa verið bein uppskrift fyrir því að hann fengi ekki bata. Það virtist ekki mikill vilji fyrir hendi í kerfinu til að rannsaka það mál með þá hugsun í fyrirrúmi að tryggja sem best að slíkir hlutir kæmu ekki fyrir aftur. Þöggunarmúrar voru hinsvegar skjótlega reistir upp, og það á ólíklegustu stöðum, og það í blessuðu heilbrigðiskerfinu sem sagt er að eigi að þjóna okkur öllum !
Það segir lítið þó valdsmenn telji sig hafa séð öfuga mynd af réttlætinu og tali um það í ræðum á tyllidögum, ef þeir gera svo ekki neitt í málunum. Lýðskrum var til fyrir daga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólitík, þó sumir haldi annað. Veruleikinn virðist klárlega votta það, að íslenskir stjórnmálamenn séu í sannleika sagt lélegur hópur sem starfi illa fyrir land og þjóð. Kerfi sem lýtur stjórn slíkra manna ár eftir ár hlýtur að markast af þeim meinsemdum sem slíkri stjórnun fylgir og er ekki annað hægt að segja en verkin sýni þar merkin.
Límbandsrúlluréttlætið" er skammarblettur á dómskerfinu og stjórnkerfi Íslands í heild og enginn ærlegur maður getur borið virðingu fyrir yfirvöldum sem standa þannig að málum, að þau níðast á smábrotafólki en bugta sig og beygja fyrir stórglæframönnum ! Slík yfirvöld mega fara norður og niður fyrir mér !
Það er líklega margt til í vísunni sem Enginn Allrason orti nýlega um þetta öfugsnúna réttlætismat :
Kerfisbúllu klækjalið
klúðurs dúllar málin við.
Límbandsrúllu-réttlætið
reiknar núll á allan frið !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 24
- Sl. sólarhring: 73
- Sl. viku: 593
- Frá upphafi: 365491
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 506
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)