Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Karlréttindadagurinn 19. júlí !

Býsna oft heyrir maður í fjölmiðlum nú til dags viðkvæðið kvenna þetta og kvenna hitt. Það er talað um kvennahlaup, kvennasögustund, kvenfélög og kvennareið og ég veit ekki hvað og svo er til sérstakur réttindadagur kvenna, 19. júní !

Það þarf nú varla endalaust að benda á þá sjálfsögðu staðreynd að ríflega helmingur mannkynsins sé einhvers virði og varla yrði nú framtíðin björt ef konur hættu því alfarið að vera konur og til sem slíkar. Það eru skiljanlega ekki miklar forsendur fyrir líf á þessum hnetti án aðkomu kvenna, og ég held að allir ættlægir einstaklingar í okkar heimshluta ættu að vera með það á hreinu !

En að stagast á því út í það óendanlega að konur eigi sérstakan rétt, konur hafi sérstakt manngildi, konur þetta og konur hitt, virðist orðið að einhverju sístreymandi lífstílsmáli hjá mörgum aðilum, en ekki baráttumáli sem slíku. Sumar konur virðast beinlínis vilja nota sér kvenréttindamál sem tæki til að komast áfram á metnaðarfullri framabraut. Það er meira að segja til sú kenning, að fjarað hafi undan sérstökum Kvennalista á sínum tíma, vegna þess að grasrót kvenna þar hafi verið farin að átta sig á því að ýmsar framgjarnar, háskólamenntaðar konur, hafi verið farnar að nota sér hina almennu kvennahreyfingu á þann sérgjarna hátt !

Það er auðvitað alls ekki svo, að saumakona út í bæ þurfi endilega að eiga samleið með konu sem er prófessor upp í háskóla, bara vegna þess að þær eru báðar konur ? Margt fleira hlýtur að spila inn í dæmið alveg eins og í tilfellum karla. Og launamunur kvenna innbyrðis er hreint ekki lítill þegar að er gáð, svo að háskólaprófessorinn á þar litla samleið með saumakonunni þó kynið kunni að vera það sama !

Fyrir ekki svo löngu var höfð uppi snörp ádeila gegn því, af hálfu rauðsokka og líkra aðila, að í auglýsingum væri oft verið að lítillækka konur eða tala niður til þeirra. Ádeilan var í sjálfu sér nokkuð sérkennileg sem slík, en það átti til dæmis að vera eitthvað neikvætt við að kyngreina manneskjuna sem óskað var eftir til starfa. Þessi ádeila leiddi það svo af sér að hinn ópersónulegi og kynlausi starfskraftur varð til !

Það mátti til dæmis ekki auglýsa eftir skúringakonu, það þótti víst niðurlægjandi, en ég spyr, var ekki starfið heiðarlegt og virðingarvert sem slíkt, hver gat neitað því ? En þetta nöldur leiddi samt til þess að ræstitæknirinn varð til, og lengi mætti tína til dæmi um hliðstæður sem undirstrika ofurviðkvæmni öfgasjónarmiðanna í þessum málum !

Vitleysan ríður aldrei við einteyming að sagt er, og dellan í kringum margslags sínöldur varðandi þessi kvenréttindamál er búin að tröllríða þjóðfélaginu til margra ára. Og við sem áður vorum að mati margra nánast alveg undir stjórn langskólamenntaðra apakatta af karlkyni, virðumst hafa áunnið það eitt með árunum að fá langskólamenntaða hliðstæðu af hinu kyninu yfir okkur og fæ ég ekki séð að ástand mála hafi batnað við það, nema síður sé ! Samfélagið verður vissulega ekki betra þó vitleysisleg yfirráð verði í höndum beggja kynja. Jafnrétti vitleysunnar mun aldrei færa okkur neinn ávinning !

En til jafnréttislegrar áréttingar og í fullum frumkrafti heildarhagsmuna mannlegra sjónarmiða, sem taka hljóta mið af samfélagslegri velferð allra þegna þjóðfélagsins, legg ég hér með til að 19. júlí verði gerður að opinberum karlréttindadegi á Íslandi !

Þegar bæði kynin eiga orðið sinn sérstaka réttindadag, ætti engum að blandast hugur um það, að víðtæk samstaða sé fyrir hendi til stuðnings fullum mannréttindum beggja kynja í þessu landi !

Og ættu þá ekki allir að vera sáttir ?

 


Hið djöfullega íslenska blóðsugukerfi !

Það vita flestir að íslenska verðtryggingarkerfið er eins langt frá réttlæti og nokkurt kerfi getur verið. Það liggur fyrir að ekkert samfélagskerfi í heiminum hefur treyst sér til að taka upp slíkt mismununarfyrirkomulag, þar sem venjulegt fólk þarf að axla alla ábyrgð á fjármálalegum skakkaföllum, efnahagshruni og hverju sem yfir dynur, en auðstéttin, fjármálavaldið, ríkiskerfið og öll heila helvítis yfirhjörðin er alltaf stikkfrí !

Og hverjir valda skakkaföllunum, efnahagshruni og annarri óáran ef ekki þessir sömu ábyrgðarlausu aðilar, sem eru gengistryggðir fyrir öllu í þessu landi og ekki síst eigin afglöpum. Það virðist engin leið að sakfella menn á Íslandi þó allir viti að þeir hafi misnotað heilu milljarðana og steypt þjóðinni ofan í bölvunardjúp sem þegar hefur kostað sitt, eyðilagt hamingju og velfarnað þúsunda manna og framið glæpi sem yrðu taldir í hverju siðferðilega heilbrigðu þjóðfélagi meira en lítið sakhæfir. En hér - hér keppist kerfið við að sýkna þessa menn og velta málskostnaði yfir á bök skattgreiðenda í landinu, ofan á allt annað. Vei slíku kerfi, megi það fara lóðbeint í heilu lagi beina leið á ónefndan stað !¨

Verðtryggingin er bundin brennimarki djöfulsins. Hún er ávísun á hvers kyns bölvun og siðferðilega svívirðu og á sér nánast enga sambærilega hliðstæðu mismununar í þjóðfélaginu nema kvótakerfið sem hefur eins og verðtryggingin enga undirstöðu nema ranglætið. Og hugarfarslegu siðferði landsmanna hnignar jafnt og þétt þegar ranglætið veður þannig uppi og ófáir aðilar hafa hag af tilvist þess. Það er vond staða fyrir sálarlíf hvers manns að verja, fjárhagslegra hagsmuna sinna vegna, það sem hann veit í hjarta sínu að er rangt. En sú staða virðist vera að verða æ þekktari í lífi manna hérlendis og kemur stöðugt harðar niður á heilbrigðum viðmiðum þeirrar þjóðar sem í eina tíð vildi ekkert rangt styðja og hafa réttlætið eitt að leiðarljósi.

En peningaguðinn er ágengur, hann brýtur niður varnir anda og sálar og gerir margan manninn að þræl sínum. Þeir eru ófáir sem þjóna Mammon alla daga og virðast enganveginn gera sér grein fyrir að breytni þeirra er viðurstyggð og leiðir af sér bölvun til lengri tíma litið, fyrir þá, afkomendur þeirra og samfélagið í heild.

Það eru gömul sannindi að menn göfgast í mótlætinu en spillast af meðlætinu. Þannig má segja að allsleysið í gamla daga hafi ekki verið alvont því það gerði ófáa menn að meiri mönnum, en allsnægtir þær sem landlæg spilling býður mörgum upp á í dag, gera þá hina sömu yfirleitt að mun verri mönnum en þeir ella væru.

Þegar einstaklingar eða menn af hálfu fyrirtækja og stofnana tala fyrir verðtryggingu, tala fyrir kvótakerfi, tala um að allt hér fari á hvolf ef hróflað verði við þessum fjármálalegu vítisvélum, athugið þá bakgrunn þeirra sem þannig tala, finnið eiginhagsmunaástæðurnar. Þær eru alltaf fyrir hendi !

Það er ekki af engu sem menn aðhyllast ranglæti, mismunun, spillingu og siðferðilegt gildishrun. Þeir menn sem það gera telja sig og sitt einkavé græða á því ! Eru sáttir ef þeir fá bara vinning út úr viðbjóði. Þegar þeir heyra það nefnt af einhverjum að afnema þurfi ranglætið sem þeir þrífast á, verða þeir eins og brjálaðir og halda því fram að þá fari allt í rúst. Svo samgrónir eru þeir orðnir svívirðunni og ósómanum, að siðferðilega eru þeir orðnir samfélagslegir ódrættir, andlegar rústir, vatnslausar eyðimerkur !

Eftir efnahagshrunið sem var skýlaus sönnun þess að við höfðum verið á alrangri braut með svo margt, bjuggust flestir við að dreginn yrði lærdómur af áföllunum. Til þess héldu menn að rannsóknarskýrsla alþingis hefði verið gerð. En hvað kom í ljós ?

Þegar menn sáu hvað spillingin hafði verið komin á yfirgengilegt stig, hversu víðtæk hún hafði verið orðin, hversu mikillar hreinsunar þurfti við, hraus þeim hugur við tiltektinni. Skýrslunni var stungið undir stól og haldið áfram á hliðstæðri helfararrútuleið. Og hvernig verður hið síðara hrun fyrst ekkert á að leiðrétta ?

Það má ekki hrófla við efnahags-glæpamönnum þessa lands, það má ekki hreyfa við verðtryggingunni, það má ekki breyta kvótakerfinu, það má ekki umbreyta því úr sérhagsmunaófreskju í almannahagsmunablessun. Í stuttu máli, það má ekki taka á spillingunni !

Íslenska samfélagið er rekið á forsendum einkahagsmuna 10% landsmanna, þeirra ríkustu, ekki fyrir þjóðarheill !

Meðan blóðsugukerfi eru við lýði er nefnilega tómt mál að tala um þjóðarheill sem viðmið og takmark. Það er annar andi og verri sem stjórnar kerfinu !

Ætlum við aldrei að þvo af okkur óþverrann ?

 

 


Ort í minningu fórnarlambs -

 

Þeir drápu þig, drápu þig, skæðir þig skutu,

skylduna fyrstu og stærstu þar brutu,

tóku af þér lífið og létu þig blæða,

litu ekki á neitt sem var farvegur gæða !

 

Vopnin þar ein fengu við þig að tala,

vígamenn mátti þar upplíta svala.

Skotgleðin birtist á valdhörku velli,

vestrakennd sviðsmynd var sköpuð í hvelli !

 

Ofbeldisviljinn þar skaust fram í skyndi,

skilningur hvarf þar og umburðarlyndi,

eins og þú grimmasta villidýr værir,

vegirnir engir til manngæsku færir !

 

Sást þar hvað lítið eitt mannslíf er metið,

því miðunarhæfnin er dáðasta fetið,

og kjörleið til frama með kitlandi mætti,

hjá kerfi sem drepur með þvílíkum hætti !

 

Og þú sem varst kvalinn af svartnætti sefans,

með sálina í pyntingu geðveikisklefans,

og hrópaðir þarna til hjálpar í æði,

varst hrakinn frá öllu sem bauð upp á gæði !

 

Að bjarga þér var ekki boðið í neinu,

sú birtingarmynd var þar alveg á hreinu,

því samastað hvergi þú áttir að eiga,

svo allt bauð þér stöðuna lífsvonarfeiga !

 

Og nú ertu dauður og farinn og fallinn,

en forherðing þvergirðir dómarapallinn,

er löggilda hersingin sjálfa sig sýknar

í svartnætti hrokans og frystingu líknar !

 

En fórnarlamb varstu og veikur og kvalinn,

þó værir að síðustu réttdræpur talinn,

af valdsmönnum kerfis sem telur sig tryggja

tilveru allra sem land okkar byggja !

 

Og spurningin vaknar sem verður að svara,

er verið með þessu í kerfinu að spara ?

- Blý er til víða í banvænum hólki,

er byrjað að útrýma geðveiku fólki ?

 

                      ooooOoooo

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvað er lífið ?

Ég held ég geti sagt með fullum sanni, að ég hafi verið alinn upp við það viðhorf að lífið væri einhvers virði, já, og ekki bara það, heldur mikils virði. Siðalögmál samfélagsins í þá tíð þegar ég var að mótast til manns, gengu mikið út á það að enginn ætti annan að drepa. Áhrif kristindómsins höfðu þar mikið að segja og það virtist víðtæk samstaða um það viðhorf meðal þjóðarinnar að í öllu bæri að efla frið en ekki viðsjár milli manna.

Ýmis óhugnanleg mál frá fyrri tíð, sem maður las um sem unglingur, svo sem Illugastaðamorðin og atburðirnir á Sjöundá, urðu manni því mjög til umhugsunar og maður spurði sig þráfaldlega þeirrar spurningar: Hvað verður um sálir fólks sem hefur framið slík afbrot og hefur slíkt á samviskunni ?

Ég veit auðvitað ekki svarið við því, en það hafa nokkuð margir lifað í þessum heimi sem hafa haft líf á samviskunni og það jafnvel býsna mörg. En sú óværa var samt lengi vel að mestu fjarri okkar landi, þó til væri að látin væri stundum í ljós sú hugsun, líklegast í glettni og hálfkæringi, að saklausir menn væru drepnir út í löndum, meðan sumir fengu að lifa hérlendis sem ættu það ekki skilið !

En lífið var álitið friðhelgt og flestir Íslendingar voru áreiðanlega þannig sinnaðir að býsna mikið hefði þurft að koma til, svo þeir dræpu mann. Maður með mannsblóð á höndum hlaut að verða merktur í okkar litla samfélagi, jafnvel þó að hann hefði setið inni í smátíma og tekið út einhverja refsingu. Jafnvel mildandi aðstæður eða svokallaður neyðarréttur sjálfsvarnar, gat ekki breytt því almenna áliti að manndráp væri mikill glæpur og ekki var talið að neinn maður yrði samur eftir að hafa orðið annarri manneskju að bana.

Það hefur margvíslega komið í ljós í þeim þjóðfélögum þar sem manndráparar eru á ferð í stórum stíl, að það fylgir þeim ekkert gott. Hjá slíkum er ofbeldið talið búa yfir lausnum og mörgum verður gjarnt að grípa til þess býsna fljótt. Eftir því sem slík viðhorf verða almennari því meira mark setur ofbeldið á samfélagið og lífið býr við meiri hættur. Því fylgir bölvun sem bitnar á öllum !

Á hátíðastundum er hinsvegar algengt að setja lífsréttinn á stall og fara fögrum orðum um lífið sem Guðs gjöf og þar fram eftir götunum. En í veruleikanum er myndin sannarlega allt önnur. Við níðumst á lífinu í móðurkviði, við níðumst á fötluðum og minni máttar, við förum í mörgu illa með gamla fólkið okkar og það virðist gerast æ oftar að fólk sem fer inn á spítala - deyr ! Ekki vegna sjúkdóms eða heilsuvanda, heldur vegna mistaka í meðferð. Og ég spyr, eru þetta ekki allt himinhrópandi dæmi um þverrandi virðingu fyrir lífinu ? Í mínum augum er það að minnsta kosti svo !

Hvað er lífið ? Hvernig skilgreinir þú sem lest þessar línur -  lífið ? Hugsarðu eitthvað um það hvað það er skammvinnt, að þú sem ert kannski 18 ára í dag, verður 28 ára eftir tíu ár, gamall miðað við það hvað þér finnst í dag um fólk á þeim aldri  ?

Og 10 ár eru ekki langur tími, tíu árum þaðan í frá ertu orðinn 38 ára. Það er að segja, hundgamall miðað við þau viðhorf um aldur sem þú hefur nú ! Þá finnst þér líklega  ekkert eftir nema elliheimilið og gröfin !

En veistu að ég hef hitt gamalt fólk og þá meina ég gamalt fólk, fólk sem er komið vel yfir áttrætt, og það hefur sagt mér að það hafi átt sín bestu ár eftir sjötugt !!! Og þú spyrð kannski í forundran: „Er hægt að eiga góð ár eftir sjötugt ?"

 Já, það er hægt. Ef við búum í þjóðfélagi sem virðir lífið, hlynnir að æsku og heiðrar elli, sem býr vel að þeim sem gamlir eru í öllu tilliti, þá er hægt að eiga góð ár eftir sjötugt. En því miður er margt á þeim vegi sem stefnir annað, eins og jafnan verður þar sem peningagildi eru metin hærra en háleitar manngildishugsjónir. Og lífið, hvort sem það er tvítugt eða sjötugt hlýtur að gjalda þess með einum eða öðrum hætti !

En lífið er og á að vera friðhelgt ! Það er eina leiðin sem okkur er fær til blessunar í þessari tilvist, að viðhalda þeirri trú og því viðhorfi. Menn sem virða ekki lífið draga úr eigin öryggi hvar sem þeir ganga. Vilt þú láta lögreglu sem virðir ekki lífið, leiðbeina þér á vegferðinni  ? Vilt þú láta lækni annast þig sjúkan sem ber enga virðingu fyrir lífinu ? Vilt þú leita hjálparþurfi á náðir einhvers sem metur lífið einskis ?

Nei, auðvitað ekki, lífið er friðhelgt og á að vera það. Og ekkert er frekar gjöf Guðs en það. Og það skiptir máli hvernig við förum með líf okkar. Við þurfum nefnilega að standa reikningsskil í fyllingu tímans. „Hvernig fórst þú með þínar talentur ?" verður einhverntíma spurt og þá er betra að geta svarað einhverju öðru en verða að segja sakbitinn : „ Ég virti þær einskis !"

Hver sem tekur líf og óvirðir lífið er sekur undir lögmáli himinsins. Honum verður kannski fyrirgefið vegna mildandi aðstæðna, en gjörðin sem slík verður aldrei góð.

Umgöngumst því lífið með virðingu og gerum okkur grein fyrir því að allir hafa sama lífsrétt hér á þessari jörð. Við lifum skamma hríð í þessari tilveru, en við eigum von um miklu meiri og stærri gjöf, líf sem er óendanlega miklu innihaldsmeira en það sem við augum blasir hér. Það ætti að vera meginmarkmið okkar meðan við erum hér að höndla þá gjöf. Leiðin að því marki felst ekki síst í því að virða lífið sem Guðs gjöf og helgi þess !

 

 


Mælska Vilmorins !

Ég hef alltaf verið nokkuð hrifinn af ýmsum bókum Rafaels Sabatinis. Sem unglingi fannst mér mjög gaman að lesa bækurnar Víkingurinn, Sægammurinn, Sendiboði drottningarinnar, Launsonurinn, Hefnd, Hetjan hennar, Ástin sigrar og Foringinn !

Launsonurinn hefur til að mynda alltaf verið í nokkru uppáhaldi hjá mér. Sagan hefst í aðdraganda frönsku byltingarinnar. Aðalsöguhetjan er kaldhæðinn ungur maður sem lifir eiginlega milli þils og veggja stéttarlega séð. En svo er besti vinur hans Philippe Vilmorin, prestlærður hugsjónamaður, drepinn af háttsettum aðalsmanni, sem taldi sig þurfa að þagga niður í honum vegna mælsku hans. Vilmorin var að tala máli lágstéttanna, hann var að tala um almenn mannréttindi sem markgreifi La Tour d´Azyr var hreint ekki tilbúinn að viðurkenna. Það varð því að  þagga niður í slíkum manni !

Og Vilmorin var hrakinn út í að heyja vonlaust einvígi, ungur prestlingur gegn einum færasta einvígismanni Frakklands á þeim tíma, sem stakk hann náttúrulega á hol og drap hann eins og hann væri að vinna sérstakt þarfa og skylduverk. Og það má alveg hafa það í huga, að þeir voru margir sem voru myrtir á svipaðan hátt og Vilmorin áður en lýðfrelsi fór að þekkjast í núverandi mynd.

Ég man hvað mér fannst það koma vel á vonda þegar söguhetjan, André Louis,  fór að koma fram sem riddari þriðju stéttarinnar, og vann á einvígismönnum aðalsins með þeirra eigin hætti. Aðalsmennirnir héldu að þeir væru bara að þagga niður í andstæðingi sem kynni ekki að halda á sverði, en komust að raun um að ætlað fórnarlamb var í rauninni ljón. Þeir féllu á eigin bragði og hlutu makleg málagjöld.

Það er margt athyglisvert í þessari bók og samræðulistin víða mjög skemmtileg aflestrar. En samt fellur Sabatini í sumar skollagryfjur sagna frá þessum tíma, meðal annars þá að gefa sér það, að hæfileikar og atgervi hljóti að vera frá aðlinum komið með einum eða öðrum hætti. Fólk sem tilheyrði lágstéttunum átti nefnilega ekki að búa yfir neinu slíku. En þrátt fyrir það voru hvorki Mozart eða Beethoven konungbornir á veraldlega vísu eða af aðlinum, ekki heldur Isaac Newton, Samuel Johnson eða Benjamin Franklin svo einhverjir afburðamenn séu nefndir. Allt voru þetta samt menn sem mótuðust á 18. öldinni, öld konungsdýrkunar og aðalsvalds, voru af venjulegu fólki komnir og hæfileikarnir óumdeildir. Og þessir menn og aðrir slíkir munu halda sínu gildi meðan eitthvað gott er metið að verðleikum í þessari hverfulleikans veröld !

Athyglisvert er líka hvernig Sabatini lýsir Robespierre. Þar er ekki eitt einasta lýsingarorð jákvætt og fer það saman við þau viðhorf sem lengst af voru allsráðandi varðandi þann mann. Sem betur fer breyttust söguleg sjónarmið nokkuð þegar líða fór fram á tuttugustu öldina, þegar menn fóru að treysta sér að koma fram með sagnfræðilegar athugasemdir varðandi framferði kóngafólks og aðals, á grundvelli þess að halda því einu fram sem væri stutt frambærilegum sannleiksrökum. Sögulegar skáldsögur geta oft verið mjög skemmtilegar aflestrar, en það ber alltaf að hafa í huga, að þær eru ekki heilsteypt sagnfræði. Stundum geta þær verið 90% sagnfræðilega réttar, en tíundi hlutinn sem á vantar getur verið þannig úr garði gerður að hann byggi undir mjög alvarlegar villukenningar varðandi það sem raunverulega gerðist. Og stundum er tilgangurinn beinlínis sá að koma rangri túlkun fram. Dæmi um slíkar skáldsögur eru að minni hyggju Rauða akurliljan eftir barónessu Emmu Orczy, Börnin í Nýskógum eftir Frederick Marryat og reyndar flestar ef ekki allar sögur hans, Með brugðnum bröndum eftir Capt. Gilson  o.fl.o.fl. Það er til mýgrútur af sögum sem skrifaðar hafa verið af fylgifiskum hástétta til þess eins að geðjast valdinu og gamla fóðurkerfinu.

Rafael Sabatini fer þó ekki þessa leið, hann horfir miklu betur yfir sögusviðið en slíkir höfundar og reynir að láta hverja persónu tala fyrir sig. Þegar André Louis og La Tour d´Azyr gera upp sína reikninga koma fram sjónarmið hvors um sig, en þar sker á milli að markgreifinn er ákveðinn einvaldssinni af hástéttarlegum hagsmunahvötum, en André Louis er lýðveldismaður, en kannski fyrst og fremst vegna þess að hann ákvað að taka upp hið fallna merki Vilmorins !

Þannig varð hann konungsvaldinu og aðlinum miklu hættulegri andstæðingur en Vilmorin hefði í sjálfu sér nokkurntímann getað orðið. Þetta minnir á það, að rússneska keisaraveldið lét hengja Alexander stóra bróður Leníns, 17 ára gamlan og bjó þannig til sinn langsamlega hættulegasta óvin. Það er oft gaman að velta ýmsu fyrir sér, hver hefði til að mynda framvinda mála orðið ef keisarastjórnin hefði sýnt miskunnsemi og náðað Alexander, til dæmis sökum ungs aldurs hans ? Hefði sagan þá kynnst manninum Lenín sem slíkum ? Það veit auðvitað enginn.

En það ber að hafa í huga, að rússneska keisarastjórnin var ekki miskunnsöm stjórn frekar en aðrar einræðisstjórnir sögunnar og menn sem gerðu sig bera að andstöðu gegn þeim fengu oftast að finna fyrir því. Og enn í dag, þrátt fyrir marga sigra lýðræðisins á seinni tímum, eru þeir sem hafa til að bera mælsku Vilmorins og samúð með kúguðum, líklegri en aðrir til að verða píslarvottar vegna afstöðu sinnar til mála. En nú er það kannski ekki konungsvald eða aðalsvald sem ógnar lýðræðinu mest, heldur aðrar erfðamyndir þess sama valds, sem birtast í fjármálavaldi samtímans, einokun markaðsafla og auðhringadrottnun, margskonar kúgun, dulbúin sem opinber, á lítilmögnum út um allan heim !

Það veitti ekki af því að samtíminn ætti sér þúsundir Omnes Omnibusa (Allir fyrir alla), eins og André Louis, til að opna augu fólks fyrir þeirri hættu sem lýðræðið stendur frammi fyrir í dag, frá öfgakenndum hægri öflum, sem stefna að því að leiðrétta þá sögulegu skekkju sem þeir telja að framrás lýðræðisins hafi verið.

Mælska Vilmorins þarf sannarlega að vera til staðar nú sem endranær !

 

 


Ýjað að þessu og hinu !

Nýlega hlustaði ég á viðtal við Eygló Harðardóttur ráðherra í útvarpi og þar sagði hún meðal annars að ýjað hefði verið að því í frétt varðandi einhvern glæp sem framinn var hérlendis, að sá er drýgði verknaðinn hefði verið útlendingur. Skildist mér að hún teldi það afleita fréttamennsku. Ég segi hinsvegar, hvað er að því að tekið sé fram hver misgjörðina framdi ? Er betra að við stöndum í þeirri trú að Íslendingur hafi framið afbrotið þegar svo er ekki ?

Tvisvar sinnum hef ég upplifað það, að hrottaleg ofbeldisverk voru framin hérlendis, og þegar sagt var frá þeim í hádegisfréttum útvarps á sínum tíma, í ópersónulega stílnum, sem Eygló og fleirum virðist hugnast svo vel, hugsaði ég með mér: „Hvernig erum við Íslendingar eiginlega að verða ?"

En svo frétti maður það síðar að í báðum þessum tilvikum hefði árásarmaðurinn verið útlendingur ! Og ég verð nú bara að viðurkenna að mér létti. Þarna var landinn sem sagt ekki að verki !

Af hverju má ekki segja sannleikann eins og hann er í svona tilvikum ? Af hverju þarf alltaf að vera að hlífast við einhverja sem virðast hreint ekkert áhugasamir fyrir því að fara eftir okkar lögum og reglum ? Af hverju er svo margt stimplað sem fordómar þegar það hentar einhverjum sjálfskipuðum menningarelítuhópum, en annað sem eru kannski ekki síðri fordómar látið óátalið ? Af hverju er þessi ótrúlega tvöfeldni í gangi í samfélaginu sem lyftir stöðugt fölskum viðmiðum upp í himinhæðir ?

Erum við kannski svona miklir hræsnarar ? Erum við virkilega svona ómerkileg eins og umræða dagsins virðist oft gefa til kynna ? Ég neita bara að trúa því !  Við hljótum að vera skárri en það, við getum ekki hafa úrkynjast svo herfilega á ekki lengri tíma en hér er um að ræða. Það er nefnilega ekki langt hjá okkur í kynslóð þá sem innrætti börnum sínum Guðsótta og góða siði, kynslóð afa og ömmu. Það hlýtur að búa okkur í brjósti einhver arfgeng vitund um heiður og æru, einhver tilfinning og virðing fyrir því sem rétt er. Ég neita að trúa öðru !

Þannig hef ég alltaf séð Íslendinga fyrir mér á heildina litið, sem heiðarlegt og réttsýnt fólk. En ég verð þó að játa, að hin síðari ár hef ég átt æ erfiðara með að halda þessari skoðun uppréttri og ekki síst fyrir það, að umræðan í samfélaginu er að mínu mati orðin svo skökk og skítleg á margan hátt. Og ég vil meina að fjölmiðlarnir stjórni því mikið. Þeir eru hreint ekki í því að lyfta neinu á hærra plan, nema síður sé !

Ég fæ nefnilega ekki séð að einhverjar siðfræðilegar reglur eða grundvallar-hugsjónir ráði þar ferð, heldur miklu fremur einhver dægurmálasjónarmið sem virðast taka afgerandi mið af einhverjum skammtímahagsmunum eða jafnvel augnabliks-tilfinningum. Þegar æsifréttamennska er komin í spilið fer yfirleitt yfirvegun og góð dómgreind veg allrar veraldar. Að mínu áliti erum við komin nokkuð langt af vegi frá góðum fyrirheitum á fjölmiðlasviðinu, miðað við það sem talið var gott og gilt fyrir ekki svo löngu !

Ég sakna í fjölmiðlum leiðarlínu, einhvers sem segir mér að eitthvað háleitt og göfugt sé ennþá til í þessum mikla miðlunarheimi, en ég þykist vita að ég sé þar að gera mér vonir um hluti sem veruleikinn mótmæli kröftuglega að séu fyrir hendi.

En mataræðið sem við búum við andlega sem líkamlega hefur alltaf sitt að segja. Líkaminn bólgnar út af fitu við stöðuga neyslu sjoppumatar og ef við fóðrum hugann sífellt með rusli verður útkoman líklega eitthvað svipuð. Og fóðrið frá fjölmiðlunum er andlega talað, að miklu leyti miður gott, hreint ekkert kjarnafæði. En það er gleypt við því miklu meira en nokkur gerir sér grein fyrir, og sumir virðast vera orðnir svo þreyttir á því að hugsa sjálfir að þeir láta misvitra fjölmiðlana mata sig út í eitt. Og ekki kann það góðri lukku að stýra !

Hvað er að því að hlynna að þjóðlegum dyggðum ? Eða má kannski ekki lengur tala um þjóðlegar dyggðir, er þá litið svo á að verið sé að gera lítið úr einhverjum sem flutti til landsins í gær, frá Fjarskanistan eða Mars ?

Eigum við ekki bara að reyna að vera sjálfum okkur samkvæm og hætta að tala eins og hér sé verið að búa til farsældaríki fullkomleikans og kannski einkum fyrir aðkomna. Ég held að ráðherrar í ríkisstjórninni ættu til dæmis að fara sér hægt í slíkri tjáningu, því það er ekki svo margt sem kemur frá þeirra hendi markað þeim fullkomleika sem líklega teldist eiga við í slíku ríki.

Við eigum heima á jörðinni, í landi sem heitir Ísland, og þetta samfélag okkar hér á að vera fyrir þá sem vilja búa hér í sátt og samlyndi, og sýna þeim gildum hollustu sem skapað hafa samfélagið og halda því saman. Ég fæ ekki séð að það sé neitt að því að líta þannig á málið - sem Íslendingur !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband