Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017
30.11.2017 | 18:06
Óburður er fæddur !
Ný hægristjórn hefur verið mynduð í landinu. Hún er að vísu í nokkrum felulitum en engum ætti þó að dyljast ættarmótið. Þó forsætisráðherrann telji sig vera vinstri manneskju er ljóst að talsvert vantar þar á hugsjónaleg heilindi því viðkomandi er sýnilega fús til starfa í vondum félagsskap jafnvel til fjögurra ára - ef toppsæti er í boði.
Og þar hvílir líklega höfuðábyrgðin á bastarðinum sem borinn er - að móðerninu til, en faðernið er síst betra og fegrar ekki burðinn :
Sérgæskunnar sóknarher
svínbeygt hefur Kötu.
Bastarðurinn borinn er,
blásvart hland í fötu !
Það er auðheyranlegt að ánægjan með þessa stjórn er aðallega til hægri. Það gleður tækifærissinnaða hægri menn að það skuli vera hægt - að draga þá sem hafa verið taldir einna lengst til vinstri - inn í svona stjórn. Þeir iða í skinninu eftir að fá að nota tækifærin sem munu bjóðast til að samspilla þeim !
Kata Kobba þykist vera að brjóta nýtt blað í íslenskri pólitík með þessari stjórnarmyndun, en líklegt þykir mér að hún eigi eftir að uppgötva það sem aðrir hafa gert á undan henni að allt er betra en íhaldið. Frænka hennar og nafna gaf einu sinni út bækling undir nafninu Frjálsar ástir. Kannski hefur hugmyndin komið þaðan í umsnúnu ferli varðandi það að leggja lag sitt með þessum hætti við íhaldið, þetta stjórnarfyrirkomulag flokkist sem sagt undir frjálsar ástir - eða bara frjálshyggjuástir !
En hefði Kata Kobba verið sterkur formaður í vinstri skilningi þess hugtaks, hefðu hinir flokkarnir aldrei tekið það í mál að hún yrði forsætisráðherra. Hún verður forsætisráðherra vegna þess að Bjarni og Sigurður telja enga hættu stafa af henni fyrir sína hagsmuni. Það segir auðvitað sína sögu:
Í eigin þágu er Kata kæn,
en kannski sitthvað henni um megn.
Hún sem var svo vinstri græn
virðist orðin blá í gegn !
Það er þó fagnaðarefni að tveir þingmenn VG skuli ætla að standa vinstri vaktina áfram og séu ekki tilbúnir að hlaupa til liðs við Kötu Kobba bara vegna þess að hana langar til að verða forsætisráðherra. Það er kjarkað fólk sem stendur á sínu í hóp þar sem nífaldur aumingjadómur ræður ríkjum í forherðingu gagnvart því sem rétt er. Sjálfsagt verður þó reynt eins og hægt er að beygja þau Rósu Björk og Andrés Inga en vonandi standast þau þann þrýsting :
Þingflokkurinn líkt og leir
leysir engan vanda.
En þó til vinstri virðast tveir
vera í réttum anda !
Steingrímur Sigfússon sýnist ætla að ljúka sínum pólitíska ferli með því að fá að vera þingforseti í skjóli íhaldsins. Það eru heldur nöturleg örlög fyrir þá kempu sem Steingrímur var á sínum tíma meðan hann þekkti enn til átta !
Persónuleikabreytingin sem þar hefur átt sér stað var forsenda eftirfarandi vísu:
Steingrímur var stólpajarl,
stór hans gengisvegur.
En nú er hann orðinn annar karl,
íhalds-sleikjulegur !
Vinstri blágræn hafa nú ákveðið að halda íhaldinu við völd og leyfa Bjarna að stjórna fjármálaráðuneytinu áfram og hafa flesta þræði í sínum höndum. Það hefðu einhvern tíma þótt fréttir að slíkt væri gert. Engeyjarættin heldur sínu og nú með aðstoð nýrra þjóna. Óburður er fæddur sem verður fyrst og fremst Vbg til skammar og skaða !
Vinstri blágræn vaða um svið,
vekja í málum falskan klið.
Stunda verslun stanslaust við
stóra og litla íhaldið !
Ég samhryggist þjóðinni með lágkúrustjórnina sem nú er sest á kerfiskoppinn !
Pistlinum vil ég svo ljúka með eftirfarandi vísu sem varð til í dag:
Vinstri hreyfing valdasjúk
veltist inn í skaðafjúk,
íhaldsblá og Mammonsmjúk,
margt er líkt með skít og kúk !
26.11.2017 | 10:39
Hin kokkaða kássa !
Það virðist sannarlega sitthvað í deiglunni um þessar mundir og margt er eldað. Greinilega er ætlast til að ýmsir éti nú það sem lystin leyfir ekki, hvað sem verður og hvernig sem allt fer !
Þörf er því fyrir marga að endurmeta stöðu sína í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa. Menn sem eru vinstri menn af hugsjón þurfa að finna sér nýtt stjórnmálalegt og félagslegt varnarþing. VG er ekki lengur ásættanlegur valkostur í þeim efnum !
Þegar tækifærissinnuð pólitík fer að ráða í flokki þvert á hugsjónir og stefnumið, er ekki lengur hægt að una þar málum. Það er hvergi vært í húsum, þar sem Mórar og Skottur skrattans fá að ríða röftum og ráða bæjarbrag. Leita verður heilbrigðari hýbýla og því fyrr því betra !
Það hefur svo sem um nokkurt skeið legið fyrir að Kata Kobba væri að færa VG áleiðis að miðjunni, því hún hefur náttúrulega aldrei verið sterk á taugum til vinstri og er í raun lítið annað en borgaraleg puntudúkka. Það er oft með ólíkindum hvað ein manneskja virðist geta dregið heila hjörð með sér út í málefnalega ófæru !
Staðan í flokkakerfinu er orðin nokkuð skrautleg, meðal annars vegna þess, að nú má eiginlega segja að þrjú Framsóknarflokks-afbrigði séu til staðar í íslenskri pólitík, aldargamla fúafyrirbærið, nýbylgjuskrumtæki Sigmundar og villuráfandi VG .
Ekkert þessara fyrirbæra getur á nokkurn hátt talist gott eða sjálfu sér samkvæmt !
Tækifærissinnuð sjónarmið virðast ráða alfarið ferðinni og engan sannan grunntón er þar að heyra varðandi stefnumál. Sjálfseyðingarhvötin virðist leika stórt hlutverk í gerðum þeirra sem völdin hafa þar og víst er að þessi fyrirbæri munu ekki lifa til langframa í þeirri mynd sem blasir við í dag !
Á sínum tíma gerði flokksfólk í Alþýðubandalaginu þau slæmu mistök að kjósa Margréti Frímannsdóttur til formanns. Hún var afleit í því hlutverki, enda lítt til starfsins fallin þar sem hún var í raun bara krati. Skammt var því þess að bíða að Alþýðubandalagið geispaði golunni, enda sem flokkur þá orðið svipur hjá sjón !
Nokkru síðar kom svo út einhverskonar ævisaga Margrétar Frímannsdóttur, undir hinu frjálslega heiti Stelpan frá Stokkseyri. Þar vantaði nú ekki gyllingarnar og umrædd manneskja átti auðvitað að hafa unnið þessi og hin afrekin. Aldrei vissi undirritaður til þess að nokkur slík hefðu verið unnin sem í frásögur væru færandi, en sölumennska er alltaf söm við sig og gerir oft svart að hvítu !
Sennilegt þykir mér að einhverntíma komi út ævisaga Kötu Kobba og kannski að nafnið á henni verði Stelpan sem stútaði VG , enda mun það trúlega geta virkað sem söluvænlegur titill, ekki síst til hægri, og sennilega þykir allt fengið með því eins og vant er !
En í sambandi við stjórnarmyndunarmálin, kæmi mér ekki á óvart að þrenningin sem er að koma þeirri ríkisstjórn á koppinn sem í smíðum er, ætli að kynna hana til leiks þann 1. desember næstkomandi, það er að segja - á sjálfan Fullveldisdaginn !
Það á líklega að verða einhverskonar gjöf til þjóðarinnar í tilefni dagsins, SALEK-samkomulag hinnar allt-um-lykjandi sérgæsku-samvinnunnar, þar sem Kata Kobba tekur að sér að ábyrgjast þá sem hún þar hefur tekið sér til sálufélags !
En stjórnin sú mun getin og fædd með skömm. Hún verður aldrei annað en bastarður þó einhverjir hægri menn kunni í sérgæskuvímu sinni að kalla hana síðar meir sigurvegara. Þar fær auðvitað breska sögulínan að ráða. Margir vilja löngum hylla valdið - jafnvel þó það sýni sig rotið og spillt !
En alltaf kemur að skuldadögunum og það skal haft í minni til seinni stundar:
Margir klifra í björgin bláu,
binda lag við illar vættir.
Falla svo úr flugi háu
og farast alveg sundurtættir !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook
22.11.2017 | 17:20
Um siðleysu sjálfhverfunnar !
Stjórnarmyndunarviðræður þriggja flokka í Þýskalandi hafa siglt í strand. Eftir nokkuð langar viðræður er ljóst að samkomulag er ekki í sjónmáli. Christian Lindner formaður Frjálslynda flokksins sagði í yfirlýsingu að betra væri að stjórna ekki en stjórna á röngum forsendum, betra væri að vera utan stjórnar en að stjórna illa !
Mér virðist sem forusta VG gæti ýmislegt lært af Christian Lindner. En þegar brotavilji er orðinn forhertur er erfitt að snúa til baka af villuveginum. Kötuklíkan í forustu VG vill heldur stjórna á röngum forsendum en stjórna ekki. Kötuklíkan í forustu VG vill heldur stjórna illa en vera utan stjórnar !
Kata Kobba er sem sagt algerlega á öndverðum meiði við Christian Lindner og þessa afstöðu hans til mála. Hún virðist einblína á forsætisráðherra-stólinn og sér líklega ferilskrá sína í hæstu hillingum. Hún virðist komin í spor Ingibjargar Sólrúnar 2007 þegar hún sá ekkert nema samstarf við íhaldið og hlaut sín gjöld fyrir !
Kata Kobba telur sig bersýnilega ekki þurfa að læra neitt af öðrum. Hún þykist einfær um þetta allt saman. Hún ætlar að temja íhaldið og aga Framsókn, hreinsa spillingargenin út úr sálum samstarfsaðilanna og búa til hreint borð - ein og sér !
Dúkurinn á því borði verður vísast grænn eins og hann var þegar bankarnir voru gefnir hér um árið. Mikið ætlar hún Kata Kobba að vera klár og ákveðin í þessu pólitíska siðbótarstarfi sínu. Hún ætlar að gera suma að nýjum og betri mönnum, jafnvel þótt þeir séu í raun óforbetranlegir !
Það tekur ekki hver sem er í hnakkadrambið á óþekkum peyjum eins og Bjarna Ben og Sigurði Inga og dustar þá til, en það ætlar hún Kata Kobba að gera svo um munar !
Hún ætlar bara að vera myndug og segja höstuglega: ,,Svona strákar, veriði nú einu sinni til friðs, ekki ganga um allt á skítugum skónum þó þið hafið gert það hingað til. Engan ótugtarhátt, nú er það ég sem ræð og þið verðið bara að vera þægir !
Svona gæti ofurstjarnan Kata Kobba líklega verið, ef sviðið væri bara úr teiknimynda-bransanum, en því miður erum við hér að glíma við raunveruleikann og sú Kata sem þar ætlar að gera hið ómögulega er einfaldlega orðin meira en lítið veruleikafirrt !
Hvers virði verður það fyrir hana að vera í forsvari fyrir ríkisstjórn af því tagi sem verið er að setja á laggirnar, þar sem íhaldið verður trúlega áfram með fjármálaráðuneytið og sjávarútvegurinn í höndum þess eða Framsóknar ? Hvað verður um hreinsun í fjármálakerfinu og kvótamálastefnu VG við þær aðstæður ?
Jú, ríkisstjórn Kötu Kobba mun sitja að mestu án þess að taka á stóru málunum. Ágreiningsmál verða ekki leyst, þeim verður ýtt til hliðar, það verður brottkast á þeim, þau verða í geymslu. Það verður engin afspilling, það verður engin breyting á kvótakerfinu, það verður engu ruggað til skaða fyrir samstarfið því það er auðvitað svo óheilbrigt að það þolir ekkert rugg !
Og hver mun leika strengjabrúðuna, hina uppsettu tuskubrúðu íhaldsins ? Hver verður á sviðinu í því hlutverki og hver mun toga stífast og þéttast í strengina á bak við - þegar fram í sækir ?
Við vitum þetta svo sem fyrir og höfum séð ýmislegt ömurlegt gerast þegar fólk hleypur frá hugsjónaskyldum sínum. En samt sem áður getum við undrast enn einu sinni yfir þeirri hégómagirnd og þeirri framasýki sem fær fólk til að snúast gegn öllu því skásta sem í því býr, fær fólk til að breyta sér í umskiptinga, fær fólk til að tala tungum tveim og svíkja sína félaga til að geðjast öðrum alls óskyldum sem ekki eiga það skilið á nokkurn hátt !
Allt bendir til þess að hin ógeðfellda framvinda málanna verði eftirfarandi:
Full af trú hins skakka skyns
skælbrosandi liggur
Kata í örmum íhaldsins,
atlot Bjarna þiggur !
Slíkt framferði hefnir sín sjálfkrafa og þar þarf engu við að bæta !!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook
20.11.2017 | 17:39
Hvers virði erum við ?
Meðal Vinstri grænna hefur á undanförnum árum virtst einna helst vera skilningur á því að um suma hluti gildi ekki málamiðlun, að sumt verði ekki sett á markað !
En sá andi virðist orðinn hræðilega fyrirferðarmikill í nútímasamfélagi að það megi versla með allt. Spurningin sé bara :,, Hvað fæ ég í minn hlut ?´´
Þetta kom mjög skýrt fram í allri umræðunni um aðildina að Evrópusambandinu. Þó það væri margbúið að sýna fram á að við glötuðum umráðum yfir auðlindum okkar við aðild og jafnvel háttsettir menn hjá sambandinu hefðu staðfest að ekki myndu fást undanþágur í þeim efnum, héldu þeir sem vildu koma okkur inn í sambandið stöðugt áfram að tala um að við þyrftum að fá að vita hvað okkur stæði til boða ?
Og fyrir hvað ? Fyrir að afsala okkur fullveldi okkar og sjálfstæði, fyrir að versla með það sem ekki ber að versla með. Og fjöldi manns endurómaði þessa siðleysu, sem fól það í sér að við gætum svo sem selt okkur, ef við fengjum nógu gott tilboð !
En hvaða sældarlífi lifir sá sem hefur selt frá sér frelsi sitt og sjálfstæði ? Hversu lengi heldur hann að hann geti lifað á Júdasargreiðslunni eftir að hann hefur misst ráðin yfir eigin lífi og afkomu ? Sú greiðsla verður fljótt endurheimt af blóðsugunni !
Nei, við skulum ekki telja okkur trú um það að það sé hægt að versla með allt og ætla sér að vera maður áfram. Sá sem slíkt gerir er á leiðinni að verða skriðdýr !
En nú virðist sem ráðandi öfl í þingflokki Vinstri grænna hafi uppgötvað einhverja hjáleið eða hliðar rás í þessum efnum, að það megi versla með allt, ef það sé bara farin önnur leið. Þetta minnir dálítið á ýmislegt sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram af sinni hálfu í gegnum tíðina. Það er þessi uppblásna áróðurslausn sem á að felast í því að fara ,,hina leiðina !
En slíkt er bara blekkingarleikur. Vakið villuferli í gegnum loforð og lýðskrum er að verða æ stærri þáttur í stjórnmálum samtímans. Hin leiðin er í flestum tilfellum ekki til sem raunhæfur valkostur, en ef hún er til felur hún ekki í sér neina töfralausn á vandamálunum, vísar aðeins á sömu villusporin, en er höfð í skrautlegum umbúðum sem ætlaðar eru til að láta fólk gína við innihaldi sem engu skilar til góðs !
Sem fyrr segir hefur Framsókn, sem útfarinn hentistefnuflokkur, oft verið með þetta tal um ,,hina leiðina og flestir eru orðnir því vanir og vita hvað hangir á spýtunni, en það er alvarlegra mál þegar VG fer að brydda upp á slíkum málatilbúnaði, flokkur sem ekki hefur verið hentistefnuflokkur og hefur viljað byggja sitt á hugsjónalegum grunni félagshyggju og almenningsvænna sjónarmiða !
Málamiðlun með slík grunngildi felur ekki í sér neitt nema svik við hugsjónaleg stefnumið !
Það gengur ekki að leita tilboða varðandi forræði yfir okkar samfélagi, að vilja fá að vita hvers virði við séum, að láta bjóða í okkur, svo við getum metið hvort við græðum á því að selja okkur eða ekki ? Slíkt er ekkert nema ósiðlegt og falskt athæfi því við getum aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, grætt á slíku !
Hvort sem við tölum um að selja fullveldi Íslands og sjálfstæði í hendur Evrópusambandsins eða leggja sjálfstæð mannréttindi einstaklinga með einum eða öðrum hætti í hendur annarra, er um rangan gjörning að ræða sem aldrei getur orðið réttur !
Og þegar forustuöfl VG virðast ætla að selja sig í hendur íhaldsöflum þessa lands og þykjast ætla að fara einhverja aðra leið í því, hyggjast njóta valda undir þeirra náð og miskunn, er það sömuleiðis rangt og getur aldrei orðið rétt !
Það er ekki hægt að versla með mannlega reisn, annaðhvort standa menn á eigin fótum eða þeir gera sig að skriðdýrum. Því miður virðist sem mestur hluti þingflokks VG hafi valið líklega í einhverjum draumórum um ,,hina leiðina - seinni kostinn !
En leiði VG alræmda spillingarkónga til valda í þessu landi, þá verður að segjast að frjálshyggjan sé farin að leggjast með sýkingarkrafti sínum á þá sem hefðu átt að vera ónæmir fyrir henni !
Afleiðingar slíks gjörnings munu fyrr en varir sýna þessu heillum horfna þingflokksliði hversu lítils virði það kemur til með að verða í augum þeirra sem allt í einu eru komnir í þá langþráðu óskastöðu að geta ráðskast með það að vild, með því að taka það í gíslingu óheilbrigðs stjórnarsamstarfs !
Eru Vinstri grænir orðnir Vinstri glópar ?
18.11.2017 | 21:10
Illt er þegar glóran glatast !
Sú ríkisstjórn sem verið er að mynda að sögn, - segist ætla að stefna að meiri sátt í samfélaginu ? Það er nú svo ! Aldrei hefur það nú verið talin gæfuleg byrjun til góðra hluta að svíkja stefnu sína og ganga í eina sæng með öllu því sem öfugt snýr við þeim hugsjónum sem eiga að ráða för, en það er forusta VG að gera !
Hvað gerist þegar því er blandað saman sem ekki á saman ? Hvað kemur út úr því ? Örugglega ekki það sem vonast er eftir ! Hvað gerist þegar einn vinstri flokkur ætlar að sameinast tveimur hægri flokkum, sameinast flokkum sem innihalda nánast allt auðvaldið í landinu, allt sem sannir vinstri menn hafa ætíð verið að berjast gegn ?
Færast hægri flokkarnir tveir til vinstri eða færist vinstri flokkurinn til hægri ? Hvað skyldi nú vera líklegra ? Í hverju geta málamiðlanir slíks samstarfs legið öðru en verulegum afslætti á stefnumálum og hugsjónum ?
Nú liggur fyrir að íhaldið gengur ekki fyrir hugsjónum og hefur aldrei gert, hugsjónir innan Framsóknar dóu með Samvinnuhreyfingunni, þessir flokkar ganga bara fyrir hagsmunagæslu tiltekinna valdahópa í þjóðfélaginu. Eru pólitískir varðhundar þeirra !
En Vinstri grænir gengu fyrir hugsjónum og áttu að ganga fyrir hugsjónum, áttu að vera varnartæki fyrir hinn almenna mann og réttindi hans, sem svo oft eru þverbrotin af áhrifaöflum þeirra sem nú þykja æskilegir sem samstarfsaðilar í ríkisstjórn !
Forustulið VG virðist alls ekki skilja að með því að ganga til samstarfs við auðvaldsflokkana er hugsjóna-afslátturinn alfarið þeirra megin og það er tap sem verður ekki endurheimt. Traustið sem fyrir var hefur þá verið svikið !
Hugsanlegt hagsmunatap hinna flokkanna verður hinsvegar auðveldlega endurheimt af því að það verður bara tímabundinn hagsmuna-afsláttur og til dæmis mun dvínandi gengi VG í komandi tíð fljótt reynast vatn á myllu þeirra. Það er beinn hagsmunalegur ávinningur fyrir þá af komandi stjórnarsamstarfi að gera hættulegan andstæðing miklu óvirkari með því að samspilla honum !
Á sínum tíma var Alþýðubandalagi og Framsókn núið því um nasir að hafa gengið til samstarfs við Gunnar Thoroddsen eingöngu vegna þess að með því væri verið að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Vissulega gátu það verið rök út af fyrir sig, en það segir okkur líka kannski svolítið um það hversvegna íhald og Framsókn vilja svo gjarnan fá VG til samstarfs eða sjá menn það ekki ?
Ef yfirlýst vinstri manneskja kýs að sitja sem forsætisráðherra í skjóli íhaldsaflanna í landinu á kostnað alls þess sem er undirstaða vinstri hugsjóna, hlýtur hún að vera eitthvað annað en vinstri manneskja. Það segir sig sjálft og það mun hefna sín !
Hægri flokkarnir vita að þeirra bakland er tryggt og gengur bara fyrir hagsmunum, en bakland VG hefur verið hugsjónaleg grasrót og svik við það sem þar gildir verða ekki fyrirgefin eða þurrkuð út. Traust sem hefur verið svívirt vinnst ekki svo glatt aftur !
Hið ríkjandi vantraust hjá fólki eftir hrunið, á öllum yfirvöldum þessa lands, getur nú náð sömu stöðu gagnvart forustu VG og það hefur haft gagnvart öllu öðru. Og skilaboðin sem því fylgja eru slæm og þau eru - nú er engum hægt að treysta lengur !
Kata Kobba hefur fyrirgert trausti margra til vinstri en verður kannski vinsælli til hægri fyrir að dansa með þeim Bjarna Ben og Sigurði Inga. Fyrir suma stóla er sýnilega miklu fórnað, en það verður erfitt fyrir hana sem komandi forsætisráðherra og ábyrgðarmann ríkisstjórnar að sitja með tvo úlfa yfir sér alla daga, ýlfrandi fyrir hönd sinna græðgisvæddu sérgæskuhjarða !
Kannski að það verði henni verðskulduð refsing fyrir svikin við þá sem kusu að treysta henni til góðra verka ?
15.11.2017 | 16:03
Nífaldur aumingjadómur !
Nú hefur forusta VG sýnt öfugsnúið innræti og svikið allt það sem hún á að standa fyrir. Nú vita menn hvað það þýðir þar á bæ að ganga óbundinn til kosninga, það þýðir á mannamáli að sleikja sig upp við íhaldið og hægri öflin í landinu !
Ríkisstjórn er að myndast sem á að verða á höfuðábyrgð VG, þar sem gengið er á seið alls auðvaldsins í landinu - í þeirri villutrú að það verði almenningi og félagslegum jöfnuði til farsældar. Því er útbreiðslufundur við eldinn niðri og hlegið þar dátt !
Katrín Thoroddsen sannar nú með hægri þjónkun sinni að hún er enginn leiðtogi fyrir almenningsvæn félagshyggju-sjónarmið, enda er hún í raun afsprengi af allt öðrum toga. Öllum hugsjónum er sýnilega fleygt út í veður og vind fyrir þá vegtyllu að fá að setjast í stól forsætisráðherra. Þar virðist hennar prívat ego öllu ráða .!
Það er greinilega mjög erfitt mál fyrir suma að vera sjálfum sér samkvæmir !
En þó þessi tvöfalda tuska sé roggin núna á hún eftir að komast að raun um það - að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson geta ekki síður verið tvöfaldir og jafnvel allt upp í sjöfaldir. Og víst er að seint munu þeir reynast vænlegir bandamenn í ríkisstjórn þeirri sem nú á að mynda og sem getur trúlega orðið banabiti vinstri grænna. Og víst er það - að ekki munu þeir gráta úr sér augun við þá niðurstöðu, enda vita þeir auðvitað báðir í hvaða gildru þeir eru að leiða VG !
Það þarf til dæmis engan að undra að Framsókn vilji koma Vinstri grænum í þá stöðu að sýna þjónkun við íhaldið. Við þær aðstæður mun enginn tala um þjónkun Framsóknar við íhaldið þó hún sé og hafi lengi verið flokkslæg. Þá verður bara talað um þjónkun VG við íhaldið og fjöldi vinstri manna mun algerlega snúa sér frá flokknum með viðbjóði og fyrirlitningu á sviksamlegu framferði Kötuklíkunnar !
VG er nú flokkslega lítið annað en pólitískur umskiptingur eða einhverskonar hægri grænir, þar sem forustan hefur tekið kolvitlausa ákvörðun sem leiða mun bölvun yfir flokkinn og það að verðleikum. Samstarf við íhaldið er aldrei ásættanlegt af hálfu vinstri flokks sem vill standa á því sem hann er stofnaður til.
Það er alltaf eitur fyrir andann að leggja lag sitt við fjandann !
Hægri stjórn Katrínar Thoroddsen er samt að því er sýnist að verða að veruleika og Svandís Svavarsdóttir getur þá líklega fagnað því að vera í sama liði og maðurinn sem hún hefur, að eigin sögn, svo miklar mætur á Brynjar Níelsson !
Ekki verða þær stöllur öfundsverðar af félagsskapnum sem þær hafa valið sér !
Og verkalýðshetjan mikla frá Súgandafirði sem hefur talað svo fjálglega um að hún væri vaxin upp meðal almenns verkafólks virðist nú ekkert sjá nema íhaldið og skítur þar hressilega í eigið hreiður og allan sinn fyrri málflutning. Svei því falsi !
Nífaldur aumingjadómur þingflokksins sýnir berlega að þar er ekki lengur til staðar fólk sem hægt er að treysta. Þetta er þreytt fólk sem dugar ekki lengur í baráttunni, er búið að missa móðinn og vill friðmælast við ranglætið, misskiptinguna, ójöfnuðinn og auðhyggjuna til hægri. Það þjónar ekki lengur félagslegu réttlæti !
Það þarf að skipta þessum vesalingum út og fá inn í staðinn raunverulega vinstrisinnað fólk, kraftmikið og traust, sem veit fyrir hvað það á að berjast !
En heiður sé þessum tveimur sem héldu uppi merkinu í þingflokknum og vonandi standa þau þar áfram öryggisvaktina fyrir vinstri hugsjónum og láta ekki svæfa sig í neinu til samþykkis við ranga hluti !
Sú var tíðin að enginn maður varð fyrir eins heiftarlegum árásum af hálfu íhaldsins í landinu og Jónas frá Hriflu. Það var jafnvel reynt að koma honum á Klepp.
Svo illa fór samt að lokum, að Jónas hætti að sjá nokkuð annað en íhaldið og sleikti það upp síðustu ár sín sem valdamaður eins og hann mögulega gat. Þá var hann líklega einna frekast orðinn Klepptækur, enda ort um hann þá þessi vísa:
Íhaldinu er sálin seld,
sinnið allt úr skorðum.
Jónas mígur í þann eld
er hann kveikti forðum.
Og sagan virðist endurtaka sig ! Enginn maður hefur á síðari árum orðið fyrir jafn hatursfullum og svívirðilegum árásum frá íhaldinu og Steingrímur Sigfússon. Þar hefur öllu verið til tjaldað í ófrægingu árum saman. Og nú virðist það ótrúlega vera að gerast, að Steingrímur ætli að enda eins og Jónas frá Hriflu sem íhalds-sleikja !
Það eru sannarlega ömurleg örlög fyrir mann eins og Steingrím Sigfússon og verður þá hrikalega neyðarlegur endapunktur á hans ferli !
Áður þótti hann vígur vel
í vinstri hugsun flestri.
En nú er allt hans innra þel
eins og blámi í vestri !
Það þarf að stofna nýjan og sannan vinstri flokk, flokk sem stendur undir nafni. VG er sýnilega orðið að ónýtu tóli og þörfin ærin fyrir nýtt, bitgott verkfæri í baráttunni !
Forusta VG gengur nú sem dáleidd á blekkingarseiðinn frá hægri og er að hverfa inn í bláu björgin, yfirlitur formannsins er orðinn umbreyttur og allur annar - eins og konunnar í Hvanndalabjörgum !
Verum sjálfum okkur samkvæm, fjölgum ekki óhreinu línunum, fylgjum hreinum línum, í stjórnmálum sem öðru. Það mun bestu gegna fyrir alla sem réttlæti vilja þjóna til almennrar velsældar í þessu landi !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook
4.11.2017 | 10:46
Að verja karlmennskuna !
Upp á síðkastið hefur það komið æ betur í ljós að mikil þörf virðist beinlínis orðin á því að stofna sérstök félagasamtök eða hreint og beint stjórnmálaflokk til að varðveita og verja karlmennskuna í þjóðfélaginu. Karlmenn upp til hópa sýnast vera að linast upp og verða að vesælum veimiltítum. Sjáanlegt er að með sama áframhaldi verður litla sem enga karlmennsku að finna á Íslandi eftir 10-15 ár !
Nú virðist hreinlega svo komið að kvenremban sé nánast búin að þurrka út karlrembuna og þeir fáu karlmenn sem verja vilja stálin stinn sýnast svo til komnir í útrýmingarhættu. Flestir sem eiga að heita karlmenn í dag virðast vera tuskur sem enginn mergur er í. Það eina sem þeir segja nú orðið, daginn út og inn, er: ,,Já, elskan !
Verður ekki að fara að stofna Karlréttindafélag Íslands og herja gegn þeim ótrúlega miskunnarlausa yfirgangi sem meintir karlmenn þessa lands búa við nú um stundir ? Þarf ekki að stofna karlfélög um allt land og stefna að sérstöku karlaframboði með það á stefnuskrá sinni - sem höfuðmál - að viðhalda reisn karlmanna !
Það hljóta allir rétthugsandi menn að sjá að nauðsyn þessa máls er orðin knýjandi því skammt virðist vera í að verulegar ofsóknir hefjist gegn körlum hér á landi. Það er auðvitað ómannlegt og ómannúðlegt að ofsækja karla bara fyrir það að þeir séu karlar eða vilji vera það. En ofur kvenlægur tíðarandinn virðist heimta allt karl-lægt út í hafsauga nú um stundir !
Um langt skeið hefur eiginlega ómað í öllum fjölmiðlum og alls staðar áróðurshrópið kven,kven,kven,kven. Kven þetta og kven hitt ! Nú þarf sýnilega að hefja upp hrópið karl,karl,karl,karl, því ekki virðist seinna vænna að koma jafnvægi á hlutina og fá karlmennskuna í eðlilegt lag svo hún standi undir sér !
Það er að margra dómi yfirþyrmandi nauðsyn á slíkri gagnsókn því karlmennskan meðal karlþjóðarinnar í þessu landi virðist hreinlega vera að sálast af inngrónum aumingjadómi og málstola hræðslu við hinn ofur kvenlæga tíðaranda !
Það verður of seint fyrir kvenpeninginn að æpa eftir karlmennsku þegar búið er að drepa allan dug og döngun úr körlum með yfirvaðandi kvenrembu árum saman. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur !
Hin einfalda lífs-staðreynd þarf að fá heilbrigðan stuðning, sú staðreynd að sannar konur þurfa á sönnum körlum að halda eins og sannir karlmenn þurfa á sönnum konum að halda. Þarna er ekki um fjandsamlegar andstæður að ræða heldur þarf þetta tvennt að falla saman sem fyrr í hinni sígildu og náttúrulegu einstillingu anda, sálar og líkama !
Hvaða kona sem vill heita sönn kona sættir sig við grútlina karltusku sem segir aldrei annað en vesældarlegt ,,Já elskan ? Það er augljóst að eitthvað verður að gera í málinu svo sönn karlmennska lifi, því hún er auðvitað góð og gagnleg í náttúrulegu eðli sínu þegar hún stendur sig, en er sjáanlega á leiðinni að verða útdauð í landinu - af vökvunarskorti !
Nú þarf sem fyrr segir að stofna flokk utan um karlmennskuna, þetta litla sem eftir er af henni, og hefja svo bullandi framsókn með pólitíska, menningarlega og þjóðlega karlréttinda stefnuskrá á háa lofti! Engar tuskur, takk !
Getum við ekki öll verið sammála um það ?
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 26
- Sl. sólarhring: 75
- Sl. viku: 595
- Frá upphafi: 365493
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 508
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)