Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018
30.5.2018 | 19:18
Staðlægt spjall með meiru eftir kosningar !
Fyrir um tuttugu árum setti ég fram þá kenningu varðandi kosninga-niðurstöður á Skagaströnd, að þar mætti sem best skipta kjósendum í fimm jafna hluta, 20% í hverjum. Það gaf manni vissa leið til einföldunar á hlutunum.
Ég taldi að tveir fimmtu hlutar myndu kjósa Skagastrandarlistann nánast alfarið og líklega allt að því umhugsunarlaust. Einn fimmti hluti drægist þar með að öllu jöfnu, en væri hinsvegar ekki fullkomlega stöðugur í hollustu sinni við listann, og gæti hugsanlega tekið upp á því að fara aðra leið ef girnilegri þætti !
Tveir fimmtu hlutar myndu kjósa tilfallandi mótframboð. Einn fimmti vegna rótgróinnar andstöðu við Skagastrandarlistann og einn fimmti að öllu jöfnu, en væri þó ekki að fullu fastur í rásinni með það. Þessi kenning hefur að mestu leyti staðist til þessa. Nýafstaðnar kosningar sýna þetta mynstur nánast fullkomlega !
H- listinn, Skagastrandarlistinn fékk þar 60,9% prósent atkvæða eða rétt rúmlega 3/5 hluta og Ð- listinn- Við öll 39,1% eða rétt tæpa 2/5 hluta. Frávikið er 0,9%.
Þar má því segja að hvor haldi bara sínu sem fyrr. Enga sérstaka fylgisaukningu er þannig að sjá í þessum úrslitum, enda var nokkuð fyrirséð hvernig fara myndi !
Ekki þykir mér ólíklegt að þær forsendur sem liggja þessari skiptingu atkvæða til grundvallar hér á þessu kjörsvæði, séu í all drjúgum mæli til staðar á svipaða vísu annars staðar. Breytileiki hugsunar í þessum efnum er oft tiltölulega takmarkaður og einn eltir annan í afstöðu þar.
Þannig hafa myndast skoðanahópar vegna ýmissa tengsla og hagsmuna og í afmörkuðu mengi taka þeir oftast á sig eitthvert form sem helst oftast nokkuð svipað og getur orðið býsna fast. Ekki á það síst við varðandi gömlu pólitísku línurnar.
Það þarf því oftast eitthvað mikið til að raska slíkri stöðu þegar hún er á annað borð komin upp, en þar er auðvitað oftast nokkuð þröng hugsun að baki eins og flestir hljóta að skilja.
Ég hef alltaf talið óheppilegt að sömu menn séu í forustu mjög lengi. Oftast fylgir mannabreytingum ákveðinn ferskleiki og allir vita að vald spillir mönnum. Þessvegna hrökk út úr mér vísa í vor þegar ég var eitthvað að hugsa um þessi mál og alla sex sveitarstjórnarmennina okkar :
Senn verður kosið í sveitarstjórn,
sæist þar staðan bætta,
ef Maggi og Dolli færðu fórn
og færu nú báðir að hætta !
Sennilega hef ég hitt á óskastundina því líklega eru fyrrnefndir menn báðir á einhverri útleið og þykir vafalaust fleirum en mér tími til kominn !
Annars er það von mín að þeir sem nú eru að stíga inn í sveitarstjórnarmálin verði þar ekki heldur allt of lengi. Þegar menn eru búnir að sitja í sveitarstjórn í 20-30 ár eru þeir löngu orðnir bitlausir og gildir sú umsögn um allflesta.
Einstaka afburðamenn kunna samt að vera til sem halda biti og krafti árum saman, en slíka menn hefur ekki borið fyrir mín augu hingað til og varla gerist það héðan af !
Fróðlegt er að velta fyrir sér nafni mótframboðsins gegn H-listanum. Sumir telja að þar hafi ráðið síðasti stafurinn í því orði sem skilgreinir líklega best stefnu framboðsins , það er að segja - EitthvaÐ !
Það hefur aldrei þóknast mér
um þokuveg að keyra,
og kjósa það sem eitthvað er
svo eitthvað verði meira !
En vonandi breytist þetta EitthvaÐ þó bráðlega í SitthvaÐ og eykst þannig að innihaldi. Þó að sú staða sé uppi með flesta á Ð listanum að þeir búi við þægilega innivinnu, er enganveginn útilokað að það geti breyst. Annars virðist helst slagkraftur í slíku innivinnufólki, eins og sjá má á framboðslistum víðasthvar á landinu, enda er það ágæta fólk líklega það eina sem er nokkurnveginn óþreytt eftir vinnudaginn !
Það eru hinsvegar athyglisverðar breytingar að verða almennt talað í kosningakortum þjóðarinnar í seinni tíð. Það er að koma æ betur í ljós í þeim kosningum sem haldnar eru, ekki síst sveitarstjórnarkosningum, að fólk er orðið virkilega þreytt á gömlu pólitísku listunum og vill aukið lýðræði og meira vald til fólksins. Það er sannarlega löngu tímabært að slíkt gerist !
Þessar fersku áherslur felast í því að nýir hópar taka sig saman um framboð, líklega fyrst og fremst til að skapa aukna velferð og aukinn jöfnuð innan samfélagsins. Þar virðast sem sagt hugsjónir koma eitthvað við sögu !
Hin hundgamla, þrælpólitíska mismununarstefna er greinilega gengin sér til húðar og það er sannarlega gott. Fólki hefur aldrei líkað þau vinnubrögð sem þar hafa tíðkast og margir hatast við leyndarhyggjuna sem löngum hefur verið fylgja þeirra !
Jafnvel þó í þessum breyttu áherslum geti falist vissar hættur á blekkingum og lýðskrumi er það jafnljóst að þeir sem koma fram á fölskum forsendum munu alltaf afhjúpa sig innan tíðar og missa þannig allt traust meðal kjósenda !
Almennt vill fólk heiðarleika í öndvegið og vill að þeir sem kosnir eru hverju sinni séu traustsins verðir. Harðsvíruð sérgæskuklíka, hvar sem hún er og hvernig sem hún er til komin og uppbyggð, býður aldrei upp á eðlilega þjónustu við almenning. Til þess vantar hana bæði sálarlega og siðferðilega undirstöðu !
Mikið er nú gott að hafa lýðræðið og njóta þess réttar sem það gefur, bæði til að kjósa og líka til að mæta á kjörstað og skila auðu ef valkostir geta alls ekki höfðað til manns !
26.5.2018 | 09:07
Söguleg útafkeyrsla !
Samkvæmt opinberum tölum á svonefnd Bandaríkjaþjóð að vera um 326 milljónir manna. Það þýðir væntanlega að á fjögurra ára fresti ákveður fyrrgreindur mannfjöldi að kjósa sér til forseta þann úrvals-einstakling sem þessar 326 milljónir geta skilað af sér. Þannig komi fram hæfasti maðurinn til að leiða þjóðina !
En hvernig hefur tekist til með það val ? Sumir telja niðurstöður þess langt frá því að vera eins og efni ættu að standa til og það vekur upp eftirfarandi spurningu:
Er Bandaríkjaþjóðin virkilega þannig vitsmunalega stödd í dag - að Donald Trump sé hinn eðlilegi fyrstavals-fulltrúi úr ætluðu úrvali þjóðarinnar ?
Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Ameríka hlýtur að geta boðið fram mun virðingarverðari valkost fyrir æðsta embætti þjóðarinnar og hvernig stendur þá á því að ekki hefur tekist betur til ?
Sumir vilja meira að segja meina að Trump hefði aldrei verið kosinn ef Hillary Rodham Clinton hefði ekki verið enn verri kostur í augum fjölmargra kjósenda. Var þá kannski hvorugt þeirra í raun metið hæft af hálfu þjóðarinnar og það sem þótti illskárra kosið ?
Af hverju er fólk af slíku vafa tagi, með slíkt orðspor og svo umdeilt sem raun ber vitni, leitt til æðstu valda í stjórnkerfi ríkjasamsteypu þeirrar sem telur sig nánast hafa umráðarétt yfir mannlegu frelsi út um allan heim ?
Það skyldi þó aldrei vera svo að jákvæð mannleg hæfni sé algjörlega óháð því hver hlýtur kosningu sem forseti Bandaríkjanna þar ráði niðurstöðum allt önnur og verri lögmál ? Það hefur oft sýnt sig í þeim efnum að margt sem sagt er vera hvítt er í rauninni nánast svart !
Sá ágæti maður Clarence Darrow sagði eitt sinn að honum hefði verið innrætt það í æsku að hver sem væri gæti orðið forseti Bandaríkjanna. Hann sagðist ekki hafa trúað því þá. Embættið hefur líklega verið svo stórt í hans barnsaugum. En eftir að hann komst á fullorðinsár og sá hverskonar menn gátu orðið forsetar Bandaríkjanna, sagðist hann hafa farið að trúa þessu !
Allt virðist benda til þess að kjör Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna sé dómgreindarlegt slysatilfelli á þjóðarvísu og að það muni verða flokkað í meðförum sagnfræðinga í komandi tíð sem söguleg útafkeyrsla !
Enginn veit upp á hverju Trump kann að taka á þeim tíma sem hann á eftir að sitja í þessu valdamikla embætti, ef hann situr þá út kjörtímabilið. Margir óttast uppátæki hans og bera kvíðboga fyrir því hvað maðurinn er óútreiknanlegur !
Hugsanlegt er meira að segja að hann eigi eftir að tryggja það að George W. Bush verði ekki talinn svo slæmur hér eftir. Áður var hann talinn einna lakasti Hvíta húss húsráðandinn frá upphafi !
Fyrir heiminn og okkur öll sem í honum lifum, er það skelfilegt mál að horfa upp á það sem staðreynd - að við eigum líf okkar undir því hverju óvenjulega síbreytilegt ólíkindatól eins og Trump forseti kann að taka upp á !
Stöðugt fleiri efast um að hann sé maður til að fara með það mikla vald sem honum hefur verið falið. Þar virðist ekki margt auka fólki öryggiskennd eða vera mikið litið til sameiginlegrar velferðar mannkynsins !
Við virðumst aftur komin á örlagareitinn frá 1945 Pax Americana, heimsyfirráðareit Bandaríkja Norður Ameríku, rómversku einvaldsleiðina divide et impere !
Sú var tíðin að menn litu almennt svo á að ekki bæri að setja hættulega hluti í hendurnar á óvitum, en sá tími er greinilega liðinn. Nú sýnist það orðinn ósiðlegur vani víða um lönd að setja óboðlega valdhafa á koppinn og mikil þörf er sannarlega orðin á siðbót í þeim efnum !
Norður Kórea undir Kim III er vissulega ríki með hættulegt stjórnvald, en Bandaríkin undir Donald Trump virðast engu síður búa yfir hættulegu stjórnvaldi og heimsfriðurinn á miklu meira undir því að þar sé haldið talsvert betur á málum en gert hefur verið hingað til, undir forustu núverandi handhafa forsetavaldsins þar vestra !
Ástand heimsmála er einfaldlega verra vegna þess hvernig hann er !
20.5.2018 | 15:31
Nokkur orð um krónískan kóngasleikjuhátt !
Sú var tíðin að ofbeldisfullir einstaklingar söfnuðu um sig liði og vildu öllu ráða. Þeir gengu fram í uppreisnar-anda Nimrods og hlýddu engum lögum, þeir brutu niður arfgengt ættflokkakerfi sem byggðist á því að hver maður ætti sitt frelsi. Þannig varð konungsvaldið - ein mesta bölvun mannkynsins til !
Það reis upp í krafti ofbeldis og þeir sem vildu meira í sinn hlut gengu til liðs við þann sem stóð fyrir því. Konungsvald studdist allar götur við tækifærissinnaða skíthæla sem vildu sölsa undir sig auð og völd með því að troða á almennum mannréttindum !
Slíkir stuðningsmenn konungsvalds fengu sínar sporslur eða mútur. Þeir voru gerðir að forréttindaliði í sérhverju konungsríki, að svokölluðum aðalsmönnum og fengu alls konar hefðartitla, urðu hertogar,greifar, barónar og lávarðar !
Hið frjálsa ættflokkakerfi var eyðilagt fyrir tilkomu þessa óþurftarliðs sem allt fór að lifa á vinnuframlagi almennings. Og þegar venjulegt fólk lagði ekki nóg til óhófslífs þessara afæta, varð það að leggja fram meiri og meiri vinnu og þannig varð til það sem við köllum kúgunarferli. Menn voru ekki lengur frjálsir athafna sinna !
Síðan leiddi þessi kúgun til viðvarandi þrælahalds sem allt byggðist á því að þjónað væri undir þá sem hervaldi réðu og gátu sett öðrum alla kosti. Það hugarfar sem skapaði þessar aðstæður í samfélagi manna lifir enn víða um heim og merkir frekast alla svokallaða hægrimennsku !
Afturhaldssemi slíkra afla grundvallast á því að reynt er að halda sem mest í forréttinda-arfinn frá liðnum öldum. Þegar almenningur fór að rísa upp og krefjast mannsæmandi lífs og launa, fjaraði óneitanlega talsvert undan þessu býlífis-hyski !
En íhald allra landa vill ná gömlu stöðunni aftur, verða aftur sá aðili sem deilir og drottnar. Það sýnir sig og sannar á flestum sviðum, svo almenningur þarf að halda vöku sinni og sjá til þess að áunnum mannréttindum sé ekki rænt frá honum enn á ný af slíkum öflum, sem eru skiljanlega langt frá því að vera almenningsvæn !
Þessvegna er það að þeir sem telja sig til hægri húsa hugarfarslega séð, eru jafnan viðkvæmir fyrir kóngum og konungsvaldi og taka því illa ef að slíkum er vegið.
Ég þekki dæmi til þess að slíkir menn hér uppi á Íslandi geta verið mjög viðkvæmir ef þeim finnst t.d. hallað á löngu dauða kónga. Þeim rennur þar greinilega varnarblóðið til skyldunnar og væru vafalaust fljótir til að þjóna konungsvaldi ef það byðist þeim !
Það er því ekki mikil lýðræðishugsun í slíkum mönnum. Þeir vilja gamla kerfið aftur, hið gamla konungs og kirkjuvald, þar sem þeir gætu fyrir hundslega þjónustu sína notið réttinda umfram aðra. Þeir gefa skít í allan jöfnuð og lifa eingöngu fyrir sjálfið !
Slíkar konungs-sleikjur eru alls staðar til, menn sem vilja dýrka mannlegt vald á kostnað almannaheilla, menn sem skeyta engu um heilbrigða guðstrú, menn sem vilja verða aðalsmenn og afætur, forréttindalið, og lifa á vinnuframlagi annarra. Það er djöfullegt hugarfar sem þar býr að baki !
Jafnvel í svokölluðum vinstri flokkum finnast slíkir fuglar, svikulir í innstu æð, menn sem eru óheilir til anda og sálar. Júdasar gagnvart allri heilbrigðri mennsku !
Þeir vinna í öllu öfugt við það sem þeir ættu að gera. Grafa sífellt undan varnarkerfi þeirra herbúða sem þeir þykjast fylgja og valda þannig miklum skaða !
,,Kóng viljum við hafa sögðu Ísraelsmenn forðum. Ekki bara Guð og góða siði. Og þeir fengu kóng og þar með spillta forustu. Eins og allar aðrar þjóðir þess tíma !
Stjórnarfar sem beinlínis ýtir undir það versta í mannseðlinu er aldrei gott, manndýrkun er aldrei góð, enda hvergi dæmi til um að hún hafi skilað öðru en illri og ógeðslegri útkomu !
Eitt af því fáa sem þakka má hér á Íslandi er að við höfum ekki sett okkur að hafa einhvern yfirkóng með allt sitt slekti á almannaframfæri. Þó voru þeir til sem vildu koma slíku kerfi á hér. En við höfum hinsvegar nóg af smákóngum, mönnum sem halda að þeir séu eitthvað, hafa sýnilega kóngagen í sér og vilja vaða yfir aðra !
Kóngasleikjuháttur er ekki síður til á Íslandi en annars staðar. Það sést t.d. af hrifningu fjölmargra af brúðkaups-útsendingum o.fl. úr einkalífi kóngafólksins. Eflaust á slík hrifningarvíma einhverja stoð í því að sumt fólk dreymir sig inn í þannig aðstæður og hugsar á þeim nótum: ,, Ó, ef ég væri bara drottning o.s.frv.
En hvernig skildu kóngasleikjur vera yfir höfuð og hverjir væru vísir til að sleikja skósóla svokallaðs hefðarfólks ef út í það færi og hvað segir manni í raun hverjir eru þannig hugsandi ?
Ég tel að sæmilega glöggir menn ættu auðveldlega að geta séð hverjir eru með slíka eðlis-innréttingu, því undirlægjuháttur gagnvart hégóma leynir sér yfirleitt ekki.
,,Guð blessi kónginn er Kíkí látinn segja í Ævintýrabókunum og eftirapandi páfagaukar allra alda hafa sagt það sama, sjálfum sér og öllu heilbrigðu mannfrelsi til óvirðingar, skammar og skaða !
12.5.2018 | 11:55
Að stíga frá mennsku yfir í ómennsku !
Öll eigum við að þekkja í anda lýðræðis hvað miklu máli það skiptir að fólk eigi samleið í lífinu. Í gamla afturhaldskerfinu lifðu aðallinn og klerkastéttin sem sníkjudýr á erfiði hins almenna manns og þetta afætulið taldi sig samt þrátt fyrir ómennsku sína öllu fólki æðra !
Hið svívirðilega konungsvald var yfirleitt skjól þess og skjöldur og kúgun og misrétti gamla kerfisins var auðvitað óboðlegt með öllu. Allt réttlæti var út í hafsauga og menn voru sviptir öllum réttindum og teknir af lífi ef þeir sættu sig ekki við allt !
Þrátt fyrir umtalaða upplýsingu nútímans virðist oft sem töluverð tilhneiging sé til staðar eins og forðum - hjá mörgu fólki, fyrir hroka og yfirlæti gagnvart öðrum og einkum kemur það í ljós þegar einstaklingar hefjast til einhverra valda. Þá er eins og margir tapi áttum og sjálfsdýrkunin hjá þeim fer upp í hæðir drambs og hégómleika !
Það þarf oft og tíðum ekki stórt til. Sumir sem ná því að komast á þing fá stundum svona ofmetnaðarbylgju yfir höfuðið. Þeir fara að gera sig merkilega, tala niður til fólks og halda sennilega að þeir séu orðnir að miðdepli allrar vitrænnar hugsunar !
Og eftir því sem þeir verða fleiri sem þannig verður ástatt um, því minna gagn verður að þeim á þeim vettvangi þar sem þeir telja sig starfa. Það skýrir kannski ýmislegt varðandi þingstörf sem margir hafa hingað til átt erfitt með að skilja !
Siðræn viðmið hafa vísvitandi verið lækkuð mjög að gildi á síðustu tuttugu, þrjátíu árum, til að auðvelda mönnum refsbrögð og ránskap og skapa aukið svigrúm fyrir gjörspillt einkaframtak. Að baki býr einkum hin stóraukna græðgi og efnishyggja sem tröllríður íslensku samfélagi. Mammonshyggjan er nánast alls staðar við völd !
Heilbrigðisástandið í eplatunnu samfélagsins virðist því langt frá því að vera gott því skemmdu eplin sýnast vera þar býsna mörg og þau eitra ekki svo lítið út frá sér !
Margir virðast líta svo á að óheiðarleiki sé eðlileg leið til sjálfsbjargar, en í eina tíð hefði slík afstaða sannarlega ekki þótt virðingarverð. En í dag virðist svokölluð sjálfsbjargar-viðleitni ná yfir margt sem ekki þótti boðlegt hér áður. Þarf ekki langt að fara aftur í tímann til að sjá afturförina í þeim efnum !
Nú er spurning dagsins eiginlega þessi ?
Ætlum við að halda áfram að fyrirlíta hin gömlu góðu gildi ? Ætlum við að halda áfram að stíga frá mennsku þeirra yfir í ómennsku sjálfsdýrkunar og ágirndar ?
Getum við ekki reynt í alvöru að hafa það í huga sem viskuorðin segja okkur, - að skömm er óhófs ævi. Getum við ómögulega lært af reynslunni ?
Á dýrsleg græðgi í efnisleg verðmæti að ráða áfram allri för og leiða þjóðarhag í annað hrun og verra en það sem að baki er ?
Stöndum við núorðið fyrir eitthvað sem getur talist gott ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook
10.5.2018 | 14:32
KVÆÐI UM HELFÖRINA
Nú virðast menn farnir að hefja Hitler
hundingjann aftur á stall.
Og glæpaverk hans eru víða að verða
sem venjulegt skemmtispjall.
En hvernig er hægt að setja það saman
við siðlega eðlismennt,
að fjöldamorð séu fróðlegt gaman
og framtíðarefni kennt ?
Menn tala um Auschwitz sem ekkert væri
og arbeit macht frei um leið.
Og endanleg lausn er ennþá á vörum
hjá ýmsum sem þekkja ei neyð.
Því myndirnar ljótu eru að mást og hverfa
og minningin þar ei sterk.
En eiga þeir lífið og landið að erfa
sem lofsyngja glæpaverk ?
Og böðlar sem Himmler, Heydrich og Eichmann
og Heyde þykja nú menn.
Og líklega verða þeir Bormann og Barbie
og Brunner að goðum senn.
Er fórnarlömb öll eru fallin í valinn
og fengin hin dýpsta þögn,
þyrlast á ný um þjóðasalinn
hin þekkingar villta sögn !
Og heimsfriður allur hangir á þræði,
því heimskan á stóra mennt.
Ábyrgð er hundsuð á öllum sviðum
því ekkert fær reynslan kennt.
Helförin gleymist og glæpirnir verða
sem gloppur í huga lýðs.
Menn fjarlægjast viðbjóð fyrri gerða
við ferli hins nýja stríðs !
Það stríð mun koma og kvista niður
þá kynslóð sem blinduð er
og heldur að það sé hægt að lifa
í helvíti á jörðu hér.
Þá mannkynið síst fær syndgað meira
með sjálfgerða snöru um háls,
það stríð mun koma og engu eira
í eldi hins mesta báls !
6.5.2018 | 09:34
Er verkalýðshreyfingin að vakna ?
Það hefur varla farið framhjá nokkrum hugsandi manni að töluverð gerjun hefur verið í verkalýðsmálum að undanförnu. Sú verkalýðshreyfing sem við höfum verið að burðast með í mörg ár hefur sem vitað er verið liðónýt sem baráttutæki fyrir almennt verkafólk allt síðan hún lenti í tröllahöndum fyrir margt löngu !
Í pólitískum skollaleik hefur umrædd hreyfing verið kýld sundur og saman af ýmsum baksviðsmönnum óhreinleikans og opinberum forustumönnum sem aldrei hafa sýnt sig sanna í verkum sínum. Skollabrögðin hafa fengið ýmis falleg nöfn allt frá Þjóðarsátt til Salek-samkomulags, en sérhver gjörningur hefur falið það í sér að öllum byrðum er velt yfir á herðar þeirra sem síst skyldi og þeir látnir blessa þar yfir sem ættu öllum öðrum fremur að hlífa en höggva !
Við höfum fengið að sjá ýmsa menn kallaða verkalýðsforingja sem alls ekki hafa verið það í raun og listinn yfir slíka ómerkinga er orðinn nokkuð langur. Það er löngu kominn tími til að endurreisn góðra gilda eigi sér stað í verkalýðshreyfingunni til að forða hugsjónum hennar frá tortímingu. Við vitum hvernig Samvinnuhreyfingin var eyðilögð af peningaöflunum og Ungmennafélagshreyfingin virðist litlu betur á vegi stödd. Ekkert fær að vera í friði með hreinan skjöld fyrir óþurftaröflum Mammons !
Einhverntímann hefði nú þótt í meira lagi ólíklegt að VR yrði í fararbroddi fyrir hugsjónavakningu af því tagi sem hér um ræðir, en sem betur fer eru aðrir við stjórn þar nú en var í eina tíð. Ferskustu frelsisvindar koma oft þaðan sem þeirra síst er vænst og einu sinni var meira að segja sagt : ,,Getur nokkuð gott komið frá Nazaret ?
Það er von mín að þeir fjórir - hingað til vekjandi forustumenn, sem hafa kallað eftir breyttum gildum innan verkalýðshreyfingarinnar standi einbeittir af sér allar Gylfaginningar og leiði málefnin þar til nýrra hæða í hugsjónalegum skilningi. Ekki er vanþörf á !
Það þarf að hreinsa til í verkalýðshreyfingunni og stugga burt þeim páfuglum pólitískra afla sem þar hafa setið allt of lengi og engum sönnum gildum til góðs !
Í verkalýðshreyfingu sem stendur undir nafni verða að vera brandar sem bíta þegar aðstæður krefjast þess. Fulltrúar verkafólks þar mega ekki undir neinum kringumstæðum gerast handbendi þeirra skuggaafla óhreinleikans sem níða niður ærleg málefni og snúa öllum heiðarlegum gildum á hvolf !
Ríkisvaldið í landinu hefur lengi hundsað eðlilegar launakröfur verkafólks vegna þess að handhafar þess hafa vitað að forusta ASÍ hefur í raun jafnlengi verið bitlaus og bundin á klafa pólitískrar línulagningar sem aldrei hefur þjónað réttum markmiðum !
Það er von mín að verkalýðshreyfingin vakni til fullrar vitundar um samtakamátt sinn og geri öllum þeim valdaöflum ljóst sem hafa hingað til notað hana sem gólftusku, að nú er nóg komið !
Frá Akranesi og Húsavík, frá VR og Eflingu, blása nú ferskir vindar frelsisvekjandi hugmynda um þau réttindi fólks sem eiga að vera viðvarandi í fullu gildi á vinnumarkaði !
Fylkjum þar liði og látum ekki deigan síga fyrir þeim öflum sem aldrei hafa þolað eðlilegt dagsljós, ekki fremur en nátt-tröllin í þjóðsögunum !
Stöndum öll saman fyrir gildum heilbrigðra mannréttinda í íslensku samfélagi !
4.5.2018 | 16:50
Sérfræðingaveldið !
Eitt síðasta sjónvarpsviðtal sem haft var við Lúðvík Jósepsson áður en hann hætti þátttöku í stjórnmálum, endaði með því að hann var spurður hvort hann hefði einhver ráð til þeirra sem hygðust taka þátt í stjórnmálum eða væru þar til staðar ?
Lúðvík svaraði því til, að eitt væri það sem hann teldi sérstaklega mikla þörf fyrir stjórnmálamenn að athuga og eiginlega vara sig á.
Nú væri svo komið að æpt væri eftir áliti yfirlýstra sérfræðinga í hverju máli og með því væri raunveruleg hætta á valdatilfærslu sem væri hreint ekki eðlileg og fráleitt í anda lýðræðislegs stjórnarfars.
Stjórnmálamenn yrðu að gera sér grein fyrir því að þó þeir nýttu sér álit sérfróðra aðila til aukinnar innsýnar í mál, mættu þeir ekki leggja mál alfarið á vald slíkra sérfræðinga og í endanlegan dóm þeirra. Það væri þeirra, sem kosinna fulltrúa þjóðarinnar, að taka ákvarðanir og bera síðan ábyrgð á þeim !
Lúðvík tók margsinnis af sér gleraugun og sveiflaði þeim til aukinnar áherslu á orðum sínum er hann mælti þessi viðvörunarorð og ekki vantaði að hann vissi hvað hann söng. Það sem hann sagði í þessu viðtali hefur nú löngu sannast !
Stjórnmálamenn síðustu ára ganga fyrir sérfræðiálitum og styðjast - að segja má - svo til alfarið við þau. Ábyrgðin á teknum ákvörðunum er svo einhversstaðar í einhverju tómarúmi kerfishyggjunnar !
Nú eru það sérfræðingarnir sem ráða í gegnum stjórnmálamennina og þurfa samt ekki að bera neina ábyrgð. En sérfræðingar eru misvitrir og sumir þeirra geta beinlínis verið hættulegir fyrir almannaheill. Mörg fjársóunin hefur orðið fyrir þeirra tilverknað !
Mörg dæmi eru til um það að ráðgjöf sérfræðinga getur verið varhugaverð fyrir stjórnmálamenn. Sérfræðingarnir eru líka menn og hafa sínar skoðanir og oft vill svo fara að þær gægist nokkuð í gegnum ráðgjöf sem á þó að vera fagleg !
Þar er því stundum ekki allt sem sýnist og þörfin rík að kunna að vega og meta af skynsemi og dómgreind það sem fram er sett !
Steingrímur Hermannsson segir í ævisögu sinni að hann hafi sem forsætisráðherra stuðst við ráðgjöf Jóns Sigurðssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar og lýkur hann lofsorði á Jón fyrir störf hans. En hann segir jafnframt að hann hefði þurft að hafa nokkurn vara á sér þegar Jón var annarsvegar. Honum hefði verið tamt að halda fram sínum eigin viðhorfum í þeirri ráðgjöf sem hann veitti. Steingrímur sagðist því hafa lesið það sem frá honum hefði komið með athygli, en jafnframt gagnrýnu hugarfari !
Margir sérfræðiráðgjafar eru líklega síðri að atgervi en umræddur Jón Sigurðsson. Og fyrst hann féll í þessa gryfju með ráðgjöf sinni, að mati Steingríms Hermannssonar, hverju má þá búast við af lakari aðilum ?
Hvað skyldu margir stjórnmálamenn vera á verði fyrir slíku ?
Sérfræðingarnir í nútímanum eru eins og hershöfðingjar í dátaleik, þeir etja öðrum á allskyns foræði og þegar illa fer hafa þeir hvergi komið nálægt, en gangi vel gegnir öðru máli.
Þá vilja þeir fá fulla staðfestingu á því hvað gildi þeirra hafi verið mikið og merkilegt !
Bak við lýðræðislega kjörna fulltrúa standa þeir svo eins og sjálfar stoðir viskunnar og fjarstýra þeim líklega nokkuð mörgum í krafti þeirrar ofurtrúar á hæfni þeirra sem ríkjandi virðist vera, þó hún hafi víða orðið sér til skammar í seinni tíð svo ekki sé meira sagt !
Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða að hafa burði og getu til að axla þá ábyrgð að taka ákvarðanir með þjóðarheill í huga. Þeim er fengið það vald í hendur en ekki ráðgjöfum sem standa í skugga að tjaldabaki !
Sérfræðingar, ef sannir eru og reynast, eiga vissulega að geta hjálpað til við að finna góðar lausnir, en þeir eiga ekki að stjórna málum. Geri þeir það, búum við ekki í lýðræðisríki lengur heldur sérfræðingaveldi og það fyrirkomulag stjórnunarmála er engum gott og allra síst til lengdar !
Hvað skyldu annars margir þingmenn sitja á alþingi nú sem hafa kjark og burði til að taka eigin ákvarðanir, í stað þess að framvísa sérfræðiáliti sem skoðun sinni ?
Það væri fróðlegt að vita ! Ég held að þeir séu fáir og verði stöðugt færri. Það eru tákn tímanna að þægilegast sé að velta ábyrgð sinni á aðra !
En sérfræðingarnir eru hinsvegar engu síður ábyrgðarlausir en stjórnmálamennirnir sem ganga fyrir ráðgjöf þeirra, og þjóðhagsleg niðurstaða mála því býsna oft á hverfanda hveli eins og reyndar dæmin sanna !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 142
- Sl. sólarhring: 188
- Sl. viku: 711
- Frá upphafi: 365609
Annað
- Innlit í dag: 137
- Innlit sl. viku: 622
- Gestir í dag: 137
- IP-tölur í dag: 135
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)