Leita í fréttum mbl.is

Undir hörðu húsbóndavaldi !

 

Brennivínið hefur mörgum manninum komið á kné. Þegar það er annarsvegar virðist ekki duga að menn séu búnir miklu atgervi. Miklum hæfileikamönnum virðist jafnvel enn hættara en öðrum. Ógæfan sem svo margir hafa kallað yfir sig og sína með því að leggjast í drykkjuskap er og verður ómælanleg á allan hátt !

 

Sumir segja að heimsharmurinn steypi mörgum á stútinn og ef til vill er eitthvað til í því. En Bakkus er harður húsbóndi og það er kaldhæðnislegt að heyra suma segja með hroka að þeir séu sjálfstæðir menn, þegar allir vita að þeir liggja hundflatir í hvert skipti sem Bakkus kallar !

 

Íslendingar hafa ekki staðið sig betur en annarra þjóða menn í skiptum við Bakkus. Hérlendis hefur óskaplegur drykkjuskapur verið landlægur í margar aldir. Ég fjallaði um þetta efni á sínum tíma í pistli mínum - Bölvaldurinn Bakkus kóngur - en enn finnst mér ástæða til að fjalla um þetta þjóðarböl sem í rauninni er heimsböl !

 

Það virðist vera meginþörf hjá býsna mörgum manninum að komast í vímu, áfengisvímu eða einhverskonar vímu, líklega sem fyrr segir til að flýja veruleikann sem mörgum þykir oft óþolandi. Það er þó engin lausn fólgin í slíku heldur miklu frekar margföldun á vandamálinu.

 

Mannseðlið er brothætt og breyskleikinn er löngum til staðar. Sagt er stundum - að vilji mannsins sé hans himnaríki, en þegar vilji mannsins er hertekinn af illum anda og stjórnað af honum, er stefnan tekin til verstu vega, jafnt fyrir viðkomandi sem hans nánustu. Það er djöfullegt í alla staði að lenda í klóm Bakkusar !

 

Marga drukkna menn hef ég séð á ævi minni, en engan sem hefur aukið manndóm sinn með drykkjuskap. Hinsvegar hef ég séð marga drukkna menn aðhafast ýmislegt sem þeir hefðu aldrei gert ódrukknir. Þegar sómatilfinningin víkur kemur yfirleitt eitthvað verra í staðinn. Engum manni er því sæmdarbót að því að drekka brennivín !

 

Það er því augljós farsæld þjóðar að ganga sem minnst á vegi óreglunnar !

 

Áfengi er engum gott,

aldrei bót það styður.

Flæma ætti Bakkus brott,

brjóta vald hans niður !

 


Um kratasýki og íhaldsþjónkun !

 

Alltaf hefur mér fundist það skrítið og sálfræðilega verðugt rannsóknarefni hvað sumir sem kalla sig vinstri menn eiga erfitt með að halda sig í sómasamlegri og eðlilegri málefnafjarlægð frá íhaldi og afturhaldi þessa lands !

 

Í eina tíð virtust sumir telja þetta alvarlega ósjálfstæði eitthvað sem ætti sérstaklega við um Framsókn, en það var auðvitað á misskilningi byggt því Framsókn hefur aldrei í raun verið vinstri flokkur. Hægri hluti þess flokks hefur stundum jafnvel verið hægra megin við íhaldið, hvernig svo sem slíkt hefur verið hægt, en allt virðist oft og tíðum illum gerlegt í þessum heimi !

 

En umrætt ósjálfstæði átti og hefur alltaf átt við krata. Þegar Samfylkingin var stofnuð nokkru eftir að Davíð Allsherjar henti Jóni kratagoða út úr ríkisstjórninni og tók Maddömu-Dóra inn, voru forustumenn hins nýja flokks lengi vel hundfúlir yfir því að svo skyldi hafa farið. Þeir vildu náttúrulega umfram allt leggjast með íhaldinu eins og þeir höfðu alltaf áður gert !

 

Og þar sem Samfylkingin varð strax við fyrstu körun heilsoðinn krataflokkur og fékk þó helminginn af Alþýðubandalaginu til að svíkja lit, var stefnan auðvitað sú að komast inn á íhaldið aftur. Það tókst 2007 en þá var hinsvegar skammt eftir í auðvaldshrunið og skammakrókurinn var því einn framundan fyrir vikið !

 

Þáverandi kratadrottning Ingibjörg Sólrún og fleiri úr hennar liði litu þar með lok stjórnmálaferils síns, en það mun þó ekki breyta neinu til lengdar um löngun krata til að geta samlagað sig íhaldinu með einhverjum hætti á nýjan leik !

 

Vinstri grænir ætluðu víst upphaflega að halda sig nær stefnu Alþýðubandalagsins, eins og hún var í þjóðfrelsislegum skilningi, en forðast kratasýkina sem mest. Þá var líka Steingrímur Langanesjarl enn með sjálfum sér. En ekki verður feigum forðað stendur á vísum stað og sumir ná því greinilega að upplifa sjálfa sig í öfugu líki !

 

Nú hafa nefnilega vinstri grænir fengið þessa líka bullandi kratasýkingu og þar með hurfu þeir auðvitað eins og blátt strik upp í til íhaldsins og það bæði íhalds 1 og íhalds 2. Það má því segja að kratar yfir línuna hafa eignast nýja drottningu – Kötu Kobba - í stað Ingibjargar Sólrúnar !

 

Að sitja í embættum forsætisráðherra og forseta þingsins í skjóli íhaldsins er hinsvegar engum sönnum vinstri mönnum sæmandi, en hégómi mannskepnunnar er jafnan samur við sig, enda sjást þess merkin !

 

Samfylkingin sem fór nánast í rúst 2016, og ætlaði jafnvel að fara að skipta um nafn, er nú komin á uppsiglingu frá núllinu og hirðir til sín nýtt fylgi. Sá viðsnúningur hefur fært samfylkingarkrötum endurnýjaða von um viðgang, en Logi á samt áreiðanlega eftir að leika líka við íhaldið, það er jafn augljóst og erfðasyndin !

 

Frá vinstri mönnum sem vilja standa undir nafni hlýtur hinsvegar rósfingraður kratismi og íhaldsþjónkun vinstri grænna að fá verðskuldaða refsingu fyrr en síðar og megi sú rass-skelling verða eins hörð og hugsast getur !

 

 


Þreytt hefur lengi þjóðarsál........!

 

 

Kerfið sökk í svartan ál,

sýndi í standi bágu,

Guðmundar og Geirfinnsmál

sem glóruleysisplágu !

 

Ein almenn rödd ætti að mega segja sitt um blöskrunarlega meðferð máls sem allt of lengi hefur verið nánast öllum viðkomandi yfirvöldum til skammar.

 

Seint verður rakið allt það undarlega skynvillu-skaðræði sem fylgt hefur rannsókn svokallaðs Guðmundar og Geirfinnsmáls. Margir hafa þar fengið ömurlega meðhöndlun í réttarkerfi þessarar þjóðar og enginn hefði getað ímyndað sér að gerð yrðu slík mistök í málinu aftur og aftur sem nú eru kunn !

 

Margir hafa orðið að líða fyrir vanhæfni kerfisins til að taka á þessu máli. Menn hafa dáið frá því óútkljáðu með brennimark á sálu og sinni. Og þó að allskyns annmarkar hafi komið í ljós varðandi málsmeðferðina á ýmsum stigum virðist aldrei neinn hafa verið ábyrgur og lítið sem ekkert gengið með að hreinsa áfallinn ósóma í burt !

 

Lærdómurinn sem dreginn verður af þessu hrikalega mistakamáli verður því líklega lengst af takmarkaður. Og til eru þeir vafalaust sem fitnað hafa drjúgum á öllum þessum málaferlum sem hafa tekið sig upp aftur og aftur, einkum vegna þess að býsna mörgum fannst réttlætið alltaf vera sett til hliðar í þessu máli.

Þeir sem þar hafa löngum látið til sín heyra úr dómssölum hafa því tæpast verið til þess fallnir að kallast einhverjir riddarar réttlætisins – á fullu kaupi !

 

Einn þekktasti lögfræðingur landsins hefur lýst þessu máli sem réttarhneyksli. Og ef við göngum út frá því að sú greining sé rétt, er þá eðlilegt að enginn sé ábyrgur fyrir slíku hneyksli ? Hvað forðar því þá að sambærilegir hlutir endurtaki sig ?

Er eitthvað til sem lagar slíkt kerfi af sjálfu sér ?

 

Embættismenn í stjórnkerfinu, þar með talið réttarkerfinu, verða auðvitað að vera ábyrgir gjörða sinna. Þar sem fjöldi manns hefur þurft að líða fyrir vitleysisgang verka þeirra, þarf að rannsaka brot þeirra ekki síður en meint brot þeirra sem ákærðir voru í umræddu máli. Öll kurl þurfa að koma til grafar svo málið liggi ljóst fyrir og hverjir báru ábyrgð á sakfellingum sem ekki studdust við eðlileg réttarfarsleg gildi !

 

Það sem er sagt vera löglegt í þessu landi má ekki vera siðlaust. Við verðum að ástunda það að vera samkvæm okkur sjálf og búa jafnframt við réttarkerfi sem endurspeglar þá afstöðu manna í hvívetna. Annars hefur til lítils verið barist í þjóðréttarlegum skilningi fyrir öryggishagsmunum þeirra sem í landinu búa !

 

Guðmundar og Geirfinnsmálið er í áratugi búið að vera algjör hrollvekja fyrir íslensku þjóðina. Við skulum hafa það í huga að fyrst hurfu tveir menn. Það eitt var í sjálfu sér mikill harmleikur og engar haldbærar skýringar hafa enn komið fram hvað í raun og veru kom fyrir þessa menn. En eftirleikurinn virðist því miður hafa orðið – og það að miklu leyti fyrir tilverknað þeirra sem rannsökuðu málið, að enn meiri harmleik. Það hefur verið afskaplega vond niðurstaða í málinu !

 

Íslenska réttarkerfið varð skiljanlega fyrir gríðarlegum álitshnekki vegna þess hvernig á málinu var haldið og hefur alls ekki náð að endurheimta það traust sem það áður mun þó hafa haft að einhverju leyti. Fjöldi manns hefur upplifað hugarfarslega í gegnum fréttir af gangi málsins vaxandi vantrú á kerfinu og þar með óþægilegan skort á eðlilegri, borgaralegri öryggistilfinningu. Slík reynsla er afleit upplifun fyrir almenna borgara í hvaða samfélagi sem er !

 

Og svo virðist sem allur almenningur hafi jafnframt farið að finna til vaxandi ótta gagnvart hinu ópersónulega afli í kerfinu sem virtist hreint út sagt geta lagt líf og hamingju fólks í rúst án þess að nokkuð eða nokkur geti reist þar rönd við ákærum og ofsóknum, ef svo ber undir. Stundum virðist kerfið einhvernveginn sjálfkrafa geta brugðið yfir sig ómennskri mynd og enginn veit hvað veldur !

 

Eitthvað eða einhver virðist leggja alla dómgreind í læðing en Enginn stjórnar því samt sem fram fer. Þessi Enginn í réttarkerfinu virðist hafa farið hamförum í umræddu máli, völd hans virðast hafa verið algjör og starfsaðferðir hans í mörgu algjörlega óásættanlegar í samfélagi af því tagi sem við höfum talið okkur búa við hér. Og maður spyr í forundran:

Hvar var réttargæslan og hverjir áttu að gæta að mannréttarlegum hagsmunum þeirra sem fyrir sökum voru hafðir ? Hvernig er svonalagað hægt ?

 

Það er vont þegar Enginn fer af stað í kerfislegum ham í svona máli og ekki síst þegar það gerist þar sem menn hafa haldið að sæmilegt réttarríki væri til staðar og borgaraleg réttindi virt einhvers !

 

Það er margt sem mætt hefur íslensku þjóðarsálina og einkum á það við um þau mál í okkar samfélagi sem Enginn ber ábyrgð á þegar allt er komið í óefni !

 

Til hvers er réttarfar sem tekur helst og kannski aðeins við sér í öfugum gír ? Til hvers er lögfræði sem virkar með þeim hætti sem umrætt mál hefur sýnt og sannað ? Til hvers er fullveldi þegar fólki líður illa í landinu ?


Ný stjórnmálaforusta ?

 

Þegar maður lítur yfir söfnuðinn sem myndar stjórnmálaforustu Íslands í dag er ekki hægt að segja að það veki hjá manni vongleði og tiltrú. Helmingurinn er að verja mistök sem hann átti þátt í að gera hér á árum áður og mun aldrei fást til að viðurkenna. Hinn helmingurinn virðist aftur á móti svo fullur af virðingu og undirlægjuhætti gagnvart hinum ætluðu reynsluboltum, að hann sýnist albúinn til að elta dellur þeirra og dómgreindarleysi út í það óendanlega !

 

Samningur úr liðinni tíð eins og EES, sem hefur smám saman verið að breytast í hengingaról fyrir íslenska ríkið er því varinn, þó nánast allir ættu að vera búnir að sjá þá hættu sem hann býr yfir gagnvart sjálfstæði okkar og fullveldisrétti. Þeir sem samþykktu á sínum tíma að fara inn í forstofuna hjá Evrópusambandinu með þessum samningi, þóttust samt vera afskaplega klókir með þessum gjörningi og fá mikið fram fyrir okkar hönd. Sögðust svo bara labba út aftur einn daginn !

 

En raunveruleikinn talar öðru máli. Þeir í Brussel litu svo á og líta svo á enn - að úr forstofunni væri bara um það að ræða að ganga áfram inn í kastalann. Og valdstjórnin í Brussel er ekki til að leika sér að. Hún hefur allar götur síðan hert á sinni afstöðu og reglugerðarfarganið að utan er farið að standa öllu heilbrigðu íslensku framtaki fyrir þrifum og þá er ekki við góðu að búast !

 

Þetta vita margir nú sem vildu ekki trúa slíku fyrir nokkrum árum. En sannleikurinn er þegar orðinn þeim hinum sömu of beiskur. Þeir neita að horfast í augu við staðreyndir. Það er vont að keyra krefjandi málefni líðandi stundar áfram á sjónarmiðum afdankaðra stjórnmálamanna sem eru fyrst og fremst og síðast og fyrst að verja eigin feril !

 

Hvar er þjóðhollustan í slíkum tilfellum ? Hversu trúir eru slíkir fulltrúar hagsmunum þjóðarinnar þegar egóið þrammar fram og aftur í hugum þeirra eins og fullskipuð rómversk herdeild ? Núverandi valdamenn treysta sér ekki til að ganga í hreinsunarstarfið eftir EES vitleysuna vegna þess að það mun afhjúpa dómgreindarleysið sem sýnt var við umrædda samningsgerð og jafnframt kippa árunni að fullu frá höfðum ýmissa átrúnaðargoða !

 

Hvað á að láta hlutina danka lengi án þess að tekið sé á málum ? Hvað lengi á að leyfa hengingarólinni að styrkjast og hindra aðgang okkar að náttúrulegu og lífvænlegu súrefni ? Er frelsi í verslun og viðskiptum ekki það eina sem sæmir sjálfstæðri og fullvalda þjóð ? Af hverju fylgjum við ekki heilshugar slíkri stefnu ?

 

Aðildin að EES átti sinn þátt í ýmsum þeim fjármálaglæfrum sem komust á græðgislegginn og leiddu til hrunsins 2008 og fóru þannig með hagsmuni þjóðarinnar að í fyrstu virtist þar ekki standa steinn yfir steini. Allt komið í rúst !

 

En hvað hafa menn lært af þeim óförum ? Hvar er núverandi stjórnmálaforusta landsins stödd með stóra egóið sitt um þessar mundir ? Þetta 50% kauphækkunarlið sem segir að allt fari til fjandans ef launþegar landsins fá meira en 4% í sinn hlut !

 

Sjálfstæðisflokkurinn hafði í stjórnarandstöðu fyrir 1991 verið mjög gagnrýninn á aðildina að EES en til að mynda stjórn með krötum sneri Davíð Oddsson algerlega við blaðinu. Það var örlagaríkt fyrir Ísland og á eftir að sýna sig þannig enn frekar !

 

Aldrei var reynt í þessum efnum að ná tvíhliða samningi við ESB um fjórfrelsið án þess að Íslendingar yrðu aðilar að stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins. Í hruninu kom svo skýrt í ljós hve illa var sinnt um þjóðarhagsmuni Íslands innan EES !

 

Það á aldrei að rétta skrattanum litla fingurinn. Það var gert með því að gera EES samninginn og íslensk stjórnmálaforustu var þar á algjörum villugötum. Það er ekki í fyrsta sinn sem ráðamenn Íslands tefla hagsmunum þjóðarinnar í tvísýnu af ástæðum sem beinlínis hljóta að teljast utan við alla dómgreindarlega afstöðu !

 

Núverandi stjórnmálaforusta landsins mun vafalaust heiðra í öllu fjálglega 100 ára fullveldisafmæli lands og þjóðar á þessu ári og það í hverju orði. En hvernig skyldu menn standa hina raunverulegu vakt um fullveldi landsins ? Er það ekki kjarni málsins hvernig það er gert ? Og þá er það kýrljóst að þeir sem vilja hanga í hengingaról EES eru ekki að verja sjálfstæði og fullveldi landsins heldur þvert á móti !

 

Vægi afdankaðra pólitíkusa í núverandi stjórnun mála lands og þjóðar er allt of mikið. Þar eru of margir sem eru að verja rangar gjörðir úr liðnum tíma, verja sinn feril og sín mistök. Það er oftar en ekki gert á kostnað hagsmuna lands og þjóðar !

 

Raunverulega þurfum við nýja stjórnmálaforustu, sem er laus við spilltar tengingar við fortíðina og heldur sig fast við hið eina og sanna kjarnaatriði – sem er að vernda íslenskt sjálfstæði og fullveldi þeirrar þjóðar sem þarf að geta átt sitt frelsi óskert eins og allir aðrir. Fjöregg okkar verður aldrei öruggt í annarra höndum !


Um íslenska ,,leiðtoga“ !

 

Við Íslendingar höfum líklega ekki lakara skopskyn en aðrir íbúar jarðarkringlunnar, enda er margt í samfélagi okkar sem ýtir undir þá eigind. Það sem kallast mannleg fordild eða hégómagirni getur endalaust orðið tilefni að skrítlum og gamanmálum og svo er áreiðanlega ekki síður hérlendis en annarsstaðar !

 

Oft er svo tekið til orða í fornsögum okkar – það hlægir mig -, það er, að viðkomandi, oft á örlagastund, minnist einhvers sem gerir honum glatt í geði, þrátt fyrir allt.

Það mætti ætla að sá sem tæki þannig til orða hefði sitt skopskyn á hreinu !

 

Eitt af því sem hefur orðið að því sem kalla mætti – hlægilegri venju – í okkar samfélagi, er að pólitískir leiðtogar skrifa yfirleitt ævisögur sínar eða fá einhvern pennafæran mann til þess. Slíkar bækur verða oft hinir mestu doðrantar og hlutverk þeirra virðist fyrst og fremst eiga að vera það, - að standa sem bautasteinar fyrir viðkomandi leiðtoga og ætluð afrek þeirra í þágu lands og þjóðar !

 

En því miður virðist svo vera sem doðrantarnir verði þykkari og þungskildari eftir því sem afrekin hafa í raun verið minni að vöxtum. Það er þekkt staðreynd að lítill kjarni þarf miklar umbúðir. Ekki veit ég hvað mikið er gert af því að lesa slíkar bækur, en ég hef grun um að það sé töluverður hópur sem það gerir. Flestir halda líklega að í slíkum bókum séu mál gerð upp á afgerandi máta og margt óskiljanlegt verði þannig skiljanlegra, en það er alger misskilningur !

 

Umræddar bækur eru nefnilega ekki til þess að skýra mál með þeim hreinskilna hætti. Þær eru fyrst og síðast hugsaðar sem varnarrit fyrir leiðtoga sem finna oft sárt til þess að þeir hafi kannski ekki dugað sem skyldi og jafnframt sauðtrygga fylgjendur sem vilja freista þess að reyna að byggja upp áframhaldandi goðsögn í kringum þá !

 

Athyglisvert er líka hvernig nöfn slíkra ritverka eru valin, yfirleitt höfð matarmikil og mærðarleg, við getum nefnt af handahófi - Í eldlínu stjórnmálanna, Fram fyrir skjöldu, Hreint út sagt, Jakinn, Járnkarlinn o.s.frv.

 

Og þegar við stöndum frammi fyrir öllum þessum varnarritum, sem meira og minna eru hlaðin einhæfum vitnisburðum um hégómagirnd og sjálfsupphafningu mannskepnunnar, ætti skopskynið sannarlega að geta komið fram í okkur. Það er nefnilega reglulega hlægilegt hvernig þessir menn rembast við að sýna fram á eigið ágæti, oft með tilsniðnu lítillæti og uppgerðar hógværð, en samt skín alltaf í gegn viðleitnin til að sýna hvað viðkomandi var mikill bógur og allt í öllu !

 

Við fáum að lesa um hvað þessir menn lögðu mikið á sig, hvað þeir lifðu við kröpp kjör, ofreyndu sig í vinnu, vanræktu fjölskyldur sínar vegna hagsmuna þjóðarinnar, trúðu á hugsjónir og fagurt mannlíf og í gegnum alla sögu þeirra á náttúrulega að hljóma í eyrum okkar stefið ÍSLANDI ALLT !

Gallinn er bara sá – að það er rammfalskt !

 

En það er samt hægt að hlægja sig næstum máttlausan af mörgu því sem borið er á borð í þessum sjálfsdýrkunarskrifum. Hégómagirnin ríður þar hreint ekki við einteyming. Og maður getur spurt sjálfan sig, ef þessir ,,leiðtogar” hefðu virkilega verið svona eins og þeir eru að lýsa sér, væri þá ekki sjálfgefið að margt væri öðruvísi á Íslandi í dag og í mun betra og heilbrigðara fari ?

 

En ef til vill má segja að við að lesa svona bækur, fái maður kannski fyrst og fremst meiri skilning á því hversvegna mál eru ekki í betra fari hjá okkur en raunin sýnir.

Það er auðvitað ekki síst vegna þess, að ,,leiðtogarnir” sem bækurnar lofa svo mjög, voru aldrei slíkir sem þeir vilja vera láta, heldur fyrst og fremst miðlungsmenn sem komust til valda og áhrifa fyrir gráglettni örlaganna, og voru aldrei þeirrar manndómsgerðar að reynast eins og þeir hefðu þurft að gera fyrir land og þjóð !

 

Íslands óhamingju hefur löngum orðið flest að vopni, og við sjáum það ekki hvað síst af því forustuliði sem hér hefur ráðið málum undanfarna áratugi og yfirleitt skilað afskaplega litlu fyrir velferð lands og þjóðar !

 

Skyldum við einhverntíma eignast trúverðuga og fullgilda leiðtoga ?

 

 

 

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 1183
  • Frá upphafi: 316782

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband