Leita í fréttum mbl.is

,,Velferð" íslensku þjóðarinnar ?

Það er mikið talað um velferð í þessu landi og ekki síst af ráðamönnum, og þá einkum í þá veru að verja þurfi velferðarkerfið !

En af hverju er alltaf vísað til þess að við þurfum að verja fenginn ávinning, af hverju er ekki talað um að bæta við hann, auka velferð og fylgja þar góðum samfélagsgildum ? Gegn hverju eða hverjum  þarf að verja fengin lífsgæði, þessa umtöluðu velferð okkar, hvað eða hver ræðst svona rosalega gegn henni, að hún er, að sögn, alltaf í nauðvörn, hver er ógnvaldurinn, já, vel að merkja,hver skyldi hann vera ?

Og hvert skyldi nú raunverulegt velferðarstig íslensks samfélags vera þegar allt kemur til alls ? Gætum við nálgast eitthvað svarið við því með því að spyrja eftirfarandi spurninga og svara þeim jafnframt eins og beinast liggur við ?

1. Höfum við  í einlægni gengið veginn til góðs í samfélagslegum skilningi ? NEI !

2. Höfum við verið samvirk í því að byggja hér upp þjóðfélag á forsendum heildarhagsmuna og jafnréttis ? Nei !

3. Höfum við hlynnt að eðlilegum og uppbyggilegum mannréttindum og heilbrigðum, siðferðilegum gildum ? Nei !

4. Hafa auðlindir landsins verið nýttar af skynsemi í þágu þjóðarinnar ? Nei !

5. Hefur tekist að þróa borgarvæðingu Stór-Reykjavíkursvæðisins  með manneskjulegum og þjóðhagslegum hætti ? Nei !

6. Hefur félagsleg samkennd þjóðfélagsþegnanna aukist að gildi með árunum og styrkt þannig innviði samfélagsins ? Nei !

7. Hefur forusta þjóðfélagsins verið í góðum og traustum höndum síðustu áratugina ? Nei !

8. Hefur Verkalýðshreyfingu, Samvinnuhreyfingu og Ungmennafélagshreyfingu aukist heilbrigður kraftur í þjóðhagslegum skilningi á undanförnum árum ? Nei !

9. Hefur Alþingi og æðsta yfirstjórn lýðveldisins vaxið að trausti á síðustu árum fyrir hagstjórn sína og þjóðvarnarlegt hlutverk ? Nei !

10. Erum við Íslendingar sameinaðri sem þjóð til hugar og hjarta, eðlis og anda, en við vorum við fullveldissigurinn 1918 eða lýðveldisáfangann 1944 ? Nei !

Hvað stendur þá eftir ? Það væri fróðlegt að fá svar við því, þegar hinar ýmsu málpípur óbreytts kerfis hætta að þrástagast á áróðurstali sínu um að verja velferð, sem í mörgum tilfellum hefur aldrei verið til og í öðrum tilvikum er hætt að vera til, og fara að horfast í augu við veruleika sem er mun nöturlegri en menn hafa viljað viðurkenna !

Almennt launafólk sem kemst á eftirlaunaaldur er oftar en ekki svo slitið og farið af vinnuþrældómi að lítið er orðið eftir af því, heilsan búin og harmkvælin ein eftir, enda oftast stutt í endalokin. „Velferðin" á Íslandi krefst þess nefnilega af slíku fólki að það vinni myrkranna á milli ef það á að geta veitt sér eitthvað ! Og fjármunum lands og þjóðar er yfirleitt veitt í allt annað frekar en fólkvæna farvegi, því sérgæskan ræður nánast allri úthlutun í þeim efnum hérlendis !

En það má spyrja margra spurninga um þjóðhagsleg atriði þó býsna erfitt sé löngum að fá ábyrg svör ráðamanna, þar sem hver vísar yfirleitt á annan.

Hvað kostaði til dæmis Kárahnjúkavirkjun ? Stendur hún undir sér eða erum við enn að borga með henni og þá hvað mikið ? Af hverju var ráðist í svona stóra virkjun, var ekki miklu skynsamlegra að virkja í smærri einingum og lágmarka þannig alla áhættu ?

Hver er heildarkostnaðurinn orðinn við Landeyjahöfn ? Verður hún nokkurntíma annað en óþolandi byrði á þjóðinni ?  Þar sem staðsetning hennar virðist hafa verið ákveðin einmitt þar sem mestur sandurinn berst að landi, vegna öldusveigjunnar um Vestmannaeyjar, má spyrja, verður þetta ekki bara endalaus sandmokstur á kostnað þjóðarinnar? Kannski ætti mannvirkið heldur að heita Landeyðuhöfn ?

Hvað lengi á virkjanastefna ríkiskerfisins að byggja á því að „raforkan okkar" sé borguð niður í útlenda auðhringi en sé okkur landsins börnum dýr og spillt sé með þeim hætti fyrir þjóðhagslegum neytenda-ávinningi ?

Hvað lengi á auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin okkar, landhelgin okkar, að vera föst í klóm sérhagsmunaklíku sem er eitt ógeðslegasta fyrirbærið í allri okkar sögu ?

Hvað lengi á að halda raunverulegum möguleikum til raunverulegrar velferðar í þessu landi - frá þjóðinni ?

Velferð í landi þar sem allt hækkar nema laun lágtekjufólks, velferð í landi þar sem bankar og fjármagnsfyrirtæki fara sínu fram og búa bara við sýndareftirlit, velferð þar sem valdstjórnin hefur enga framtíðarsýn fyrir þjóðarheildina, velferð þar sem þeir stóru panta sérlausnir fyrir sinn hag frá ráðamönnum, velferð þar sem stöðugt er níðst á almenningi, hverskonar velferð er það ?

Ef velferð væri raunverulega fyrir hendi í landinu myndi þjóðin öll finna fyrir henni og ávöxtum hennar, en svokölluð velferð Íslands er að mestu í raun bara velferð hinna fáu sem - í boði stjórnvalda - hafa hingað til lifað kóngalífi á kostnað lands og þjóðar !

Ekkert þjóðríki í heiminum getur talist velferðarríki nema almenn velferð sé til staðar !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1182
  • Frá upphafi: 316781

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 886
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband