Leita í fréttum mbl.is

Að níðast á eigin þjóð !

 

 

Íslensk stjórnvöld hafa nánast aldrei verið með þeim hætti að þau hafi verðskuldað mikla virðingu eigin þjóðar. Það er vægast sagt ömurleg staðreynd. Flestar ríkisstjórnir landsins hafa alltaf þjónað efsta lagi samfélags-pýramídans, þeim allra ríkustu og ágengustu, eins og mögulega hefur verið hægt. Afkoma þjóðarbúsins á hverjum tíma hefur verið látin taka mið af þörfum þeirra og ítrustu kröfum, allri almannaheill til sárustu bölvunar !

 

Allt hefur verið gert til að halda auðlindum þjóðarinnar sem mest frá henni og spila þeim í hendur sérgæskunnar. Það hefur alla tíð vitnað um það hversu forspillt valdstjórnin er og hvað Mammons-valdið virðist hafa heltekið hverja sál þar á bæ. Þegar svo er komið virðast menn komnir meira en hálfa leið til helvítis !

 

Af þessum sökum eru velferðar og aðhlynningarmál samfélagsins mörg hver í uppnámi. Ýmsir innviðir eru farnir að bresta og þeir sem hallast standa fá að finna fyrir því. Ekkert stjórnvald er að sinna þeim. Geðsjúkir ráfa um götur og langveikt fólk er í einskis manns landi. Öll fyrirgreiðsla kerfisins virðist miðast við þarfir hinna ,,þurftarmiklu“ og ríku !

 

Eitt sinn sagði siðblindur forstjóri ergilega, þegar talað var um hvernig nota bæri skattpening og einhver sagði að þá þyrfti að nota í þágu fólksins : ,, Fólkinu kemur ekkert við hvað gert er við þessa peninga !“ Meiningin var auðvitað að þeir ættu að nýtast honum og hans líkum, eins og alltaf hafði tíðkast hjá úrkynjuðu yfirstéttarvaldinu !

 

Íslenskir stjórnmálamenn, einkum þó á tímanum eftir lýðveldis-stofnunina,hafa oftast og yfirleitt verið lítilla sæva og sanda. Þó er það mín skoðun, að aldrei hafi ríkisstjórn og alþingi verið jafn illa skipað hvað hæfni varðar og nú. Þar eru úlfshalar einir á króki í dag því um mannval er ekki að ræða !

 

Hversvegna er þetta svona ? Hversvegna virðist hollusta sumra íslenskra ráðamanna vera úti í Brussel eða hjá Nató eða vestur í Vostúni ? Hvað veldur því að maður getur ekki borið virðingu fyrir einum eða neinum úr þessum hópi sem kallast ráðamannalið Íslands nú til dags ? Manni finnst það lið allt orðið samruglað. Svo sannarlega vildi ég geta virt það og geta jafnframt treyst því að hagsmunir lands og þjóðar séu í góðum höndum !

 

En slíku er því miður ekki að heilsa. Snautleg meðalmennskan, íklædd geldum og grátlega innantómum lærdómsgráðum er við völd. Ferilskráin virðist skipta öllu hjá því liði sem situr í valdastólunum. Það er engin hugsjón í gangi þar, engin þjóðrækni eða nokkur manndómsmynd. Slíkt forustulið sem við búum við myndi víða vera kallað hyski og í mínum augum virðist það vera raunin. Allt verður sem löngum fyrr Íslands óhamingju að vopni !

 

Ég skora á þá landa mína sem enn eru hugsandi, að fara yfir lýðveldistímann, og reyna að finna einhvern þjóðrækinn skörung í hópi ráðamanna okkar á þeim tíma. Ég finn engan slíkan en samt nokkra sem eru skárri en snobbhænsnin og skoffínin sem nú sólunda þjóðarauði okkar fullkomlega ábyrgðarlaust, meðal annars í sífellt fleiri flóttamenn sem innviðir okkar eru hættir að þola,botnlausan menningarhégóma og öfugar orkupakka-kröfur erlendis frá !

 

,,Íslenskur almenningur á ekki að njóta neins“, er sýnilega viðhorf hinna aumu ráðsmanna þjóðarbúsins. Siðblindir forstjórar og algerlega upphrokaðir stórútgerðarmenn, óseðjanlegir auðmenn sem vilja stöðugt meira, skulu höndla hér með allt – segir hin vélræna rödd valdakerfisins. Fólkinu, almenningi í landinu, kemur ekkert við hvað gert er við eignir þjóðarinnar. Það er boðskapur gjörspilltrar blóðsugu-klíkunnar enn sem fyrr !

 

Með þeim hætti varð kvótakerfið til. Þegar þjóðin hafði með sameinuðu átaki unnið landhelgina, var auðlindin afhent innlendu arðránsvaldi og allt svikið sem barist hafði verið fyrir til sigurs. Sigurinn í landhelgismálunum var þannig myrtur innanfrá. Og síðan hafa þau ógeðslegheit vafið um sig margföldum viðbjóði og siðblindað fullt af fólki sem lifir í vellystingum á rangfengnum kvótapeningum og virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að það er að arðræna eigin þjóð !

 

Sérgæskumafía íslenskrar pólitíkur hafði beðið færis og hirti ávexti sigursins frá þeim sem unnu hann. Almenningur var rændur og allur sá þjófnaður á eðlilegum mannrétti var löghelgaður af harðsvíruðum drullusokkum ómennskukerfisins, innmúruðum varðhundum valdstéttar, sem er eins siðlaus og skítleg og verstu einræðis-stjórnir erlendis !

 

Slík stjórnvöld virðast telja það höfuðverkefni sitt að níðast á eigin þjóð og það hafa þau gert, að mínu áliti, allar götur frá því að Dönum var hent hér út. En að ýmsu leyti er mörgum farið að skiljast í seinni tíð - að danska stjórnvaldið var ekki verra, líklega jafnvel betra, þegar allt er meðtalið !

 

Vonandi losnum við sem fyrst við þessa ónýtu, flötu og lötu Kötustjórn, sem hefur fyrst og fremst opinberað sig sem algert prímadonnufyrirbæri fáránleikans, og náum að varna Bjarna að sitja eins og gráðugur Engeyjar-svartbakur, til enn lengri tíma, yfir ríkisfjármálunum, þjóðinni til algerrar óþurftar – að minni hyggju !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 186
  • Sl. sólarhring: 320
  • Sl. viku: 1617
  • Frá upphafi: 318440

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 1255
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 167

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband