Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
31.5.2007 | 21:43
SMÁYRKINGAR VEGNA STJÓRNARSKIPTA
Annasöm varð vikan sú þegar nýja ríkisstjórnin var sett á koppinn og lokið því verki sem hófst trúlega fyrir kosningar. Enn sem fyrr skipta stólarnir miklu máli:
Liðin er nú annavika,
ýmsir voru sendir heim.
Nýir menn að stólum stika,
stefnan er að sitja á þeim !
Konur í Sjálfstæðisflokknum fengu að heyra það, að ef þær ætluðu sér ráðherrastóla, yrðu þær að koma sér ofar á framboðslistunum. En slíkt gildir ekki í Samfylkingunni. Ingibjörg Sólrún seildist yfir höfuð tveggja niður í þriðja sæti á framboðslista eftir ráðherraefni. Katrín Júlíusdóttir þótti víst ekki nógu frambærileg.
En ný stjórn er ný stjórn og eftirvænting í mörgum varðandi það hvað verður:
Vorið gleður hugur hýrnar,
hressir straumar knýja,
uns við hlaupum út sem kýrnar
eða stjórnin nýja !
Sturla Böðvarsson var látinn hætta sem ráðherra og fékk hann embætti forseta Sameinaðs þings í sárabætur. Það er orðin hefðbundin aðferð Sjálfstæðismanna í seinni tíð þegar þeir vilja losa sig við ráðherra, að skella honum í það embætti.
Augljóst var að Sturla var ekki sáttur:
Sturla af höndum stólinn lét,
stundin bauð ei gleði.
Þótt hann vildi ei fara fet
flokkurinn því réði.
Kristján Möller kom þar inn,
krati úr Siglufirði.
Hrakinn burt var Hólmarinn,
hann var orðin byrði !
Jóhanna Sigurðardóttir er aftur komin á vettvang félagsmálanna og víst er að margir vænta góðs af hennar störfum:
Jóhönnu er alltaf í
elja, þor og kraftur.
Hennar tími hefst á ný,
hún er komin aftur !
Björn Bjarnason stendur enn þó hann hafi orðið fyrir ýmsum skeytum samflokksmanna:
Björn er enn á valdsins velli
vikinn hvergi nær til hlés.
Gæti fram í gráa elli
gefið skít í Jóhannes !
Gæti líka í greindri stöðu
gengið veginn hugarrór.
Horft á fjenda hundavöðu
halda vörð um Guðlaug Þór !
Stundum er talað um að auglýsingar skipti miklu varðandi gengi í kosningum. Sagt er fullum fetum að fólk sé svo vitlaust að sá flokkur sem auglýsi mest síðustu dagana fyrir kjördag, fái atkvæði í hundraðatali út á það.
Nú er komið í ljós að Framsóknarflokkurinn auglýsti mest og tapaði mest. Samfylkingin auglýsti næstmest og tapaði næstmest. Frjálslyndir komu þar á eftir og stóðu í stað. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti næstminnst og bætti næstmest við sig fylgi. Vinstri grænir auglýstu minnst og bættu mest við sig.
Útkoman er oft í þessum dúr þegar talað er um í sjálfumgleði sérfræðinnar og menntahrokans, að almenningur sé heimskur.
Almenningur veit það vel
að víða er pottur brotinn.
Því margan flokka syndasel
sér hann gegnum rotinn.
Hann kýs það skásta sem hann sér
og síst þá hillingarnar.
Hver auglýsing þar fjarri fer
með falskar gyllingarnar.
Jón Sigurðsson tók að sér stöðu sem aðeins þrekmenni myndi gera, að axla pólitíska arfleifð Halldórs Ásgrímssonar og varð eðlilega hált á því.
Hann sagði af sér og hefði ég þó talið að hann hefði verið einna skásti kostur Framsóknarmanna við núverandi aðstæður í formannslegu tilliti jafnvel þótt hann væri utan þings. En aðstæðurnar eru náttúrulega slæmar og spurning hvort flokkurinn ætti ekki að gera það sama og Jón láta sig bara hverfa :
Flokkur tættur, beygður, barinn,
berst nú grættur veginn þvera.
Jón er hættur, floginn, farinn,
Framsókn ætti sama að gera.
Býsna fróðlegt verður að sjá hvernig samstjórn Geirs og Ingibjargar, íhalds og Samfylkingar, kemur til með að verða. Ég hygg að stjórnin verði meira áberandi í bláa litnum og Ingibjörg hverfi smám saman inn í skugga Geirs.
Nú er sagt að kennsla standi yfir í Valhöll fyrir allt helsta forustuliðið í Sjálfstæðisflokknum, til að venja það af þeim sið að tala um fjandans kellinguna .
Þannig má auðvitað ekki tala um hæstvirtan utanríkisráðherra í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hefur nú verið kysst í bak og fyrir af Bláhandarmanni nr. 1.
Ingibjörg er íhaldshnoss,
ekki lengur plága.
Fékk á munninn fínan koss
frá formanninum bláa.
Rúnar Kristjánsson
24.5.2007 | 22:42
NÝVIÐREISNARBRAGUR
Ortur 19. maí 2007. Tileinkaður Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og flokkum þeirra:
Ingibjörg og Geir með glans
ganga að rekkju saman.
Nú í beggja flokkafans
fer að verða gaman.
Ný skal stjórnin saman sett,
sæludraumar mótast.
Verkið þar mun verða létt,
vilja bæði njótast.
Rædd þó séu málin mörg,
mælist andinn ljúfur.
Enda Geir og Ingibjörg
eins og turtildúfur.
Viðreisn af sér elur þar
ekki neina þrjósku.
Stefnan er á sigursvar,
sérhönnuð af ljósku.
Pólitíkin líkist leir,
lögun marga hlýtur.
Enginn veit þó enn hvað Geir
Ingibjargar nýtur.
- Eða hversu langa leið
létt þau saman ganga.
Þar sem spjótin beitt og breið
býsna marga stanga.
Samfylking því önnur er
á þau fús að herja,
þegar aftur Framsókn fer
félagshyggju að verja.
Vinstri grænir hugvit hart
hafa í mála róti,
meðan þeirra eðli og art
er að vera á móti.
Rekkjuvist í ríkisstjórn
ræðst því enn af mörgu.
Kannski glepur gæfufórn
Geir og Ingibjörgu ?
Kannski er valdavíman þar
viskuráðum meiri,
boðinn fram til blöndunar
brotakenndur dreyri ?
Margur fyrir völdin veitt
virðingunni fargar.
Fá þar kannski ferlið eitt
forlög Ingibjargar ?
Ef þar hugsað vonarverð
virðist ætla að tapast.
Maddömunnar feigðarferð
fer á ný að skapast !
Rúnar Kristjánsson
fecit
22.5.2007 | 22:21
UM KOMANDI STJÓRNARSAMSTARF
Það er stórfróðlegt að heyra, að forustumenn Framsóknar eru þegar búnir að setja þann stimpil á komandi ríkisstjórn, að hún verði hægri stjórn, Baugsstjórn, frjálshyggjustjórn o.s.frv.
Í hverskonar stjórn sátu þessir menn síðastliðin tólf ár ? Lögðust þeir ekki hundflatir undir frjálshyggju-sjónarmið Valhallarliða og gerðu þeim síðarnefndu kleyft að selja eða öllu heldur gefa eignir þjóðarinnar útvöldum alikálfum ? Tóku þeir ekki fullan þátt í því svínaríi og töldu sig meiri menn fyrir vikið ?
Hversvegna eru þeir að dæma Samfylkingar-forustuna svo hart og það fyrirfram, fyrir það sem þeir gerðu sjálfir með einstaklega auðvirðilegum hætti ?
Helsta skýringin á viðbrögðum Framsóknar er náttúrulega nærtæk. Þar eru menn reiðir yfir kosningaúrslitunum, reiðir yfir því að missa af stólunum, reiðir yfir því að annar aðili er kominn í þeirra stað upp í íhaldssængina !
Svo eru þeir afskaplega óöruggir við þessar breyttu aðstæður, búnir að missa allt samband við baklandið, búnir að vera ölvaðir í hæðum valdsins allt of lengi. Búnir að glata tilfinningunni fyrir nauðsyn grasrótar og tengsla við venjulegt fólk.
Og í þessari gjörbreyttu stöðu bregðast þeir við eins og þekkt er úr dýraríkinu verða úrillir og árásargjarnir !
Aumingja Framsóknarforustan - sem fékk engin verðlaun frá fólkinu í landinu fyrir að gera það sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi að hún gerði !
Og nú fer Samfylkingin í sama reynsluprófið. Mun hún halda áfram þar sem Framsókn sleppti, að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins, eða mun hún geta sett einhver merkjanleg fingraför á komandi stjórnarstefnu. Það er spurningin sem brennur á mörgum í dag ?
Því miður virðist það svo, að það sé farið að skipta flesta íslenska stjórnmálamenn meira máli að verða ráðherrar, en að vinna landi og þjóð af fyllstu heilindum. Þar sýnist persónuleg metnaðarlöngun fyrst og fremst og síðast og fyrst vera höfuðmálið. Það er kannski hluti af skýringunni á því hvað margir ráðherrar undanfarinna ára hafa komið litlu í verk og verið þjóð sinni gagnslitlir á valdastóli. Þeir hafa bara verið svo ánægðir yfir að vera ráðherrar, að sjálfumgleðin hefur gjörsamlega heillað þá frá því að vinna þau verk sem þeir ætluðu sér kannski í upphafi að vinna. Svo sátu þeir bara og sátu sér og öðrum til vansa.
Við þurfum almennilegt fólk í ráðherraembættin, fólk sem hefur annan og betri hugsunargang en að hanga bara í stólunum. Við þurfum menn í valdastóla sem hugsa um landsins gagn og nauðsynjar, hugsa um málin af þrá og löngun til að verða fólkinu í landinu, þjóð sinni, að liði. Þannig menn viljum við hafa.
Það skiptir ekki máli úr hvaða flokkum slíkir menn koma, ef þeir er heilir í þeirri hugsjón að vinna Íslandi allt sem þeir geta.
Ég hef vissulega miklar efasemdir um þá stjórn sem nú er að taka við. Ég veit að Samfylkinguna hungraði í stólana og þá er hætt við að ýmislegt fari fyrir lítið.
Ég óttast að íhaldið hafi bara fundið sér aðra burðugri hækju.
En sjáum hvað setur og dæmum ekki fyrr en eitthvað hefur gerst sem kallar á dóm. Framsóknarforustan hefur dæmt komandi stjórn fyrirfram. Hún þekkir auðvitað öðrum betur hvað það kostar að sitja í stjórn með íhaldinu.
En við skulum samt sjá hvað setur og hver framvindan verður eftir að bláa höndin hefur sameinast gulu höndinni í ríkisstjórnarlegu handabandi.
15.5.2007 | 22:52
VARNARSIGUR, BJARNABULL O.FL.
Enn vil ég minnast aðeins á varnarsigur Samfylkingarinnar, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kallar útkomu flokksins í nýafstöðnum kosningum.
Hvaða forsendur liggja að baki þessu tali hennar um varnarsigur. Þær eru engar þegar málið er skoðað út frá staðreyndum.
Árið 1999 bauð Samfylkingin fram í fyrsta sinn og fékk 26,8% atkvæða. 2003 jók hún fylgi sitt í slétt 31%. Þá var talað um að 30% múrinn væri rofinn og Samfylkingin orðin nánast af sömu stærð og Sjálfstæðisflokkurinn sem kom út með 33,7% 2003. En nú fer Samfylkingin lóðbeint niður í 26,8% frá 1999 og heldur engu af fylgisaukningunni frá 2003.
Samt talar Ingibjörg vinkona okkar um varnarsigur . Halló, var stjórnar-andstaðan ekki í sókn, var hún ekki að sækja að ríkisstjórninni til að fella hana, hvaða vörn er Ingibjörg að tala um ? Hafi hún eingöngu upplifað sig og Samfylkinguna í vörn fyrir kosningar er varla að undra þótt útkoman sé eins og hún er. Vinstri grænir upplifðu sig alla tíð í sókn og uppskáru í samræmi við það.
Ómar Ragnarsson spilaði stórt hlutverk í því að gera ríkisstjórninni kleyft að hanga á horriminni. 3,3% atkvæða fóru fyrir lítið hjá Íslandshreyfingunni eins og glöggir menn vissu fyrir og hluti þeirra atkvæða hefði fallið til vinstri og vafalaust tryggt einn mann þar eða jafnvel tvo. Þar með var stjórnin fallin.
Ríkisstjórnin ætti auðvitað í þakklætisskyni að bjóða Ómari sendiherrastöðu fyrir greiðann, t.d. í einhverju bananalýðveldi handan við Fjarskanistan !
Svo er enn eitt atriði sem vert er að minnast á. Bjarni Harðarson, nýliði í þingflokki Framsóknar, gerði nokkuð sem nýliðar eiga helst ekki að gera rétt eftir kosningar. Hann tjáði sig í fjölmiðlum um stöðu flokksins, sagði hluti sem hreint og beint mátti ekki segja. Hann var náttúrulega tuktaður til í hvelli og viti menn, daginn eftir var komið allt annað hljóð í strokkinn hjá Bjarna, hann taldi ríkisstjórnina góðan kost og hún ætti að sjálfsögðu stuðning hans vísan.
Allt tal um vinstri stjórn var gufað upp úr Bjarna nýliða og hann orðinn allur annar maður en hann hefur sýnt sig í umræðuþáttum þeim sem hann hefur tekið þátt í til þessa. Það er munur að vera kominn á þing og þurfa ekki að vera frjáls maður lengur !
En hvað sem tautar og raular er staðan sú, að Sjálfstæðisflokkurinn verður að horfast í augu við það, að Framsóknarhækjan þeirra er orðin ónothæf og hækju sem ekki er hægt að styðjast við er hent.
Það er hinsvegar ljóst að gífurleg áhersla er lögð á það í ýmsum hagsmunahópum innan fjármálageirans og kvótamafíunnar, að ríkisstjórnar-flokkarnir haldi áfram á sömu braut, skítt með eðlilegt lýðræði, skítt með það þótt stjórnin sé draghölt á Framsóknarfætinum, skítt með það að Framsókn missi ráðherra, áfram ber að halda í nafni Mammons og gullkálfsins.
Þó veðurfræðingur Framsóknarflokksins vari við afleiðingum óbreyttrar stefnu fyrir flokkinn, á víst ekki að hlusta á fagmanninn þegar hann spáir pólitískum rosa.Hverjum manni skal haldið í traustum agaskorðum og þá er eins manns meirihluti nóg.
Ekkert Bjarnabull framvegis, takk, allir tali eingöngu eftir gefinni línu ! Höfuðstöðvar hinnar pólitísku forustu til hægri eru líka ef til vill ekki lengur í Valhöll heldur í fjármálafyrirtækjum milljarðafurstanna nýbökuðu.
Spurningin er því kannski ekki hvað hinir sjáanlega ríkisstjórnar-forkólfar segja, spurningin er líklega öllu heldur hvað baktjaldaforustan, hinir raunverulegu valdhafar, segja þeim að gera.
13.5.2007 | 23:37
AÐ LOKNUM KOSNINGUM
Síðan er kosið og svo byrja menn að lesa sitt út úr tölunum. Og þá kemur oftast í ljós að allir telja sig hafa unnið einhvern sigur. Þeir sem hafa augljóslega bætt við sig varðandi atkvæðamagn eða þingmannatölu, tala hástemmt um sigur, hinir sem hafa tapað fylgi eða mönnum, tala um varnarsigur. Enginn talar um ósigur nema þá fréttamenn sem eru að reyna að fá fram afgerandi viðbrögð.
Með öðrum orðum, þá er iðulega forðast að tala um hlutina eins og þeir eru. Þegar veruleikinn býður aðeins upp á eitthvað óskemmtilegt er æði oft reynt að gera hann skemmtilegri með tilkomu lyginnar. En slíkt er engum til sóma.
Nú liggur fyrir að úrslit kosninganna skila ótvíræðum ávinningi til vinstri grænna og sjálfstæðismanna, frjálslyndir standa í stað, Samfylkingin tapar og Framsókn geldur afhroð. Hver eru þá skilaboðin ?
Stjórnin er fallin í þeim skilningi að hún hefur minnihluta atkvæða á bak við sig og getur ekki haldið áfram nema með því að ganga þvert gegn þeim vilja sem kemur fram í úrslitunum. Þjóðin vill skýlaust að Framsókn fari í endurhæfingu.
Hinsvegar er ekki hægt að neita því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið endurnýjað umboð frá þjóðinni til þátttöku í landsstjórninni. Mér er það enganveginn geðfellt að líta þá stöðu mála en þannig er hún engu að síður.
Samstjórn sjálfstæðismanna og vinstri grænna er það sem þjóðarviljinn kallar eftir í þessum kosningum. Það er ekkert vafamál !
Hinsvegar þarf nokkuð til að þessir flokkar fari í samstarf og vandséðar góðar lausnir í þeim efnum, þó að nokkurt traust kunni þegar að vera til staðar milli helstu foringjanna.
En hitt er á tæru, að Samfylkingin vill ákveðið fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og er trúlega til í að kosta nokkuð miklu til. Þar er mikið hungur eftir stjórnarstólum þó vonin um forsætisráðherrastólinn sé vafalítið úr sögunni.
Flokkurinn fékk enganveginn þá útkomu sem vonast var eftir, en Ingibjörg Sólrún greip auðvitað til þess gamla ráðs að tala um varnarsigur og nokkuð viðunandi sigur miðað við það sem komið hefði fram í óhagstæðum skoðanakönnunum einhverjum vikum fyrir kjördag.
Þar viðhefur hún auðvitað ekkert nema fyrirsláttartal, því Samfylkingin tapaði í þessum kosningum og niðurstaðan elur enn á heift margra í flokknum gegn vinstri grænum, sem alltaf hafa verið álitnir svikarar við einingarmál vinstri manna. Þeir eru margir í Samfylkingunni sem geta bara alls ekki áttað sig á því eða viðurkennt á nokkurn hátt að vinstri grænir eigi tilverurétt.
Forusta Samfylkingarinnar var því örugglega aldrei með það í huga að taka heilshugar þátt í myndun þriggja flokka vinstri stjórnar. Ætlunin var sennilega að láta umræður stranda á afstöðu frjálslyndra til innflytjenda, þó í raun væri ástæðan einfaldlega sú að Samfylkingin vill ekki samstarf við vinstri græna.
Samfylkingin mun því áreiðanlega reiðubúin til að ganga langt til móts við íhaldið til að forða því að það reyni stjórnarmyndun með vinstri grænum.
En það breytir ekki þeirri staðreynd, að skýrustu skilaboðin sem lesa má út úr niðurstöðu kosninganna, er einmitt að reynt verði að koma á samstjórn Sjálfstæðisflokks og vinstri grænna
Þannig er það - hversu ógeðfellt sem okkur mörgum hverjum kann að finnast það.
7.5.2007 | 20:31
AF HVERJU ER FRAMSÓKN REFSAÐ ?
Aftur og aftur hafa foringjar Framsóknarflokksins verið spurðir að því í fjölmiðlum hversvegna nánast allar skoðanakannanir bendi til þess að þeir muni fá mjög slæma útkomu í komandi þingkosningum. Og aftur og aftur svara þeir því að þeir skilji það alls ekki. Jafnframt kvarta þeir hástöfum yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn fái þakkir fyrir allt sem stjórnvöld hafi gert en þeir ekki. Það liggur við að þeir spyrji eins og Frelsarinn: Hvar eru hinir níu ?
Það er mjög skiljanlegt að forustumenn Framsóknarflokksins veigri sér við að koma með skýringar á umræddu atriði. Þeir vita nefnilega að skýringarnar eru þess eðlis að það þjónar enganveginn markmiðum þeirra að halda þeim á lofti.
Í fyrsta lagi hefur stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frá 1995 einkennst af yfirburðum fyrrnefnda flokksins varðandi alla stefnumótun.
Framsókn seldi sig til fylgilags við íhaldið fyrir nokkra ráðherrastóla, einn banka o.s.frv.o.s.frv., og hefur síðan lafað með sem hækja - eins og kratar áður.
Gömul einkavæðingaráform Bláliða hafa því náð fram að ganga með stuðningi Framsóknar - fyrir veittan ágóðahlut.
Framsókn er því í hugum fjölmargra flokkur sem hefur svikið flest af því sem hann átti að standa fyrir og fyrir slíkt framferði er flokkum refsað þar sem það er hægt. Þar sem lýðræði gerir það mögulegt.
En af hverju fær íhaldið miklu betri útkomu í skoðanakönnunum en Framsókn spyrja margir - liggja ekki sömu verkin eftir þessa aðila ?
Jú, en verkin eru metin með mjög ólíkum hætti af fylgismönnum flokkanna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið að svíkja með sama hætti og Framsóknarflokkurinn. Hann hefur verið grundvallarstefnu sinni trúr að hygla þeim ríku á kostnað almennings. Það hefur alltaf verið meginatriði í stefnu íhaldsins að leika varðhund fyrir auðstétt landsins hinn ráðandi kolkrabba.
Þeir sem hafa kosið flokkinn hafa alltaf verið sáttir við þá stefnu, kannski vegna þess að þótt þeir telji sig stóra karla vita þeir hver passar upp á þá, eða þeir eru pólitískir ungliðar sem eiga sér þann draum helstan að verða ríkir og færir um að troða á öðrum, - og svo eru alltaf þeir sem eru lítilla sæva og sanda og ánægðir með það eitt að nöguðu beini sé hent fyrir fætur þeirra af og til.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að framkvæma það eitt undanfarin ár sem hann hefur til fleiri ára stefnt að. Hann vantaði bara lengi vel tilsniðna hækju til að koma leikbrögðum sínum í gegn. Framsókn gaf sig í það auma hlutverk !
Fyrir 1980 voru reyndar borgaraleg frjálslyndisöfl til í Sjálfstæðisflokknum sem gátu verið mjög þjóðleg á sína vísu, en ákveðin atburðarás á þeim tíma kvað þau nánast niður. Eftir það náði frjálshyggjan að leggja flokkinn algerlega undir sig og síðan hefur hann verið smitberi þeirrar farsóttar.
Kjósendur íhaldsins eru samt að yfirgnæfandi hluta sáttir við sinn flokk. Þeir eru fyrst og fremst sérréttindahluti þjóðarinnar, þeir sem njóta og hafa notið sérréttinda fyrir atbeina flokksins og þeir sem stefna að því í framtíðinni að verða sérréttindaaðilar með sama hætti. Gagnvart slíku liði þýðir ekkert að tala um þjóðlegar félagsdyggðir, samstöðu heildarinnar, hugsjónir samhjálpar og stuðning við fátæka. Í Sjálfstæðisflokknum eru mestanmegnis einstaklingar sem hafa allan sinn hugsunargang rígnegldan við eigin hagsmuni, annað kemst hreinlega ekki að. En þeir hafa þó jafnan vitað að þeir þurfa á félagslegu tæki að halda til að vernda sína hagsmuni.
Þessvegna og aðeins þessvegna er Sjálfstæðisflokkurinn til !
Kjósendur hans þurfa aldrei að líta svo á að flokkurinn svíki sína stefnu og sitt fólk. Hann er hagsmunabandalag sérréttindaliðsins, þeirra manna sem telja að þeir eigi alltaf rétt á einhverju umfram náungann. Þessvegna eru svokallaðir sjálfstæðismenn innmúraðir og ófrávíkjanlegir í hollustu sinni við flokkinn eins og þungavigtarmaður einn orðaði það víst í títtnefndum tölvupósti.
En þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið að svíkja með sama hætti og Framsókn, það er að segja sína kjósendur, þá hefur hann verið að svíkja samt.
Hann hefur verið að svíkja þjóðina, heildarhagsmuni velferðarkerfisins, öryrkja og aldraða, kynslóðina sem byggði á árum áður upp velferð þessarar þjóðar, hann hefur verið að svíkja byggðir landsins í gegnum svívirðubrask kvótakerfisins, hann hefur verið að innleiða stóraukna mismunun og vaxandi stéttaskiptingu í þjóðfélagi okkar og spillt félagslegum verðmætum og gæðum af fullkomnu miskunnarleysi frjálshyggjunnar. Og kjósendur hans virðast yfirleitt alveg sáttir við þetta framferði, enda er það trúlega í samræmi við sálarlega innréttingu þeirra allflestra.
Kjósendur íhaldsins sjá því enga ástæðu til að refsa sínum flokki. Hann er alltaf að gera það sem þjónar hagsmunum yfirstéttaraflanna og fylgifiska þeirra.
En Framsóknarflokkurinn, sérstaklega í tíð Halldórs Ásgrímssonar, hefur tekið þátt í því með ýmsum hætti að brjóta niður þá félagslegu uppbyggingu sem gerð var á fyrri árum með fullum stuðningi hans og jafnvel undir forustu hans.
Það er álit fjölda fólks um land allt.
Þessvegna hefur mörgum blöskrað framferði Framsóknarflokksins á síðustu árum og þessvegna hafa menn fengið skömm á Framsóknarflokknum. Menn sjá þennan yfirlýsta félagshyggjuflokk algerlega í þjónustu Sjálfstæðisflokksins eða öllu heldur í klónum á honum, og telja hann hafa svikið sínar hugsjónir vegna persónulegra valdadrauma forustumannanna.
Þessvegna er verið að refsa Framsókn og þessvegna á að refsa Framsókn.
Það er lýðræðislegt skylduverk hins almenna kjósanda við þessar kosningar sem framundan eru, að segja við forustumenn Framsóknarflokksins með atbeina kjörseðilsins Svona viljum við ekki að menn hegði sér. Þið eigið þessa refsingu skilið og reynið að draga réttan lærdóm af ráðningunni annars fáið þið enn verri rass-skellingu næst !
Rúnar Kristjánsson
4.5.2007 | 23:44
KVEÐSKAPARMÁL
Ég fór að versla í gær og þar sem ég stóð á stéttinni við búðina, sá ég að vélgrafa var á fullu við að gera skurð umhverfis Brimnes, óðal kántrýkóngsins. Miklir moldarhaugar voru komnir þar og vandséð hvað væri á seyði. Þá skaust þessi vísa í hugann:
Sífellt þarf á suma hér
sjáanlega að loka.
Hringinn í kringum Hallbjörn er
hamast við að moka !
En málið reyndist þó ekki svo alvarlegt, því þarna voru bara starfsmenn hreppsins að verki við að koma í veg fyrir vatnsleka og engar útilokunaraðgerðir í gangi. Svona getur maður nú verið tortrygginn.
Þegar fortíðin er orðin nokkuð görótt þykir oft hið besta ráð að breyta um nafn. Nýlega varð þessi vísa til vegna slíks tilefnis:
Þegar angrar sektarsafnið,
séffa skortir hugarró,
upp þeir taka enn eitt nafnið,
utan samráðs skilst mér þó !
Og svo er það vanabundið viðfangsefni:
Framsókn haldin ágirnd er
eftir völdum háum.
Geir-negld öll hún sviðið sér
sveipað tjöldum bláum.
Meðan Samfylkingin var sem lengst niðri í skoðanakönnunum fæddust þessar vísur:
Ingibjörgu ekki styður
aukið fylgi á nokkurn hátt.
Dýrkunin er dottin niður,
dregur því úr henni mátt.
Horfin virðist alveg áran,
af sér gengin lotningin.
Ber því orðið svipinn sáran
Samfylkingardrottningin.
Í sjónvarpi var nýlega pólitískur umræðuþáttur þar sem fulltrúi Frjálslynda
flokksins Grétar Mar var mjög skeleggur sem oftar:
Fram um vegi fetar snar
fjörs með krafti sterkum.
Garpur er hann Grétar Mar,
gengur fast að verkum.
Yfir mörgu mælskur býr,
magnar tóninn snjalla.
Frjálslyndur í fyrsta gír,
fitulaus að kalla.
Annars er pólitískur ferill sumra að verða hálf átakanlegur :
Margrét fátt til frama gómar,
farsældin þar greinist síst.
Held ég varla að hún og Ómar
hafi nokkurt fylgi víst.
Og að síðustu má vafalaust segja varðandi væntanlegar kosningar :
Flokkarnir sameinast allir um eitt
með andann í vélráðum köldum,
- að bjóða upp á eitthvað sem er ekki neitt,
en ef til vill lykill að völdum !
Rúnar Kristjánsson
1.5.2007 | 01:19
Í ÖLMUSUSKJÓLI ÍHALDSINS
Það hefði einhverntíma þótt ótrúleg spásögn, að Framsóknarflokkurinn ætti eftir að jafna þjónkunarmet Alþýðuflokksins sáluga við íhaldið. En það hefur samt orðið að veruleika eins og allir vita. Það var vissulega dálítið sérstakur áfangi fyrir Framsóknarmenn þegar þeir náðu því í fyrsta skipti að jafnast á við krata í hækju-hlutverki fyrir einherjana í Valhöll.
Fáir bjuggust nefnilega við því að kratar gætu eignast fullkomna jafningja í slíkum undirlægju-hætti.
En allt hefur sínar skýringar. Andi Jónasar frá Hriflu er löngu horfinn frá vötnum Framsóknar. Þar virðast menn eins og Tryggvi Þórhallsson líka gleymdir og samvinnuhugsjónin gufuð upp. Hugmyndafræðin hefur verið umpökkuð innan flokksins í sellofan Sjálfstæðisflokksins og stimpluð með ránfálkamerki frjálshyggjunnar. Leiftrandi hugsjónamenn af gerð Hallgríms Kristinssonar þrífast því ekki í Framsóknarflokknum lengur.
Flokkurinn hefur hinsvegar verið yfirtekinn af einkavæðingarsinnum og stóriðjupostulum sem hafa sungið sína sálma í takt við íhaldið. Og nú er Framsókn síst af öllu skilgreind til vinstri. Nú er það miðjan sem gildir. Þaðan er hægt að eiga viðskipti til beggja handa samkvæmt forskriftinni Vegir liggja til allra átta.
En þó Framsókn hafi löngum viljað leggja áherslu á að stefnan sé og eigi að vera opin í báða enda, hafði Halldór Ásgrímsson í sinni formannstíð aðeins sýn til hægri. Sjónsviðið til vinstri var ekkert hjá honum og þegar litið er á kvótakerfis-ófögnuðinn, liggur hagsmunalega samtengingin í augum uppi. Það var nefnilega ekki síst vegna tilurðar kvótakerfisins að Framsókn leiddist út í það að verða eitt með íhaldinu.
Gömlum slagorðum stórrar sögu sóknar og sigra, hefur verið gjörbylt og nú hljóma þau þveröfugt við það sem áður var. Undra skjótt kom því að þeirri stöðu að enginn maður gat tjaldað svo auðugu ímyndunarafli að hann gæti séð Halldór Ásgrímsson fyrir sér þruma á fundi hið fræga slagorð Framsóknarmanna Allt er betra en íhaldið !
En við verðum líka að skilja að ástæðan fyrir breytingunni er ekki síst sú, að Framsókn er ekki lengur sá flokkur sem var og hét. Framsókn er ekki lengur með 17-18 þingmenn og verður það varla héðan af. Hámarksfylgi flokksins gæti þó hugsanlega skilað inn 10 þingmönnum ef allar hundakúnstir fyrir kosningar gengu upp. Það þýðir að Framsókn er orðinn tiltölulega lítill flokkur og eftir næstu kosningar fer fylgið trúlega, og vonandi leyfi ég mér að segja, vel niður fyrir 10 þingmenn. Hvað ætti að geta forðað flokknum frá því ?
Hækjuhlutverkið hefur alltaf hefnt sín að lokum !
En við verðum svo sem einnig að skilja, að Framsókn hefur sennilega tekið að sér þjónustustarf sitt við íhaldið að einhverju leyti vegna minnimáttarkenndar út af vaxandi smæð sinni. Hefði flokkurinn haft 17-18 þingmenn væri mun meiri slagkraftur fyrir hendi og trúlega einhver reisn til staðar.
Árið 1978 fóru Framsóknarmenn niður í 12 þingmenn og það var þá talið mikið pólitískt áfall. Núorðið telja Framsóknarmenn sig hinsvegar hæstánægða sigurvegara með að ná inn 12 mönnum. Slík er afturförin !
Og tugmilljóna-auglýsingakostnað þurfti svo sem til að ná postulatölunni, á sínum tíma, hver svo sem borgaði þá reikninga !
Og þó að Halldór hafi fengið það fram hjá Davíð, að fá að vera forsætisráðherra um tíma, er þar varla um neitt að ræða sem mun koma Framsóknarflokknum á nokkurn hátt til góða, kosningalega og sögulega séð. Til þess er og hefur styrkur hans í ríkisstjórninni verið allt of lítill. Sjálfstæðismenn eru þar alltaf með hin raunverulegu völd og ráðandi stöðu. Með eftirgjöf stólsins á sínum tíma var Davíð trúlega aðeins að koma til móts við persónulega metnaðarþörf einstaklingsins Halldórs Ásgrímssonar. Og kannski var það ekkert skrítið að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi viljað launa áralanga dygga þjónustu með einhverju.
En ósköp var það þó ömurlegt í ljósi sögunnar, fyrir eftirmann Tryggva og Jónasar, að sitja sem forsætisráðherra með þeim hætti sem alfarið blasti við öllum - í ölmusugefnu náðarskjóli íhaldsins.
Nýr formaður Framsóknarflokksins virðist að ýmsu leyti skeleggur maður og hann vill sjáanlega reyna að skapa sér og flokknum nýjar málaforsendur, en tiltrú almennings á málaflutningi hans virðist þó afar lítil.
Jafnvel nafnið Jón Sigurðsson er eitt og sér engin trygging fyrir ávinningi, þegar staða mála er sú að görótt fortíðin spillir framtíðarmöguleikunum.
Talar sitt frá týndum árum
tapað spil,
fjötrar og bindur flokk í sárum,
feigðar til !
Rúnar Kristjánsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 24
- Sl. sólarhring: 73
- Sl. viku: 593
- Frá upphafi: 365491
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 506
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)