Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
31.12.2008 | 15:13
" Frjálshyggjan étur börnin sín "
Hægri sinnaðir menn hafa oft og iðulega leikið sér með slagorðið " byltingin étur börnin sín " og vilja sennilega með því minna fólk á hvernig fari þegar vinstri öfgar ráða ferð. Annað sem stundum er sagt í herbúðum hægri manna er " að það sé aldrei gott þegar skríllinn tekur völdin ".
Þá er vísað til fólks sem hefur að mati viðkomandi manna breyst í skríl. En hvað er það sem gerir fólk að skríl - er það ekki oftast viðvarandi óstjórn og bruðl, yfirstéttasvínarí á kostnað almennings ? Og þegar almenningur fær loks nóg og rís upp - þá er sagt með fyrirlitningu " nú ætlar skríllinn að taka völdin ! "
Svokölluð vinstri öfgamennska á Íslandi hefur oftast birst í því að reynt hefur verið að verja kaupmátt launa vinnandi manna eða sjálfstæði landsins og sjálfstæði fólksins í landinu. Þar hefur oft verið við ramman reip að draga því hægri öflin ( fjármagnsöflin ) hafa alltaf viljað brjóta og troða á almenningi með ýmsum hætti.
Ég leyfi mér að fullyrða, að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðið öllu á Íslandi hefði aldrei byggst upp neitt sem gat flokkast undir almenna velsæld í landinu. Velferðarkerfi fyrir heildina hefur aldrei verið á dagskrá hjá þeim flokki.
En yfirstétt er fljótt mynduð og ríkið svo notað til að hygla henni sí og æ.
Það liggur því í hlutarins eðli, að slík flokksstefna leiðir til þjóðarógæfu eins og veruleikinn hefur sannað með hrikalegum hætti.
Vinstri öflin sköpuðu fyrst og fremst það velferðar-fyrirkomulag sem við náðum að byggja upp, þó ósamstæð væru. Þau héldu oft aftur af íhaldinu og komu oft í veg fyrir árásir þess á efnahag alþýðu manna.
Skemmst er að minnast á leiftursóknina sem markaði yfirtöku frjálshyggjunnar á Sjálfstæðisflokknum, en þá var hægt að hrinda þeirri atlögu með gagnsókn, þar sem hamrað var á því að þar hygðist íhaldið ráðast beint að lífskjörum manna. Þjóðarsáttin svonefnda, þar sem tiltekinn maður var rómaður sem bjargvættur, byggðist aldrei á öðru en því að lífskjör almennings voru skert með fullu samþykki þáverandi forustumanna verkalýðshreyfingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið meiru í þjóðmálum frá 1991 en á nokkrum öðrum tíma í sögu þjóðarinnar, og við höfum fengið að súpa seyðið af því. Frjálshyggjan fékk að fara hamförum í fjármálalífinu í skjóli Davíðs Oddssonar og ríkisstjórna hans.
Davíð var á þeim tíma eins og Calvin Coolidge forðum í aðdraganda kreppunnar miklu, lék púrítanann í Babylon af mikilli innlifun meðan dansinn dunaði.
Og afleiðingarnar eru hverjum skynbærum manni ljósar, geðveikislegur kapitalismi frjálshyggjunnar, með innbyggðu markaðshyggjuæði, hefur stórspillt almannahag og komið óorði á land og þjóð, og nú er það ekki byltingin sem er að éta börnin sín, heldur markaðurinn og frjálshyggjan. Uppspilaðir auðmenn hafa vegist á með milljarðablekkingar að vopni í falsreiknuðu pappírsgildi, og sumir fallið óhelgir á eigin svikum en aðrir hafa virst hrósa sigri - en sá sigur er falskur. Þeir menn sem þar hafa hreykt sér hæst eru nú merktir þjóðsvikarar í augum almennings og ættu að halda sig eftirleiðis sem lengst frá Íslandi.
Því má ekki gleyma, að það eru öfgarnir til hægri sem ráðið hafa ægilegri feigðarsiglingu fjármála ríkisins og viðskiptalífsins og keyrt íslensku þjóðarskútuna í kaf.
26.12.2008 | 20:46
Þjóðarógæfuflokkurinn og Samtryggingin
Ríkisstjórn Íslands er rúin trausti eins og flestir vita, en þar rembast enn við að sitja álitslausir frjálshyggjumenn og dæmigerðir hægri kratar, lið sem virðist yfirgengilega valdasjúkt !
Þessir tveir hagsmunahópar geta sem best gengið undir nöfnunum sem eru fyrirsögn þessa pistils. Það er líklega heimsmet í pólitískri vitleysu, að fólk sem hefur beint eða óbeint gjaldþrot heillar þjóðar á samviskunni, geri nánast kröfu til þess að fá að sitja áfram á þeim skynvillu-forsendum að það sé hæfast til að greiða úr eigin glappaskotum.
Ábyrgð er hinsvegar ekki tekin á neinu, það er bara reynt að tala um ástand sem hafi skapast af sjálfu sér. Bara dæmigerðar íslenskar náttúruhamfarir !
Snjóflóðin á Vestfjörðum, jarðskjálftarnir á Suðurlandi og bankahrunið í Reykjavík, allt á þetta að vera af sama meiði og fylgja þeirri áhættu að búa á Íslandi !
En bankahrunið er af mannavöldum....... það er algjörlega af mannavöldum !
Það eru persónur á bak við þann gjörning og meira að segja persónur sem hafa fitnað og tútnað út fjárhagslega með því að svíkja þjóð sína eins og verstu landráðamenn. Það eru sem betur fer frekar fá dæmi í sögu okkar um menn sem hafa gert okkur jafn mikinn óleik og þeir menn sem hreyktu sér svo mjög í nýliðnum tíma og það algjörlega á kostnað þjóðarinnar.
Svo koma leiðtogar Þjóðarógæfuflokksins og Samtryggingarinnar fram og tala um að ekki megi persónugera vandann sem við blasir. En hann persónugerir sig sjálfur eins og glæpir gera. Er líklegt að Geir Haarde myndi segja í umræðum um glæpi Stalíns : " Nei, nei, við skulum ekki vera að persónugera þetta, höldum Stalín utan við þetta !"
En Stalín framdi sína glæpi og auðmennirnir frömdu sín auðgunarafbrot í skjóli hliðholls ríkisvalds og ónýtra eftirlitsstofnana. Þeir eru sekir, eins og allir þeir sem studdu þá til verkanna og nú segir þetta lið af hræsni og skinhelgi, fullt ótta við að málin séu gerð upp : " Nei, nei, við skulum ekki persónugera þetta, ræðum þetta bara án þess ! "
Og svo hugsa þessir menn auðvitað með sér, þannig getum við sloppið við alla ábyrgð og svo kemur blessuð hvítbókin okkar, gefin út af okkur, í viðhafnarútgáfu, kostuð af almenningi, og hreinsar okkur af allri synd !
Og framtíðarsýnin hjá þeim sem ekki vilja persónugera glæpina, vegna eigin samsektar, lítur þá líklega einhvernveginn svona út í vonsælum draumi þeirra :
- Bráðum verða Davíð og Geir lofsungnir fyrir að bjarga þjóðinni frá því sem þeir gerðu henni og þeir fá að vera umboðsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi meðan þeir tóra. Og Ingibjörg litla frá Samtryggingunni fær að standa á milli þeirra á plakatinu sem þá verður hengt upp um allt Ísland af þeim sem ekki vilja persónugera glæpi. Það er nú líklega það minnsta sem hún á skilið fyrir alla hjálpina !!!
Og svo á hið landflótta bankahyski að hópast til baka og hrópa: " Upp með rúllettuna aftur, við eigum leikinn !!! " -
Nei, nei, nei og aftur nei ! Það er gjörsamlega útilokað að þjóðin sé eða verði svo vitlaus að trúa þessu glataða liði aftur.
"Aldrei aftur frjálshyggja á Íslandi " sé kjörorðið og nú skulum við halda áfram í þeim anda sem skapaði lýðveldið og lifði góðu lífi í landinu fram að valdatöku Davíðs Oddssonar, þeim atburði sem aldrei skyldi verið hafa.
Í þeim anda eigum við að lifa og starfa um land allt, fyrir samstöðu, félagshyggju og mannlegan jöfnuð, ein þjóð í eigin landi.
Burt með sérhagsmunasvínaríið, kvótasvikamylluna sem kom þessu öllu af stað og meðfylgjandi mismununarstefnu.
Burt með Þjóðarógæfuflokkinn og Samtrygginguna !
" Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf ".
23.12.2008 | 20:55
EINN LÍTILL BRAGUR UM FÓLKIÐ Í LANDINU OG " ÖRYGGISKERFIÐ " SEM ÞAÐ BÝR VIÐ
Kerfið oft er kostarýrt,
krókaleiðum eftir stýrt.
Almenningi er það dýrt,
afar fátt með réttu skýrt,
- En sumir stykki fá þar feitt
fyrir svo sem ekki neitt !
Út á við er annað sagt,
allir séu á þjóðarvakt,
ráðnir upp á réttan takt,
ræktaðir frá veldismakt,
- kringum ummál kerfishrings,
kærleiksþjónar almennings ?
Samt fer margt á meinahlið,
mörg er glíman kerfið við.
Sumir tala um setulið
sem í engu bjóði grið,
- fólki er sigað sitt á hvað,
sagt að ná í eyðublað !
Fræðinganna fastaher,
finna menn á bak við gler
flækja margt sem einfalt er,
uns þar lausn ei nokkur sér.
- Mikilvægi manna þar
magnast helst við flækjurnar !
Yfirvöld sem þegna þjá,
þvæla og stagast reglum á,
heimta vottorð, hampa skrá,
hrokafull og reigð að sjá,
- eru forsmán lýðs og lands,
langt frá véum tryggðabands !
- skapa á milli vina vík,
vekja í öllu pólitík,
eru fólki andstyggð slík
að engin þekkist henni lík.
- Áróðurs og lygalag
lamar sálir margra í dag !
Kringum allar kosningar
koma sömu ræðurnar.
Glæstar orða ginningar
glepja sálir einfaldar.
- Alltaf versnar vaðall sá,
víða opnast svikagjá !
Styrkjum hvergi á stöllum goð,
strengjum hreina sálarvoð.
Gleypum engin gylliboð,
gefum skít í andlaust moð.
- Látum ekki leiðast frá
lífsins réttu sigurspá !
Gætum okkar gegnum allt,
gefum svörin hátt og snjallt.
Ekkert sé af æru falt,
um okkur þó gusti kalt.
- Ekkert kerfi er æðra því
sem okkar hjörtum lifir í !
Hver sem þjónar heildarhag
hylla má ei svikabrag,
þarf að hafa á hlutum lag,
hjartað finna við hvert slag.
- svo hann megi á sannan hátt
sækja fram í rétta átt !
Íslensk hugsun heil á ný
hreki burtu neyðarský,
hefji vonir hjörtum í,
hamingjan sé byggð á því.
-Látum aldrei kerfi kalt
kasta rýrð á gildi allt !
Leggjum mat á boð og bönn,
burt með falska kerfishrönn.
Verum íslensk, verum sönn,
verum heil í dagsins önn.
-Yrkjum saman lífsins ljóð,
lifum fyrir okkar þjóð !
20.12.2008 | 22:02
Mótmælin þurfa að hafa skilgreind hreinsunarmarkmið
Það er mótmælahugur í fólki og það er skiljanlegt. Þjóðin stendur frammi fyrir raunverulegu gjaldþroti, hún býr við ömurleg stjórnvöld, ónýtar eftirlits-stofnanir, o.s.frv.o.s.frv. og við þessar aðstæður horfir hún upp á það, að enginn virðist tilbúinn að axla ábyrgð ?
Ráðamenn, sem hafa gjörsamlega brugðist skyldum sínum við þjóðina, tuða svo stöðugt um að vinna þurfi upp traust, en virðast algerlega ófærir um að skilja, að það kemur ekki til greina að sýna þeim traust eftir það sem gerst hefur.
Þeir tala um að allt verði að koma upp á borðið, en þó er stöðugt að koma í ljós tilhneigingin að stinga þessu og hinu undan, fela þetta og hitt og reyna að sitja,
sitja, sitja, í von um að fólk gefist upp og hætti að mótmæla. Það er talað um skríl og gert lítið úr lýðræðinu, en fólk verður að halda áfram að mótmæla og krefjast þess að óværan í kerfinu sé kveðin niður. Lýsnar verða fljótar að fjölga sér ef þær fá að vera þar óáreittar.
Engin manneskja sem gegndi meiriháttar stjórnunarstöðu í spillingarbönkum frjálshyggjunnar, á að koma til álita í stjórnunarstarf hjá nýju bönkunum. Fólk vill hreint borð og traust myndast ekki á ný með slíkar manneskjur í lykilstöðum.
Ríkisstjórnin nýtur lítils trausts og svo mun áfram verða, nema skipt verði verulega út ráðherrum og forustuliði, einkum þó í Sjálfstæðisflokknum. Raunar mun það álit fólks mjög víða, að allir ráðherrarnir mættu missa sig nema Jóhanna Sigurðardóttir og ef til vill Kristján Möller.
Seðlabankastjórarnir verða að fara og sömuleiðis yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem þar hafa farið með völd munu aldrei vinna sér traust fólksins aftur.
Mótmæli þurfa að aukast verulega og eðlilegt væri að setja fram skýrar kröfur um afsögn tiltekinna aðila. Fólk verður að skilgreina kröfur sínar og benda á hvað verði að gera til þess að hægt sé að vinna upp traust aftur.
Kröfugerð um uppstokkun og endurbætur í kerfinu verður að koma frá fólkinu sjálfu því yfirvöld vita ekki sitt rjúkandi ráð og þurfa því stóraukið aðhald.
Fólk verður t.d. að fá að vita hvernig " Ice Save " dæmið var sett á laggirnar, hverjir upphugsuðu það skelfingardæmi og hvort einhverjir úr því gengi séu við stjórnunarstörf í nýju bönkunum ?
Ef svo er verða þeir að víkja. Fólk treystir engu sem slíkir aðilar eiga þátt í eða koma nálægt. Skaðbrennd þjóð vill forðast " þjónustu " slíkra skaðvalda.
Traust er eitt af því sem nauðsynlegast er í mannlegum samskiptum. Ef eðlilegt traust á að skapast milli fólksins í landinu og stjórnvalda, verður að taka tillit til yfirstandandi mótmæla og hreinsa til í kerfinu.
Verði það ekki gert er hætt við að eyðileggjandi áhrif sundurlyndis og ósáttar sýki þjóðfélagið til langframa með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þá verður ekki um neina endurreisn að ræða í raunhæfum skilningi, leiðin mun bara halda áfram niður á við !
Látum reyna á lýðræðið í landinu og hreinsum til í kerfinu !
13.12.2008 | 18:15
Hægri hönd Davíðs - Palladómur um Geir Haarde.
Geir H. Haarde á þann feril að baki, að ekkert er eðlilegra en að segja að hann hafi verið hægri hönd Davíðs Oddssonar, meðan sá maður var og hét opinberlega formaður Sjálfstæðisflokksins. Flestallt sem Davíð gerði eða lét gera á sínum opinbera valdatíma er því einnig markað fingraförum Geirs Haarde.
Geir stóð Davíð næst og Davíð kunni að meta hann, því að hollusta hans var skilyrðislaus og algjör.
Munurinn á Davíð og Geir er fyrst og fremst sá að Davíð er foringi í sér. Hann er leiðtogi af þeirri gerð sem efast aldrei um eigin rétt til almættis, en Geir er hinsvegar fæddur til að vera hægri handar maður - maður númer 2. Hann hefur það ekki í sér að vera foringi eða leiðtogi sem neinu nemur.
Davíð hefur ekki síst kunnað að meta Geir, vegna þess að hann gat alltaf treyst því að hann yrði sér aldrei hættulegur á nokkurn hátt. Geir myndi aldrei verða keppinautur hans í neinu valdatafli. Geir var bara hans hægri hönd og eins þægur og meðfærilegur í því hlutverki sem hugsast gat.
Davíð hefur nefnilega verið eins og aðrir sem talið hafa sig fædda til forustu, að hann hefur ekki alið upp nein foringjaefni. Í því á hann sammerkt með mörgum öðrum ofurvaldsmönnum eins og t.d. Tító í Júgóslavíu. Menn sem draga alla valdaþræði til sín, kæra sig ekki um að það vaxi upp í kringum þá arftakar, sem geri ef til vill tilkall til valda - og það jafnvel fyrir tímann !
Þessvegna voru menn eins og Geir, Árni Matt og fleiri teknir í innsta hring hjá Davíð. Þeir voru drottinhollir meðalmenn - eins og Davíð vildi hafa þá !
Mörg eru dæmin um að ofurvaldsmenn ala ekki upp foringjaefni. Til dæmis má nefna að eftir dauða Stalíns tók við, til að byrja með, maður að nafni Malenkov.
Það vissi enginn hver ætti að taka við. Þetta var því biðleikur í stöðunni.
Þessi lítt þekkti mallakútur var svo látinn víkja, þegar Krússi var kominn með völdin, og gerður að rafveitustjóra eða einhverju þvíumlíku austur í Síberíu.
Hua-Kuo-feng var látinn taka við fyrst eftir Mao, en er nú öllum gleymdur. Þessir menn voru lítilla sanda og sæva og náðu því ekki einu sinni að vera hægri handar menn. En Geir Haarde er það hinsvegar !
Kannski á Geir það fyrir sér í framtíðinni að verða sveitarstjóri í Fjarðabyggð eða fjármálastjóri við Kárahnjúka. Það er nefnilega trúlegt að embættisgatan hjá honum eigi heldur eftir að liggja niður á við á komandi árum. Það liggur svona einhvernveginn í kortunum, nema hann bregði sér í framtíðinni til Brussell !
Kannski er það einmitt þar sem hann sér nú helstu framavonirnar í komandi tíð ?
Já, Davíð vissi snemma hvar hann hafði Geir og hvað bjó í Geir. Þar var ekkert sem þurfti að óttast. Aðeins maður með mikla foringjahæfileika og leiðtogagen tekur upp á því að snúast gegn pólitískri forsjá sinni þegar færi gefst.
Það átti ekki við um hann Geir ! Menn af hans tagi eru alltaf hæstánægðir með að vera hægri handar menn sinna foringja. Metnaður þeirra stendur ekki til annars og hæfni þeirra ræður trúlega ekki við meira.
Í hartnær tuttugu ár þjónaði Geir Haarde undir Davíð Oddsson á þessum nægjusömu forsendum. Þegar Davíð fyrirskipaði eitthvað, hljóp Geir af stað til að sjá til þess að boði hans yrði hlýtt. Þeim bar aldrei neitt á milli, því samband þeirra var byggt á mjög einfaldri reglu, - annar réði og hinn hlýddi.
Þegar Davíð ákvað að draga sig út úr stjórnmálunum, eins og það átti víst að heita, vildi hann auðvitað ekki að einhver með mikla foringjahæfileika tæki við af honum. Enginn mátti varpa skugga á hann og hans foringjatíð.
Þar að auki er það nú þannig, að menn eins og Davíð draga sig eiginlega aldrei í hlé, nema þeir séu beinlínis neyddir til þess. Þeir vilja áfram ráða og gera það þá í gegnum aðra, yfirleitt menn sem eru orðnir háðir áhrifavaldi þeirra.
Davíð var af þessum sökum auðvitað hlynntur því að Geir tæki við af honum, vegna þess að þá gat hann treyst því að áhrif hans réðu áfram. Geir var nefnilega enn sem áður hægri hönd hans.
Og svo var Geir gerður að formanni Sjálfstæðisflokksins en Davíð stýrði náttúrulega flokknum áfram, en nú úr aftursætinu - á bak við tjöldin.
Geir varð líka forsætisráðherra, en Davíð fór að ráðskast í Seðlabankanum og hvar sem hann kaus að koma við sögu. Enginn sagði neitt við því, allra síst hægri höndin hans. Davíð var auðvitað foringinn og leiðtoginn !
Svo kom að stjórnarmyndun og úr vöndu var að ráða, þar sem gamla hækjan var orðin ónothæf og finna varð nýja. Jafnvel Davíð vissi eiginlega ekki hvað best væri að gera. Strax var reyndar hugsað til Samfylkingarinnar með samstarf, en Davíð var mjög efins, því aldrei hefur honum nú gengið vel að lynda við Ingibjörgu Sólrúnu. Þar hittir yfirleitt skrattinn ömmu sína !
Þeir Davíð og Geir krunkuðu eitthvað saman um Vinstri græna, en Skallinn þótti illa vaxinn til hækju-hlutverksins. Það stóð því í stappi með þetta um tíma því engin lausnarleið þótti góð. En þá gerðist það, að Þorgerður Katrín kom af saumaklúbbsfundi frá Ingibjörgu og hafði meðferðis boð um stjórnarsamstarf.
Geir mun óðara hafa hringt í Davíð, en þá var sá síðarnefndi ekki viðlátinn, því hann var að sögn með Hannesi Hólmsteini á einhverri tilbeiðslustund eða andatrúarsamkomu, sem helguð var minningu Milton Friedmans.
Geir mun ekki hafa vitað hvað hann ætti til bragðs að taka, því hann er jú bara skapaður til að vera hægri handar maður. Að mynda stjórn upp á eigin spýtur var því ekki hans meðfæri. En eftir þraut og þónokkra þarmaspennu, ákvað hann samt að taka boði Ingibjargar, enda herti Þorgerður Katrín ótæpilega að honum með það. Þannig komst núverandi stjórn á koppinn - eiginlega án atbeina Geirs og það sem verra var - án blessunar Davíðs !
Og þess verður að geta, að Davíð varð hreint og beint öskureiður. Það hafði verið gengið framhjá honum og heil ríkisstjórn standsett án hans leyfis ! Foringjastöðu hans og yfirboðarahlutverki hafði verið freklega misboðið og það af þeim er síst átti slíkt að gera.
Hægri höndin mun því vafalaust hafa fengið harða ofanígjöf þar sem seðlabankastjórinn hefur líklega handtérað forsætisráðherrann með heldur óvirðulegum hætti.
En foringi er foringi og hægri hönd er hægri hönd. Geir hefur trúlega lofað bót og betrun, og sagt eins og krakkar gera oft, þegar upp kemst um óknytti þeirra, " ég skal aldrei gera þetta aftur !"
Og enn á ný sannfærðist hann um að hollusta hans við Davíð væri nokkuð sem aldrei mætti bila. En með því mun hann vafalaust hafa persónugert það vandamál sem orðið var stærst í hans eigin sálarlífi og stangaðist stöðugt verr þegar fram í sótti við heillir lands og þjóðar.
Tilvist Davíðs Oddssonar sem seðlabankastjóra er nefnilega orðið vandamál í þjóðfélaginu, tilvist hans sem baktjalda-formanns Sjálfstæðisflokksins er orðið vandamál í flokknum, sem æ fleiri eru að átta sig á, og tilvist hans sem skugga-forsætisráðherra í ríkisstjórninni er allsendis óviðunandi fyrir alla aðila - flokkinn, stjórnkerfið, þingið og ekki síst íslensku þjóðina !
En Geir er bara hægri handar maður og fær sig ekki til að blaka hendi við foringja sínum, því það væru áreiðanlega einskonar drottinsvik, að hans mati. Auk þess óttast hann eflaust, að ef verk Davíðs fella Davíð, sé líklegt að hægri höndin geti fylgt þar með. Af þessum ástæðum reynir hann í pólitískum vanmætti sínum, að lýsa því yfir að ekki megi persónugera vandann, en vandinn er stöðugt að sýna sig meir og meir í gegnum persónu Davíðs Oddssonar og fyrirferðarvægis hans í stjórnkerfinu.
Valdatími Davíðs er orðin slík tímaskekkja, að hann á ekki lengur neina heilbrigða stoð í veruleikanum. Við byggjum ekki upp íslenskt þjóðfélag á ný með slíka fylgju í farteskinu - það er nokkuð sem liggur hreint fyrir !
En Ísland er í þeirri stöðu sem stendur, að það þarf meira en hægri handar mann við stjórnvölinn. Það þarf mann sem hefur það í sér að geta notið trausts sem ábyrgur leiðtogi.
Geir Haarde er ekki og getur aldrei orðið slíkur maður !
8.12.2008 | 20:41
Hálfstæðisflokkurinn ?
Nú virðist sú staða komin upp í málum, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Þjóðarógæfuflokkurinn, eins og ég tel að helst beri að kalla hann, sé búinn að klúðra svo landstjórnarmálum og fullveldisstöðu þjóðarinnar, að forustan í Valhöll sjái ekki aðra leið út úr vandanum en að kasta sér í faðm Brussell-mömmu !
Það yrðu hrikaleg örlög flokks sem hefur jafnan viljað kenna sig við sjálfstæði þjóðarinnar og jafnan þóst helsti varnaraðili þess.
Það er ekki nóg með að flokkurinn sé að mestu leyti ábyrgur fyrir því efnahagslega hruni sem orðið hefur, heldur sýnir hann með vaxandi tilhneigingu til Evrópusambandsþjónkunar, að hann treystir sér ekki til að leysa þann vanda sem hann hefur sjálfur skapað.
Ef svo fer að þessi ógæfuflokkur þjóðmálanna tekur að sér að flytja sjálfstæði okkar á Trójuhesti til Brussell, liggur alveg ljóst fyrir að hann stendur ekki undir nafni og þarf að finna sér annað heiti.
Ég hygg að við þær aðstæður væri heppilegast fyrir hann að taka upp nafnið " Hálfstæðisflokkurinn ", því það myndi þá endurspegla þann beiska sannleik, að helmingur sjálfstæðis okkar og sjálfsagt ríflega það, væri komið til Brussell.
Við værum ekki lengur sjálfstæðir heldur hálfstæðir og illa stæðir á allan hátt !
Þar sem þetta nýja nafn myndi hafa nokkurn samhljóm við fyrra nafnið, þætti það sennilega ekki slæmt, því það gæti ef til vill látið heyrnardaufa og hálfskynbæra menn standa í þeirri trú, að þeir væru komnir á einhvern betri stað í tilverunni en veruleikinn byði upp á.
Blekkingaleikur hefur aldrei verið bannaður í Valhöll !
Hvað gera þau öfl í Sjálfstæðisflokknum eða Þjóðarógæfuflokknum, sem bera hugsanlega sjálfstæði landsins fyrir brjósti, ef hann hyggst leiða enn meiri ógæfu yfir þjóðina með því að senda fullveldisafsal til Brussell ?
Láta þau það yfir sig ganga og játa því að leggjast undir þann klafa, eða segja þau skilið við flokkinn og mynda nýja og betri brjóstvörn í sjálfstæðismálum þjóðarinnar ?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert hvert axarskaftið af öðru í stjórnunarpólitík sinni undanfarin ár. Fyrst kom hann kvótakerfinu á legg og hefur síðan vakað yfir mismununarstefnu þess alla tíð. Svo kom hann helstu eignum þjóðarinnar í hendurnar á meintum fjárglæframönnum og setti í framhaldi þjóðina á hausinn !
Ekki er nú ferillinn glæsilegur en samt eru forustusauðirnir býsna kokhraustir.
Geir virðist taka þessu öllu svipað og Neró þegar Rómaborg brann, Árni Matt talar um að lög réttarríkisins verði að gilda áfram og meinar þá líklega að ekki megi ganga að þeim sem fitnað hafa á kostnað okkar hinna, Þorgerður Katrín klifar á því að við munum hafa okkur í gegnum þetta, en það er lítil sem engin innistæða á bak við þau orð hennar. Hún er ekki leikaradóttir fyrir ekkert, en leikur samt verr en pabbinn.
Sem betur fer heyrist lítið í Guðlaugi Þór og Einar er eins og sýkt síld í framan.
Samtryggingar-ráðherrarnir eru nánast eins og auðar blaðsíður að gildi, nema Jóhanna Sigurðardóttir sem alltaf virðist hafa það í sér að vera í jarðsambandi við fólkið í landinu.
Ingibjörg Sólrún virðist fullkomlega vera orðin Geir Haarde það sem Halldór Ásgrímsson var Davíð. Hundrað prósent hækja !
Hvernig stendur á því að það er ekki frambærilegra lið fyrir hendi í forustumálum þjóðarinnar ?
Er það þetta sem öll menntunin hefur skilað okkur ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook
3.12.2008 | 21:01
Einu sinni var sagt - " Ég ákæri " !
Ef Ísland ætti einhvern Emile Zola myndi hann líklega vera búinn að skrifa hárbeitta grein undir hinni fornfrægu fyrirsögn - Ég ákæri.
Það mætti gefa sér, að hún gæti hljóðað eitthvað á þessa leið :
Ég ákæri forseta lýðveldisins fyrir að hafa verið sem þeytispjald um allan heim undanfarin ár, á vegum allskyns peningafursta og auðkýfinga með misjafna fortíð. Á þeim útrásarþeytingi hefur hann ekki verið trúverðugur fulltrúi fyrir íslenska þjóð eða gætt að öryggishagsmunum hennar. Hann ætti að víkja úr embætti sem fyrst !
Ég ákæri fyrrverandi sem núverandi ríkisstjórn Íslands fyrir himinhrópandi skeytingarleysi og sofandahátt gagnvart öryggishagsmunum íslenska ríkisins og fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart almenningi í landinu. Sitjandi ríkisstjórn ætti að hypja sig sem fyrst !
Ég ákæri sitjandi alþingi fyrir slælega framgöngu í flestum málum og óíslenskan aumingjadóm. Fjöldi þingmanna situr á þingi til einskis gagns. Það ber að rjúfa þing og efna sem fyrst til kosninga !
Ég ákæri stjórn Seðlabankans og sitjandi bankastjóra fyrir að hafa brugðist algerlega á þeirri öryggisvakt sem stofnunin átti að standa fyrir þjóðarhagsmuni Íslands. Allt þetta ónýta lið á að segja af sér tafarlaust !
Ég ákæri Fjármálaeftirlitið fyrir ótrúlegan vesaldóm í hlutverki sínu og yfirgengilegt aðgerðarleysi gagnvart stórhættulegu bankakerfi. Æðstu menn þar eiga tafarlaust að víkja og því fyrr því betra !
Ég ákæri yfirstjórn bankanna þriggja sem yfirteknir voru af ríkinu, fyrir hömlulausa peningagræðgi og gengdarlausan sjálftökurétt, fyrir vítaverða framgöngu í málum með tilliti til ábyrgðar og skyldna gagnvart fólkinu í landinu. Bankakerfið var í höndum þessa liðs gert að svikamyllu djöfulsins, sem lét greipar sópa um sparifé landsmanna og laug og sveik út milljarða undir fölsku öryggis-yfirskini.Það lið sem þarna sat við kjötkatla Mammons er rúið trausti og á hvergi heima í störfum fyrir almannahagsmuni !
Ég ákæri sitjandi ráðherra, embættismenn og alla aðila í stjórnkerfinu sem hafa tekið þátt í að níða niður gjaldmiðil þjóðarinnar, eina af stoðum hagkerfis okkar. Ég ákæri þá fyrir óþjóðlegt athæfi, fyrir að hafa með slíku niðurrifsstarfi brugðist skyldum sínum og þeim hagsmunum sem þeim ber að standa vörð um sem gæslumenn almannahags í þessu landi !
Ég ákæri hvern þann mann í bankakerfinu fyrir siðblindu, sem vitandi vits tók þátt í því að hafa fé út úr fólki með allskyns óraunhæfum gylliboðum og fölskum öryggis-yfirlýsingum. Þar hefur margt ljótt verið gert - ekki síst gagnvart gömlu fólki sem hefur misst allan sinn ævisparnað. Það þarf að rannsaka þau mál því slíkt má aldrei gerast aftur !
Ég ákæri spillta stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa, fyrir að bregðast þjóðarhagsmunum og svíkja íslenska þjóð. Sérstaklega vil ég nefna þar svínaríið í kringum kvótakerfið, sem leiddi að lokum til sýkingar alls stjórnkerfisins og síðan til þess hruns sem nú hefur átt sér stað. Burt með þessi spillingaröfl !
Ég ákæri frjálshyggjuliðið í bankakerfinu, viðskiptalífinu og hvar sem það er að finna, fyrir að hafa fórnað þjóðarhagsmunum og almenningsheillum fyrir sérhagsmuni og ómanneskjulega græðgi.Einkum og sér í lagi ákæri ég viðverandi forustu Sjálfstæðisflokksins, fyrir að hafa veitt liði þessu brautargengi til margra ára, þvert á þjóðarhagsmuni, heilbrigða skynsemi og eðlilega siðmennt !
Ég tel að allir sem falla undir þessa skilgreiningu eigi að víkja !
---------------
Geta menn ekki verið mér sammála í því, að maðurinn sem reis forðum upp til varnar í Dreyfusmálinu alræmda, hefði skrifað eitthvað þessu líkt, ef hann hefði verið borgari í nyrsta bananalýðveldi heimsins, kreppuhaustið 2008 ?
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 120
- Sl. sólarhring: 167
- Sl. viku: 689
- Frá upphafi: 365587
Annað
- Innlit í dag: 116
- Innlit sl. viku: 601
- Gestir í dag: 116
- IP-tölur í dag: 114
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)