Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
30.5.2008 | 21:39
Sjómannadagurinn á Skagaströnd
Sjómannadagurinn er mikill dagur á Skagaströnd eins og reyndar víðasthvar um landið. Kemur þar margt til, en þó stendur það upp úr að hann er sannarlega orðinn sérstakur dagur vináttu og bræðralags í hinum dreifðu byggðum landsins.
Já, dagur vináttu og bræðralags, ekki bara sjómanna, heldur allra þeirra sem búa í hinum litlu þorpum út um landið sem eru svo miklu íslenskari og þjóðmenningarlegri á flestan hátt en sjálfur höfuðstaður þjóðarinnar.
Á Skagaströnd kemur fólk saman á þessum degi til að heiðra fortíðina, njóta líðandi stundar og horfa í sameiginlegri vongleði til framtíðar. Þau eru mörg handaböndin og faðmlögin þennan dag þegar gamlir vinir og félagar hittast og ekki vantar umræðuefnið. Einn segir við annan : " Manstu þegar........? og hinn svarar á svipstundu: " já, hvort ég man....!
Og það er margs að minnast, ekki síst hjá þeim sem komnir eru yfir miðjan aldur og sóttu sjóinn á Björgunum okkar í gamla daga. Þá voru þær þrjár hér við bryggjur - Ásbjörg, Auðbjörg og Aðalbjörg. Þær heyra nú sögunni til eins og stóru bjargirnar í landi, Hólanes, Rækjuvinnslan og Skagstrendingur.
En Skagaströnd er ennþá Skagaströnd og Borgin er enn jafn fríð sem forðum - Höfðinn sýnir sitt tignarbragð og ekki vantar náttúrulega gyllingu í þá umgerð sem sjálfur Höfuðsmiðurinn lagði um þennan mannlífsreit við ysta haf.
Og þó að Bjargirnar okkar kljúfi ekki lengur öldur Ægis, eru kappróðrabátarnir okkar enn við lýði og það er sannarlega sami glæsti stíllinn yfir þeim.
Gustur og Gola hafa nú í sextíu ár þjónað sem farkostir þeirra sem árarnar spenna í glaðbeittri róðrarkeppni dagsins. Þeir eru orðnir margir sem hafa haldið þar um árar allt frá miðri síðustu öld. Gustur og Gola - bátarnir okkar, eiga það sameiginlegt með örkinni frægu, að vera smíðaðir af Nóa.
Og það virðist svo sem sama gilda með þá skipasmiðina gamla Nóa og Nóa bátasmið á Akureyri, báðir kunnu vel til verka á sinni tíð og smíðuðu með sínu starfsliði virkilega flóðheld för.
Og þó að Gustur og Gola hafi kannski í fyrsta sinn búið við visst öryggisleysi í húsnæðismálum þetta síðasta ár, er varla nokkur vafi á því að það stendur til bóta, enda eru þessir bátar meðal gersema okkar Skagstrendinga og vonandi falla þeir ekki að gildi þó fallbyssan sé komin.
Annars tala menn nú ekki lengur um fallbyssu heldur hallbyssu því það er íslensk málvenja að kenna hvaðeina til síns faðernis og er það ekki slæmur siður.
Ég óska öllum Skagstrendingum og sjálfum mér þar með til hamingju með Sjómannadaginn og megi hann endurnæra allt sem gott er í fari okkar og aka því á bug sem bágara er.
Það er bjart yfir þessum degi í huga okkar og þannig á það líka að vera. Látum því fagnaðaróp fylla loftið eins og gjalli við þórdunur fallbyssuskothríðar af Hólsnefinu sem bergmáli fram um allar sveitir.
Megi lífsgleði ætíð verða eitt af því sem aldrei verði af skornum skammti í vopnabúri Skagstrendinga.
Til hamingju með daginn !
25.5.2008 | 12:45
Hægri verðbólga
Margir muna eflaust enn þá tíma þegar mikil verðbólga mældist síðast á Íslandi. Það væri vissulega efni í heillanga ritgerð að fjalla um það hvernig verðbólgan fór af stað þá og hvað olli því. En það liggur hinsvegar ljóst fyrir að hægri öflin í stjórnmálunum hérlendis hafa yfirleitt rakið alla verðbólgu til vinstri flokkanna og kennt þeim krógann.
Samkvæmt viðteknum Valhallarfræðum var nefnilega lengstum litið svo á að enginn kynni með fjármuni að fara nema innvígðir íhaldsmeistarar, tilheyrandi gamla kolkrabbaskólanum. Það hefur að vísu margt breyst síðan, enda hefur kolkrabbinn látið verulega á sjá, og aðrir hrifsað til sín helft af veldi hans.
Og af þeim sökum hafa Valhallarfræðin verið endurskoðuð lítillega - svona svipað því og þegar reglur trúfélaga tíðarandans eru sveigðar og beygðar til af hagsmunaástæðum. En samt lifir enn í gömlum glóðum og enn er flest sem afleitt þykir rakið vafningalaust til vinstri. Þar á að vera gróðrarstía allra mistaka í efnahagsstjórn þessa lands.
En nú blasir við að ýmis mistök hafa verið gerð á þessu sviði og samt er íhaldið við völd og búið að vera það lengi. Við stöndum frammi fyrir bankakreppu, þó að þjóðin hafi verið margfullvissuð um það allt fram til þessa af einkavæðingar-stjórn íhaldsins, að einkavæddir bankar myndu gera Ísland að efnahagslegu stórveldi á stuttum tíma.
Við erum með töluverða verðbólgu, sem hlýtur þá að vera útrásar verðbólga, einkavæðingar verðbólga, bankakreppu verðbólga og umfram allt hægri verðbólga !
Hvernig skyldi annars standa á því að verðbólga sprettur fram við hægra stjórnarfar þegar hún á samkvæmt Valhallarfræðunum að koma frá vinstri í öllum tilfellum ?
Það er eitthvað dularfullt við það og samt er ekkert talað af hálfu stjórnarliðsins um mistök eða slæma efnahagsstjórn? Það er bara yppt öxlum og vísað á fjármálalegar umgangspestir frá útlöndum !
Nokkrir leiðindapúkar eins og Þorvaldur Gylfason hafa að vísu verið að tala um skort á fjárhagslegri fyrirhyggju og varað við ýmsu, en það hefur náttúrulega ekkert verið hlustað á þá og allra síst af gúrúunum í Seðlabankanum.
Nú er sem sagt verðbólgan bara eitthvað ósköp eðlilegt mál sem á að ganga yfir á nokkrum dögum eða kannski vikum eins og kvef eða niðurgangur.
En það var aldrei talað þannig þegar verðbólgan var sögð vinstrisinnað fyrirbæri.
Þá var verðbólga samkvæmt Valhallarfræðum bein afleiðing af slæmri stjórn efnahagsmála.
En í munni talsmanna íhaldsins er hægri verðbólga bara ósköp venjuleg og eiginlega hálf saklaus innanskömm sem ekki þarf að taka neitt alvarlega, en vinstri verðbólga er hreint og beint voðalegt fyrirbæri.
En hinsvegar er niðurstaða mála oftast með einum hætti þegar pólitíkusarnir hafa siglt málum þjóðarbúsins í strand. Þá fara hrokafullir menn allt í einu að taka upp á því að verða smeðjulegir.
Það er farið að tala um þjóðarsátt - en það þýðir á mæltu máli, að þjóðin eigi að borga brúsann, borga mistökin, borga alla vitleysuna sem búið er að gera.
Þegar þannig er komið málum sameinast allir flokksvitleysingar - jafnt til hægri og vinstri - í því verkefni að velta kosnaðinum yfir á almenning.
Og meðan er verið að setja á fólk drápsklyfjarnar, fær það klapp á vangann og því er svo tilkynnt ósköp elskulega, að það sé þar með komið í hina einu og sönnu stuðningsfjölskyldu þjóðarsáttarinnar og megi gleðjast yfir því sem ábyrgir þjóðfélagsþegnar.
En á hitt er ekkert minnst, að á sama tíma og almennt fólk á að borga slíka blóðpeninga undir fölskum þjóðarsáttarstimpli, liggur fyrir að sumir eru leystir út í kerfinu með himinháum fjárupphæðum, einkavæðingarvinir, bankagúrúar, kvótagreifar og allskyns ríkisspenasugur - eða í stuttu máli sagt - allt sérgæðingahyskið upp til hópa !
Þannig er Ísland í dag - hægri verðbólga í umferð, vaxandi misrétti í gangi með niðurbroti félagslegrar uppbyggingar fyrri ára, jafnvel möguleikar gjafsóknar fyrir almenning í lagaréttarmálum á förum fyrir atbeina Valhallar-valdsins í þeim málaflokki.
Þjóðin getur ekki og má ekki styðja hægri öflin í þessu niðurrifsstarfi, sem þegar hefur valdið allt að því óbætanlegum skaða á því velferðarkerfi sem áður hafði tekist að byggja upp í landinu af félagshyggjuflokkunum - þrátt fyrir að varðhundur sérgæskunnar - Sjálfstæðisflokkurinn - hafi verið sígeltandi allan þann tíma !
Komum frjálshyggjuliðinu frá völdum og hefjum nýja velferðar og mannréttinda sókn í öllum málum þar sem almenningur fær að vera með.
16.5.2008 | 23:57
Fallbyssuklúbburinn á Skagaströnd
En þrátt fyrir ótvíræða framsýnishæfni, efa ég að Jules Verne hefði getað séð það fyrir að það yrði stofnaður nokkurskonar Fallbyssuklúbbur á Skagaströnd, því sennilega hefur hann nú lifað og dáið án þess að vita að Skagaströnd væri yfir höfuð til. En hvað sem því líður hefur Fallbyssuklúbbur Skagastrandar verið leiddur á legg og get ég trútt um talað því fyrir skömmu átti ég tal við sjálfan Impey Barbicane þessa klúbbs og það er kveikjan að þessum pistli.
Það er í sjálfu sér gleðilegt að heyra að stofnaður hafi verið klúbbur með íslensku nafni því nóg hefur mér þótt um alla klúbbana með ensku nöfnunum sem iðka að mestu það eitt að snobba í allar áttir. En af hverju skyldi nú þessi klúbbur hafa verið stofnaður og hvert skyldi höfuðverkefni hans vera í núinu ?
Jú, það á að kaupa fallbyssu til Skagastrandar, auðvitað erlendis frá, og hún á jafnvel að vera komin í skip í þessum sögðu orðum. Áhugamannahópurinn sem stendur að klúbbnum er hinsvegar ekki loðinn um lófana og getur því víst enginn ætlast til að hann geti staðið að þessum viðskiptum fyrir eigið fé.
Félagsgjöld Fallbyssuklúbbsins eru sennilega nokkuð lág og oft er erfitt, ekki síst sálarlega, fyrir menn að leysa svona kostnaðardæmi í beintengingu við eigin buddur. Það er gömul og ný staðreynd.
Niðurstaðan varð því sú að hreppurinn hljóp undir bagga og lagði í þetta þjóðþrifamál, að því er mér hefur skilist, hálfa milljón króna af almannafé.
Það ætti svo sem að vera allt í lagi því enn er eitthvað eftir af Skagstrendings-peningunum og sennilega ekkert annað meira að gera við slíka aura í svipinn - eða hvað ?
Svo Fallbyssuklúbburinn fékk góðan stuðning hjá hinum kjörnu handhöfum almenningspyngjunnar og þegar hefur verið ákveðið að skotið verði hér eftir af fallstykkinu á hátíðis og tyllidögum á Skagaströnd.
Það mun því væntanlega verða hleypt af árlega 19. janúar, sem er afmælisdagur Adolfs Hjörvars, 14. apríl, sem er afmælisdagur Magnúsar B, á sjómannadaginn, hugsanlega á 17. júní og svo þegar og ef bæjarhátíð verður haldin, sennilega í kringum 20. ágúst. Önnur tilefni gætu náttúrulega skapast en ekki er vissa fyrir því eins og sakir standa.
Annars hefur umræðan um þessi fallbyssukaup verið nokkuð erfið fyrir klúbbinn og hreppsforustuna og jafnvel ekki síður en yfirstandandi umræða um borgarmálin hefur verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
En það er nú oft svo með mikil framfaramál að þau mæta fordómum og skilningsleysi í upphafi ferðar og stundum er reyndar líka skotið yfir markið.
Mér hefur verið tjáð að Blönduósingar hafi aðeins gert eina fyrirspurn varðandi fallbyssuna og spurt í hvaða átt hlaupið ætti að vísa ?
Þegar þeir voru fullvissaðir um það að þessi vopnakaup Skagstrendinga væru á engan hátt hugsuð sem ógnun í þeirra garð, slökuðu þeir fljótlega á og létu sér eftir það fátt um finnast.
En það er engin ástæða til að gera lítið úr málinu. Allt framtak vefur iðulega upp á sig og eykur hagvöxtinn. Fallbyssukaupin eiga því eftir að hafa ýmis margfeldisáhrif ef að líkum lætur.
Það mun þurfa að senda menn í þjálfun til að þeir kunni á gripinn svo það er trúlegt að einhverjir verði bráðlega titlaðir í símaskránni í Skagastrandar-dálknum sem stórskotaliðar, hvorki meira né minna. Það hljómar ekki amalega og kannski verður líka ráðinn sérstakur yfirmaður, segjum yfir einum eða tveim stórskotaliðum og hann fær þá ef til vill starfsheitið fallbyssustjóri !
Þegar svo verður komið, sjá væntanlega allir að peningum hreppsins hefur að minnsta kosti verið vel varið í þessu tilfelli, hvað sem um annað má kannski segja. Svo verður að hugsa vel um þetta fallstykki sem kemur til okkar um langan veg og á að lífga upp á þær stundir sem við getum átt frá brauðstritinu.
Það liggur líka nánast á borðinu, að almenningur ætti í framhaldinu að geta sótt um styrki til hreppsins hér eftir vegna flugeldakaupa um áramót, því sú skothríð sem þá er jafnan í gangi á sér langa hefð. Þar er raunar um samskonar eða svipaða upplyftingu að ræða og þarna er verið að styrkja og fordæmið kennir. Það er því eflaust sjálfsagt að koma til móts við þarfir almennings í þessum efnum meðan einhverjir aurar eru til.
Og þarf ekki allt mannlíf sinn fjölbreytileika, sumir vilja eignast snjósleða, aðrir fjórhjól, enn aðrir hraðbát eða skútu, er þá eitthvað undarlegt að einhverjir skuli vilja fallbyssu ?
Kennir lífið okkur ekki að allir þurfi á einhverjum leikföngum að halda ?
Ég myndi sannarlega óska hinum skotglöðu fallbyssuklúbbsmönnum til hamingju með væntanlegt leikfang ef það hefði verið hægt að afla þess án þess að fá tillag til þess af almannafé - ég hef nefnilega alltaf verið óttalega viðkvæmur fyrir því hvernig farið er með það.
Já, mikið vildi ég að blessaðir klúbbfélagarnir hefðu alfarið haft efni á þessu sjálfir !
12.5.2008 | 20:10
Um sveitarstjórnarmál og menn
Sumir halda því fram að sveitarstjórnarmenn séu að verða sérstakur þjóðflokkur í þessu landi. Og kannski er það ekki svo fjarri sanni.
Þeir finnast nefnilega allmargir sem eru sveitarstjórnarmenn í annan eða þriðja lið og hafa beinlínis fæðst inn í ferlið.
Kunningi minn einn sagðist þekkja það til sveitarstjórnarmanna í annan lið, að honum hrysi hugur við því að kynnast því fyrirbæri í þriðja lið. Það væri nokkuð sem hann vildi ekki þurfa að búa við eða óskaði nokkrum öðrum. Virtist reynsla hans í þeim efnum hálfgerð hrollvekja.
En af hverju bjóða menn sig fram til setu í sveitarstjórnum ?
Er það af því að þeir vilji þjóna samborgurum sínum, nýta hæfileika sína í þágu heildarinnar og elski náunga sína meira en aðrir ?
Telja þeir kannski að þeir hafi bókstaflega verið fæddir til þess að hafa vit fyrir öðrum ? Eða stefna þeir að því að koma ár sinni vel fyrir borð á kostnað samborgaranna, nýta valdið til eigin þarfa og geta spriklað meira í sviðsljósinu ?
Allt er þetta sjálfsagt til í dæminu, en ég kýs að láta lesendur alveg um það að meta hvað þeim finnst líklegast í hverju tilfelli !
En hvernig á góður sveitarstjórnarmaður að vera ?
Það er kannski auðvelt að svara því en nokkuð erfitt að benda á verulega raunhæf lifandi dæmi.
Við skulum því ekki vera að vandræðast með þessa spurningu og orða hana bara öðruvísi. Hvað á sveitarstjórnarmaður að forðast til þess að hann geti orðið góður fulltrúi í sveitarstjórn?
Og við sjáum það náttúrulega öll að nú er svo sem enginn sérstakur vandi að svara eða benda á víti til varnaðar. Og við skulum setja svarið eða öllu heldur svörin upp á skilmerkilegan hátt. Segjum svona í fimm töluliðum:
1. Sveitarstjórnarmaður á að setja heildarhagsmuni ofar sérhagsmunum. Hann á sem sagt ekki að hygla neinum á kostnað annars, hvorki sínum nánustu né öðrum, heldur hafa hreint skynbragð á hagsmuni almennings !
2. Sveitarstjórnarmaður á ekki að sýna hroka í samskiptum við borgarana. Hann á ekki að tala niður til fólks og segja t.d. að það sé óttalega vitlaust. Beri hann ekki virðingu fyrir borgurunum bera þeir ekki virðingu fyrir honum. Þar gildir einfaldlega lögmálið um sáningu og uppskeru !
3. Sveitarstjórnarmaður á að virða þær leikreglur sem í gildi eru og honum er boðið að starfa eftir. Það er lýðræðisleg skylda hans. Hann á því t.d. alls ekki að taka þátt í því að sveigja og beygja reglur sitt á hvað eftir geðþótta og hagsmunum.
4. Sveitarstjórnarmaður á ekki að sýna valdagræðgi og yfirgang í starfi sínu. Hann á því t.d. ekki sem leiðtogi í meirihlutasamstarfi að gera jafnframt kröfu til að vera bæjarstjóri. Hófsemi er dyggð, einnig í sveitarstjórn !
5. Sveitarstjórnarmaður á ekki að vinna að sameiningu við önnur sveitarfélög í trássi við kláran meirihlutavilja kjósenda sinna. Hann á því t.d. ekki að vera í forsvari fyrir sveitahrepp ef störf hans taka miklu fremur mið af þjónusta við næsta þéttbýlisstað !
Þegar við lítum á þessi atriði fer ekki hjá því að ofurlítill hrollur fer um okkur. Við veltum því nefnilega fyrir okkur hver staðan sé þar sem við þekkjum gleggst til. Og kannski er hún ekki sem glæsilegust !
Margir telja að framgjarnir menn sækist eftir kjöri í sveitarstjórnir, til að nota setu sína þar til frekari vinninga í valdatafli. Þeir bíði bara eftir tækifæri til uppsveiflu. Eftirfarandi vísa gæti bent til þess að þær staðhæfingar hafi við nokkur rök að styðjast:
Ég sit í sveitarstjórn
og sveifla mér í hring.
En færi í engu fórn
og fer svo brátt á þing !
Tilboð frambjóðenda fyrir kosningar eru oft ótrúverðug og yfirboð oft með ólíkindum. Hinsvegar virðist fórnarlundin oft lítil þegar til kastanna kemur.
Það er t.d. ekkert nýtt að manneskja bjóði sig fram til setu í sveitarstjórn og haldi hástemmda ræðu á framboðsfundi, telji fram allt sem hún vilji gera fyrir elsku bæinn sinn og ætli sko aldeilis að láta hendur standa fram úr ermum.
Svo fær þessi frambærilega manneskja góða kosningu, út á stór orð og yfirlýsta stefnufestu. Síðan líður eitt ár eða svo - þá flytur viðkomandi persóna burt af staðnum, hefur ekkert gert og klárar ekki nema ¼ af kjörtímabili hinnar miklu þjónustu !
Þetta hefur maður séð og oftar en einu sinni. Ekki tel ég að þeir sem þannig haga sér sýni þá breytni sem ærleg getur talist í lýðræðislegum skilningi.
En það er sannarlega mikið þjónustustarf í hugsjón og trúmennsku að vinna heilshugar að málum fyrir almenning. Þar eru margir kallaðir en fáir útvaldir.
Mig hefur eiginlega alltaf dreymt um að kynnast sveitarstjórnarmanni sem sinnir starfi sínu af köllun, manni sem er vakinn og sofinn í þágu samborgara sinna. Ég hef þá trú að það væri merkileg upplifun að hitta slíkan mann og fá að ræða aðeins við hann um sýn hans á samfélagið. En ég geri mér samt fulla grein fyrir því að ég er í þessu sambandi að tala um draum - ekki veruleika !
Væri ástand mála á landsbyggðinni eins og það er, ef gegnheilir þjónustumenn fyrir hagsmunum almennings væru í sveitarstjórnum víðasthvar....hvað halda menn í þeim efnum ?
Ég veit að ég kem vafalaust við einhver kaun með því að segja mína skoðun hvað það varðar, en það er sannfæring mín að ef svo væri, þá væri staðan allt önnur og betri.
Það hefur oft verið talað um prestsstarfið og læknisstarfið sem köllunarstörf og vissulega með fullum rétti - en þurfum við ekki líka á því að halda að þeir sem bjóða sig fram til starfa fyrir okkur í sveitarstjórnum, séu leiddir af köllun í anda þeirrar félagshyggju sem kennir mönnum að vinna saman að samfélagslegri þjónustu ?
Ef fórnfýsin leiddi þar í málum yrði þá fordæmið ekki lýsandi til eftirbreytni fyrir alla ?
Væri andinn í þjóðfélaginu slíkur sem hann er, ef allt væri með heilum formerkjum í þeirri þjónustu sem kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum segjast svo gjarnan vilja inna af höndum - fyrir almenning ?
Er ekki ástæða til að velta því svolítið fyrir sér ?
9.5.2008 | 22:40
EFTIRHREYTUR
Morgunblaðið er afskaplega óútreiknanlegt fyrirbæri í fjölmiðlun. Það hef ég uppgötvað í gegnum kynni mín af blaðinu sem staðið hafa í nokkuð mörg ár.
Svargrein mín við sendibréfi Ellerts Schram beið í nokkrar vikur hjá blaðinu og birting virtist ekki á döfinni. Að lokum þraut mig þolinmæði og ég birti greinina hér á síðunni - en viti menn, daginn eftir birtist greinin í blaði allra landsmanna !
Er það tilviljun eða hvað ?
Ég get nú eiginlega ekki fallist á þá útfærslu að þegar grein birtist í blaðinu 11. mars, sé tilhlýðilegt að geyma skjótsent svar við henni til 6. maí !
Þá eru sennilega flestir búnir að gleyma fyrri greininni og vita ekkert hverju er verið að svara þegar svargreinin loksins kemur. Þetta eiga nú vanir blaðamenn að vita og ef verið er að opna umræðu í blaði með greinaskrifum, gengur ekki að láta fleiri vikur líða milli svara.
Það er engin umræða í gangi sem hægt er að henda reiður á þegar þannig er staðið að málum. En kannski er það einmitt meiningin, í sumum tilfellum, að drepa umræðunni á dreif og lágmarka áhrif hennar.
Ég get ekki að því gert að mér geðjast ekki vel að fjölmiðlum, eins og þeir virðast oft setja upp málin í dag og hafa kannski alltaf gert í og með. Það er allt of mikið gert af því að velta sér upp úr málum þar sem mannseðlið kemst á lægsta stig. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að fjalla um það sem gerist en það er hægt að gera það með ýmsum hætti.
Margítrekuð umfjöllun og endurtekningar um mannlega harmleiki er meira en fréttaflutningur. Þá er verið að gera sér mat úr viðbjóði sem söluvöru og það er engum til góðs þegar á allt er litið.
Fjölmiðlamenn tala gjarnan um að þeir þjóni upplýsingaskyldu við almenning, en oft virðist sem þeir séu öllu heldur að þröngva ýmsum sjónarmiðum upp á almenning - þá er eins og búið sé að heilaþvo alla á fjölmiðlinum með einhverri fyrirskipaðri rétthugsun og önnur sjónarmið varðandi viðkomandi mál eru þá ekki viðurkennd á nokkurn hátt.
Þegar Júgóslavíustríðið stóð yfir var t.d. fréttaflutningur nánast yfir línuna á móti Serbum, fréttirnar komu frá vesturevrópskum fréttastöðvum eða frá Zagreb, Sarajevo eða Pristina - yfirleitt aldrei frá Belgrad. Málstaður Serba kom hvergi fram og það var eins og svo væri litið á að hann væri ekki til.
Mér er kunnugt um að Serbi búsettur hérlendis, fór á þessum tíma með ýmis málsgögn á tiltekinn fjölmiðil til þekkts fréttamanns og bað hann að skoða þau og rannsaka. Fréttamaðurinn vildi það ekki og sagði fruntalega að það væri regla á sinni fréttastofu að birta ekki neitt sem kæmi frá Serbum !
Þjóðfélagshópar á Balkanskaga stóðu í deilum og stríði og einn aðili var brennimerktur sekur. En hver skyldi nú hafa verið munurinn á Milosevic og Tudjman ?
Hvað segir nýútkomin bók Cörlu Del Pontes " The Hunt " um Albani í Kosovo og leiðtoga þeirra Hachim Thaci ? Menn ættu kannski að kynna sér út frá þeim upplýsingum hverskonar maður albanski forsætisráðherrann í Kosovo er, - maðurinn sem Vesturveldin gerðu þar að leiðtoga ?
Hann er sagður hafa auðgast stórkostlega á því að flytja unga Serba nauðuga frá Kosovo í hundraðatali yfir til Albaníu og hirða úr þeim líffæri til sölu. Hvað varð um fórnarlömbin, af hverju mátti ekki rannsaka málið ?
Pólitísk rétthugsun stóð í vegi - aðeins einn var sekur samkvæmt henni.
Tilraun Serba til þjóðernishreinsunar í Kosovo var því úthrópuð sem glæpur um allar jarðir en þjóðernishreinsanir Króata í Krajina voru varla nefndar á nafn.
Þó liggur fyrir að á bilinu 200 til 300 þúsund Serbar voru reknir frá Krajina af króatíska hernum og Tudjman fékk óáreittur að gera það sem Milosevic mátti alls ekki gera. Í dag er Milosevic talinn glæpamaður en Tudjman þjóðhetja !
Upplýsingaskylda við almenning, byggð á sannleika, er þannig ekki alltaf uppi á borðinu í fjölmiðlum heldur iðulega einhver forræðishyggja hjá fréttamönnum varðandi það hvernig eigi að mata almenning.
Þegar menn eru orðnir haldnir af einhverju rétthugsunar-prógrammi í fréttaflutningi og upplifa sig í einskonar áróðursþjónustu fyrir slíkt, er líklegt að sannleikurinn verði þar fljótlega gerður útrækur og aðeins sé tekið við því sem styður ríkjandi rétthugsun. Þá er ekki verið að upplýsa almenning heldur afvegaleiða hann.
Ég velti þessum pælingum upp til að minna fólk á það að það má aldrei líta svo á að fréttir einstaks fjölmiðils séu endilega það rétta í málinu. Það eiga einhverjir fjölmiðlana, áhrif einhverra eru ríkjandi og áróður er fastur liður í þessu öllu saman. Menn eru að gera út á þessu sviði til að hafa áhrif og hagnast með einhverjum hætti. Hagræðing staðreynda er því oft stór þáttur í fréttafóðrinu sem lagt er fyrir almenning og allt of margir gína þar við beitunni.
Það þarf að vega og meta allt, afla sér upplýsinga frá fleiri aðilum og kynna sér málin á eigin spýtur áður en farið er að tjá sig of mikið með niðurstöður. Í þeirri sannleiksleit getur netið orðið að gagni með ýmsum hætti.
Mín kynni af fjölmiðlum hafa kennt mér að taka yfirleitt engu sem öruggu efni og vera tortrygginn á hlutina. Fjölmiðlamenn þurfa, að mínu mati, að taka sig verulega á í afstöðu sinni til þess grundvallarþáttar sem búa á í starfi þeirra - að upplýsa almenning um það sem er að gerast í veröldinni.
Þar þarf sannleikurinn ávallt að vera í öndvegi ef menn á annað borð vilja vera heilir í því að sinna þar skyldu sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.5.2008 kl. 17:55 | Slóð | Facebook
5.5.2008 | 22:44
Formálsorð.
Fyrir nokkru sendi ég eftirfarandi grein til Mbl. sem var andsvar við bréfi sem þar birtist undir nafni Ellerts B. Schram. Taldi ég efni þessa opna bréfs koma öllum Íslendingum við þótt stílað væri það sérstaklega til Sjálfstæðismanna.
Nú hefur maður heyrt að Mbl. setti greinar sem væru svargreinar oft í forgang með birtingu, en því var ekki að heilsa með þessa grein mína. Hún var bara ekki birt.
Ég veit ekki til þess að greinin innifeli neitt sem saknæmt er nema þá hugsanlega óþægilegar pólitískar umsagnir. Ég ætla því að birta hana hér á síðunni svo þeir sem heyra vilja geti lesið hana og velt því fyrir sér hversvegna hún fékk ekki birtingu í " blaði allra landsmanna " ?
Hinn óþjóðlegi kratakór
Margt er maður búinn að heyra frá skammsýnum pólitíkusum og fjárþurfandi viðskiptalífsfulltrúum um nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið.
Það gengur stöðugt þessi síbylja um að við getum ekki staðið á eigin fótum og það eina vitlega í stöðunni sé að íslenska þjóðin gerist próventulýður hjá hinu stórkostlega Brussellkompaníi !
Þeir sem hæst hafa galað í þessum efnum, eiga það yfirleitt sammerkt að vera áhangendur Samfylkingarinnar eða nálægt hennar áhrifasviði. Það er því ekkert nýtt að heyra í slíkum " sendiherrum " og oftast lætur maður óþjóðlegt málæði þeirra eins og vind um eyrun þjóta.
Samt er það hvimleitt að heyra fólk af eigin þjóð tala um sjálfstæði landsins sem einhverja skiptimynt, heyra hvernig gjaldmiðill landsins er rakkaður niður af þessu krataliði samhliða því að evran er lofsungin sí og æ. Það er hamast við það að níða niður þjóðrækin sjónarmið og forusta Samfylkingarinnar virðist óðfús vilja senda fullveldisrétt okkar til Brussell, í þeirri trú að þar sé hagsmunum okkar betur borgið en í höndum íslenskrar stjórnmálaforustu.
Ekki hafa menn þar á bæ mikla trú á eigin hæfileikum eða annarra í íslenska stjórnkerfinu, þegar vilji til slíks valdaafsals liggur fyrir. Ekki er þjóðlegheitunum fyrir að fara í þeim áróðri sem rekinn er af evrusinnum og öðrum fylgjendum erlendrar yfirtöku í sjálfstæðismálum þessa lands.
Kannski er helsti draumur slíkra ráðamanna að fá að vera ábyrgðarlausar undirtyllur á háu kaupi í gervistjórn undir yfirþjóðlegu valdi.
Margt er meira en lítið skrítið í þeim kýrhaus sem kratar þessa lands hafa verið að setja upp í þessum málum og virðist manni oft sem þeim sé ekki sjálfrátt.
Þann 11. mars sl. birtist t.d. í Mbl. sendibréf til sjálfstæðismanna, ritað af Ellert B. Schram, fyrrverandi sjálfstæðismanni og núverandi Samfylkingarþingmanni. Þetta bréf er undarleg ritsmíð og það er eins og ritarinn sé í handalögmálum við eigin samvisku í því sem þar er sett fram. Hann talar um að stutt sé milli hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu og jafnaðarmennskunnar og gæti þar verið að afsaka hringl sitt á milli flokka. Hann talar um tvo frjálslynda og praktíska flokka í einni sæng í ríkisstjórn. Með orðinu praktískur virðist hann meina að málamiðlun megi gera í öllum hlutum. Hann segist líka ætla að láta mannréttindabrotin í kvótakerfinu liggja milli hluta vegna þess að ríkisstjórnin þurfi að sitja sem fastast, en hann verði hinsvegar að benda á útgönguleið fjármálalífsins inn í ESB. Sem sagt mannréttindabrot á Íslandi verða veigalítil í augum mannsins miðað við krossferðarhugsjónina miklu - að koma þjóðinni undir miðstjórnarveldið í Brussell !
Jafnframt talar ritari um að við hættum að hafa vit fyrir öðrum og meinar sennilega að við eigum að fara að láta aðra hafa vit fyrir okkur.
"Leyfum þjóðinni að ráða, " segir hann svo, " erum við ekki öll að beita okkur fyrir auknu frelsi ? " Heitir það nú að beita sér fyrir auknu frelsi að reyna að koma þjóðinni undir erlent vald ?
Ellert segir að aðildin að ESB færi okkur nýjan, stöðugan gjaldmiðil, frjálsan aðgang að stærri markaði, ódýrari neysluvörur og aðgang að ákvarðanatöku.....! Heyr á endemi !
Hver getur tryggt að evran verði stöðugur gjaldmiðill til lengri tíma litið, hver getur tryggt að aðgangur að stærri markaði sé frjáls og verði frjáls, hver tryggir lágt verð á neysluvörum til framtíðar, hver segir að aðgangur okkar að ákvarðanatöku innan ESB skipti máli, þar sem við verðum núll og nix ?
Þingmaðurinn talar eins og hann sé endurómur af mági sínum, segir að við verðum laus úr ánauð ónýts gjaldmiðils með inngöngu í ESB og svo lýkur hann þessu endemisbréfi með því að ákalla sjálfstæðismenn eftirfarandi : " ESB er í anda ykkar hugsjóna, samtök um frið og öryggi, frjálsan markað og heiðarlega samkeppni !" Þvílíkt bull !
ESB er bandalag um hagsmuni en ekki hugsjónir. Trygging fyrir friði og öryggi er síst meiri þar en annarsstaðar. Frjáls markaður og heiðarleg samkeppni eru þar fyrir utan hugtök sem eru notuð með mjög misvísandi og villandi hætti í veruleikanum.
Sjálfstæðismenn kalla sig svo vegna þess að þeir hafa viljað sýna sig sem verjendur fyrir það sjálfstæði sem við misstum 1262 og aldir tók að endurheimta. Ef þeir bregðast í því hlutverki og taka að sér að beina þjóðinni inn í Brussell-dilkinn, munu margir sannfærast um að þeir standi ekki undir nafni.
Hitt er jafnljóst að Ellert B. Schram er nú orðinn alskveraður krati og hættur að vera sjálfstæðismaður. Það sést m. a. á því að hann telur sýnilega enga ástæðu til að verja það sem verja ber.
Þó að mér hafi löngum verið lítið um íhaldið gefið, tel ég að breytingin sem orðið hefur á Ellert B. Schram sé ekki til batnaðar, hvorki fyrir hann sjálfan né þjóðina sem hann á að starfa fyrir sem þingmaður.
Ég teldi því fara best á því, fyrir hann sjálfan og okkur öll, að hann skrifaði ekki fleiri svona bréf í Brussell-stíl til sjálfstæðismanna eða annarra, því það virkar á mann svipað og útfararskrá gjaldþrota hugsunar hjá manni sem eitt sinn virtist þó vera maður.
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 52
- Sl. viku: 571
- Frá upphafi: 365469
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 487
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)