Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014
29.1.2014 | 21:06
Pólitísk ákvörðun !
Á sínum tíma var tekin sú pólitíska ákvörðun af íslenskum ráðamönnum að taka upp verðtryggingu með þeim hætti sem gert var og þýddi að skuldunautar einir ættu að bera alla áhættu en hin efnahagslegu máttarvöld ættu og mættu alltaf vera fullkomlega ábyrgðarlaus !
Það virðist hafa verið samdóma álit þeirra hagsmunaaðila sem að því mikla ranglætismáli komu, að þetta yrði að gera til þess að lánardrottnar, það er að segja, burgeisar og bankavald, gætu sloppið við allt hugsanlegt tap sem fylgt gæti viðvarandi fjármála-ómennsku þeirra. Öllum mistökum þeirra og afglöpum skyldi hellt yfir almenning í formi þeirrar sítifandi vítisvélar sem verðtryggingin varð fyrir venjulegt fólk í þessu velferðarspillandi sérhagsmuna þjóðfélagi sem hér hefur ríkt og ríkir enn. Síðan hefur almenningur í þessu landi borgað slíkar upphæðir út á þetta morðkerfi að það gæti enginn lifandi maður reiknað út þau glæpagjöld !
En nýlega komust menn til valda sem lofuðu að losa þennan klafa af fólki og skapa hér einhvern vísi að eðlilegu fjármála-umhverfi. Og þessi nýju stjórnvöld, kosin til réttlætisverka, byrjuðu sitt umbótastarf í þá veru með því að setja á fót nefnd til að athuga verðtrygginguna og í nefndina voru náttúrulega settir dæmigerðir fulltrúar þeirra afla og sjónarmiða sem vilja viðhalda verðtryggingunni vegna ýmissa sérhagsmuna. Niðurstaðan gat því tæplega orðið önnur en hún varð. Sá eini sem í nefndinni sat - af öðru tagi - skilaði auðvitað sértillögu !
Það er nefnilega svo eins og fyrr segir, að þessi fjárhagsverndarpólitík þjónar hagsmunum sumra en níðist á öðrum. Það hefur í raun og veru alltaf legið fyrir. Það þurfti pólitíska ákvörðun á sínum tíma til að koma þessari sérpöntuðu verðtryggingu á og það þarf pólitíska ákvörðun í dag til að leggja hana niður !
Það er bara blekkingarleikur hjá stjórnvöldum að setja það sem ég kalla falska nefnd á koppinn til að athuga þessi mál. Reynslan af verðtryggingunni fyrir allan almenning er himinhrópandi dæmi um langtíma ranglæti. Ætlar ríkisstjórnin bara að láta leiðréttingu á því máli velkjast í ónýtri nefndavinnu og daga þar uppi ?
Ef þjóðfélagið getur ekki viðhaldist nema fyrir ranglæti eins og verðtrygginguna, þá á þjóðfélagið ekki rétt á því að lifa eins og það er. Þá hefur það ekki verðleika til þess. Martin Luther King jr. sagði í sinni frægu ræðu Ég á mér draum", Maður sem ekki er reiðubúinn að fórna lífi sínu fyrir góðan málstað á ekki skilið að lifa !" Þjóðfélag sem á, að því er virðist, að þrífast á ranglæti og vondum málstað, fær ekki staðist til lengdar og á heldur ekki skilið að lifa. Íslenskt þjóðfélag á ekki og má ekki lifa með þeim hætti. Ef við höfum engar hugsjónir um réttlæti og ærleg gildi að leiðarljósi, til hvers lifum við þá ?
Við lifum þá bara öðrum til skaða og okkur sjálfum til seinni tíma falls. Það er ómanneskjulegt að snúa blindu auga að viðvarandi ranglæti og þjóna því, hvort heldur sem það er gert með þegjandi samþykki eða opnum kjafti. Og þeir eru löngu orðnir allt of margir í þessu landi sem virðast telja sig helst og mest eiga samleið með viðvarandi ranglætishlutum nú á dögum !
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi félagi í Bandalagi jafnaðarmanna, sagði í útvarpi fyrir skömmu: Hvaða væll er þetta alltaf, við höfum það gott !" Ég hef engar efasemdir um það að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi það gott, en það eru ekki allir í hennar núverandi sporum, enda orðið býsna langt síðan hún var í Bandalagi jafnaðarmanna. Ég fæ ekki séð að framkominn hugsunarháttur hennar í seinni tíð beri þess nokkur merki að hann sé Vilmundarvænn sem slíkur !
Staðreyndin er sú að fjöldi fólks hefur það skítt í þessu landi og það er ekki hvað síst hinu langa og leiða mismununar-valdaskeiði núverandi flokks Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að kenna. Svo kemur þessi fyrrverandi jafnaðarmanneskja og talar um væl í fólki og að það hafi það bara gott ! Mér virðist liggja ljóst fyrir að það sé eitthvað athugavert við sómatilfinningu fólks í hennar stöðu þegar það talar svona. Ég ætla því að leyfa mér að hafa skömm á manneskjunni fyrir vikið !
Sérhagsmuna verðtryggingin er bölvun fyrir íslenska þjóð og verður að víkja. Hún hefði aldrei átt að viðgangast og hún og kvótakerfið hafa eyðilagt meira af þjóðlegum manngæðum í þessu landi en flest annað. Þeir sem græða á ófarnaði annarra lifa á blóðpeningum. Ef stjórnvöld standa ekki við loforð sín um að afnema ranglætiskerfi núgildandi verðtryggingar og taka af alvöru og festu á skuldavanda heimilanna, verður ekki friðvænlegt ástand í landinu á komandi misserum. Svikulir stjórnmálamenn eru það sem við þurfum síst á að halda, en því miður er framboðið í þeim efnum mikið og virðist stöðugt aukast þó eftirspurnin sé engin !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook
25.1.2014 | 10:53
,,Alfrelsiskirkjan og séra Kjarni árið 2038'' !
Séra Kjarni Hallsson sat í rúmgóðri skrifstofu sinni í Alfrelsiskirkjunni í Reykjavík og velti fyrir sér tilteknu þjónustumáli. Reyndar hét hann nú ekki Kjarni heldur Kjartan, en vegna þess að það var háttur hans að segja í ræðum sínum oft og iðulega og það er kjarni málsins", var snemma farið að kalla hann Kjarna og það var löngu orðið mörgum fast í munni og reyndar þótti honum sjálfum þetta nafn hreint ekki sem verst. En þarna var hann á þessum fallega degi, 19. júní árið 2038, að hugsa um giftingu sem hann þurfti að inna af höndum þennan sama dag, því kona í söfnuði hans vildi að hann sæi um að gifta hana og kisuna hennar !
Það hafði verið og var eitt helsta atriðið í stefnu Alfrelsiskirkjunnar, allt frá stofnun hennar tíu árum áður, að gifting tveggja lifandi einstaklinga væri fullkomlega eðlilegur gjörningur ef nógu mikill kærleikur væri til staðar milli þeirra. Hjónaband sem slíkt væri bara staðfestur elskusambands-sáttmáli milli tveggja einstaklinga sem bæru innilega ást til hvors annars. Það kæmi ekkert kyni við eða hver í hlut ætti !
Og frá því að Alfrelsiskirkjan hafði komið fram með þessa boðun sína, hafði orðið mikil breyting í siðamálum alls samfélagsins, sem fyrst og fremst hafði sýnt og sannað að kærleikurinn væri í reynd svo víðtækur að áhrifum yfir heildina að hann væri nánast alls staðar fyrir hendi. Séra Kjarni hafði sannfærst um það af eigin raun og var hann þó sannfærður fyrir !
Hann hafði fyrst í stað gift fjölda karla annarsvegar og svo konur hinsvegar, fólk sem elskaði hvort annað svo takmarkalaust að það vildi bara fá að lifa lífinu saman í friði, óháð boðum og bönnum sem höfðu verið svo ríkjandi í gamla, ófrjálsa tímanum. Séra Kjarna hryllti við þegar hann hugsaði um grimmdina og miskunnarleysið sem þá hafði verið í ráðandi stöðu og staðið kærleikanum svo svakalega fyrir þrifum ! Siðleysið á þeim tímum hafði sannarlega verið ótrúlega yfirgengilegt !
Sem betur fer", hugsaði hann með sér, eru nú komnir aðrir og betri tímar" ! En hann gerði sér líka fulla grein fyrir því að starf hans var alltaf að verða umfangsmeira og annasamara vegna þeirra breytinga sem höfðu orðið í þessum efnum hin síðari ár og hann vildi meina að væru til komnar sökum örrar framþróunar mannfélagsins. Hann hafði þegar tekið sér tvo aðstoðarpresta og í allt voru launaðir starfsmenn Alfrelsiskirkjunnar orðnir nokkuð á þriðja tuginn !
Í seinni tíð hafði hann, vegna hinnar öru þróunar, brugðist vel við mun fjölbreyttari óskum margra varðandi giftingarmál, því frelsiskrafa kærleikans í þeim efnum varð stöðugt víðtækari. Margt fólk vildi núorðið giftast gæludýrunum sínum, en þar var víða óhemju mikill kærleikur til staðar milli aðila og allar forsendur því fyrir hendi, samkvæmt reglum Alfrelsiskirkjunnar. Hann hafði nýlega afgreitt hestamann einn sem hafði krafist þess að fá að giftast uppáhaldsgæðingnum sínum, því honum þætti svo vænt um hann. Það hafði óneitanlega verið mjög flott umgjörð um þá giftingu. Hestamaðurinn hafði komið flengríðandi til athafnarinnar á sínum verðandi maka og farið síðan eftir athöfnina á harðastökki niður götuna, hress og glaður. Það hafði verið sjón að sjá og mikill stíll yfir manninum og folanum. Séra Kjarni minntist þess varla að hafa gefið saman öllu glæsilegri hjón !
Svo hafði gömul ekkja í blokkaríbúð vestur í bæ eindregið viljað fá að giftast páfagauknum sínum. Hún hafði sagt séra Kjarna eða öllu heldur hvíslað því að honum, að hún hefði verið svo lengi einmana eftir að hún hefði orðið ekkja, og páfagaukurinn hennar, blessað yndið hennar - hann Ljómi, hefði verið eini félagsskapurinn sem hún hefði haft og hún elskaði hann svo mikið að hún sæi það núna, að hún hefði ekki elskað Jón sáluga hálft eins mikið, og þar átti hún við fyrri makann. Og séra Kjarni hafði skilið þetta allt ósköp vel og auðvitað gefið þau saman, ekkjuna og páfagaukinn hennar, alveg eins og hestamanninn og folann hans. Það var allt sjálfsagt skyldumál og fúslega framkvæmt í þágu kærleikans og í anda hinnar sívökulu mannréttindavaktar hinnar mjög svo vinsælu Alfrelsiskirkju !
En nú lágu ein þrjú mál af þessu tagi fyrir á borði hans og biðu eftir afgreiðslu af hans hendi. Fyrst var það mál áðurnefndrar konu sem vildi giftast kisunni sinni, svo vildi gamall einsetukarl fá að giftast tíkinni sinni sem hann sagðist elska út af lífinu, og miðaldra kennslukona vildi sömuleiðis fá að giftast sínum heittelskaða hamstri. Séra Kjarni varð að kortleggja þessi mál mjög vandlega í huganum þar sem breytileiki paranna bauð auðvitað upp á mismunandi efnisáherslur í giftingartextanum.
Hann stimplaði pappírana svo með útflúruðum frelsisstimpli kirkjunnar, sem þýddi að viðkomandi giftingar væru heimilaðar svo framarlega sem áður væru staðin skil á því gjaldi sem stjórn Alfrelsiskirkjunnar hafði samþykkt að væri sanngjörn greiðsla fyrir þjónustuna. Sumir höfðu haft á orði að greiðslan væri nokkuð há, en séra Kjarni hafði bent þeim hinum sömu á það nokkuð hvatskeytilega, að einhverju ætti nú að vera fórnandi fyrir staðfestingu á yndislegu kærleikssambandi. Og þá hættu menn yfirleitt að nöldra.
Þarna á skrifstofunni sinni hallaði séra Kjarni sér aftur á bak í notalegum leðurstólnum í hálfgerðri sæluvímu. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka og hugsaði með sér af stakri vellíðan, hvað það væri nú ljúft og gott hlutskipti að fá að þjónusta fólk í samfélagi sem hefði sannarlega af víðtækum kærleika að státa - og þar fyrir utan - þurfti hann svo sem ekki að kvarta yfir sínum launakjörum !
(- Er það þetta sem koma skal ? )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook
22.1.2014 | 19:21
,,Velferð" íslensku þjóðarinnar ?
Það er mikið talað um velferð í þessu landi og ekki síst af ráðamönnum, og þá einkum í þá veru að verja þurfi velferðarkerfið !
En af hverju er alltaf vísað til þess að við þurfum að verja fenginn ávinning, af hverju er ekki talað um að bæta við hann, auka velferð og fylgja þar góðum samfélagsgildum ? Gegn hverju eða hverjum þarf að verja fengin lífsgæði, þessa umtöluðu velferð okkar, hvað eða hver ræðst svona rosalega gegn henni, að hún er, að sögn, alltaf í nauðvörn, hver er ógnvaldurinn, já, vel að merkja,hver skyldi hann vera ?
Og hvert skyldi nú raunverulegt velferðarstig íslensks samfélags vera þegar allt kemur til alls ? Gætum við nálgast eitthvað svarið við því með því að spyrja eftirfarandi spurninga og svara þeim jafnframt eins og beinast liggur við ?
1. Höfum við í einlægni gengið veginn til góðs í samfélagslegum skilningi ? NEI !
2. Höfum við verið samvirk í því að byggja hér upp þjóðfélag á forsendum heildarhagsmuna og jafnréttis ? Nei !
3. Höfum við hlynnt að eðlilegum og uppbyggilegum mannréttindum og heilbrigðum, siðferðilegum gildum ? Nei !
4. Hafa auðlindir landsins verið nýttar af skynsemi í þágu þjóðarinnar ? Nei !
5. Hefur tekist að þróa borgarvæðingu Stór-Reykjavíkursvæðisins með manneskjulegum og þjóðhagslegum hætti ? Nei !
6. Hefur félagsleg samkennd þjóðfélagsþegnanna aukist að gildi með árunum og styrkt þannig innviði samfélagsins ? Nei !
7. Hefur forusta þjóðfélagsins verið í góðum og traustum höndum síðustu áratugina ? Nei !
8. Hefur Verkalýðshreyfingu, Samvinnuhreyfingu og Ungmennafélagshreyfingu aukist heilbrigður kraftur í þjóðhagslegum skilningi á undanförnum árum ? Nei !
9. Hefur Alþingi og æðsta yfirstjórn lýðveldisins vaxið að trausti á síðustu árum fyrir hagstjórn sína og þjóðvarnarlegt hlutverk ? Nei !
10. Erum við Íslendingar sameinaðri sem þjóð til hugar og hjarta, eðlis og anda, en við vorum við fullveldissigurinn 1918 eða lýðveldisáfangann 1944 ? Nei !
Hvað stendur þá eftir ? Það væri fróðlegt að fá svar við því, þegar hinar ýmsu málpípur óbreytts kerfis hætta að þrástagast á áróðurstali sínu um að verja velferð, sem í mörgum tilfellum hefur aldrei verið til og í öðrum tilvikum er hætt að vera til, og fara að horfast í augu við veruleika sem er mun nöturlegri en menn hafa viljað viðurkenna !
Almennt launafólk sem kemst á eftirlaunaaldur er oftar en ekki svo slitið og farið af vinnuþrældómi að lítið er orðið eftir af því, heilsan búin og harmkvælin ein eftir, enda oftast stutt í endalokin. Velferðin" á Íslandi krefst þess nefnilega af slíku fólki að það vinni myrkranna á milli ef það á að geta veitt sér eitthvað ! Og fjármunum lands og þjóðar er yfirleitt veitt í allt annað frekar en fólkvæna farvegi, því sérgæskan ræður nánast allri úthlutun í þeim efnum hérlendis !
En það má spyrja margra spurninga um þjóðhagsleg atriði þó býsna erfitt sé löngum að fá ábyrg svör ráðamanna, þar sem hver vísar yfirleitt á annan.
Hvað kostaði til dæmis Kárahnjúkavirkjun ? Stendur hún undir sér eða erum við enn að borga með henni og þá hvað mikið ? Af hverju var ráðist í svona stóra virkjun, var ekki miklu skynsamlegra að virkja í smærri einingum og lágmarka þannig alla áhættu ?
Hver er heildarkostnaðurinn orðinn við Landeyjahöfn ? Verður hún nokkurntíma annað en óþolandi byrði á þjóðinni ? Þar sem staðsetning hennar virðist hafa verið ákveðin einmitt þar sem mestur sandurinn berst að landi, vegna öldusveigjunnar um Vestmannaeyjar, má spyrja, verður þetta ekki bara endalaus sandmokstur á kostnað þjóðarinnar? Kannski ætti mannvirkið heldur að heita Landeyðuhöfn ?
Hvað lengi á virkjanastefna ríkiskerfisins að byggja á því að raforkan okkar" sé borguð niður í útlenda auðhringi en sé okkur landsins börnum dýr og spillt sé með þeim hætti fyrir þjóðhagslegum neytenda-ávinningi ?
Hvað lengi á auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin okkar, landhelgin okkar, að vera föst í klóm sérhagsmunaklíku sem er eitt ógeðslegasta fyrirbærið í allri okkar sögu ?
Hvað lengi á að halda raunverulegum möguleikum til raunverulegrar velferðar í þessu landi - frá þjóðinni ?
Velferð í landi þar sem allt hækkar nema laun lágtekjufólks, velferð í landi þar sem bankar og fjármagnsfyrirtæki fara sínu fram og búa bara við sýndareftirlit, velferð þar sem valdstjórnin hefur enga framtíðarsýn fyrir þjóðarheildina, velferð þar sem þeir stóru panta sérlausnir fyrir sinn hag frá ráðamönnum, velferð þar sem stöðugt er níðst á almenningi, hverskonar velferð er það ?
Ef velferð væri raunverulega fyrir hendi í landinu myndi þjóðin öll finna fyrir henni og ávöxtum hennar, en svokölluð velferð Íslands er að mestu í raun bara velferð hinna fáu sem - í boði stjórnvalda - hafa hingað til lifað kóngalífi á kostnað lands og þjóðar !
Ekkert þjóðríki í heiminum getur talist velferðarríki nema almenn velferð sé til staðar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook
18.1.2014 | 11:02
Brotið á innflytjanda - brotið á útlendingi - brotið á Íslendingi ?
Við þekkjum vafalaust flest til einhverra dæma um það hvað sumir aðilar eru fljótir til að verja innflytjendur eða fólk utan úr heimi sem er hér á ferð, ef eitthvað kemur upp á í samskiptum þeirra við yfirvöld hérlendis eða aðra aðila !
En það er brotið á fleirum en slíkum í þessu landi og sú rangsleitni hefur miklu lengur verið viðvarandi meinsemd hér og valdið mörgum samfélagslegum brotlendingum sem seint verða bættar og þá á ég við það þegar brotaþolarnir eru alíslenskir þjóðfélagsþegnar !
Því svo undarlega bregður við, að hið sjálfskipaða varnarlið, sem hrekkur jafnan í gang þegar innflytjendur eða útlendingar á ferð eiga í hlut, hefur að því er virðist enga sérstaka hneigð til að bregða skildi fyrir samlanda sína sem lenda í hliðstæðum vanda. Það virðist sem það þyki ekkert spennandi að taka upp hanskann fyrir þjóðsystkini sem eiga í glímu við kerfið ! Og stundum þegar fólk sem er borið og barnfætt hérlendis, verður alvarlega veikt og getur ekki sinnt vinnu, er jafnvel sagt að vandinn stafi bara af aumingjaskap !
Ég þekki dæmi af einum stað í landinu þar sem maður einn á besta aldri þurfti að glíma við krabbamein. Hann gat ekki stundað vinnu þegar fram í sótti og fann það sér þá helst til fróunar að aka um götur og horfa á mannlífið. Góðhjartaðir samborgarar hófu svo einhverja fjársöfnun honum og fjölskyldu hans til hjálpar. Þá heyrðist mörg undarleg viðbáran hjá þeim sem höfðu að öllum líkindum mjög takmarkaðan áhuga fyrir því að leggja sitt framlag til þeirrar hjálparviðleitni !
Hann er nú varla illa staddur, fyrst hann getur verið á fartinni alla daga", heyrðist til dæmis hjá einum. Mér var sagt að kona ein sem stóð ásamt fleirum að þessari söfnun, hefði orðið ókvæða við er hún heyrði þetta og sagt : Ef þær krónur sem ég set í þetta, geta hjálpað honum til að aka eitthvað um og dreifa huganum frá sjúkdómsþraut og kvöl, tel ég þeim vel varið !"
Svo kom að því að maðurinn dó og sannaði þar með að hann hafði í raun og veru verið lífshættulega veikur. En það er oft langt í iðrun hjá sumum og það mátti líka heyra sömu undarlegu viðhorfin hér og þar eftir að maðurinn var dáinn, svo kannski eru þeir einhverjir til sem halda enn í dag að viðkomandi maður hafi bara dáið af aumingjaskap ! En þessi maður dó ekki af neinum aumingjaskap, hann barðist fyrir lífi sínu til hinsta dags og sýndi þar aðdáunarverða þrautseigju og kjark. Mér var sú barátta kunn og hún er mér enn í fersku minni þó nokkuð langt sé um liðið.
Og það er að mínu áliti engu samfélagi til sæmdar að menn þurfi að deyja, þurfi að greiða slíkt gjald til þess eins að fá að njóta sannmælis ! En það virðist stundum erfiðara fyrir Íslendinga að njóta sannmælis í sínu eigin landi og innflytjendur og umfarandi útlendingar virðast miklu frekar fá sitt stuðningslið hér þegar eitthvað bjátar á !
Ég spyr - er það eðlilegt ? Er einhver jón í götunni okkar - sem þarf á samhjálp að halda vegna veikinda eða annarra erfiðleika - okkur virkilega fjarlægari í slíkum tilfellum, en innflytjandi eða útlendingur á ferðastjái ?
Getum við ekki brugðist við til hjálpar nema við sjáum einhverja leið til þess samtímis að lyfta sjálfinu og auglýsa víðsýni okkar og fordómaleysi ?
Er náungakærleikurinn ef til vill alltaf eða oftastnær bundinn einhverjum skilyrðum af okkar hálfu og byggist hann kannski frekar á ytri auglýsingaatriðum en raunverulegum innri kenndum samúðar og líknarvilja ?
Er kannski litið á það sem stórmál í þessu landi ef brotið er í einhverju á innflytjanda, meðalmál ef brotið er á útlendingi og smámál ef brotið er á Íslendingi - stundum gæti maður hreinlega haldið það ?
Og í framhaldi af því mætti spyrja, er einhver sannur samhjálparkærleikur til staðar á stöðum þar sem það virðist - sýnilega - talið afar mismunandi "spennandi" að aðstoða þurfandi fólk ?
15.1.2014 | 17:42
,,Gylfaginningar og gervisamningar !"
Það er ekkert nýtt í íslenskri sögu, að þegar hægristjórnir eru við völd eru kauplækkunar-samningar einir í boði. Og einmitt við þær aðstæður hafa svokallaðir foringjar verkalýðsins stundum staðið með þeim hætti að samnings-málum fyrir launafólk að það hefur verið til stórskammar og skemmt flestu öðru fremur fyrir samstöðu um kaup og kjör.
En lengi virðist vera hægt að bæta skömm ofan á skömm, og sú forusta sem nú er fyrir alþýðusamtökunum, er líklegast sú aumasta sem þar hefur sést til þessa. Þetta fólk, sem hefur hagfræðinginn Gylfa Arnbjörnsson í hávegum sem sinn gúru og greiningarmálahaus, er komið óraveg frá réttum rótum, og virðist ekki einu sinni vita hvað verkalýðsbarátta er !
Þessi nánast sjálfskipaði forustuhópur er yfirleitt á háum launum og í raun og veru ekkert nema viðbótar arðráns lið gagnvart almennu verkafólki. Það er því ekki að undra þó það eigi töluverða samleið með Samtökum atvinnulífsins !
Það skuggafundar-samráð sem leiddi til þess staðfestingarálits sem nú er lagt fram fyrir fólk sem einskonar samningur um áframhaldandi samningsleysi, er talandi dæmi um þau vinnubrögð sem ástunduð eru af þessari hjartadauðu klíku sem þykist tala fyrir hagsmunum alþýðu manna í þessu landi.
Gylfaliðar eru gjörsamlega rúnir trausti meðal verkafólks og fjölmargir og stöðugt fleiri líta á þá sem handbendi allt annarra hagsmuna en þeim var ætlað að verja. Þann dag sem Gylfi Arnbjörnsson tekur saman pjönkur sínar og hverfur frá ASÍ er full ástæða fyrir verkafólk Íslands að fagna. Sá maður hefði aldrei átt að koma inn fyrir dyr hjá samtökum launafólks. Menn eins og hann og Ásmundur Stefánsson og þeirra líkar hafa aldrei reynst nein blessun fyrir verkalýðinn í þessu landi.
Samningsákvæði sem fela í sér hækkun" á launum sem er undir gangandi verðbólgu er í raun launalækkun. Þar er enn og aftur verið að leggja afleiðingar af hruni og röngum stjórnvaldsaðgerðum á bök þeirra sem síst skyldi. Og á máli hinnar tálbeittu Gylfaginningar er slíkt látið heita þjóðarsátt sem er hið argasta rangnefni. Verkafólk sem hefur djörfung til að bera, og hefur ekki verið beygt til fullnustu undir mannskemmandi kúgunarklafann, á skilyrðislaust að hafna því að vera skiptimynt í skrípaleik af þessu tagi. Þar er farið fram á algerlega ósæmilega og óásættanlega hluti !
Samningar á launamarkaði eru og eiga að vera á milli tveggja jafnrétthárra aðila. Þar á annar aðilinn ekki að yfirtaka samningsfulltrúa hins aðilans eins og virðist hafa verið gert á tiltekinni skuggafundarvöku. Hugtök á þessu sviði eiga heldur ekki að taka mið af hagsmunum annars aðilans, eins og verið hefur sem leiður arfur frá liðinni tíð. Við vinnandi menn eigum ekkert að vera kallaðir launþegar, þeir sem þiggja laun - eða látum við ekki vinnuna okkar af höndum fyrir launin, og á móti á ekkert að tala um vinnuveitendur, þá sem veita vinnu, - eða fá þeir ekkert fyrir vinnuna okkar, miklu réttara er að tala þar um atvinnurekendur !
Á atvinnumarkaði er bara um viðskipti að ræða sem felast í að sumir eru verksalar og aðrir verkkaupar. Við seljum vinnu okkar og aðrir kaupa hana. Báðir aðilar eru í þörf fyrir þessi viðskipti og hjól atvinnulífsins ganga best þegar viðskiptin geta farið fram á eðlilegum grunni þar sem gagnkvæmt traust fær að ríkja. Þannig þurfa þau auðvitað að geta átt sér stað svo þjóðfélagið njóti góðs af og friður haldist og allir fái sitt með ærlegum skilum. Eða gengur þjóðfélags-samningurinn ekki út á það að við séum sammála um að reka hér manneskjulegt samfélag ?
Þegar auðvaldsflokkar stjórna Ríkinu, virðast Samtök atvinnulífsins alveg vita hvernig þau eiga að hegða sér og hvernig þau geta hegðað sér - á kostnað vinnandi fólks ! En þegar sami talandinn er í Gylfa Arnbjörnssyni og Þorsteini Víglundssyni er engin leið fyrir verkafólkið í landinu að una því. Forseti ASÍ á ekki að vera málpípa fyrir rekstrar-sjónarmið atvinnurekenda !
Það þarf að hreinsa til hjá alþýðusamtökunum. Andlaust og lífvana forustulið, sem er löngu orðið sjálfdautt af roluskap og ræfilshætti, þarf að komast í kistu sína, og nýtt blóð þarf að fara að renna um félagslegar æðar verkalýðshreyfingarinnar !
Oft hefur verið þörf á mannsliði þar en nú er nauðsyn á. Ætlum við að láta viðvarandi innanskömm drepa þessa hreyfingu fólksins niður að fullu eða ætlum við að snúast til varnar ?
Burt með allar Gylfaginningar og gervisamninga, sem fela ekki í sér neitt annað en svik við almennan rétt verkafólks til að fá að lifa mannsæmandi lífi í þessu landi !
Fáum lifandi fólk með hjartað á réttum stað til að leiða verkalýðshreyfinguna úr helgreipum hagfræðilegrar ónáttúru inn á samfélagslegar brautir meðvitaðrar mennsku !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook
11.1.2014 | 00:12
Um háborgaralega leikfangasýki !
Það er alkunnugt hvað orður og titlar hafa mikið að segja fyrir þann hluta mannkynsins sem aðhyllist hégóma og því miður er sá hluti líklega býsna stór. Íslensk yfirvöld ákváðu á sínum tíma, eftir að fullveldið var fengið í höfn, að það þyrfti að koma til móts við þessa fordildarþörf með því að stofna til Fálkaorðunnar !
Sú staða var nefnilega komin upp, að þeir sem höfðu hlotið dönsk heiðursmerki fram að þeim tíma og voru enn á lífi, sátu uppi með medalíur, sem voru svona síðustu 20 árin fyrir fullveldi frekar taldar þeim til gildislækkunar en hitt !
Það varð því að finna upp nýja framköllunarleið til metnaðarsvölunar orðusoltinna embættismanna og annarra sem helst hafa þjáðst af þessari borgaralegu sýki hérlendis og Fálkaorðan var svarið. Í þeim gjörningi var komið fótunum undir riddarastétt hins nýja tíma og í opinberum veislum eftir það gátu embættismenn því gengið um orðum skreyttir og háleitir með þanin brjóst, sem ekki voru lengur þakin Dannebrogsorðum heldur alíslenskum heiðursmerkjum, sem voru auðvitað talin til gildishækkunar í alla staði og að sjálfsögðu veitt sem viðurkenning á þjóðlegum forsendum !
Svo við nýjar og breyttar þjóðfélagsaðstæður fengu sem sagt stéttarlegir staðgenglar þeirra sem áður höfðu fengið Dannebrog nú fínpússaða Fálkaorðu og það þótti auðvitað miklu frambærilegri viðurkenning, enda gerði hún til að byrja með mörgum tauhálsum embættismannakerfisins það kleyft að þykjast talsvert meiri menn en þeir nokkurntíma voru í raun !
Annars var nú ekki langt í Dannebrog á upphafsárum Fálkaorðunnar því það var nú Kristján X Danakóngur sem stofnaði orðuna og var fyrsti Stórmeistari hennar. En eftir lýðveldisstofnunina tók Forseti Íslands náttúrulega við því embætti ásamt þeim konunglegu skyldum sem því fylgdu.
Eiginlega vil ég hvetja hvern mann til að lesa Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu, sem tók gildi 7. janúar 2006, því mér varð hálfvegis flökurt þegar ég las það og er mér þó ekki klígjugjarnt !
Þegar farið er yfir þessi orðumál, kemur skýrt í ljós að það eru sannarlega ekki bara börnin sem vilja eignast leikföng ! Löngunin til að skreyta sig með einhverju virðist mörgum hugföst fylgja og einkum vill hún oft beinast að því að menn vilja komast yfir eitthvað sem getur virkað sem einhverskonar manngildis-viðbót - ekki síst þegar persónulegar nauðvarnaraðstæður virðast krefjast þess !
Núverandi forseti Íslands er, eftir því sem ég best veit, riddari af dönsku fílaorðunni og fílar" það eflaust í botn, enda náttúrulega í hágöfugum félagsskap þar. Hann þekkir því áreiðanlega vel gildi þess að hafa eitthvað dinglandi á brjóstinu. Það hefur líklega leitt til þess að hann hefur verið mjög duglegur við að fjölga þeim sem geta hampað Fálkaorðunni, enda er þar orðið um afskaplega fjölskrúðugan hóp að ræða.
Ég hef eiginlega oft undrast það, að orðuhandhafar skuli ekki vera búnir að stofna fyrir löngu sérstakan Riddaraklúbb hinnar íslensku Fálkaorðu. Þar mætti t.d. hafa þrjár deildir, Undirdeild þar sem almennir Fálkaorðuriddarar sætu, Yfirdeild þar sem stórriddarar Fálkaorðunnar ættu sæti og Æðstudeild þar sem stórriddarar Fálkaorðunnar með stjörnu ættu sín helgu vé !
Nú er vitað að hégómi er nokkuð sem líka getur smitað vinstrisinnað fólk. Svo það er því miður ekki bara hægri sinnað borgaraslekti sem er ginkeypt fyrir fálkaorðum og öðru slíku dinglumdangli, margt fólk sem talið hefur verið vinstrisinnað virðist ekki síður sólgið í orður og titla !
Við skulum líta aðeins á eitthvað af þessu vinstra fólki sem myndi þá eiga sæti í Undirdeild Riddara-klúbbsins. Í þeim hópi eru Arnar Jónsson, Árni Bergmann, Bjarnfríður Leósdóttir, Bubbi Morthens, Böðvar Guðmundsson, Einar Már Guðmundsson, Einar Kárason, Grétar Þorsteinsson, Helgi Seljan, Páll Bergþórsson, Skúli Alexandersson, Smári Geirsson, Svanfríður Jónasdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þorsteinn frá Hamri og Þórhildur Þorleifsdóttir..! Með þessu fólki sætu svo í undirdeildinni, svona til að nefna einhverja, Björgólfur Guðmundsson, Ellert B. Schram og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, ásamt mörgum öðrum sambærilegum aðilum af hinu háborgaralega bláa blóði !
Í Efri deild Riddaraklúbbsins, sem bókaðir stórriddarar, myndu svo eftirtaldir ætlaðir vinstri menn eiga sæti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Svavar Gestsson og Vigdís Finnbogadóttir. Með þeim sætu þar svo Björn Bjarnason, Guðni Ágústsson, Halldór Blöndal, Ingibjörg Pálmadóttir, Salome Þorkelsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir svo einhverjir séu nefndir.
Í Æðstu deild riddaraklúbbsins þar sem menn væru handhafar að stórriddarakrossi með stjörnu o.s.frv., sætu svo ýmsir þeir Íslendingar sem taldir eru hafa gert einna mest fyrir þjóðina, þar mætti tilgreina menn eins og Geir H. Haarde, Halldór Ásgrímsson, Karl Sigurbjörnsson og Ólaf G. Einarsson !
Og það rignir fálkaorðum sí og æ og allir þeir sem eru í orðunefnd eru sjálfir með riddarakrossa í bak og fyrir. Og segja má að bandarískir aðmírálar, finnskir herforingjar, danskir sænskir og norskir embættismenn, gætu gengið um í hópum með íslenska fálkaorðu. Og kirkjunnar menn virðast ekki síður sólgnir í orður en þeir veraldlegu, þó maður hafi kannski ímyndað sér í sakleysi að þeir væru að vinna starf sitt af köllun og í þágu ríkis sem væri ekki af þessum heimi.
Allt er þetta svo prumpað að það er með ólíkindum og fólkið sem dansar í kringum þetta upptrekkta sjónarspil mannvitleysunnar, er beinlínis hlægilegt þar sem það buktar sig og beygir og þiggur þessar einskisverðu viðurkenningar !
Sumir gætu náttúrulega sagt sem svo: Er þetta ekki allt í lagi, úr því að fólk gengst svona mikið fyrir þessu ?" En því er til að svara að allt er þetta gert í nafni íslensku þjóðarinnar, í nafni okkar allra. Það er verið að hengja allt þetta dótarí á embættismenn hér heima og erlendis í massavís - á ábyrgð okkar, við Íslendingar eigum að vera að heiðra allt þetta lið !
Það ergir mig óneitanlega sem Íslending, sem vill vera frjáls maður í frjálsu landi, að allt er þetta gert með þeim hætti. Öll þessi uppstillingar-árátta tildurs og hégómleika, sem er ekkert nema óskemmtilegur arfur frá gömlu konungsríkjunum í Evrópu, og virðist einkum og sér í lagi miða að því að upphefja hroka og sýndarmennsku í mannlegu fari, er tengd við okkur, venjulegt íslenskt fólk. Fálkaorðan er því alfarið í mínum huga ömurlegt dæmi um andíslenskan snobbarahátt !
Ég lít meira að segja svo á, að það sé búið að veita svo mörgum þessa orðu, að þeir hinir fáu sem hugsanlega hafa fengið hana - segjum - fyrir raunverulega verðleika, séu komnir í þá stöðu að líklega sé orðuveitingin - þegar allt kemur til alls - vanheiður fyrir þá !
Jóhannes Kjarval hafði, eins og menn vita, sína sérstöku sýn á lífið og fyrirleit alla yfirborðsmennsku og hverskyns froðuhátt framagirninnar. Siðferðilega var hann þannig stemmdur, að hann afþakkaði Fálkaorðuna á sínum tíma og taldi hana tákn fyrir nokkuð sem hann kærði sig ekkert um, og það hefðu fleiri mátt gera og einkum það fólk sem telur sig hafa barist fyrir jöfnuði manna og heilbrigðu manngildi og verið þar af leiðandi til vinstri í íslenskum stjórnmálum !
Slík orða gerir nefnilega enga manneskju meiri á nokkurn hátt og aðeins í hugsun sem sýkt er af snobbi og svokölluðu goggunarraðargildi getur svona sýndarmennska haft sín ætluðu áhrif !
Ég fyrir mitt leyti fyrirlít allt svona tildur af öllu hjarta, og vildi óska þess að við Íslendingar hefðum haft þann mannþroska í árdaga fullveldisins að hafna því að sleikja upp slíkar siðvenjur erlendis frá, þegar við töldumst orðin frjáls og fullvalda þjóð !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.1.2014 kl. 19:32 | Slóð | Facebook
8.1.2014 | 20:11
Nýársávarp óskhyggjunnar !
Í nýársávarpi sínu virtist langtímaforsetinn okkar enn sem fyrr fastur við sitt heygarðshorn, varðandi einhverskonar hugmyndafræðilegt hlutverk Íslands í heimssögunni og nú á það að tengjast norðurslóðum. Fyrst við réðum ekki við að vera fjármálamiðstöð alls heimsins eins og eitt sinn var talað, verðum við í það minnsta að geta gegnt lykilhlutverki í málum varðandi nýtingu norðurslóða !
En líklega er nú Ólafur Ragnar ekki beint að sjá Ísland í einhverju lykilhlutverki hvað þetta sem annað snertir, því hann er trúlega miklu fremur að hugsa málin út frá því að hann sjálfur sé í einhverju lykilhlutverki. Það er líklega ein mesta ógæfa Ólafs Ragnars að hafa fæðst meðal smáþjóðar, sem tæplega hefur burði til að búa við svo stóran forseta. Hann hefði vafalaust talið sér miklu betur henta að vera fulltrúi stórrar og voldugrar þjóðar, því þar hefði hann nefnilega alltaf getað verið í virkilegu lykilhlutverki !
En Ólafur Ragnar hefur orðið að búa við okkur Íslendinga og við orðið að búa við hann og stundum hefur það virst beggja böl svo ekki sé meira sagt. Í tilteknu, óútgefnu kvæði standa eftirfarandi hendingar:
Það vita svo fáir hvað litlir líða
sé leiðtoginn allt of stór !"
Og kannski má finna í þessum hendingum ákveðið kjarnaatriði í sambúð þjóðarinnar og forsetans síðustu árin !
Forseti minntist í ávarpi sínu á einhverskonar þjóðarsáttarmál, en virtist ekki vita af því að hugtakið þjóðarsátt" er orðið pólitískt villuhugtak sem gripið er til þegar ætlast er til að almenningur borgi brúsann eftir eitthvert eyðslu-ævintýri hins opinbera eða þá fyrir yfirklassann. Samningar á vinnumarkaði verða nú sennilega ein hörmulegasta útfærslan á slíkum gjörningi sem sést hefur og kjör fólks eru stöðugt skert og ekki stendur á því að allt annað hækki. Og því má bæta við að illar afleiðingar hrunsins eru hvergi nærri afstaðnar þó forsetinn haldi annað !
Svo kom fram í ávarpinu hin sérstæða túlkun forsetans á samstöðu þjóðarinnar þegar stór mál hafa verið annarsvegar. Ég undrast satt að segja sögulega sýn hans í þeim efnum, því óskhyggja virðist blandast svo mikið inn í hana að veruleikatengingin hrekkur allt að því í sundur. Og ég verð að spyrja, um hvað var landshöfðingjaelítan og fylgismenn Jóns Sigurðssonar sammála, hvenær voru Valtýingar og heimastjórnarmenn sammála, um hvað voru langsum-menn og þversum-menn sammála, um hvað voru hraðskilnaðarmenn og lögskilnaðarmenn sammála, um hvað voru hægri menn og vinstri menn sammála í landhelgismálunum o.s.frv.o.s.frv. !
Ég man heldur ekki til þess að ferill Ólafs Ragnars í pólitík hér áður fyrr hafi verið einhver ferill friðar og samstöðu ? Ekki veit ég til þess að hann hafi stuðlað að neinum sérstökum friði í Framsókn meðan hann var talinn þar til húsa, og ekki þótti hann neinn samstöðupostuli í Alþýðubandalaginu !
Um hvað er langtímaforsetinn okkar að tala þegar hann tekur svona til orða ?
Sagan sýnir og kennir, að samstaða Íslendinga hefur sjaldnast verið upp á marga fiska og forsetinn ætti að vita það mörgum öðrum fremur, maður sem var í hringiðu-suðupotti stjórnmálanna til fleiri ára og talinn þar af mörgum hreint ekki barnanna bestur við hrærigrautsgerðina !
Ég viðurkenni það hreinskilnislega að ég skil ekki hvað Ólafur Ragnar er að fara þegar hann bregður fyrir sig svona málflutningi og endursegir söguna eins og hann virðist vilja að hún hefði verið !
Við Íslendingar höfum átt marga mikla hæfileikamenn, en ekki hafa þeir allir orðið íslenskri þjóð til gæfu og gengis. Sagan mun vafalaust í hverju einstöku tilfelli - hér eftir sem hingað til - fela í sér sínar niðurstöður um slíkt þegar þar að kemur. Ég hef aldrei efast um að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið mikill hæfileikamaður, en ég hef hinsvegar verið í miklum vafa um það hver gagnsemi hans fyrir land og þjóð hefur verið og mun verða talin þegar öll kurl koma til grafar !
Eitt er að minnsta kosti alveg víst að minni hyggju, - að þjóðarsáttarleiðtogi og samstöðupostuli hefur Ólafur Ragnar Grímsson aldrei verið, enda hefur hann alla tíð verið allt of umdeildur maður til að geta talist trúverðugur sem slíkur!
4.1.2014 | 10:34
Um ,,yfirboðna valdstjórn" og almenn mannréttindi !
Sérhver maður sé yfirboðnum valdstéttum hlýðinn" stendur á vísum stað í Ritningunni, reyndar í 13. kafla Rómverjabréfsins, og umræddur ritningarstaður hefur, að minni hyggju, alla tíð verið notaður drjúgmikið af valdstjórnum gegn fólki en ekki fyrir fólk. Túlkun slíkra aðila á viðkomandi efni hefur löngum verið í hæsta máta vafasöm og oft þjónað fyrst og fremst tilgangi hins gamla kúgunarvalds konungs og kirkju, sem miðaði lengst og mest að því að halda fólki og almennum mannréttindum þess niðri !
En trúlega hefur umrætt vers fallið Rómverjum vel í geð, enda voru þeir heimsdrottnarar á þessum tímum og kröfðust hlýðni sem slíkir af öllum. Og þeir skildu áreiðanlega þennan ritningarstað með sínum hætti og túlkuðu hann sér og sínu valdi í hag. En ég skil þessa ritningargrein þannig, að þar sé átt við að menn eigi að vera löghlýðnir og standa við sitt og virða yfirvöld sem eru löghlýðin og standa við sitt. Því það eru skyldur á báða bóga !
Þegar yfirvöld hegða sér með þeim hætti að samviska manna, heiðarleiki og réttlætiskennd getur enganveginn stutt framferði þeirra, ber að andmæla þeim, því það er beinlínis andkristið athæfi að styðja það sem sýnir sig vera ranglátt og illt. Eða vilja menn styðja slík stjórnvöld fremur en fylgja samvisku sinni, sannfæringu og réttlætiskennd ?
Áttu kristnir menn í Rómaborg að vera þakklátir fyrir að vera kastað fyrir ljón og önnur villidýr vegna þess að keisarinn skipaði svo fyrir - yfirvald þess tíma ? Nei, það voru ofsóknir í gangi gegn þeim og þeir höfðu rétt til að verjast svo framarlega sem þeir gerðu það á þeim grundvelli að það bryti ekki í bága við trú þeirra og réttlætiskennd.
Ef menn eiga að una illum yfirvöldum vegna þess að þau séu samt sem áður í fullum rétti samkvæmt Guðs tilskipun, hversvegna eiga menn þá ekki að una hverskonar sjúkdómum og heilsufarsmeinum sem á þá eru lögð ? Eiga menn þá ekki bara að sætta sig við hlutina eins og þeir eru ? Nei, að sjálfsögðu leita menn sér lækningar þegar þannig stendur á, enda er það skýlaus réttur hvers manns að fá að standa vörð um líf sitt og heilsu, eftir því sem hægt er!
Í Þýskalandi komust nazistar til valda í gegnum almennar kosningar. En stjórnvald þeirra sýndi sig brátt vera þannig að eðli, að það átti enga samleið með mannlegri samvisku, réttlætiskennd og lögmætu framferði. Það var illt í alla staði !
Einmitt þessvegna risu upp virðingarverðir menn í Þýskalandi sjálfu, sem andmæltu hinu framkomna stjórnvaldi og börðust gegn því í ræðu og riti, menn sem þekktu Ritninguna og vissu vel af þeim ritningarstað sem hér er lagt út af, en skildu að stjórnvald sem braut allar löghelgaðar skyldur sínar við samfélag manna átti ekki kröfu á hlýðni. Þannig menn voru t.d. Carl von Ossietzky og Dietrich von Bonhoeffer, enda fórnuðu þeir báðir lífi sínu fyrir málstaðinn. Textinn í Rómverjabréfinu talaði ekki til þeirra um hlýðni við ómanneskjuleg yfirvöld !
Einn ágætur ritkunningi minn var ekki sáttur við nýlega umfjöllun mína í kvæði um Karl I.Stúart og hann var það ærlegur að segja það hreint út. Þar er því til að svara, að ég hef ávallt verið mikill andstæðingur konungsvalds og tel það hafa gert mannkyninu mikið illt í aldanna rás. Umræddur konungur gekk lengra en aðrir í hans stöðu gegn löghelguðum samningum sem gilt höfðu allt frá Magna Charta varðandi réttindi þings og þjóðar. Það varð til þess að upp úr sauð og borgarastyrjöld braust út. Annarsvegar stóð konungur með megnið af aðlinum á bak við sig og hinsvegar þingið með megnið af þjóðinni á bak við sig. Hvor aðilinn hafði meiri rétt til að skipa málum í landinu ?
Lýðræðislegt svar við því er augljóst, enda fór svo að þingið sigraði konung, þjóðvaldið sigraði konungsvaldið ! Sumir menn sem voru í raun konungssinnaðir tóku sér stöðu með þinginu, því ofríki konungs var það mikið að við það varð ekki unað og síst í þjóðréttarlegum skilningi. Karl I. var að lokum dæmdur brotamaður gagnvart eigin þjóð og tekinn af lífi sem slíkur, eftir flókið ferli samsærisbragða af hans hálfu. Forustumenn þingsins reyndu að semja við hann, en það reyndist bara ekki hægt. Karl leit svo á, sem fleiri af hans tagi, að vald sitt hefði hann frá Guði einum og þjóðin ætti ekki annan kost en að sætta sig við það !
Þarna var sem sagt konungur sem einblíndi á það sem hann taldi ótvíræð réttindi sín gefin að ofan", en hugaði lítt að skyldum sínum við land og þjóð. Þúsundir og aftur þúsundir manna hafa verið teknar af lífi fyrir landráð og brot gagnvart heildarhagsmunum þjóða. Því þá ekki konungar sem hegða sér með þeim hætti ? Eiga slíkir að vera ofar lögum og má ekki leiða þá fyrir dóm fyrir ætluð brot, áttu þeir alltaf og eiga þeir alltaf að vera friðhelgir - eins og t.d. íslenskir pólitíkusar ?
Ýmsir breskir sérfræðingar" í lögum svo sem F. E. Smith, sem síðar var aðlaður og fékk þá nafnið Birkenhead lávarður, hafa skrifað um dómsmálið gegn Karli I. og þarf ekki að koma á óvart að niðurstöður slíkra eru yfirleitt konunginum og kerfinu í hag. Í Bretlandi tíðkast ekki að aðla menn nema þeir hafi unnið til þess eftir réttum formúlum. Carlyle heldur því hinsvegar fram að stjórnmálaleg nauðsyn hafi legið málinu til grundvallar og niðurstaða þess hafi orðið enskri stjórnskipun nytsamleg. En þeir sem hugsa eftir fyrri tíðar vísu that the King can do no wrong" munu seint fallast á að lög eigi að ná jafnt yfir alla menn og munu því að öllum líkindum áfram sem hingað til halda fast við sín stallagoð !
Á morgunstund frelsis síns þurftu Bandaríkin að glíma við ýmis svikræði og einna verst var það þegar Benedict Arnold, háttsettur foringi í sjálfstæðishernum, ætlaði að svíkja West Point í hendur Bretum. Arnold slapp á síðustu stund en hinn breski tengiliður hans John André, sem reyndar var valinkunnur maður, var dæmdur og hengdur. Enginn vafi er á því að Arnold hefði hlotið sömu örlög hefði hann náðst !
Það á ekki að skipta neinu fyrir lögum hve háttsettur brotamaðurinn er. Ef menn eru sannir að svikræði gagnvart þjóðarheill verður að fara með slík mál fyrir dómstóla og það á auðvitað að gilda að öllu leyti óháð því hver maðurinn er eða hvar hann stendur í mannfélagsstiganum.
Konungur er bara maður sem hefur verið staðsettur efst í þeim stiga, í krafti valds og erfða frá fyrri tíð. Líklega oftast í kjölfar hernaðarlegs ofbeldis. Sérhver maður sem aðhyllist lýðræði og almenn mannréttindi hlýtur því að taka sér stöðu gegn öllu einræði og þar með gegn konungsvaldi og hinum svokallaða guðlega rétti" konunga, sem var yfirþjóðlegt vald síns tíma !
Evrópusambandið er t.d. á okkar tímum, ný birtingarmynd á konungsvaldinu gamla. Það er ígildi margra konungsríkja frá fyrri tíð. Þar kemur sérútvalinn valdaklúbbur saman sem vill taka þjóðlegt vald undir sig, troða sjálfstæði þjóða niður, og flaggar óspart í því skyni yfirþjóðlegu valdi og kjarnalausum fjölmenningargildum. Stefna Evrópusambandsins hefði áreiðanlega hugnast Karli I.Stuart og öðrum hans líkum frá fyrri tíð !
Yfirboðin valdstétt er sannarlega ekki eitthvað sem ber að hlýða í blindni, hvernig sem hún kýs að hegða sér gagnvart lögum og lífi manna !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 146
- Sl. sólarhring: 192
- Sl. viku: 715
- Frá upphafi: 365613
Annað
- Innlit í dag: 141
- Innlit sl. viku: 626
- Gestir í dag: 141
- IP-tölur í dag: 139
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)