Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Enn er ár að baki !

Það er kunnara en frá þurfi að segja að tíminn líður. Reyndar líður hann svo hratt að Rómverjarnir gömlu sögðu hann fljúga framhjá. Við mannfólkið höfum aldrei neitt í hendi nema líðandi stund, hið hraðfleyga augnablik. Og að heilsast og kveðjast er vissulega lífsins saga !

Árið 2014 er að hverfa með sína gleði og sínar sorgir. Öll höfum við reynt sitthvað á því ári og það sem gott gafst geymist vonandi í þakklátum hugum, en hitt sem síðra var, skilur eftir reynslu sem þarf að þroska okkur til aukins manndóms í komandi tíð.

Hið ágæta skáld okkar Tómas Guðmundsson komst spaklega að orði í kvæði sínu Hótel Jörð þar sem hann kveður : „ Við erum gestir og hótel okkar er jörðin !“

Það fara hinsvegar misjafnar sögur af því hvernig við göngum um hótelið okkar. Sumir virðast ganga þar stöðugt um á skítugum skónum og ata allt út sem þeir snerta á. Þar eru að verki umhverfissóðarnir og náttúruleysingjarnir, þeir sem hirða aldrei um réttar reglur og eru yfirleitt sjálfum sér og mannkyninu öllu til skammar.

Svo eru - sem betur fer - ýmsir til sem leggja líf sitt og starf í uppbyggilega hluti. Það eru þeir sem vilja að lífshótelið okkar sé notalegur staður og að þar fari vel um alla gestina. Það skiptir máli fyrir sérhvern gest á Hótel Jörð að þeir sem gista þar, og þá ekki síst í næstu herbergjum, séu ábyrgir og hugsjónaríkir einstaklingar,sem vilja öllum vel sem þar dvelja.

Samábyrgð og samkennd þarf að ríkja þar og vera skínandi leiðarljós í skiptum öllum, því eitt er víst, að þá ávaxtast best það sem helst verður okkur veganesti yfir í komandi vídd.

Við skulum nefnilega ávallt gera okkur grein fyrir því, að við verðum hér ekki til frambúðar, við erum gestir, og farseðill okkar yfir brúna til hins ókunna verður stimplaður eftir því hvernig við höfum hegðað okkur hér gagnvart samferðarfólki okkar og öðrum gestum og því umhverfi sem okkur hefur verið gefið til lífs og vistar.

Það er einlæg ósk mín að komandi ár, árið 2015, megi verða gjöfult og gæfuríkt fyrir land og þjóð, – fyrir íslenskt fólk til sjávar og sveita, og þökk sé öllum sem styrkt hafa samfélag okkar á árinu sem er að líða – með því að vera góðir gestir á HÓTEL JÖRÐ !


Blindir leiða og blessun deyða !

Það er full ástæða til að spyrja þess í samtímanum og það í löndum sem þó teljast kristin, - hvað hafa menn á móti Jesú ? Og það má svara því þannig, að kenningar hans þyki gera allt of miklar kröfur til manna um breytni og háttalag ! Á tímum sem mótast af uppreisn og agaleysi, er skiljanlegt að kristindómurinn eigi í vök að verjast og undir högg að sækja. Sú ádeila sem Kristur sjálfur hélt uppi gegn hrokafullum faríseum, saddúkeum og hræsnurum fyrir 2000 árum, er enn í fullu gildi, enda er nóg af þessháttar lýð til staðar í tilverunni í dag !

Pílatusar og Heródesar ganga um veröldina sem aldrei fyrr. Valdamenn eru að þvo hendur sínar dags daglega af þessu og hinu og verða þó aldrei hreinir. Menn nautnahyggjunnar og allsnægtanna vilja ekkert vita af blæðandi heimi og kenning Krists er þeim hvimleið í alla staði. Réttlæti, jöfnuður og sannleikur, allt er það þeim andstyggð sem vilja byggja líf sitt á lygi !

Á tímum Jesú var samfélag „hinna lærðu“ hreint ekki spennt fyrir því frekar en endranær að einhver kæmi – að utan – og færi að kenna með þeim hætti sem hann gerði. Og ekki bætti um að hann kenndi með þeim hætti að vald og kraftur fylgdi máli hans og fólkið flykktist að honum. Það var ekki talið að neinu leyti forsvaranlegt að gjörsamlega ólærður maður hegðaði sér með slíkum hætti !

Það myndaðist því þegar í byrjun andstaða gegn honum af hálfu fræðimannanna og hinna skriftlærðu og nokkuð víst er að þar hafi öfund og metnaðarhroki ráðið ferðinni að mestu. Kristur var nefnilega með þeim ósköpum gerður að hann virtist alls ekki kunna að hegða sér í samræmi við þá goggunarröð sem í gildi var !

En hann kenndi og útskýrði ritningarnar fyrir fólki svo að það sá Guðs orð fyrir sér í miklu skýrara ljósi og skildi það með nýjum og opinberuðum hætti. En sú opinberun skipti engu máli í augum lærdómsmannanna, það sem var höfuðatriðið og réði afstöðu þeirra, var að maðurinn sýndi þeim ekki þá virðingu sem þeir töldu sig eiga heimtingu á !

Aðeins örfáir þeirra á meðal lögðu við hlustir og reyndu að skilja hvað fólst í þeim boðskap sem Kristur bar fram. En jafnvel þeir töldu sig verða að fara varlega svo þeir kölluðu ekki yfir sig fjandskap og reiði hinna sem voru margfalt fleiri. Nikodemus kom til Jesú að næturþeli og tók ekki neina áhættu. Hann vildi ekki leggja að veði orðstír sinn og stöðu í samfélagi hinna lærðu þó hann fyndi í orðum Jesú eitthvað sem talaði til hjarta hans.

Og þannig var með þá sem frá mannlegu sjónarmiði hefðu helst átt að skilja boðskap Krists, þá menn sem höfðu legið yfir ritningunum og töldust hinir menntuðu og skriftlærðu meðal þjóðarinnar, þeir voru manna sjónlausastir þegar sannleikurinn horfði við þeim.

Og þannig er þetta enn í dag. Ekkert hefur breyst í þessum efnum. Öfundin og metnaðarhrokinn eru enn á sínum stað í hjörtum mannanna. Enginn – að utan – á að vaða inn á hið útvalda svið og reyna þar að afvegaleiða fólkið. Engin ný sannindi eiga að koma fram nema í gegnum hinn rétta farveg, hina mannfélags-skóluðu meginrás og í samræmi við rétta goggunarröð !

En samt gerast hlutirnir sem valda straumhvörfum í mannlífinu alltaf þar fyrir utan, því hinar fastbókuðu forskriftir sanhedrin-klíku-samfélags allra tíma taka aldrei við neinni opinberun eða nýjum sannindum. Til þess er umrætt samfélag allt of upptekið af eigin sjálfi og þeirri ímynduðu og fölsku upphafningu sem sjálfumgleðinni fylgir !

Kristur sá auðvitað að í sálum slíkra manna var lítill sem enginn móttakari fyrir þann boðskap sem hann flutti. Þar sem engin auðmýkt er til staðar gagnvart guðlegum sannindum er enginn jarðvegur fyrir boðskap af því tagi. Það þurfti því að tala til þeirra sem brugðu yfir sig blekkingarhjúpi ætlaðrar þekkingarstöðu með afhjúpandi hætti og Kristur gerði það óspart.

Hvað sagði hann ekki oft og iðulega við þá ? „Þið kallið ykkur lærimeistara í Ísrael og vitið þetta ekki !“ Í annað skipti sagði hann við fólkið: „Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki !“

Hann talaði um blinda leiðtoga blindra, hann sagði að menn skildu ekki tákn tímanna, hann varaði við súrdeigi farísea og saddúkea, hinum röngu kenningum þeirra !

Hann sagði: „ Þið síið mýfluguna en svelgið úlfaldann, þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra, þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis !“

Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig þessi og önnur ámóta ummæli hans virkuðu á lærða klúbbinn í þá daga, menn urðu alveg utan við sig af vonsku því hann kom við kaun þeirra og sýndi þeim hvernig þeir í raun og veru voru, í öllu falsi sínu og yfirdrepsskap !

Og enn er það svo að menn eru ekki viðkvæmari fyrir neinu eins og eigin sjálfi. Þeir ganga grímuklæddir um í gráðubúningum mannfélags-skólunarinnar og óttast það umfram allt að einhverjir uppgötvi að innan í öllum umbúðunum sé bara lítil, óttaslegin sál, full af minnimáttarkennd !

Í gamalgóðu íslensku kvæði spyr skáldið sem orti : „Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg ?“ Og það má líka spyrja þess sama í heild varðandi mannkynið allt. Við erum nefnilega ótrúlega gjörn á að ganga villugöturnar og ótrúlega andvíg því að leiðrétta stefnuna, jafnvel þó við séum farin að sjá að framundan sé ekkert annað en brotlending sálarlegrar afkomu.

Kristindómurinn hefur verið helsti ljósviti vestrænna landa um langt skeið, enda boðskapur hans frá Krists hendi verið í alla staði heilnæmur og góður og þeim til blessunar sem hafa við honum tekið. Hinsvegar hefur mjög misjafnlega verið haldið á málum af hálfu kirkjudeilda og margir þar tapað réttri sýn vegna metorðastrits og valdabaráttu og skaðað með því bæði sjálfa sig og aðra. Málefnið hefur liðið fyrir breyskleika manna alla tíð og þar hafa farísear, saddúkear og hræsnarar, lærði klúbburinn að langmestum hluta, alltaf átt sinn drjúga þátt í niðurrifsverkum hvers tíma. Það getur aldrei skilað sér til góðs þegar þjónar helvítis koma sér fyrir í kirkjum og þykjast starfa fyrir himnaríki ! „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ sagði Kristur.

En slíkir munu líða undir lok, kynslóð af kynslóð, en Orð Guðs mun standa og vinna sitt verk meðan líf sem á von um frelsun er til á þessari jörð !


Að opna austurgluggann !

Í mannkynssögulegu samhengi er löngum vitnað til þess að Pétur Rússakeisari sem kallaður hefur verið „hinn mikli“ hafi beint sjónum sínum mjög í vestur og viljað viðhafa stjórnarstefnu sem kölluð var „að opna vesturgluggann !“

Margir vanmátu Rússa þá og margir vanmeta þá enn í dag. Karl XII. Svíakonungur hélt að hann gæti rúllað Rússum upp á skömmum tíma, en Pétur mikli var honum miklu erfiðari andstæðingur en það og Pultava árið 1709 var allt annað en Narva árið 1700.

Margir óttuðust Pétur mikla um hans veldisdaga og þegar sú frétt barst til Danmerkur 1725 að hann væri dauður, urðu íbúar Kaupmannahafnar svo yfirmáta glaðir, að sagt var að það hefði orðið allsherjar fyllirí í höfuðborginni frá konungshirðinni og niðurúr. Þegar Napóleon sem einnig er stundum kallaður „hinn mikli“ spurði rússneska sendiherrann í stríðni árið 1811 hver væri stysta leiðin til Moskvu, svaraði sendiherrann: „Herra, það eru margar leiðir til Moskvu, Karl XII. kaus að fara um Pultava !“

Napoleon fór með sinn stórher um Smolensk og Hitler ætlaði sínum herafla að ryðjast í gegnum Stalingrad. Allir vita hvernig fór fyrir þeim. Napóleon fórnaði hundruðum þúsunda mannslífa í innrásinni í Rússland og Hitler milljónum, en björninn í Bjarmalandi varð ekki unninn fyrir því. Maðurinn frá Korsíku og manndjöfullinn frá Austurríki hurfu brátt af valdahimni Evrópu og hefðu betur aldrei komið þar við sögu. Flestar þjóðir álfunnar önduðu vægast sagt léttar eftir að þessir blóðsúthellingaböðlar voru horfnir á ónefndan stað !

Það hefur löngum þvælst fyrir mörgum fræðingum í sagnfræði hvar eigi að staðsetja Rússa landfræðilega og á öðrum sviðum ? Eru þeir Evrópuþjóð eða Asíuþjóð, eru þeir frumstæð þjóð eða menningarþjóð, hvar og hvernig á eiginlega að skipa þeim niður ? Og það hefur svo sem ekki farið framhjá neinum sem skoðar þessi mál með opnum huga, að oftar en ekki eru svörin við þessum spurningum afskaplega lituð af því hvar menn hafa staðið í pólitík !

Rússar eru margslungin þjóð og eiginlega bæði evrópsk og asísk. Rússaveldi hefur á síðustu öldum leikið stórt hlutverk í sögu Evrópu og í Napóleons-styrjöldunum, svo dæmi sé tekið - voru rússneskir herir á ferð og flugi um Vestur-Evrópu og ekki voru þeir fyrirferðarminni í álfunni á árunum 1943 til 1945 eftir að gagnsóknin gegn nazistaherjunum var hafin á fullu.

Nú er mikið gert úr því á vesturlöndum að núverandi valdhafi í Rússlandi, Vladimir Pútín, sé svo hættulegur heimsfriðnum að það verði bara að finna einhverja leið til að koma honum frá. Ég spyr, hvaða heimsfriði ?

Var Vladimir Pútín ekki valinn af Boris Jeltsin á sínum tíma sem rétti maðurinn í valdastólinn og var Jeltsin þá ekki ástmögur vesturlanda og val hans talið ágætt af þeim öflum sem nú telja Pútín allt til foráttu ?

Var Krímskagi ekki hluti Rússlands áður en Nikita Kruschev afhenti landssvæðið undir úkraínska lögsögu, í þeirri trú að bæði ríkin yrðu sovésk um aldur og ævi ? Var eitthvað óeðlilegt við það að Krímskagi hyrfi aftur til Rússlands þegar ríkin áttu ekki lengur samleið ? Átti meirihlutavilji íbúanna á skaganum ekki að ráða því hverjum þeir tilheyrðu ? Er það ekki grundvallarregla í lýðræðislegu samhengi ?

Að hvaða leyti skyldi Pútín nú vera verri en Obama ? Jú, það má kannski nefna eitt, hann hefur ekki fengið friðarverðlaun Nóbels, en fyrir hvað fékk Obama þau eftirsóttu en mjög gildisföllnu verðlaun ? Hann fékk þau út á ódrýgðar dáðir sem ekki hafa enn verið unnar og munu trúlega aldrei verða !

Thorbjörn Jagland hafði slíka ofurtrú á honum að hann knúði þennan arfavitlausa gjörning í gegn og enginn í Nóbelsnefndinni hafði þann merg í sér að hafa vit fyrir honum. Fangabúðastjórinn í Hvíta húsinu er auðvitað enginn friðarverðlaunahafi í raun, og að því leyti líkur Pútín, að báðir hafa vafalaust margt á samviskunni eftir valdaferil þann sem að baki er. Ég tel hvorugan góðan og Obama að engu leyti skárri, því hræsnarar eru mér ekki að skapi !

Hvenær settu vesturveldin það fyrir sig, að Jeltsin vinur þeirra veldi fyrrverandi KGB foringja sem eftirmann sinn, meðan haldið var að hann léti að stjórn ? Var ekki George Bush eldri forstjóri CIA á sínum tíma og halda menn að hann hafi bara stundað prédikanir á sunnudögum í því starfi ?

Vesturveldin eru hnignandi að áhrifum og umsvifum í veröldinni, Ég skil ekki hversvegna Rússar gefa ekki bara skít í viðskiptin til vesturs og hætta að einblína út um gluggann sem þangað snýr ? Af hverju opna þeir ekki austurgluggann og hefjast handa við að margfalda viðskiptin við Kína, Indland og önnur vaxandi Asíuríki ? Væri það ekki það skynsamasta sem þeir gætu gert í núverandi stöðu mála, sem ætti þegar að vera búin að sýna þeim og sanna - að þeir geta ekki treyst á að viðskipti við Vestur-Evrópuríkin og Bandaríkin geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti fyrir þá ?

Vladimir Pútín verður ekki eilífur frekar en aðrir valdhafar og vonandi eiga Rússar eftir að eignast sem fyrst frambærilegri leiðtoga en hann. Sú þjóð sem öllum öðrum fremur bar þungann og erfiðið af því að bjarga Evrópu frá helvíti Hitlers og færði stærstar fórnir í þeirri baráttu og átti þannig stærsta þáttinn í að sigur vannst á nazistaskepnunni, á skilið að búa við betra lífsöryggi en verið hefur um hríð, og vesturveldin eru langt frá því að vera allur heimurinn !

Ef útsýn úr vesturglugganum verður hindruð áfram af pólitískum sjónhverfingum og viðskiptaþvingunum, má það heita furðulegt ef Rússar fara ekki út í það að opna austurgluggann upp á gátt og leita sér viðskipta í gegnum nýja útsýn og nýja möguleika. Það er kannski einmitt núna kominn sá tími að best sé fyrir Rússa að hætta að glápa út um vesturgluggann og fara að sjá að önnur tækifæri geta boðist ef þeir fara að horfa meira út um gagnstæðan glugga.

Auðvitað þurfa þeir að hyggja að sinni framtíð eins og önnur ríki og tryggja hana sem best. Það gætu þeir kannski best gert með því að mynda vænleg viðskiptatengsl á komandi árum við hin rísandi veldi í austri !

 


"Við erum fjölmenningarsamfélag" ?

Oft heyrir maður þessa staðhæfingu sem er yfirskrift þessa pistils. Um daginn var hún viðhöfð enn einu sinni í umræðuþætti í Kastljósi. Ég spyr hvenær urðum við fjölmenningarsamfélag, hvenær samþykkti íslenska þjóðin í frjálsum almennum kosningum að hér yrði upptekið svokallað fjölmenningarsamfélag ? Mér vitanlega liggur engin þjóðfélagsleg samþykkt að baki þessari síendurteknu staðhæfingu !

Og ég vil spyrja, er hægt að gjörbreyta samfélagslegum áherslum og gerð og grunni íslensks þjóðfélags með einhverjum hundakúnstum fámennrar valdaklíku sem virðist að mestu með bæði augu sín bundin við sýn út til Brussel, en sér lítið sem ekkert til mála hér innanlands ?

Ég er ekki fjölmenningarsinni og verð það áreiðanlega aldrei. Ég þekki fullt af fólki sem vill bara fá að rækta íslenska þjóðmenningu í friði á þeim grunni sem reistur var af fyrri kynslóðum. Það er að minni hyggju fátt í þessari svokölluðu fjölmenningu sem mun verða landi og þjóð til heilla í framtíðinni. Ávextir fjölmenningarstefnunnar eru þegar farnir að birtast með ýmsu móti um alla Evrópu og þar er margt ískyggilegt á ferð svo ekki sé meira sagt.

Múslímar í hundraðatali sem flykkst hafa frá friðsamlegum lífskjörum í evrópskum löndum til að berjast með öfgahreyfingum heilags stríðs í Sýrlandi og víðar, eru afsprengi og sjálfgefin niðurstaða fjölmenningarstefnunnar – hins ósjáandi umburðarlyndis ! Framferði þeirra sýnir ljóslega við hverju má búast, þegar fram í sækir, í evrópskum „heimalöndum“ þeirra. Þessir menn fóru hollustulausir við þau lönd „að heiman“ og koma enn skemmdari til baka !

Það hefur aldrei þótt vitræn afstaða að fljóta sofandi að feigðarósi, en það er einmitt það sem mörg Evrópuríki eru að gera um þessar mundir og þar eru Norðurlöndin ofarlega á blaði. Það er fjölmenningarstefnan sem hefur á undanförnum árum rist öryggishjúpinn öðru fremur frá þessum ríkjum og skilið þau eftir berskjölduð á víðavangi vitleysunnar fyrir hættum sem nú vaða uppi. Þær hættur voru ekki áður til staðar vegna þess að þá voru ráðamenn vakandi fyrir hagsmunum landa sinna og því sem dómgreindarlegast verður talin eðlileg þjóðarheill !

Nú virðast sumir vilja rífa allt niður sem ætti að eiga samleið með eðlilegri þjóðarheill. Það er stöðugt ráðist á allt varnareftirlit í þeim efnum, af þeirri ábyrgðarlausu menntaelítu sem veitir fjölmenningar-stefnunni brautargengi, til að auglýsa eigið víðsýni, frjálslyndi og fordómaleysi. Þar er um að ræða tækifærissinnað stundarhagsmunafólk sem alltaf er tilbúið að teyma þjóðfélagið fram af ystu nöf og þykist svo eftir á þegar það sér illar afleiðingarnar aldrei hafa komið nálægt neinu. Það er fólkið sem er svo haldið af hinni samevrópsku kratabakteríu varðandi þessi mál, að það gleymir fyrir hverja það á að starfa og verður óþjóðlegt fyrir bragðið. Fulltrúa slíkrar samfélagssýkingar virðist hægt að finna í öllum flokkum nú til dags !

„Við erum fjölmenningarsamfélag“ segir þetta fólk æ ofan í æ, líklega í þeirri von að það geti kæft öll andmæli með því að endurtaka þetta nógu oft. En þessi staðhæfing á sér enga lýðræðislega staðfestingu á Íslandi og ég sem íslenskur ríkisborgari neita að taka hana gilda nema þjóðin staðfesti hana með jáyrði í frjálsum almennum kosningum !

Ég er sannarlega orðinn hundleiður á þeim lygafrösum og því lýðskrumi sem er orðið daglegt brauð hérlendis og hef megnasta ógeð á þeirri samtryggingarelítu sem mylur allt undir sig í sölum valdsins hjá þessari litlu þjóð. Og ég spyr enn og aftur, ætlum við aldrei að eignast frambærilegt forustufólk ?

Það er sama hvort um karl eða kellingu er að ræða í opinberri stjórnmálaumræðu dagsins, þar virðist allt hið ráðandi lið ofurselt einhverjum sýndarveruleika sem á enga samleið með lífi og starfi fólksins í landinu. Við erum ekki staðfest fjölmenningarsamfélag, en það er svo að sjá og heyra sem andi fjölmenningarstefnunnar hafi drottnað á alþingi til margra ára og þvegið úr þingmönnum alla sjálfstæða, þjóðlega hugsun, svo þeir virðast haldnir af síbylgjustefi sem gengur út á eitt og tónar stöðugt : – Vegir liggja til allra átta, enginn ræður för !

Og það er kjarni málsins ! Fjölmenningarsamfélag er nefnilega stefnulaust viðrini. Það sér vegi til allra átta, en enginn þeirra ræður för, ekki fyrr en eitthvað tekur yfir sem markar ákveðna stefnu. Og það verður líka með einhverjum hætti fyrr en síðar. En þá er það spurningin, hvernig verður sú yfirtaka, hvernig umpólast þjóðfélagið þá, verður það í formi borgarastyrjaldar, valdaráns eða hvernig gerist það - að einhverjir taka völdin - í samfélagi sem snýst ekki lengur um hollustu við sameiginleg gildi ?

Er ekki kominn tími til þess, að menn geri sér almennilega grein fyrir því hvað fjölmenningarstefnan þýðir og til hvers hún muni leiða fyrir land og þjóð - til lengri tíma litið - ef fer sem horfir  ?

 


Ofbeldisverk bandarískra lögreglumanna !

Það gerist alltof oft að bandarískir lögreglumenn reynast sekir um vítaverð ofbeldisverk og stundum er eins og það að grípa til byssunnar sé jafn sjálfsagt og það þótti í villta vestrinu á síðari hluta nítjándu aldar. Það virðist ekki vera mikil tilhneiging að rannsaka mál eða vita hvernig aðstæður eru, það er eins og það séu iðulega fyrstu viðbrögð laganna varða að hefja skothríð !

Og býsna oft er það svo, að það fólk sem verður fyrir þessu ofbeldi, af hálfu lögreglumanna í Bandaríkjunum, tilheyrir minnihlutahópum. Þar virðist helst um að ræða fólk sem virðist hreint ekki eiga að fá að njóta eðlilegra frelsiskjara í margyfirlýstu landi frelsisins ! Hvítir lögreglumenn eru oft sakaðir um kynþáttahatur enda virðist meðferð þeirra á svörtum samborgurum iðulega vera talsvert meira í ætt við suður afrísku apartheid stefnuna en mannréttindaákvæðin í hinni margrómuðu bandarísku stjórnarskrá.... Það eru víða falleg orð höfð uppi við en veruleikinn er oft allur annar og verri !

Það er eins og andi Ku Klux Klan svífi enn víða yfir vötnum í bandarísku samfélagi og það ætlar að ganga þar seint að fá þann yfirlýsta skilning viðurkenndan, að borgarar landsins eigi að búa við jafnan rétt án tillits til húðlitar. Sumir hafa gengið svo langt að spá því, að óeirðir vegna mismununar og ójafnaðar muni fyrr en síðar valda meiriháttar átökum í Bandaríkjunum og jafnvel eyðileggja þetta mikla sambandsríki innanfrá !

Það er vel hugsanlegt að svo geti farið, ef borgaraleg mismunun heldur áfram með sama hætti og hingað til. Alríkisyfirvöldin virðast alltaf sein til að taka á slíkum málum og oft er sem ákveðið áhugaleysi liggi þar að baki. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og fátt virðist vera að breytast í raun þó toppstykkið fái kannski um tíma að vera svart !

Sem fyrr segir, eru þau farin að verða nokkuð mörg, ofbeldisverkin sem unnin hafa verið af lögreglumönnum í Bandaríkjunum, og sjaldnast hefur verið gert mikið í því að rannsaka slík mál vandlega og taka á þeim með þá hugsun að leiðarljósi að fyrirbyggja að þau endurtaki sig. Oftast virðist tilhneigingin vera sú að þagga mál af þessu tagi niður og sleppa þeim lögreglumönnum sem brotið hafa af sér í þessum efnum. Að lúberja menn með þeim hætti sem gert var við Rodney King eða skjóta unglingsdrengi úr vissum þjóðfélagshópum á færi, virðast ekki vera taldir svo miklir glæpir - af sumum stjórnvöldum þar vestra, að refsa beri fyrir þá !

Oft hefur því verið haldið fram að ofbeldishneigðir einstaklingar sækist eftir að komast í lögregluna, til að geta þjónað eðli sínu undir vernd laganna. Það kemur víða fram í vestramyndum að býsna margt er oft líkt með glæpamönnunum og lögreglumönnunum. Skyldi það ekki hafa verið nokkuð í takt við veruleikann sjálfan og innfæddum framleiðendum slíkra mynda vera nokkuð vel kunnugt um hvernig bandarískar aðstæður hafi verið og séu kannski enn í slíkum efnum ?

En þó breytnin sé ef til vill í mörgu hliðstæð, er ofbeldi lögreglumanna hinsvegar lögvarið og ekki ótrúlegt að margir hafi komist upp með ótilhlýðilega framkomu með því að skipa sér í raðir lögreglumanna og níðast síðan á samborgurum sínum í nafni laganna !

Slíkt þekkist auðvitað víðar en í stjörnuríkjunum, en ef bandaríska lögreglan hefði verið og væri til fyrirmyndar með þessa hluti, hefði það átt að geta skilað sér til eftirbreytni um allan heim. Slíkt er áhrifavald Bandaríkjanna og hefur lengi verið. Að minnsta kosti hefur aldrei vantað að nógir séu til að apa eftir flestum þeim ósiðum sem átt hafa upphaf sitt þarna vestra og farið síðan hamförum um allan heim, sumir af því tagi að það hefur orðið öllu mannkyni til skammar !

Almennt er talið að óeirðirnar í Los Angeles þar sem 53 manneskur voru drepnar og yfir 2000 manns særðust, meira en 7000 eldar brutust út og fjárhagsskaði varð upp á meira en milljarð dala, hafi orsakast af misþyrmingum lögreglunnar á Rodney King. Kalla þurfti hervald til svo hægt væri að stilla til friðar. Slíkar afleiðingar getur það haft þegar nokkrir menn í ábyrgðarstöðum, varðandi það að halda uppi lögum og reglu, hegða sér þveröfugt við það sem þeir ættu að gera !

Á netinu er hægt að nálgast lista yfir tilfelli lögregluofbeldis í Bandaríkjunum, þar sem unnt er að gera sér nokkra hugmynd um það hvað þetta eru mikil vandamál þar og hvernig yfirvöld vestra hafa hingað til brugðist við þeim. Eftir reynslunni að dæma virðist ólíklegt að lögreglumenn og aðrir í ábyrgðarstöðum þar séu mjög meðvitaðir um þá staðreynd að – með lögum skuli land byggja - !

Lögreglumenn sem eru alvopnaðir, ganga með manndrápsvopn dags daglega við störf sín, munu alltaf í einhverjum tilfellum fremja ofbeldisverk. Það er reynslan og hér á Íslandi mun það ekki verða á neinn hátt öðruvísi. Því er það stór liður í því að halda réttu og manneskjulegu sambandi milli lögreglunnar og borgaranna að forðast villta vesturs uppstillingar af öllu tagi !

Ef sérstakt hættuástand skapast, er sjálfsagt að hafa sérsveit til staðar sem getur gripið inn í. En slík sveit þarf líka að vera þannig úr garði gerð að þar sé full virðing borin fyrir mannslífum og reynt með öllum ráðum að forðast það að drepa menn því slíkt framferði skapar sár í samfélaginu, sár sem gróa seint eða aldrei !

Vonandi berum við Íslendingar gæfu til að halda samfélagi okkar sem lengst fjarri þeim ófögnuði sem fjallað er um í þessum pistli!

 

 


Litli fingur aurapúkans - sjálfstæðisflokkspassinn !

En hvað það er ónáttúruleg niðurstaða, enda fædd af sérgæðingsanda sjálfstæðisflokksins, að ætla að láta þjóðina borga fyrir að fá að sjá sínar eigin náttúruperlur. Og þetta er flokkurinn sem segist yfirleitt berjast fyrir lækkun skatta. Og svo á að skattleggja almenning í landinu með þessum hætti ?

Ég spyr, hefur íslenskur almenningur valdið einhverjum sérstökum átroðningi á umræddum stöðum ? Er það ekki viðkoman utan frá sem gerir það, fólkið sem kemur hingað frá öðrum löndum, þúsundum saman, er það ekki það sem veldur þessum allt of mikla átroðningi !

Og ættu þá ekki þeir sem eru gerendur að þessu ásamt þeim sem eru að græða á þessum hlutum að greiða fyrir átroðninginn ? Allt ferðamálabatteríið sem vill bara stinga hverri krónu í vasann en ekki borga fyrir neitt, vill bara plúsa og enga mínusa !

Æ, ekki fara að tala um hvað þjóðin græði á þessu, það er ekki málið, það er ekki það sem er höfuðatriðið, aðalmálið er miklu frekar, eins og löngum áður, að hygla einkaaðilum – að þessu sinni í ferðamennsku - á kostnað þjóðarinnar. Að þjóðin borgi sérskatt en einkaaðilarnir fitni eins og svín !

Svo er þetta nafn náttúrupassi alveg fáránlegt ! Það mætti halda að þetta væri eitthvað sem menn þyrftu að hafa með sér á fund léttlætiskvenna ? Auðvitað ætti þetta að heita einhverju öðru nafni sem undirstrikað gæti beinskeytt hvað þarna er á ferðinni, sem nýr kafli í aukinni skattheimtu !

Það mætti kalla þetta sjálfstæðisflokkspassann eða skattinn, svo það gleymist nú ekki hver flokkurinn var sem kom þessu á, já eða Ragnheiðarpassann, svo það minni á ráðherrann sem þjónustaði gráðugt sérhagsmunaliðið með þessu undir yfirskini þjóðarþarfar. Það væri gott að hafa það á hreinu svona seinna meir, þegar mikill meirihluti þjóðarinnar verður farinn að skilja hvílík della þetta var og rangt að byrja á þessu. Þetta mun nefnilega vefja upp á sig vitleysuna og hlaða skömm ofan á skömm !

Það hafa fyrr verið teknir upp skattar sem hafa átt að vera um takmarkaðan tíma, vegna einhverra tímabundinna aðstæðna, en niðurstaðan hefur oftast orðið sú að þeir hafa orðið fastir í kerfi sem heimtar alltaf meira og meira fé til sinna þarfa þó það skili sér oftast afar illa til fólksins og almenningsþarfa. En á Íslandi er fjárheimta til hyglingar einkaaðilum alltaf sett fram undir því fororði að það sé verið að gera eitthvað fyrir þjóðina. Slíkar álögur byrja alltaf með blekkingar-aðferðum !

Þetta náttúrupassadæmi gæti verið litla fingurs byrjunin á því að þjóðinni verði bara úthýst frá sínum náttúruperlum fyrir fullt og allt. Að auðmenn kaupi upp fossa og flottar lendur og svo komi ígildi hinna amerísku skilta upp hér og þar um Ísland : „No Trespassing !“, „Private property !“ and so on !

Já, þá verður gaman að eiga heima á Íslandi eða hitt þó heldur þegar ALLT er endanlega orðið FALT og uppkeypt og komið í eigu íslenska blóðsuguaðalsins, kvótagreifanna, landgreifanna, fjármálamafíunnar, skilanefndasjakalanna og kerfissóðanna og allra erlendra félaga þeirra !

Íslenskur almenningur verður þá náttúrulega rúinn öllu nema kannski sinni eigin innanhúðar náttúru – ef hún verður þá ekki lögheft eins og í gamla daga, þegar fátækt fólk mátti helst ekki fjölga sér, svo það kæmi ekki óorði á sveitina eða hreppinn, að áliti drullusokkanna sem réðu á þeim tíma og níddust á öllum smælingjum mannlífsins !

Það er vitað mál að skattur sem sjálfstæðisflokkurinn vill koma á, er til að styðja einkaframtakið á kostnað almennings. Þannig hefur alltaf verið haldið á málum af hálfu Stóra þjóðarógæfuflokksins. Komugjald til landsins væri miklu rökréttari leið, því þá væru þeir að borga sem ættu að gera það, en það vilja fjarstýrðir valdamenn ekki heyra og bera jafnvel fyrir sig að reglur erlendis frá komi í veg fyrir það.

En það er virkilega skrautleg afsökun frá valdhöfum sem hafa brotið reglur erlendis frá hvenær sem það hefur þjónað sérhagsmunum einkavinanna hérlendis. Sú spurning liggur líka í loftinu - hverjir skyldu nú halda í raun og veru um taumana í þessu skítamáli sem er auðvitað kallað þjóðþrifamál ?

Ég myndi aldrei fara á Þingvöll og borga fyrir það ! Ef þetta er náttúruperla þjóðarinnar þá á mér sem Íslendingi að vera frjáls að fara á Þingvöll hvenær sem ég vil. Og ég vil ekki vera arðrændur á slíkum stað. Ef það á að fara að selja aðgang að svona stöðum þá hætta þeir að vera náttúruperlurnar OKKAR, þá glata þeir smám saman gildi sínu í augum fólks, þá verða þeir bara náttúruperlurnar ÞEIRRA, aðilanna sem stefna að því að koma sem víðast upp skiltunum BANNAÐUR AÐGANGUR – og þá er átt við að venjulegt fólk eigi ekki að ganga þar um – authorized persons only – takk fyrir !

Við borgum skatta og skyldur sem íslenskir borgarar, en skattur af þessu tagi, viðbótarskattur, á þjóðina fyrir átroðning annarra, er óþjóðleg krafa og runnin undan rifjum þeirra sem aurapúkinn á með húð og hári. Það virðist sem græðgishugsunin frá fyrirhrunsárunum sé enn að velta sér á Valhallarplussinu ?

Það á að senda náttúrupassann, sjálfstæðisflokkspassann, Ragnheiðarpassann, hvað sem menn vilja kalla þessa dellu, þangað sem menn sendu þegnskylduvinnuna á sínum tíma, inn í fortíðina með stimplinum - VÍTI TIL VARNAÐAR !

Enginn verður af því sæll

eftir reglugerðum,

að lifa hér sem lotinn þræll

með landsins þunga á herðum !

 


Hugleiðingar um flokk sem senn verður 100 ára !

Það hefur vakið athygli margra glöggra manna og umræðu í því sambandi, hvað Framsóknarmenn nú á dögum virðast gjarnir á að semja við sjálfstæðismenn um samstarf, hvort sem er á þjóðmálasviði eða sveitarstjórnarstigi.

Sumir vilja meina að þetta sé orðið eitthvað ávanabundið ferli frá árum ríkisstjórnar-samstarfs flokkanna, þegar Framsókn varð svo skilmálalaus taglhnýtingur sjálfstæðisflokksins, að það lá við að hún hyrfi eftir efnahagshrunið.

Sú útreið var að margra mati verðskulduð afleiðing af þessari fíkn flokksins til hægri. En Framsókn hefur svo sem oft og einatt verið gripin af hægri fíkn í áranna rás, en þá var það kannski öllu frekar á sjálfsköpuðum forsendum.

En samstarf Framsóknar við sjálfstæðisflokkinn á árunum 1995 til 2007 virtist eiga sér stað með þeim hætti að Framsókn lagðist alveg undir stefnu sjálfstæðismanna, en lagði sína stefnu niður eða til hliðar. Frjálshyggjuandinn drap nánast samvinnuhreyfingarandann í Framsókn á þessum árum og það var vont mál.

Þá var flokkurinn sannarlega ekki að vinna í anda þeirrar stefnu að setja manninn og velferð hans í öndvegi og hreint ekki í þeim gír sem fylgdi félagshyggjubrautum.

Samvinnuhreyfingin var góð hreyfing meðan hún var og hét og til mikilla þjóðþrifa lengi framan af, en þegar menn eins og Hallgrímur Kristinsson féllu frá, komu aðrir inn í hreyfinguna sem höfðu ekki hugsjónaeldinn í sér gagnvart almennri starfsemi uppbyggingar og mannþroska. Þeir sem á eftir komu voru margir hverjir fyrst og fremst kjötkatla-hugsandi eiginhagsmunamenn af peningapúkagerðinni alræmdu.

Sumir þeirra sáu Bandaríkin í dýrðarljóma almættis auðsins og þjónuðu miklu frekar einhverjum sjónarmiðum gullkálfshyggjunnar en hugsjónum sem tengdust samvinnuhreyfingunni. Og jafnframt því sem afætunum fjölgaði innan SÍS fjaraði þar undan heilbrigðum viðmiðum. Síðast var svo komið að Sambandið tórði að heita mátti aðeins sem lifandi lík á forsendum banka og pólitískrar samtryggingar.

Þá var stutt í endalokin en einhvernveginn virtust menn þó ekki geta lesið rétt í þann lærdóm sem hin margvíslegu mistök og afvegaleiðsla frá hugsjónum bjó yfir. Það var bara látið sem það sem gerðist hefði ekki getað farið öðruvísi. En það er alrangt mat á því sem átti sér stað. Ástæðan fyrir óförunum var fyrst og fremst fólgin í sérgæðingshætti sem ól í sér margháttuð svik við góðan málstað.

Hugsjónir samvinnuhreyfingarinnar voru þannig í raun sviknar af ýmsum þeim sem áttu að telja það sitt heiðurs verkefni að verja þær og halda þeim á lofti. Þannig vann uppdráttarsýkin sitt verk og eyðilagði á tiltölulega skömmum tíma þessa ágætu hreyfingu. Eyðingin kom innanfrá. Það kom annar andi í bæinn og lagði hann undir sig – illu heilli !

Félagshyggjuhreyfing má aldrei undir neinum kringumstæðum verða gráðugum Mammonsöflum að bráð og fara að arðræna fólkið með sama hætti og þeir sem hún var í upphafi stofnuð til að berjast gegn !

Framsóknarflokkurinn hafði með pólitískum hætti mikil áhrif á Sambandið lengi vel og Sambandið á flokkinn. Þegar Sambandið var farið að ganga fram í anda sem var í raun öfugur við upphafleg stefnumið þess, ánetjaðist flokkurinn þeim anda á margan hátt í svipuðum mæli og það eitraði margt og skemmdi.

Kannski var ein afleiðing þeirrar eitrunar, stefna sú eða öllu heldur stefnuleysi sem flokkurinn tók upp og viðhafði á Halldórstímanum, þegar enginn fór að geta séð að Framsóknarflokkurinn væri neitt annað en útibú frá sjálfstæðisflokknum.

Á þeim tíma sló Framsókn nokkuð afgerandi met Alþýðuflokksins í íhaldsþjónkun og höfðu þó fæstir gert því skóna að nokkrir gætu gengið þar framar en kratar.

Nú þegar styttist í aldarafmæli Framsóknarflokksins er leitt til þess að vita og einkum fyrir þjóðholla félagshyggjumenn, að flokkurinn sé enn ekki laus við þann hvimleiða anda sem lagði hér fjármálakerfið í rúst og eyðilagði hag þúsunda Íslendinga. Uppgjör flokksins við hrunið bíður enn síns tíma !

Það virðist nefnilega orðið illleysanlegt vandamál í Framsóknarflokknum hvað undirlægjuskapurinn gagnvart sjálfstæðisflokknum er búinn að festa þar miklar rætur. Halldórsarfurinn er þar sýnilega flokknum enn tilvistarþungt tjóðurband !

Það virðist til dæmis ekki skipta máli þó niðurstöður kosninga undirstriki meirihlutavilja kjósenda til þess að Framsókn leiði mál í sveitarstjórnum í einstökum héruðum. Þrátt fyrir slík úrslit virðast Framsóknarmenn við slíkar aðstæður hafa ríka tilhneigingu til að bjóða sjöllum að stjórna með sér !

Ekki held ég að slík afstaða verði til þess að efla stuðning við Framsóknarmenn í framhaldi mála, því þegar þannig er á málum tekið, virkar það bara eins og þeir treysti sér ekki til að bera ábyrgðina af stjórnun mála einir og til hvers er þá verið að kjósa slíka menn ?

Margir litu svo á eftir hrunið að Framsóknarflokkurinn væri að ljúka sinni sögu, enda væri hann úrelt fyrirbæri í nútíma pólitík. Það er hinsvegar aldrei að vita hvað gerst getur og heldur hefur flokkurinn sótt í sig veðrið upp á síðkastið og náð að fá aftur viðurkennda hlutdeild í umræðu mála á stjórnmálasviðinu.

En ætli Framsóknarflokkurinn að treysta undirstöðu sína almennilega, gerir hann það áreiðanlega ekki með stöðugri þjónkun við sjálfstæðisflokkinn. Það er vísasti vegurinn til að hamla eigin gengi og falla aftur í verði á mælistiku kjósenda !

Það er von mín að Framsóknarmenn um land allt átti sig á því þegar kemur að árinu 2016, að sá merki áfangi sem felst í hundrað ára samfelldri flokkssögu, á líf sitt og kjarna í þeirri hugsjónabjörtu félagshyggju sem flokkurinn stóð fyrir hér áður fyrr og þeim einlæga samvinnuhreyfingaranda sem bjó í Framsóknarfólki til sjávar og sveita fyrr á árum. Þar virðist enn sá lífskraftur til staðar, sem getur gefið - þessum tilvistarruglaða flokki síðustu ára - aftur trausta undirstöðu og fullt verkefni til starfa fyrir þjóð og land um ókomin ár !

Án tengsla við þann lífskraft, getur flokkurinn aldrei orðið það sem hann ætti að vera né með trúverðugri málafylgju sett manninn og velferð hans í öndvegi í þessu landi !

 

 


Óvinafagnaðarofsi skáldsins !

Einar Kárason er einn af seinni tíma rithöfundum okkar sem hefur öðlast mikla viðurkenningu og líkast til að verðleikum. Skáldverk hans þarf ekki að kynna íslenskri þjóð svo þekkt eru þau mörg hver. En það er nú svo með okkur mennina að öllum getur orðið á og stundum verður jafnvel fimustu orðgörpum fótaskortur á tungunni eða þá að þeir missa stjórn á skapi sínu og þá verða slysin.

En í stað þess að játa hreint og beint gerða vitleysu, fara menn iðulega út í það að afsaka málið og þá vill það oftast verða með heldur klaufalegum hætti.

Ég hygg að Einari vini okkar hafi orðið þetta á um daginn. Hann sagði dálítið stór orð um dálítið stóran hóp fólks í landinu. Svo þegar viðbrögðin urðu nokkuð mikil og sennilega meiri en Einar hefur búist við, baðst hann að lokum afsökunar á „litlum pistli“ og sérstaklega líklega orðinu „landsbyggðarhyski“ sem kom fyrir í texta hans !

Það sjá það náttúrulega allir að pistill sem flytur slíka umsögn er ekki lítill að efni og kannski sýnir hann líka hvernig sumir sem búa á tilteknu horni landsins tala stundum niður til fólks úti á landi. Einar Kárason er það vanur því að fjalla um texta að það þarf líklega hvorki að segja mér né öðrum að hann hafi ekki vitað hvað hann var að skrifa !

En þarna ruddist hann fram á ritvöllinn, heldur herskár og að því er virtist reiður, kannski verið búinn að liggja eitthvað yfir Sturlungu, áður en hann rauk í að skrifa þennan pistil sinn, og þar með hugsanlega tekið óheppilegt mið af framkomu sumra „höfðingjanna“ þar.

En þetta upphlaup Einars er bara nokkuð sem snýr til hans aftur með neikvæðum hætti. Hann leggur með svona framgangi aðeins vopn í hendur þeim sem helst er kannski lítið um hann gefið, og sú skálmaldarhneigð sem virðist hafa drottnað yfir skilningarvitum hans við ritun umrædds pistils, hefur greinilega leitt hann dómgreindarlega afvega.

Ég finn dálítið til með skáldinu af þeim sökum, því að Einar Kárason er nefnilega búinn að gera margt gott fyrir okkur sem höfum gaman að góðri ritmennt og auðvitað viljum við að honum vegni vel og hann kunni sem best við sig á meðal okkar og fari ekki – eins og sumir aðrir - að finna sig uppi á ofurháu fjalli og fari þaðan að tala niður til okkar hinna !

Og ég get alveg bætt því hér við, að ég ætti kannski ekkert að vera að skrifa neitt sérstaklega um þetta mál. Það hafa Kári Gunnarsson og Sigurður Sigurðarson gert með prýðilegum hætti og þarf þar í sjálfu sér engu við að bæta, en samt ætla ég nú að leyfa mér að leggja orð í belg, ekki síst vegna þess að ég á nú að heita hluthafi í tilteknu hyskismengi, það er að segja landsbyggðarmaður !

Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að kveða eina vísu beint til Einars Kárasonar :

Óvinafagnaður er það klár

Einar – að þylja slíkar spár,

jafnvel þó maður sé svaka sár,

því svoleiðis kallar bara á fár !

Og í öðru lagi finnst mér ástæða til að kveða aðra vísu beint til Einars Kárasonar :

Það er nú Ofsi Einar minn

sem úthúðar dómgreind þinni,

að meiða í orði mannskapinn

sem mælist á landsbyggðinni !

Og í þriðja lagi finnst mér ástæða til að kveða þriðju vísuna beint til Einars Kárasonar:

Vont er að Skáld með skerpu og dug

skammist í fólki af reiðum hug,

og taki upp á því með töktum þings

að tala niður til almennings !

Og í fjórða og síðasta lagi vil ég kveða UM Einar Kárason eftirfarandi vísu:

Orðsins listir Einar kann,

æfður mjög í sproki.

En stundum sýnist svífa á hann

Samfylkingarhroki !

Og kannski var það helsta ástæðan fyrir því að Einar vinur okkar hoppaði svona upp og tapaði sér eitt augnablik ! Hroki er alltaf slæmur hvar sem hann kemur fram í mannlegum samskiptum og þetta afbrigði hans sem líklega hrjáir Einar er af mörgum talið sérstaklega illvígt og hjá sumum allt að því ólæknandi !

Vonandi er þó sýkingin ekki komin á svo hættulegt stig hjá okkar manni og megi hann sem fyrst finna sér einhver bótalyf við þessum fjanda og lifa svo eins og batnandi menn gera, sem átta sig allt í einu á því að þeir eiga vini um allt land sem ástæðulaust sé að óvirða !

Ég ætla svo að ljúka þessum - litla pistli - með einni saklausri viðbótar-vísu :

Þó margur skjóti fast – í geði grettur,

og grafi undan stoðum betri vonar,

lifa mun og leiða hjá sér slettur,

landsbyggðarhyski Einars Kárasonar !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 14
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 583
  • Frá upphafi: 365481

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 496
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband