Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2020

Ládeyða á Bessastöðum !

 

Það hefur ekki gustað mikið um forseta Íslands í gegnum tíðina. Þeir hafa flestir verið þægir og fylgispakir Fróðárhirð kerfisins og nánast aldrei risið upp í nafni fólksins gegn pólitískum yfirgangi sívirkra samtryggingarafla spillingar og arðráns í þessu landi, sem níðast á öllu því sem gott er !

 

Ólafur Ragnar sker sig þó nokkuð úr í þeim efnum, því hann hafði burði til að standa gegn hirðinni, en þó virtist hugur hans í þeim efnum oftast byggjast meira á því að varðveita sterkt ego en sterka þjóðarvitund um lýðræðisleg sannindi. Honum glaptist líka illilega dómgreindin í útrásarmálunum og mátti það þó furðu gegna um slíkan mann !

 

En líklega hefur Ólafur styrkt möguleika forsetaembættisins til áhrifa á sínum starfstíma, en sá ávinningur kann fljótt að glatast í höndum risminni eftirmanna. Það er trúlegt að Guðni Th. komi ekki vel út í samanburði við Ólaf Ragnar og gjaldi þess nokkuð að vera eftirmaður hans, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að það eina sem mælt getur með tilvist forsetaembættisins, er að það hafi eitthvert raunverulegt vægi í lýðræðislegum skilningi fyrir öryggishagsmuni þjóðarinnar !

 

Meðan við höfum einhverja fræðimenn og grúskara á Bessastöðum í embætti forseta, tel ég satt best að segja ekki líklegt að þar verði staðið mjög afgerandi á einhverri slíkri öryggisvakt. Og Fróðárhirðin yfir línuna mun eflaust kunna því vel. ,,Engin óþarfa afskipti !”

 

Sýn þeirrar hirðar á forsetaembættið er og hefur alltaf verið með þeim hætti, að þess vegna mætti sem best leggja það snarlega niður, því í þeim búningi sem sú hirð vill sníða því, mun það aldrei geta þjónað neinu nema hismi og hégóma. Fróðárhirð stjórnmálanna vill ekki fá neitt frá Bessastöðum nema viðvarandi ládeyðu !

 

Um Guðmund Franklín, mótframbjóðanda sitjandi forseta, vil ég hafa sem fæst orð. En menn gera ýmislegt nú á tímum til að vekja á sér athygli. Ferill manna segir hinsvegar yfirleitt best frá því hvernig þeir eru og þar ættu menn að leita sér upplýsinga, ef þeim þykir þörf á slíku !

 

Ég neita auðvitað ekki rétti manna til að bjóða sig fram, en að mínu mati hefði sá kostnaður sem fylgir þessum forsetakosningum betur nýtst þjóðinni í annað þarfara. Og maður sem býður sig fram með þeim hætti sem Guðmundur Franklín gerir nú, er að minni hyggju með eitthvað annað í huga en þjóðlega hagsmuni !

 

Það er aldrei gott að leika sér að lýðræðinu. Við þurfum öll að hafa það í huga að slíkt getur bitnað illilega á okkur sjálfum. Við eigum að umgangast lýðræðið með virðingu og á vitrænan og alvörugefinn hátt. Það mun bestu gegna fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar í nútíð sem framtíð !

 

En sem fyrr segir, ef forsetaembættið er aftur farið að vera tákn um viðvarandi ládeyðu á Bessastöðum, og fordæmi Ólafs Ragnars varðandi aukið gildi þess í þjóðarþágu þar með fallið út, er það eindregin skoðun mín að leggja eigi embættið niður og það sem fyrst !

 

 

 

 

 

 

 


Hið mikla geymir minningin

 

 

 

 

Hún mamma flestar stundir var að verkum

 

og vandist aldrei hvíld á sinni ferð.

 

Hún sköpuð var með skyldu anda sterkum,

 

ég skil það nú hvað hún var mikils verð.

 

 

Það metur sjálfsagt enginn eins og skyldi

 

þá eðlisgerð sem vígist fórnarlund.

 

En þessar línur þó ég kveða vildi

 

og þakka allt sem mamma vann í Grund.

 

 

 

Sú þjónusta sem þar var innt af hendi

 

var þrungin ást frá hlýrri móðursál.

 

Og hún mér margt um göfug gildi kenndi

 

og gaf mér sýn á lífsins höfuðmál.

 

 

 

Hún af sér gaf þar inn í dýpstu rætur

 

og afrek hennar voru stór og mörg.

 

Hún vann af gæsku verk sín fram á nætur

 

og var í öllum störfum Sigurbjörg !

 

 

 

Og konur eins og mamma voru víða

 

og vinnan þeirra öðrum mikið gaf.

 

Þær vildu kærleiksríkri hugsun hlýða

 

og hjá þeim aldrei neitt á verði svaf.

 

 

 

En oft þær voru þreyttar – það veit

 

Drottinn,

 

og þar um vitnar fjölmörg hetjuslóð.

 

Því andi þeirra af akri þeim var sprottinn

 

sem uppskeruna bestu gefur þjóð.

 

 

 

Ég veit í hjarta að vegsemd sönn þeim

 

mætir

 

í veröld æðri á helgum friðarstað.

 

Því hér á jörðu Guð að öllum gætir

 

sem gera sína skyldu og meira en það !

 

 

Rúnar Kristjánsson

 


Lýðveldið Ísland !

 

 

Þegar Ísland var lýst lýðveldi var þjóðin tilbúin að leggja af stað í leiðangur. Hefja vegferð til góðra mála og mannlífs sem gæfi forsendur fyrir að hver maður gæti notið réttlætis og virðingar í samfélaginu !

 

Margt hefur gerst síðan og sannarlega hefur margt áunnist. En margt hefur líka farið á annan veg en að var stefnt. Farsældarþjóðfélagið hefur ekki orðið eins og vonir stóðu til. Margskyns hindranir hafa komið í veg fyrir það, ekki síst hin samviskulausa sérgæska sem alltaf gleymist að gera ráðstafanir við. Samfélagsleg samstaða, jafnvel í mestu réttlætismálum, hefur því oft orðið minni en skyldi !

 

Við tókum upp á því að hafa forseta, sem einhverskonar yfir-blúndulagningu á lýðveldis-sköpunina og hefur mér aldrei hugnast sú ráðstöfun. Ólafur Ragnar hnykkti þó á því að embættið gæti virkað sem öryggisventill fyrir þjóðina í stórum vafamálum, en eftirmaður hans er ekki sérlega líklegur til að taka fast á málum þegar þannig staða er uppi !

 

Guðni er vafalaust gæðaskinn, og þeir hafa sjálfsagt verið það allir forsetarnir, en kostnaður og annað réttlætir ekki að vera með svona embætti bara fyrir hégómann, pompið og lúkkið !

 

Það hefði verið tekið eftir því í veröldinni ef við Íslendingar hefðum skorið okkur úr með þetta og viðhaft annað og betra siðamat. En þar féllum við á manngildisprófinu. Og nú eru hátíðisdagar eins og 17. júní notaðir óspart af forsetaembættinu til að drita út orðum, þó alltaf sé verið að tala um að stilla slíku í hóf. En sjaldnast verður haldið aftur af hégómanum !

 

Ég er þokkalega sáttur við að vera Íslendingur, en 17. júní er mér samt meira virði sem fæðingardagur móður minnar en sem þjóðhátíðardagur. Og þó er hann með vissum hætti þjóðhátíðardagur í mínum huga, einmitt vegna þess að hann er fæðingardagur móður minnar. Hún hefði orðið 90 ára í dag en varð bara fimmtug. Krabbameinið sá til þess eins og með svo marga aðra. Ástvinamissi verðum við öll að reyna !

 

Móðir mín fæddist á Sigríðarstöðum í Vesturhópi, bæ sem fyrir löngu er kominn í eyði. Engin var ljósmóðirin, faðirinn einn til staðar og hann tók á móti dóttur sinni. En þó allt væri líklega af skornum skammti af veraldlegum gæðum, var gleði ungu hjónanna vafalaust heil og sönn og þeirra fyrsta barn þar með fætt, heilbrigt og sterkt !

 

Þá var Ísland konungsríki, en sem betur fer losuðum við okkur við það stjórnarform árið sem móðir mín fermdist og gerðumst lýðveldi. En þá þurftum við endilega að vera svo þroskalítil að stofna þetta forsetaembætti………. til dýrðar hégómanum !!!!!!!!!!!


Leikið á svörtum nótum !

 

Margrét Thatcher er og verður goð á stalli hjá mörgum. Hún komst til valda í Bretlandi þegar frjálshyggjan reið þar húsum sem mest og var svo ljónheppin að hliðstæður valdhafi var vestanhafs í Hvíta húsinu nánast allan hennar tíma. Það skipti máli fyrir Thatcher að eiga frjálshyggju-bandamann þar, enda vegur breskur ráðamaður ekki mikið nú á dögum nema með því móti !

 

Það slitnaði því aldrei slefan milli Thatchers og Reagans meðan þau sátu að völdum, og auðhringar og önnur máttarvöld myrkranna, kunnu sér ekki læti því þetta voru sko leiðtogar eins og þeir áttu að vera - að þeirra mati. Þeir fengu svigrúm til alls og ef eitthvað skorti á var fyrirstaðan fjarlægð með einhverjum hætti. Thatcher var þannig alfarið pólitíkus fjármagnsaflanna og hins svarta íhalds !

 

Til allrar óhamingju var Verkamannaflokkurinn lengi vel í forustukreppu á hennar tíma og náði af þeim sökum enganveginn vopnum sínum. Hann stóð sig því hvergi í stykkinu og margir leiðandi menn þar orðnir deigir og linir og makráðir eins og krötum hættir svo til að verða. Margt fleira kom líka til sem létti kerlu róðurinn við að brjóta niður almenn velferðar markmið, en við þá iðju fann hún sig öllu öðru fremur. Seint verður um hana sagt að hún hafi verið hliðholl alþýðu manna !

 

Það var nokkuð snautlegt að Thatcher skyldi að lokum verða að víkja fyrir John Major, sem er líklega einhver litlausasti forsætisráðherra Bretlands, þótt þeir hafi nú nokkrir verið heldur rýrir í roðinu. En staðreyndin var sú, að eftir rúman áratug við völd voru nánast allir búnir að fá alveg nóg af

,, Járnfrúnni ” og yfirgangi hennar og frekju og henni var enganveginn stætt á því að sitja lengur. Ekki var því mikil reisn yfir endalokunum !

 

Það er haft fyrir satt að Thatcher hafi einhverntímann, eftir að hún flæmdist frá völdum, látið þau orð falla, að eitt helsta afrek hennar hafi verið að skapa ,,The New Labour !” Það hefur sennilega hlakkað í henni þegar hún lét þau ummæli flakka. Hún hefði líklega alveg eins getað sagt, að hún hefði skapað hægri /vinstri manninn ,, Tony Blair !”

 

Tækifærissinnuð hægri sveifla Verkamannaflokksins kom Blair til valda og það má alveg færa rök fyrir því að hann hafi blandað í stefnu flokksins ákveðnum skammti af Thatcher-isma, en Blair var alla tíð mjög ófyrirleitinn tækifærissinni. Heilsteypt stefna og framtíðarsýn var ekki til í hans vopnabúri. Hann spilaði á stöðu mála frá degi til dags og fór marga hringi ef honum bauð svo við að horfa. Kjaftagleiður var hann alla jafna og óforskammaður og blaðraði sig löngum í gegnum allt !

 

Þegar loks kom að því að hann eftirlét skugga sínum Gordon Brown forsætisráðherra-embættið munu fáir hafa saknað hans, svo illa var hann búinn að leika eigin orðstír. Það voru eiginlega allir svo fegnir að losna við hann, að það var í fyrstu ekki hugað mikið að eftirmanninum !

 

En Brown var í raun af sama sauðahúsinu en hafði hinsvegar enga útgeislun sem Blair hafði þó. Þegar hann tók við, var það eins og þegar Halldór tók við af Davíð. Þumbarar tóku við í báðum tilfellum og reyndust afleitir leiðtogar eins og við var að búast !

 

Það er vafasamt að breskt velferðarkerfi bæti stöðu sína í komandi tíð, því hvaðan ætti viljinn til þess að koma ? Kratar í Bretlandi virðast alfarið komnir á mála hjá fjármagnsöflum og markaðsvæðingar-postulum engu síður en íhaldsmenn og víðar má sjá svipað ferli eins og til dæmis í Svíþjóð, þar sem kratar hafa algerlega misst tengslin við fyrri hugsjónir !

 

Sennilegt er að almenn lífskjör versni á næstu árum í Evrópu og margt leiti í gamlan farveg með snobbi, konungadýrkun og skerðingum á almennum mannréttindum. Í þeim hópi sem aðhyllist hvað mest svarta íhaldsstefnu, endurvakta mismunun og fjárhagsleg forréttindi. verður nafn Margrétar Thatcher líklega alltaf ofarlega á blaði, en varla hjá öðrum !


Engum er Kári líkur !

 

Sú var tíðin að hér á landi lifði maður sem þótti afreksmaður mikill og að flestu leyti vel gerður. Sigurður jarl Hlöðvisson í Orkneyjum og Flosi á Svínafelli sögðu báðir um hann að hann væri engum líkur !

 

Það er kunnugt að sagan á það til að endurtaka sig. Nú er enn kominn fram á þjóðarsviðið maður að nafni Kári og munu ýmsir ætla að hann sé engum líkur, ekki síður en nafni hans fyrir rúmu árþúsundi. Hann er að minnsta kosti vígfimur til orðs og æðis og rökfastur í besta lagi :

 

Kári býsna brattur er,

birtir ræður fimar.

Magnaður í málin fer,

meira en lítið skimar !

 

Nútíma-Kári er eins og allir vita mjög vísindalega hugsandi maður. Hann kom að mér skilst frá Bandaríkjunum á sínum tíma, eftir ríkulega skólun þar, búinn til stórræða. Líklega var hann á þeim tíma með þá hugsjón helsta í klárum kollinum að kenna okkur mörlöndum æðri speki út frá hávísindalegum formúlum á ekta nútímavísu !

 

Það hefur þó gengið heldur illa, því við Íslendingar erum sjaldan ginkeyptir fyrir innfluttri háspeki og kjósum yfirleitt frekar hundaþúfuheimspeki átthaganna. Nútíma-Kári er því stundum þreyttur á okkur og meintu skilningsleysi okkar á boðunarhlutverki hans. En hann lætur ekki deigan síga fyrir því og talar beinskeytt gegn því sem honum finnst aðfinnsluvert og telur sig geta bent á lausnir í mörgu. Mætti því sem best kveða um hann á eftirfarandi hátt:

 

Forstjóri í verkum vaskur,

varast alla hleypidóma.

Er sem fleytifullur askur

flesta daga af þykkum rjóma !

 

Maðurinn hefur vissulega margt fram að færa og hann skimar víða og virðist hafa til að bera alsjáandi auga eins og Óðinn forðum. Hann hikar heldur ekki við sem fyrr segir að hafa það á orði sem hann sér, jafnt í fólki sem aðstæðum öllum. Um slíkt mætti sem best kveða eftirfarandi:

 

Skyldi hann hafa sjálfur séð

súra eins og fýlupoka,

tíu ára telpu með

talsvert mikinn eðlishroka ?

 

En hver er þessi maður, hann er vissulega umdeildur og menn hafa ýmsar skoðanir á honum. Er hann sjálfstæður yfirmaður vísindaseturs á rammíslenskum forsendum eða þjónustumaður erlendra lyfjahringa ?

 

Er hann harðsoðinn einkaframtaksmaður - eða er hann, og getur hann verið þjóðhollur jafnt fyrir því ? Eða er hann í öðrum og verri skilningi, enn einn hirðmaður erlendra hagsmuna á Íslandi ? Nógir eru þeir svo sem til eins og fyrri daginn. Hvar og hvernig er Nútíma-Kári nákvæmlega staðsettur á sviðinu sem persónuleiki ? ,,To be or not to be,” það er spurningin ?

 

Kannski vildi hann verða ríkur,

valda kaus að sleikja klíkur ?

En varla er hér annar slíkur.

Engum manni er Kári líkur !

 


Hversu lengi enn ?

 

 

Bandaríkin virðast enn á svipuðum slóðum í kynþáttamálum og þau voru fyrir hálfri öld, á tímum Kennedys og Johnsons. Oft hefur nú verið heitt í kolunum kringum þau mál í Suðurríkjunum, en ekki virðist staðan vera mikið betri í öðrum landshlutum !

 

Bandarísk lögregla virðist oft og iðulega vera fasísk í sínu framferði og almenn virðing fyrir mannslífum virðist ekki vera kennd mikið í hennar skóla, að minnsta kosti ekki virðing fyrir lífi svartra samborgara !

 

Að halda uppi lögum og reglu í Bandaríkjunum virðist ganga að miklu leyti út á það að vernda suma en ekki aðra. Afstaða lögreglu-yfirvalda virðist mjög mismunandi eftir því hver á í hlut. Sumir eru sleiktir upp endalaust en hrækt með fyrirlitningu á aðra !

 

Ekki fer slík framkoma í neinu eftir því sem forskriftir bandarísks borgarafrelsis hljóða upp á. Í þeim skilningi má hiklaust líta svo á að andi þrælahalds ríki víða í hinu margyfirlýsta landi frelsisins. Það er sannarlega ömurlegri veruleiki en hægt er við að una !

 

Bandaríska lögreglan virðist vera í stöðugu stríði við þá sem hún skilgreinir sýnilega sem einhverskonar undirmálsfólk. Ofbeldiskennd framganga hennar gagnvart slíku fólki hefur hvað eftir annað hleypt öllu í bál og brand.

 

Sumir halda að kynþáttamálin verði að lokum banabiti bandaríska ríkisins sem það mál sem aldrei var hægt að leysa. Píslarvottar úr hópi svartra Bandaríkjamanna eru orðnir margir. Listinn þar er langur og ógnvænlegur og setur kolsvartan blett á stjórnarskrá Bandaríkja Norður Ameríku !

 

Raunar veit enginn tölu fórnarlambanna því svo margir hafa horfið sporlaust. En nöfn píslarvotta eins og Martin Luther King, Medger Evers, Emmett Till og önnur halda áfram að tala til okkar um allan heim og krefjast réttlætis og borgaralegra mannréttinda !

 

Og nú bætist nafn George Floyd við sem enn eitt fórnarlamb þeirrar stofnunar innan bandaríska stjórnkerfisins sem ætti að hafa það að meginskyldu í öllum sínum störfum að hlífa en ekki höggva !

 

Bandarískum lögreglumönnum virðist oft byssan tiltækari en verstu bófunum í villta vestrinu, og það læðist oft að manni sú hugsun að tiltekin manntegund sé allt of áberandi innan raða lögreglunnar þar vestra !

 

Öfgakenndir og ofbeldissinnaðir hvítir hægrimenn sem nærast á kynþáttahatri virðast oft sýna sig sem andlit lögreglunnar í Bandaríkjunum og það er líka þekkt víðar um heim að slíkir menn reyni að þjóna lund sinni undir merkjum laga og réttar. Að þeir reyni að planta sér þar niður sem þeir ættu alls ekki að vera, og geta aldrei orðið til annars en bölvunar !

 

Það er ömurlegt til þess að vita hvað fyrri forsetum Bandaríkjanna hefur orðið lítið úr verki við það að ráða bót á kynþáttafordómum og mannréttindabrotum þar að lútandi í áranna rás. Enginn þarf heldur að búast við neinu framtaki í þeim efnum af hálfu þess forseta sem nú situr í ofdrambi sínu við völd í Hvíta húsinu !

 

Umrætt hús hefði svo líklega átt að heita eitthverju allt öðru nafni, nafni sem gæfi betur til kynna hverskonar ógnarvald eyðingar og ógæfu býr þar löngum innan veggja, bæði gagnvart eigin þegnum og umheiminum !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 20
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 589
  • Frá upphafi: 365487

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 502
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband