Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021
27.8.2021 | 17:25
Verum trú í því smáa !
Margir eru því marki brenndir að ganga með of háar hugmyndir um sjálfa sig. Jafnvel allt of háar. Það er ekki uppbyggilegt fyrir einn eða neinn og allra síst þegar menn eru einir um það viðhorf !
Hégómleiki sjálfsins er alkunnur og engum til aukins gildis. Þegar menn eru sífellt að upphefja sjálfa sig, er ástæðan oft dulin minnimáttarkennd sem brýst út með slíkum hætti !
Það er því löngum styttra milli minnimáttar-kenndar og stórmennsku-brjálæðis en margur hyggur. En þrátt fyrir allar mannlegar takmarkanir er samt hver maður sérstök sköpun og einstakur sem slíkur !
Og það sem hver maður þarf umfram allt að læra í lífinu er að ávaxta sitt eigið pund, því öðru pundi er ekki til að dreifa. En það gera menn ekki með merkilegheitum heldur með hógværð og aga !
Lítilmennska er auðvitað engum gildisauki, en lítillæti er jákvæður þáttur í persónuleika hvers þess manns sem það hefur. Það má ávaxta til mannlegrar sálargöfgi og hver sá vinnur sjálfum sér vel til þroska sem það gerir. Við tökum engin ávöxtunarpróf í þessu lífi í gegnum sérgæskuna !
Til hvers erum við hér ef ekki til að þroskast og verða betri manneskjur ! Það verða hinsvegar engir sem alltaf eru í því að hygla sjálfum sér og vilja fylla samfélagið af sérgæsku. Fari svo er heilbrigt samfélag búið að vera !
En ef við erum trú í því smáa erum við á réttri leið fyrir okkur sjálf og samfélagið. Erum við annars ekki í skóla í þessu jarðlífi, erum við ekki í grunnskóla hins æðra lífs ?
Þó að enginn sé sérlega áhugasamur fyrir því að vera af venjulegri manngerð, erum við það samt flest. Margir vilja trúlega vera óvenjulegir, en það er alls ekki öllum gefið og reyndar fáum þegar á heildina er litið !
Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hversvegna flestir séu, þegar allt kemur til alls, bara venjulegir menn ? Svarið við því er kannski ekki svo augljóst ...og þó ! Kannski var það einmitt Abraham Lincoln sem gaf rétta svarið við því !
Maður nokkur sem var með það í huga að gera lítið úr Lincoln, sagði eitt sinn við hann, að það væri ekki annað sjáanlegt en hann væri bara ósköp venjulegur maður. ,,Vinur minn, svaraði Lincoln góðlátlega, ,, Guð hefur mest dálæti á venjulegu fólki. Þessvegna hefur hann skapað langmest af því !
24.8.2021 | 11:09
Aðgreiningar-andi sérgæskunnar !
Það er með ólíkindum hvað manninum er gjarnt að kenna öll verk við einstaklinga hvort sem einhver rök liggja til þess eða ekki. Meira að segja má sjá þess merki í Biblíunni sjálfri. Opinberunin er kennd við Jóhannes þó hún sé opinberun Jesú Krists eins og segir í upphafi bókarinnar !
Lúther mælti sjálfur gegn því að nokkur kirkja væri við hann kennd. Hann sagði : ,, Ég bið yður að blanda ekki mínu nafni í málið. Þér megið ekki kalla yður lúterska, heldur kristna. Hver er Lúther ? Mín kenning er ekki mín. Ekki hef ég látið krossfestast fyrir neinn !
Ekki vildi Páll láta neina kenna sig við Pál eða Pétur, heldur Krist. Hvernig sæmdi mér þá, sem er ekki annað en vesalt duft og aska, að gefa börnum Krists nafn mitt ?
Hættið, vinir mínir, að hanga í þessum flokksnöfnum og vera með þessar aðgreiningar .. burt með það allt saman ! Vér skulum kalla oss kristna, eftir honum sem vér höfum kenninguna frá !
Þannig talaði Lúther, en þrátt fyrir þessi orð hans eru mótmælendakirkjur enn í dag kenndar við hann og talað um Lútherstrú. En það er engin Lútherstrú til sem slík. Boðun Lúthers fól í sér kröftug andmæli innan kristinnar kirkju gegn kenningarlegum rangfærslum sem þar voru farnar að ráða lögum og lofum. Mótmæli Lúthers og annarra leiddi til siðbótarvakningar innan kirkjunnar sem ekki var vanþörf á. Siðbótarkenningin er Krists !
John Wesley stofnaði ekki til neinnar nýrrar trúar. Hann var vakningar-prédikari innan kristninnar, innblásinn Guðs maður. Eftir lát hans varð Meþódistakirkjan til sem síðan setti fram sín aðgreiningaratriði !
Þannig er það um allan heim kristninnar. Jafnvel hvítasunnusöfnuðir viðhafa ýmsar aðgreiningar og hefði maður þó talið að þannig söfnuðir ættu að vita betur. En allir söfnuðir virðast haldnir af þeim anda, að vilja undirstrika einhverja kenningarlega sérstöðu sína, líklega til að eigna sér með mannasetningum kenningarlegt vald. Sú afstaða er ekki af því góða !
Að treysta Guði er örlagamál í lífi hvers manns. Savonarola segir í einni prédikun sinni af funandi andagift : ,, Hugsaðu aldrei, að frestun Guðs þýði neitun. Haltu áfram ! Haltu fast við þitt ! Gefstu ekki upp ! Þolgæðið er ómetanlegt. Ef enginn er óvinurinn er enginn bardaginn, ef enginn er bardaginn, er enginn sigurinn, ef enginn er sigurinn er engin kórónan !
Hvar vilja menn taka sér stöðu ? Hverju vilja þeir fylgja ? Er það ekki spurningin mikla ? Allt of margir láta draga sig inn í eitthvað sem fer með þá að lokum þangað sem þeir vilja ekki fara. Þá eru þeir komnir undir utanaðkomandi vald og þar með orðnir þrælar annarlegs hugarfars. Þá hafa þeir glatað samviskufrelsi sínu !
Það gildir varðandi alla hluti í lífinu að menn þurfa að varðveita eigið hugarfrelsi. Allir menn þurfa að gæta þess að halda því frelsi sínu á lífsleiðinni og gefa það í engu undir vald annarra. Engar mannasetningar eiga að fá að leggja það í kenningarlega fjötra !
Við erum ekki fædd til að verða þrælar. Við erum fædd til frelsis !
19.8.2021 | 14:20
Biden bull og Nató della !
Joe Biden er líklega hvorki betri eða verri en Bandaríkjaforsetar eru vanir að vera. Það er jafnvel hugsanlegt að hann geti orðið meðal þeirra skárri þegar allt verður talið. En eins og sumir þeirra hafa verið, er hann stundum illa upplýstur. Og það er slæmt mál þegar forseti Bandaríkjanna á í hlut !
Biden virðist engu betur upplýstur um málin í Afghanistan en John F. Kennedy var á sínum tíma um Svínaflóa innrásina, sem varð Bandaríkjamönnum mikill álitshnekkir á fyrsta valdaári hans. Þá lærði Kennedy líklega þá lexíu sem fæstir Bandaríkjaforsetar hafa lært - að CIA er í flestum tilvikum afleitur upplýsingagjafi !
Það var heldur neyðarlegt að heyra Biden forseta tala um afghanska herinn sem bardagahæfan og öflugan her upp á 300.000 manns, og hinar nýþjálfuðu og sterku sveitir sem kæmu til liðs við hann, og að þessi herafli ætti alveg að hafa í fullu tré við talibana sem væru um 75.000 talsins !
Á sama tíma og forsetinn var að bera fram þessa veruleikafirru, var afghanski herinn að leysast upp í skipulagslausan skara og hætta að vera her. Nýþjálfuðu sveitirnar gufuðu svo upp í framhaldinu eða samtímis og Bandaríkin og Nató sátu eftir með sárt ennið og svarta Pétur einan á hendi .. Það er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem það gerist !
Og á svipuðum tíma flutti afghanski forsetinn ræðu með áskorun um að nú þyrftu menn að standa saman og berjast fyrir því sem væri í veði, en á meðan var hann sjálfur að undirbúa flótta sinn frá landinu. Og heimildir herma að hann hafi ekki beinlínis farið tómhentur !
Hvernig stendur á þessum aumingjahætti öllum saman ? Jú, Bandaríkjamenn og forustumenn Nató virðast aldrei hafa skilið hugsunarhátt Afghana eða afghanska þjóðfélags-hætti yfir höfuð. Þeir ætluðu bara að búa til eitthvað nýtt þjóðfélag í Afghanistan líklega einhverskonar vestrænt Afghanistan !
En það var engin undirstaða til fyrir slíkt í landinu. Ættflokkakerfið er þar nánast allsráðandi og hollusta manna tengist flestu öðru fremur en ríkisreknu miðstjórnarkerfi. Kabúl hefur verið eitt og landsbyggðin annað, eins og við Íslendingar þekkjum til dæmis í gegnum margan vandræðaganginn hér. Spillt höfuðborgarmafía á auðvitað ekki að ráðskast með alla hluti, - hvorki í Kabúl né Reykjavík !
Og það er sama hvað her er vel vopnum búinn, ef hann veit ekki fyrir hvað hann á að berjast og hefur enga bitastæða forustu. Það hefur margsannast í hernaðarsögunni. Franski herinn sýndi það til dæmis 1940 að hann var merglaus og forustan engin. Enda hrundi hann við fyrsta högg !
Þá var reyndar líka sagt að Rauði herinn myndi hrynja á sama hátt við innrás, en það var nú eitthvað annað. Rússar hafa alltaf sýnt að þeir eru ódeigir við að verja land sitt. Menn verða að vita í huga sínum og hjarta fyrir hverju er verið að berjast !
Afghanir vissu það hreinlega ekki, enda er ríkishugtakið, sem fyrr segir, ekki sérlega sterkt í þeirra hugsanagangi, og þarlendir menn ekki aldir upp við það að þjóna slíku fyrirbæri. Auk þess var vaðandi spilling samfara valdinu í Kabúl og valdamenn flestir að reyna að græða á ástandinu - prívat og persónulega !
Nú er líklega allur vopnabúnaður hins mikla afghanska hers og nýju sveitanna kominn í hendur talibana og má því segja að Bandaríkin og Nató hafi lagt þeim allt það herfang í hendur. En hergögn frá Bandaríkjunum sem farið hafa til Pakistans hafa nú kannski líka ratað í hendur talibana ?
Ekki er ólíklegt að Biden forseti velti því nú fyrir sér, svipað og Kennedy forðum, hverskonar gögn það séu sem hann er látinn fá í hendurnar um framvindu mála. Og líklega er hann bara hundfúll. Það þykir sjálfsagt engum gott að standa frammi fyrir fulltrúum fjölmiðla heimsins og bulla !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
15.8.2021 | 15:44
Um tindátaleik táls og svika !
Þegar Vesturveldin, undir forustu Bandaríkjanna, fóru inn í Afghanistan fyrir 20 árum, að eigin sögn, til að hreinsa til, var veldi talibana þar, að margra mati, að hrynja. Landsmenn voru að stórum hluta búnir að fá nóg af hemjulausum yfirgangi þeirra og öfgahyggju !
En viti menn, það færðist fljótlega nýtt líf í hina fylgishrakandi hreyfingu. Og á 20 árum, hvorki meira né minna en fimmtungi aldar, hefur sýnilegasta afleiðingin af veru hinna erlendu hersveita í landinu verið - stöðug aukning á styrk talibana. Hvernig víkur því við ?
Jú, hinar erlendu hjálparsveitir hafa fært talibönum fullt af nýjum liðsmönnum, mönnum sem voru reyndar margir hverjir ekki ýkja hrifnir af talibönum áður. En loftárásir ,,góðu gæjanna á fjallaþorp og dreifðar byggðir í landinu hafa drepið fjölda fólks !
Maður sem stendur uppi einn eftir að eiginkona hans og tvö börn hafa kannski verið drepin með slíkum hætti, á ekki nema einn valkost. Hann gengur í lið með talibönum til að hefna dauða fjölskyldu sinnar !
Við brottför erlenda herliðsins hefur verið sagt frá því að nýjar hersveitir afghana hafi verið þjálfaðar til liðveislu við stjórnarherinn, en eitthvað er nú skrítið við þann gjörning. Talibanar virðast nefnilega valta yfir stjórnarherinn og þessar nýju liðssveitir eins og ekkert sé !
Héraðshöfuðborgirnar hafa fallið ein af annarri í hendur þeirra og tuttugu ára vera erlendra hersveita í landinu er ekki að skila neinu. Ætti góður málstaður ekki að geta sannað gildi sitt á 20 árum ? Jú, ef hann hefur verið góður, en niðurstaðan sýnir að þar hefur fátt verið sem skyldi !
Björgunarherinn mikli fer með skít og skömm frá Afghanistan. Það ætti að vera öllum ljóst. Brottför hans líkist engu öðru en flótta. Það er ekki hátt ris á hetjunum þegar þær snúa heim. Þar hafa menn sýnilega ekki ráðið við ætlað verkefni frekar en sovétmenn á sínum tíma !
Eftir alla hreinsunina og hjálpina er staðan verri en hún var í byrjun. Skipulagsleysið og aumingjaskapurinn hefur verið með ólíkindum !
Þeir fóru til að bjarga Írak, en gerðu þar allt verra. Þeir fóru til að bjarga Lýbíu og sama gerðist þar, og nú hljóta þeir þriðja skipbrotið í Afghanistan. Reyndar eru dæmin fleiri ef út í það er farið !
Talibanar hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum við öll afskipti vesturveldanna í Afghanistan. Þeir virðast hafa fullt af vopnum og hvaðan fá þeir þau ! Það væri sannarlega fróðlegt að vita ?
Og nú virðist liggja fyrir að afghanska þjóðin verði enn og áfram að þola kúgun og harðræði öfgasinnaðra múslima, manna sem hata ekkert meira en vesturveldin !
Og sennilega verður meðferðin á þjóðinni miklum mun harkalegri vegna afskipta vesturveldanna af innanlandsmálunum á þessum síðastliðnum tuttugu árum. Hefndarhugur talibana mun þar ráða ferðinni !
Það verður líklega enn og aftur hreinsað til með öfugum hætti. Aftökur verða líklega ekki svo fáar á fólki sem hefur unnið með andstæðingunum og þar með framið landráð að mati talibana. Það er hryllilegt að hugsa til þess sem getur gerst þarna á næstu mánuðum !
Sjálft Almættið forði sérhverri þjóð í þessum heimi frá slíkum ,,hjálparher, frá slíkum ,,björgunarmönnum, sem skilja við ástandið eins og það er og hafa verið þar hinir verstu orsakavaldar !
Einskis góðs var að vænta af þessu ruslaraliði erlendis frá, sem virðist ekkert hafa vitað hvað það átti að gera í Afghanistan og hefur eyðilagt miklu meira en það þykist hafa bjargað. Hvenær ætla menn að læra af reynslunni ? Hver er í þörf fyrir hjálp slíkra Vandala ?
Nató hefur nánast verið eins og strákur á stuttbuxum í samskiptum sínum við talibana. Þeir hafa sýnilega leikið sér að forustu þessa mikla varnarbandalags vesturlanda og haft ráðamenn þar að algjörum fíflum !
Loks virðist líka hafa verið svo komið að ekkert hafi heyrst annað á skrifstofum Nató en uppgjafarvælið eitt og tómt : ,,Komum okkur burt úr þessu helvíti !
Og nú flýr herafli Nató landið og skilur alla þá sem stóðu með honum eftir varnarlausa, til að verða fórnarlömb talibana. Og helvítið sem þeir tala um, hefur að miklu leyti verið búið til af þeim sjálfum, í gegnum allt þeirra öfugsnúna verklagsferli í Afghanistan, í heilan aldarfimmtung !
Hin ömurlega uppskera fer þar sannarlega eftir sáningunni. Hafi Nató skömm fyrir skilin !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook
13.8.2021 | 17:51
Ósiðirnir koma alltaf aftur !
Fíknin gamla gildis þunn
geldir heilsu fríska.
Nikotín í nef og munn
nú er aftur tíska !
Þegar ég var að alast upp á Skagaströnd var tóbaksnotkun mikil og reykingar þóttu flottar. Þetta var á þeim tíma þegar kvikmyndastjörnur voru varla myndaðar öðruvísi en reykjandi og slíkar myndir voru í öllum blöðum og tímaritum. Þaðan var stíllinn sjálfsagt tekinn !
Á þessum tíma var nokkuð um fólk sem bæði tók í nefið og vörina. Að mestu leyti var þar um eldra fólk að ræða, aðallega karlmenn, en þó voru til konur sem voru ekki síður hneigðar fyrir tóbaksnotkun með þessum hætti því þessi ósiður hafði vald á mörgum !
Mér er enn í minni hvernig þetta blessað fólk leit út, einkum sumir karlarnir. Það var alltaf útferð úr nösunum á þeim og tóbakslækir runnu úr báðum munnvikjum. Ekki verður sagt að þetta útlit hafi verið fólki til prýði, en því virtist alveg sama. Fíknin réði !
Svo leið að því að þetta háttalag lagðist mikið til af. Gamla fólkið sem stundaði það mest dó og líklega heldur í fyrra lagi af þeim sökum og aðrir tóku ekki við. Reykingar minnkuðu að vísu ekki, en þessi sóðalega tóbaksnotkun fór að miklu leyti að heyra til liðinni tíð. Og mikið var það gott !
En ósiðirnir koma alltaf aftur ! Á síðustu árum hefur þessi tóbaksnotkun blossað upp á ný og nú hjá ungu fólki. Tóbak er tekið í nefið og vörina og ungir strákar hafa þar forustuna og eitthvað er um að stúlkur geri þetta líka. Aldrei hefði mig órað fyrir því að slíkt gæti gerst !
Það háttalag sem helst mátti sjá til gamalla sveitakarla hér áður fyrr, er sem sagt komið aftur og það er ungt fólk í blóma lífsins, sem hefur tekið upp á því að ástunda það. Svo undarlega hefur tekist til, þrátt fyrir alla fræðslu í skólum og víðar um ótvíræða heilsufarslega skaðsemi tóbaks !
Það undirstrikar það líklega, að þroskaferli mannsins í þessum heimi, er í raun eins og einhver síbjánaleg framhaldssaga sem fer hring eftir hring í framvindu sinni og skilar aldrei marktækum ávinningi þegar til lengdar er litið. Við lifum þannig óaflátanlega í meintri hringrás heimskunnar !
Hver ný kynslóð sér til þess, í hofmóði ungdóms síns, að vekja upp aftur mistök og ósiði hins liðna, í stað þess að læra af reynslunni og gera betur !
9.8.2021 | 10:31
Forðumst ábyrgðarleysi, stöndum áfram vaktina !
Athyglisvert er hvernig tónninn hefur breyst síðustu dagana hjá yfirvöldum gagnvart Covid ógninni og nú er helst að heyra að ekki megi beita hörðum aðgerðum lengur. Það mætti ætla að heilbrigðissjónarmið hafi orðið að víkja fyrir viðhorfum þeirra afla sem vilja bara fá að græða hvernig sem á stendur. Það virðist svona einhver Trump eða Bolsonaro andi kominn í spilið sem ráðandi þáttur. Það boðar sannarlega ekkert gott ef svo er !
Og svo eru kosningar framundan. Pólitíkin er farin að lyfta sinni óhreinu krumlu og enginn flokkur virðist vilja tala fyrir hertum aðgerðum á þessum tímapunkti. Það gæti valdið pirringi og gremju meðal ýmissa hópa og leitt til fylgistaps...Ó,ó,ó, það væri nú bagalegt !
Svo enginn flokkur þorir að taka á málum eins og á stendur og stefnuleysið bitnar auðvitað á þjóðinni. Reynt er svo að kenna veikleikum heilbrigðis-kerfisins um og talað um að nú sé komið að endanlegum þolmörkum þar. Heggur sá er hlífa skyldi !
Það er auðvitað hinn aumasti fyrirsláttur. Heilbrigðiskerfið hefur staðið sig afburða vel í Covid-baráttunni og starfsfólk þar lagt sig fram öllum öðrum betur í stríðinu við veiruna og langt umfram skyldu. Þar hefur þjóðin sannarlega átt frábærlega frækna varnarsveit gegn faraldrinum !
En fjársvelt kerfi getur ekki endalaust staðið vaktina í þessu efni og það fyrir skilningslitla þjóð, sem þar að auki er búið að hálftrylla af peningagræðgi og sérhagsmunum !
Allt fjármagn á að fara í sérvasa og sem allra minnst til samfélagsmála. Það er viðhorf frjálshyggjuaflanna og hinnar óheftu markaðshyggju. Þjóðin skal alltaf rænd auðlindum sínum hvar sem er og hvernig sem á stendur. Danir hefðu aldrei staðið fyrir hliðstæðu arðráni og viðgengst hér í nafni innlendrar stjórnmálaklíku sem situr í skít upp fyrir höfuð !
Og hið pólitíska forustuleysi í málum lands og þjóðar er alvarlegasta meinið eins og á stendur. Enginn vill sýnilega axla ábyrgð á hertum aðgerðum rétt ofan í kosningar. Allir forustumenn eru greinilega að hugsa um flokkinn sinn, ekki þjóðina sem slíka !
Sannarlega má því segja : ,,Ekki er fríður flokkurinn eins og segir í frægri vísu um tiltekna hreppsnefnd. Þjóðleg forusta er það sem vantar hér, eins og reyndar oftast þegar þannig stendur á. Hún er þá hvergi !
En það þarf að berjast áfram sem fyrr fyrir öflugum sóttvörnum og allir verða að vera þar með og leggja sitt til. Þó að jafnvel Víðir virðist vera að linast í vörninni og kannski forustan öll, breytir það engu um alvarleika þeirrar stöðu sem við blasir. Við verðum enn og áfram að sinna þjóðlegri skyldu okkar sem felst í að vera ÖLL ALMANNAVARNIR !
6.8.2021 | 09:24
Um sagnfræði pólitísks rétttrúnaðar !
Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um sagnfræði, en vil helst hafa hana eins trúlega samfara sannleikanum og frekast er hægt. Margar heimildir í sagnfræðilegum efnum hafa þó sýnt mér, að sumir gera ekki miklar kröfur varðandi þá hluti. Menn virðast geta verið margskólaðir og gráðum girtir á þessu fræðasviði, án þess að gera sannleikanum hátt undir höfði í því sem þeir láta frá sér fara !
Oftast virðist þá um að ræða menn sem eru haldnir svo harðsoðnum pólitískum anda, að sagnfræðin verður bara eins og vinnukona úti í horni í hugsanagangi þeirra. Þeir vilja sjáanlega koma pólitískum rétttrúnaði sínum að í söguskoðun sinni, og virðast óhikað nota sagnfræðimenntunina sem áherslutæki í þeim efnum. Sagnfræðingar af slíku tagi eru því, að mínu mati, ekki merkilegir !
En þeir virðast hinsvegar hreint ekki svo fáir og það er meinið. Að trúverðugleika til, virka þeir þó líklega aðeins á þá sem kynna sér ekki málin og gleypa við flestu. Þeir sem skoða betur það sem sagt er eða fullyrt, sjá fljótt að ekki er vandað til verka og að það sem á að vera sagnfræðilegt heimildarrit er í raun áróðursrit !
Fyrir nokkru las ég bók um orustuna við Stalingrad eftir, að sögn - mjög virtan breskan sagnfræðing. Ég verð að segja að mér blöskraði framsetningin á efninu. Það sem sló mig strax var að mér fannst höfundurinn algerlega á bandi Þjóðverja og hann virtist aldrei setja sig úr færi með að úthúða Rússum í texta bókarinnar !
Það virtist skína í gegnum alla túlkun hans, að ef þýsku herirnir hefðu ekki gert svo og svo mörg mistök, hefðu þeir farið létt með að vinna þessa miklu orustu ..!
Það er eiginlega illmögulegt að skilja út frá bókinni, hvernig Rússum tókst yfir höfuð að sigra við Stalingrad, aðrir eins bölvaðir hálfvitar og þeir eru sagðir hafa verið og yfirstjórnin gjörsamlega ómöguleg frá grunni !
En bresk stjórnvöld virðast nú hafa skilið úrslitin við Stalingrad nokkuð öðruvísi en höfundur þessarar bókar og þessvegna hefur kóngurinn líklega verið látinn senda Rússum Stalingrad-sverðið sem sérstakt heiðurstákn vegna sigursins þar !
En hvað sem annars má um þetta segja, hef ég svo sem oftar fundið til þess að ýmsir sagnfræðingar, og þá kannski ekki síst breskir sagnfræðingar, virðast eiga nokkuð erfitt með að fjalla hlutlaust um mál þar sem pólitík kann að koma við sögu !
Mér fundust til dæmis efnistökin í umræddri bók sýna mér það ljóslega að eitthvað annað hlyti að liggja að baki hjá höfundi hennar en að koma réttum hlutum til skila !
Mér finnst það samt afskaplega ergilegt að upplifa, að menn sem ættu að hafa hlotið staðgóða menntun til ákveðins hlutverks á fræðasviði, reynist ekki færir um að standa þar vel að verki, vegna eigin fordóma og jafnvel pólitískrar öfgahyggju !
Mér er minnistætt að bók feðganna Randolphs og Winston Churchills yngra um Sex daga stríðið hófst eftir inngangskaflann á þessari setningu : ,, Það byrjaði allt með lygi rússneskri lygi !
Þar með var strax hægt að sjá, að pólitísk afstaða höfunda til mála myndi ráða textanum, en ekki hlutlaus umfjöllun á sagnfræðilegum grunni. Enda reyndist ritverkið ekki merkilegt !
Sumir sagnfræðingar, sem þá eru yfirleitt hægrisinnaðir og öfgafullir sem slíkir, virðast hafa mikla ánægju af því að skrifa um atburðarásina í seinni heimsstyrjöldinni, frá upphafi hennar og fram að árinu 1943. Þá voru nefnilega árásaraðilarnir í sókn og allt líklega eins og það átti að vera !
En eftir að Þjóðverjar misstu frumkvæðið í styrjöldinni og voru reknir til baka, alla leið ofan í nazistahreiðrið í Berlín, virðist ekki vera eins gaman af framvindunni. Þá virðist styrjöldin vera komin á ranga braut, að mati slíkra manna, og þar með ekkert varið í málin lengur !
Ekki er erfitt að geta sér þess til hverjum slíkir aðilar hafa óskað sigurs í styrjöldinni. Vondur er heimurinn margra hluta vegna, en hvernig halda menn að hann væri, ef hann hefði komist undir ógnarforræði nazista upp úr 1940 og öllu mannlegu þar með ýtt út af kortinu ?
Það gæti eflaust orðið fróðlegt að lesa bók sem gerði það mál að höfuðefni, en slíkt ritverk krefðist sannarlega höfundar sem væri eitthvað meira en ómerkilegur og öfgafenginn sagnfræðipólitíkus !
1.8.2021 | 23:53
Að hafna hisminu en halda kjarnanum !
Ég held að yfirstandandi tími sé á réttum mælikvarða einn mesti auðhyggjutími sem yfir landið okkar hefur gengið. Allt virðist metið til verðs um þessar mundir og auðgildið er látið breiða sig yfir allt manngildi eins og leiktjöld úr neðra. Það virðast hreint engar hugsjónir í gangi, aðeins lýðskrum og lygar !
Þetta er mikil afturför í andlegum efnum og sérstaklega er ámælisvert hvað margir virðast í dag telja óheiðarleika eiga að flokkast með sjálfsbjargar-viðleitni. Þjóðin hefur greinilega tekið nokkur skref aftur á bak í siðmennt og vandséð er hvort hún rati aftur inn á vegi dyggða og drengskapar !
Mammon er harður húsbóndi og það er orðið allt of margt fólk í þessu landi sem heldur að það eigi peninga en veit ekki að því er öfugt farið. Peningarnir eiga það !
Ég hef persónulega haft kynni af mönnum sem voru áreiðanlega að upplagi góðir drengir, en hafa orðið fórnarlömb Mammons vegna þess að þeir sóttust allt of mikið eftir peningum, sem er það sem hann notar mönnum mest til falls. Þeir hafa fallið fyrir skurðgoði efnishyggjunnar !
Einu sinni hét dagblað eitt verðlaunum fyrir bestu skilgreininguna á gildi peninga. Verðlaunasvarið var þetta : ,, Það er hægt að kaupa allt fyrir peninga, nema hamingjuna. Og þeir eru aðgangseyrir að öllu, nema himninum !
Norska skáldið Arne Garborg á að hafa ritað eftirfarandi skilgreiningu : ,, Það fæst allt fyrir gull, - eða peninga, segja menn. En það er nú ekki rétt. Það er hægt að kaupa mat en ekki matarlyst, meðul en ekki heilbrigði, mjúkar sængur en ekki svefn, gyllingar en ekki fegurð, glæsileik en ekki unað, skemmtun en ekki gleði, þjóna en ekki trúmennsku, náðuga daga en ekki frið. Í stuttu máli sagt. Menn geta keypt hismið en ekki kjarnann fyrir peninga !
Dwight Moody var eitt sinn spurður : ,, Hvað er lyndiseinkunn ? Hann svaraði :,,Lyndiseinkunn mannsins lýsir sér í hegðun hans þegar myrkrið skýlir honum !
Jú, ætli það sé ekki svo. Menn gera ýmislegt í leyndum og halda að þeir komist upp með það, en þeir gleyma því að það er alltaf einn sem sér !
Ríkidæmi efnishyggjunnar hjálpar engum til að höndla hið endanlega mark. Það ríkidæmi líður undir lok við andlátið. Jafnvel áður en sá ríki tekur andvörpin eru erfingjarnir kannski komnir í hár saman um arfinn.
Það er hin ömurlega niðurstaða ævilangrar baráttu einstaklings fyrir eftirsókn eftir vindi ! . Og slík barátta er líklega háð af fleiri Íslendingum í dag en nokkru sinni fyrr !
Lífið hér er aðeins skuggsjá hins raunverulega lífs. Hið eilífa líf í veröld Guðs er hið endanlega mark og að því marki ættu allir menn að keppa. Það eitt hefur varanlegt gildi !
Allt sem dregur hugsun og hjörtu manna í jarðlífinu frá því marki er falli og dauða vígt til frambúðar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 29
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 598
- Frá upphafi: 365496
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 511
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)