Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022

Hugleiðingar um framtíð sem verður kannski ekki lifuð !

 

Fróðlegt er að skoða veraldarsviðið út frá þeirri sviðsmynd sem kann að vera á næstu grösum ef hernaðarhyggjan fer stöðugt vaxandi og allir vilja veifa vopnum og halda víst að það sé leiðin til friðar, en svo er auðvitað ekki og hefur aldrei verið !

 

Nokkur ríki í heiminum eru það stór og fjölmenn að það er engum fært að reyna að hernema þau og ráða yfir þeim. Við getum til dæmis í því sambandi nefnt Bandaríkin, Brasilíu, Kanada, Rússland, Kína og Indland og raunar fleiri ríki !

 

Nokkur ríki eru þar að auki svo fjölmenn, þó þau séu ekki svo rosalega stór, að ógerningur væri að halda þjóðum þeirra niðri með hervaldi og hersetu. Það þyrfti milljóna her til þess og skæru-hernaður og andstaða við slíka hersetu krefðist mannfórna sem enginn árásarþjóð þyldi til lengdar. Þar yrði um margfalda Víetnam-styrjöld að ræða og ólýsanlegt rottustríð út í gegn !

 

Ef til stórstyrjaldar kemur milli Nató-ríkja og Rússlands út af Úkraínu-málunum er líklegt að framvindan verði sú að fleiri ríki muni fljótlega dragast inn í þá átakasögu. Enginn veit til hvers slík atburðarás kæmi til með að leiða. Þá mun dauðinn verða við allra dyr og hinsta sjálfskaparvítið, Ragnarökin sjálf verða ekki umflúin úr því. Eins og menn sá svo munu þeir og uppskera !

 

Það má nefnilega telja nokkuð víst að til kjarnorkuvopna muni verða gripið áður en lýkur. Strax og halla fer á annan aðilann í slíkri styrjöld mun hann nota það sem hann hefur til. Þar mun eflaust koma til hinn eilífi sjálfsvarnarréttur og sú hugsun að sælast verði þá sameiginlegt skipbrot og endanlegt fall. Það verður nefnilega aldrei neinn sigurvegari eftir kjarnorku-styrjöld !

 

Í slíkri styrjöld mun til dæmis bandaríska þjóðin fá að kynnast því helvíti af eigin reynd sem hún hellti yfir óbreytta borgara í Hiroshima og Nagasaki, almenna þegna sigraðrar þjóðar. Allt stjórnvaldslið Bandaríkjanna vildi endilega fá að prófa nýja leikfangið í nafni hins ameríska friðar, en sá falski friður hefur verið þjóðum jarðar dýr allt fram á yfir-standandi stund !

 

Kjarnorkan mun ekki hlífa neinum og enginn mun sleppa frá tortímingarmætti hennar ef til hennar verður gripið. Jafnvel Jens Stoltenberg mun ekki lifa slíkt af þó kok-hraustur þyki nú um stundir. Leiðtogar í austri og vestri munu farast ásamt þjóðum sínum. Engir Nató-sagnfræðingar munu verða eftir til að skrifa þá sögu og engir Rússasagn-fræðingar heldur. Allir verða dauðir og kannski verra en það !

 

Kjarnorkukafbátar í undirdjúpum hafsins munu sjá um hefnd fyrir óvænta árás ef út í það fer. Og hætt er við að stórborgir heimsins margar hverjar muni fá sinn blóðuga skammt rausnarlega útilátinn í dauða og eyðileggingu. Þeir sem lifa svo sjálfar sprengjurnar af munu síðan deyja miklu verri dauða af afleiðingum geisla-virkni !

 

Það mun þá toppa sig endanlega til hvers græðgi mannsins hefur leitt hann, þegar vítislogar kjarnorkustríðs flæða yfir jörðina og þetta heillum horfna mannkyn hefur útspilað sitt lífshlutverk !

 

Eru það slík örlög sem menn sækjast eftir og vilja fá yfir sig ? Það er nefnilega engu líkara en svo sé !


Hugsað við kaflabundið útsog alheimsdellu !

 

 

Í rústum hinnar fornu Babylonar fundu menn við fornleifauppgröft fyrir meira en öld, meðal annars leirtöflu, en á henni stóð stutt og laggott : ,, Líttu í kringum þig, allir menn eru fífl !“

 

Að þessari niðurstöðu höfðu menn komist um þúsund árum fyrir Krist og séð ástæðu til að koma henni skriflega áfram til eftirtímans. Hvað myndu þeir hinir sömu segja í dag ? Allur hroki og hégómi, valdafíkn og fáránleiki fornaldartímans hefur margfaldast á okkar tímum. Og hafi menn verið fífl til forna, þá hljóta þeir að vera margföld fífl í dag !

 

Margar eru dellur mannlífsins og fótbolti er ein af dellum þeim sem tröllríða nánast öllu og er löngu komin út fyrir alla dómgreindarlega stöðu. Menn sparka bolta á milli sín og milljónir áhorfenda tryllast af æsingi og margir troðast undir !

 

Milljörðum er eytt í kostnað og allskyns uppbyggingu til að halda leiki og þúsundir mannslífa fara forgörðum í upphafningu glæsileikans. Og þó allir viti um svörtu hliðarnar og að spilling og mútur séu í fullum gangi við sjónarspilið, falla menn unnvörpum fyrir framboðinu á brauði og leikjum enn sem fyrr !

 

Sama ferlið endurtekur sig æ ofan í æ á völlum þessarar spark-vitleysu og sjálfskipaðir spekingar spjalla um leiki fram og aftur og strjúka skegg sín, og konurnar eru komnar í þetta líka, hams-lausar af jafnréttishugmyndum varðandi spark-fræðileg viðfangsefni. Heilastarf-semi milljóna manna virðist öll hlaupin í öfugan líkamsenda og undirstrikar gömlu umsögnina með nýjum og kröftugri hætti en forðum – allir menn eru fífl !

 

Sérhver íþrótt á rétt á sér meðan um íþrótt er að ræða. En þegar íþrótt breytist í ómanneskjulegt auðgunarkerfi fer það heilbrigða við hana fljótt í vaskinn og eftir situr bara harðsoðið peningamaskínuspil. Fótboltinn er því miður löngu orðinn stór-iðnaður af því tagi og mótið í Qatar hefur sannað það í mörgu !

 

 

Einn vinur minn, sem ekki hefur fallið fyrir þessari dellu, spurði mig um daginn : ,, Af hverju hafa þeir ekki boltana fleiri, yrði ekki miklu meira fjör í kringum það ?“

 

Víst gæti það svo sem vel verið ! Fjölmenningin myndi líklega telja að það ætti að vera einn bolti á mann ? Ábendingu vinar míns er hér með komið á framfæri svo hanna megi nýja útfærslu af dellunni, til dæmis undir nafninu fjölmenningarbolti eða bara fjölbolti !


,,Júdasar“ stungnir í bakið !!!

 

 

Margt er að í nútímanum og má það finna jafnt hérlendis sem erlendis. Fjölmiðlar fara mikinn í lýsingum af spillingarmáli hjá ESB og virðast margir hverjir harmi lostnir yfir að jafnvel þar geti slíkt átt sér stað. Aðrir vilja halda því fram að spillingarmál séu hvarvetna til staðar í Evrópusambandskerfinu og fréttamenn þurfi ekki að láta eins og útsendari Satans hafi fundist í himnaríki !

 

Siðmenningarlega stöðu nútímans er hægt að mæla út frá mörgu sem gerist, en eitt sem segir þar sitt, er að menn sem leika Júdasarhlutverk nú á tímum eiga það til að kvarta opinberlega yfir því að hafa verið stungnir í bakið og eru fullir heilagrar vandlætingar yfir svo hræðilega svívirði-legum verknaði !

 

Slíkir menn eru orðnir svo siðvilltir að þeir snúa málum alveg á hvolf. Þeir sjá sig ekki sem gerendur vondra hluta, þeir upplifa sig þvert á móti sem fórnarlömb þeirra sem vinna vond verk. Júdasar liðinna tíma hegðuðu sér yfirleitt ekki þannig. Sumir þeirra iðruðust og játuðu brot sín síðar og sá sem er líklega hin ómeðvitaða fyrirmynd þeirra gekk út og hengdi sig !

 

Að vera Júdas og svíkja vini sína og félaga, svíkja skyldur sínar og yfirlýst markmið, er eitt af því lægsta sem lifandi maður getur lagt sig niður við. Og þegar sá sem það gerir ásakar aðra fyrir slík svik, er hann staddur í tómarúmi tálsýna og veruleikaskerðingar. Hann er orðinn að fórnarlambi eigin sjálfsmeðaumkvunar og vælir í öfugsnúinni eigingirni sinni ,, það er verið að stinga mig í bakið !“

 

Það er vont hlutskipti að reyna að vera maður þegar ekki eru lengur forsendur til þess. Þegar menn hafa fallið á því prófi. Ísland er nú í dag orðið ríki sem keyrt er áfram á kapítalisma og nýfrjálshyggju, eigingirni og hreint út sagt yfirgengi-legri græðgi einstaklingshyggjunnar !

 

Ónefndur frjálshyggjupostuli hefði eigin-lega átt að vera í æðstaprests-hlutverkinu í Seðlabankanum, en sennilega þykir hann orðinn of gamall, enda þarf enginn að efast um að núverandi seðlabanka-stjóri getur alveg sinnt því hlutverki og það jafnvel alveg í þeim anda sem krafist er !

 

Verkalýðsforingjar eru ekki lengur til á Íslandi. Í þeirra stað eru komnir sauðir sem reknir eru inn í rétt SA og látnir skrifa þar undir eitthvað sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað er eða hvernig það virkar. Þeir eru heldur ekki á neinu lúsarkaupi eins og venjulegir launþegar í landinu. En slíkir eru nú forustumenn verkalýðsins í dag og ekki er unnt að bera neina virðingu fyrir þeim !

 

Nýgerðir samningar eru nefnilega svik við launþega. Þar er um kjaralækkunar-samninga að ræða. Enn og aftur er verðbólgu og afleiðingum hennar velt yfir á launþega og þá mest sem minnst mega við því. Það er gamla sagan hjá hinni óþjóðlegu atvinnu-rekendaklíku landsins, að enginn ágóði í rekstri þjóðarbúsins eigi eða megi skila sér til verkafólks !

 

Enn er farið í spor hinnar göróttu og glæpsamlegu þjóðarsáttar, þar sem öllum kostnaði og skuldum óráðsíu-valdaaflanna var steypt yfir almenning í landinu. Svo voru tilteknir menn settir á háan stall og sagðir hafa unnið þjóðhagslegt afrek. En þeir voru bara duglausar druslur sem létu nota sig í innantóm sirkushlutverk !

 

Það var sem fyrr segir aldrei unnið neitt afrek með hinni svokölluðu þjóðarsátt. Hún var bara blekkingar-gjörningur sem hefði þessvegna getað verið kominn beint upp úr glóðum helvítis. Ljót voru svikin og óhreinlyndið í kringum það ferli. Og bölvunin frá því lygaspili er enn í virkasta gangi í samfélagi okkar því skíturinn frá því spillingarverki loðir áfram við allt !

 

Og það er engin furða þó menn, sem að nýafstöðnum samnings-málum komu, segist vera með óbragð í munni og telji það engan heiður að vera myndaðir með sumum öðrum. Þar virðist þó einhver sómatilfinning vera til staðar þó manndóms-styrkurinn og baráttu-hugurinn mætti hafa verið meiri á hólminum sjálfum !

 

Prímadonnustjórnin sem nú situr við völd, sem aldrei skyldi verið hafa, er heldur ekki verkalýðssinnuð í neinum skilningi þess orðs. Þar tryggja meirihlutavaldið herleiddir aumingjar sem töldu sig eitt sinn til vinstri, en eru núna þjónandi þeim auðvaldsöflum sem verst hafa alla tíð reynst almannahag á Íslandi og fara síst batnandi. Já, það er margur  Júdasinn í þessu landi !

 

Þó að fátt bendi til batnandi hluta, verður maður samt að reyna að viðhalda voninni um réttlætisdóma hins efsta dags. En það er erfitt að trúa á réttlæti í þjóðfélagi þar sem ranglætið ræður lögum og lofum til lands og sjávar og stjórnvöldum er alls ekki hægt að treysta !

En maður trúir því samt og vonar innilega - að allir Júdasar mannlífsins hafni að lokum á versta hugsanlega stað, vegna allra misgerða sinna, glæpa og svikasamninga, og þá á ég við – í svartasta helvíti !


Nokkrar tölur um flóttamenn frá Úkraínu !

 

 

 

Hér eru tölur frá 6. desember síðastliðnum um þau lönd sem tekið hafa við flestum flóttamönnum frá Úkraínu. Hér verða nefnd  þau tólf lönd sem eru þar efst á blaði með tölu þeirra flóttamanna sem þangað hafa leitað :

 

Rússland 2.852.395

Pólland 1.529.355

Þýskaland 1.021.667

Tékkland 467.862

Ítalía 173.231

Spánn 156.753

Bretland 147.800

Frakkland 118. 994

Slóvakía 102.873

Rúmenía 98.103

Moldavía 98.027

Austurríki 89.244

 

Ísland með sína 360 þúsund borgara, er skráð með 1976 flóttamenn frá Úkraínu og Bandaríkin, mesta björgunarríki veraldar, með sínar 332 milljónir, hafa tekið á móti 1610 flóttamönnum. Rússland, sem samkvæmt vestrænum fréttastofum er alfarið skilgreint sem ofsóknaraðilinn í þessu vonda dæmi, hefur þannig tekið á móti langstærsta hópnum af flýjandi fólki frá Úkraínu og aðrir komast þar ekki einu sinni í námunda !

 

Hvíta Rússland, eitt nágrannaríkið, hefur til dæmis ekki tekið á móti nema 17.260 flóttamönnum. En af hverju flýja úkraínskir borgarar í svo miklum mæli til Rússlands ? Gera má ráð fyrir að þar sé um að ræða í einhverjum mæli Rússa eða fólk af rússnesku bergi brotið, en fjöldinn er samt svo mikill og vekur ýmsar spurningar varðandi það sem er þarna í gangi, því yfirleitt flýr fólk helst þann aðila sem ofsækir það !

 

Eitt af því sem má telja að Úkraínustríðið hafi leitt í ljós, er að sjónvarpsstjörnur eru ekki heppilegir þjóðarleiðtogar. Að vera í valdahlutverki í veruleikanum er allt annað en að leika hetju í sjón-varpinu. Volodimir Zelensky hefði líklega aldrei átt að yfirgefa sjónvarpið þar sem hann gat verið hetja áfram á skjánum án ábyrgðar, með þeim leikbrögðum sem þar tíðkast !

 

En maðurinn er samt sem áður orðinn margföld hetja á Vesturlöndum og gengi vísast hokinn eins og hershöfðingi undir öllum þeim medalíum sem hefur verið hrúgað á hann þar á bæjum sem vænta mátti. En það er hvergi rétt gildis-viðmiðun að fá medalíur frá útlöndum, jafnvel ekki hérlendis !

 

Vonandi ganga þessar stríðshörmungar sem fyrst yfir og vonandi læra menn af því sem gerst hefur og varast að fara þar í fyrri spor. En ágangur Vesturveldanna til austurs verður að hætta. Það er eina leiðin til friðar í álfunni !


Um Natósagnfræði og nýlendusókn í austur !

 

 

 

Íslendingar hafa löngum verið miklir sagnamenn. Í sveitum landsins hér áður fyrr voru víða til bændur sem voru að margra hyggju meiri og betri sagnfræðingar en sumir þeir fræðingar á þessu sviði sem hampa þar flestum gráðum nú til dags. Þeir vildu nefnilega bara hafa það sem sannara reyndist !

 

Nú er öldin önnur og andinn annar. Það er líka farið að skera fræðigreinar niður í ýmsa yfir og undirflokka sem eiga að tákna ákveðin sérsvið og svo fá menn auðvitað sínar sérgráður upp á það. Það má aldrei vanta til að undirstrika gildi hvers og eins á þeirri menntadýrkandi hugaröld hégómans sem við lifum á !

 

Ein undirgrein sagnfræðinnar nú til dags eða öllu heldur yfirgrein er svokölluð Natósagnfræði. Þeir sem leggja sig eftir henni verða þannig auðvitað Natósagn-fræðingar. Þeirra hlutverk virðist vera að skoða söguna í því ljósi sem Nató gefur á viðfangsefnin !

 

Krafan um rétttrúnaðar-sjónarmið virðist þar vera töluvert meira höfð uppi við og gilda meira en einföld sannleiksleit gömlu bændanna í anda Ara hins fróða og annarra frumherja íslenskrar sagnaritunar !

 

Við ættum þannig að geta séð að svo-kallaðir undir og yfirflokkar sérsviða í sagnfræði geta verið varasamir fyrir þá sem vilja leita sannleikans. En líklega er þeim að fækka með hverju árinu sem það gera, þar sem engar kröfur eru gerðar til slíkrar ástundunar og jafnvel heldur amast við henni. Sannleiksleit á nefnilega aldrei neina samleið með imperíalískum sjónarmiðum í sögutengdum áróðri !

 

Sannleikurinn um Úkraínu-stríðið er til dæmis afar lítið til umræðu. Umræðan snýst öll um meinta grimmd og hrottaskap Rússa, yfirgang þeirra og ágang gagnvart réttmætu frelsi friðelskandi nágranna-þjóðar sem þar að auki er náin frændþjóð þeirra !

 

En af hverju eru Rússar svona vondir við Úkraínumenn og af hverju er aldrei fjallað beint um hina raunverulegu undirrót stríðsátakanna í hinni litríku fjölmiðla-umræðu Vesturlanda ? Er það kannski vegna þess að sannleikurinn er annar en látið er í veðri vaka ?

 

Fyrir rúmum 30 árum var sæmilega friðvænlegt í heiminum vegna þess að honum hafði að mestu verið skipt upp í áhrifa-svæði austurs og vesturs. Skilgreining þar að lútandi var í öllum meginatriðum virt af ráðandi öflum beggja vegna borðsins. En svo liðaðist sovéska ríkjasambandið í sundur og upplausn fylgdi í kjölfarið !

 

Allt í einu urðu kapítalistar einir um hituna í öllum málum, ekki síður í austri en vestri. Mikil gróðaveisla varð í kringum brunaútsölur á ríkiseignum í hinum fyrrverandi Sovétríkjum og alls kyns ræningjar óðu þar uppi og urðu moldríkir á svipstundu. Enginn var að hugsa um ríkis-hagsmuni Rússlands sem var þó líklega aðalerfingi þrotabúsins. Og þannig gekk  síðan ránskapurinn fyrir sig í nokkur ár !

 

Þegar frá leið þóttust vestrænir ráðamenn sjá að Rússland væri ekki svo ýkja burðugt þar sem Sovétríkin væru úr sögunni. Gamla sovéthræðslan fór því að renna af þeim. Þeir fóru síðan að velta fyrir sér nýjum möguleikum til aukinna áhrifa og valda í austri. Obama Bandaríkjaforseti sagði meira að segja, svo seint sem eftir hernám Krímskagans 2014, að Rússland væri bara miðlungsríki sem væri að reyna að spila sig meira en það væri !

 

Við þessar aðstæður þóttust Vesturveldin sjá ýmis sóknarfæri í breyttri stöðu og hugðust eins og Hitler forðum hefja sókn í austur og næla sér þar í aukin völd og nýlendur til frekara arðráns !

 

Þau hafa eignast bandamenn í úkraínskum ráðamönnum sem vilja ganga á mála hjá þeim. Þeir munu flestir hafa fengið sín laun fyrir þann stuðning en örlög úkraínsku þjóðarinnar virðast ekki á nokkurn hátt hafa verið innifalin í hinu viðskiptalega valdaframsali !

 

En í allri sinni margmilljarða dollara fjárfestingasókn í austur virðist skamm-sýnum ráðamönnunum í Brussel og Washington hafa með öllu yfirsést sú staðreynd, að það hlyti að koma að því að Rússar næðu vopnum sínum aftur og nú þegar hefur það komið í ljós og sannast með þeim hætti að allur heimurinn stendur á öndinni vegna ástandsins !

 

Framhald mála eftir aldamótin 2000 leiddi nefnilega til þess að Rússland var eftir 2010 aftur orðið gildisbært stórveldi undir eigin nafni og vildi sem önnur stórveldi umfram allt halda sinni áhrifa-stöðu alveg óbreyttri. Ásókn Vestur-veldanna til austurs og fjárhagsleg yfir-taka þeirra á ríkiskerfinu í Úkraínu hefur hleypt svo illu blóði í Rússa að þeir segjast nú til í allt. Hvað þýðir sú yfirlýsing þeirra ?

 

Hverjir eru í raun að ráðast á hvern ? Natósagnfræðin segir auðvitað að Rússar hafi ráðist á Úkraínu, sem er rétt svo langt sem það nær, en fjármálaleg innrás Vesturveldanna í landið til yfirtöku á auðlindum þess er samt orsökin !

 

Það var verið að breyta Úkraínu í leppríki Vesturveldanna með þegjandi samþykki úkraínskra ráðamanna, en ekki endilega með sama samþykki úkraínsku þjóðarinnar sem slíkrar. Þarna er því enn um að ræða átök austurs og vesturs um áhrifasvæði !

 

Vesturveldin hófu þannig ágang sem Rússar töldu sig þurfa að svara með fullri hörku og þeir hafa sýnt að þeim er alvara með það að líða ekki slíkt. Viðkvæmu valda-jafnvægi hafði þannig verið raskað og Rússar hafa sýnt að þeir munu alls ekki sætta sig við þær breytingar á fyrra valdahlutfalli sem er verið að framkvæma !

 

Natósagnfræði er ekki þeirra sterka fag nema þá í algerlega þveröfugum skilningi þess hugtaks. Þeir hafa sína andstæðu þar á móti og Rússasagnfræðin verður líklega seint vestræn fræðigrein !

 

Hvað verður er erfitt að spá um, en ljóst er að Efnahagssamband Evrópu og Bandaríkin telja sig verða að fá nýlendur sem fyrr til þess að lifa á arðráni þeirra. Arðrán hefur alla tíð verið undirstaða velmegunar Vesturlanda enda eru þau blóðsugu-arftakar Rómverjanna gömlu !

 

Rússar munu standa þar á móti með bandamönnum sínum, sem vita að röðin kemur síðar að þeim, ef Rússland heldur ekki velli. Möguleikar á stórstyrjöld eru alveg fyrir hendi þó úkraínska eldflaugin sem hafnaði á pólskri jörð nýlega hafi ekki náð að hleypa öllu í bál og brand !

 

Samt virðist Úkraínuforseti hafa gert allt sem hann gat til að fá fólk til að trúa þeirri staðhæfingu að Rússar hefðu skotið þessari eldflaug og fá þannig Nató inn í átökin sem hefði getað þýtt gjöreyðingarstyrjöld. Hvað gekk honum eiginlega til með svo hættulegum málflutningi fyrir örlög allrar heimsbyggð-arinnar ?


Pólverjar létu samt ekki lokkast og sýndu fram á að Rússar hefðu ekki átt þessa eldflaug, þannig að skýrri hugsun pólskra stjórnvalda á ögurstund er kannski það að þakka að ekki fór verr í það skiptið !


Stríðsæsingar hafa aldrei verið leið til neinna lausna í átakasögu þjóða, hvorki í gegnum Natósagnfræði eða aðra villuleiðandi sagnfræði !

 


Það er enginn hvati lengur !

 

 

 

Þegar íslenska þjóðin var að brjótast til bjargálna með stöðugu striti til sjávar og sveita, var það yfirleitt gert í þeirri frómu trú að einhverntíma myndu menn fá að njóta dugnaðar síns, þess afraksturs sem gengdarlaust strit fyrri ára gæfi af sér !

 

Og þannig varð það um skeið, þó arðrán væri jafnan mikið. Á efri árum gátu margir leyft sér eitthvað meira en áður var hægt. En nú er svo komið, að full ástæða er til að spyrja í hvað fer þjóðarauður Íslendinga ? Hversvegna er verið að spila allri velferð hérlendis út og suður vegna alls kyns ófriðarmála úti í heimi ?

 

Íslensk stjórnvöld virðast hafa tekið að sér að vera ,,samviska heimsins“ og því hlutverki fylgir hreint ekki lítill kostnaður. Þeim mikla kostnaði getum við Íslendingar aldrei staðið undir. Samt virðist sem verið sé að skapa hér einhverja séríslenska flóttamannaparadís fyrir allan heiminn og þar er sýnilega þjóðarhagsmunum Íslendinga að miklu leyti úthýst, líklega fyrir meiri og brýnni þarfir - að mati stjórnvalda !

 

Prímadonnustjórnin heldur illa á málum fyrir þjóðina og vonandi lýkur ömurlegu ráðsmennsku-hlutverki hennar sem fyrst. Forsætisráðherra getur þá helgað sig glæpasagnaritun það sem eftir er, enda verður hennar trúlega helst minnst síðar fyrir afrek hennar á því sviði, því varla verður um önnur að ræða eftir það sem á undan er gengið !

 

Nú er eiginlega ekkert lengur sem hvetur Íslendinga til að leggja hart að sér og byggja upp þjóðarbúið eins og áður var. Allir vita að arður af slíku, peningar uppsafnaðs þjóðarauðs, fara frá okkur en ekki til okkar. Þeir skila sér alls ekki til þeirra sem afla þeirra. Ríkisstjórn Íslands sér til þess alfarið frá A til Ö !

 

Allt er nefnilega svelt hér til þess að hægt sé að taka á móti sem flestum flóttamönnum. Síðasta dæmið er nöturleg staða Sjúkratrygginga Íslands þar sem forstjórinn sagði upp og treysti sér ekki lengur til að standa sína ábyrgðarvakt við síaukið fjársvelti. Það segir nú sitt þegar forstjórar á vegum ríkisins, haldast ekki lengur við í embættum sínum vegna vangetu til skyldugrar þjónustu !

 

Nú fara Íslendingar líklega að læra þá siði af flóttamönnum og hælisleitendum, að gera bara kröfur til annarra en sjálfs sín. Það er enginn hvati til annars. Það er eiginlega mesta furða hvað landsmenn hafa verið lengi að átta sig á því hvað það er miklu auðveldara að vera á annarra framfæri !

 

Nú virðast hinsvegar æ fleiri vera að grípa það að það sé tóm vitleysa að stunda vinnu, enda sé enginn leikur að fá mannsæmandi laun fyrir puðið. Miklu betra  sé því að láta aðra skaffa sér framfærsluna og vera ekki að slíta sér út fyrir ekkert. Svo Íslendingar fara trúlega að taka eins og aðrir undir mannréttindasönginn mikla og viðlagi hans : ,,Ég á rétt á þessu og ég á rétt á hinu“ !

 

En hvaðan eiga framfærslupeningarnir að koma, ef allir hætta að vinna ? Og hversvegna á fólk að vinna þegar öllu er stolið af því jafnóðum eins og gert er og lífeyrissjóðafé almennings er notað af yfirvöldum á allan hugsanlegan máta landsfólkinu til bölvunar ?

 

Ég held að við séum vitsmunalega farin að glefsa heldur mikið í eigið skott. Það er svo margt farið að verða að tómu rugli hérlendis.Inneignarlaus mikilmennskan fer að hefna sín meira en lítið senn hvað líður.Staurblind ófarnaðarstefna fjármála-heimskunnar eykst með hverju árinu og stefnir í öllu að því auma feigðarmarki að við verðum littlasta land í heimi !


Eru nógir peningar til ?

 

 

 

 

Enn hefur ekki fæðst sá auðkýfingur eða milljarðamæringur sem að eigin mati á nóga peninga. Enn hefur það ríki ekki sýnt sig í veröldinni sem á nóga peninga. Enn er ekki til það sveitarfélag á heimsvísu sem á nóga peninga og svo má lengi telja !

 

Eru nógir peningar til ? Ekkert virðist benda til þess. Mikið vill meira segir máltækið og græðgi þekkir engin takmörk. Vill Warren Buffett ekki bæta við auðlegð sína eða Bill Gates, já, eða Þorsteinn Már ? Er ekki líf þessara þriggja manna dæmi um það að lengi megi og þurfi að drýgja sjóðinn ? Og hvað með leiðtogana í Qatar, hvernig fara þeir með sitt pund eða sambærilegir furstar út um allan heim ?

 

Eru nógir peningar til ? Ef svo er, hversvegna er þá ástand þjóðmála hér eins og það er ? Allt er þar blekkingum bundið og í fölsku fari. Við Íslendingar höldum áfram að spila okkur stóra gagnvart umheiminum, guma af velferðinni hér og samt eru innviðir samfélags okkar að molna niður af fjárskorti og vöntun á skipulags-legri fyrirhyggju, einkum vegna hroka og glóruleysis ráðamanna ?

 

Eru nógir peningar til ? Það virðast reyndar vera til krónur í flóttamanna-strauminn sem flæðir inn í landið, en sannarlega ekki til að hlynna að heildar-hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það virðist sem sagt hægt að veita fjármunum óspart í mál sem eru í raun og veru ekki okkar mál. Við höfum nefnilega nógu að sinna þar fyrir utan og þurfum að sýna fyrirhyggju og skynsemi !

 

Eru nógir peningar til ? Svarið er auðvitað nei, en samt er ausið fé í margt til þess að halda andlitinu gagnvart útlendingum og undirstrika að við séum eiginlega enn sem fyrr stórasta land í heimi. Samt fylgja engin sannindi þeirri gyllingu sem sífellt er þó verið að flagga með óheyrilegum hroka af hálfu leiðra ráðamanna lítillar þjóðar. Kötustjórnin er orðin kvalræði fyrir 90% þjóðarinnar !

 

Eru nógir peningar til ? Eitthvað mikið vantar í þá staðhæfingu þó heilavönkuð stjórnvöld monti sig af ríkidæmi okkar og velmegun og ýti þannig stöðugt undir meiri straum flóttamanna og hælisleitenda, að koma hingað vegna þess að hér sé nóg til af öllu handa öllum. Rauði krossinn, sem virðist áhrifamesta pólitíska ráðuneytið í landinu, fer með himinskautum í fréttum sjónvarps og útvarps, í lýsingum af öllu því sem þarf að gera fyrir þá sem hingað sækja nú og eftirleiðis !

 

Eru nógir peningar til ? Er ekki löngu kominn tími til að spyrja : Hvað með okkar fólk sem er látið sitja eftir, öryrkja og fatlað fólk, geðsjúka, fólk með alvarleg veikindi, börn og gamalt fólk ? Alls staðar er vöntun á þjónustu og skyldugum aðbúnaði, dvalarheimili og skólar víða að grotna niður af myglu og skorti á eðlilegu eftirliti og frambærilegu viðhaldi húsa og mannvirkja. Rekstrarmál ríkis og borgar og fjölmargra sveitarfélaga í landinu í verulega slæmu fari og fátækt sívaxandi !

 

Eru nógir peningar til ? Af hverju gengur þá svo illa að gera samninga á vinnu-markaði fyrir launþega landsins, um hækkun launa til að halda í við síhækkandi framfærslukostnað ? Allt húsnæði er orðið miklu dýrara en nokkur sanngirni mælir með og matarkostnaður eykst stöðugt meðan þeim fækkar frá ári til árs sem ráða við hann. Á sama tíma belgir íslenska hræsnismála-ríkisstjórnin sig út og hefur áhyggjur af málum í Úkraínu og Íran !

 

Eru nógir peningar til ? Það geta aldrei verið nógir peningar til þegar farið er með þá eins og gert er á Íslandi. Auðlindir þjóðarinnar eru sem fyrr lagðar í spilltar og skítugar tröllahendur, almannahagur fyrirlitinn og sniðgenginn af stjórnvöldum og farið illa með allt sem ætti umfram allt að fara vel með !

 

Það eru sannarlega fleiri en furstarnir í Qatar sem vilja leika sig stóra á heimsvísu á kostnað allra heilbrigðra og góðra gilda !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband