20.8.2022 | 11:02
Úthaldsleysi eða hvað ?
Sú var tíðin að stjórnmálaforingjar landsins voru eingöngu karlmenn og frammistaða þeirra var upp og ofan eins og jafnan er. Sumir voru dýrkaðir af fylgjendum og hataðir af andstæðingum og var þar sjaldnast hóf á hlutum. Maðurinn er nú einu sinni eins og hann er og batnar lítið !
Það virtist sem karlar væru í pólitík fyrir lífstíð eða meðan þeir héldu heilsu. Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Benedikt Sveinsson eldri, Jón Þorláksson, Jón Magnússon, Ólafur Thors o.fl.o.fl.
Í seinni tíð hafa konur, í samræmi við breyttan tíðaranda, sótt mjög fram til áhrifa í pólitík. Þær hafa margar komist þar til hárra metorða en úthald þeirra í baráttunni virðist stórum minna en karlanna !
Þeir héldu áfram fram í heilsuleysi og dauða, en þær virðast flestar vilja draga sig fljótlega út úr slagnum og víkja að einhverju friðvænlegra starfi en líklega þó á góðu kaupi !
Margar hafa þær orðið ráðherrar og fengið talsverð völd um tíma, en svo er eins og þær koðni niður, missi áhugann á málabaráttunni og hverfi af sviðinu, kannski sárar, móðar og mæddar, og það eftir aðeins nokkurra ára vopnaviðskipti á hinum pólitíska vígvelli ! Og maður spyr sig óneitanlega, hvað veldur þessu meinta úthaldsleysi ?
Í þessum hópi sýnast mér vera Álfheiður Ingadóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Björt Ólafsdóttir, Eygló Harðardóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Jónína Bjartmarz,, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sigríður Á. Andersen, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig Pétursdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir ( reyndar komin aftur eftir hvíld ). Og reyndar mætti nefna nokkrar fleiri !
Af hverju er þetta svona ? Af hverju eru ekki einhverjar ,,Grand Old Ladies í pólitíkinni, reynslumiklar valkyrjur eftir áratuga glímu á hinu pólitíska sviði ? Er kannski einhver sálarleg skýring á þessu skammtímaskeiði kvenna í pólitískri forustu ? Hvað veldur ? Eru þær bara búnar á því eftir nokkur ár ?
Drífa Snædal hefur nú, sem kunnugt er, gefist upp við að leiða ASÍ eftir stutta formennsku þar, og nú er Kristrún Frostadóttir að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni. Það verður vafalaust logandi fróðlegt að sjá hvernig henni gengur að stjórna þar á bæ í allri jafnaðarmennskunni ?
12.8.2022 | 20:44
Að þola og þola ekki það er spurningin ?
Það fór sem mig grunaði, að Drífa Snædal myndi ekki valda því verki sem hún tók að sér og margir virtust halda að hún myndi gera. Afsögn hennar frá embætti forseta ASÍ staðfestir, að úthald hennar gagnvart þeim kröfum sem umrætt embætti gerir, reyndist ekki sem skyldi. Hún tók eiginlega aldrei alveg við embættinu, eins og ég hef áður sagt í pistlum varðandi þessi mál. Reynsluprófið verður fólki oft að fótakefli !
Þessar lyktir á afar skammvinnum forsetaferli Drífu Snædal innan ASÍ geta varla talist neinn sigurkrans á auknum valdasóknarvegi kvenna þar sem öll svonefnd karlavígi eiga að falla. Geta hennar til að sitja á fullum forsendum í stól forseta ASÍ, virðist í öllu falli geta talist mjög umdeilanleg eftir þessi starfslok !
Enginn maður, sem fram að þessu hefur gegnt stöðu forseta ASÍ, hefur að minni hyggju, talið sig setjast á einhvern friðarstól með því að takast á hendur umrætt embætti. Það segir sig sjálft. Það er tekist á um hin ýmsu mál og menn skipast í fylkingar með ýmsum hætti eftir því sem forsendur krefjast. Þannig hefur það alltaf verið !
Forseti ASÍ er í upphafi vafalaust kjörinn af meirihluta, sem talið hefur kjör hans æskilegt af ýmsum ástæðum, en svo getur fjarað undan mönnum og það jafnvel hratt, einkum ef þeir þykja ekki standa sig nógu vel !
Blokkamyndun eins og Drífa Snædal talar um með fyrirlitningu, hefur alla tíð verið til staðar í fjöldahreyfingum. Menn skipast þar í fylkingar sem takast á um markmið og leiðir. Þar er ekkert nýtt á ferðinni. Allir reyna að styrkja sína stöðu og efla málstað sinn. Í frjálsum félagasamtökum hlýtur frelsi manna til skoðana og samstöðu að vera þeirra réttur !
Ef Drífa Snædal hefur talið að hún væri sest á friðstól himinhæða í ASÍ þá hefur hún algerlega misskilið stöðu sína þar. Og ég held reyndar að hún hafi misskilið þar nokkuð margt. Kannski skildi hún ekki eðli baráttunnar og hin dýpri rök fyrir því að ASÍ þarf að vera til og standa undir nafni ?
Ef til vill átti Drífa Snædal ekkert erindi í þetta embætti ? Það virðist nú sem þeir einir sjái eftir henni úr forsetastóli þar sem helst myndu kjósa að launþegahreyfingin yrði ,,verulega hófsöm í kröfum við næstu samningagerð !
Það segir kannski sína sögu um ,,aðra blokk sem alltaf vill leika sér við litla fingur andskotans í kjaramálum alþýðunnar ?
En umsagnir falskra aðila af slíku tagi, eru auðvitað einskisverður áróður, frekast líklega til notkunar í fjölmiðlum, og hann byggist vafalaust á öðru en velvilja til verkalýðshreyfingarinnar !
En umsagnir af þessu tagi virðast samt sem áður benda til þess - að slíkir menn hafi enganveginn litið á Drífu Snædal sem sterkan leiðtoga ASÍ og vilji kannski helst hafa slakan leiðtoga þar á bæ ?
Sumir vilja meina að Jón Baldvinsson hafi verið besti forseti ASÍ og síðan hafi þeim hrakað að atgervi, jafnt og þétt. Erfitt er um slíkt að dæma, ekki síst vegna breytileika aðstæðna og tíma og fleira kemur þar líka til !
En nú liggur fyrir að Drífa Snædal sem kosin var til embættis forseta ASÍ á fljúgandi væntingafaldi 2018, er hætt störfum, hefur sagt af sér, er búin að fá nóg. Hún virðist því ekki hafa skilið þær karphússkröfur sem embættinu hafa alltaf fylgt og er sár og leið og kennir auðvitað öðrum um !
Vonandi fæst einhver drífandi manneskja í starfið, sem veit um þær byrðar sem því fylgja, og er fús til að axla þær fyrir hag heildarinnar. Það virðist nefnilega orðið býsna langt síðan slíkur leiðtogi var til sem merkismaður ASÍ !
4.8.2022 | 15:50
Leikið á svartar nótur um örlög Evrópu !
Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig staða mála væri í Evrópu ef Rússar væru bara ekki til ? Hefði þá ekki fyrir allnokkru síðan skapast fullkomið samkeppnisástand milli hins vesturevrópska Efnahagsbandalags og Bandaríkjanna ? Baráttan um peningalegan ávinning hefur löngum verið ráðandi afl afstöðumála í kapítalískum heimi !
Límið í samskiptum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna hefur um langt skeið byggst á tilvist Rússa vegna sameiginlegrar andstöðu þessara aðila við þá, einkum og ekki síst á heimsveldistíma Sovétríkjanna. En hvernig væri sú samstaða ef Rússar væru ekki til staðar til að viðhalda henni ?
Bandaríkin og vesturevrópska efnahagsblokkin eru á margan hátt markaðslegir keppinautar og enginn er annars bróðir í leik og síst í kapitalísku gróðahyggjuferli. Í Rússalausum veruleika væri þá sennilega til annarskonar varnarkerfi Bandaríkjanna, líklega byggt á sérútfærslu á Monroe-kenningunni, kannski North American Treaty Organization Nató í allt annarri merkingu en nú er !
Samstaða ríkja byggist oft á furðulegum snúningi mála eins og sannaðist best í Síðari heimsstyrjöldinni. Fyrirfram úthugsaðar stríðsáætlanir snerust þá illilega í höndum auðvaldsherranna, út af sérstökum sólóleik eins manns, og þannig skapaðist bandalag þjóða sem átti ekki og mátti ekki verða til og enginn átti von á að gæti orðið til !
Á grundvelli þeirrar málaskekkju hvílir heimsástand okkar samtíma enn að miklu leyti. En það er verið að reyna með ýmsum hætti að leiðrétta þá meinlegu útafkeyrslu réttrar framvindu sem átti sér stað 1940, og halda svo áfram eins og átti að gera þá. Við erum að sjá það raungerast þó hægt fari !
Nýlendutíminn fór afar illa með Vestur-Evrópuríkin, ekki síst í siðferðilegum skilningi. Á þeim tíma lærðu þau að lifa á því að vera blóðsugur og arðræna aðra. Bretland, Frakkland, Belgía, Holland, Spánn og Portúgal fetuðu öll þar sína glæpaslóð. Ítalía og Danmörk líka !
Sennilega á Þýskaland einna skásta sögu ríkja Vestur-Evrópu hvað fyrri tíma nýlendukúgun snertir, en það var bara vegna þess hvað þau komu seint til leiks. Sameining Þýskalands tafði þar mjög fyrir málum !
Fyrri heimsstyrjöldin braust út að talsverðu leyti vegna þess að Þjóðverjar voru svo afskiptir hvað varðaði nýlendur. Sameinað Þýskaland vildi nefnilega fá að verða blóðsuga líka, vildi ,,New Deal í þeim málum !
Afríkuríkin eru nú sögð frjáls, en það er víðast bara að nafninu til, því flest eru þau í fjármálaklóm gömlu nýlenduríkjanna með einum eða öðrum hætti. Og nú er sameinað Þýskaland sannarlega með í leiknum á heimsvísu ef hægt er að fá sér bita og ætlar sér hvergi rýran hlut. Fortíðin virðist vera hætt að hamla Þjóðverjum hernaðarlega séð og fer styrkur þeirra á því sviði mjög vaxandi rétt eina ferðina !
Meðan ýmsar viðsjár aukast þannig í Evrópu og gamla valda-reiptogið magnast og herðist, fylgjast mörg önnur ríki vel með ástandi mála ekki síst Kína og það er mikil spurning hvernig Kínverjar koma til með að halda á sínum málum við komandi aðstæður ? Líkur á því að Rússland auki orkusölu sína til Asíuríkja á kostnað viðskipta við Vestur-Evrópu hafa líka aukist verulega og þarf varla nokkur að furða sig á því !
Vandamál Evrópu eru margþætt og ekki síst tvíþætt. Flest Vestur-Evrópuríkin eru enn blóðsugur í pólitískum veruleika og hafa ekki lært að lifa án slíkrar blóðgjafar. Rússar eru enn til og passa ekki inn í neitt módel æskilegrar framvindu mála frekar en fyrri daginn. Sama gamla togstreytan um yfirráð og nýlendur er enn í gangi bara með breyttu sniði !
Sumir virðast svo halda í fjölmiðlablekktum samtíma, að það verði miklu fjörugra og meira spennandi á hinu pólitíska sviði í Evrópu ef við fengjum bara fleiri sjónvarpshetjur í leikinn sem forseta og þjóðarleiðtoga !!!
29.7.2022 | 14:12
Þriðja tilraun Tevtóna ???
Evrópusambandið hefur á síðustu árum virst vera að breytast alfarið í að verða pólitískt tæki Þýskalands til yfirráða í álfunni. Þar er þá kannski að komast í gang þriðja tilraun hernaðaranda ,,tevtónsku riddaranna til slíkra yfirráða á tímabili einnar aldar !
Það er ekki hægt að segja annað en þrjóskan og úthaldið sé drjúgt þar sem Berlínarvaldið á í hlut, og auðvitað hefur fylgt þar með mikill styrkur fjármálalegrar stöðu. Og hin strategíska þrákelkni og afl auðsins virðist hafa skilað sér afskaplega vel fyrir þýskan framgang í Brussel og náð yfirburða valdastöðu þar. Sá sem ekki sér það hlýtur að vera blindur !
Frakkar virðast nú vera þar eins og laufblað í vindi í höndum Þjóðverja og Bretar eru flúnir til baka yfir sundið eins og þeir hafa gert einu sinni áður !
Hliðstæða baktjalda valdasókn átti svo að nota til að gera Úkraínu að nýlendu hins nýja Tevtónavalds, nýlendu nr.1, en þá þurftu bölvaðir Rússarnir rétt einu sinni að standa í vegi fyrir ,, réttri sögulegri framvindu eins og það heitir á tevtónskri háþýsku. Alltaf þurfa þeir að vera til ills og bölvunar, jafnt sem kommar og kapítalistar !
Úkraína hefur löngum verið hugstæður biti í augum Tevtóna. Í hugmyndafræði nazismans átti hún að gegna stóru hlutverki sem kornforðabúr álfunnar og miðstöð í valdakerfi hins komandi Evrópuríkis !
Mörg línan var lögð í Berlín um 1940 og margt var sett á pappír sem aldrei komst til framkvæmda, varðandi framtíðarhlutverk Úkraínu. Réttur útdeilingaraðili allra landgæða þar átti að sjálfsögðu að verða Stór-Þýskaland, hjarta, höfuð og heili hinnar væntanlegu alþýsku Evrópu !
Já, valdadraumarnir risu hátt á þeim dögum í Berlín og fáir gerðu sér grein fyrir því að djöfull færi þar með völdin. En því miður gat ófreskjan sú spilað á öll auðvaldsöfl Þýskalands á þeim tíma og kallað þau til liðs við sig og leitt þannig sannkallað helvítisástand yfir alla álfuna !
Ný sókn skyldi hafin í austur - Drang nach Osten. Andi tevtónsku riddaranna óð yfir sviðið í fullu veldi og nú skyldi borgað fyrir ófarirnar á Peipusvatni 1242. Það var löngu kominn tími til þeirrar hefndar !
Alexander Nevskí hafði þá stöðvað frekari sókn Tevtóna til austurs, en nú skyldu austursvæðin falla í hendur þeirra að fullu og öllu. En enn sem fyrr var við sama gamla vandann að fást. Þann óþolandi vanda að Rússland er fullt af Rússum. Réttum 700 árum eftir orustuna á Peipusvatni blæddi Tevtónum því aftur út og að þessu sinni við Moskvu og Stalingrad !
En nú virðist eiga að hefja baráttuna og sóknina á ný og að þessu sinni út frá Brussel ekki Berlín. Það er auðvitað miklu klókara að gera út frá þeirri háborg auðvaldsins sem þar hefur verið sköpuð, enda er Brussel nú alfarið undir þýsku valdi Tevtónarnir ráða þar. Allt er þegar þrennt er, hugsa þeir líklega, og nú brjótumst við í gegn !
Og fylgjendur mun víst ekki skorta. Sagði ekki Paul-Henri Spaak fyrrum utanríkisráðherra Belgíu og formaður nefndar sem undirbjó stofnun Efnahagsbandalags Evrópu á sínum tíma: ,, Sendið okkur öflugan forustumann, hvort sem hann er guð eða djöfull, munum við taka á móti honum ! Þannig hafa viðhorfin verið og eru enn. Og nú er forusturíkið komið fram, þó að Foringinn dyljist enn að tjaldabaki en hann mun senn opinbera sig í makt og miklu veldi enn á ný !
Svíar og Finnar hafa breytt um stefnu, enda hafa þær þjóðir lengi verið hallar undir Tevtóna eins og önnur tilraunin sýndi best. Ráðamenn í Stokkhólmi og Helsinki vita líklega vel hver ræður í Brussel og þeim er trúlega ekki sérlega leitt að hlýða því valdi !
Og líklega fara ný eða endurunnin goð að rísa víða af hæstu stöllum í Evrópu í komandi tíð, Gustaf Adolf prins í Svíþjóð, Mannerheim marskálkur í Finnlandi, Pilsudski í Póllandi, Stefan Bandera í Úkraínu og hliðstæðir fuglar hér og þar. Það fer þá ný hetjudýrkun af stað. Og baráttusöngvar í anda slíkra goða kunna brátt að hljóma í veislusölum hins nýja valds og eru jafnvel þegar farnir að gera það !
Ó, Evrópa, Evrópa, Evrópa ! Ætlar þú aldrei að verða mannlífsreitur friðar og frelsis, þar sem hver þjóð fær að ráða sínum málum ? Er hinn rómverski kúgunarandi enn í dag á ferðinni í allra handa líki um lendur þínar ? Verður bölvun sú aldrei þvegin af skildi þínum, fyrr en í vítislogum kjarnorkustyrjaldar, við endalok mannkynsins ?
26.7.2022 | 14:26
Rússar nýkapítalistarnir í Evrópu !
Eins og vitað er, er Evrópa sem slík raunverulega engin sérstök heimsálfa, heldur öllu heldur skagi sem gengur vestur úr meginlandi Asíu. En vegna þeirra menningarlegu umbrota sem þar hafa löngum átt sér stað, hefur tíðkast að þjóðir þær sem búa á umræddu landsvæði vísi til Evrópu sem sérstakrar heimsálfu !
Látum svo vera ! Sumar þjóðir eru bara þannig gerðar að allt sem þeim viðkemur er og á að vera nafli alheimsins. Þar getum við innifalið Breta, Frakka og Þjóðverja og jafnvel nokkrar aðrar svonefndar Evrópuþjóðir !
En lítum aðeins á Söguna. Hvar hafa helstu vandamálin sem upp hafa komið í ,,höfuðheimsálfunni Evrópu reynt mest á ? Hvar skall Mongólabylgjan harðast á og hlífði þeim þjóðum sem vestar bjuggu ?
Austur í Rússlandi !
Hvar missti Napóleon stórher sinn og kverkatak sitt á þjóðum Evrópu ?
Austur í Rússlandi !
Hvar var Hitler stöðvaður og brotinn á bak aftur ?
Austur í Rússlandi !
Hvar á sú orka upphaf sitt sem heldur Vestur-Evrópu gangandi ?
Austur í Rússlandi !
Hvað þýða þessi svör á eðlilegu mannamáli ? Líklega það að Vestur-Evrópuríkin þurfa á Rússlandi að halda ? En þegar Rússar voru bolsévíkar og kommúnistar, voru þeir óalandi og óferjandi og ekki taldir hæfir í hinum hágöfuga félagsskap vestrænna séntilmanna !
En frá 1991 hafa Rússar hinsvegar bara verið kapítalistar og oligarkar, útrásarvíkingar og peninga-gráðugir auðmenn eins og þekkist í Vestur-Evrópu ! Enda voru þeir þar með viðurkenndir aðilar að G 8 hópnum ? Meira að segja taldir þar um tíma til prýði fyrir klúbbinn !
En eftir að þeir tóku Krímskagann 2014 fóru Vesturveldin í fýlu. Samt voru 68% íbúa skagans Rússar og landsvæðið rússneskt frá því á átjándu öld til 1954. Áður unnu Rússar skagann af Tyrkjum og Töturum !
1954 færði Úkraínumaðurinn og Sovétleiðtoginn Nikita Kruschev hinsvegar forræði skagans frá Rússlandi undir Úkraínu. Ekki voru Vesturlönd yfirleitt hrifin af ákvörðunum Kruschevs, en þessi á að þeirra mati að standa óhögguð og af hverju skyldi það vera ? Vegna þess að það þjónar pólitískum hagsmunum Vesturveldanna og hernaðarpólitík Nató !
Við hrun Sovétríkjanna hefði Krímskaginn átt að ganga til baka til Rússlands, en Jeltsin var alltaf fullur og því sjaldan með fullu ráði. Slíkir leiðtogar sem hann gera mörg mistök og Jeltsin gerði þau mörg á kostnað Rússlands. Oligarkarnir og Vesturlönd gengu þar fljótt á lagið !
Hvað skyldi annars valda því að Rússar mega ekki hegða sér út frá eigin hagsmunum eins og aðrar kapítalískar þjóðir ? Og hvað skyldi valda þvi að þeir þykja ekki lengur gjaldgengir í auðkýfingaklúbbinn ?
Svarið við því er einfalt ! Þeir leyfa sér allt of mikið. Þeir vilja jafnvel ráða sínum eigin auðlindum, ráða verðlagi þeirra og greiðslu-fyrirkomulagi. Þeir fara sínar eigin leiðir í öllu. Þeir hlýða ekki eins og Jeltsin !
Þeir vilja ekki lengur vera bara örlátir orkustuðnings-aðilar fyrir Brusselvaldið. Í stuttu máli sagt þeir vilja með hákapítalískum hætti fá sitt fyrir sinn snúð. En sú bölvuð frekja af ódannaðri og hálf-asískri þjóð !
Meintur yfirgangur Rússa er af gömlu nýlendu-kapítalista-þjóðunum talinn með ólíkindum. Þeir bregðast jafnvel við með beinum hernaðaraðgerðum þegar Evrópusambandið baslar í því með fullkomlega friðsamlegum hætti að innlima Úkraínu með fjármálavaldi !
Ekki þóttu Rússar góðir meðan þeir voru kommúnistar en þeir þykja jafnvel verri eftir að þeir urðu kapítalistar. Eru ekkert nema forhertir frekjuhundar !
Ég skil það reyndar ósköp vel. Í mínum huga verða engir menn betri við það að verða kapítalistar eða með öðrum orðum aurapúkar - jafnvel ekki Rússar !
En hvernig sem fer, verður fróðlegt að fylgjast með samskiptum Rússlands og Vesturveldanna á næstu misserum. Kapítalistar í Evrópu hafa nefnilega tvö ólík gæða-stöðustig, þar eru gömlu auðvaldsríkin skilgreind númer 1 og svo Rússland númer 2, 3 eða jafnvel 4 !
Líklega allt eftir því hvað ráðamenn lands og þjóðar þykja óliðlegir í samskiptum við rétta aðila og hvað Rússland fær þannig mörg refsistig hjá Æðstaráði Réttlætismála Evrópu í kastala auðhringanna í Brussel !
Kuldaboli verður líklega ágengur víða í Vestur-Evrópu á komandi vetri og að sjálfsögðu verður það Rússum að kenna eins og annað. En þó ekki rússneskum kommum heldur rússneskum kapítalistum !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook
24.7.2022 | 12:41
Naut í flagi !
Þegar menn eru með mikinn óhemjuskap og vaða áfram með miklum fyrirgangi og athyglis-sækjandi tilburðum, er þeim stundum líkt við naut í flagi. Það er eins og slíkum sé það eðlislægast að setja hausinn undir sig og bolast áfram í gegnum girðingar málanna !
Slíkir maður hefur mér virst Boris Johnson vera. Mér datt alltaf í hug naut í flagi þegar fréttamyndir sáust af honum og sjaldan hef ég séð svonefndan leiðtoga með jafn fráhrindandi takta. Maðurinn virtist inngróinn tuddi !
Nú er það svo að Bretar hafa ekki lengur neitt sérstakt vægi í málum þessa heims. Þeir hafa verið að síga saman allar götur frá því um miðja síðustu öld og það eina sem varir hjá þeim er drottningin sem virðist ætla að verða eilíf. Kóngafólkið lifir lengi nú á tímum, enda slitnar það ekki af erfiði !
Nú ráða Bretar ekki lengur í Indlandi en Indverjar virðast vera farnir að ráða nokkuð miklu í Bretlandi. Það er þó ekkert undarlegt við það þegar tekið er til þess hvílík fjölþjóðasúpa býr nú í Bretlandi !
Vilja því sumir meina að Bretar hafi ekki aðeins tapað stórveldisstöðu sinni á síðustu áratugum heldur líka þjóðerni sínu !
Boris Johnson er ólíklegur til að verða talinn í hópi þeirra forsætisráðherra Bretlands sem merkari hafa þótt. Það er eiginlega furðulegt hvað hann hefur verið seinheppinn í nánast öllum sínum athöfnum í Downingstræti 10. Hann hefur arkað með sitt ógreidda hár frá einu klúðrinu yfir í annað !
Það er eins og Bretar séu orðnir alls ófærir um að koma sér upp bitastæðum forustumanni. Kannski er úrvalið bara ekki lengur bitastætt sem úrval ?
20.7.2022 | 13:46
Arfleifð eymdarinnar sækir á !
Sú framvinda sem er í gangi og hefur verið í gangi langa hríð, varðandi líf mannkynsins á þessari jörð, hefur að mörgu leyti verið ferð til feigðar. Ekki bara vegna þess að við fæðumst og hljótum að deyja þegar þar að kemur, heldur vegna þess að við kunnum ekki fótum okkar forráð !
Og almennt séð höfum við aldrei lært þá lexíu sem nauðsynlegust er til vaxtar lífi og góðum gildum. Við lifum alltaf sjálfum okkur fyrst og fremst og fórnum litlu sem engu í þarfir náungans eða af mannlegri elsku til annarra. Það mun aldrei fæðast neinn maður með hugarfar Frans frá Assisi á Íslandi. Hér eru öll hin tíu boðorð ævitímans helguð últra-kapítalisma !
Og svo einn daginn erum við horfin yfir landamæri lífs og dauða með léttan mal og lítið veganesti, eftir vægast sagt ótrygga æviferð um viðsjált klækjaklungur sérgæskunnar. Einkunnarorð manna hérlendis eru löngu orðin Allt í eigin þarfir, og þannig er og hefur verið lifað - þroskalaust !
En Ísland verður ekki alltaf velmegunarland. Það munu koma þeir tímar sem snúa öllu á hvolf sem mönnum þykir snúa rétt í dag !
Mér virðist þegar ljóst að forsjónin sé byrjuð að telja niður velmegunar-forsendur mannlífsins hér á landi sem og reyndar víðar. Við höfum einfaldlega ekki staðist það próf sem eitt hefði getað forsvarað áframhaldandi lífsgæfu fyrir land og þjóð og skömm er óhófs ævi !
Hið daglega brauð mun verða vandsótt aftur og lífsbaráttan mun aftur snúast um hafa til hnífs og skeiðar. Engar gerviþarfir munu þá ráða lífinu heldur aðeins og eingöngu hin harðsótta glíma sem þreyta verður til að komast af. Fólk mun þurfa að hafa fyrir lífinu aftur !
Hinir efnameiri munu við þær aðstæður flýja til útlanda ef þar verður þá eitthvert skjól að finna. Öllu klúðri og öllum mistökum stjórnvalda verður sturtað niður til almennings og hann verður látinn borga ógæfureikningana eins og löngum fyrr, en þegar þarna verður komið verða þeir margfaldir að meinagildi !
Sú skuldastaða sem þá skapast mun valda stórlækkun á almennum lífskjörum og afæturnar munu þá hverfa burt úr landinu því þá verður ekkert hægt að éta frá okkur lengur. Innflytjendur munu heyra sögunni til !
Þá mun aftur verða til í landi þessu þjóð með eymd í arf, þjóð sem verður að gjalda stórra synda, þjóð sem hefur alltaf vantað sanna og heilbrigða forustumenn. Það forustuleysi mun hafa sínar illu afleiðingar !
Við Íslendingar höfum ekki sáð fyrir neinni framtíðargæfu því það gerir ekkert samfélag sem er sokkið í ágirnd og græðgi. Okkar eigið framferði mun dæma okkur. Við fljótum að feigðarósi og hljótum að uppskera arf eymdarinnar senn hvað líður !
Meðan við höfum ekki manndóm í okkur til að leggja kvótakerfið niður í núverandi mynd verður aldrei virðingarvert mannlíf í þessu landi !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.7.2022 kl. 13:06 | Slóð | Facebook
8.7.2022 | 20:20
Ofsóknirnar gegn Julian Assange !
Vesturlönd hafa lengi talið sig hafa einkarétt á frelsinu og hvernig það skuli túlkað. Þau hafa samkvæmt eigin skilgreiningum alltaf rétt fyrir sér en aðrir rangt. Þrátt fyrir mýmörg dæmi um glæpi og allrahanda misferli, kúgun og hverskonar svívirðingar, halda Vesturlönd í þessa ímynd sína þó að hún sé löngu orðin að engu í augum allra nema þeirra sjálfra !
Frelsisstyttan gnæfir við innsiglinguna til New York, þeirrar borgar sem er Babylon heimsins númer eitt á okkar dögum. En er þetta frelsistákn lýsandi fyrir stjórnarstefnu Bandaríkjanna, á slíkt frelsistákn við þar sem heimsvaldastefna er stöðugt í gangi ?
Nei auðvitað ekki, Bandaríkin og mannfrelsið eiga enga samleið á okkar dögum. Það sést með margvíslegum hætti og ekki síst með ofsóknum Bandaríkjavaldsins gegn Julian Assange !
Ef Bandaríkin væru það sem þau þykjast vera, heilbrigð og sönn, væru þau ekki að níðast á Julian Assange. Og þá hefði Assange ekki þurft að fletta ofan af þeim, þá hefðu þau ekki haft neitt að fela sem þoldi ekki dagsins ljós. Assange, sem og fleiri, leit svo á að afhjúpa þyrfti tvöfeldni þeirra og glæpsamlegt framferði með birtingu leyndarskjala myrkravaldsins !
Mannfrelsið krefst þess alltaf að borði mannlífsins sé haldið hreinu. Hver sem atar það út og óhreinkar það á skilyrðislaust að þola afhjúpun. En það er það sem Bandaríkin þola ekki. Þau þola ekki að sjá sína eigin mynd eins og hún er orðin í augum heimsins !
Þau ríghalda enn í Washington, Jefferson og Lincoln, þó enginn þessara manna myndi vilja sjá þau eins og þau eru í dag. Öll orð þessara frumherja ríkisins í ræðum þeirra og skrifum, æpa gegn framferði bandarískra stjórnvalda á okkar tímum. Slíkur er umsnúningurinn orðinn !
Julian Assange er í miklu meiri samhljómi við hugsjónir þessara frumherja Bandaríkjanna en bandaríska alríkið er í dag með allri sinni hræsni og öllum sínum samvisku-svæfandi stjörnustælum !
Bandarískt frelsi er ekki neitt sem kalla má eftirsóknarvert. Það er frelsi hinna ríku til að féfletta og kúga þá sem eru minni máttar. Það er lygafrelsi sem innifelur í raun ófrelsi. Bandaríkin upphefja sífellt öfugt mannfrelsi, frelsi hins vopnaða til að skjóta hinn óvopnaða, frelsi ranglætisins til að myrða réttlætið. Allar ódyggðir Evrópu virðast hafa margfaldast á síðari tímum í hræsni og hroka hins villuráfandi ofurveldis Norður Ameríku !
Þau eru ófá ríkin í heiminum sem hafa látið ofsækja, fangelsa og jafnvel drepa menn eins og Julian Assange og þar geta verið um að ræða ríki sem margir trúa til allra vamma og skamma. En hvernig er heimurinn orðinn þegar ríkið sem átti að vera svo gott og ærlegt er orðið engu betra ? Já, jafnvel verra en vondu ríkin og hættulegra fyrir eðlilegt mannfrelsi !
Ef Bandaríkin væru það sem þau þykjast vera, myndu þau heiðra Julian Assange í stað þess að ofsækja hann. Það er sterkasta sönnunin fyrir því hvað þetta höfuðríki Vesturveldanna er komið langt út af réttri braut, að það ofsækir menn sem vilja gera rétt menn eins og Julian Assange !
5.7.2022 | 17:29
Vertu lax en ekki marglytta !
Til er dæmisaga sem segir frá því að lax og marglytta hafi mæst í miðjum sjó. ,, Munur er á, sagði marglyttan. ,,Ég læt straumana létta mér lífið og bera mig varlega vítt um sjá, en þú stritar móti straumi og dasast til dauða. ,, Varla ertu öfundsverð, mælti laxinn. Þegar hvessir og stormur hvín, stækka æstar öldur, sem lemja þig á land og þú ferst í fjöru. Þar liggur þú límd við hleina eins og hrákaklessa, öllum til ama og andstyggðar. Menn láta eigi lítið um mig en þig forðast allir og fyrirlíta og spyrna við þér sem sparði. !
Hvað lesum við út úr þessari dæmisögu ? Þarna sjáum við fyrir okkur lýsingu á tveimur manngerðum. Við sjáum þann sem flýtur með í öllu og hinn sem berst gegn straumnum. Við sjáum þann sem hefur enga sjálfstæða hugsun og engan vilja til annars en að vera með meirihluta líðandi stundar, og við sjáum hinn þann sem er tilbúinn að fórna miklu fyrir að standa fast á sínu og vera hann sjálfur !
Fyrri manngerðin er eins og við vitum fjölmenn og alls staðar auðfinnanleg meðal sérhverrar þjóðar, en hin seinni er ekki fjölmenn en þó enn sæmilega finnanleg. Og þú sem lest þessar línur, hvar ert þú staddur í þessu samhengi ? Ertu marglytta eða lax ?
Skáldið Bjarni Thorarensen yrkir svo varðandi laxinn og lífshætti hans :
,, En þú sem undan
ævistraumi
flýtur sofandi
að feigðarósi,
lastaðu ei laxinn,
sem leitar móti
straumi sterklega
og stiklar fossa !
Laxinn sinnir sínu lífshlutverki með virðingarverðum hætti. Hann tekst á við flúðir og fossa og hættur í hafi og ám, til að skila sinni skyldu.Það er hans hrós !
En marglyttan er áttavilltur aumingi. Hún veit ekkert á hvaða leið hún er. Hún hugsar bara um það að fljóta fljóta eitthvað. Ytri aðstæður ráða öllu í hennar tilveru. Hún er í engu eftirbreytni verð !
En samt eru lífshættir fjölda manna í stíl við staðleysulíf marglyttunnar. Þar á svo sannarlega við lýsingin að fljóta sofandi að feigðarósi !
Menn fljóta í hugsunarleysi værðar um villuslóðir allt sitt líf uns dauðinn tekur við þeim, hafa ekkert unnið sem virða má og hafa eytt lífi sínu 100% í hégóma og vitleysu. Hafa verið á tilgangslausu reki allt sitt líf !
Þú sem lest þetta, ég bið þig, þín vegna, hugsaðu þinn gang, hafnaðu því hlutskipti að vera marglytta, reyndu heldur að vera lax. Vertu þér og þínum til sæmdar og lifðu með réttlætiskennd og sannleika að leiðarljósi, sama hvað þú þarft að fara ,,sterklega gegn straumi í villuferli tíðarandans !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook
1.7.2022 | 21:40
Leitað í gömlu skotgrafirnar !
Það sannast enn á ný í Úkraínustríðinu, að leiðtogar Evrópu eiga engin ráð önnur þegar alvarlegur ágreiningur verður milli ríkja, en að koma sér niður í gömlu skotgrafirnar. Alþjóðleg samtök sem áttu að draga úr hættu á árekstrum, eins og Sameinuðu þjóðirnar hafa fyrir löngu tapað allri tiltrú !
En hvað er þá til ráða ? Af hverju fer þetta alltaf svona ? Fyrri heimstyrjöldin átti að vera síðasta styrjöldin og Þjóðabandalagið var stofnað til þess að svo yrði. Pólitíkusar eyðilögðu bandalagið á fáeinum árum með gjörspilltu framferði sínu og gengu svo frá málum að seinni heimsstyrjöldin varð óþverrafætt afkvæmi þeirrar fyrri !
Eftir seinni heimsstyrjöldina var farið í sama leiðangur. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til að koma í veg fyrir styrjaldir, en eftir nokkur ár var sú tilraun til friðar eyðilögð líka í gegnum gjörspillta pólitík þar sem enginn lyfti hreinum skildi eða talaði sannleika !
Og nú eru Sameinuðu þjóðirnar ónýtt verkfæri sem hefur verið sett út í horn í áhaldahúsi Vesturveldanna og enginn metur það til nokkurs nýtanlegt í dag. Og með hverjum deginum sem líður nálgast mannkynið sitt eigið sjálfsmorð.Sjálfstortímingarandinn fer með algerri kæruleysisvímu sinni hamförum um alla jörðina !
Svíþjóð sem hefur notið meiri friðar í tvær aldir en nokkur önnur Evrópuþjóð vegna hlutleysisstefnu sinnar, telur nú hag sínum best borgið innan hernaðarbandalags. En það er ekki reynsla Sögunnar sem veldur þeirri viðhorfsbreytingu heldur pólitískar skoðanir þeirra sem nú fara með völdin í landinu. Og áróðurinn segir að fólk sé miklu öruggara fyrir vikið !
Churchill kallaði Svíþjóð á sínum tíma ,,litla hugleysingjalandið af því að Svíþjóð lét ekki teyma sig í dilk hernaðarhyggjunnar. En Svíþjóð sigldi sínum bát farsællega í gegnum styrjaldar-umrótið í álfunni og komst að mestu leyti heil í höfn frá því. Leiðtogar landsins sýndu ábyrgð og festu fyrir þjóðarhag og voru sjálfir í brúnni við stjórn !
En nú er annar andi ráðandi þar á bæ og varla 200 ára friður framundan í lífi Svía, ef að líkum lætur. Þjóðfélag sem verður markað hernaðarhyggju breytist með ýmsum hætti og ekki til hins betra !
Annars verður hver þjóð að taka ábyrgð á sínum örlögum og kannski eru valdaöfl Evrópu enn sem fyrr með það í fórnfrekri hugsun sinni að sælt verði sameiginlegt fall. En hvernig á slíkt fall að geta orðið sælt þegar kjarnorkuveldi fara að takast á um valdahlutföllin í álfunni ?
Þegar hernaðarhyggjan ræður ferð, þyrpast menn niður í gömlu skotgrafirnar. Þegar áhrif hennar dvína, vegna þess að hún leysir aldrei neitt, koma menn upp úr þeim og fara að talast við. Þá tekur vonin við um tíma þar til þeir komast aftur á skrið sem vilja eyðileggja og tortíma !
Þannig hafa málin gengið til þessa. En það hljóta flestir að sjá að leiðir þær sem menn þykjast hafa verið að fara til friðar undanfarna áratugi hljóta að vera rangar. Ávinningurinn er svo smár og heilindin lítil sem engin !
Menn eru líka oftast á villugötum og vilja vera það, sjá ekki það sem er að skella yfir þá. Rétt fyrir frönsku byltinguna 1848 sagði Alexis de Tocqueville í ræðu : ,, Ég held að við sofum á eldfjalli !
Hann taldi svo vera en valdamennirnir sáu ekki neitt. Þeir skildu ekki stöðu mála og hætturnar sem þar voru að koma fram. Þeir sáu þær ekki þó þær væru farnar að ýta við öðrum. Og svo kom örlagadómurinn yfir þá, pakkaður inn í hernaðarhyggju og blóðsúthellingar !
Og hver er svo staða mála núna ? Nú virðist öll Evrópa sofa á eldfjalli kjarnorkueldfjalli !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
- Afneitun á íslenskum fjölbreytileika !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 158
- Sl. sólarhring: 236
- Sl. viku: 1207
- Frá upphafi: 397519
Annað
- Innlit í dag: 137
- Innlit sl. viku: 1095
- Gestir í dag: 136
- IP-tölur í dag: 133
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)