Leita í fréttum mbl.is

Hvar má finna friðarskjól ?

 

 

Heimurinn eins og við þekkjum hann hefur alltaf verið fullur af mannvonsku og þeirri vonsku vonskunnar sem þar er á bak við. Öll Sagan, eins og við þekkjum hana, er hrópandi vitni um það !

 

En á öllum öldum hafa þó verið til manneskjur sem hafa staðið í gegn þessari viðvarandi vonsku og það hefur einkum orðið til þess að hún hefur aldrei náð að hrósa afgerandi sigri alls staðar !

 

Alltaf hafa menn samt verið að leita sér að griðastað í einhverjum afkima þessarar veraldar, þar sem þeir gætu fengið að lifa í friði og notið sjálfir ávaxta erfiðis síns. Þannig byggðust til dæmis Bandaríkin upp. Það er kaldhæðnisleg og hláleg staðreynd í ljósi þeirrar framvindu sem varð !

 

Fólk flýði ófrelsið í gamla heiminum, kúgun og áþján konungsvaldsins, takmarkalausan yfirgang aðalsins, flýði allt það forréttindahyski sem gerði sér mat úr erfiði þess og át afraksturinn. Það var því ekkert lítið sem rak á eftir því, enda öllu til þess kostað að fara þetta !

 

Menn fóru vestur um haf í leit eftir friði og frelsi. En svo féllu þeir flestir í gildru græðginnar. Þeir byrjuðu á því að svipta indíánaþjóðirnar þar vestra öllu því sem þær áttu, landi, friði og frelsi. Þær þjóðir eru margar hverjar útdauðar í dag og það skrifast að stórum hluta á syndareikning hvíta kynstofnsins !

 

Það segir sig sjálft, að meðan sú aðferð er viðurkennd til lífs og afkomu, að frelsi eins megi vera ófrelsi annars, mun hringrás ógæfunnar halda áfram í þessum heimi og sjá til þess að hvergi sé neinn öruggur griðastaður til eða friðarskjól fyrir fólk. Það er hinn sjálfskapaði vítahringur þess !

 

En fólk heldur samt áfram að flýja og leita að öðrum stöðum þar sem því gæti liðið betur. Það er að hluta til skýringin á yfirstandandi þjóðflutningum til Evrópu og yfirtöku nýrra þjóðfélagshópa á samfélögum álfunnar. Þær þjóðir sem hafa byggt Evrópu eru að breytast við þann mikla innflytjendastraum og öll menningar-arfleifð þeirra með !

 

Gildi hins þjóðlega evrópska arfs rýrnar með hverju árinu sem líður, því hinir aðkomnu meta þann arf ekki mikils, sem varla er von. Þeirra arfsgildi eru allt önnur og ganga í ýmsum meginatriðum þvert gegn aldagömlum menningararfsgildum evrópskra þjóða !

 

Evrópuþjóðirnar gömlu eru því að komast í hlutverk indíánaþjóðanna í Norður-Ameríku, sem nú eru að miklu leyti horfnar af sjónarsviðinu og menning þeirra og saga týnd og gleymd. Erum við núlifandi Evrópumenn að kalla eftir þeirri framtíð með andvaraleysi á líðandi stund ?

 

En margt er að varast og við vitum að hið yfirlýsta frelsisríki sem stofnað var vestanhafs með útrýmingu indíánanna og menningar þeirra, hefur á okkar tímum orðið að einu versta ríki jarðarinnar fyrir hernaðar-yfirgang og allskyns dulbúna kúgun á almennu mannfrelsi. Auðvald hinna fáu ræður þar öllu og þar situr fjármálalegt ofbeldi í hásæti mannvonskunnar !

 

Til hvers voru menn að flýja vestur, fyrst þeir fóru strax að skapa undirstöður kúgunar og yfirgangs þar með tilkomu nýrrar yfirstéttar ?

 

Sem Rómverjar okkar tíma hafa Bandaríkjamenn stundað það öllum þjóðum fremur að deila og drottna. Þeir lærðu fyrstu lexíurnar í því af Bretum. En spurningin er, hvað hefur áunnist í raun með því framferði til blessunar fyrir þá sjálfa ? Lifa Bandaríkjamenn, almennt talað, í einhverju friðarskjóli nú til dags. Geta menn séð þá sviðsmynd í lífi þeirra í dag ?

 

Hafa þeir byggt upp eitthvað sem telja má að hafi raunverulega svarað þeim væntingum sem menn höfðu í hjörtum sínum þegar þeir lögðu af stað vestur um haf í óvissuna - frá öllum viðbjóðnum í Evrópu fyrir um 400 árum ?

 

Hvernig hefur þeim tekist til við uppbyggingu þess farsældaríkis sem hugmyndin var að skapa ? Ég held að allir hljóti að sjá að Bandaríkin hafi ekki þróast upp í að verða neinn griðastaður eða friðarskjól !

 

Það er hættulegt að lifa í stórborgunum vestanhafs og núorðið hættulegra en víðasthvar í Evrópu. Nýi skítastaðurinn hefur yfirgengið þann gamla. Það má jafnvel spyrja sig, hvort óhætt sé að ganga yfir götu í Bandaríkjunum, án þess að vera skotinn, keyrður niður eða rændur ?

 

Eitt er víst að ekki getur það ofbeldisfulla ríki sem Bandaríkin eru í dag, verið það sem hinir púritönsku landnemar á Mayflower stefndu að á sínum tíma. Þar var um að ræða draum sem fyrir löngu hefur snúist upp í miskunnarlausa martröð !

 

Friðarskjólið sem menn ætluðu að koma sér upp í Nýja heiminum varð aldrei að veruleika. Það hefur hinsvegar fyrir löngu breyst í blóðugt helvíti ofbeldis og glæpa !

 

En hvernig geta menn fundið friðarskjól í þessum heimi ? Svarið við því er enn það sama og hefur hljómað síðustu tvö þúsund árin. Það hefur aldrei glatað gildi sínu og mun aldrei gera það. Það er hið mikla boð Krists um breytingu háttalagsins : ,,Yður ber að endurfæðast !”

 

Meðan sú rödd er hundsuð, verður aldrei um neitt friðarskjól að ræða í þessum heimi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1206
  • Frá upphafi: 318502

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 897
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband