Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Rúnir Sögunnar - Kvæði ort á hvítasunnu 2009.

Ég rek gegnum anda minn rúnir þær allar

sem ristar í söguna blasa við mér.

Því þar er svo margt sem til þjónustu kallar

og þreyjandi hugurinn finnur og sér.

 

Ég les þessar rúnir og elska þann anda

sem í þær er ristur með lifandi boð.

Að hver eigi sannur að sínu að standa

og sífellt að reynast þeim veikari stoð.

 

Ég les þetta kærleikans algilda efni

og er ekki í vafa um sannindin þar.

Og vildi að allir þeir vöknuðu af svefni

sem veglausir eru á landi og mar.

 

Sem blindaðir ganga með sálina í svelti

og sjá ekki tímann sem rennur þeim frá ;

sem pundið sitt grafa í einhyggju elti

og afskrifa lífið með glötunarþrá.

 

Þeir eru svo margir sem halda að hjómið

til huggunar verði á ævinnar leið.

En standa svo mæddir og stara út í tómið

og stynja í sjálfskapar-vítanna neyð.

 

Sem sjá ekki að lokum til lausnar í neinu

og lamast á sálinni í þrúgandi vist.

Þó standi það ávallt og stöðugt á hreinu,

að stefna til lífs - er að treysta á Krist !

 

Í návist hans umbreytist einhyggju stefið

uns elskunnar kraftur með fögnuði rís.

Því hann er það ljós sem er heiminum gefið

og hann er sú blessun sem öllum er vís !

 

                                                           Rúnar Kristjánsson

 

 

 


Kvæði um unga fólkið okkar

 

Það þráir líf sem öruggt er

en óttast þessa samtíð,

sem illskuna að augum ber

og eyðir von um framtíð.

 

 

Við svínum illa á siðum þeim

er sæmd og heiður skapa.

Svo æskufólkið erfir heim

sem er til botns að hrapa.

Og vonir litlar vaxa þar

sem vitlaus hugsun ræður.

Svo fetað er til framtíðar

með falskar innistæður.

 

Og heimsmynd sú er sett á skjá

er sendir hroll að taugum.

Þar flökta myndir fleti á

með fullt af gömlum draugum.

Og ofbeldið þar augun slær

og áfram magnast lygin,

sem ófreskja með ótal klær

frá undirheimum stigin.

 

Það finnst svo víða flónskulið

sem flest vill öfugt gera.

Sem opnar mörg þau ólánshlið

sem ættu læst að vera.

Menn gera það sem glæpur er

og greina ekki vandann.

En illa fyrir öllum fer

sem eiga mök við fjandann.

 

Það þarf að breyta þeirri mynd

sem þrífst á mati sléttu.

Og leita burt frá sora og synd

í siðfræðina réttu.

Það þarf því öllu að leggja lið

sem lífið upp vill byggja.

Svo ungdómurinn venjist við

þá vörn sem það mun tryggja.

 

                              Rúnar Kristjánsson      

 

 

 

 

 


Það er rifist og skammast en...............!

Sjálfstæðisflokkurinn væri líklega brjóstumkennanlegur að áliti margra, ef hann væri ekki búinn að brjóta svo mikið af sér sem raun ber vitni. Þegar þessi flokkur stóð frammi fyrir kosningum nú nýverið, gerðu menn þar á bæ sér grein fyrir því að ekki var nú hægt að gera út á marga hluti - allt í rúst eftir 18 ára valdstjórn flokksins !

Þá var gripið til þess að berjast fyrir sjálfstæðinu, sem var náttúrulega komið í stórhættu eftir stjórnarár flokksins. Þjóð sem er ekki lengur fjárhagslega fær til að stjórna sínum málum er ekki beint sjálfstæð - eða hvað ?

En jú, sjálfstæðismenn ákváðu sem sagt að verða allt í einu allra manna þjóðlegastir og sjálfstæðið væri mál númer eitt. tvö og þrjú !

Og svo hófst stutt en snörp kosningabarátta. En hvað gerðu sjálfstæðismenn í þeirri baráttu - jú, þeir töluðu gegn aðild að ESB, en hömuðust jafnframt á Vinstri grænum eins og þeim væri borgað fyrir það frá Brussel.

Þeir reyndu að níða niður þann flokkinn sem var þeim þó sammála í sjálfstæðismálinu mikla - en létu þann flokkinn frekar eiga sig sem vill láta okkur hlaupa berrassaða rakleitt inn í ESB, berrassaða segi ég, því við erum með allt niðrum okkur efnahagslega í núverandi stöðu !

Bendir þetta til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé heill í sjálfstæðismálinu mikla ?

Að þessu viðbættu er svo málflutningur sjálfstæðismanna, og Framsóknarmanna  með hreinum ólíkindum - það er talað um að endurreisa traust, endurbyggja þetta og hitt, bjarga heimilunum í landinu o.s.frv.o.s.frv. í það óendanlega.

En af hverju þarf að endurreisa traustið, af hverju þarf að endurbyggja þetta og hitt, af hverju þarf að bjarga heimilunum í landinu og frá hverju ?

Fulltrúar þessara þjóðarógæfuflokka tala aldrei um það. Þar kemur enginn fram sem segir,  " það verður að bjarga þjóðfélaginu frá hræðilegum afleiðingum verka okkar - frá afleiðingum okkar valdatíma " ! Nei, ónei..........!

Það er aldrei talað um orsakirnar, það er bara heimtað af þeim sem litla eða enga sök báru á hruninu - að þeir verði að standa sig betur - og þeir sem eru að heimta þetta, eru fulltrúar flokkanna sem rústuðu hér heilu þjóðfélagi !

Þeir sem lítið sem ekkert gátu gert á 100 dögum eftir bankahrun, í rakinni meirihlutastjórn, kröfðust þess með hörku að 80 daga minnihlutastjórn reyndi nú að gera eitthvað - vegna þjóðarinnar, vegna heimilanna í landinu o.s.frv.........!

Þeir hafa rifist og skammast á nákvæmlega engum forsendum !

Einu sinni var sagt, að menn sem kynnu að skammast sín væru meiri menn fyrir bragðið. Hvað sem um það má segja er ljóst að sú speki á ekki við sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn. Framsókn þykist reyndar hafa sagt skilið við skuggahliðar fortíðar sinnar og segist vera orðin ný og fersk eins og óspjölluð mær. En hver trúir því að gömul vergjörn maddama sem hefur legið með mörgum um dagana verði allt í einu ung og óspjölluð á ný ?

Sjálfstæðismenn deila nú á allt sem ný stjórnvöld gera og einn úr þeirra hópi talaði um í Mbl. nýlega að einn allsherjar ríkissósíalismi sé tekinn við ?

Tekinn við eftir hvað ? Honum láðist alveg að geta þess !

- Eftir 18 ára svo til samfellda stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins sem endaði með hruni og efnahagslegum ragnarökum ! Enginn hefur fengið annað eins tækifæri og Sjálfstæðisflokkurinn til að færa sönnur á ágæti stefnu sinnar - enginn hefur fengið að valsa um með fjármál lands og þjóðar samfellt í 18 ár ! Og hver varð útkoman ? Áttu menn að halda áfram á frjálshyggjufylleríinu þegar allt var komið á hausinn ?

Tryggvi Þór Herbertsson er greinilega einn af þeim sem álíta það. Hann hefur ekkert lært af hruninu eins og sést af nýlegri grein hans í Mbl. og mun ekki læra neitt af því. Hann mun aldrei skilja hvernig þetta fór með fjárhag þúsunda Íslendinga og það manna sem unnið höfðu hörðum höndum fyrir sínu.

Ef það er tekinn við ríkissósíalismi í dag, þá er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn brást landi og þjóð og keyrði hér allt í strand.

Þegar kreppan mikla skall yfir 1929 voru Calvin Coolidge og Herbert Hoover í nákvæmlega sama gír og Sjálfstæðisflokkurinn var í fyrir og eftir bankahrunið.

Þeir sátu og gerðu ekki neitt - þeir ætluðu bara að sjá til !

Það var engin bjargráðastefna sett í gang því þessum mönnum var skítsama um bandarískan almenning - þeir hugsuðu bara um alikálfana og þeirra hagsmuni.

Í Bandaríkjunum var það yfirstéttarmaðurinn Franklin Roosevelt sem fór í það að vinna þjóðina hægt og bítandi út úr kreppunni og hann gerði það með smáskömmtum af sósíalisma. Kapítalisminn bauð ekki upp á neitt jákvætt við þær skelfilegu aðstæður, enda var hann forsendan fyrir hruninu þá eins og nú.

Að lokum var það svo heimsstyrjöldin síðari sem batt enda á atvinnuleysið í Bandaríkjunum, sem enn var í um það bil 15% þegar stríðið skall á, ef ég man rétt. Það kemur nefnilega oft uppsveifla í hagkerfin þegar byrjað er að drepa fólk í stórum stíl.

Það er mjög fróðlegt að sjá kosningaúrslitin síðustu. Öll þjóðin er þar algjörlega samtaka í því að hafna Sjálfstæðisflokknum og prósentufall flokksins er sláandi líkt yfir landið allt. Nú á Sjálfstæðisflokkurinn, sýnist mér, aðeins í einu kjördæmi fyrsta þingmanninn og hann hangir þar á örlitlu prósentubroti.

Í öðru Reykjavíkurkjördæmanna er flokkurinn í þriðja sæti með sinn efsta þingmann. Þetta er hrikaleg rass-skelling, en ekki verður þó annað sagt en að flokkurinn hafi fyllilega verskuldað hirtinguna og reyndar hefði hún orðið meiri ef það væru ekki allt of margir innmúraðir fyrir lífstíð í skítlegheitin.

Kattarþvottur Framsóknar og forherðing sjálfstæðismanna munu ekki leysa  fortíðarpínu þessara flokka - aðeins heiðarlegt uppgjör getur gert það, en ég held að hvorugur flokkurinn sé fær um að fara í slíkt uppgjör og muni ekki verða það

á komandi árum. Þeir hafa einfaldlega allt of marga djöfla að draga.

En mikið væri það gott ef fulltrúar þessara flokka færu á námskeið til að læra að skammast sín pínulítið - því það er það sem þjóðin vill sjá hjá þeim, einhver merki um samviskubit og skilning á þeim skaða sem þeir hafa unnið þjóðinni með ábyrgðarlausu framferði í efnahags og sjálfstæðismálum Íslendinga.

Að byggja upp traust án iðrunar er ekki hægt, en iðrun hefur hreint ekki verið mikið á dagskrá hjá þeim sem hruninu ollu og iðrast ættu.

Það er því það minnsta sem þessir aðilar geta gert, að láta þá fá vinnufrið sem eru þó að reyna að moka andstyggðarflórinn eftir þá, sem er það versta skítasafn sem nokkur stjórnvöld í Íslandssögunni hafa skilið eftir sig.

Já - og það er miklu meira en að segja það, að moka sig frá þvílíkum óþverra !


Rétthugsunarplágan

Sú var tíðin að rétthugsun kirkjulegra yfirvalda gerði mörgum manninum erfitt að lifa og reyndar erfitt að deyja líka. Við þurfum ekki sérstaklega að hugsa um Giordano Bruno í því sambandi, tugþúsundir manna voru teknar af lífi fyrir það eitt að hugsa ekki eftir skilgreindri rétthugsun. En þó fórnirnar væru miklar héldu menn áfram að hugsa sitt eins og Galilei þegar hann sagði " hún snýst samt " !

Það er nefnilega býsna erfitt að koma böndum á hugsun mannsins !

En svo liðu tímar og frelsisþrá og raunhugsun mannsins gekk í gegnum margt og fór í mörgu afvega, en þokaðist þó áfram til þess samviskufrelsis sem hún vildi fá að búa við. Og þegar kom fram á tuttugustu öldina mátti segja að ýmsir sigrar hefðu unnist þrátt fyrir allt. En enn voru harðar reynslur fyrir höndum og ismar aldarinnar fóru illa með margan manninn.

Nú á síðustu tímum hefur farið að bera talsvert á því að dæmið frá fyrri tíð sé farið að snúast við. Það er komin fram á sjónarsviðið ný rétthugsun og þeir sem standa fyrir henni víðasthvar eru aðilar sem myndu seint viðurkenna að þeir væru að þræða spor fyrri tíðar einvalda og hins gamla kirkjuvalds  - að meina frjálsa hugsun.

En það er samt komin fram valdknúin rétthugsun sem gengur út á fjölmenningu en ekki þjóðmenningu, það er komin fram rétthugsun sem gengur út á hnattvæðingu en ekki heimagarðstiltekt, það er komin fram rétthugsun gegn kristnum bakgrunni okkar, það er komin fram rétthugsun gegn evrópskri arfleifð okkar og þeim gildum sem hafa verið hornsteinar menningar okkar og siða.

Þess er krafist í gegnum alla þessa nútíma rétthugsun, að við afneitum gildum okkar og umföðmum gildi allra þeirra sem fjölmenningarstefnan vill planta á meðal okkar. Það er sú fyrirskipaða fórn sem við eigum að færa til þess að enginn verði í vafa um það, að hann sé velkominn inn í okkar lífsumhverfi og megi raunverulega koma sér þar sem best fyrir - á kostnað þeirra sem fyrir eru !

Allir sem kunna ekki að meta þetta eru samstundis stimplaðir sem þröngsýnir menn og rasistar og rétthugsunarliðið talar hiklaust um að banna andstæð viðhorf. Þar er það sannarlega komið í gamla kirkjuvaldsgírinn !

Eitt af því sem notað er mjög mikið af rétthugsunarmafíunni er að bregða öðrum um að þeir séu fordómafullir og það á að virka þannig að menn þori ekki að verja skoðanir sínar og þagni. En að skilgreina skoðanir sem fordóma er ekki á færi neins manns og enginn hefur rétt til þess að halda því fram að andstæðar skoðanir séu fordómar. Sá sem það gerir ætti að hugleiða það sjálfs sín vegna að fordómavopnið gæti snúist illilega í höndum hans.

Margt af því sem í gangi er í umræðu nútímans ætti að geta sagt okkur að samviskufrelsið þarf ennþá víða að búa við kúgun valdstjórnar - mönnum er gert að hlýða eða að öðrum kosti fái þeir að finna fyrir því !

Þessi nýja rétthugsunarlína er ekki hvað síst prédikuð í háköstulum Evrópusambandsins, þar sem allt virðist eiga að teljast gott og gilt nema það sem treystir undirstöður þjóðlegra gilda og þess sem þjóðirnar hafa þegið í arf frá fyrri kynslóðum. Það allt virðist dæmt úrelt og heimskulegt og óralangt frá skynsemishyggju og ætlaðri víðsýni rétthugsunarsinna.

En hugsun mannsins er fædd til að vera frjáls en ekki föst í einhverjum kirkjuvalds eða rétthugsunar gír. Hún á að geta leikið frjáls í höfði mannsins og þar á hún að fá að snúast í takt við dómgreind hans, sannfæringu og siðvitund.

Í hvert sinn sem einhver uppvakin valdaskrímsli vilja leggja hömlur á hana, á sérhver maður að hafa þann rétt að geta sagt við þann sem ógnar samviskufrelsi hans : " Þú kallar skoðanir mínar fordóma, þú ert að reyna að binda hugsun mína eftir þinni forskrift, en þú skalt vita að hvað sem þú reynir, þá snýst hún samt !


Seisashþeia - Byrðaléttir !

Lýðræði Grikklands hins forna er frumþáttur lýðræðisins og það er fróðlegt mjög að rannsaka hvernig það komst á og framvindu þeirra mála.

Einn helsti spekingur Grikkja var Sólon og hann var kjörinn, vegna réttsýni sinnar og heiðarleika, til að færa mál lands og þjóðar í betri farveg. Hann gerði byltingu með friðsamlegum hætti - kannski búsáhaldabyltingu þess tíma !

Hann vildi binda endi á hina harðvítugu stéttabaráttu, sem spillti kröftum þjóðarinnar í innbyrðis átökum, í stuttu máli sagt, koma ríkinu aftur á réttan kjöl.

Hann vildi virkja þegnana til þátttöku í þjóðfélagsmálunum og vekja skilning þeirra á því að það væri nauðsynlegt jafnt fyrir þá sem þjóðfélagið.

Hann sagði að " sinnuleysi þegnanna væri böl ríkisins !"

Og það sem meira var, hann hikaði ekki við að fordæma atferli auðmanna sem sökkt höfðu landslýðnum í vonlausa örbirgð ! Og takið eftir -  þetta var 600 árum fyrir Krist og hvar erum við stödd í þessu ferli í dag - nokkurnveginn á sama staðnum sýnist mér !

Það er mjög athyglisvert að fara yfir þær stjórnbætur sem Sólon gerði og ekki síst í ljósi þess hvað hann hefur haft næman skilning á mannlegu eðli og vitað hvernig hægt var að standa að málum til að hlutirnir næðu fram að ganga.

Tókst honum að gera flestum ljóst að stjórnarbót hans fól í sér nauðsynlegar málamiðlanir sem miðuðu að því að sætta andstæður og styrkja heildina í þágu allra. Margir nöldruðu en beygðu sig samt fyrir framsýni spekingsins.

Eitt af því sem Sólon gerði var að afnema allar skuldir - byrja stöðuna upp á nýtt. Hann afnam allar skuldir hvort sem einstaklingar eða ríkið var kröfuhafinn.

Lögin um þetta voru nefnd Seisashþeia - byrðaléttir !

Þessi lagasetning varð mjög fræg og með þeim voru allar veðskuldir af jörðum í Attíku þurrkaðar út. Allir sem bundnir höfðu verið og hnepptir í þrældóm vegna skulda, voru leystir úr ánauð og þeir sem seldir höfðu verið sem þrælar til annarra landa, voru kvaddir heim sem frjálsir menn. Öll fyrri skuldaþrælkun var bönnuð um aldur og ævi. Sólon sjálfur tapaði allmiklu fé á þessum lögum sínum en hann taldi að þetta yrði samfélaginu til góðs.

Auðmenn mótmæltu lögunum og kváðu þau fela í sér eignarán, sem kannski mátti að einhverju leyti rökstyðja, en margir þeirra hefðu nú sennilega ekki verið hrifnir af því að rannsókn færi fram á því hvernig þeir hefðu auðgast og komist yfir sínar eignir. Það kom líka á daginn að innan fárra ára viðurkenndu flestir, að Sólon hefði forðað Attíku frá blóðugri byltingu.

Hér á Íslandi tala menn um nauðsyn þess að byggt verði upp nýtt Ísland - það þurfi nýtt upphaf, stefnu til meiri jafnaðar, meira lýðræðis en verið hefur.

Það þurfi að eyða út ummerkjum fyrri mismununar og gefa þjóðinni í heild sameiginlega möguleika til eðlilegs framgangs.

Er Seisashþeia ekki nauðsynlegur þáttur í þeirri stefnu, byrðaléttir fyrir fólkið og heimilin í landinu ?

Eða á ranglæti hins liðna að verða undirstaða hins nýja Íslands ?

Í stað þess að valdstéttin vaki sífellt yfir hagsmunum hinna ríku og eignamiklu, ætti nú að vera komið að því að einhver hugsun verði í þá átt að skapa þjóðlega samstöðu með jöfnuði  og afnámi uppsafnaðrar mismununar ?

Ef ekki verður snúið á þá braut með einhverjum hætti, er líklegt að allt tal um að finna lausn á vanda heimilanna í landinu verði almennt álitið einskisvert hjal hjá stjórnmálamönnum og bara til að sýnast.

Við þurfum framsýna forustu sem tekur fullt mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar og léttir byrðum hins liðna af fólki - byrðum sem hafa  klafabundið alþýðu manna í þágu eignaraðals fortíðar og nútíðar !

Við þurfum réttláta forustu fyrir íslenska þjóð  - við þurfum  Sólon Íslandus !

 


Ofríkis andi Xerxesar býr í Brussel

Sú var tíðin að Xerxes Persakonungur ákvað að ráðast á Grikkland og hefna ófara Dareiosar föður síns við Maraþon. Hann safnaði milljónaher í sínu víðlenda ríki og hélt af stað ákveðinn í því að gera Grikkland að undirgefnum útskækli í persneska heimsveldinu.

En á leið hans varð Laugaskarð og þar var Leónídas Spartverjakonungur til varnar með sína 300 Spartverja. Persakonungur varð æfur af reiði þegar þessi fámenni hópur varðist stórhernum af svo mikilli hugprýði að hann komst hvorki lönd né strönd. Mikilvægur tími vannst fyrir Grikki til að safna saman liðsstyrk fyrir komandi úrslita-uppgjör við Persa. En að lokum voru Persar leiddir af grískum svikara yfir fjöllin svo þeir komust aftan að Spartverjum. Eftir hetjulega vörn féllu Leónídas og nánast allir hans menn.

En vörn þeirra var frægð um allt Grikkland og Grikkland lifði áfram því í sjóorustunni við Salamis skömmu síðar gerði Þemistókles út af við drauma Persa um sigur og persnesku hættunni var bægt frá með afgerandi hætti.

Í Grikklandi voru samt ýmsir svikarar og uppgjafarsinnar á þessum tíma sem óttuðust Persa og töldu best fyrir Grikki að ganga þeim á hönd og reyna að komast að einhverjum samningum við þá. Þeir væru svo öflugir að það þýddi ekki að reyna að standa í gegn þeim eða utan við veldi þeirra !

En sem betur fer varð það ofan á hjá Grikkjum að verja land sitt hvað sem það kostaði. Þessvegna varð grísk menning að því sem skilaði sér síðar sem eitt þýðingarmesta framlag einnar þjóðar til menningar Vesturlanda.

Hefði persneska stórríkið lagt Grikkland undir sig með hjálp grískra uppgjafarsinna, hefði grísk menning aldrei orðið að því sem hún varð og Vesturlönd aldrei að því sem þau urðu.

Persnesk yfirráð hefðu skilað hlutunum til framtíðar á allt annan veg og þar hefði lýðræði til dæmis ekki átt upp á pallborðið.

Xerxes hafði sagt " Draumur föður míns  var - einn heimur - einn stjórnandi !"

Það segir sína sögu og andinn í þeirri hugmynd er ævaforn og myrkur.

Ef við freistumst til að setja þessa gömlu sögu á svið í samtímanum, þá mætti hugsa sér hana útfærða með eftirfarandi hætti:

Evrópusambandið er í hlutverki Xerxesar, með milljónir sínar tilbúnar að mylja allt undir sig og sitt vald og sínar reglugerðir. Grísku svikararnir eru líka á sviðinu en auðvitað í öðru gervi, en þeir tala líkt og forðum.

Þjóðlegir fulltrúar 300.000 manna þjóðar standa sem fyrr í Laugaskarði, sem nú er Ísland, og verjast ágangi stórríkisins - jafnt utan frá sem innan.

Við eigum kannski ekki neinn útvalinn Leónídas til að leiða okkur, en við höfum vilja til að standa fast á okkar þjóðlega rétti. Við erum flest fædd sem frjálsir Íslendingar og viljum vera það áfram eins og Grikkir vildu áfram vera frjálsir Grikkir. Að lifa eftir útlendum boðum er ekki það sama og að lifa við frelsi.

Evrópusamsteypan stefnir, eins og Persar forðum, að einum heimi og einum stjórnanda. Sá stjórnandi kemur fram þegar allt verður tilbúið fyrir hann og margir eru farnir að gera sér grein fyrir því hver hann verður.

Paul Henri Spaak, utanríkisráðherra Belgíu og formaður undirbúningsnefndar að stofnun Efnahagsbandalagsins, sagði á sínum tíma: "Við þurfum öflugan mann, sendið okkur slíkan mann, hvort sem hann er guð eða djöfull, munum við taka á móti honum !" Segir þetta ekki sitt um hverskonar stjórnandi það er sem beðið er eftir í Brussel ?

Evrópska stórríkið vill gera Ísland að undirgefnum útskækli í sínu heimsveldi, soga til sín auðlindir okkar, og hinn forni ofríkis andi Xerxesar ríkir yfir höfuðstöðvum þess í Brussel.

Við sem viljum verja hið íslenska Laugaskarð segjum nei við þeim anda og ef örvar Brussel-áróðursins fara að byrgja fyrir sólu á Íslandi - þá berjumst við í forsælunni eins og Spartverjar gerðu forðum.


Hrópið frá Guantanamo

 

Amerísku böðlasporin sjást um veröld víða,

vítiseldar loga þar og undir blæða og svíða.

Kanarnir á Guantanamo kerfisboðum hlýða,

kjósa að láta fangana í blóði sínu skríða !

 

Þeir þykjast vera betri en Þjóðverjarnir forðum

sem þúsund ára manngildi settu illa úr skorðum.

En lygum þeirra daglega splundrar sprengjublossinn

sem spyrðir þá að fullu við gamla hakakrossinn !

 

Þeir segjast verja frelsið en pynta samt og pína

og pólitíska skurðarhnífa í fangaklefum brýna.

Þeir þykjast miklu betri en böðlarnir í Kína

en brosa að þeirra hætti og sparka í fanga sína !

 

Þeir þykjast vera góðir í heimi lífs og listar

og langt frá því að hegða sér eins og kommúnistar.

En glæpir þeirra æpa í Guantanamo og víðar

og gjöldin munu skila sér - það kemur að þeim síðar !

 

 

 

 

 


" Að virkja bæjarlækinn "

Um langt skeið hefur sú banvæna hugsunarstefna ríkt í virkjunarmálum á Íslandi að þjóna beri undir erlend auðfyrirtæki á kostnað lands og þjóðar.

Forustumenn í Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Alþýðuflokki, voru löngum sammála um þessa stefnu og mun þó íhaldið hafa markað hana öðrum fremur og ætti það ekki að koma neinum á óvart.

Forustan í þessum flokkum taldi sem sagt eðlilegt að selja útlendingum aðgang að auðlindum okkar fyrir vinnu. Íslenskir neytendur voru látnir niðurgreiða rafmagn til hinna stóru kaupenda og þegar fólk kvartaði yfir því hvað orkan væri dýr, var svarið að það væri verið að tryggja íslensku verkafólki störf !

Við höfum þannig alltaf verið látin borga dýrum dómum fyrir það að fá að þræla fyrir útlendingana, svo arðrán þeirra gæti viðgengist hér og verið sem allra mest. Það virðist aldrei hafa verið hugleitt að auðlindir okkar, eins og fallorkan, ættu að skapa beinar forsendur fyrir bættum lífskjörum fólksins í landinu ?

Það var því miður alltaf hugsað um þessa hluti út frá hinni gömlu hugsun íhaldsins, " ef venjulegt fólk á að fá einhvern pening út úr þessu, skal það þurfa að hafa fyrir honum ! "

Í kreppunni miklu voru erfiðleikar með atvinnu í Reykjavík og þá var rætt um að fólk fengi einhvern fjárstyrk fyrir brýnustu nauðþurftum, en fulltrúar íhaldsins brugðust þá ókvæða við. Það gengi ekki að venjulegt fólk fengi pening fyrir ekki neitt. Í augum íhaldsmanna jafngilti slíkt öfugri verkun sjálfra náttúruaflanna !

Svo niðurstaðan var sú, að verkamenn voru látnir vinna við íshögg og allskonar þrælavinnu, suma tilgangslausa með öllu, svo það væri nú alveg öruggt að þeir væru ekki að fá einhverja aura fyrir ekki neitt. Þannig var viðhorf íhaldsins þá og það eimir sannarlega eftir af því enn þann dag í dag.

Almenningur þessa lands á ekki að fá að búa við góð kjör, hann á ekki að fá að njóta góðs af auðlindum landsins. Það hefur löngum verið hin allt um lykjandi hugsun í kjörveldisklíku ráðamanna, sem virðist oft og tíðum líta á sig sem líknarstofnun fyrir erlenda auðhringi. 

Og þegar stjórnvöld eru búin að versla með sínu óþjóðlega lagi, við arðránsgráðuga útlendinga um nýtingu auðlinda okkar, er fólki náðarsamlegast boðið upp á að fá vinnu hjá Alusuisse, Alcoa og öðrum erlendum " hjálparstofnunum ", og það hefur alltaf verið að mati íslenskra ráðamanna - hin besta lausn !

En það á ekki að fara í virkjanir og samninga með slíkum hætti. Það á ekki að virkja með það að markmiði að þjóna útlendum auðfyrirtækjum. Það á að fara í virkjanir til hagsbóta fyrir þjóðina sem býr í þessu landi.

Það á að virkja með sama hugarfari og menn höfðu þegar þeir voru að virkja bæjarlækina í gamla daga.

Til að gera fólkinu í landinu lífið léttbærara !

Það er lítið vit að virkja, ef það á alltaf að kosta meira strit, og halda þjóðinni sífellt í þeirri neyðarstöðu, að hún fái aldrei notið hlunnindanna af eigin auðlindum.

Það á að virkja til að skapa lífskjör sem byggja upp og búa til manneskjulegt og fjölskylduvænlegt samfélag og það á að gera það í sátt við landið og þjóðina. Auðlindir okkar eiga að vera hornsteinar og forsendur fyrir slík markmið.

Fallvötnin okkar miklu eru stóru bæjarlækirnir okkar - sú orka sem þar fæst á fyrst og fremst að nýtast íslenskum þjóðarhagsmunum - hún er og á að skila sér sem orkan okkar !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 80
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 365547

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 561
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband