Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019
29.6.2019 | 00:13
Hin rísandi vá
Fyrri sögu mega menn
muna og engu gleyma.
Margt á seyði sýnist enn
sem á skuggaheima.
Gæskuleysið grimmdarfúst
glætt af valdi röngu,
lagði okkar álfu í rúst
ekki fyrir löngu !
Þrælmenni með þelið bágt
þrengdu að öllum friði.
Engir hafa lagst eins lágt
lífs á alda sviði.
Manndómshrapið mest þar var,
mikil þjóð og göfug,
leidd á glæpagöturnar,
gerðist mennsku öfug !
Heilaþvegin hervaldsþjóð
hlýddi boðum fjandans.
Braut þar allra sálarsjóð,
sérhvert gildi andans.
Vonskan með sín vélabrögð
vítis ól þar getnað.
Evrópa var eyðilögð,
út á þýskan metnað !
Gróin föst við glæpatól
germönsk hugsun spilltist.
Eitruð fylgja fékk þar ból,
fólk um brautir villtist.
Enginn skilur það sem þá
þreifst í illsku sinni.
Óhreinn reyndist andinn sá
allri veröldinni !
Lýðræðis við login kjör
lifir margt í heimi.
Sveimar víða á sinni för
sífellt öfugstreymi.
Aftur getur ógnin flætt
um með dauðans grandi.
Viðhorf enn af vítisætt
vaxa í Þýskalandi !
Fylgjan gamla finnur sér
framtíð valdadrauma.
Mannkynshættu með sér ber,
magnar þunga strauma.
Kaldrifjuð hún ennþá er,
æst til stórra fórna.
Enn sem fyrr hún ætlar sér
Evrópu að stjórna !
24.6.2019 | 14:29
Hégóminn er goð á stalli !
Fyrir nokkru var í sjónvarpinu talað við verkstjóra í þjónustu verktaka hjá Vegagerðinni. Hann sagði að það væri orðið erfitt að fá verkamenn til starfa á Íslandi. Kannski værum við farnir að ofmennta fólk ?
Í dag eru sem sagt fáir verkamenn til. Nú ganga menn nefnilega undir öðrum starfsheitum. Enginn vill lengur kallast réttur og sléttur verkamaður.
Nú vilja menn heita eitthvað annað. Og nú kallast menn yfirleitt eitthvað sem endar á ,,stjóri. Það eru jafnvel stjórar þar sem tveir menn eru að störfum, annar er þá nefndur flokksstjóri og hinn varaflokksstjóri !
Þessi stjóravitleysa sýnir hégómleik manna og samfélagsins alls í hnotskurn. Hjá sveitarfélögum og ekki síst höfuðborginni starfa ótaldir sviðsstjórar. Allir vilja vera stjórar yfir einhverju og jafnvel engu !
Það virðist vera einhver breskur blær yfir þessari stöðuheita-nýskipan ? Og það er alls ekki fjarri lagi að telja að svo sé. Við erum yfirleitt gjörnust á að apa ósiði eftir öðrum. Og svo verður víst alltaf að hafa einhverja goggunarröð í gildi svo merkilegheitin fái að stíga egodansinn sinn !
Manni verður hugsað til einkennisbúninganna þegar svona hégómi er í gangi. Maður í einkennisbúningi gerir sífellt kröfu til virðingar þó hann sé bara einfaldur kapteinn frá Köpenick og hafi ekkert sér til virðingar unnið !
Óhæfir asnar geta skipað fyrir ef þeir eru í einkennisbúningi, svo maður tali ekki um veldið á þeim ef þeir eru með orður á brjósti. Heimskan og hégóminn haldast í hendur og sagði ekki Friðrik Prússakóngur, sem kallaður var með röngu hinn mikli, að hann óttaðist það mest að hermenn hans færu að hugsa. Þeir áttu bara að vera fallbyssufóður !
Hvað skyldu margir menn í styrjöldum hafa misst lífið eingöngu vegna þess að þeir voru skyldaðir til að hlýða gjörsamlega óhæfum yfirmönnum ? Menn af aðalsættum gengu alltaf fyrir í foringjastöður þó þeir hefðu enga hermennskuhæfni til að bera. ,,Bláa blóðið nægði þeim.
Einkennisbúningurinn og lotningin fyrir honum hefur marga drepið !
Var ekki eitt sinn kveðið á Íslandi : því ef að úr buxunum fógetinn fer / og frakkanum svo litla stund, / þá má ekki greina hver maðurinn er. /Ó, mikið er skraddarans pund !
Þorsteinn Erlingsson kvað þar sína markvissu ádeilu sem oftar, en hann var jafnan óhlífinn í kveðskap sínum og hataðist alla tíð við yfirborðsmennsku og hégómaskap. Hann var sannarlega hvergi bókaður sviðsstjóri en var þó um tíma ritstjóri þó honum félli það stjórastand ekki sérlega vel !
Steingrímur Thorsteinsson orti ungur vísuna Orður og titlar, úrelt þing. / Eins og dæmin sanna, / notast oft sem uppfylling / í eyður verðleikanna. En síðar á ævinni hefur karlinn sá líklega verið orðinn eitthvað annarshugar og fjarlægur fyrri róttækni. Þá fór hann sjálfur að taka við uppfyllingar-orðum. Þannig fer því miður fyrir mörgum sem virðast hafa sjón ungir að árum, að þeir blindast að lokum sjálfir af hégómanum !
Fálkaorðu-sýndarmennskan er enn í fullum gangi og það er greinilega sama hver forsetinn er, alltaf verður hégóminn að fá að vera með í för. Sennilega hefur þó Pétur Hoffmann átt flestar slíkar orður um dagana því hann fann þær svo margar í ruslinu á öskuhaugunum. Þar enda þær yfirleitt að lokum !
Margir hylla gull og glans,
ganga á stjóra sviði.
Heiðursmerki hégómans
hanga á snobbsins liði !
Skyldi Guðni kannski eiga eftir að veita einhverjum orðu fyrir að flytja inn ananas ?
22.6.2019 | 10:44
Stórveldapólitík stöðug andstæða friðar !
Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvernig haldið var á málum í Evrópu eftir báðar heimsstyrjaldirnar. Eftirtíminn sýndi fljótt, í báðum tilfellum, að menn höfðu ekkert lært af ógnum þeim sem átt höfðu sér stað. Engin þjóð sýndi af sinni hálfu raunhæf merki þess að vilja taka á málum með nýjum og heilbrigðari hætti !
Það má samt líklega leiða nokkur rök að því að Wilson Bandaríkjaforseti hafi viljað vel, en hann var eins og barn í höndunum á Lloyd George og Clemenceau, hinum gömlu refum Evrópustjórnmálanna, sem tóku á öllum málum í stíl Metternichs með kaldrifjuðum pólitískum klækjabrögðum !
Þjóðabandalagið gat aldrei haldið uppi neinum lögum, enda var það rammpólitískt og hlutdrægt í flestum sínum ákvörðunum. Og arftaki þess Sameinuðu þjóðirnar eru nákvæmlega sama fyrirbærið hvað það snertir !
Það er engin löngun til þess af hálfu stórvelda samtímans, frekar en af hálfu fyrri stórvelda, að gera Sameinuðu þjóðirnar þannig úr garði að þær geti sett þeim stólinn fyrir dyrnar í nafni lífsheilla mannkynsins !
Vonirnar sem stofnun samtakanna vöktu fyrir framtíðarheill mannkynsins urðu því ekki lengi bjartar. Það voru til dæmis höfuðmistök að setja aðalstöðvar samtakanna niður í Bandaríkjunum. Auðvitað hefðu þær frekar átt að vera - til dæmis - í Sviss eða Svíþjóð !
Það kom líka fljótt í ljós að fyrstu tveir aðalritararnir voru löngum í meira lagi hallir undir Vesturveldin og þótt U Thant hafi hugsanlega verið allur af vilja gerður til að vera eins hlutlaus í málum og frekast var kostur, gat hann ekki frekar en aðrir gert samtökin að því sem þau hefðu átt að vera - gegn vilja stórveldanna. Öryggisráðið er skýrasta dæmið um að stórveldin vildu að allt raunverulegt vald væri hjá þeim !
Eftir U Thant urðu aðalritarar samtakanna svo litlausir og áhrifalitlir að fólk fór að hætta að vita hvað þeir hétu. Þeir voru bara skrifstofustjórar í skriffinskubákni sem enginn batt lengur neinar vonir við, enda höfðu samtökin fengið falleinkunn í hverju prófinu af öðru og áttu sér ekki lengur neina viðreisnar von !
Þannig fer oftast þegar bjarga á einhverju í nafni alls mannkynsins. Stórveldapólitík yfirstandandi tíma eyðileggur þar allt og gerir þar allt að afskræmingu þess sem það ætti að vera !
Andi gamla rómverska ríkisins er enn lifandi í Evrópu og ýmsir þar vilja fá að deila og drottna á sama hátt og það ríki gerði svo lengi í meginhluta álfunnar. En ávextirnir af slíku valdabrölti hafa aldrei verið góðir !
Og fyrir það hefur mannkynið alla tíð þurft að líða !
15.6.2019 | 00:01
Að verja sín lönd eða ekki !
Winston Churchill hefur löngum verið goð á stalli í margra augum og orð hans og verk hafin yfir allan vafa. En mistök hans voru mörg og stór. Þó er reynt að tala sem minnst um allt það sem hann gerði og lét sér um munn fara sem þykir ekki goðsögninni til framdráttar !
Churchill var stórlátur maður og örgeðja og oft óvæginn í dómum um menn og málefni þegar honum mislíkaði eitthvað. Hefði stríðið ekki komið til, hefði hann trúlega fengið eftirmæli sem misheppnaður pólitíkus !
Jafnvel meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð, sagði hann ýmislegt sem orkaði meira en tvímælis og ekki síst með hliðsjón af sérgæðingslegri framgöngu Breta fyrr og síðar. Hann er t. d. sagður hafa ásakað Svíþjóð um að nota sér aðstöðu sína til að græða á báðum stríðsaðilum án nokkurs tillits til siðferðilegra sjónarmiða. Þar á hann að hafa gefið Svíþjóð einkunnina - ,,That small Coward Country !
Forsagan er sú, að í apríl 1944 beindu bandamenn þeim ákveðnu tilmælum til hlutlausra ríkja í Evrópu og víðar að þau hættu öllum viðskiptum við Þýskaland nazismans. Þau viðskipti voru mörg hver Þjóðverjum mjög nauðsynleg hernaðarlega séð og drógu því líklega stríðið á langinn !
Skömmu áður höfðu verið hafnar vissar viðskiptalegar refsiaðgerðir af hálfu bandamanna gegn þessum ríkjum. Sum þeirra þóttust - þegar hér var komið sögu - sjá fyrir ósigur Þjóðverja í stríðinu, og sáu því hag sínum best borgið með því að bregðast vel við fyrrgreindum tilmælum !
Tyrkland hætti þegar í apríl að selja Þjóðverjum króm og jafnvel spænska fasistaríkið dró í maíbyrjun mikið úr wolfram-útflutningi sínum til Þýskalands, en Svíar neituðu hinsvegar algerlega að verða við áskorun bandamanna og héldu viðskiptum sínum við nazista áfram !
Frá Svíþjóð fékk Hitlers-stjórnin meðal annars járnstein, timbur, pappír og síðast en ekki síst kúlulegur, en margar kúluleguverksmiðjur Þjóðverja höfðu verið sprengdar í rústir í stöðugt vaxandi loftárásum á Þýskaland !
Margir voru til sem vildu meina að drjúgir sambandsþræðir lægju milli sumra áhrifamanna í Svíþjóð og forustumanna nazista. Hefur ýmislegt verið nefnt því til áréttingar. Sænski krónprinsinn Gústaf Adolf var t. d. kvæntur þýskri konu er Sybilla hét, en faðir hennar var þekktur meðlimur nazistaflokksins og háttsettur sem slíkur. Hann er af mörgum talinn hafa verið stríðsglæpamaður en þau mál voru aldrei fullrannsökuð. Þau hjónin, Gustav Adolf og Sybilla voru foreldrar núverandi konungs Svíþjóðar !
Eiginkona Hermanns Göring var ennfremur af sænskum aðalsættum og jafnframt meðlimur í þýska nazistaflokknum, en hún lést reyndar áður en styrjöldin braust út. Olof Thörnell hershöfðingi, yfirmaður sænska heraflans, var sagður þýsksinnaður og var sæmdur stórkrossi Reglu þýska arnarins 7. október 1940, meðan á stríðinu stóð, og fékk með heiðurs-merkinu persónulegt bréf, undirritað af Adolf Hitler !
Ýmislegt fleira hefur verið nefnt sem sönnun fyrir sænskum tengslum við ráðamenn Þriðja ríkisins og þar er meira að segja minnst á furðu árangursríkt björgunarstarf Folke Bernadottes greifa á lokavikum stríðsins, varðandi lausn norrænna fanga úr þýskum fangabúðum, og það í gegnum samninga við sjálfan höfuðböðulinn Himmler. Það má þó ætla að í ýmsum þessum tilfellum sé gengið nokkuð langt í ályktunum, en hver maður verður að meta þau mál út frá því sem honum þykir trúlegast !
Í vetrarstríðinu milli Finna og Sovétmanna, nánar tiltekið í febrúar 1940, höfðu Bretar og Frakkar safnað saman allmiklum her sem átti að berjast með Finnum gegn Sovétmönnum, en sú ætlun rann út í sandinn vegna þess að Noregur og Svíþjóð neituðu ákveðið sem hlutlaus lönd, að leyfa her þessum að fara um norskt og sænskt land. Vafalítið var þessi ætlun líka hrein firra því að fljótt kom í ljós að Bretland og Frakkland stóðust ekki Þjóðverjum einum snúning, hvað þá annað, þegar til kom !
Síðar á árinu 1940 leyfðu Svíar hinsvegar að þýskt herlið væri flutt yfir land þeirra - með lestakerfi þeirra - til Noregs og þá virðist hlutleysi þeirra hafa verið orðið býsna sveigjanlegt svo ekki sé meira sagt. Sumir vilja meina að andspyrna Norðmanna gegn Þjóðverjum hefði getað orðið mun árangursríkari, til dæmis í bardögunum við Narvik, ef Svíar hefðu ekki verið svona afskaplega almennilegir við Þjóðverja að heimila umrædda liðsflutninga !
Varðandi meint orð Churchills um Svíþjóð má líka segja það að fleiri virðast svo sem hafa borið þungan hug til Svía á þessum tímum. Johan Nygaardsvold, þá landflótta forsætisráðherra Noregs, virðist ekki hafa vandað Per Albin Hansson starfsbróður sínum í Svíþjóð kveðjurnar í skilaboðum sem áttu að fara til hans, en þar er Nygaardsvold sagður hafa sagt meðal annars: ,, Það er ekkert, ekkert, ekkert sem ég hata af jafn mikilli ástríðu og hef jafnmikið á móti og Svíþjóð. 0g það er hans sök ! Umrædd boð munu hinsvegar aldrei hafa skilað sér til Hanssons, því milliliðurinn er sagður hafa heykst á því að koma þeim á framfæri !
Við innrás Þjóðverja í Sovétríkin lýstu Finnar fyrst yfir hlutleysi sínu, en gengu svo innan fárra daga til liðs við nazista og sendu her á hendur Sovétmönnum. Þó voru margir í Finnlandi sagðir hafa verið andvígir þátttöku Finna í árásarstríði gegn Sovétríkjunum, en þeir sem réðu ferðinni horfðu ekki í það, enda munu þeir sumir hverjir hafa verið býsna hliðhollir nazistum. Var sú ráðabreytni finnskra stjórnvalda þeim til lítillar gæfu !
Sænskir ráðamenn hafa vafalítið óttast um tíma að Þjóðverjar kynnu að ráðast á Svíþjóð og trúlega reynt að halda þannig á málum að þeir hefðu sem minnsta ástæðu til þess. Það er samt ekki ólíklegt að sú stefna þeirra hafi komið niður á þjóðlegri virðingu þeirra í augum fjölmargra sem áttu um sárt að binda á þessum tíma af völdum Þjóðverja. Það hafa því vafalaust fleiri en Churchill og Nygaardsvold orðið beiskir í garð Svía !
En sænsk yfirvöld hafa líklega hugsað fyrst og fremst um að vernda eigin þjóð og sænska þjóðarhagsmuni á þessum árum og erfitt er að gefa þeim það að sök, að gæta þeirrar meginskyldu sinnar. Það var styrjöld í gangi í Evrópu, fáu sem engu að treysta og veður öll válynd !
Þess væri hinsvegar í sama máta óskandi að stjórnvöld í Svíþjóð hefðu á undanförnum árum staðið jafn vel á verði fyrir sænskum þjóðar-hagsmunum og þau virðast hafa verið 1940. Þá hefðu þau eflaust kunnað að varast þá innflytjendainnrás sem nú er, - vegna ábyrgðarleysis þeirra, - að breyta sænsku þjóðfélagi til hins verra og leiða það inn á brautir vaxandi friðleysu með uggvekjandi hætti. Þar virðist sænsk stjórnmálaforusta algerlega hafa brugðist hagsmunum eigin þjóðar !
Vöntun þeirrar varðstöðu er þegar farin að hafa sínar slæmu afleiðingar í Svíþjóð og hefur höggvið sín skæðu skörð í velferðarkerfi lands og þjóðar. Komandi ár munu að öllu óbreyttu sýna það enn frekar, að illa hefur verið staðið þar að málum gagnvart þeim meginskyldum sem stjórnvöldum ber fyrst og síðast að vera á verði fyrir, - svo þjóð megi halda velli !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook
7.6.2019 | 18:47
,,Litli breski asninn !
Heimildir eru fyrir því að Winston Churchill hafi áttað sig á því eftir Teheran-ráðstefnuna seint á árinu 1943 að Bretland væri að tapa stórveldisstöðu sinni og dragast aftur úr miðað við stöðugt rísandi veldi og vaxandi herstyrk Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Hann á að hafa lýst því eftirfarandi að lokinni ráðstefnunni:
,,Þarna sat ég með hinn mikla rússneska björn á aðra hönd og hann var með klærnar útglenntar. Á hina höndina var hinn mikli ameríski vísundur. Á milli þessara tveggja sat svo vesalings litli breski asninn og var sá eini allra þriggja sem rataði réttu leiðina heim !
Við skulum láta ratvísina, að mati Churchills, liggja milli hluta, en það hlýtur að hafa verið áfall fyrir þennan gamalgróna fulltrúa breska heimsveldisins að þurfa að horfast í augu við þá beisku staðreynd að Stóra-Bretland var að verða litla Bretland. Að upplifa að eggið væri komið langt fram úr hænunni og hænan nánast komin á framfæri eggsins !
Að vísu getur það hafa dregið úr sviðanum að móðir Churchills var bandarísk, svo þessi ætlaði stórbreti var eiginlega bara hálfbreti !
Þegar Bretar voru smám saman, en örugglega að missa tökin á nýlendum sínum og arðránsmöguleikarnir þar stöðugt að minnka vegna vaxandi andspyrnu af ýmsu tagi, kom æ betur í ljós að Bretar höfðu ekki burði til að halda fyrra veldi sínu í gangi með auðlindir heimalandsins einar að bakhjarli !
Fyrri heimsstyrjöldin hafði gengið töluvert á veldisstöðu þeirra og síðan hafði öll þróun mála verið þeim í óhag. Það var einfaldlega ekki hægt að viðhalda þeim lífsháttum sem áður þóttu svo sjálfsagðir að áliti bresku yfirstéttarinnar. Samt var lengi reynt að halda öllu föstu í gamla farinu í von um að eitthvað yrði þar til bjargar !
Við lok seinni heimstyrjaldarinnar var hinsvegar augljóst að Bretar voru orðnir langt á eftir Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum að veldi og áhrifum í heiminum. Auk þess voru þeir stórskuldugir þeim fyrrnefndu og Bretland í raun dottið ofan í þá stöðu að vera fylgiríki Bandaríkjanna !
Þessar breytingar komu vel fram í hinu pólitíska landslagi eftir stríðið. Stundum þegar Bretar reyndu að sýna valdstilburði á fyrri nótum, eins og t.d. í Súezdeilunni, komu Bandaríkjamenn í veg fyrir það og sögðu þeim bara að hafa sig hæga. Bretar áttu engan annan kost en að hlýða, enda bauð skuldastaðan við Vestanhafsveldið mikla þeim ekki upp á annað !
Horfin var heimsveldisdýrð Viktoríutímans og andinn í Rule Britannia. Allt var það bara hluti af fortíð sem aldrei gat orðið að veruleika á ný. Og mörgum Stór-bretanum rann það til rifja hvernig komið var, en í raun hafði Stóra-Bretland alla sína stórveldistíð, með öllum sínum hroka, lifað á annarra blóði. Þegar undirþjóðir þeirra vildu hafa sitt blóð til eigin nota og höfðu afl til þess að knýja það fram, fjaraði fljótt undan breska heimsveldinu og leiðarstefinu frá London !
Það var eins og þegar íslensku stórbændurnir gátu ekki lengur fjötrað vinnufólkið hjá sér með vistarbandi og það leitaði út að ströndum landsins eftir eigin lífsrétti og sjávarfanginu sem þá var frjálst. Þegar arðránið sem verið hafði fékk ekki lengur staðist, fjaraði fljótt undan stórbúunum og auðsældinni, því allt var þar byggt að grunni til á sömu forsendum yfirgangs og þrælahalds !
Íslenskir stórbændur voru í raun greifar og jarlar þessa lands og engu betri en hliðstæður þeirra erlendis. Andi mannfrelsis á aldrei samleið með blóðsugum valdshroka og kúgunarforskrifta !
Bretland er enn við lýði en það er aðeins miðlungsríki í dag og þjóðin er önnur en hún var. Sovétríkin eru hrunin og Bandaríkin munu hrynja þegar þar að kemur. Þau eru þegar komin yfir sína hástöðu. Kína hefur vaxið mikið sem stórveldi á seinni árum, en það mun líka eiga fyrir sér að týna þeirri stöðu. Engin valdsstaða í heiminum er örugg til lengdar !
Öll stórveldi verða að nærast á aðfengnu blóði með einum eða öðrum hætti. Þegar slíkar blóðgjafir fást ekki og nást ekki lengur, hættir stórveldið fljótlega að vera til, sama af hvaða rótum það er runnið !
Í ljósi samtímans er það að mörgu leyti hlægilegt hvað bresk stjórnvöld halda í gamla hrokasiði og gangast mikið fyrir titlum og allskyns hégómauppfærslum. En það virðist þeim allra þjóða eðlislægast og nú þegar allt hið fyrra vald þeirra er nánast orðið að engu, hanga þeir á öllum slíkum arfi eins og hundar á roði. Það virðist þeirra eina hugsvölun í heimi sem leggst ekki alveg flatur eins og fyrr á tíð fyrir aðalsdekri og kóngasleikjuhætti !
Það er naumast nokkur efi á því að breska konungdæmið mun enn um sinn hanga uppi við, þó telja megi að lítið sem ekkert sé að verða eftir af þjóðinni sem eitt sinn var. Breski asninn verður langlífur þó hann sé fyrir löngu orðinn lítill og smár og ratvísi hans sé og hafi löngum verið meir en umdeilanleg !
Hégómleikinn einn megnar margt í heimi manna og hann hefur alltaf verið til staðar í fullu gengi og verið vel fóðraður í bresku yfirstéttar-samfélagi og jafnframt verið sleiktur dyggilega upp af þeim sem neðar hafa staðið !
Mannkynssagan kennir okkur margt og þá kannski helst þá staðreynd - að mikilvægustu lexíur mannlífsins í þessum heimi verða áreiðanlega seint lærðar. Litlir asnar eru alls staðar á kreiki og stórir asnar allt of víða einkum þó í valdastöðum !
3.6.2019 | 10:48
,,Lífskjarastjórnin !
Nú situr sem oftar við völd ríkisstjórn sem hefur það skylduhlutverk með höndum, að vinna ákveðin verk í þágu okkar fólksins í landinu. Meðal þess sem hún á að sjá um, er að lífskjör fólks í þessu landi séu og verði viðunandi. Þessvegna er hún og á að vera lífskjarastjórn. En engum lifandi manni dettur þó í hug að kalla hana slíku nafni !
En þegar gerðir eru samningar á vinnumarkaði, samningar sem eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, fá þeir samt heitið lífskjarasamningar !
Af hverju skyldi það vera ? Hverjir skyldu vera svona áfjáðir í að nefna hlutina nöfnum sem þeir standa ekki undir ? Er ekki augljóst að það hlýtur að eiga sínar skýringar ?
Þegar vandamál eru ,,leyst eins og það er kallað, með því að láta almenning borga syndagjöldin af óstjórn og óreiðu ráðamanna - með einum eða öðrum hætti, þá fær gjörningurinn yfirleitt opinberlega óskaplega jákvæða skilgreiningu. Við ættum að vera farin að þekkja það sem sent er út af þeim áróðursvelli ósannindanna, heiti á við þjóðarsátt, lífskjarasamninga, o.fl. Svika-útfærslurnar í þeim efnum eru hreint ekki orðnar svo fáar og alltaf virðist fólk láta allt yfir sig ganga !
En það er heldur ekki auðvelt að standa gegn þeim vondu vinnubrögðum. Oftast er ábyrgðarlaust ríkisvaldið þar að baki og stundum líka sjálf forusta launþega-hreyfingarinnar ásamt lífeyrissjóðakerfinu sem er fyrir allnokkru orðið helsta atvinnurekendavaldið í landinu. Þar er fé fólksins, að margra mati, notað öfugt við það sem ætti að vera eða hreint út sagt gegn hagsmunum og velferð almennings !
Þegar allt þetta er haft í huga, skilja menn kannski öllu betur af hverju ekki er hægt að tala um lífskjarastjórn. Það myndi leiða til þess að menn sæju fljótt brestina í þeirri nafngift og væru líklegri til að snúast gegn þeim umskiptingi sem þar væri á ferð. Engin íslensk ríkisstjórn hefur nefnilega verið lífskjarastjórn. Þær hafa allar verið lífskjaraskerðingarstjórnir !
Almenningur hefur lengi verið kúgaður til þess að halda uppi afar gráðugri yfirstétt í þessu landi. Þar er um að ræða allskyns blóðsuguelítur, stjórnmála, háskóla, menningar, lista o.s.frv.
Eftirlitsiðnaðarelíta hefur verið að bætast við síðustu árin og hún hefur sennilega ótakmarkaða möguleika til vaxtar, gæti hugsanlega ein og sér svelgt í sig allt fjármagn þjóðfélagsins á næstu árum. Inn í þessar elítur streymir unga menntafólkið eins og flugur að mykjuhaugum !
Þessar elítur eru svo fjárfrekar og leggja svo lítið til almennrar velferðar, að það stafar sífellt meiri ógn af þeim fyrir þjóðarbúskapinn. Hernaður eftirlitsiðnaðar gegn litlum og meðalstórum fyrirtækjum er til dæmis sagður vera orðið meiriháttar vandamál á Vesturlöndum sem og hér !
Afleiðingarnar hafa líka sýnt sig. Framleiðslugreinarnar svelta og heilbrigt framtak dregst saman, nýsköpun fær lítinn byr í seglin og stöðnun og afturför setur mark sitt á allt. Afætunum fjölgar svo að þær éta orðið alla verðmætasköpun í landinu upp og það jafnvel áður en hún verður til !
Og lífskjörin hljóta auðvitað að verða lakari við slíkar aðstæður. Það segir sig sjálft. Lífskjarastjórn er því ekki raunhæft fyrirbæri á Íslandi fremur en fyrri daginn. Það sæju allflestir líklega nokkuð fljótt að slíkt væri hið argasta rangnefni á íslenskri ríkisstjórn !
En að klína slíku heiti á öfuga samningagerð gæti hinsvegar virkað, ekki síst ef því væri kröftuglega á lofti haldið á fjölmiðlavísu og það er gert !
Það útspil er auðvitað til að þjóna þeim áróðri sem oftast vill gera svart að hvítu og hvítt að svörtu. Og sú leið hefur verið farin nú sem oftar.
En þau öfl sem standa fyrir slíkum blekkingum verða hinsvegar seint talin þjóna almennri velferð, hvort sem þau láta til sín taka á Íslandi eða annars staðar. Þar er aldrei neitt gott í gangi, þar er sérgæskan ein á ferð !
1.6.2019 | 12:43
Lengi getur vont versnað !
Það eru býsna margir sem tjá óhikað það álit sitt að alþingi Íslendinga sé illa skipað í dag. Og það er ekki að ástæðulausu að svo er talað !
Flækjustig flokkanna virðist orðið svo hátt og stefnufirringin mikil, að málflutningur kjörinna fulltrúa á þingi er orðinn yfir línuna eins og veðurspáin hjá kerlingunni í þjóðsögunum eða tal hagfræðimenntaðra sérfræðinga í sjónvarpsviðtölum, sem sagt - annaðhvort verður hann áfram svona ellegar þá hann breytir til !
Traust virðist mikið til að hverfa úr íslenskum stjórnmálum. Þar virðist nú helst safnast saman í framboðsklíkur, og það hjá öllum flokkum, fólk sem er nýskriðið úr skólum með sínar menntagráður ; fólk sem hefur lítið sem ekkert unnið á almennum vinnumarkaði, hefur eiginlega engu kynnst nema því að vera í skóla, og þykist samt geta veitt þjóðinni leiðsögn út á sitt fengna vegtyllu-veganesti sem er kannski fyrst og fremst byggt á þröngri innanhóps sýn á samfélagið nokkurskonar skráargats-útkomu !
Umræður á alþingi virðast leiða það hvað eftir annað í ljós, að þar sé að mestu saman komið einhverskonar sérklíkulið, sem er grasrótarlaust og andlega slitið úr sambandi við fólkið í landinu. Þó sumir á þingi keyri mikið að sögn virðist það ekki skila sér í meiri almannatengslum. Og það hefur ekki farið leynt að sumir þingmenn vildu bara skerða málfrelsið þegar Miðflokksmenn sáu ástæðu til að undirstrika andstöðu sína við ásælni Evrópusambandsins með úthaldsmiklum ræðuflutningi !
Þar virtust sumir yfirlýstir vinstrimenn jafnvel taka sér stöðu til hægri við hægrimennina og sýnir það eins og margt annað stöðumála ruglinginn. sem setur mark sitt á flest í þinginu og það svo að menn virðast ekki lengur vita hvar þeir eigi að standa og hverju þeir eigi að fylgja. Enginn virðist heldur vita hverskonar stjórn situr í landinu, hvort það er vinstristjórn eða hægristjórn og sennilega vita ráðherrarnir það síst allra !
Forsætisráðherra er bara, eins og flestir hljóta að vera farnir að sjá og skilja, ánægð með að vera forsætisráðherra, og í því sambandi skiptir litlu þó enginn viti fyrir hvaða stefnu stjórn hennar stendur. Er á meðan er !
Það er líka áreiðanlega svo tilfinningalega notalegt að vera komin á blað í Íslandssögunni, hvað sem verðleikunum líður !
Eftir því sem mannval verður minna á þingi er líklegt að brotalamir allrar kerfisskipunar þar komi frekar í ljós, og sem fyrr segir telja margir að þingliðið í heild sé í rýrasta lagi miðað við það sem verið hefur.
Ef gildisbær úttekt myndi leiða í ljós að svo væri, þyrfti auðvitað að finna leiðir til að gera þingið þjóðhagslega starfhæfara og það sem fyrst !
Eflaust mætti fækka þingflokkum til hagræðingar og vonandi minni þjóðarkostnaðar. Mörgum þykir sem Viðreisn sé bara orðin eins og einhver deild í Samfylkingunni og aðrir segja reyndar það sama núorðið um Pírata. Þessir þrír meintu flokkar virðast að minnsta kosti í mörgu vera svo alþjóðlega eða utanlands-sinnaðir, að þjóðleg viðhorf komast varla að !
Flokkur fólksins hefur dregist verulega saman að þingstyrk, eins og alþjóð veit, og ólíklegt er að hann fari vaxandi úr þessu, hvort sem haft er hátt eða grátið. Ekki er heldur öllum formönnum gefið að kunna þá list að halda liði sínu saman eins og sjá má !
Miðflokkurinn vill greinilega marka sér ákveðna sérstöðu, en vandséð er hvort hann nær því takmarki sínu eða á eftir að koðna niður. Kapp og forsjá þurfa að haldast í hendur ef vel á að fara !
Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að líkindum í vissa forustukreppu, því fæstum dylst að Bjarni Benediktsson hefur ekki náð að mæta væntingum flokksmanna sem sterkur leiðtogi. Með nafna sínum og fyrirrennara á hann í þeim efnum lítið sameiginlegt. Hann virðist þó vera að reyna að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í Fréttablaðinu !
Framsóknarflokkurinn virðist enn halda sínum starfsútibúum í nokkurri veltu á landsbyggðinni, en þar byggir hann enn sem fyrr á nokkuð sterkum grunni. Ólíklegt er hinsvegar að fylgi hans vaxi mikið í óðaþéttbýlinu á suðvesturhorninu og kannski er það bara gott !
Það tekur því ekki að minnast á vinstri græn jafnvel ekki í minningargrein !
Svona er þá staðan eða því sem næst .. Þessir eru valkostir kjósenda og þrátt fyrir fjölda flokkanna verður að segjast að það er lítið í boði !
Ákaflega litlar líkur verða samt að teljast fyrir því að einhver siðbótarvakning verði í íslenskri pólitík í komandi tíð. Sjálfsánægja manna þar virðist nefnilega slík, að menn eru miklu líklegri til að kenna fólkinu um það sem aflaga fer en sjálfum sér !
Við vitum svo sem að þjóðin okkar er ekki stór, en það er vaxandi áhyggjuefni margra Íslendinga að hlutfallslega séð virðist þingið samt vera töluvert minna að gildi en efni ættu að standa til !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 24
- Sl. sólarhring: 73
- Sl. viku: 593
- Frá upphafi: 365491
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 506
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)