Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
30.8.2019 | 23:58
Lifi þjóðfrelsið drepist kúgunarvaldið !
Megi það verða munað hér eftir af Íslendingum, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, ríkisstjórn undir forustu Vg, ætlar að standa fyrir samþykkt þriðja orkupakkans á alþingi og þar með því framsali íslenskra þjóðréttinda sem fylgir samþykkt hans. Það segir væntanlega sína sögu um það hvernig völd geta spillt manneskjum og gert þær jafnvel að andstæðu þess sem þær voru áður !
Einhverntíma hefði núverandi forsætisráðherra haldið allt öðruvísi á málum og allir sem eiga að heita vinstri menn talið eðlilegt að orkupakkamálið færi í þjóðaratkvæða-greiðslu. En valdið spillir sem fyrr segir, og menn geta séð það sannast á því hvernig formaður Vg heldur nú á málum. Þannig fer jafnan fyrir fólki sem kýs fyrir eigin fordild og upphefðarþrá að vera í vondum félagsskap !
Meirihlutinn á alþingi vill ekki, frekar en endranær á úrslitastund, leyfa þjóðinni að ráða örlögum sínum. Það sannast hvar menn standa þegar á hólminn er komið og ömurlegt er að sjá hvernig undirlægjuhátturinn gagnvart útlendu valdi sýnir sig, nú sem stundum áður, á þjóðþinginu !
Sú var tíðin að talið var víst að konur væru mun líklegri til að verja íslensk þjóðréttindi en karlar. Ýmsar skoðanakannanir virtust sýna fram á það og var það eðlilega talið konum til sæmdarauka. En nú virðist öldin önnur !
Þegar litið er á stöðuna, eins og hún virðist koma fram á þingi í orkupakkamálinu, má ekki betur sjá en konurnar sem þar sitja beygi sig ekki síður undir flokks-aga en karlarnir. Þær sýnast þar ekkert nær því að vilja verja sjálfstæði okkar og fullveldi en þeir. Þar sést að kynferðið eitt ræður sannarlega ekki viðhorfum og tryggir hvorki eitt né neitt !
Það er sama hvort við tölum um 1262,1662,1949,1961,1994 eða 2019 í íslenskri sögu, það virðast alltaf vera nógir til að gerast konungsmenn. Samningagerð við útlendinga hefur sýnt það á öllum tímum, jafnt í fyrrnefndum tilfellum sem og öðrum. Það er sama hvort það er Hákon gamli, Friðrik III, Nató eða Evrópusambandið sem krefst hlýðni, alltaf eru þeir til sem vilja játa öllu og hlýða, krjúpa og leggjast flatir og sleikja !
Erlenda valdið virðist sem löngum fyrr fara létt með það að afla sér þjónustumanna hér. Þeir sem semja fyrir Íslands hönd í höfuðmálum lands og þjóðar virðast alltaf sömu ættar og þjóna öðru en skyldi. Það er skelfileg staðreynd og í henni endurspeglast enn sem fyrr óhamingja Íslands. Af hverju í ósköpunum getum við aldrei eignast frambærilega forustumenn sem standa í lappirnar gagnvart erlendum yfirgangi ?
Sérhvert þjóðþing sem samþykkir á þingi sínu einhver önnur lög æðri þjóðarlögum, bregst með slíkum gjörningi skyldu sinni og er ekki lengur réttur handhafi þjóðarvaldsins. Gruggug og óhrein undiralda pólitískrar sérhyggju meðal þingfulltrúa má aldrei fá að ráða örlögum neinnar þjóðar !
Vilji fólksins í landinu felur í sér æðstu lögin. Stöndum þar sameinuð og fellum ekki aftur á okkur erlenda fjötra. Sendum bölvaðan orkupakka-læðinginn aftur til Brussel og höfnum því að láta veiða okkur í þá gildru. Verum skynsöm og á verði fyrir öllum aðilum, innlendum sem erlendum, sem vilja hafa af okkur þjóðfrelsið !
Um sjálfstæði sitt og fullveldi á þjóðin og þjóðin ein að hafa síðasta orðið !
27.8.2019 | 10:02
Um birtingarmyndir breyttra viðhorfa !
Nú hefur komið fram að bandarísk stjórnvöld hafa ágirnd á Grænlandi og telja yfirráð þar hugsanlega nauðsynlegan hluta af því öryggisneti sem þau vilja skapa sér í síbreytilegum og viðsjárverðum heimi !
Með vaxandi mikilvægi norðurslóða og nýjum flutningaleiðum sem virðast vera að opnast þar, ætti það svo sem ekki að koma neinum á óvart að slík ásælni komi fram. En í því felst trúlega viss vísbending um það hvernig hugsað er í herköstulum valdabaráttunnar í yfirstandandi tíma !
Þó nýlendutíminn sé liðinn, og sú auðvaldsstefna vonandi þar með sem fólst í því að kasta eign sinni á lönd og lýði, er ekki þar með sagt - að gamlar aðferðir til valds og viðgangs geti ekki sýnt sig á ný. Ekkert er svo sem nýtt undir sólinni eins og þar stendur !
Það er því alls ekki útilokað að Bandaríkin eigi eftir að leggja Grænland undir sig í komandi framtíð, á þeim forsendum að þau séu nauðbeygð til þess vegna öryggishagsmuna sinna. Hver og hvað á að hindra slíkan gjörning af þeirra hálfu ef sú staða kæmi upp ?
Í stríðinu 1812 gerðu bandarískir stríðshaukar sér vonir um að þeir gætu klárað ákveðið verk sem hafði dregist fram að því, en það var að leggja Kanada undir Bandaríkin. Það var hinsvegar ekki á færi þeirra þá því Bretar voru þar svo sterkir á þeim tíma, að þeir sóttu fram og gátu jafnvel tekið Washington og brennt Hvíta húsið !
Stríðið endaði svo með því að samningar voru gerðir um þá landamæralínu sem hefur verið í gildi síðan. En til eru þeir í Bandaríkjunum sem enn hugsa á þá leið, að Norður Ameríka og Bandaríkin eigi að vera eitt !
Framkoma bandarískra stjórnvalda í seinni tíð hefur sýnt mörgum að þau svífast einskis ef út í það fer. Og þegar þau telja sig þurfa að verja hagsmuni sína er þeim trúandi til alls. Sjónarmið annarra skipta þá engu !
Núverandi forseti Bandaríkjanna hefur átt það til að glefsa í gróna bandamenn og sett ýmislegt í uppnám með slíku háttalagi. Slíkt þótti ekki til siðs áður og hefði þá verið talinn hreinn og beinn óvinafagnaður !
Kannski er umrædd framkoma núverandi forseta að einhverju leyti fyrirboði þess að ný uppstilling geti orðið til á komandi árum innan bandaríska stjórnkerfisins varðandi það hverjir verði skilgreindir sem traustir og raunhæfir bandamenn og hverjir ekki !
Bandaríkin eru í dag ekkert annað en venjulegt stórveldi sem hegðar sér eins og slík veldi hafa alltaf gert í gegnum söguna. Þau eru enginn útvörður lýðfrelsis eða höfuðvirki hins frjálsa heims eins og þau hafa löngum viljað láta kalla sig. Kommúnisminn gaf þeim þá stöðu og nú sjá margir annað en þeir sáu áður og gera sér grein fyrir í breyttum heimi að ekki hefur allt verið sem þeim sýndist !
Margir innflytjendur sjá nú ljóslega að frelsisstytta Bandaríkjanna hefur ekki lengur að geyma þá lífgefandi mynd sem lengstum hefur verið af henni gefin. Þeir sjá að í hinu ætlaða Gósenlandi tækifæranna eru ýmsar skerðingar á frelsi í vaxandi ferli og skuggahliðar að koma fram í ýmsum málum sem vekja ugg og kvíða í hjörtum þeirra !
Berlínarmúrinn er fallinn en Bandaríkjamúrinn virðist vera að rísa í einni mynd eða annarri. Nú á að loka á óæskilega aðila til að varðveita enn betur sérhagsmuni hinna ríku. Þannig virðist staðan orðin í hinu bandaríska samfélagi sem varð þó ekki til sem þjóðríki heldur sem fjölmenningarríki !
Ekki hefur aðgreiningin minnkað þar með tímanum. Margvíslegar blikur eru á lofti og það er eins og einhver ávanabundin hrollvekja sé að yfirtaka sviðið í hinu yfirlýsta landi frelsisins, sem orðið er land hinnar allsráðandi skothríðar. Þar getur verið von á ýmsu sé gengið yfir götu !
Ameríski draumurinn er ekki lengur sá veruleiki sem hann þótti áður !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook
24.8.2019 | 09:46
Grasrót í fjötrum !
Grasrótin í Sjálfstæðisflokknum er að mörgu leyti athyglisverð og þar virðast oft koma fram mjög þjóðleg og í sjálfu sér ærleg viðhorf. Það hefur líka oft virtst koma skýrt í ljós, og það að margra dómi, að grasrót flokksins sé yfirleitt mörgum gæðaflokkum ofar að gildi en forusta flokksins hverju sinni. Það er kannski einmitt þessvegna sem hún fær sýnilega engu ráðið !
Það virðist mjög einkennandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og forustu hans, að þegar landsfundur samþykkir það sem kalla mætti þjóðlegar og ærlegar áherslur í meðferð mála, reynir toppliðið iðulega að rýra þær áherslur og gera lítið úr þeim. Það er vægast sagt undarleg árátta sem vekur ýmsar spurningar, en í forustunni virðist oft svo mikill skortur á þjóðar-manndómslegu framtaki að furðu vekur !
Stundum finnst manni sem forusta flokksins skilji hreint ekki valdsvið landsfundar og byrji strax að honum loknum að þynna út margt af því sem þar hefur verið ákveðið. Stefnumörkun landsfundar virðist þannig oft að litlu sem engu höfð og forustumenn flokksins virðast jafnvel sjálfir eiga það til að gera grín að niðurstöðum mála þar!
Þá er eins og grasrótinni í flokknum sé gefinn löðrungur og það af hálfu þeirra sem síst ættu slíkt að gera. Það er auðvitað hvorki heilbrigt né boðlegt að forusta flokks skilji ekki í hverju styrkur flokksins liggur og hafni því sem frá grasrótinni kemur og virðist líta á það sem tóma vitleysu !
Eitt af þeim málum sem leitt hefur hvað skýrast í ljós þá gjá sem skapast getur í Sjálfstæðisflokknum milli flokksforustunnar og almennra félaga í flokknum er orkupakkamálið. Þar virðist grasrótin standa fullan vörð fyrir almennum þjóðarhagsmunum en forustan fyrir einhverjum óskilgreindum og ljósfælnum sérhagsmunum !
Það virðist sem sagt svo, að grasrótin í Sjálfstæðisflokknum sé alltaf miklu næmari en forusta flokksins fyrir varðveislu megingilda þjóðarinnar, svo sem sjálfstæðisins - og á heildina litið - hins þjóðlega frelsis !
Af hverju skyldi það vera ? Af hverju virðist forusta flokksins alltaf vera að reyna að halda grasrót flokksins í einhverskonar gíslingu, í meintum hugarfarslegum fjötrum, hvað völd og áhrif snertir ?
Er grasrót flokksins til húsa á réttum stað eða er forusta flokksins til húsa á röngum stað ? Þessi öfl virðast ekki stefna sömu leið, svo í hverju liggur villan ? Samkvæmt stefnuskrá flokksins virðist grasrótin standa fyrir höfuðgildi flokksins og af hverju hegðar forustan sér þá eins og hún gerir ?
Allt virðist eiginlega benda til þess að forusta flokksins þjóni einhverju öðru en hún á að gera. Hversvegna er flokkurinn þá með slíka forustu, forustu sem virðist oft fyrirlíta niðurstöður æðsta þings flokksins og fara aðrar leiðir í málum en almennir flokksmenn samþykkja í meirihluta á landsfundum ? Hvaða vald er það að tjaldabaki í flokknum sem stjórnar slíkum vinnubrögðum ?
Þegar flokkur, sem byggður er upp í kringum það mikla og síþarfa meginverkefni að varðveita sjálfstæði lands og þjóðar, sýnir sig vera með forustu sem virðist ganga fyrir öðrum og andstæðum innspýtingum, hvað er þá eiginlega í gangi, og til hvers eru landsfundir slíks flokks, ef ákvarðanir hans eru að engu hafðar ?
Til hvers er grasrót í slíkum flokki ef ekkert er á hana hlustað og jafnvel gert lítilsvirðingargrín að henni af hálfu forustumanna ? Er ekki kominn tími til að spyrja, bæði af hálfu almennra flokksmanna og annarra Íslendinga, hvaða vald stjórni Sjálfstæðisflokknum í raun og veru ?
17.8.2019 | 10:38
,,Þægðarkisugengið !
Það hefur löngum þótt fylgja nokkuð vinstri flokkum, að talsverð breidd hefur verið til staðar í afstöðu til mála og umræða oft innan þeirra með frjálsasta móti. Þar hafa menn tekist á um ýmis atriði mála og stundum hefur það skilið á milli og leitt til klofnings !
En þegar menn eiga ekki lengur samleið til lausna er lítið við því að gera. Flokksagi hefur löngum verið meiri á hægri væng stjórnmálanna, og mönnum sem hafa brotið gegn honum hefur yfirleitt verið refsað þannig að það hefur orðið öðrum víti til varnaðar !
Árið 2009 var Vg enn flokkur í nokkrum vexti og bundu margir vonir við að hann gæti ýmsu góðu til vegar komið. Fólk sem vildi ýmsu breyta og afnema alls konar sérréttindi og gangandi misréttismál frá fyrri tíð, taldi aukið svigrúm til að koma ýmsum samfélagsmálum í höfn réttlætisins á þeim tíma. Þá var Vg með margt róttækt fólk innan sinna raða, fólk sem vakti tiltrú og virtist ganga fyrir hugsjónum !
En sú hugsjónamynd var ekki lengi höfð uppi við. Þeir sem vildu halda í hana voru nokkuð skyndilega troðnir niður innan flokksins og af hverju ? Jú, einræðisgjörn prímadonna krata fór að tala niður til samstarfsflokksins í ríkisstjórn og ræddi þar um erfiðleika við að smala villiköttum !
Þá ákvað formaður Vg, líklega í einhverju ósjálfræðiskasti, að láta undan og níðast á stefnu flokksins til þess eins að þóknast prímadonnunni og flokki hennar. Við það fór verulegur óhugur um marga sem fylgt höfðu Vg og talið flokkinn fram að því trúverðugan, enda urðu afleiðingarnar nöturlegar í meira lagi !
Skemmst er frá því að segja, að Steingrímur J. ásamt Katrínu, sem fylgdi honum náttúrulega í einu og öllu, sviku þannig með svívirðilegum hætti stefnu Vg varðandi ESB og hreinsuðu í framhaldinu svonefnda villiketti úr flokknum, það er að segja þá sem höfðu sjálfstæða hugsun. Lauk því ferli svo að eftir sátu eintómar þægðarkisur sem mjálmuðu í takt við þau. En við þessa kleppslegu krataþjónkun fór náttúrulega lífið og sálin úr Vg !
Og síðan hefur andleysið eitt verið til staðar í umræddu flokksgreyi,í kjarnalausu kompaníi sjálfumgleðinnar, við valdagírug viðhorf forustufólks,sem hefur slitið sig frá öllum fyrri rótum. Þar er ekkert sem stendur undir sér lengur eða kallar á virðingu !
Þetta eftirsitjandi þægðarkisulið Vg virðist sem stendur einna iðnast við að skíta í flest sem það áður þóttist standa fyrir og aumari skriðdýrsháttur hefur varla sést hér á landi til stjórnmálahóps um langt skeið, þó oft hafi gefið á bátinn í þeim efnum. Jafnvel Nató er orðið goð á stalli í véum flokksins !
Í Vg sýnist því ekkert vera eftir, nema viljalaust undirmálslið sem virðist tilbúið að fylgja útbrunnum foringjum hvert sem er, jafnvel fyrir björg !
Þar virðist engin sjálfstæð vitund vera lengur fyrir hendi og Sankti Steingrímur og Heilög Katrín leggja nú sjáanlega ein allt til í hugsun fyrir þetta vesæla þægðarkisugengi sem auðvitað er virkilega glatað Vg !
En auðvitað er hugsunartillag þessa tækifærissinnaða-hægrisleikjupars sem virðist alfarið ráða, af þeim vanefnum veitt, að virðingin fyrir flokksnefnunni er á hröðu undanhaldi frá því sem var á tímum villikatta og frjálsrar hugsunar. Það er mikil afturför !
Svo virðist sem öll framhaldstilvera þessa þægðarkisu-gengis sé nú að fullu og öllu í höndum íhaldsins og er sú staða sannarlega algjör andstæða þess veganestis sem lagt var af stað með í upphafi hinnar hugsjónalegu og yfirlýstu vinstrisóknar Vg árið 1999 !
Horfin er dýrðin, glötuð er vegsemdin, sic transit gloria mundi !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook
14.8.2019 | 10:53
Tilræði við ættfræði með meiru !
Sagan er okkur flestum hugleikin og að rata um vegi hennar hefur löngum þótt eftirsóknarverð fróðleiksíþrótt. Eitt af því sem tengir nútíð við fortíð er ættfræðin og hafa margir Íslendingar löngum stundað hana sér til ánægju og jafnframt getað miðlað öðrum þar af þekkingu sinni !
Nú virðist eiga að láta ábyrgðarlausa alfrelsishyggju nútímans og það hömluleysi sem henni fylgir, eyðileggja allar reglur um eðlilega nafnalöggjöf og verður þá líklega vandséð í komandi tíð hvernig mönnum gengur að rata um gættir - við að rekja ættir !
Þegar allir eðlilegir leiðarvísar hafa verið fjarlægðir er ekkert sem forðar því að allt fari í tóman rugling. Og það er eins og að því sé beinlínis stefnt. Niðurrifs-stefnan virðist svo yfirþyrmandi gagnvart allri samfélagslegri uppbyggingu fyrri tíðar, að það er orðin ísköld hrollvekja samtímans !
,,Lífið er núna segir tíðarandinn og einblínir á augnablikið. Ekkert skal lært af liðinni tíð og engin ábyrgð öxluð gagnvart komandi tíð. Það er engin ræktun lands og lýðs í sjónmáli. Ungmennafélagsandinn er löngu horfinn og gleymdur. Hann var rifinn niður í hít rangra viðhorfa !
Egóismi líðandi stundar vill bara fá að valta yfir allt sem heilbrigt getur talist í villtri sjálfumgleði sinni og alfrelsisvímu á ætluðum toppi tilverunnar !
Nihilisminn virðist genginn aftur með skuggahliðum sínum og sem fyrr vill hann rústa öllu. Engu skal hlíft og öllum reglum skal tortímt. Stjórnleysið á að ráða. Þá fyrst á fólki að líða vel, þegar öll samfélagsmynd hefur verið brotin niður og fjarlægð. Þannig virðast tortímingarsinnar nútímans líta á málin í vanhugsuðum uppreisnaranda sínum !
En það eyðileggingar-andavald sem slíkum aðilum stjórnar, byggir allt sitt á blekkingu og flytur með sér bölvun. Þá fyrst fer fólki að líða verulega illa og það yfir heildina, þegar allt hefur verið fellt úr gildi sem veitir aðhald !
Öryggisleysið mun þá halda innreið sína á öllum sviðum og enginn verður óhultur. Alfrelsisvíman mun ekki fara vel með nokkurn mann !
Samfélagsreglur eru eins og umferðarreglur. Þær eiga að forða slysum. Þær hjálpa fólki til að rata um vegi samfélagsins. Þegar þær hafa verið afnumdar er voðinn vís. Hversvegna í ósköpunum ýta almennir borgarar í þessu landi undir niðurrifsöfl sem grafa undan borgaralegu öryggi ?
Vill fólk virkilega gleyma þeirri grundvallarreglu sem samfélags-sáttmálinn hvílir á, þeim undirstöðu sannleika sem felst í einkunnar-orðunum góðu að - með lögum skal land byggja og tryggja !
9.8.2019 | 21:01
Nokkrar vangaveltur um Sögu !
Það hefur allar götur legið fyrir að Japanar höfðu aldrei nokkra möguleika á að sigra Bandaríkin, jafnvel þótt þeim tækist með sviksamlegum hætti að sökkva nokkrum úreltum herskipum fyrir þeim í Perluhöfn. Isoroku Yamamoto á að hafa sagt eftir þann atburð : ,,Ég óttast að það eina sem við höfum áunnið, sé að hafa vakið sofandi risa !
Og Yamamoto sjálfur fékk ekki að kemba hærurnar. Í apríl 1943 komust Bandaríkjamenn að ferðaáætlun hans til vígstöðva-eftirlits og skutu vél hans niður og drápu hann og mestan hluta herráðs hans. Japanar áttu líklega engan mann með tilsvarandi hæfni sem gat tekið við af Yamamoto og var því dauði hans þeim mikið áfall og álitshnekkir um leið !
En hversvegna Bandaríkjamenn voru að eyða mannafla sínum í að hertaka hinar og þessar smáeyjar hér og þar um Kyrrahafið, hef ég aldrei getað skilið. Helst mætti halda að þar hafi verið sett í gang eitthvert sjónarspil eða leikvöllur fyrir hershöfðingjana og flotaforingjana. Þeim leiddist ekki að stunda sitt stríðs-áhugamál því hvernig sem fór urðu bara aðrir að gjalda fyrir það með lífi sínu !
Auðvitað hefði átt að beina öllum höggum að heimalandi andstæðingsins Japan sjálfu strax í byrjun. Varla hefðu Japanar setið í ró með heri sína hér og þar og út um allar eyjar, ef heimalandið hefði verið í hættu og orðið fyrir stöðugum árásum á meðan. Bandaríkjamenn hefðu átt að hafa fulla burði til að herja með slíkum hætti á Japan mjög fljótlega eftir að stríðið hófst og það er undarlegt að það skuli ekki hafa verið gert !
Hergagnaframleiðsla Bandaríkjanna hafði þvílíka afkastagetu að Japanar áttu engin svör við henni. Það var sama hvort verið var að framleiða flugmóðurskip, tundurspilla, kafbáta eða flugvélar, allt var gert með margföldum yfirburðum í Bandaríkjunum. Af hverju var samt verið að stunda þetta útskanka-stríð í stað þess að miða hernaðar-áætlanir við að lama hjarta andstæðingsins ?
Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að sumir hafi bara viljað láta skemmtunina vara sem lengst. Þegar stríð er í gangi þá er oft eins og það séu jól hjá hershöfðingjunum. Þá eru þeir í alvöru tindátaleik - og það sem meira er - í sviðsljósinu. Ekki bara að fletta kortum í einhverjum herráðs-sölum. Það er sagt að nokkurskonar hirðljósmyndari hafi til dæmis fylgt Eisenhower hvert fótmál, nema á klósettið !
Og þegar Bandaríkjamenn ákváðu að varpa kjarnorku-sprengjum á Hiroshima og Nagasaki, til að spara bandarísk mannslíf að sögn, eftir að hafa spanderað þeim villt og galið um allar eyjar og sker, af hverju var þá ekki frekar tekin sú ákvörðun að varpa bara einni sprengju á Tokyo. Þar var japanska yfirstjórnin til staðar, þar voru þeir sem báru ábyrgð á árásarstefnu Japana !
Ef gera átti slíka árás, sem auðvitað átti ekki að gera, hefði höfuðborgin frekar átt að verða skotmarkið heldur en einhverjar almennar borgir landsins. Tokyo var höfuðvettvangur ábyrgðar og valda í Japan. En það breytir því hinsvegar ekki að samt hefði undir öllum kringumstæðum verið um óverjandi og ófyrirgefanlegan stríðsglæp að ræða !
Bandaríkin eru enn í dag eina ríki veraldarinnar sem hefur varpað kjarnorkusprengjum á fólk og það meira að segja almenna borgara. Þjóð Washingtons, Adams, Jeffersons og Lincolns hefur ein þjóða framið slíkan örlagaglæp og vonandi fer engin önnur þjóð í þau hræðilegu spor !
En minna má á, að talið er fullvíst að MacArthur hershöfðingi og fleiri í forustuliði Bandaríkjanna hafi síðar í raun viljað fá að nota kjarnorkuvopn í Kóreu. Það segir náttúrulega sína sögu um virðingu þessara aðila fyrir mannslífum þegar á allt er litið !
En allur hernaður Bandaríkjamanna í stríðinu á Kyrrahafsvígstöðvunum var hinsvegar með ólíkindum. Hvað skyldi mörgum mannslífum hafa verið fórnað á Iwo Jima og öðrum smáeyjum sem skiptu í raun engu máli í heildar samhengi hlutanna ? Það þurfti fyrst og fremst að sigra Japan heima fyrir og þar hefði frá byrjun átt að láta höggin dynja !
Ótal bækur hafa verið skrifaðar og fjöldi kvikmynda gerður með allskyns áróðursefni um hina vesalings aðþrengdu og illa stöddu Ameríkana, í hetjulegri vörn gegn japanska ofureflinu hér og þar, en þannig var það bara ekki. Japanar voru ekkert ofurefli fyrir Bandaríkjamenn og áttu aldrei nokkurn möguleika á sigri !
Þetta minnir mjög á lýsingarnar af indíánastríðunum, þar sem varnarlausir landnemar voru að berjast við blóðþyrsta villimenn og riddaraliðið stöðugt að vinna ótrúlegar hetjudáðir gegn algjöru ofurefli. En indíánarnir áttu aldrei nokkra andspyrnu-möguleika gegn endalausum innflytjenda-straumnum og mannréttindi þeirra voru fótum troðin og einskisvirt með ótrúlega svívirðilegum hætti. Þar er um að ræða eina ljótustu sögu glæpsamlegs framferðis í allri mannkynssögunni !
Indíánar Norður Ameríku voru murkaðir niður og sviknir í öllum samningum, þó þeir væru bara að reyna að verja rétt sinn til landsins eins og eðlilegt var. En staða þeirra var vonlaus í öllum skilningi þess orðs !
Á móti þeim voru menn sem höfðu þá afstöðu til mála að enginn indíáni væri góður nema hann væri dauður. Villimennskan var meiri hjá þeim sem þóttust vera fulltrúar siðmenningarinnar !
Málstaður þeirra sem tapa fær aldrei sanngjarna umfjöllun. Suðurríkin höfðu til dæmis fullan rétt til að segja skilið við alríkið og stjórna eigin málum. Þar var um sömu réttindavörsluna að ræða og þegar nýlendurnar þrettán risu upp gegn Englendingum. En þrælahaldið varð Suðurríkja-mönnum fjötur um fót. Það er erfitt fyrir menn að sannfæra aðra um að þeir standi í frelsisbaráttu þegar þeir á sama tíma vilja halda öðrum í ánauð !
Hinsvegar var borgarastyrjöldin í Bandaríkjunum í raun að meginhluta valdabarátta milli þeirra sem stóðu með alríkinu og hinna sem töldu sjálfstæði einstakra ríkja grundvallar-atriði. Hollusta manna var yfirleitt frekast bundin þeirra heimaríki !
En þrælahaldið spillti málstað Suðurríkjanna allt frá byrjun og árás þeirra á Sumter virkið fól í sér afgerandi mistök. Alltaf gildir það fornkveðna, að trúverðugleiki manna byggist á því að þeir séu sjálfum sér samkvæmir !
En Bandaríkjamenn virðast því miður afar sjaldan vera sjálfum sér samkvæmir. Þeir virðast ekki telja að sú regla eigi við þá, bara alla aðra. Á sama tíma og þeir segjast standa fyrir gömul og góð sæmdargildi, virðast þeir hiklaust brjóta þau gildi, hvenær sem þeim sýnist, ef þeir telja það þjóna efnislegum hagsmunum sínum og þeir komast líka upp með slíkt framar öllum þjóðum !
Og ef til vill hefur það orðið til þess að ólíklegustu aðilar hafa tileinkað sér ýmsa ósiði þeirra. Japanar virðast til dæmis hafa lært margt af Bandaríkjamönnum frá stríðslokum og ekki hvað síst í viðskiptalegu tilliti. Á tímabili virtist viðskiptajöfnuður þjóðanna meira að segja vera með þeim hætti að spurning væri hver hefði í raun og veru sigrað í stríðinu ?
Margt var rætt um vesturþýska ,,efnahagsundrið á sínum tíma, en þegar litið er á allt það bandaríska fjármagn sem mokað var í Vestur-Þýskaland eftir stríðið, þarf engan að undra að uppgangurinn hafi verið mikill. Hann var hinsvegar ekki byggður á neinni sérstakri efnahagslegri snilld vesturþýskra leiðtoga, heldur á ótakmörkuðum yfirdrætti frá Bandaríkjunum !
Margir afla sér upplýsinga með mjög einhæfum hætti. Lesa gögn frá einni fréttaveitu og láta það duga. En ef menn í raun og veru vilja grafa að rótum mála og komast eitthvað nær því sanna, verða þeir að kynna sér fleiri heimildir og fara í rannsóknarleiðangur í þeim efnum !
En þá geta menn líka oft staðið frammi fyrir býsna óþægilegum hlutum og verða að kunna að taka því sem þá kemur upp. Eitt er nefnilega víst og satt, að glansmyndir sem settar eru upp, eru aldrei í takt við hinn raunverulega sannleika !
6.8.2019 | 21:53
Hugleiðingar um ,,villta vestrið !
Bandaríkin hafa mikla sérstöðu meðal ríkja heimsins
og kemur þar margt til. Flest önnur ríki hafa til
þessa verið tilbúin að fyrirgefa Bandaríkjunum býsna
mikið, þar með talinn ótrúlega mikinn yfirgang. En
þegar stöðugt er gengið á lagið kemur oftast að því að
flestir fá sig fullsadda af slíkum samskiptum !
Umburðarlyndi heimsins gagnvart hroka Bandaríkjanna er því ekki það sama og áður, enda forsetinn vestra nú að margra mati, holdgervingur þess hroka og það í verstu mynd !
Bandaríkin eru eiginlega fyrsta fjölmenningarríkið, fyrsta ríkið sem kemur sér upp íbúum á grundvelli annars en þjóðernis. Og eftir aldir og áratugi er aðlögunin og sambræðslan ekki orðin meiri en það, að full ástæða er til að spyrja, eru Bandaríkjamenn sem slíkir ein þjóð í dag ?
Það virðist eiginlega í hæsta máta umdeilanlegt. En spænskir Bandaríkjamenn, afrískir, pólskir, ítalskir, þýskir, sænskir, norskir, tékkneskir, rússneskir, úkraínskir, japanskir o.s.frv. o.s.frv. eru vissulega til og verða að öllum líkindum til áfram !
Og þar sem sameiginlegt þjóðerni sameinar ekki í Bandaríkjum Norður Ameríku er reynt að byggja upp sameiginlega hollustu við önnur atriði, svo sem fánann, stjórnarskrána og sjálfstæðis-yfirlýsinguna !
Sumir vilja meina að slík atriði séu ekki nægileg forsenda fyrir þjóðlegri einingarhugsun og aðrir benda á að misrétti innan ríkisins gagnvart eigin þegnum sé neikvæður orsakavaldur sem gangi þvert gegn þeirri hollustu sem stjórnvöld gera yfirleitt kröfu um !
Bandarískt hollustu-uppeldi hefur því verið með ýmsum hætti og ekki tekist sérlega vel. Tilraunum einingar og þjóðarsköpunar er þó haldið áfram, þó vandséð sé hvenær þeim kemur til með að ljúka. Sumt virðist nefnilega ganga aftur á bak í þeim efnum. Bandaríkin eru enn í dag fyrst og fremst illa samhrærð þjóðasúpa !
Sem ofbeldisríki verður bandaríska fjölmenningarríkið að teljast í fremstu röð. Borgarar Bandaríkjanna virðast yfirleitt iðnastir allra samfélags-borgara við að sálga hver öðrum og virðist það ekki benda til mikils náungakærleika eða samstöðu manna á meðal !
Byssur eru við hvers manns hendi og stöðug skothríð er langtíma áunninn ósiður. Kannski eru menn þó fyrst og fremst að skjóta yfir manngerðar samfélagsgjár sem eru enn fyrir hendi í Bandaríkjunum og hafa ekki verið brúaðar ?
Og ef til vill verða slíkar gjár aldrei brúaðar því viljinn til þess virðist mjög takmarkaður í ýmsum tilfellum. Sumir eru og virðast eiga að vera 2. og 3. flokks þegnar í Bandaríkjunum. Í þeim skilningi verður manni hugsað til Indlands og stéttleysingjanna eða öllu heldur réttleysingjanna þar !
Munurinn er kannski ekki svo mikill þegar allt kemur til alls. Ríkið sem lofsyngur frelsið öllum meira, er ekki fulltrúi fyrir almennt mannfrelsi heldur fyrst og fremst frelsi þeirra sem auðugir eru !
Miðað við yfirlýstar hugsjónir frumherjanna og texta sjálfstæðis-yfirlýsingarinnar, virðast Bandaríki nútímans komin svo langt út af upphaflegum grundvelli að fáar taugar tengist þar enn upphafinu !
Munurinn á Bandaríkjunum og öðrum heimsveldum sögunnar er orðinn hverfandi lítill. Yfirgangur gagnvart öðrum ríkjum hefur vaxið samfara stöðugt minni fylgni við fyrri hugsjónir og stefnan er rómversk í öllu rangeðli sínu og byggist alfarið á því að deila og drottna !
Um 250 fjöldamorðsárásir í Bandaríkjunum það sem af er árinu, hljóta að segja okkur að stjórnarfarslega séu Bandaríkin á margvíslegum villigötum, og komin á svo vitfirrt ofbeldisstig að yfirvöld þar eru greinilega ekki lengur fær um að verja eigin borgara !
Þeir einu sem virðast bera virðingu fyrir Bandaríkjunum í dag eru þeir sem eru þannig sinnaðir að þeir lúta fyrir ofbeldissinnuðum stjórnarháttum og sleikja þá upp sem kúga aðra !
Villta vesturs stjórnarlínan frá Washington er því í raun verulega ógeðfelld og felur ekki neitt í sér sem ætti að geta höfðað á heilbrigðum grundvelli til sæmilegra siðmenntaðra þjóða !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook
2.8.2019 | 22:34
Loftárásirnar á Dresden um miðjan febrúar 1945
Margt höfum við Íslendingar reynt og oft hefur lífsbaráttan í þessu landi verið hörð og óvægin. En styrjaldir höfum við ekki þurft að þola eins og þær hafa verið háðar með nútímavopnum.
Ég þekkti konu frá Þýskalandi sem flutti hingað til Íslands, giftist hér frænda mínum og bjó hér til dauðadags. Þetta var óvenju heilsteypt og skýr manneskja. Við urðum vinir og spjölluðum oft mikið saman.
Hún hafði reynt mikið, en lengi vel var hún fátöluð um stríðið. En smátt og smátt fór hún að segja mér frá því hvernig lífið var í Þýskaland fyrir stríð og í stríðinu. Það var erfitt fyrir hana. Hún var að tjá sig um hluti sem hún hafði lengi orðið að bæla niður innra með sér. Það höfðu aldrei verið neinir til sem vildu hlusta og reyna að skilja !
Og hvernig geta þeir, sem aldrei hafa reynt ógnir stríðs, náð að skilja reynslu þeirra sem hafa orðið að þola slíkt ? Hvernig er hægt að láta þá upplifa, bara í gegnum frásögn, loftárásirnar, mannfallið, blóðsúthellingarnar, eyðilegginguna og viðbjóðinn, hungrið og allsleysið ! Það er engin leið og enn síður þegar enginn vill hlusta !
Hvernig er hægt að halda áfram með lífið eftir slíka upplifun, að lifa venjulegu lífi, eftir að hafa séð óteljandi myndir dauðans og sjálfa ásjónu lífsins hryllilega afskræmda ?
Hún átti heima í lítilli borg í um 17-18 kílómetra fjarlægð frá Dresden. Þegar Bretar og Bandaríkjamenn gerðu stórárásina alræmdu á þessa miklu lista og menningarborg um miðjan febrúar 1945, var talið að mikill fjöldi af flóttamönnum væri í borginni. Tölur yfir hvað þeir hafi verið margir voru hinsvegar engar til og mannfallið í borginni er því í raun á heildina litið óþekkt stærð !
Þessi árás hafði engan skýran hernaðarlegan tilgang nema þá þann að dreifa ógn og skelfingu meðal almennings. Fyrst var fólkið lokað inni í brennandi víti og síðan voru sprengjurnar látnar falla án afláts. Þetta var árás af hálfu hefndarþyrstra manna !
Vinkona mín sagði að hún gleymdi aldrei sterkum vindinum sem kom frá brennandi borginni. Hann var logheitur og bar með sér lykt sem var svo ógeðsleg að fólk kúgaðist unnvörpum. Það var lyktin af brennandi holdi þúsundanna sem var verið að steikja í eldsvítinu inni í borginni !
Þarna sat þessi kona sem átti þessar hræðilegu minningar og ég sá að það tók á hana að tala um þetta. Hún leit á mig og sagði : ,, Þessi lykt fylgir mér meðan ég lifi, ég finn hana enn !
Flestar tölur um mannfallið eru í kringum 25000 og þá frá borgaryfirvöldum, en enginn veit sem fyrr segir hvað margir flóttamenn voru saman komnir í borginni á þessum tíma. Það myndi trúlega hækka dauðatöluna umtalsvert !
Margir hafa haldið því fram að þarna hafi verið um hreinan og kláran stríðsglæp að ræða og auðvitað var það svo. En hver átti að rétta í því máli ? Það hefur gengið illa allt fram á þennan dag, að fá það viðurkennt að breskir og bandarískir stríðsglæpamenn séu og hafi verið til !
Hershöfðingjarnir sem sáu um framkvæmd verksins fengu sín heiðursmerki fyrir glæpinn og lifðu flestir til hárrar elli. Sigurvegararnir skrifa söguna sem löngum endranær !
En eftir stríðið sat fjöldi venjulegs fólks með sár sín og sálarkvöl til æviloka, með minningar um látna ástvini, helvíti eldstormsins og brunalyktina frá þúsundum brennandi fórnarlamba þessarar miskunnarlausu og svívirðilegu loftárásar !
Hvenær ætla menn að skilja - og það í allri upplýsingu nútímans, að stríð er ekkert sem er fagurt og eftirsóknarvert, að það er enginn heiður innifalinn í slíku aðeins viðbjóður og virðingarleysi gagnvart öllu lífi !
Stríð er ekkert nema manngert helvíti á jörðu, þar sem grimmd og mannvonska er yfirleitt í fullum gangi og drápseðli ofbeldishneigðra manna fær að ríkja í miskunnarlausu veldi sínu !
Við Íslendingar megum sannarlega þakka fyrir að hafa ekki þurft að þola slíkar hörmungar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Arfleifð Francos !
- Í kringum kosningasirkus hégómans !
- Innflutningur á ófriði og ofbeldisbreytni !
- Um óraunhæfar væntingar !
- Á skelfilegt skítkast í kosningum að leiða til Gullaldar ?
- Félagshyggjuna upp örvæntinguna og vonleysið niður !
- Er Ísland utanríkispólitískt núll ?
- Um valdaspil að tjaldabaki !
- Að komast yfir Rússland !!!
- Áskorun til kjósenda : Sendum Vg afleggjaratusku íhaldsins ...
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 131
- Sl. viku: 809
- Frá upphafi: 356654
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 641
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)