Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Hvað er íþróttamannslegt nú á dögum ?

Nú liggur nokkuð ljóst fyrir að langt er hægt að komast í handbolta með tilstyrk fjármagnsins, einkum kannski þegar allt er keypt, og eftir því sem sumir vilja halda fram, dómgæslumenn líka. Eftir einn tapleik gegn liði Qatar var einn leikmaður spurður hvað honum hefði fundist varðandi dómgæsluna ? Hann svaraði að hún hefði ekki verið íþróttamannsleg !

Þetta svar vakti mig nokkuð frekar til umhugsunar um þessa svokölluðu íþróttakappleiki. Hvað skyldi nú vera á bak við hugtakið „íþróttamannslegt“ í dag ?

Ég hef það nokkuð á hreinu hvað kallaðist íþróttamannslegt hér áður fyrr, en einhvernveginn finnst mér að hugtakið sé túlkað með öðru móti í dag og talsvert „frjálslegar“ en áður fyrr. Það breytist margt við inngöngu nýrra áhrifavalda á sviðið og alltumgrípandi Mammons-hugsunarháttur bætir ekkert svið hvorki í íþróttum né öðru. En hvað er annars íþróttamannslegt í dag ?

Er það hugtak tengt við ólympískar dyggðir nú á tímum, þjóðlega mannrækt saman ber mens sana in corpore sano, heilbrigð sál í hraustum líkama. Hvað er í kortunum hvað þessi viðhorf snertir nú til dags og þurfum við ekki að vita hvert við stefnum í þessum efnum ?

Er það íþróttamannslegt að keppa á íþróttamóti þar sem mannvirki hafa verið byggð upp með blóði drifnu þrælahaldi og tugir manna látið lífið fyrir vikið svo þörf hinna ofmettuðu fyrir „brauð og leiki“ sé rækilega uppfyllt ?

Er það íþróttamannslegt að almenn mannréttindi sumra séu gjörsamlega fótumtroðin svo að aðrir geti fengið athyglissjúkum metnaði sínum svalað ?

Er það íþróttamannslegt og þá eitthvað sem eingöngu á að eiga við evrópskar þjóðir og þá utan Evrópu sem eiga næga peninga, að standa að hlutunum eins og bersýnilega hefur verið gert í Qatar ?

Er það íþróttamannslegt að hinar miklu mannréttindaþjóðir Evrópu, sem telja sig vafalaust varðveita hinn eina sanna Ólympíuanda, gefa skít í það hvernig staðið var að mótinu í Qatar og hundsa algerlega saklaust blóð þeirra sem þar hafa orðið píslarvottar á altari græðgi og metnaðar olíuríkra oflætisseggja ?

Svona mætti lengi spyrja því sagan á bak við handboltamótið í Qatar er að mínu mati ljót og meira en ljót. Ég tel að hún ætti að vera öllum sómakærum mönnum andstyggð og viðbjóður. Hvernig er hægt að fóðra heimsbyggðina á íþróttamóti sem kostað hefur ótal mannslíf vegna algjörrar fyrirlitningar á mannrétti örsnauðra einstaklinga frá fátækum löndum ?

Er andi Rómar svo ágengur að hann treður Ólympíuandann algjörlega niður ?

Hafa þeir sem liðu píslarvættisdauða sem vinnuþrælar í Qatar við að koma íþróttamannvirkjunum þar upp fyrir stórmótið, ekki verið neyddir til að takast á hendur fyrri tíma hlutverk kristinna manna og gladiatora á leikvanginum í Róm, að vera þvingaðir til að verða fórnfæringar til að gleðja lýðinn – og aðalinn ?

Erum við farin til baka eftir 2000 ára baráttu fyrir mennsku og byrjuð á því að taka upp sömu grimmu ósiðina, bara með meiri felumyndatækni í farteskinu ?

Hverskonar fyrirbæri erum við mennirnir eiginlega ?

 


Hollmeti um heiðarlegan lögfræðing !

Enn munu margir kannast við nafnið Clarence Seward Darrow (1857-1938). Hann var einn kunnasti lögfræðingur Bandaríkjanna á sínum tíma, tók að sér að verja mál sem aðrir forðuðust og oftar en ekki mál sem virtist eiga að hleypa framhjá öllu réttlæti. Oft var hann kallaður „Darrow for the Defence“, og ekki að ástæðulausu. Hann var málsvari réttlætisins eins og sumir lögfræðingar voru á árum áður og varð heimsfrægur sem slíkur.

Darrow varði verkalýðsfrömuðinn Eugene Debs (1855-1926) árið 1895 þegar aðför var gerð að honum, enda voru þeir nánir vinir þó þeir væru ekki sammála í öllu. Hann háði frægt einvígi í réttarsal við William Jennings Bryan (1860-1925) í hinu annálaða Scopesmáli 1925 sem sumir kalla Dayton apamálið í Tennessee, en um það mál var kvikmyndin Inherit the Wind gerð með Spencer Tracy og Fredric March í lykilhlutverkum. Darrow varði líka Loeb og Leopold árið 1924 í hinu alræmda morðmáli sem Hitchcock kvikmyndin Rope er byggð á.

Hann og John Peter Altgeld (1847-1902) sem var um tíma ríkisstjóri í Illinois, voru miklir vinir og Darrow virti Altgeld mikils. Skáldið Vachel Lindsay orti sitt fræga ljóð The Forgotten Eagle um Altgeld. Það er ekki hægt annað en hugsa með hrifningu til manna eins og Eugene Debs, John Peter Altgeld og Clarence Darrow !

Þegar Darrow sannfærðist um að verja þyrfti réttlætið í einhverju máli eða sjá til þess að málaferli færu fram á eðlilegan hátt og ekki brotið á neinum, tók hann viðkomandi mál hiklaust að sér jafnvel þó hann fengi enga greiðslu fyrir. Það mætti segja mér að leitun væri að slíkum manni í dag !

Darrow eignaðist ágæta konu Ruby Hammerström ( 1871-1951) að nafni árið 1903 og hún var honum ómetanleg hjálparhella alla tíð. Hlutverk hennar í lífi hans verður seint ofmetið. Hún sá um hin ótalmörgu þarflegu smáatriði hins daglega lífs sem voru Darrow svo fjarri huga og gætti hans trúlega. Það var líka ærin þörf á því þar sem Darrow var hinn mesti slysarokkur. En Ruby hans var alltaf til staðar. Mátti segja að þau væru í tilhugalífi allt sitt samvistarskeið.

Darrow var sagður litblindur, því honum var gjörsamlega sama hvernig húðlitur manna var. Hann leit sömu augum á alla menn hvað mannréttindi áhrærði. Það vakti eftirtekt hvar sem hann var á ferðalagi hvað svertingjar sýndu honum mikla virðingu. En það var einfaldlega af því að þeir vissu að hann var maður sem þeir gátu fullkomlega treyst, maður sem kom alltaf fram við þá sem fullgilda menn.

Öll hræsni og skinhelgi var eitur í beinum Darrows og vandaði hann þeim ekki kveðjurnar sem komu fram með þeim hætti. „Vertu sjálfum þér samkvæmur“ hefði hann vafalaust viljað segja við hvern og einn.

Darrow þjónaði réttlætinu fyrst og fremst svo tekjurnar voru ekki það sem líf hans snerist um. Mannskyldan gekk þar fyrir öllu. Hann vildi fortakslaust að fé það sem hann fengi fyrir störf sín væri ærlega fengið og vildi ekki hafa samneyti við neitt sem var rangt og óheiðarlegt.

Darrow var maður hreinn og beinn og hlífðist ekki við að láta skoðun sína í ljós ef því var að skipta. Margar athugasemdir hans lifa enn góðu lífi, enda byggðar á skarpleika og djúpri mannþekkingu. Hann var hugsjónamaður í sannleika og fullur af eðlislægri mannúð - alltaf tilbúinn að taka svari lítilmagnans.

Eitt sinn sagði hann að gefnu tilefni : „Lost Causes are the only ones worth fighting for !“ Og í annað skipti sagði hann: „ The trouble with law is lawyers !“

Já, skyldu menn ekki geta orðið nokkuð sammála um þá umsögn ?

Eftirfarandi er einnig haft eftir honum: „When I was a boy I was told that anybody could become President. I´m beginning to believe it !“

Eitt sinn sagði hann líka kaldhæðnislega: „ The first half of our lives are ruined by our parents and the second half by our children !“

Darrow barðist gegn spillingu hvar sem hún varð á vegi hans og vildi að stjórn fólksins, á fólkinu byggð, fólksins vegna til, væri í veruleika byggð upp og virt og heiðruð sem slík.

Það hlýtur að hafa verið talsvert uppbyggilegt að lifa - með skírskotun til trausts - fyrir almenna borgara, meðan enn voru til lögfræðingar eins og Clarence Darrow !

 

 


Vanþekking á Biblíunni !

Eitt af því sem merkir tíðarandann í dag mjög mikið er að menn leita langt yfir skammt að lífsblessun. Allar lausnir og leiðir að því marki virðast taldar ákjósanlegri og ásættanlegri í einhverjum farvegi utan kristindómsins og þó að menn sem hugsa þannig hafi kannski ekkert sérstakt á móti Jesú Kristi, segja þeir gjarnan ef hann berst í tal, „Ja, var hann til í raun og veru ?“

En þegar kemur til dæmis að Buddha er ekki talað með þeim hætti og er þó talið að Buddha hafi verið uppi um 500 árum fyrir Krist og það á talsvert fjarlægari slóðum. En það virðist ekki kalla fram neinar efasemdir um að hann hafi verið til.

Í framhaldsskólum á Íslandi hefur verið kafað mikið til margra ára í þúsaldargömul kvæði frá Ásatrúartímanum og nemendur verið látnir læra um Hávamál, Völuspá, Lokasennu og annað hliðstætt efni í belg og biðu og einhver gæti nú sagt, „til hvers eigum við að vera að læra þetta og það nú á tímum ?“

En ef einhver kristindómsfræðsla er viðhöfð í íslenskum skólum, ætla sumir vitlausir að verða og tala um innrætingu og uppáþrengjandi hugmyndafræði í trúarefnum. Það virðist eiginlega flest talið spennandi og áhugavert og það jafnvel í trúarefnum nema kristindómurinn og það er lýsingin á Vesturlöndum í dag.

Allra handa og allra tegunda yogakennsla er stunduð út um allt og enginn talar um að þar sé eitthvað á ferðinni sem varast þurfi, innhverf íhugun, heilun, reiki og allskyns tilboð eru í gangi á hinum andlega markaði og allt er það talið eðlilegur hluti af frelsisvali hvers og eins. En kristindómurinn virðist vera skilgreindur af mörgum sem hluti af ófrelsi sem ætti bara helst að víkja. Ég spyr: „Hvers á kristindómurinn að gjalda ?“ Af hverju vilja margir Íslendingar í dag verða Ásatrúarmenn, Buddhistar, Islamistar og eiginlega allt nema góðir og gegnir kristnir menn í kristnu landi ?

Hvað felst í þeim viðhorfum sem þar ráða, hver er orsakavaldur slíkrar breytni ? Vilja menn taka upp mannfórnir Ásatrúar að nýju, vilja menn austræna íhugun frekar en það sem leiddi Vesturlönd hærra til vegs í heiminum en nokkuð annað, vilja menn fallast á trúargildi heilags stríðs eða hvað er í gangi ?

Af hverju er þessi andúð og í sumum tilfellum heift til staðar út í kristindóminn og það jafnvel hjá mönnum sem aldrei hafa lesið Biblíuna eða kynnt sér á einn eða annan hátt út á hvað kristin gildi ganga ? Skyldi það geta verið að það sé eitthvert afl á bak við ráðandi tíðaranda sem fyrst og fremst er í stríði við það sem kristindómurinn er og það sem hann stendur fyrir ?

Maður spyr sig, hvað er verið að kenna og hvað er ekki verið að kenna ? Hvað er verið að leggja uppvaxandi kynslóð til sem hún á að hafa sem veganesti út í lífið ?

Einu sinni las ég litla sögu sem mér finnst enn í dag varpa skýru ljósi á afstöðu manna sem hafa margt út á Biblíuna að setja án þess þó að vita um hvað þeir eru að tala eða hafa fyrir að kynna sér málið eins og ærlegir menn myndu gera. Sagan var og er svohljóðandi:

Biskup einn í Ameríku Hare að nafni upplifði eitt sinn hvað maður nokkur í Philadelphiu fann Biblíunni til foráttu. „ Kæri biskup, sagði maðurinn, ég vil ekki þrjóskast við að trúa sögunni um örkina hans Nóa. Ég vil jafnvel kannast við að örkin gæti hafa verið eins stór og sagt er, ég vil ekki finna að hinni einkennilegu lögun hennar eða að hinni háu tölu dýra sem hún hafði inni að halda. En, þegar ég, kæri biskup, er beðinn að trúa því, að Ísraels börn hafi borið þessa þunglamalegu örk með sér í fjörutíu ár í eyðimörkinni, ja, - þá verð ég að kannast við að mér sé algerlega ómögulegt að trúa því !“

Þessi maður hafði ekki meiri þekkingu á Ritningunni en svo, að hann gerði ekki greinarmun á örkinni hans Nóa og sáttmálsörkinni í tjaldbúðinni sem Móse reisti í eyðimörkinni, og sem Ísraels börn fluttu með sér á ferðum sínum.

Ég held að sumir sem gagnrýna Biblíuna séu á svipuðum skilnings-slóðum varðandi efni hennar og þessi maður. Fúsleiki viljans til að rangtúlka leiðir þá afvega !

Þeir sem lesa Biblíuna daglega, trúa orðum hennar best og finna gleggst þá leiðsögn sem þar er að finna. Þeir sem líta sjaldan eða aldrei í Biblíuna, svo að hún hefur lítil sem engin áhrif á siðferðileg viðmið þeirra, trúa henni síst !

Það er aumur vitnisburður um manndómsgildi þegar menn fella dóma og það harða um eitthvað sem þeir hafa ekki haft rænu eða vilja á að kynna sér. Hver vildi hafa slíka dómara yfir sér til að dæma um sín eigin mál ?

Vanþekking er helsta orsök þess að margur maðurinn trúir ekki Ritningunni !

Hinn kunni bandaríski prédikari Dwight L. Moody (1837-1899) ritaði á saurblað Biblíu sinnar : „ Annaðhvort mun syndin fæla þig frá þessari bók eða bók þessi mun fæla þig frá syndinni !“

Skyldi það ekki vera raunin með býsna marga ?

Og gæti ekki verið að í afstöðunni til Biblíunnar hugnist mörgum það best að stinga höfðinu í sandinn eins og strúturinn og neita þannig að sjá nokkuð sem varast ber ?

Gæti ekki verið að boðskapur Biblíunnar varðandi mannlega breytni fari illa í marga á yfirstandandi frjálsræðistímum sem vilja hvorki heyra minnst á synd, dóm eða dauða ?

Hver réttvís maður ætti að geta viðurkennt að bók eins og Biblían, leiðarljós kynslóða manna um margra alda skeið, hljóti að eiga sanngirniskröfu til þess að verða lesin og rannsökuð áður en dæmt er um innihald hennar og andlegt gildi !

En kannski er ekki mikið um réttvísa menn í nútíðartilveru manna og ef svo er sem mig uggir, þarf engan að undra þó tíðarandinn sé eins og hann er og andúð til staðar á boðskap og kenningum þess Meistara sem gekk um hér á jörðu fyrir 2000 árum og bar sannleikanum vitni – himni og jörð til sóma !

 

 


Skilaboðin frá bönkunum !

Eins og flestir vita orsakaðist efnahagshrunið 2008 ekki síst vegna ábyrgðarlausrar ofkeyrslu bankanna sem komnir voru á græðgisfullt gróðaspan og gættu ekki að sér. Gullþorstinn var orðinn slíkur að ekkert mannlegt komst lengur að. Kaup á verðbréfum og allskyns fjárfestingar voru hættar að hafa eðlilega tengingu við veruleikann og svo sprakk allt í loft upp og skaðaði íslenskt samfélag meira en nokkuð annað sem átt hefur sér stað af mannavöldum í gervallri sögu íslensku þjóðarinnar !

Eftir hrunið var samt fljótlega farið að tala um að byggja aftur upp traust, jafnvel raddir úr blóðlausu bankakerfinu komu fram og töluðu fjálglega um þörfina á því að skapa nýtt traust, sem átti líklega að koma í stað gamla traustsins sem hafði verið eyðilagt !

Og alveg eins og nýir bankar voru snarlega „græjaðir upp“ í stað gömlu skrímslanna, endurskírðir og endurfjármagnaðir af skattpeningi almennings, átti að endurskapa nýtt traust á sama veg. En traust er fyrirbæri í mannlegum samskiptum sem vex hægt og aðeins fyrir reynslu sem skapar öryggi. Það er ekki eitthvað sem hægt er að kalla fram með því að setja upp einhverjar gyllingar eða Potemkin-tjöld þó sumir haldi það bersýnilega !

Og nú er árið 2015 komið og hvernig skyldi hafa gengið með að byggja upp traust og tiltrú á bankakerfinu meðal fólksins í landinu eftir hrunið þarna um árið ? Það hefur gengið vægast sagt illa. Bankarnir hafa greinilega lítið lært af reynslunni og fara sýnilega enn sem fyrr hamförum í því að reyta endalaust af fólki peninga með allskonar þjónustugjöldum sem eru að ríða öllu á slig.

Og skilaboðin frá þessum andfélagslega sinnuðu bönkum til okkar með þessari botnlausu græðgi, sem er auðvitað ættuð frá hugarfarslegu myrkravíti Mammonsáranna fyrir hrun, eru skýr á allan hátt, þau segja einfaldlega – TREYSTIÐ OKKUR EKKI !

Með hverju nýju græðgisgjaldi segja bankarnir við okkur fólkið í landinu – TREYSTIÐ OKKUR EKKI – því það er ekki verið að byggja neitt upp í gegnum samskiptin, heldur þvert á móti. Það er verið að rífa niður allar forsendur fyrir endurnýjað traust. Bankakerfið er enn á ný farið að hegða sér sem ríki í ríkinu !

Þeim fjölgar því hratt sem líta á bankana sem illvíg arðránstæki sem kunna sér ekkert hóf í ágangi á almannahag. Menn sjá ekki bankana fyrir sér sem þjónustutæki til að liðka fyrir alls konar samfélagslegum ávinningi með heilbrigðu viðskiptaferli, heldur öllu fremur sem neikvæð fjármagnsöfl sem níðast í auknum mæli á afkomu hins almenna borgara !

Og varðandi það, er auðvitað ekki við almennt starfsfólk bankanna að sakast, það er yfirstjórnin sem er meinsemdin, það er hrokinn og drottnunargirnin, græðgin og þjóðleysueðlið sem situr í öndveginu og heimtar stöðugt meira fyrir eigin hít !

Sú framkoma ber með sér slæma framvindu fyrir land og þjóð og hún er sköpuð af bankavaldinu í gegnum ómanneskjulega græðgi þess í síaukinn hagnað. Maður gæti haldið að það væru menn á launum í bönkunum alla daga við það eitt að finna upp ný þjónustugjöld. Og það er náttúrulega tómt mál að tala um traust þegar þannig er að málum staðið !

Bankakerfið frá 2008 virðist vera farið að ganga aftur í ljósum logum í íslensku samfélagi og það er ill sending úr neðra og þyrfti sem fyrst að kveða hana niður á sínar dýpstu heimaslóðir !

Þekktur maður í íslensku athafnalífi sem nú er löngu látinn, hafði það sem einkunnarorð í sinni viðskiptasögu, að það væri enginn bisniss nema báðir aðilar væru ánægðir. Hann sagði líka eitt sinn aðspurður, að velgengni hans byggðist á því að hann hefði betri viðskiptavini en aðrir. Þar ríkti áskapað traust milli aðila !

Bankarnir hafa sýnilega engin einkunnarorð í líkingu við þetta. Þeir sem verða að skipta við þá gera það sannarlega ekki vegna ánægjunnar. Hún er lítil sem engin og þegar sokkin á kaf í yfirþyrmandi þjónustugjaldaþykknið. Bankarnir laða ekki góða viðskiptavini að sér með sínum kröfukrumlum.

Þeir viðskiptavinir sem telja að þeir geti treyst bönkunum eru færri en fáir og þeim mun áfram fækka að öllu óbreyttu. Bankar sem byggja þjónustu sína á græðgi en fyrirlíta raunverulegt traust, munu aldrei reynast vel í samfélagi manna. Þeir munu fá sitt dánarvottorð fyrr en síðar. Þar mun standa – viðkomandi dó af innanskömm !

En þrátt fyrir allt svínaríið, ala margir vonir um að skilaboðin geti breyst og það geti skapast forsendur fyrir annað en græðgi innan bankakerfisins. Það er beinlínis þjóðhagsleg nauðsyn að þar verði breyting á. Og vegna þess að traust vex hægt, þarf að byrja að hlynna að því sem fyrst og nú sem nýgræðingi. En ný sáning í þeim efnum er ekki hafin enn og þegar hafa nokkur dýrmæt ár farið í súginn !

Enn sem komið er virðist íslenska bankakerfið gera flest öfugt og það vísvitandi varðandi uppbyggingu trausts miðað við það sem það ætti að gera, og skilaboðin frá því til okkar, fólksins í landinu, eru hreint ekki trúverðug. Viðskiptabisnessinn er slæmur og þar eru enn engar forsendur fyrir ánægjuleg samskipti beggja aðila !

Reyndar fæ ég ekki betur séð en öll saga íslenskra banka frá upphafi sé hrópandi vitni um efnahagslegan ræfildóm og rótopið getuleysi. Sennilega væri ástandið miklu betra hérlendis ef við hefðum látið einhverja danska fagmenn stjórna þessum málum fyrir okkur með ábyrgum og manneskjulegum hætti !

Þeir hinir sömu hefðu svo í fyllingu tímans getað fengið orður frá forsetanum fyrir vel unnin störf á þessum vettvangi, enda þá líklega átt þær öllu betur skilið en sumir aðrir !

 


Bölvaldurinn Bakkus kóngur !

Um daginn var sagt í fréttum að um 88 þúsund manns deyi árlega í Bandaríkjunum vegna ofneyslu áfengis. Það þýðir að á skemmri tíma en fjórum árum fer mannfjöldi á við allan íbúafjölda Íslands í dauðann þar af þessum orsökum. Það er hár tollur !

Stórt heggur Bakkus í Bandaríkjunum og víða um heim er ástandið í þessum efnum lítið skárra. Getum við gert okkur nokkra raunhæfa grein fyrir því hvílík eyðilegging er þarna á ferð ? Á bak við hvert drykkju-dauðsfall getum við gefið okkur fyrir víst að það séu einhverjir eftirlifandi í sárum eftir það ferli sem á undan hefur gengið. Og við vitum eða eigum að vita að sálarsár af slíku tagi eru lengi að gróa ef þau gróa þá nokkurntíma !

Sjálfseyðingarhvöt mannsins er oft mikil og heimsharmurinn gengur mörgum að hjarta. Þeir eru margir sem leita gleymsku frá vondum veruleika með því að drekka, en gæta þess ekki að þeir vakna oftast upp til verri veruleika eftir drykkjutúrana. Þeir hafa bara bætt á vandann sem við er að glíma !

Drykkjuskapur er tortímandi vá fyrir allan mannauð, ótaldir hæfileikamenn hafa orðið að engu í klóm Bakkusar og brunnið þar upp löngu fyrir tímann. Við eigum ófáar drykkjuvísur sem kveðnar hafa verið af mönnum sem göntuðust með ástand sitt, en í sumum þeirra kemur þó fram hvað menn finna sárt til veikleika síns gagnvart víninu. Það er jafnan erfitt að hafa harðan húsbónda, hvað þá þegar hann er til staðar hið innra í mönnum og lætur þá gera margt sem þeir skammast sín fyrir eftir á og hefðu aldrei gert ef þeir hefðu ekki verið undir slíku valdi.

Drykkjuskapur á Íslandi hefur alltaf verið þjóðinni til vansa og það frá fyrstu tíð. Á tímum Ásatrúar voru menn hvattir til að sýna þol við drykkju og var það talin karlmennskuraun, enda var æðsta takmarkið að setjast að drykkju í Valhöll með Óðni og einherjum. Í Snorra-Eddu segir um Óðin að vín sé honum bæði matur og drykkur. Fyrir kristnitöku voru höfuðból goðanna og annarra mektarmanna meginstöðvar drykkjuskapar á Íslandi, en þegar leið fram á Sturlungaöld verða biskupsstólarnir og síðan konungsgarðurinn Bessastaðir aðalaðsetursstaðir Bakkusar í landinu.

Margir sagnir greina frá drykkjuskap á þessum tíma og mannvígum og ósætti í kringum það. Haustið 1316 brann Möðruvallaklaustur tveim nóttum eftir krossmessu ásamt kirkjunni á staðnum til kaldra kola og var orsök brunans sú að kvöldið áður höfðu munkarnir komið utan af Gáseyri og verið blindfullir og vitlausir. Allt fór í svall og svínarí sem endaði svo með því að umræddur bruni átti sér stað. Segir í framhaldinu frá því hvað Lárentíus biskup á Hólum átti í miklum vandræðum með þessa munka, sem óðu upp á menn augafullir og varð biskup eitt sinn að flýja undan þeim er þeir slógust upp á hann þannig á sig komnir.

Árið 1504 dó Torfi sýslumaður í Stóra-Klofa á Landi og var hann einn mesti óreglumaður sinnar tíðar og mæla öll rök með því að hann hafi dáið af völdum drykkjuskapar. Frændi Ögmundar biskups Pálssonar Eyjólfur Kolgrímsson varð eitt sinn svo vitlaus af drykkju að hann sveiflaði um sig spjóti miklu og endaði með því að stinga sjálfan sig svo á hol með því að oddurinn gekk nánast út um bakið. Þannig gekk hann frá sjálfum sér.

Það var ekkert óvanalegt að menn drykkju sig í hel og þannig segir Hannes Hafstein í kvæði sínu um Þórð kakala sem var mikill drykkjumaður, „Svík þú aldrei ættland þitt í tryggðum/drekk þig heldur, drekk þig heldur í hel“. En hvað gerir maður sem eyðileggur líf sitt og drekkur sig í hel, svíkur hann ekki land og þjóð með slíku háttalagi ?

Árið 1655 voru fluttar inn í landið 236 tunnur af brennivíni, en af öli alls konar 231 fat og 840 tunnur. Mest kom þetta frá Lybiku í Þýskalandi. Árið 1672 gekk konungsskipun í gildi varðandi toll-endurgreiðslu á áfengi sem gerði það að verkum að kaupmenn sáu sér hag í því að flytja sem mest inn af brennivíni, en hættu nánast að flytja inn öl. Óx þá brennivínsöld og siðleysi mjög í landinu.

Var ástand mála svo slæmt orðið um 1730 að Jón biskup Árnason, sá siðavandi maður, skrifaði kóngi bænarskjal ásamt fleirum 1733, og bað hann að banna allan brennivínsflutning til landsins. Ofdrykkja sé orðið íslenskt þjóðarböl.

En kóngur hirti ekkert um þetta bænarskjal, enda lagðist Ocksen stiftamtmaður hart gegn því vegna hagsmuna kaupmanna. Sagði hann að það eina sem þeir græddu á að flytja til landsins væri brennivín og tóbak. Af öllu öðru hefðu þeir bara helberan skaðann. „Svo illa eru þeir staddir, aumingjarnir“, sagði þessi kóngsins þjónustumaður og gaf lítið fyrir varnaðarorð og bæn biskups.

Og drykkjuskapurinn ágerðist og kannski var 19. öldin mesta brennivínsöldin því þá var framleiðslan erlendis orðin margföld á við það sem hún hafði verið. Menn voru farnir að nota kartöflur í stað korns og afkastamiklar verksmiðjur dældu áfenginu stöðugt út á markaðinn með tilheyrandi niðurbroti siðagilda og er það bæði löng og ljót saga sem vitnar með sárum hætti um mannlegan breyskleika.

Og enn í dag á margur maðurinn í miklum vandræðum með sjálfan sig gagnvart Bakkusi kóngi og enn fara mörg mannslíf forgörðum vegna drykkjuskapar með tilheyrandi óhamingju og fjölskylduböli. Öll hin mikla upplýsing nútímans um þennan ægilega vágest mannlegs samfélags virðist ekki hafa skilað miklu um bættar sakir í þessum efnum þó margir hafi fulla vinnu vegna vandamálsins og ekki virðist menntað fólk drekka minna en aðrir nema síður sé !

En áttatíu og átta þúsund manns á ári í einu þjóðfélagi, það er tollur sem ætti vissulega að kalla á allsherjar viðbrögð yfirvalda gegn þessu böli og slík viðbrögð myndu ekki láta á sér standa í heilbrigðu samfélagi, en það er langt síðan Bandaríkin gátu kallast heilbrigt samfélag og kannski er ástandið litlu skárra annarsstaðar í veröldinni. Heilbrigði á aldrei samleið með drykkjuskap !

Svívirðan er sú að fjöldi manna, - í öllum tröppum þjóðfélagsstigans, allt frá rónunum í strætinu upp í þá sem metta sig í mesta ætinu, þjóna Bakkusi ótæpilega sí og æ - samfélagi sínu til óþurftar og sjálfum sér til skammar !

 

 

 

 

 


Pælingar vegna hryðjuverka í París !

Það hafa mörg hryðjuverk verið framin í París. Hvernig skyldi ástandið hafa verið þar við Bartólómeusarmessuvígin 1572, þegar kaþólikkar drápu mótmælendur hvar sem þeir fundust, nágranna og vini, eða á byltingarárunum um og eftir 1790, við byltingarnar 1830 og 1848, við drápin á kommúnufólkinu 1870, þar sem sigruð frönsk yfirvöld fengu leyfi þýskra sigurvegara til að murka niður Parísarlýðinn og þá var sannarlega engin miskunn sýnd.

Já, hryðjuverk í París, þau eru svo sem ekki ný af nálinni, en stundum er ekki talað um hryðjuverk þó þau séu framin. Þegar „réttir aðilar“ fremja þau er talað með öðrum hætti.

Þegar París var tekin í ágúst 1944 hefði hún verið í rústum ef skipanir Hitlers hefðu verið framkvæmdar. Það höfðu verið settar sprengjur við allar meiriháttar byggingar og allt var tilbúið fyrir gífurlega eyðileggingu. En þýski hershöfðinginn Dietrich von Choltitz setuliðsstjóri í París var fyrst og fremst hermaður og hann sá ekki tilganginn með slíku framferði.

Honum hraus satt að segja hugur við slíkum Vandalisma. Hann sat því á þessum fyrirmælum og gerði það sem hann gat til að bjarga borginni frá vitfirringu Hitlers. Þegar borgin hafði verið tekin voru von Choltitz og helstu aðstoðarmenn hans fluttir á brott, en fólk hópaðist um þá og hrækti á þá hver sem betur gat og máttu þeir trúlega þakka fyrir að halda lífi.

Svona eru mannleg viðbrögð, en þarna átti í hlut hermaður sem var á réttum stað á réttum tíma, maður sem bjargaði Notre Dame, Sigurboganum, Eiffelturninum, brúnum á Signu, Hotel des Invalides, Pantheon, Tuileries, Versölum og yfirleitt öllum byggingargersemum borgarinnar, þeim sem Frakkar eru yfirleitt stoltastir af. Þetta átti allt að eyðileggja samkvæmt fyrirmælum höfuðböðulsins í Berlín.

Hefði æstur nazisti verið í sporum von Choltitz þarf líklega ekki að hugleiða hvað hefði gerst. Þessar byggingar hefðu verið sprengdar í rúst og þá hefði líklega ekki verið annað sagt en að sannkallað hryðjuverk hefði verið framið í París !

Alltaf er þörf að vega og meta mál og vita þarf til fulls hver óvinurinn er. Fjandmaður á vígvelli er alltaf vandamál út af fyrir sig, en óvinur sem hreiðrar um sig á meðal okkar getur verið margfalt hættulegri. Hollusta fólks við sameiginleg gildi er grundvallarnauðsyn í hverju þjóðfélagi og þeir sem ekki vilja sýna slíka hollustu eiga þar ekki heima.

Hryðjuverk beinast ekki bara að því að drepa fólk. Hryðjuverk er hvert það athæfi sem felur í sér eyðileggingu menningar og lista, hluta eða sögu sem mannkynið á í raun sameiginlega. Því er stríðið sem háð er við öfgaöfl múslimaheimsins varnarstríð fyrir menningu okkar, listir og trúarlega arfleifð. Ekkert af þessu er metið af þessum aðilum og þeir vilja menningu okkar feiga.

Samkomulagsgrundvöllur er því enginn gagnvart slíkum andstæðingum. Þeir vilja einfaldlega afmá okkar lífsgildi og þar er engin málamiðlun í boði. Sérhver undansláttur af okkar hálfu er skoðaður sem veikleiki og gengið er miskunnarlaust á lagið. Evrópulöndin hafa síðustu fimmtíu árin ástundað þá umburðarlyndisstefnu gagnvart þessu hatursfulla og blóðþyrsta liði, að það hefur keyrt upp öfgana sem nú vilja vaða yfir allt.

Snákarnir sem yfirvöld á Vesturlöndum hafa alið við brjóst sér eru sannarlega farnir að bíta. Og það mun sanna sig á næstu árum að stefnunni verður að gjörbreyta ef bjarga á Evrópu og menningu okkar og lífsgildum frá tortímingu. Við þurfum leiðtoga sem hafa hugsjón fyrir þeim gildum sem hafa verið leiðandi um aldir í okkar menningarheimi.

Ræktum þá menningu sem við eigum og njótum ávaxta hennar áfram sem hingað til og skiptum henni ekki út fyrir hrærigraut fjölmenningar sem sameinar ekki neitt en sundrar öllu !

Ef við verjum ekki okkar gildi og okkar lífsheim, verða hryðjuverkaárásir daglegt brauð á Vesturlöndum á komandi árum. Árásunum verður nefnilega stöðugt meira beint að lífsháttum okkar, hugsun okkar og viðhorfum, frelsi okkar til að hafa skoðanir og tjá þær. Hættulegustu óvinirnir í hryðjuverkahópunum eru öfgamennirnir sem hafa lifað á meðal okkar, menn sem hafa lengi notið þess að nærast við þjóðarborð okkar, fengið alla þjónustu þar fyrir sig og sína, en hafa í raun alltaf viljað okkur illt !

Það þarf og verður að uppræta fimmtu herdeildirnar í Evrópu sem fyrst. Enginn aðili sem í raun á í stríði, má við því að hafa slíkan herafla hollustuleysis að baki sér, sem hvenær sem er getur brugðið rýtingum á loft. Réttur manna og þjóða til sjálfsvarnar er ótvíræður og allt er í húfi sem okkur á að vera kært !

 

 

 


Varðandi umsagnir um fjármálahæfni kvenna !

Það virðist vera skoðun sumra að konur séu allt öðruvísi sköpun en karlmenn hvað varðar hugsun og afstöðu til mála. Einkum virðist þessi skoðun fylgja þeim sem hvað harðast vilja sýnilega vinna að því að skipta mannkyninu upp í tvær fylkingar sem eiga þá helst að standa gráar fyrir járnum hvor gegn annarri, annarsvegar langtíma undirokað kvenfólk og hinsvegar ofbeldisfullir og kúgandi karlar !

En eitthvað eru nú slíkar kenningar samt farnar að láta á sjá, því flest fólk er þannig gert að það lætur ekki öfgafullan áróður teyma sig endalaust á asnaeyrunum. Og hvort sem manneskjan er kona eða karl þá er hugsunin oftast nokkuð svipuð og afstaða til mála byggð á hliðstæðum grundvallarforsendum.

Eitt af því sem heyrðist talsvert fyrst eftir hrunið, var að ef konur hefðu stjórnað málum hefði aldrei orðið neitt hrun. Þær væru nefnilega varkárari og ábyrgari en karlarnir. Það er nefnilega það !

Í valdamiklum stöðum hjá bönkunum og í viðskiptalífinu voru konur á þessum tíma sem mér er ekki kunnugt um að hafi skorið sig neitt úr í veisluhöldunum með sérstakri áherslu á aðgætni og hófsemi.

Svo græðgi í auð er áreiðanlega ekki einskorðuð við karlmenn og er af nógum dæmum að taka til að sanna það. Hrunið var því áreiðanlega ekki afleiðing græðgi karla einna og sér heldur græðgi beggja kynja á flestum vígstöðvum fjármálalífsins og í þjóðfélaginu.

Sú skoðun að konur séu miklu ábyrgari en karlar í fjármálum sem öðru, er auðvitað alhæfing sem stenst ekki. Ábyrgð manneskja í þessum efnum fer eftir persónugerð og hugsunarhætti hvers einstaklings fyrir sig en ekki kyni.

Það hefur ýmsum konum í ábyrgðarstöðum reynst erfitt að halda sig á réttu róli á fjármálagötunni engu síður en körlum. Það má leiða hugann að Ritt Bjerregaard, Monu Sahlin og nú síðast Aleku Hammond fyrsta kven-forsætisráðherra Grænlands. Allar hafa þessar konur ratað í vandræði vegna þess sem varla er hægt að kalla annað en skort á fjármálahæfni.

Ritt Bjerregaard hefur stundum lent í kröppum sjó á sínum ferli, t.d. vegna Ritz-málsins 1978, en þá afsagði forsætisráðherrann Anker Jörgensen hana sem ráðherra. Seinna var sagt að hún hefði svo sem ekkert verið eyðslusamari en aðrir ráðherrar hvað svo sem það þýddi. En að minnsta kosti sýndi hún ekki fjármálahæfni umfram aðra eins og sumum er gjarnt að segja að konur geri. Anker Jörgensen, hinn gamli baráttujálkur úr verkalýðshreyfingunni, var að minnsta kosti ekki hrifinn af framgöngu hennar, og æði mörgum fannst hún hegða sér með afar aristokratískum hætti miðað við frammámann í flokki danskra jafnaðarmanna.

Hið umtalaða Toblerone - mál í Svíþjóð var að vísu fellt niður gegn Monu Sahlin, en afleiðingar þess virðast hafa skaddað mjög stjórnmálaferil hennar og tiltrú almennings á henni sem leiðtoga. Aleka Hammond varð að segja af sér eftir skamma stund í embætti á Grænlandi vegna meints ábyrgðarskorts í fjármálum og verður því varla með nokkru móti neitað að þar hafi vantað nokkuð á hæfnina í þeim efnum. Svo gæðagildi á vægi ábyrgðar í störfum fólks eru enganveginn bundin kyni heldur fyrst og fremst því hvernig manneskjan er gerð.

Nefna mætti margar aðrar konur sem þekktar hafa verið fyrir flest annað en fjármálahæfni. Sumar óðu í peningum og höfðu þó aldrei nóg handa milli. Er það ekki nákvæmlega það sama og komið hefur fram varðandi karla sem hafa haft sömu eðlis-eiginleika ?

Og varðandi sakfellingar gagnvart fólki sem hefur orðið uppvíst að því að hafa dregið sér fé í hinum ýmsu störfum eða embættum, virðist ljóst að slíkar freistingar hafi komið yfir einstaklinga alveg óháð kyni þeirra.

Og þar sem slíkt liggur í raun og veru afskaplega ljóst fyrir, má spyrja, af hverju er þá verið að mála svona falska mynd í þessum efnum og ljúga upp einhverri heildar gyllingarútgáfu varðandi þessi mál ?

Er það kannski vegna þess að tíðarandinn gerir stöðugt meiri kröfur í þá átt ?

Jafnvel maðurinn sem sagði að staður kvenna ætti að vera „bak við eldavélina“ segist nú vera orðinn feministi. Og hann virðist þegar byrjaður á kvenréttinda-krossferð sinni, með því að verja konur sem hann segir að hafi orðið fyrir einelti og rangindum fyrir þúsund árum !

Hann gefur jafnvel í skyn að hann sé í beinu sambandi við þær sumar og þó að slíkt tal gangi hugsanlega í suma, er slík staðhæfing nú tæplega til þess fallin að auka trú manna á greindarvísitölu þess sem heldur slíku fram.

Fyrst þessi nýbakaði feministi hefur kosið að byrja á því að leiðrétta - á sína vísu - aldagömul álitamál í umræddum efnum, veit ég ekki hvenær hann nær því að vinna í einhverjum slíkum málum sinnar samtíðar ? Ég er meira að segja heldur á því að hann hafi minni áhuga á því, enda myndu leiðréttingar þar hugsanlega geta höggvið nærri honum sjálfum og ferli hans.

Víst er að lýðskrumið í kringum sölumennsku og hagnaðarspil er sem fyrr ekki lítið og greinilegt er að menn segja margt og gera - enn í dag - á Íslandi, ef vonir um betri ímynd og fleiri aura glæðast við það.

Þjóðlegt samfélag og farsælt gengi þess byggist að sjálfsögðu á sem víðtækastri samvinnu karla og kvenna. Að stilla kynjunum sífellt upp sem einhverjum ósamrýmanlegum andstæðum og valda ósætti milli þeirra og ýta undir herská viðhorf þar, er í raun það sem kallast á hreinni íslensku niðurrifsstarfsemi og er auðvitað engum til góðs.

Ég held við ættum að halda okkur við heilbrigðar staðreyndir í málum, hvort sem í hlut eiga konur eða karlar. Það er varla nokkru barni sem vex upp í landinu ávinningur í því að hagur mömmu þess vænkist bara með því að lítið sé gert úr pabba þess. Ætli báðir foreldrarnir séu ekki í flestum tilfellum að vinna saman að heill og hamingju barna sinna og hagsmunir þeirra eigi samleið í því sem öðru !

Mannkynið er eitt og það samanstendur af konum og körlum, hamingja þess og framtíð byggist á samvinnu en ekki kynbundinni sundrungu í nafni einhverra ætlaðra hugsjóna sem síðan hafa verið settar á hvolf !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband