7.9.2020 | 17:45
Að stela í tonnatali !
Fyrir nokkru var framinn þjófnaður á Hvammstanga. Stolið var um tveim tonnum af frosinni rækju. Það segir sig sjálft að slíkar gripdeildir eru ekki lítið mál. Þar hlýtur að vera um þaulskipulagt athæfi að ræða og allur útbúnaður sem til þarf mun þá líklega vera vandlega græjaður fyrirfram !
Einnig mun vafalaust hafa verið búið að gera því skil hvernig herfanginu yrði ráðstafað og komið í peninga sem hlýtur að vera tilgangurinn með slíkum ránskap. Aðilar kunnugir markaði mála hljóta að koma við sögu þegar menn fara að verða svona stórtækir í steleríinu !
Skrítið er, ef ekki er hægt að rekja slíka hluti nú til dags, og ná í hnakkadrambið á slíkum lögleysingjum sem þeim sem þarna hafa verið á ferð. Er virkilega hægt að stela framleiðsluvöru með þessum hætti og það í tonntali og láta hana algjörlega hverfa ?
Á síðari árum hefur þótt bera nokkuð á því að þjófagengi hafa komið frá höfuðborgarsvæðinu og stundað ránskap á landsbyggðinni, oft að næturlagi. Stundum er talað um fjármögnun vegna fíkniefnakaupa í því sambandi !
Í slíkum tilfellum virðist sem bæði hafa verið um Íslendinga og erlenda aðila að ræða. Eru slíkar heimsóknir skiljanlega í meira lagi hvimleiðar og bera því glöggt vitni hvernig heiðarleika hefur farið aftur í þjóðfélaginu og ýmisskonar glæpastarfsemi aukist samfara því með ömurlegum og ómannlegum hætti !
Margt algjörlega ólöglegt athæfi virðist nú flokkað af æði mörgum undir réttmæta sjálfsbjargarviðleitni og skilningur fólks á réttu og röngu virðist orðinn blendinn í meira lagi. Það er enganveginn af því góða !
En það eiga að vera lög í landinu og þau eru til þess sett að vernda borgarana og samfélagið, ekki síst fyrir þeim aðilum sem virða engar reglur og halda að þeir geti rænt og ruplað hvar sem er !
Það er því full ástæða til að efla löggæsluna, en það verður þó alltaf að varast að hér verði komið á fót herafla sem gæti orðið einhverskonar ríki í ríkinu, nokkurskonar sérsveit sérsveitanna, grá fyrir járnum !
Sem frjálsastir viljum við Íslendingar jafnan vera, en það verður að tryggja að mannfrelsi og lýðræði sé ekki notað til að fótumtroða lög og rétt í landinu. Þeir sem hegða sér þannig verða að svara til saka fyrir slíka breytni, en fyrst verður auðvitað að hafa hendur í hári þeirra !
Þjófnaðarherferðir þar sem stolið er verðmætum jafnvel í tonnavís, mega ekki viðgangast hérlendis og taka verður hart á slíku framferði svo áfram megi - með íslenskum hætti - samkvæmt réttum lögum, land byggja !
26.8.2020 | 11:20
Að lifa í veröld veirusýkinga !
Nú er búið að binda heiminn svo saman með samgöngum að ef einhver óáran kemur upp á einum stað fer hún eins og örskot um veröldina alla. Að búa á afskekktum stað er því engin vernd lengur.
Það er margsannað mál að ekkert er svo að því fylgi bara kostir. Það er alltaf eitthvað sem fylgir af verra taginu og stundum reynist það drýgra þegar til lengdar lætur !
Veröldin hefur farið á hliðina út af Covid 19. Heilsukerfi heilla þjóða hafa raskast og riðlast og komið hefur skýrt í ljós hvað öll okkar velferð er byggð á veikum grunni. Það má lítið sem ekkert gerast þá er allt í voða og heilu samfélögin eru ráðþrota !
Hin kapitalíska samtrygging sem ræður heimsverslun og efnahagsmálum víðasthvar emjar fljótt af iðrakvöl þegar gróðinn dregst saman. Frjálshyggjan telur ekki svo mikinn skaða að því þó einhverjir deyi. Þar er kannski hugsað og jafnvel sagt : ,, Þetta er mestallt gamalt fólk og veikburða sem hefur ekki marktækt gildi fyrir þeirri höfuðnauðsyn að hjólin haldi áfram að snúast ! Sjónarmið manna geta verið margvísleg og segja sannarlega sitt um hvern mann !
Heilbrigðisyfirvöld virðast nú færast æ meira í þá stöðu að lenda í návígi við hin hagfræðilegu efnahagsyfirvöld sem vilja láta hjólin snúast sama hvað það kostar í mannslífum. Formúlan um framboð og eftirspurn veldur því að hvert mannslíf vegur æ minna í þessum heimi okkar. Það er jú nóg af fólki til. Framboðið er svo mikið að það er víða vandamál. Efnahagspostular sjá því ekki stóran vanda fylgja því að framboð sem er orðið að þeirra mati allt of mikið minnki eitthvað !
Það virðist því fyrirsjáanlegt að félagshyggjuviðmið mannlegs samfélags tapi styrk ef fer sem horfir. Heilbrigðisyfirvöld munu verða að gefa eftir fyrir hinum afkomukrefjandi gróðasjónarmiðum fjármagnsaflanna. Fórnarkostnaðurinn verður ekki talinn þegar fram í sækir. Hjólin verða að snúast og í því efni er staðan svipuð og í styrjöld. Það verður að berjast áfram, sama hvað það kostar !
En hér er ekki bara um efnisleg atriði að ræða. Hér er um það að ræða hvað á að ráða hugarfari manna við þessar aðstæður. Er veirusýking bara líkamlegt heilsuvandamál eða nær hún til andans og hugarfarsins ? Auðvitað mun slík alheimsplága merkja sinn tíma og göfga fólk eða glæpastimpla !
Ef viðbrögð yfirvalda við Covid munu helst taka mið af gróðakröfum auðhringa og allskyns einokunarhafa, sem í skjóli sérgæskunnar hafa rakað að sér gífurlegum auði, mun samfélagið líða fyrir það. Það mun verða miskunnarlausara og kaldara sem því nemur !
Covid 19 er ekki á förum. Og það geta komið fleiri slíkar sendingar í komandi tíð. Við þurfum að búa okkur undir langt stríð í þeim efnum. En til hvers munum við heyja það stríð, til að verða betri manneskjur eða verri ? Með hvaða hugarfari munum við mæta til þeirrar baráttu ?
Við erum komin inn í veruleika sem gerir sínar kröfur og sumum finnst þær miskunnarlausar. En ætlum við að takast á við þær á sammannlegan hátt með velferð mannkynsins að leiðarljósi eða á að fylgja þar sérgæskufullum gróðakröfum fámennra valdahópa sem hirða lítið sem ekkert um almenna velferð ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook
18.8.2020 | 10:52
Ekki verður allt keypt fyrir peninga !
Miðað við þau lífsgæði sem fjöldi fólks á Vesturlöndum nýtur, finnst mörgum lífið allt of stutt. Fólk vill hafa miklu lengri tíma til að njóta. En þar geta verið ýmis ljón á veginum eins og margir fá að reyna !
Þeir eru býsna margir sem eru ekki búnir að hlaða undir sig efnum og auði fyrr en kemur að efri árunum og þá er ekki eins gaman að njóta eins og þegar fólk var ungt. Heilsan jafnvel orðin léleg eða bara farin eftir hamstrið og hamaganginn á græðgisárunum. Allt hefur sem sagt sín takmörk þrátt fyrir fengið ríkidæmi !
Svo eftirköst eins og hrörnun og heilsuleysi vilja setja stórt strik í reikninginn hjá fólki þó efni séu til staðar. Og sumir segja ergilega : ,, Það er vegna þess að lífið er allt of stutt ! En við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann þegar meðalaldur í Evrópu var ekki nema helmingur þess sem hann er nú. Og ekki var venjulegu fólki þá boðið að njóta neins. Það lifði allt meira og minna við sult og seyru !
Aðeins aðallinn og prestarnir lifðu nautnalífi á þeim tíma og það á erfiði hinna vinnandi stétta. En þeir sem flutu ofan á þá eins og nú kvörtuðu á sama hátt og þeir gera í dag, ,,lífið er allt of stutt ! Því alltaf kom Dauðinn að lokum og hann gátu menn ekki flúið. Menn urðu að hverfa frá ríkidæminu, óðulum sínum og höllum, metorðum og öllum hinum yfirflæðandi efnisgæðum. Þurftu bara sama rúm í jörð og aðrir !
Dauðinn gerði engan greinarmun á háum og lágum og allir dóu enginn gat keypt sig frá þeim lokadómi. Og ríka fólkinu fannst það í meira lagi skítt og svo er enn. En flest af því hafði og hefur síst af öllum áunnið sér aukinn rétt til lífsins !
En áfram er samt reynt að lengja lífið, þrátt fyrir hrörnun og heilsuleysi. Sumir auðjöfrar láta skipta um blóð í sér reglulega, aðrir fá ný líffæri austan úr heimi, hvernig sem þau eru annars tilkomin.
Í krafti auðs geta sumir líklega lengt líf sitt um einhver ár, en þeir lifa samt við áframhaldandi hrörnun. Þeir kaupa sér ekki yngingu !
Jafnvel Ann Nicole gat ekki komið meira lífi í sinn ektamaka, enda var líf hans á förum og reyndar ekki svo langt eftir af hennar tilveru. Auðurinn breytti þar engu um. Dauðinn fer ekki í manngreinarálit. Það er það meginatriði sem tekur ekkert mið af ríkidæmi. Allir hrörna, allir deyja !
Og til hvers er þá þetta allt ? Eru þessi svokölluðu lífsgæði einhvers virði þegar allt kemur til alls ? Erum við kannski alltaf að leita hins óforgengilega í því forgengilega ? Hlaða vitleysu ofan á vitleysu !
Til hvers er að safna auði alla ævi og deyja svo frá honum og spilla um leið afkomendum sínum með ríkidæminu ?
Þannig fer fyrir öllum sem leita á röngum stöðum. Hamingjan er ekki fólgin í veraldlegum auði, líf í fullri gnægð er fólgið í þjónustu við andleg gildi sem eru og verða. Aðeins sá sem fórnar sjálfum sér sigrar Dauðann og erfir hið Eilífa Líf ! Þannig er lögmál Almættisins og hefur alltaf verið !
15.8.2020 | 19:55
,,Augnablikið eitt þú átt !
Mannlífið er undarlegt fyrirbæri á flestan máta. Við komum inn í þennan heim, lifum hér um stund og hverfum síðan. Hvaðan komum við, hversvegna erum við hér og hvert förum við ?
Öll vísinda og tækniþekking nútímans veit engin svör við þessum spurningum. Sú kröfufreka þekking hefur líklega fært okkur fjær hinum réttu svörum frekar en hitt. Allt miðast við efnið í dag en lítið er lagt upp úr andanum. Sú afstaða hefur haft sínar slæmu afleiðingar !
Því það er ljóst og hefur lengi verið ljóst, að svörin við ráðgátu tilvistar okkar hljóta að vera andlegs eðlis. Lögmál lífsins er komið frá andlegri uppsprettu og til að skilja það verða menn að tengjast þeirri uppsprettu. Það getur aðeins gerst í gegnum andlega endurfæðingu !
Nú á tímum er margt sem bendir til að komið sé að skuldadögum mannkynsins. Við höfum þrætt að mestu rangar brautir, verri eigindir okkar virðast alveg hafa ráðið ferðinni í sálarlífinu og siðblinda hefur sýnilega vaxið stórlega á síðari árum !
Unga fólkið fær enga leiðsögn lengur frá þeim sem eldri eru, eins og áður var, enda uppreisnareðli þess orðið slíkt að ekkert af slíku tagi yrði meðtekið með jákvæðu hugarfari !
Náttúrulögmálin eru við það að bresta vegna gengdarlauss ágangs versta rándýrs jarðarinnar mannsins. Við stefnum út í algera ófæru og mörkum okkur og tíma okkar dauða og djöfli, að því er virðist af fullkomnu ábyrgðarleysi. Þar sést varla lengur glæta til góðs !
Sólkerfi okkar í heild virðist vera að ganga í gegnum breytingar sem kunna að verða okkar hnetti afdrifaríkar. Aðallega felst það í mikilli hita-aukningu. Sumir telja að sólin gæti farið að senda út svo geigvænlega mikla útgeislun rafsegulbylgja að þær gætu eyðilagt allt orkusamband á jörðinni. Jafnvel skapað rafmagnsleysi á öllum hnettinum til lengri tíma !
Spurningar nútímastöðu tilvistarmálanna geta verið margvíslegar. Af hverju hefur litróf Venusar yfir í græna litinn aukist um 2500% á fáeinum árum ? Af hverju hefur ljósmagn og hiti frá okkar litla Plútó aukist um 300% á svipuðu tímabili ? Af hverju, af hverju, af hverju !
Og meðan viðvörunarljósin blikka um alla jörðina út af því sem fer að koma yfir okkur, er allt efnahagskerfi jarðarinnar nákvæmlega á þessu augnabliki - að hrynja út af einni veiru. Er það ekki skýrt dæmi um veikleika heildarstöðunnar ?
Á hvaða undirstöðu byggjum við ? Er hún efnisleg eða andleg ? Er hún blekking eða bjarg ? Mér sýnist hún alfarið vera efnisleg, full af græðgi og neikvæðu innihaldi, undirstaða sem heldur ekki vatni !
Sjá menn ekki að við leitum ekki lausna við lífsgátunni á hraðbraut dauðans, brautinni sem liggur út í endanlega glötun. Við erum villt í þoku öfugsnúinna sjónarmiða. Við teljum nú í mörgu það ranga vera rétt !
Hvað segir tíðarandinn í dag. Í stað þess að benda fólki á að taka sér andlega stöðu, segir hann við fólk ,,Lífið er Núna ! Augnablikið eitt þú átt, skemmtu þér meðan þú getur ! Frá andlegu sjónarmiði er það vitlausasta afstaða sem hægt er að taka !
Á meðan dunar dansinn í höll Belshazzars og enginn virðist vita að ógnaröfl eru að leysast úr læðingi !
Vei jörðinni, vei mannkyninu, ef svo fer sem horfir !
7.8.2020 | 19:56
Alþýðuskáldskapur eða hvað ?
Skáldskapur hefur allt frá elstu sögnum fylgt Íslendingum og við þekkjum flest dæmin úr fornsögunum þar sem óbreyttir bændasynir ganga fyrir konunga og jarla erlendis, jafnvel beint frá óþrifalegri vinnu, til að flytja þeim kvæði. Ekki virðist sem háttsettum valdamönnum hafi mislíkað það, enda mun kjarni málsins líklega hafa verið kvæðið sem flutt var, en ekki klæðaburður eða efnastaða flytjandans !
Á þessum tímum var ekki til neinn sérstakur alþýðuskáldskapur, heldur aðeins skáldskapur. Það var ekki fyrr en líklega seint á nítjándu öld og svo þeirri tuttugustu sem menntamenn fóru að innleiða hugtakið alþýðuskáldskapur -, sennilega til að undirstrika að skáldskapur þeirra væri eitthvað meiri að gildi en það sem Jón Jónsson var að yrkja úti í bæ !
Nú vitum við að það er afskaplega ríkt í fari sumra manna að setja goggunarröð á allt. Og það er sannarlega ekki svo, að þeir sem virðast ákafastir um slíkt, séu endilega fremstir manna. Líklega er það nær því að vera alveg öfugt. Kannski er slík sérgæsku tilhneiging, sem hér um ræðir, viss tilraun, - í því skyni einkum gerð - að fastsetja eigið gildi ? Það skyldi þó aldrei vera og ekki kæmi það mér á óvart !
En hvernig förum við annars að í skilgreiningum varðandi þessi mál ? Var Egill Skalla-Grímsson alþýðuskáld, og hvað má segja um Þormóð Kolbrúnarskáld eða Sighvat Þórðarson, voru þeir alþýðuskáld ? Hvað með Hallfreð vandræðaskáld ? Skyldu kannski öll svokölluð alþýðuskáld í rauninni vera einhvers konar vandræðaskáld í augum svonefndra menntamanna ?
Er ekki einhver fræðileg eða hræðileg skekkja fólgin í því að alþýðuskáld skuli yfirleitt vera til og geta ort ? Eiga alþýðumenn í rauninni eitthvað að vera að fikta við skáldskap ? Er þar ekki bara um að ræða æðri list og andlegt viðfangsefni skólaðra manna, eins og viss ráðsmennsku-sjónarmið menntamanna nú á tímum gefa oft í skyn ? Nei, sem betur fer, er svo ekki !
Við getum hinsvegar velt því fyrir okkur, hvenær skáldskapurinn fór í þá skiptingu, að sumt af honum fór að kallast alþýðuskáldskapur, og hverjir stóðu að þeirri skilgreiningu ? Þá ætti líklega að vera til sem mótvægi einhver sérstakur menntamanna-skáldskapur, og þá líklega í öðrum gír og öðru veldi ? En þar vantar á útfærslu mála svo kenningin gangi upp !
Við ættum samt að geta haft það á hreinu, að andagiftin, sem er hjartað í skáldskapnum, er ekki afurð skólalærdóms. Andagift er náttúruleg gjöf, en hún getur auðvitað slípast og vaxið með andlegum vexti þess sem hún býr í, eins og sérhver annar hæfileiki. Það hefur aldrei leikið vafi á því !
En andagift sem er kúguð til að hlíta einhverri goggunarröð metings og mannasetninga, er ekki líkleg til að vaxa mikið og síst með heilbrigðum hætti. Því miður virðist hún samt oft knúin af slíkum aðstæðum sem eru spillandi fyrir hana á allan hátt og hamla eðlilegum skáldskaparþroska !
Skáldskapurinn ætti yfirleitt að vera bestur þegar hann er hugarfrjáls, en margir hafa ort ofurmannlega vel þó þeir hafi aldrei verið frjálsir. Þar kemur ekki síst til óendanlegt breytiferli mannlegra persónuleika og göfgun anda og sálar í því sambandi. Sum mestu frelsiskvæði veraldar hafa verið ort af fólki sem bjó við ómannlegar aðstæður ófrelsis og þrælkunar !
Æðri og lægri skáldskapur er af þessum og öðrum ástæðum enganvegin skilgreind staðreynd, þó sumir vilji meina að svo sé. Það er tilfinning fólksins, þjóðarinnar, sem ræður í því efni þegar til lengdar lætur !
Einhverjir menningarpostular geta haft áhrif á margt um sína daga, en oftast fjara slík persónuáhrif fljótt út þegar þeir eru dauðir. Þá hafa þeir ekki lengur völd og aðstæður til að ráðskast með skáldskapar-hugtök að hætti alvísra dómara. Skáldskapur er nefnilega fyrst og fremst skáldskapur, - án aðgreiningar !
Það sem nær að festast í sessi sem menningarframlag, hvort sem það er alþýðuskáldskapur eða menntamannaskáldskapur, hvort sem það er lægri skáldskapur eða æðri, verður sjálfkrafa hluti af þjóðmenningunni.
Þau lögmál sem ráða því ferli geta verið flókin í hugfræðilegum skilningi, en byggjast að miklu leyti á hjartatilfinningu fjöldans. Það geymist einfaldlega best í sálinni sem talar til hennar !
Það á enginn skáldskapinn ! Hann sprettur fram í mannssálinni á náttúrulegan hátt og á að gera það. Ávextirnir sem skapast við það geymast eða gleymast sama hver yrkir. Sumt lifir og sumt ekki. Þannig hefur flæði skáldskaparins verið á öllum tímum og með þeim hætti einum er jöfn staða tryggð og hersis hefnd við hilmi efnd !
Þannig er það sál þjóðarinnar sem metur allan skáldskap og dæmir með tímanum. Og sá dómur mun standa og honum verða allir að una, líka hin goggunarraðar hugsaða efri deild, - ,, menntamannaskáldin !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.8.2020 kl. 20:36 | Slóð | Facebook
28.7.2020 | 15:20
Að hanga við völd !
Það er kunnara en frá þurfi að segja að veðurlag á Íslandi getur verið rysjótt. Því ætti það að vera heldur ákjósanlegra að kosningar fari fram meðan eiga má von á skaplegri tíð !
Ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma ætti því samkvæmt þjóðhagslegum forsendum að hafa slíkt í huga, ef ekki sín vegna, þá þjóðarinnar vegna !
Þó að kjörtímabil þingmanna sé vissulega 4 ár, hlýtur ríkisstjórn sem telur sig hafa verið að gera vel og hefur þannig trú á verkum sínum, að geta stytt umboðstíma sinn um svo sem 3 - 4 mánuði til að hægt sé að kjósa á betri árstíma. Það virðist hinsvegar ekki hafa verið pælt mikið í slíku !
September er sem vitað er oft rokgjarn og regnviðrasamur mánuður og ekki er langt síðan menn lentu í verulegum vandræðum út af veðurfari í göngum og það í fyrri hluta mánaðarins !
Einhverntíma var kveðið pólitík og tíðarfar / töluvert er svipað svo menn í pólitík ættu að geta skilið forsendur umræddra mála með sæmilega skynsömum hætti. En nei, svo er ekki, flokksleg sjónarmið ráða öllu og hangið skal á völdunum fram á síðasta dag !
Ekki virðist reisnin mikil eða einhver merki um þjóðhollustu í fyrirrúmi. Það er gömul og ný saga um íslensk stjórnmál að þeir sem þar virðast jafnan mestu ráða eru meðalskussar einir. Sjáið ráðherrana, sjáið þingliðið, lítið á þessa hörmung, allt undir meðalvigt að manntaki !
Ef gildi ríkisstjórnarinnar hefði verið meira og trú hennar á eigin verkum, hefði hún látið kjósa á mannsæmilegri tíma en ákvarðað hefur verið. En það gera víst engir meira en þeir eru menn til, og því liggur kjördagur fyrir með þeim hætti sem nú er búið að ákveða. Maður gæti haldið út frá því að sumir væru beinlínis að vonast eftir dræmri kjörsókn ?
Það sannast að minnsta kosti löngum - að smátt er það sem smáir gera !
25.7.2020 | 15:11
Ortar vísur til gamans við myndir í bókinni Skáldið sem sólin kyssti !
Bls.19.
Litlu betra bæjar val
bauðst en greni refa.
Rústir Suddu í Reykholtsdal
rétta mynd þar gefa.
Bls.172.
Mörg í tré er myndin rist,
mögnuð framar orðum.
Guðmundur þar lék af list
líkt og Hjálmar forðum.
Bls. 197.
Sumir verða að kúra á kodda,
kallast á við vonlaust tóm.
Lífs á morgni dó hún Dodda,
deydd eru víða fögur blóm.
Bls. 203.
Skáldið stendur hér á höndum,
hrifning sýnd á lífsins kveik.
Þarna er ekkert bundið böndum,
barnsleg gleði í frjálsum leik.
Bls. 222.
Hér er mikið sjónarsvið,
sitthvað hægt að lít´ á.
Úrvalsfólk í önnum við
ullarþvott í Hvítá.
Bls. 250.
Eljuskapinn skýrt ég lít,
skilaverkið drjúgast.
Meðan feðgar moka skít
má við góðu búast.
Bls. 348.
Horfi ég á sannan segg,
sviðsmyndina sterka.
Hér er brýnt svo bíti egg,
bóndinn kann til verka.
Bls. 356.
Hérna sitja saman tveir
sómamenn að spjalli.
Orðstír þeirra ekki deyr,
er sem viti á fjalli.
Bls. 363.
Lít ég hjón á leið í gleðskap,
létt er yfir þeirra brún.
Eins er gleðin kringum kveðskap,
kannski engin betri en hún ?
Bls. 381.
Sitja á palli sæmdarhjón,
sést þar bragur valinn.
Myndin hjartans hreina tón
hefur í sér falinn.
Bls. 388.
Sólarskáldið situr hér
sjónum leiðir grundir.
Hugsunin hjá Ingu er
allar lífsins stundir.
Bls. 412.
Fróðleikur til yndis er,
opnar vegi um höf og lönd.
Guðmundur með gleði hér
gripið hefur bók í hönd.
Rúnar Kristjánsson fecit.
21.7.2020 | 23:23
Veruleikinn elur á heimsku !
Samtíminn er ekki sem heilbrigðastur þegar á allt er litið og kallar í mörgu fram veruleika sem virðist ekki byggður á sérlega mikilli dómgreind !
Maðurinn elur á andstæðum með háttalagi sínu og virðist meira og minna í uppreisn gegn Skapara sínum og því sköpunarverki sem byggt var á heilnæmum aðstæðum í hreinni náttúru endur fyrir löngu !
Það er því augljóst að maðurinn byggir ekki upp á heilbrigðan hátt, hann rífur miklu frekar niður. Og fólki virðist bókstaflega kennt og innrætt að hafa svo miklar þarfir, að það á að réttlæta öll afglöp sem framin eru gegn Skaparanum og sköpunarverkinu. Sífellt glymur í eyrum fólks : ,, Þú þarft að fá þér þetta og þetta og þetta, o.s.frv.
Niðurstaðan verður sú að efnishyggjan tekur algerlega yfir í lífi fólks. Heilbrigt fjölskyldulíf lamast því báðir forsjáraðilarnir vinna úti og veitir ekki af. Börnunum er hent út og suður og allir eru á hlaupum eftir nýjum ávinningi !
Margir taka sér aðra vinnu á kvöldin til að auka greiðslugetuna því alltaf þarf að kaupa eitthvað nýtt og betra. Þrælahald nútímans lýsir sér ljóslega í gegnum allt kaupæðið, því allir eru að verðlauna sig með einhverju fyrir ómanneskjulegt vinnuframlagið og álagið sem því fylgir !
Smám saman skapast sú válega veruleikamynd, að fólk gefur sér ekki tíma til að lifa. Það treystir sér ekki og getur ekki verið manneskjulegt smástund því þá heldur það að það sé að missa af einhverju. Svo það heldur áfram að hlaupa lífið frá sér, í ímyndaðri sókn að einhverjum ávinningi !
En lífshamingjan felst ekki í söfnun dauðra hluta og efnishyggju átrúnaði.
,,Gleðin er heilust og dýpst við það smáa var einu sinni sagt og hamingjan felst meira í því að eiga lítið en eiga mikið. Sá sem sankar að sér miklu verður þræll eigna sinna, hann á ekki eignirnar, þær eiga hann !
Hugfræðileg samtíðarhyggja mannsins er því meira og minna byggð á rugli. Sumir taka meira að segja þátt í vitleysunni þó að þeir sjái í gegnum hana. Það gildir að vera með, jafnvel þó verið sé að ganga fyrir björg !
Það sannaðist eftirminnilega fyrir hrunið. Enginn má fara að æpa að keisarinn sé ekki í neinu. Það þarf sakleysingja til þess að bera sannleikanum vitni og fáir eru saklausir í dag. Jafnvel börnunum er spillt frá fyrstu tíð með því að láta allt eftir þeim og agi er sagður af því illa !
Þegar vegirnir eru lagðir út í vitleysu, ana flestir hugsunarlaust eftir þeim.
Vitum við annars nokkuð hvert við erum að fara ?
17.7.2020 | 20:40
Gengið um garð sumarið 2019
Þegar ég var á ferð um Flókadal í Borgarfirði í sumar er
leið, til að hitta kveðskapar-bróður minn Dagbjart Kort
Dagbjartsson á Hrísum, fóru áætlanir mínar nokkuð á
annan veg en að var stefnt.
Ég fékk fréttir af því að Dagbjartur væri í önnum á
yfirstandandi bjargræðistíma,og auðvitað kom mér ekki
til hugar að fara að trufla hann við heyskaparvinnu á
öðrum bæ í dalnum. Breytti ég því snarlega áætlun minni
á þann veg, að ég renndi vagni mínum niður í Reykholt og
átti þar nokkra viðdvöl.
Meðan Kristján sonur minn brunaði þar um malbikuð svæði
á einhjólinu sínu, gekk ég um kirkjugarðinn hljóður í
bragði og hugði þar að leiðum.
Sá ég þá að í litlum skika þar voru fjórir þjóðkunnir
menn jarðsettir nánast hlið við hlið. Það voru þeir
Guðmundur Hagalín, Jónas Árnason, Flosi Ólafsson og
Ingólfur Margeirsson. Hugði ég um stund að leiðum þeirra
og kvað yfir Gvendi :
Hagalín með Unni ól
aldur sinn á Mýrum.
Fann sér efri ára skjól,
enn með huga skýrum.
Svo leit ég á leiði Jónasar og bætti við :
Drýgði sálar sinnar föng,
saup úr mörgu glasi.
Kátur hló og kvað og söng
Kópareykja-Nasi.
Síðan sneri ég mér að leiði Flosa og kvað þar :
Meðan Flosi á Bergi bjó,
brattur sig hann stælti.
Sveitin öll að sumu hló
sem hann gerði og mælti.
Þar næst hvarflaði ég augum að leiði Ingólfs :
Ingó Margeirs eins er hér
undir jarðarmosa.
Nærri systur sinni er,
sem var kona Flosa.
Svo varð mér hugsað til kvennanna sem hvíla þarna og kvað :
Bjuggu sínum mönnum með
mála bjartar sunnur.
Bættu þeirra gerð og geð,
Guðrún, Lilja og Unnur.
Svo signdi ég yfir öll leiðin kvaddi þannig hina ágætu
sofendur sem þarna hvíldu, og gekk minn veg.
Ritað í byrjun október 2019,
Rúnar Kristjánsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2020 kl. 11:28 | Slóð | Facebook
11.7.2020 | 13:20
Alþýðuhetjan Gunna fótalausa
Snemma hlaustu snúin kjör,
snauð að ytri gæðum.
Þrautir mæddu þína för
þrátt með tökum skæðum.
Samt þú barðist sérhvern dag,
sýndir fljótt í verkum lag,
byggðir upp og bættir hag,
búin krafti í æðum.
Steinadals á heiði í hríð
heljarveðri lostin,
veg þú braust og vannst það stríð,
vonin hvergi brostin.
Önduð móðir eftir lá,
upp þig sleistu líki frá,
komst til byggða úr kulda vá,
kalin eftir frostin.
Fimmtán ára fótalaus
fékkstu líf að reyna.
Þó í engu frá þér fraus
framtaksþráin hreina.
Lagt var á þig ok sem var
eins og rakið dauðasvar,
en þú gafst þig ekki þar,
uppgjöf kaust ei neina.
Sjálfsbjargar við sanna dáð,
sálarhugsun sterka,
fram þú sóttir lífs um láð,
lærðir margt til verka.
Raungott fólk þér lagði lið
langtum framar tíðarsið.
Áfram bættust afrek við
ævisögu merka.
Bátagerðin hóf þinn hag,
hugsuð fram með prýði.
Þar í öllum línum lag
lýsti góðri smíði.
Stöðugt þínum stúfum á
stóðstu full af kappi þá,
sinntir verkum sveitt á brá,
sveitar virt af lýði.
Ekki var þitt viðmót kalt,
vermt af anda ljúfum.
Gildisheil í gegnum allt
gekkstu á þínum stúfum.
Síst þér vel um vanga strauk
veröldin með allt sitt brauk,
að þér sneri uns yfir lauk
ávallt lófa hrjúfum.
Næða fannst þér kalt um kinn,
kólna í vonarlandi,
er þú misstir Magnús þinn,
merktan dauðans brandi.
Enn var reynslan gefin grimm,
gnúðu um þig élin dimm.
Aðeins hlaustu árin fimm
í því hjónabandi.
Áfram samt með sama dug,
særð við élin skæðu,
vísaðir þú vanda á bug,
vannst þig burt frá mæðu.
Angurs meina málin því
máttu þoka enn á ný.
Sigur gastu sótt þér í
sálar innistæðu.
Ekkert kæfði eldmóð þinn,
orku hugsun fleyga.
Fékk þar alltaf framgang sinn
frelsishvötin seiga.
Bjóstu að þínu, búin að
byggja upp efni fyrir það.
Vinum hjá þinn verustað
vildir síðan eiga.
Reyndist þér með réttu vel,
röskur lífs á velli,
vinur einn með vandað þel,
var það Jón frá Felli.
Þó hann ætti í sjálfum sér
sanna hæfni er lofa ber,
lærði hann smíðar lengi af þér,
létti þér svo elli.
Heyrn og sjón þér hurfu frá,
hart var það að bera.
Samt í gegnum þolraun þá
þér fannst margt að gera.
Í þrjátíu ár við þannig kjör
þú gast kennt og gefið svör.
Leiðbeint mörgum lífs á för,
lést það hvergi vera.
Vegferðar þú varðann hlóðst
vígðan elju nægri.
Fótalaus á fótum stóðst
fram að endadægri.
Næstum orðin níræð þá
naustu dóms sem fyrir lá,
að ævigildið sérhver sá,
sýnt með stöðu frægri.
Rúnar Kristjánsson, Skagaströnd.
( Ort 11. apríl 2019. )
Nýjustu færslur
- Er leiðandi fólk að þjóna þjóð sinni heilshugar ?
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 111
- Sl. sólarhring: 127
- Sl. viku: 1227
- Frá upphafi: 397696
Annað
- Innlit í dag: 93
- Innlit sl. viku: 1093
- Gestir í dag: 90
- IP-tölur í dag: 90
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)