9.5.2020 | 23:52
Sögutengdar vangaveltur !
Svo undarlegt sem mörgum kann að þykja það, urðu sumir nánustu félagar og samstarfsmenn Stalíns háaldraðir menn. Þó löngum hafi verið sagt að umræddur valdhafi hafi aldrei treyst neinum, virðist þó sem þar hafi verið um að ræða menn sem hann hafi þrátt fyrir allt borið eitthvert traust til. Að minnsta kosti tókst þeim að lifa áratugum saman í nánustu nánd við mann sem allt átti að drepa í kringum sig, að margra sögn !
Skyldu þetta kannski hafa verið svo miklir afburðamenn, að þeim hafi alltaf tekist að halda einvaldinum rólegum þegar þeir voru í þessari miklu nánd við hann. Strokið honum eins og ketti uns hann fór að mala ? Nei, varla hefur það verið þannig, enda vill enginn halda því fram. Þá verður ógnvaldurinn Stalín ekki sá ógnvaldur sem honum er ætlað að vera í ,,sannleiksútgáfu Heimsáróðurs-smiðjunnar og þeirri túlkun má ekki hagga !
En hvernig fóru þá þessir menn að því að vera í svo nánum samskiptum við þetta margumtalaða mannskrímsli allan þennan tíma og lifa það af ? Eftir flestum Vesturlanda-lýsingum hefði það ekki átt að vera hægt ? Hér erum við að tala um pólitíska forustumenn eins og til dæmis Kliment Voroshilov, Nikita Kruschchev, Nikolai Bulganin, Anastas Mikoyan, Vyachslav Molotov, Giorgi Malenkov og Lazar Kaganovitch !
Stalín var fæddur undir árslok 1879 og var því kominn nokkuð á sjötugasta og fjórða ár þegar hann lést þann 5. mars 1953. Þann dag telja margir að hátíðlegt hljóti að hafa verið í helvíti. Sennilega hafi fagnaðarlætin nálgast djöflaganginn sem hefur eflaust orðið á umræddum stað nokkrum árum fyrr, þegar Hitler og hans fylgisveinar gengu í hlað !
Svo hafa nú fleiri þekktir menn af þessari stríðskynslóð farið að tínast þangað heim um svipað leyti, allir líklega meira eða minna með toppgild borgararéttindi á viðkomandi stað upp á vasann. Kannski hafa líka orðið þar miklir fjandvinafundir í ársbyrjun 1965, þegar Churchill hefur að öllum líkindum gengið þar glaðbeittur í garð með vindilinn í kjaftinum !
Allir þessir stríðsherrar áttu sök á dauða þúsunda manna með tillitsleysi sínu gagnvart mannslífum og þar verður seint hægt að telja allt til fulls. Öll dýrkun á slíkum skúrkum er því hverjum þeim til vansa sem hana viðhefur. Oft heyrist til hægri manna sem spyrða Hitler og Stalín saman, en ég sé enga ástæðu til að draga Churchill þar undan. Að mínu mati var hann ekki hótinu skárri en hinir blóðhundarnir !
Þúsundáraríki Hitlers stóð ekki lengi, það féll um leið og hann. England eins og Churchill hafði lengstum séð það og viljað hafa það, var endanlega úr sögunni upp úr stríðslokum 1945. Valdastaða þess var orðin svo veik á þeim tímapunkti, að eftir 1945 var England bara orðið fylgiríki Bandaríkjanna. Breska heimsveldið var ekki lengur til nema í algerri mýflugumynd þess sem var !
Sovétríki Stalíns stóðu hinsvegar sem stórveldi og jafnvel risaveldi í nær 4 áratugi eftir dauða hans og féllu reyndar á allt öðrum forsendum en hann hefði líklega nokkurntímann getað séð fyrir. Þau héldu hinsvegar velli nákvæmlega að tíma til - þar til allir nánustu félagar hans voru dauðir. Það er nokkuð athyglisvert !
Voroshilov lést 1969, 88 ára gamall, Kruchchev dó 1971, 77 ára, Bulganin dó 1975, tæplega 80 ára, Mikoyan lést 1978, nærri 83 ára, Molotov lést 1986, 96 ára, Malenkov lést 1988, 86 ára, en Kaganovitch andaðist 25. júlí 199l, nærri 98 ára. Innan mánaðar frá láti hans kom hin vodkafyllta valdaránstilraun gegn Gorbachev í ágúst og áður en árið var liðið, var ríkjasambandið leyst upp og saga Sovétríkjanna þar með á enda !
Meginástæðan var líklega sú, að Rússland neitaði að þjóna áfram sem hryggjarstykki og helsti kostnaðaraðili hins pólitíska valdahlutverks Sovétríkjanna. Forustumenn ríkjasambandsins voru meira og minna orðnir ríkiskapítalistar og vildu að Rússland færi eitt með þau völd sem Sovétríkin höfðu haft. Sú stefna þeirra gekk hinsvegar ekki upp, því Rússland hlaut að hafa miklu síðra áhrifavald á heimsvísu en Sovétríkin höfðu haft og ekki síst í ljósi þess að sósíalískri ríkisstefnu var hafnað !
Staðan í dag er því sú að þar við situr. Stóri Stalín er löngu dauður og enginn veit hvað litli Stalín sá putalingur, stendur fyrir, nema kannski það eitt að halda völdum sem lengst !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.5.2020 kl. 00:29 | Slóð | Facebook
24.4.2020 | 23:50
Að fela öðrum fjöregg þjóðarinnar !
Það er alkunna, þó reynt hafi verið að hafa ekki hátt um það, að offjárfestingar í ferðaþjónustugreinum hafa verið miklar hér á landi um allmörg undanfarin ár. Hótel hafa flogið upp um allt land og sum þeirra eru engin smásmíði, allskyns húsnæði annað hefur verið gert upp til að taka á móti ferðamönnum og allrahanda útgerðir settar á fót, bíla og rútufloti til skoðunarferða og peningaflæðið í kringum þetta allt verið með ólíkindum !
En eins og stundum vill verða með blessað einkaframtakið hér á landi og líklega víðar, eiga kostnaðarliðirnir að dæmast á ríki og sveitarfélög, en gróðinn að sitja eftir hjá hinum svokölluðu athafnamönnum !
Aðgengi að náttúruperlunum okkar þarf að vera miklu betra að mati slíkra sérhagsmuna-aðila og ríki og sveitarfélög eiga auðvitað að sjá um það. Það eru nefnilega kostnaðarliðir og Klondike-riddarar vilja sem minnst af þeim vita í sínu einkaframtaki !
Bankarnir hafa lánað býsna mikið í þessi ferðaþjónustumál, en ábyrgðaraðilinn er auðvitað samfélagið, ef illa fer. Þá á þjóðin að borga tapið. Svo hefur græðgin í þessari grein valdið slíkum verðhækkunum á þjónustu að þegar er trúlega búið að skemma talsvert fyrir varðandi áhuga annarra þjóða fólks að koma hingað. Stundum fara ferðaþjónustuaðilar nefnilega heilan hring í áróðri og auglýsingamennsku, og átta sig ekki á því að þeir eru þá farnir að mæta sjálfum sér í gagnstæðum anda !
Hreint land, fagurt land, rímar til dæmis ekki beinlínis við það að selja vatn á flöskum á hótelum í Reykjavík, til að drýgja ágóðann. Svo er sagt aftur og aftur að fólk sé í þessu ferðamennskustandi af hugsjón ..!
Nei, það er engin hugsjón í þessu, það er bara blind gróðahvötin sem rekur þetta fólk áfram. Væru málin rannsökuð ofan í kjölinn er ég sannfærður um að það kæmi skýrt í ljós, að hugsjónir eiga þarna lítinn sem engan hlut að máli. Þetta er bara púra bisniss upp á harðsoðna, ameríska vísu !
Þó að það hafi lengi legið fyrir, að offjárfestingar ferðaþjónustunnar myndu enda með einhverskonar brotlendingu þó Covid-19 kæmi ekki til, er ljóst að hliðstæð útkoma er í sjónmáli vegna afleiðinga veirufaraldursins. Og þá hillir líklega í veisluhöld hjá tækifærissinnum !
Margir rekstraraðilar eru því áreiðanlega nú um stundir, bæði í ferðaiðnaði og í öðrum greinum, að hugleiða hvernig þeir geti kreist fjármuni út úr ríki og sveitarfélögum, í ljósi þeirrar stöðu mála sem blasir við í dag !
Og eins og oft vill verða, er hætta á að margir fái stuðning af almannafé út af þessu ástandi, sem enganveginn ættu vegna ferilsögu sinnar - að fá slíka hjálp, en slíkir aðilar eru löngum líklegastir til að heimta mest !
Þá er um að ræða fyrirtæki sem eru og hafa verið rekin svo illa og ábyrgðarlaust undanfarin ár, að þau hafa verið á leiðinni í þrot - alveg án tillits til veiru-faraldursins. En nú á eflaust að nota tækifærið og fá endurfjármagnaðan rekstur óráðsíu og glapa á kostnað almennings, í gegnum einhvern Covid-19 björgunarpakka frá stjórnvöldum !
Það virðist alltaf vera fullt af fólki í þessu landi, sem hugsar aldrei um það að fjármunir ríkis og sveitarfélaga séu fjármagn þjóðarinnar. Að verja beri þeim fjármunum með ábyrgum og skynsömum hætti í þágu þjóðarheilla. Því miður virðast allt of margir hérlendis temja sér að horfa á allt fjármagn með augum ræningjans. Það er enganveginn rétt viðhorf til velferðar !
Atvinnulíf þjóðarinnar þarf fyrst og fremst að byggjast upp á innlendum iðnaði og nýtingu lands og sjávar. Við þurfum að byggja á okkar eigin forsendum og því að hjól atvinnulífsins séu að fullu í okkar höndum !
Tilviljunarkennd og tískusveifluleg afstaða útlendinga til þess hvort þeir heimsæki landið, getur aldrei orðið trygg undirstaða fyrir varanlega velferð íslensku þjóðarinnar. Þá er fjöregg okkar í annarra höndum !
Þegar útlendingarnir taka upp á því að fara eitthvað annað, sem þeir gera líklega fyrr en síðar, meðal annars vegna þjónustugræðginnar hér, hvað á þá að gera við öll glæsihótelin sem búið er að byggja hér, með herbergi í þúsundatali, í trú á stöðugt og viðvarandi flæði útlendinga hingað ?
Nei, svokölluð uppbygging, sem ræðst alfarið af vilja útlendinga til að koma hingað, verður aðeins sístækkandi tímasprengja, sem springa mun í andlit þjóðarinnar og líklega þegar þjóðin má síst við slíku !
Þar hefur vægast sagt verið kostað miklu til, en framhald á velgengni er hinsvegar að sáralitlu leyti í okkar höndum eða á okkar valdi. Við endum þar á flæðiskeri fáviskunnar !
Útlendingar, sama hvaðan þeir koma, verða aldrei heilbrigð undirstaða að velferð íslensks samfélags og sjálfstæðis. Atvinnulíf þjóðarinnar verður að byggjast á traustum grundvelli, sem að öllu eða yfirgnæfandi hluta verður að vera í þjóðhollum höndum Íslendinga sjálfra !
21.4.2020 | 11:20
Horft til komandi gamalmennaslags !
Sú var tíðin að talað var mikið um að sovéska kerfið væri orðið svo hægfara og íhaldssamt, að ekki kæmust þar á toppinn aðrir en afgamlir skarfar, sem ekkert ættu eftir nema að geispa golunni !
Það var töluvert til í þessu, einkum á seinni árum Sovétríkjanna. En þá var líka búið að binda kerfið í þann fasta hnút sem hengdi það að lokum. Þannig fer yfirleitt fyrir öllu sem maðurinn baslar við að byggja upp !
Mikið var gert úr því á sínum tíma hvað John F. Kennedy væri reffilegur forseti, en þá var Kruchev leiðtogi Sovétríkjanna og rúmlega 20 árum eldri en JFK. Frískleikinn var greinilega Bandaríkjamegin !
Það verður þó að segjast, að Krússi þótti eiginlega óvenju líflegur af Rússa að vera. Hann gat jafnvel brosað af og til, en yfirleitt þóttu sovéskir leiðtogar þungir á brúnina og ekki árennilegir !
En áfram með samanburðinn. Lyndon Johnson tók sig heldur betur út en Brechnev, sem minnti alltaf einna helst á svipþungan gorilluapa og Kosygin var ekki beint hressilegur að sjá. Þó Nixon þætti alla jafna nokkuð skuggalegur á svipinn, hafði hann samt vinninginn þegar hann var borinn saman við Brechnev og þótti engum mikið !
Gerald Ford virtist alltaf nokkuð strangur að sjá, enda var hann aldrei kosinn almennri kosningu til forsetaembættisins. Það hefur kannski valdið honum einhverju sálarlegu harðlífi sem komið hefur fram í svipnum !
Það létti því ekki að ráði til í Hvíta húsinu fyrr en með Jimmy Carter, enda hvíldi enginn Watergate skuggi yfir honum. Auk þess var hann á besta aldri og bauð af sér nokkuð góðan þokka !
En Jimmy greyið fékk nú ekki nema eitt kjörtímabil og honum heppnaðist ekki að ná góðum tökum á embættisstarfinu. Hans tími kom ekki fyrr en löngu eftir forsetaárin og er það nokkuð merkileg saga út af fyrir sig !
En eftir tíð Carters í Hvíta húsinu, fór heldur að versna með hina forsetalegu aldursstöðu, því Ronald Reagan var 70 ára þegar hann tók við og átti samt eftir að sitja áfram sem forseti í heil 8 ár !
Sumir vilja nú meina að hann hafi ekki verið mikið með á nótunum seinna kjörtímabilið, en málin hafi reddast með ,,góðra manna hjálp eins og stundum er sagt - til að fegra hlutina !
En 1982 dó Brechnev og sem betur fer. Hann var þá 76 ára og búinn að vera vitagagnslaus við völd alla tíð. Eftirmaður hans var Yuri Andropov, klár maður á margan hátt, en gamall orðinn og það sem verra var heilsulaus. Áður hafði hann lengi verið við stjórn KGB !
Andropov gat lítið beitt sér, vegna eigin heilsuástands, þó hann hefði líklega haft viljann til þess. Hann dó 1984 eftir 15 mánuði við völd. Þá var kosinn í hans stað Konstantin nokkur Chernenko, sem var orðinn svo gamall og frosinn kerfiskarl, að það sást varla lífsmark með honum, enda dó hann endanlega árið eftir !
En þá brá svo við, að tiltölulega ungur maður Mikhail Gorbasjov, var kosinn leiðtogi Sovétríkjanna og þá var staðan orðin sú - að sá sovéski var nánast 20 árum yngri en sá bandaríski. Dæminu sem sagt alveg snúið við frá Kennedy-árunum og frískleikinn orðinn sovéskur !
Staðan lagaðist þó heldur þegar Bush eldri tók við, en hann var 13 árum yngri en Reagan. En næst gerðist það að Rússar lögðu Sovétríkin niður, enda orðnir svo miklir kapítalistar að þeir gátu ekki verið þekktir fyrir það lengur - í eigin hugsun - að vera kallaðir kommar !
Gorbasjov missti þar með öll völd og hafði ofan af fyrir sér næstu árin með fyrirlestrum á Vesturlöndum, í ýmsum hægri manna klúbbum, sem borguðu vel, en Boris Jeltsin, skírður upp úr vodka, kom fram í staðinn sem forseti Rússlands !
Þegar þarna er komið sögu, er gamli Bush á útleið og Clinton á leiðinni að taka við sem forseti í Bandaríkjunum, maður á besta aldri og sæmilega fjörmikill að sögn. Aftur snerist dæmið við !
Jeltsin sat tvö kjörtímabil við völd, en var orðinn heilsulaus og að sumra sögn heiladauður seinna kjörtímabilið, enda var hann þá orðinn eins og lifandi lík í fjölmiðlum. En aðrir léttu víst undir með honum þá, eins og áður hafði gerst hjá Reagan, og sumir hjálparkokkarnir voru að vestan !
1999 tók svo við hjá Rússum tiltölulega ungur og óþekktur maður Vladimir nokkur Putin, lágvaxinn en snaggaralegur náungi. Sagt er að Jeltsin hafi valið hann og rennir það stoðum undir þá kenningu að hann hafi þá verið orðinn heiladauður !
En Vesturlönd voru nú mjög sátt við Putin þennan í fyrstu, því þau héldu að hann væri þeirra maður og líklegur til almennilegheita. Það var ekki farið að tala um KGB fortíð hans fyrr en slettist upp á vinskapinn síðar. Þá fór Putin nefnilega að fara sínar eigin leiðir og tók engri leiðsögn lengur !
Svo gerðust það undur í Júessei sem enginn gat skilið, að yngri Bush komst til valda. Hann var samt ekki þjakaður af háum aldri, en sumir töldu að greindarvísitalan hjá honum hefði mátt vera hærri eða í það minnsta virk. Hann fékk samt - líklega af stríðsástæðum - 2 kjörtímabil, - en gerði eiginlega sitt besta til að vera talinn með lökustu forsetum Bandaríkjanna !
Eftir hann kom Barack Obama sem þótti afskaplega sprækur maður og líklegur til afreka. Varla hafa meiri væntingar verið gerðar til nokkurs annars forseta þar vestra í háa herrans tíð !
Thorbjörn Jagland rauk meira að segja upp með látum og veitti honum friðarverðlaun Nóbels fyrir ódrýgðar dáðir. En Obama gerði nú ekki neitt stórt, nema þá kannski á ónefndum stað. En hann fékk samt 2 kjörtímabil og fór svo sína leið, enn með ódrýgðar dáðir í farteskinu !
Eftir það varð Donald Trump forseti, orðinn 70 ára og kannski eitthvað kalkaður. Varla hafa stjórnarathafnir annars forseta í Bandaríkjunum orðið jafn umdeildar í allri sögu sambandsríkisins og vandséð hvernig stórfurðulegur ferill viðkomandi manns kemur til með að enda. Líklegast er þó að það verði með einhverri sögulegri brotlendingu !
Og nú er komið árið 2020 og enn er hinn lágvaxni og snaggaralegi Vladimir Putin mestur valdamaður í Rússlandi, eftir rúm 20 ár á toppnum og þó ekki nema 68 ára gamall. Og félagi hans Dimitri Medvedev, sem hann skiptir stundum völdum við svona upp á grín, er bara 55 ára. Klifurgangan á toppinn er greinilega ekki eins langsótt í Rússó og eitt sinn var !
En nú stefnir hinsvegar í það í fyrsta sinn, að forsetakosningar í Bandaríkjunum verði gamalmenna-slagur. Trump verður þá 74 ára og Joe Biden 78 ára. Bernie Sanders sem um tíma virtist geta komið til greina sem mótframbjóðandi Trumps er 79 ára !
Það er greinilega enginn jafni John F. Kennedys í sjónmáli, röskur og reffilegur að sjá. Hvað veldur þessari amerísku ellismella-pólitík ?
Er bandaríska kerfið nú orðið eins staðnað og frosið, eins og það sovéska var áður ? Er nú svo komið að aðeins fólk á áttræðisaldri nær þar á toppinn ? Er Hvíta húsið að verða einhverskonar Dvalarheimili aldraðra pólitíkusa ?
Ég bara spyr ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook
18.4.2020 | 10:39
Innrásir og yfirtökur með fjármálavaldi !
Nú á tímum hafa menn miklu meiri innsýn í fjármálalegt vald og áhrif þess en áður var. Framþróun tölvutækninnar og sú alþjóðavæðing fjármálakerfa sem henni hefur fylgt, hefur breytt svo mörgu að peningavald nútímans þykir nánast takmarkalaust !
Möguleikarnir virðast þar óteljandi til áhrifa og inngripa. Og það væri synd að segja að þeir sem síst skyldu, væru ekki meðvitaðir um það, og það vald sem í því getur falist. Fjármálaleg yfirdrottnun getur skapað sterkara inngrip í mál en nokkurt stríð !
En þar með er ekki sagt, að þetta yfirmagnaða fjármálavald leysi betur úr hlutum eða geri heiminn betri. Staðan er eiginlega bara þannig, að þeir sem áður vildu bjarga málum sér í hag með stríði, geta það núna og gera það miskunnarlaust um allan heim - með efnahagslegum yfirgangi !
Þeim þykir það miklu þægilegra, enda geta þeir þá öllu frekar falið ofbeldið sem þó er síst minna. Fyrir vikið verður miklu minna um andspyrnu og mótmæli en ella - því fólk veit ekki hvað er á seyði !
Margt gerist þannig að tjaldabaki, sem almenningur einstakra landa og almennings-vitundin í heiminum hefur ekki hugmynd um og fær ekkert að vita af. Það er ekki að ástæðulausu að fjármálaheimurinn hefur stöðugt stundað það að brjóta niður öll höft varðandi peningaflæði milli landa !
Til þess að mútur geti gengið á alheimsvísu, verður að vera hægt að senda summurnar út og suður og þar mega engin landamæri hindra eins og í gamla daga. Frjálst flæði fjármagns er því ein helsta auðvaldskrafan á okkar tímum. Klyfjaði úlfaldinn er alltaf á ferð hlaðinn gulli !
Fjármagn þýðir nefnilega vald og þegar hægt er að flytja vald með ótakmörkuðu peningaflæði milli landa, er hætt við að sjálfstæði þjóða hér og þar fari fyrir lítið ef enginn er á verði !
Og þannig er það í nútímanum. Mörg stjórnarbyltingin hefur verið framkvæmd með þessum hætti á undanförnum árum. Einhver hugarfarslegur afkomandi Basils Zaharoffs segir víða í margfölduðum mætti : ,, Ég legg inn á þig og þú sérð svo um framgang mála !
Það þarf enga hernaðarlega innrás, enga tilfærslu tugþúsunda hermanna á breiðri víglínu. Það er bara viðhöfð peningatilfærsla sem virkjar tiltekna fimmtu herdeild á þeim stað þar sem þarf að breyta aðstæðum og skipta um valdhafa. Menn láta kaupa sig til illra verka ár og síð !
Nú þarf ekki einu sinni að hafa til vara áætlanir um hugsanlega notkun nifteindasprengja eins og svartliðar hugleiddu í eina tíð, ef allt færi á versta veg og fólkið yrði alfarið á móti þeim !
Með slíkum vopnum er hægt að koma í veg fyrir allt sálarsvekkjandi eignatjón, eins og þeir hugsa dæmið, og losa sig samt um leið við allt vandræðafólk. Nifteindasprengja er nefnilega hönnuð með þeirri kapítalísku hagkvæmni, að hún rústar ekki húsum, hún drepur bara fólk !
Og það er auðvitað ekki litið á það, af sumra hálfu, sem neitt sérstakt vandamál, heldur miklu frekar sem hluta af lausn einhverskonar hagræðingu. Andlegir afkomendur Zaharoffs eru nefnilega alltaf bölvaldar hvar sem þeir eru á ferð og aðeins sjálfum sér líkir svartir í gegn !
Og eins og einn stórkapítalisti á ónefndum litlum stað sagði eitt sinn af mikilli sannfæringu, er hann þótti ekki sérlega manneskjulega sinnaður gagnvart starfsfólki sínu : ,,Það er alltaf hægt að fá nýtt fólk !
15.4.2020 | 08:49
Reykjavík fyrir rúmri öld !
Mannsævin er í sjálfu sér stutt, jafnvel þegar best lætur. Fólk er kannski rétt farið að læra sæmilega á lífið þegar að kveðjustund kemur, en svigrúminu verður ekki svo auðveldlega breytt. Tilverutímanum virðist vera markaður bás með þeim hætti sem við þekkjum og við það verður að una þó súrt þyki !
Af þessu leiðir auðvitað, að menn hafa ekki sérlega mikla eigin yfirsýn varðandi það sem gerst hefur. Þekking því viðkomandi fæst bara í gegnum þær upplýsingar frá öðrum sem skráðar hafa verið. Hin lifandi upplifun varðandi þá hluti fer með fólkinu þegar það deyr. Það glatast því stöðugt mikil upplifun með hverri kynslóð sem kveður og raunar hverri manneskju sem deyr. Það er eitt af því dapurlega við lífið !
Fyrir rúmri öld var stórborgin okkar Reykjavík ósköp lítið og hrátt bæjarsamfélag. Þar baslaði fólk við að tóra og sumir höfðu það ekki af. Fólk dó þá iðulega úr fátækt og skorti og það þótti svo sem ekki neitt tiltökumál. Aðstæður til lífs og afkomu voru nefnilega oft býsna takmarkaðar. Á þessum tímum var til dæmis notuð talsvert eftirfarandi orðasamsetning um hinar lítt ákjósanlegu lífsaðstæður í sjálfum höfuðstaðnum - ,,grútarbræðslusalernahreinsunarfyrirkomulagið !
Svo var mál með vexti að ýmsum ,,betri borgurum þótti ólyktin frá grútarbræðslunni í Örfirisey alls ekki sæmandi höfuðstað landsins. En Geir gamli Zöega, sem rak grútarbræðsluna, af alþekktum dugnaði og fyrirhyggju, skellti skollaeyrum við allri ádeilu varðandi lyktina, því hann vissi sem var að þarna var bara um peningalykt að ræða. Og Geir hafði vissulega sitt vægi í atvinnulífi bæjarins og gat í mörgu farið sínu fram !
En þar fyrir utan var svo annað vandamál og það var varðandi hreinsun hinna fjölmörgu útikamra, sem var alveg sérstakt skítamál í bænum. Sóðaskapurinn frá kömrunum var nefnilega mikill og ærin þörf úrbóta !
Bæjarstjórnin tók því þau mál í sínar hendur. Réði hún menn þar til hreinsunarstarfa í ákvæðisvinnu, en margir tóku því illa í fyrstu og þóttust eiga sinn skít sjálfir. En samt vann hreinlætisþörfin hægt og bítandi á !
Þetta hreinsunarstarf var yfirleitt framkvæmt á nóttunni. Það voru notaðar hestakerrur við verkið, kassinn var hár og hólfaður í tvennt og lok yfir. Fína fólkið talaði um súkkulaðivagna en almenningur um drulludrossíur. Margt gerðist spaugilegt í sambandi við þessi hreinsunarmál, því gárungar voru auðvitað til þá eins og nú. Má tilfæra hér eina frásögn um það :
Einu sinni þurfti frú ein að kvarta yfir hreinsun, en henni var illa við konu manns þess sem tekið hafði hreinsunina að sér. Hún hringdi og kona mannsins kom í símann. ,,Er þetta drulludrossían ? spurði konan og lagði svo símann á. Hin konan ofsareiddist yfir óforskömmugheitunum og hringdi strax á miðstöð, en þá var ekki búið að slíta sambandinu. Hún spurði : ,,Er þetta miðstöð ? og hin svaraði ,,já. ,, Hvaða númer var að hringja hingað ? spurði sú móðgaða. ,,Það veit ég andskotann ekkert um, svaraði hin sallaróleg og lagði símann á !
Á þessum tíma var Reykjavík sem fyrr segir ósköp hrátt bæjarfélag. Það þekkti grútarlykt og notaðist við heldur ókræsilega útikamra. Lífið í bænum hjá almenningi miðaðist við að hafa í sig og á og stundum náðist það ekki þrátt fyrir þrældóm og basl. Margir áttu verulega bágt. Fátækrafulltrúar voru að störfum á vegum bæjaryfirvalda og var svo langleiðina til 1940, ef ekki lengur ?
Í dag mættu því margir minnast þess í hofmóði sínum og stórborgarstolti, að aðstæður mannlífsins í Reykjavík voru svona og það er ekki svo ýkja langt síðan. Þá var bara að langmestu leyti venjulegt fólk í Reykjavík rétt eins og annars staðar í landinu. Jafnvel svokölluð stórmenni voru ekkert sérlega stór, þegar á allt var litið !
En sumir eru þannig gerðir, að þeir vilja sem minnst af óglæsilegri fortíð vita. Og líklega er það þá slíkum í hag, að vitnin sem upplifðu umræddar Reykjavíkur - aðstæður á þessum tíma, eru að sjálfsögðu öll dauð !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook
31.3.2020 | 10:55
Hvatningarvísur til úthalds !
Í veröldinni er veirustríð
og vandann margt vill auka.
Það verður eflaust enn um hríð,
svo allir verða að þrauka !
Þar fyrirmælum fylgja þarf
og forðast blessað knúsið.
Þó það sé erfitt stöðu starf
að stunda innidúsið.
En margt er nýtt við málin öll
sem mæta okkur núna.
Og vandræði sem virðast fjöll
þau veikja sigurtrúna.
En látum ekki undan þeim
og engu því sem svíkur.
Og byggjum svo upp betri heim
er baráttunni lýkur !
Svo nauðsynlegast það er þjóð
að þola við í stríði.
Og rata þar um rétta slóð
og reyna að hlýða Víði.
Og Þórólf eins og Ölmu við
í öllu skulum virða.
Og allt það fólk sem leggur lið
og léttir þunga byrða.
Að fylgja í öllu úthalds sið
er Íslendinga máti.
Og almennt talað erum við
á einum og sama báti !
28.3.2020 | 10:58
Hvar má finna friðarskjól ?
Heimurinn eins og við þekkjum hann hefur alltaf verið fullur af mannvonsku og þeirri vonsku vonskunnar sem þar er á bak við. Öll Sagan, eins og við þekkjum hana, er hrópandi vitni um það !
En á öllum öldum hafa þó verið til manneskjur sem hafa staðið í gegn þessari viðvarandi vonsku og það hefur einkum orðið til þess að hún hefur aldrei náð að hrósa afgerandi sigri alls staðar !
Alltaf hafa menn samt verið að leita sér að griðastað í einhverjum afkima þessarar veraldar, þar sem þeir gætu fengið að lifa í friði og notið sjálfir ávaxta erfiðis síns. Þannig byggðust til dæmis Bandaríkin upp. Það er kaldhæðnisleg og hláleg staðreynd í ljósi þeirrar framvindu sem varð !
Fólk flýði ófrelsið í gamla heiminum, kúgun og áþján konungsvaldsins, takmarkalausan yfirgang aðalsins, flýði allt það forréttindahyski sem gerði sér mat úr erfiði þess og át afraksturinn. Það var því ekkert lítið sem rak á eftir því, enda öllu til þess kostað að fara þetta !
Menn fóru vestur um haf í leit eftir friði og frelsi. En svo féllu þeir flestir í gildru græðginnar. Þeir byrjuðu á því að svipta indíánaþjóðirnar þar vestra öllu því sem þær áttu, landi, friði og frelsi. Þær þjóðir eru margar hverjar útdauðar í dag og það skrifast að stórum hluta á syndareikning hvíta kynstofnsins !
Það segir sig sjálft, að meðan sú aðferð er viðurkennd til lífs og afkomu, að frelsi eins megi vera ófrelsi annars, mun hringrás ógæfunnar halda áfram í þessum heimi og sjá til þess að hvergi sé neinn öruggur griðastaður til eða friðarskjól fyrir fólk. Það er hinn sjálfskapaði vítahringur þess !
En fólk heldur samt áfram að flýja og leita að öðrum stöðum þar sem því gæti liðið betur. Það er að hluta til skýringin á yfirstandandi þjóðflutningum til Evrópu og yfirtöku nýrra þjóðfélagshópa á samfélögum álfunnar. Þær þjóðir sem hafa byggt Evrópu eru að breytast við þann mikla innflytjendastraum og öll menningar-arfleifð þeirra með !
Gildi hins þjóðlega evrópska arfs rýrnar með hverju árinu sem líður, því hinir aðkomnu meta þann arf ekki mikils, sem varla er von. Þeirra arfsgildi eru allt önnur og ganga í ýmsum meginatriðum þvert gegn aldagömlum menningararfsgildum evrópskra þjóða !
Evrópuþjóðirnar gömlu eru því að komast í hlutverk indíánaþjóðanna í Norður-Ameríku, sem nú eru að miklu leyti horfnar af sjónarsviðinu og menning þeirra og saga týnd og gleymd. Erum við núlifandi Evrópumenn að kalla eftir þeirri framtíð með andvaraleysi á líðandi stund ?
En margt er að varast og við vitum að hið yfirlýsta frelsisríki sem stofnað var vestanhafs með útrýmingu indíánanna og menningar þeirra, hefur á okkar tímum orðið að einu versta ríki jarðarinnar fyrir hernaðar-yfirgang og allskyns dulbúna kúgun á almennu mannfrelsi. Auðvald hinna fáu ræður þar öllu og þar situr fjármálalegt ofbeldi í hásæti mannvonskunnar !
Til hvers voru menn að flýja vestur, fyrst þeir fóru strax að skapa undirstöður kúgunar og yfirgangs þar með tilkomu nýrrar yfirstéttar ?
Sem Rómverjar okkar tíma hafa Bandaríkjamenn stundað það öllum þjóðum fremur að deila og drottna. Þeir lærðu fyrstu lexíurnar í því af Bretum. En spurningin er, hvað hefur áunnist í raun með því framferði til blessunar fyrir þá sjálfa ? Lifa Bandaríkjamenn, almennt talað, í einhverju friðarskjóli nú til dags. Geta menn séð þá sviðsmynd í lífi þeirra í dag ?
Hafa þeir byggt upp eitthvað sem telja má að hafi raunverulega svarað þeim væntingum sem menn höfðu í hjörtum sínum þegar þeir lögðu af stað vestur um haf í óvissuna - frá öllum viðbjóðnum í Evrópu fyrir um 400 árum ?
Hvernig hefur þeim tekist til við uppbyggingu þess farsældaríkis sem hugmyndin var að skapa ? Ég held að allir hljóti að sjá að Bandaríkin hafi ekki þróast upp í að verða neinn griðastaður eða friðarskjól !
Það er hættulegt að lifa í stórborgunum vestanhafs og núorðið hættulegra en víðasthvar í Evrópu. Nýi skítastaðurinn hefur yfirgengið þann gamla. Það má jafnvel spyrja sig, hvort óhætt sé að ganga yfir götu í Bandaríkjunum, án þess að vera skotinn, keyrður niður eða rændur ?
Eitt er víst að ekki getur það ofbeldisfulla ríki sem Bandaríkin eru í dag, verið það sem hinir púritönsku landnemar á Mayflower stefndu að á sínum tíma. Þar var um að ræða draum sem fyrir löngu hefur snúist upp í miskunnarlausa martröð !
Friðarskjólið sem menn ætluðu að koma sér upp í Nýja heiminum varð aldrei að veruleika. Það hefur hinsvegar fyrir löngu breyst í blóðugt helvíti ofbeldis og glæpa !
En hvernig geta menn fundið friðarskjól í þessum heimi ? Svarið við því er enn það sama og hefur hljómað síðustu tvö þúsund árin. Það hefur aldrei glatað gildi sínu og mun aldrei gera það. Það er hið mikla boð Krists um breytingu háttalagsins : ,,Yður ber að endurfæðast !
Meðan sú rödd er hundsuð, verður aldrei um neitt friðarskjól að ræða í þessum heimi !
24.3.2020 | 12:53
,,Allt er í heiminum hverfult !
Staða mála í heiminum í dag er nokkuð sérstök, og í henni felst ýmislegt sem segir okkur að við þurfum að endurmeta líf okkar og skilgreiningar okkar á þeim gæðum sem við höfum lengi notið og talið sjálfsögð !
Nú hljótum við að vera farin að sjá, að það er margt sem enganveginn er sjálfsagt í þeim efnum og þá getum við leitt huga okkar að því að minnast þess, að víða um heim er fólk sem þarf að berjast hart fyrir mörgu af því sem við höfum talið sjálfsagt !
Fólk á Vesturlöndum hefur lengi notið velsældarmeira lífs í efnalegum skilningi en aðrir hér á jörð, en hefur það orðið að betri manneskjum fyrir vikið ? Mér hefur löngum sýnst, að þar sem sérgæskan fær að vaða uppi, þar fari náungakærleikurinn yfirleitt lóðrétt niður á við. Allt verður þannig virt til verðs, manngildi lítils metið en auðgildi þeim mun meira !
Veskið er látið segja til um persónulega stöðu hvers og eins og framkoma fólks við hvert annað hefur að miklu leyti ráðist af því. Þannig hefur það lengi verið og spillt samskiptum sem ella gætu verið betri. En fólk hefur vanist stöðugt meira á að sleikja upp fyrir sig og sparka niður fyrir sig !
En nú þarf heimurinn að glíma við þessa Covid-19 veiru. Og það merkilega er, að hún fer sýnilega ekkert eftir þeim lögmálum sem virðast ráða öllu í okkar kapitalíska umhverfi. Hinir auðugu eru í jafnmikilli hættu og aðrir, þeir sýkjast ekki síður og jafnvel öllu fremur !
Sú staðreynd gengur eiginlega þvert gegn öllu í venjulegum kapitalískum hugsunarhætti, sem gengur út frá því að veskið eigi alltaf að geta bjargað. En svo kemur í ljós að hinir ríku geta ekki keypt sig frá hættunni !
Þvílíkt virðingarleysi er þetta af Covid-19 að taka ekkert tillit til þess hvað vægi manna er misjafnt í þessum heimi. Sumir myndu nú líklega meira en fúsir til að líta á þetta veirustand sem einhverja bölvaða kommaplágu !
En af hverju segi ég að þeir ríku séu jafnvel í meiri hættu ? Jú, þeir ferðast meira, hafa efni á því. Þeir leika sér meðal annars á skíðum í öðrum löndum og eiga jafnvel önnur heimili í útlöndum. En þegar kreppir að þeim erlendis, flýja þeir ,,heim í gamla öryggið og taka veiruna með sér !
Covid-19 er mannkyns-hættulegt fyrirbæri og það er enganveginn víst að hún renni bara yfir sem tiltölulega tímabundinn faraldur ? Hún getur herjað á mannkynið mánuðum saman, hún getur stökkbreyst og komið fram í öðrum og enn hættulegri myndum en þeirri sem við blasir í dag. Hún getur orðið viðloðandi vandamál í heiminum á næstu árum og heimsótt okkur aftur og aftur. Við vitum ekkert um það hvar við höfum hana ?
Við stöndum þannig frammi fyrir þeim veruleika, að þrátt fyrir öll okkar hálofuðu vísindi og margrómað tæknistig, virðumst við ekki sérlega burðug í glímunni við þetta illskeytta fyrirbæri eða eiga þar margra kosta völ. Og hvaðan skyldi svo þessi veira vera komin ?
Er hún kannski eitthvað sem á ættir að rekja til tilrauna sem gerðar hafa verið í veirufræði í einhverjum þeim stofnunum þar sem vísindamenn leika sér ábyrgðarlaust dags daglega með fjöregg mannkynsins ?
Við vitum svo fátt í raun og veru - og hvernig á annað að vera í heimi þar sem flest fólk ver ¾ hlutum af ævitíma sínum alfarið í það verkefni að eignast peninga. Og telur gildi sitt felast að öllu leyti í eignum og auratali, lyftir sérgæskunni í hæðir og sendir náungakærleikann norður og niður !
Í slíkum heimi þykir auðvitað ekkert gott á seyði, þegar eitthvað óþekkt fyrirbæri tekur hann allan í gíslingu, herkví eða sóttkví, og virðir hvorki kóng né prest. Skapar hættu fyrir alla, jafnvel þá sem telja auðgildi sitt svo mikið, að þeir eigi samkvæmt kapitalískum stöðlum að vera ósnertanlegir !
Covid-19 veiran virðist hinsvegar sjálfstæðari en nokkur ,,self made man. Hún er sjáanlega algerlega óháð mannfélagslegum viðmiðum, virðir greinilega ekki efnalega stöðu manna, og fer sínu fram hvað sem hver segir. What a terrible devil !
Við getum sjálfsagt lengi velt þessu öllu fyrir okkur, en kjarni málsins er - hvað ætlum við að gera í málinu ? Þegar og ef þetta gengur yfir, hvað þá ? Ætlum við að læra eitthvað af þessu ? Sjáum við ástæðu til að breyta einhverju frá fyrri háttum og hugleiða eitthvað hvort við höfum komið rétt fram við aðra og hegðað okkur vel sem manneskjur ?
Má líta á þessa veirusýkingu sem einhverja viðvörun um að ávanabundnir lífshættir okkar séu okkur ekki sérlega heilsusamlegir ? Eða ætlum við bara að hjakka áfram í sama farinu og hugsa eins og Lúðvík XV, ,, Syndafallið kemur eftir minn dag !
Já, ætli það verði ekki raunin ! Það er líklega enginn fús til að fara í hreingerningu sem krefst þess að einhverjum þægilegheitum verði fórnað í nafni ábyrgðar sem eiginlega er hvergi til !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook
20.3.2020 | 23:29
Þegar tíðarandinn brýtur niður - !
Sagt er á hátíðastundum, að öll störf séu jafn nauðsynleg í samfélaginu, en flestir vita að það er langt frá því að þau séu virt og metin með þeim hætti. Verkfall Eflingar hefur til dæmis sýnt hvað vantar mikið upp á það, og ekki hefur því fólki verið umbunað sérlega vel sem passar börnin okkar á leikskólum og annars staðar. Já, börnin okkar, það dýrmætasta sem við eigum !
Eitt merkasta og virðingarverðasta starf sem unnið hefur verið í mannlegu samfélagi er starf húsmæðra fyrr og síðar, starf mæðra inn á heimilunum. Þar vantaði ekki fórnfýsina, þjónustulundina og ábyrgðarkenndina. En hvernig var það launað ? Það vantaði oftast mikið upp á skilning annarra á gildi þess starfs. Og hvernig fór að lokum ?
Þessu grundvallarstarfi samfélagsins var sýnd slík óvirðing að með eindæmum var. Í framhaldinu voru konur svo flæmdar út á vinnumarkaðinn, vegna þess að heimastarfið þeirra var svo lítils metið. Sumir sögðu jafnvel, að það væri ekki hægt að láta þær bara hanga heima. Heyr á endemi - hanga heima !
En það kom fljótt í ljós sem oftar, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ótalmargar samfélagslegar meinsemdir fóru fljótt að vaða uppi þegar konunum leyfðist ekki lengur að sinna áður þekktri varðstöðu sinni um heimilin og börnin. Afleiðingarnar urðu hrikalegar !
Þannig fór samfélagið til dæmis að koma sér upp því sem kallaðist ,,lyklabörn, börn sem enginn gat hugsað um, því nú voru báðir foreldrarnir úti að vinna, vinna fyrir meiri tekjum, vinna fyrir peningum og dugði þó vinna beggja varla til í vaxandi dýrtíð og neysluhyggju !
Skyldi einhver leið vera til að meta skaðann sem samfélagið varð fyrir, þegar konurnar voru hraktar út af heimilum sínum og sagt að fara að vinna ? Og tónninn var eins og þær hefðu bara legið í leti heima. En enginn í samfélaginu var að vinna þjóðnýtari og þarfari störf en þær !
Heimilisstörfin og uppeldishlutverkið var jafnvel óvirt af forustuliði réttindabaráttu kvenna og jafnað við kúgun og þrælahald. En nú eru margir farnir að skilja að ein skýringin á misfarnaði mannlífs á seinni árum og ekki sú minnsta, er beintengd við þá staðreynd að geysilega mikilvæg varðstaða hafði verið yfirgefin og þær manneskjur sem höfðu svo lengi staðið hana, verið neyddar til að víkja þar af verði fyrir tilverknað skilningslauss tíðaranda sem blindur var á báðum augum !
Það getur enginn til lengdar búið við þá stöðu að framlag hans sé einskis metið. Það getur enginn lagt sig allan fram endalaust án þess að njóta nokkurrar viðurkenningar. Samt gerðu konur það ótrúlega lengi !
En að lokum varð óvirðingin og neikvæðnin þeim um megn. Það þarf enginn að vera hissa á því. Það er hægt að brjóta allt sem er gott og gilt og göfugt niður með þeim hætti sem þar var gert. Og við höfum líka fengið að gjalda þess allar götur síðan, - með ómanneskjulegra samfélagi !
Ég ætla að setja hér í lokin merkilegan texta sem barst mér í hendur fyrir nokkrum árum og margir þekkja sjálfsagt. Hann er sígildur að efni og hugsun og hverjum manni þörf og gagnleg lesning. Hverjum manni sem ekki hefur þeim mun meira ský fyrir skilningarvitum sínum !
BARA HÚSMÓÐIR
Það gerðist bara.........
Börnin vöktust og klæddust.
Grauturinn eldaðist og átst.
Það bjóst um rúmin og sópaðist.
Þvotturinn þvoðist og hengdist upp.
Það gerðist við og stoppaðist í.
Það saumaðist og prjónaðist.
Tertan bakaðist og borðaðist.
Það vaskaðist upp og gekkst frá.
Börnin hugguðust og hjúfruðust.
Það breiddist yfir þau og þau kysstust góða nótt.
Þegar þau voru spurð:
Hvað gerir mamma þín ?
Urðu þau undirleit og svöruðu lágt:
Ekkert, hún er bara heima !
N.N.
17.3.2020 | 11:57
Þankar um yfirstandandi heimshremmingar !
Það fár sem nú er að ganga yfir heimsbyggðina sýnir glöggt hversu viðkvæmt allt okkar alheimskerfi er. Það sprettur einhver fjandi upp á einum stað og eftir nokkrar vikur er hann kominn um allt. Enda hvernig á annað að vera ? Flugið gerir ferðalög skjót og greið og fjarlægðir eru ekki lengur sú hindrun eða vörn sem áður var. Það er fátt svo að það fylgi því ekki bæði gott og slæmt !
Nú er það meira en mikilvægt, að menn viti sem fyrst af hverju veira eins og Covid -19 kemur upp, hverjar eru orsakirnar ? Getum við búist við öðrum hliðstæðum árásum á heilsufar mannkynsins á næstu árum ? Er þessi veira eitthvað sem við sjálf höfum komið af stað og framleiðum jafnvel í gegnum eitthvað sem við gerum rangt ? Getum við búist við ýmsum stökkbreyttum útgáfum af þessum fjanda í komandi tíð ? Í stuttu máli sagt, af hverju gerist þetta ?
Við erum nú líklega mitt í heilsufarslegum afleiðingum þessarar sóttkveikju, en allar líkur benda til þess að í framhaldinu verði um að ræða mjög erfiðar efnahagslegar afleiðingar af þessu fári víða um heim. Þær munu trúlega geta valdið kreppu í mörgum þjóðlöndum, sem mega ekki við miklu, og þannig haft slæm áhrif á afkomu milljóna manna !
En umfram allt vekur þetta ástand miklar spurningar um almennt öryggi, þegar sú staða er uppi, að einn sýkist af öðrum og hættan felst meðal annars í of miklu og nánu samneyti við annað fólk ? Það er vafalaust fyrir flesta óþægileg upplifun að þurfa að neyðast til að breyta háttum sínum og atferli varðandi almenna umgengni við aðra !
Flestu fólki er það svo eðlilegt að tjá væntumþykju sína og hlýju við hvert annað, að það er erfitt að koma sér upp einhverri fjarlægðarvörn í þeim efnum. En lífshættulegur veirufaraldur eins og Covid-19 gerir það í meira lagi varasamt að viðhalda fyrri háttum. Staðreyndirnar tala sínu máli varðandi það. Svo stöðumatið er : Haldið ykkur í hæfilegri fjarlægð frá hvert öðru. Engin handabönd, ekkert knús, engir kossar !
Úff ! Það er óskemmtilegt fyrir flesta að þurfa að una slíkum kærleiks-takmörkum, en þannig verður það víst að vera meðan þetta hættuástand varir, vegna sameiginlegrar velferðar okkar allra !
Samfélagskennd okkar Íslendinga hefur nú oft þótt býsna einkennileg og margir segja hana felast allt of mikið í því að fá eitthvað hjá öðrum en láta lítið af hendi á móti. Ef það er rétt mat er meiri vandi fyrir dyrum en ella. Það felst nefnilega mikil áskorun í því að takast á við Covid -19 veiruna !
Okkur er fyrirlagt af forsvarsmönnum ríkisvalds og heilbrigðismála, að standa þetta veraldarfár af okkur sameiginlega og með trúverðuga ábyrgðarkennd allra landsmanna að kjölfestu. Það er sem sagt kallað eftir þjóðlegri samstöðu varðandi þetta mál. Það þýðir að samfélagskennd okkar Íslendinga mun verða að taka sitt próf í gegnum þetta ferli !
,,Vandi fylgir vegsemd hverri, segir máltækið og höfum við ekki jafnan litið svo á, að það væri þjóðleg vegsemd að vera Íslendingur ? Þurfum við þá ekki að sýna í verki, enn og aftur þegar á herðir, að við getum virkilega staðið saman ? Að við eigum áfram fulla samleið í gegnum súrt og sætt ?
Vonandi mun fyrrnefnt próf ábyrgðar og samfélagskenndar færa okkur og öðrum viðhlítandi sönnur fyrir því að við séum fær um að halda velli á sæmilega heilbrigðum grundvelli á vettvangi lífsins !
Nýjustu færslur
- Er leiðandi fólk að þjóna þjóð sinni heilshugar ?
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.9.): 3
- Sl. sólarhring: 227
- Sl. viku: 1005
- Frá upphafi: 397813
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 874
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)