23.1.2023 | 17:33
Prímadonnu-glóruleysi !
Ljóst er það orðið mörgum, að allir sitjandi þingmenn Vinstri grænna hafa fallið á því sem kalla mætti manndómspróf þingmennskunnar, nema sumir virðast telja að Svandís Svavarsdóttir eigi þar að vera undanskilin !
Ef svo er, þá er erfitt að skilja hvað hún er að hugsa, þegar hún lætur svikræðisfulla hægri stefnu flokksins yfir sig ganga öfugt við allt það sem maður skyldi ætla að hún vildi gera. En það hafa margir verið herleiddir í pólitík !
En ábyrgðina á þeirri hægri stefnu hlýtur Katrín Jakobsdóttir að bera, enda kemur hún alltaf fram í nýju persónugervi af hverri Natóráðstefnunni af annarri og færist við það alltaf meira og meira til hægri. Katrín er löngu orðin að gangandi eyðileggingarafli í flokki Vinstri grænna og dregur þar aðra með sér í vitleysunni !
Það er sagt að Kristrún Frostadóttir hafi rekið á fjörur Samfylkingarinnar úr hafátt frá Sjálf-stæðisflokknum. Það má vel vera að svo hafi verið, enda hefur krötum verið skenkt margt úr þeirri átt. En Katrín Jakobsdóttir er að margra mati rekin af hafi á fjörur íhaldsins eins og hver önnur pólitísk prímadonnufjöl sem virðist þar að auki vera gegnfúin frá vinstri til hægri !
Það er vont þegar fólk lifir sjálft sig í stjórnmálum og flytur sig frá einhverri gildistölu niður í blábert núll. Slíkir einstaklingar gera hvorki sjálfum sér né þjóð sinni neinn greiða með því að vera á þingi. Og prímadonnu-glóruleysi er alls ekki gott veganesti inn í þann veruleika að vinna af heilindum fyrir land og þjóð !
En það verða svo margir glórulausir sem fá að vera á toppnum og njóta þess að dansa þar. Jafnvel þó þeir hinir sömu séu í þeirri aðstöðu að vera þar fyrir atbeina annarlegra afla, virðist það ekki skipta neinu máli. Þannig virkar glóruleysi alltaf og ekki síst í pólitík. Og verst er auðvitað þegar það virðist svo bráðsmitandi að það nær því jafnvel að hugarfars-sýkja heilan flokk !
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands hefur tilkynnt afsögn sína. Hún hefur verið við völd í svipaðan tíma og Katrín Jakobsdóttir. Hún ber því við að hún hafi ekki nóg á orkutanknum til að halda áfram og telur því ærlegast að segja af sér. Ég veit ekki hvað Katrín Jakobsdóttir hefur á sambærilegum tanki og efast reyndar stórlega um að þar hafi einhver lögg verið fyrir eða styrkur til góðra verka !
Það hefur að mínu mati aldrei reynt á manneskjuna sem leiðtoga. Hún flögrar bara eða dansar með því sem gert er og litla hjörðin hennar eltir. Ég hef því enga von um að hún fari að dæmi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og segi af sér. Til þess er hún einfaldlega allt of mikil prímadonna !
Íslensk pólitík þarf að mínu mati hvergi á prettagosum, prímadonnum eða pírötum að halda, það eru allt aðfengnar fígúrur sem ættu ekki að vera til í íslenskum raunheimi. Við þurfum á fólki að halda sem þjónar þjóð sinni vel og liggur ekki hundflatt fyrir hverskonar hégóma og vitleysu !
Framboð á slíku fólki til nauðsynjaverka á þingi virðist hinsvegar um nokkurt skeið hafa verið afar lítið. Enda er að mínu mati ekki neinn maður á þingi í dag sem kallast getur skörungur eða átt réttmæta kröfu til stuðnings af hálfu kjósenda á gildisbærum þjóðhags-legum forsendum !
Íslenska þjóðin býr, að minni hyggju, við algert forustuleysi þar sem meðalmennska í lakari kantinum virðist alfarið ráða. Og þó ýmsar lærdómsgráður kunni að vera til staðar dugar það til lítils, því þær eru þá að öllum líkindum að mestu umbúðir án innihalds. !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.1.2023 kl. 17:30 | Slóð | Facebook
17.1.2023 | 11:36
Íslenskt Nató-tillag til Úkraínu !
Það kostar að vera í hernaðarbandalagi og hvað skyldi íslenska stórvelferðarríkið þola að láta mikið fjármagn af hendi til stríðsmála Nató ? Það er nefnilega alveg sjáanlegt að innviðir okkar eru ekki sérlega sterkir og smáríki úti í Norður Atlantshafi getur ekki staðið í stórmennskubrjálæði stórveldapólitíkur öllu lengur án þess að laskast illa efnahagslega í framhaldinu !
Heilbrigðiskerfið virðist komið að algjörum þolmörkum, vegakerfið þarf mikillar endurnýjunar við og er illa farið eftir þungaflutninga sem það ekki þolir, svo er það stórlega vanfjármagnað, félagsmálaþættir velferðar-kerfisins eru víða og jafnvel víðasthvar í fjársvelti og illu ástandi, fátækt er vaxandi meðal þjóðarinnar og það virðist ýtt á allan hátt undir bullandi kapítalisma af núverandi ríkisstjórnar valdhöfum sem eru, að minni hyggju, síst að hugsa um almannahag !
Manni virðist til dæmis núverandi seðlabankastjóri vera prívat og persónulega sjálfstætt starfandi fjármálavald sem blandar sér óskammfeilið í hluti sem eru ekki hans mál. Líklega gæti hann alveg hugsað sér að vera forseti ASÍ í hjáverkum ? Kerfislegt stjórnleysi er greinilega vaxandi vandamál og hlutfall óhæfra stjórnenda í ríkiskerfinu sem og á sveitarstjórnarsviðinu virðist aukast jafnt og þétt. Það stefnir því víða í hreint óefni með fyrri velferðarstöðu þjóðar okkar og samfélags !
Alveg öfugt við góða stjórnarhætti látum við eigin borgara í auknum mæli eina um sín vandamál, en ausum fé í innflytjendur og ekki síst í þolendur ófriðarmála erlendis, líklega eftir baktjalda-forskrift Nató. Við sköðum okkur stórlega viðskiptalega fyrir utanríkis-stefnu sem sýnilega er fyrirskipuð að utan, meðan bestu grannar okkar Færeyingar fylgja eigin dómgreind í málum og hlynna að sínu samfélagi eins og samviska þeirra býður þeim að gera. Við gætum margt lært af litlu þjóðinni með stóra hjartað !
Við höfum tekið á móti tvö þúsund flóttamönnum frá Úkraínu með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir og höfum ennfremur hent í þarlend stjórnvöld hálfum milljarði króna meðan allir innviðir samfélagsins æpa á viðhald og útigangsfólk í Reykjavík verður að norpa í fimbulkulda við allsleysi og éta það sem úti frýs !
Það er auðséð að samviska ráðamanna hérlendis er ekki á marga fiska varðandi aðbúnað þeirra þjóðarsystkina okkar sem hér er nauðsyn og þörf að hjálpa og eiga virkilega bágt, enda virðist hún öll á samúðarhlaupum úti í Úkraínu, ef hún er þá yfirleitt til sem slík. Það á sennilega eftir að drepa alla okkar velferð að vera í Nató sem ábyrgðaraðilar að tilkostnaði mála !
Minnimáttarkenndin inngróna hefur löngum snúist upp í algjört stórmennskubrjálæði á Íslandi og vanhæf stjórnvöld bæta auðvitað ekki neitt og gera þess í stað flest verra. Við erum á hraðri siglingu að skeri falls og feigðar og virðumst blinduð af innistæðulausu oflæti. Þjóðarstolt birtist eiginlega hvergi nema í boltanum !
Skyldum við einhverntíma ná því að verða raunverulega sjálfstæð þjóð með sjálfstæðum íslenskum anda, þjóð sem hugsar um eigin velferð af ábyrgð og festu, þjóð sem lætur ekki útlend ófriðaröfl ráðskast með sig og gengur veginn til góðs ?
Sjálfstæð reisn virðist ekki til hjá íslenskum ráðamönnum. Ég fæ ekki betur séð en við sökkvum okkur sífellt dýpra í andstæðu alls þess sem við ættum að fylgja !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook
13.1.2023 | 13:37
Fyrra og seinna helvítið !
Svo stutt var í tíma milli fyrri og seinni heimsstyrjaldar, að þeir sem urðu hershöfðingjar í fyrra stríðinu voru enn í valdastöðum þegar seinna stríðið braust út. Enda var seinni styrjöldin skilgetið pólitískt afkvæmi þeirrar fyrri eins og margir vita og til vitnis um afglapahátt leiðandi manna !
En þótt stutt væri þar á milli í tíma, höfðu framfarir í tækni og vopnabúnaði verið miklar, ekki síst í vélahernaði og flughernaði. Það gerði það meðal annars að verkum að hershöfðingjarnir úr fyrra stríðinu voru orðnir úreltir í seinna stríðinu eins og megnið af vopnabúnaði þeim sem þeir höfðu kunnað skil á og þeir voru einfaldlega ekki með á nótunum !
Menn voru háttsettir hershöfðingjar, það vantaði ekki, en þeir voru miðað við herfræðilega hugsun þeirra og þekkingu orðnir safngripir. Þeir höfðu ekki lengur eðlilega hæfni til að taka á málum. Það var ekkert eftir nema hrokinn !
Frakkar voru með liðónýta æðstu menn yfir her sínum, Weygand, Gamelin, Pétain, Georges o.fl. Uppgjafarsinna og aumingja, gamalmenni og menn sem sátu á svikráðum við eigið land. Ekki síst þessvegna varð Frakkland að þola sitt hrikalega hrun og þá skömm sem því fylgdi !
Bretar voru kannski eilítið skár staddir í þessum efnum en Frakkar, enda á þeim tíma kunnir að seiglu og þolgæði. En æðstu yfirmenn landvarna þeirra voru samt líka of gamlir og flestir blindir á nýja hertækni. Svo stóð aðalsdekrið þeim alltaf fyrir þrifum. Flotinn var sem fyrr þeirra höfuðvörn, en landher þeirra aldrei öflugur að sama skapi !
Sovétmenn glímdu að nokkru við svipaðan vanda. Æðstu hershöfðingjar þeirra voru byltingarforingjar sem höfðu sumir hafist til forustu sem riddaraliðsmenn. Þannig var það til dæmis með Voroshilov og Budenny o.fl. Sá tími er menn börðust á hestbaki var hinsvegar að mestu frá. Það var því ekki að furða að Sovétherjunum gengi illa í upphafi stríðsins. Timoshenko var kannski eini hershöfðinginn af eldri gerðinni sem hafði eitthvert skyn á vélahernaði en hann var hinsvegar enginn afburða herstjórnarmaður og kom það fljótt í ljós !
Sigrar Hitlers Þýskalands í upphafi urðu flestir vegna þess að vélaherdeildir þeirra voru fyrsta flokks og flugher þeirra mjög öflugur. Svonefndur Foringi var opinn fyrir notkun allra nýrra vopna sem gætu greitt honum veg til landvinningastríðs og aukinna valda. Ungir kraftmiklir hershöfðingjar af nýrri kynslóð fengu strax tækifæri til að sanna sig ekki síst í meðferð skriðdreka. Menn eins og Guderian, Hoth, Rommel, Kleist o.fl. Siðfræði var hinsvegar aldrei kennd í neinu sem nazistar komu nálægt og sumar þjóðir voru ekki taldar til manna !
Reyndin er jafnan sú að menn herðast í stríði og það gerðu fleiri en Þjóðverjar. Nýir menn lærðu líka á hlutina í Rússlandi. Giorgi Zukhov kom fram á sviðið fyrir Sovétmenn, hertur eftir Khalkin Gol reynsluna, og þar að auki menn eins og Konstantin Rokossovsky, Alexander Vasilevsky, Ivan Konev, Andrei Yeremenko, Vassily Chuikov, Nikolai Vatutin, Nikolai Voronov, Rodion Malinovsky, Kiril Moskalenko, Vassily Sokolovsky og Feodor Tolbukhin svo nokkrir séu nefndir. Þar var sannarlega ekki Zukhov einn á ferð !
Nazistar héldu frumkvæðinu í styrjöld þeirri sem þeir hófu gegn Sovétríkjunum í litlu meira en hálft ár. Eftir að þeir urðu að hörfa frá Moskvu, var frumkvæðið orðið vafasamt af þeirra hálfu og gekk á ýmsu milli aðila. Orustan um Stalingrad hófst svo undir haust 1942 og eftir að Sovétmenn framkvæmdu Úranus áætlunina 19. nóvember það ár og umkringdu allan 6. herinn, var frumkvæðið ekki lengur í höndum nazista. Paulus sem var nýskipaður marskálkur varð að gefast upp með það sem eftir lifði af liðinu í herkvínni í febrúarbyrjun 1943 !
Þýski Hitlersherinn gerði svo lokatilraun sína til að endurheimta frumkvæðið í stríðinu með skriðdreka-orustunni miklu við Kursk í júlí og ágúst 1943, en Sovétmenn sigruðu þar líka. Sennilega hafa þar ást við um 10.000 skriðdrekar. Það hefur eitthvað gengið á í öllum þeim fallbyssugný. Eftir orustuna var nazistaherinn síðan eltur alla leið að útungunarstöð sinni og illskuhreiðri í Berlín og endanlega brotinn þar á bak aftur, öllum heimi til heilla !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook
10.1.2023 | 11:23
,,Í ljósengils líki !
Íslenskir fjölmiðlar virðast ekki sérlega hliðhollir verkalýðs-hreyfingunni eða þá einstökum verkalýðsforingjum, síst af öllu þeim sem eru róttækir og gjarnari á harða afstöðu fyrir hag síns fólks !
Með hliðsjón af þeirri afstöðu veltir maður því óneitanlega fyrir sér hversu hlutlausir fjölmiðlar hér eru og hver þau öfl eru sem ráða því hvernig rödd þeirra er látin hljóma. Full þörf væri á því að íslensku alþýðusamtökin létu rannsaka það svo menn fengu það á hreint hversvegna fréttaflutningurinn er jafn hlutdrægur og hann er. Og það virðist engu síður vera í fréttaflutningi ríkisfjölmiðlanna. Fjórða valdið virðist í mörgu vera orðið illt og spillt á síðari árum og það er samfélagsleg vanþróun !
Mammonsöfl þjóðfélagsins hafa löngum verið iðin við kolann og ekki þarf að efast um að sundrung sem kemur fram í verkalýðs-hreyfingunni og jafnvel í stjórn ASÍ er innspýting og eitrun frá þeim aðilum sem virðast vilja í raun endurkomu þrælahalds og mismununar og telja sýnilega að launakostnaður eigi ekki að vera til !
Ærið oft hefur þó verið gengið til samninga undir því fagra fyrirheiti að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Oftast hefur þó farið svo að það hefur verið svikið. Ætli þeir launþegar sem lakast eru settir séu ekki flestir innan vébanda Eflingar. Það er því löngu tímabært að semja við þetta fólk á þeim grundvelli að gera betur við það og bæta því upp áratuga svik á fögrum fyrirheitum !
Samtök atvinnulífsins virðast jafnan leggja mikið upp úr því að hafa talsmann sem hefur bjarta ásýnd og talar á þann veg að ábyrgðarkenndin og þjóðarhagsmuna-vitundin virðist skína frá hverju orði. En útlit og orð eru eitt og gjörðir annað !
Í góðri og gamalli bók er sagt frá þeim sem geta haft ljósengils líki en eru engu að síður fulltrúar illra afla. Gott er að hafa það jafnan í huga að aldrei er allt sem sýnist og af ávöxtunum verða menn þekktir. Það eru verkin sem sýna merkin !
Lífskjarasamingar á Íslandi mega aldrei byggjast á því og ganga út frá því - að í gildi sé á bak við tjöldin einhverskonar leyndarsvika-samkomulag beggja aðila vinnumarkaðarins, um að þeir sem lægstu launin hafa skuli aldrei fá að sjá til sólar í afkomumálum sínum. Það mætti nefnilega halda í mörgu að sú sé raunin !
Ég óska félögum Eflingar alls góðs í baráttu þeirra fyrir félagslegu réttlæti við alla þá sem standa í vegi fyrir sanngirni í þeim málum, þó þeir hinir sömu reyni að koma fram í ,,ljósengils líki og hafi jafnvel fjölmiðlana með sér. Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook
7.1.2023 | 17:53
Litið aðeins til rússneskrar sögu !
Hér verður aðeins stiklað á stóru og einkum með hliðsjón af afskiptum svokallaðra Vesturvelda af innanríkismálum Rússlands. Þegar kom fram á 18. öldina fóru Rússar að gera sér æ betri grein fyrir því að þeim stafaði helst ógn af hinu sívirka styrjaldarbrölti í Vestur Evrópu. Þar var aldrei neinn stöðugleiki til og ófriðaröfl á fullu !
Áður hafði stríðsógn gagnvart Rússlandi fyrst og fremst stafað af Mongólum og Tatörum sem komu að austan og síðar af Tyrkjum í suðri, en eftir 7 ára stríðið var nokkuð ljóst að menn þurftu að gæta sín á nýlenduhungruðu Vestrinu sem horfði gráðugum augum í austur !
Karl XII Svíakóngur ætlaði í byrjun 18. aldar að sigra Pétur mikla og Rússa með tiltölulega fámennum herafla, en beið snautlegan ósigur við Pultava 1709 og flýði eftir það yfir til Tyrklands. Hann stóð í styrjöldum allt til dauðadags 1718 og féll í bardaga í Noregi að margra áliti fyrir sænskri kúlu. Hann lék Svíþjóð illa og sænsku þjóðina, en er líklega hennar ástsælasti kóngur sem segir sitt um naflaskoðun Svía á eigin sögu. Rómantísk slæða er þar breidd yfir óhugnaðinn !
Rússar flæktust inn í svonefnt 7 ára stríð og börðust þar bæði með og á móti Friðriki mikla. Sennilega hefur inngrip þeirra undir Pétri III með Friðriki og síðan hlutleysi undir Katrínu II bjargað Friðriki frá falli og þar með Prússlandi. Þó að Sagan tali um Pétur mikla og Friðrik mikla, voru þessir menn í rauninni enganveginn miklir á réttum mælikvarða og báðir voru þeir í mörgu bölvaldar þjóða sinna !
Svo kom Napóleon ! Hann réðist inn í Rússland úr vestri 1812 með sinn Stórher, líklega um 700.000 manns. Hann náði Moskvu og beið í Kreml fundar með Alexander keisara og eyddi í það dýrmætum tíma. En Alexander hafði ekkert við hann að tala og hirti ekkert um hann, og í þokkabót kveiktu Rússar í borginni. Frakkar börðust við eldana og björguðu Kreml, en voru miður sín yfir því sem kallað var ,,siðmenningarlaust framferði fjandmannanna. ,,Hefðum við nokkurntíma kveikt í París ? hugsuðu þeir með sér með hrolli !
Svo kom rússneski veturinn og undanhald Frakka hófst til vesturs. Stórher Napóleons leystist upp og varð að engu svipað og afghanski herinn fyrir skömmu, hlaðinn vestrænum vopnum, sem lentu svo öll í höndum Talibana. Napóleon sprengdi sig á Rússlandsförinni, þar hrundi Evrópusamband hans, ekki við Waterloo því þar var hann varla helmingur þess sem hann áður var. Það voru Rússar sem lögðu það afl til sem varð Napóleoni ofviða !
Svo kom Krímstríðið ! Af ótta við Rússa fóru Bretar og Frakkar í þann leiðangur að styðja við tyrkneska Ósmannaríkið sem stóðst ekki Rússum snúning í stríði suður við Svartahaf. Vesturveldin hikuðu þar ekki við að styðja Múslima gegn kristnu ríki, enda var um að ræða valdabaráttu stórvelda þess tíma. En ekki veitti af Bretum, Frökkum og Tyrkjum sameinuðum gegn rússneska birninum. Ekki kom mikið út úr þessu stríði, en Vesturveldin töldu sig samt hafa sigrað og hafa skráð sögu stríðsins með þeim hætti. En eina vestræna hetjan í því stríði var Florence Nightingale !
Svo kom fyrri heimsstyrjöldin ! Hönnuð, framleidd og búin til af Vesturveldunum. Rússar drógust inn í stríðið því keisari þeirra var undirlægja Vesturveldanna og afskaplega lélegur náungi. En brátt kom í ljós að rússneska þjóðin var endanlega búin að fá nóg af Rómanoffunum, hinni úrkynjuðu keisaraætt landsins !
Rússneski herinn kraumaði af uppreisnarhug og Þjóðverjum gekk ekki síst þessvegna vel á austurvígstöðvunum. Bolsévíkar náðu síðan völdunum með byltingu sinni og sömdu Rússland út úr stríðinu í Brest-Litovsk. Það var gert í fullri andstöðu við Vesturveldin sem vildu ólm að rússnesku blóði yrði áfram úthellt í þeirra þágu. En Lenín tók það ekki í mál, Rússland væri búið að þola nóg !
Vesturveldin settu heri á land víða í Rússlandi í lok stríðsins og um tíma voru 14 erlend ríki með herafla á rússneskri grund. Auk þess voru fjórir stórir hvítliðaherir í landinu sem börðust við bolsévíka studdir af Vesturveldunum á allan hátt. Borgarastyrjöldin gekk hinsvegar út á það að Rússar réðu sínu landi og þjóðin gekk til liðs við bolsévíka sem einir voru með þjóðlega stefnu í gangi. Herir Júdenitsj, Koltsjaks, Denikins og Wrangels voru sigraðir, erlend íhlutun stöðvuð og þar að auki innrás Pólverja í Úkraínu. Sovétríkin voru síðan stofnuð í árslok 1922, en Vesturveldin brugguðu þeim banaráð allt frá fyrstu stund. Þar varð aldrei lát á samsærum og ófriðarhyggju !
Hitler var byggður upp og fjármagnaður með nazisma sinn af Vesturveldunum og verkefni hans átti að vera að ganga frá Sovétríkjunum. En Hitler lét ekki lengi að stjórn þeirra sem fóðruðu hann og leiddu nazismann á legg. Atburðarásin fór í öfuga átt og auðvaldsöflin misstu gjörsamlega stjórn á framvindunni !
Árið 1940 var þýski heraflinn talinn sterkasta hernaðarvél heimsins, enda hafði Þýskaland nazismans verið eitt um það í nokkur ár að byggja sig upp fyrir stríð og það með vestrænu fé. Öllum friði í Evrópu var ógnað. Flestir vita hver framvindan var. En um mitt árið 1945 var breytt um hlutverk. Þýski herinn var sigraður, Berlín í rúst og Rauði herinn orðinn öflugasti og stríðshertasti landher veraldar !
Hann hafði varið Sovétríkin, frelsað alla Austur-Evrópu úr heljarklóm nazismans og í öllum þeim löndum höfðu sovéskir hermenn látið lífið í þeirri baráttu. Öflin sem byggðu Hitler upp til að tortíma Sovétríkjunum höfðu beðið hraksmánarlegan ósigur. En nú hefur gamla taflstaðan frá 1939 verið sett upp aftur og ný nýlendustefna verið hönnuð í vestri. Gömlu myrkraöflin eru enn og aftur komin á kreik. Enn skal reynt að höggva í sama knérunn í anda Hitlers og Himmlers !
Úkraínustríðið á að vera enn ein tilraun Vesturveldanna til að kúga Rússland og koma auðlindum þess í ,,réttar hendur eins og það er kallað í Brussel. En tími undirlægjuháttar Jeltsins og hans nóta er löngu liðinn. Rússland er orðið öflugt á ný og tilbúið að verja sitt þjóðaröryggi með öllum ráðum !
Það verður aldrei friður í Evrópu ef hin nýja nýlendustefna Vesturveldanna fær að ráða undir mislukkaðri forustu Nató, ESB og Bandaríkjanna. Bandaríkin fara líklega senn að liðast í sundur með nærri 32 trilljóna dollara ríkisskuld á bakinu og ný heimsmynd virðist vera að verða til. Dollarinn er að glata stöðu sinni við tilkomu nýrra peningakerfa. Hann nýtur ekki fyrra trausts. Gamalmennið í Hvíta húsinu er úti á túni í utanríkismálum og Natógenerálarnir virðast fúsir til að bjóða alstríðshættunni heim og þar með Ragnarökum !
En orkuvandi Vestur-Evrópuríkja verður ekki leystur nema með aðkomu Rússa og stríð milli þessara aðila mun leiða til endanlegrar helfarar Evrópu. Dagurinn 22. júní 1941 virðist þó aftur kominn á kortið með þeim hætti að allsherjarstríð virðist geta brotist út hvenær sem er !
3.1.2023 | 14:39
(Ó) menningarómagar þjóðarinnar !
Það er heldur illt til þess að vita hvað listamannalíf í landinu er háð opinberum styrkjum og hvað margir svonefndir listamenn eru á framfæri þeirra sem stunda atvinnu og borga skatta. Ómagar af þessu tagi eru langt umfram það sem ætti að þola og bera því ljóst vitni hvað íslenskt samfélag er óheilbrigt þegar kemur að ýmsu því sem flokkað er undir menningu og listir !
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að um 90% þeirra sem vilja vera skilgreindir sem listamenn og skilgreina sig þannig sjálfir, séu það ekki í raun, og að þjóðin myndi lítið missa við það að þeir sneru sér að því að vera bara hreinir og beinir launþegar í landinu og til gagns sem slíkir. Sú skoðun mín er óbreytt !
Það er athyglisvert að menn sem hafa haft og hafa miklar tekjur af sölu hugverka sinna og þurfa ekkert á þessum opinberu styrkjum að halda, gefa þá aldrei frá sér vegna einhverrar heiðurslaunatengingar. Jafnvel Nóbelsskáldið hélt í þessar krónur, líklega af þeim ástæðum !
Auðvitað er sjálfbær listamaður þjóð sinni mest að gagni því hann tekur jafnframt ekkert frá henni og er ekki á hennar framfæri. Mestu meðmæli hans eru þá þau að hann stendur undir sjálfum sér með list sinni og verður innblástur fyrir aðra á sömu forsendum. En slík listamennska er ekki mikið stunduð á Íslandi, hér vilja allflestir sem telja sig listamenn lifa á styrkjum og skattpeningi !
Menn eru á yfirlýstu almannaframfæri sem þjóðar-listamenn, borgar-listamenn, bæjarlista-menn og hvað það allt saman er látið heita. Alltaf virðist þeim spenum fjölga í kerfinu sem þessir gráðugu tilvistartrónandi sjálfupphöfnu sérgæðingar kjósa að sjúga sér til framfærslu á kostnað alþjóðar !
Jafnvel ógeðslegar glæpasögur eiga að vera innlegg í þjóðlegan menningar-fjársjóð nú á tímum og auglýsingaómennskan í kringum þær eru hreint með ólíkindum. Öll menning snýst nú um peninga og að græða og þar er mannlegum þroska alveg úthýst !
Það er sjálfsagt allt í allt á við sex þúsund kíló af kjaftshöggum fyrir þjóðina að bera þessa upphrúguðu listamannabyrði á herðum sér árin út, enda kerfið löngu komið út í tóma vitleysu hvað þetta varðar. Dómgreind er hæfileiki sem svokölluð menningarelíta fer afskaplega sparlega með - enda varla við öðru að búast !
Svo mætti bæta því við hér, að fólk sem virðist njóta þess umfram flest annað að lesa um morð á öðrum, hlýtur að lokum að telja það eftirsóknarverðast - sem hápunkt lífsins - að verða myrt sjálft. Lífið getur varla endað á dramatískari hátt !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2023 kl. 18:06 | Slóð | Facebook
26.12.2022 | 14:31
Hugleiðingar um framtíð sem verður kannski ekki lifuð !
Fróðlegt er að skoða veraldarsviðið út frá þeirri sviðsmynd sem kann að vera á næstu grösum ef hernaðarhyggjan fer stöðugt vaxandi og allir vilja veifa vopnum og halda víst að það sé leiðin til friðar, en svo er auðvitað ekki og hefur aldrei verið !
Nokkur ríki í heiminum eru það stór og fjölmenn að það er engum fært að reyna að hernema þau og ráða yfir þeim. Við getum til dæmis í því sambandi nefnt Bandaríkin, Brasilíu, Kanada, Rússland, Kína og Indland og raunar fleiri ríki !
Nokkur ríki eru þar að auki svo fjölmenn, þó þau séu ekki svo rosalega stór, að ógerningur væri að halda þjóðum þeirra niðri með hervaldi og hersetu. Það þyrfti milljóna her til þess og skæru-hernaður og andstaða við slíka hersetu krefðist mannfórna sem enginn árásarþjóð þyldi til lengdar. Þar yrði um margfalda Víetnam-styrjöld að ræða og ólýsanlegt rottustríð út í gegn !
Ef til stórstyrjaldar kemur milli Nató-ríkja og Rússlands út af Úkraínu-málunum er líklegt að framvindan verði sú að fleiri ríki muni fljótlega dragast inn í þá átakasögu. Enginn veit til hvers slík atburðarás kæmi til með að leiða. Þá mun dauðinn verða við allra dyr og hinsta sjálfskaparvítið, Ragnarökin sjálf verða ekki umflúin úr því. Eins og menn sá svo munu þeir og uppskera !
Það má nefnilega telja nokkuð víst að til kjarnorkuvopna muni verða gripið áður en lýkur. Strax og halla fer á annan aðilann í slíkri styrjöld mun hann nota það sem hann hefur til. Þar mun eflaust koma til hinn eilífi sjálfsvarnarréttur og sú hugsun að sælast verði þá sameiginlegt skipbrot og endanlegt fall. Það verður nefnilega aldrei neinn sigurvegari eftir kjarnorku-styrjöld !
Í slíkri styrjöld mun til dæmis bandaríska þjóðin fá að kynnast því helvíti af eigin reynd sem hún hellti yfir óbreytta borgara í Hiroshima og Nagasaki, almenna þegna sigraðrar þjóðar. Allt stjórnvaldslið Bandaríkjanna vildi endilega fá að prófa nýja leikfangið í nafni hins ameríska friðar, en sá falski friður hefur verið þjóðum jarðar dýr allt fram á yfir-standandi stund !
Kjarnorkan mun ekki hlífa neinum og enginn mun sleppa frá tortímingarmætti hennar ef til hennar verður gripið. Jafnvel Jens Stoltenberg mun ekki lifa slíkt af þó kok-hraustur þyki nú um stundir. Leiðtogar í austri og vestri munu farast ásamt þjóðum sínum. Engir Nató-sagnfræðingar munu verða eftir til að skrifa þá sögu og engir Rússasagn-fræðingar heldur. Allir verða dauðir og kannski verra en það !
Kjarnorkukafbátar í undirdjúpum hafsins munu sjá um hefnd fyrir óvænta árás ef út í það fer. Og hætt er við að stórborgir heimsins margar hverjar muni fá sinn blóðuga skammt rausnarlega útilátinn í dauða og eyðileggingu. Þeir sem lifa svo sjálfar sprengjurnar af munu síðan deyja miklu verri dauða af afleiðingum geisla-virkni !
Það mun þá toppa sig endanlega til hvers græðgi mannsins hefur leitt hann, þegar vítislogar kjarnorkustríðs flæða yfir jörðina og þetta heillum horfna mannkyn hefur útspilað sitt lífshlutverk !
Eru það slík örlög sem menn sækjast eftir og vilja fá yfir sig ? Það er nefnilega engu líkara en svo sé !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook
20.12.2022 | 13:58
Hugsað við kaflabundið útsog alheimsdellu !
Í rústum hinnar fornu Babylonar fundu menn við fornleifauppgröft fyrir meira en öld, meðal annars leirtöflu, en á henni stóð stutt og laggott : ,, Líttu í kringum þig, allir menn eru fífl !
Að þessari niðurstöðu höfðu menn komist um þúsund árum fyrir Krist og séð ástæðu til að koma henni skriflega áfram til eftirtímans. Hvað myndu þeir hinir sömu segja í dag ? Allur hroki og hégómi, valdafíkn og fáránleiki fornaldartímans hefur margfaldast á okkar tímum. Og hafi menn verið fífl til forna, þá hljóta þeir að vera margföld fífl í dag !
Margar eru dellur mannlífsins og fótbolti er ein af dellum þeim sem tröllríða nánast öllu og er löngu komin út fyrir alla dómgreindarlega stöðu. Menn sparka bolta á milli sín og milljónir áhorfenda tryllast af æsingi og margir troðast undir !
Milljörðum er eytt í kostnað og allskyns uppbyggingu til að halda leiki og þúsundir mannslífa fara forgörðum í upphafningu glæsileikans. Og þó allir viti um svörtu hliðarnar og að spilling og mútur séu í fullum gangi við sjónarspilið, falla menn unnvörpum fyrir framboðinu á brauði og leikjum enn sem fyrr !
Sama ferlið endurtekur sig æ ofan í æ á völlum þessarar spark-vitleysu og sjálfskipaðir spekingar spjalla um leiki fram og aftur og strjúka skegg sín, og konurnar eru komnar í þetta líka, hams-lausar af jafnréttishugmyndum varðandi spark-fræðileg viðfangsefni. Heilastarf-semi milljóna manna virðist öll hlaupin í öfugan líkamsenda og undirstrikar gömlu umsögnina með nýjum og kröftugri hætti en forðum allir menn eru fífl !
Sérhver íþrótt á rétt á sér meðan um íþrótt er að ræða. En þegar íþrótt breytist í ómanneskjulegt auðgunarkerfi fer það heilbrigða við hana fljótt í vaskinn og eftir situr bara harðsoðið peningamaskínuspil. Fótboltinn er því miður löngu orðinn stór-iðnaður af því tagi og mótið í Qatar hefur sannað það í mörgu !
Einn vinur minn, sem ekki hefur fallið fyrir þessari dellu, spurði mig um daginn : ,, Af hverju hafa þeir ekki boltana fleiri, yrði ekki miklu meira fjör í kringum það ?
Víst gæti það svo sem vel verið ! Fjölmenningin myndi líklega telja að það ætti að vera einn bolti á mann ? Ábendingu vinar míns er hér með komið á framfæri svo hanna megi nýja útfærslu af dellunni, til dæmis undir nafninu fjölmenningarbolti eða bara fjölbolti !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook
17.12.2022 | 00:10
,,Júdasar stungnir í bakið !!!
Margt er að í nútímanum og má það finna jafnt hérlendis sem erlendis. Fjölmiðlar fara mikinn í lýsingum af spillingarmáli hjá ESB og virðast margir hverjir harmi lostnir yfir að jafnvel þar geti slíkt átt sér stað. Aðrir vilja halda því fram að spillingarmál séu hvarvetna til staðar í Evrópusambandskerfinu og fréttamenn þurfi ekki að láta eins og útsendari Satans hafi fundist í himnaríki !
Siðmenningarlega stöðu nútímans er hægt að mæla út frá mörgu sem gerist, en eitt sem segir þar sitt, er að menn sem leika Júdasarhlutverk nú á tímum eiga það til að kvarta opinberlega yfir því að hafa verið stungnir í bakið og eru fullir heilagrar vandlætingar yfir svo hræðilega svívirði-legum verknaði !
Slíkir menn eru orðnir svo siðvilltir að þeir snúa málum alveg á hvolf. Þeir sjá sig ekki sem gerendur vondra hluta, þeir upplifa sig þvert á móti sem fórnarlömb þeirra sem vinna vond verk. Júdasar liðinna tíma hegðuðu sér yfirleitt ekki þannig. Sumir þeirra iðruðust og játuðu brot sín síðar og sá sem er líklega hin ómeðvitaða fyrirmynd þeirra gekk út og hengdi sig !
Að vera Júdas og svíkja vini sína og félaga, svíkja skyldur sínar og yfirlýst markmið, er eitt af því lægsta sem lifandi maður getur lagt sig niður við. Og þegar sá sem það gerir ásakar aðra fyrir slík svik, er hann staddur í tómarúmi tálsýna og veruleikaskerðingar. Hann er orðinn að fórnarlambi eigin sjálfsmeðaumkvunar og vælir í öfugsnúinni eigingirni sinni ,, það er verið að stinga mig í bakið !
Það er vont hlutskipti að reyna að vera maður þegar ekki eru lengur forsendur til þess. Þegar menn hafa fallið á því prófi. Ísland er nú í dag orðið ríki sem keyrt er áfram á kapítalisma og nýfrjálshyggju, eigingirni og hreint út sagt yfirgengi-legri græðgi einstaklingshyggjunnar !
Ónefndur frjálshyggjupostuli hefði eigin-lega átt að vera í æðstaprests-hlutverkinu í Seðlabankanum, en sennilega þykir hann orðinn of gamall, enda þarf enginn að efast um að núverandi seðlabanka-stjóri getur alveg sinnt því hlutverki og það jafnvel alveg í þeim anda sem krafist er !
Verkalýðsforingjar eru ekki lengur til á Íslandi. Í þeirra stað eru komnir sauðir sem reknir eru inn í rétt SA og látnir skrifa þar undir eitthvað sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað er eða hvernig það virkar. Þeir eru heldur ekki á neinu lúsarkaupi eins og venjulegir launþegar í landinu. En slíkir eru nú forustumenn verkalýðsins í dag og ekki er unnt að bera neina virðingu fyrir þeim !
Nýgerðir samningar eru nefnilega svik við launþega. Þar er um kjaralækkunar-samninga að ræða. Enn og aftur er verðbólgu og afleiðingum hennar velt yfir á launþega og þá mest sem minnst mega við því. Það er gamla sagan hjá hinni óþjóðlegu atvinnu-rekendaklíku landsins, að enginn ágóði í rekstri þjóðarbúsins eigi eða megi skila sér til verkafólks !
Enn er farið í spor hinnar göróttu og glæpsamlegu þjóðarsáttar, þar sem öllum kostnaði og skuldum óráðsíu-valdaaflanna var steypt yfir almenning í landinu. Svo voru tilteknir menn settir á háan stall og sagðir hafa unnið þjóðhagslegt afrek. En þeir voru bara duglausar druslur sem létu nota sig í innantóm sirkushlutverk !
Það var sem fyrr segir aldrei unnið neitt afrek með hinni svokölluðu þjóðarsátt. Hún var bara blekkingar-gjörningur sem hefði þessvegna getað verið kominn beint upp úr glóðum helvítis. Ljót voru svikin og óhreinlyndið í kringum það ferli. Og bölvunin frá því lygaspili er enn í virkasta gangi í samfélagi okkar því skíturinn frá því spillingarverki loðir áfram við allt !
Og það er engin furða þó menn, sem að nýafstöðnum samnings-málum komu, segist vera með óbragð í munni og telji það engan heiður að vera myndaðir með sumum öðrum. Þar virðist þó einhver sómatilfinning vera til staðar þó manndóms-styrkurinn og baráttu-hugurinn mætti hafa verið meiri á hólminum sjálfum !
Prímadonnustjórnin sem nú situr við völd, sem aldrei skyldi verið hafa, er heldur ekki verkalýðssinnuð í neinum skilningi þess orðs. Þar tryggja meirihlutavaldið herleiddir aumingjar sem töldu sig eitt sinn til vinstri, en eru núna þjónandi þeim auðvaldsöflum sem verst hafa alla tíð reynst almannahag á Íslandi og fara síst batnandi. Já, það er margur Júdasinn í þessu landi !
Þó að fátt bendi til batnandi hluta, verður maður samt að reyna að viðhalda voninni um réttlætisdóma hins efsta dags. En það er erfitt að trúa á réttlæti í þjóðfélagi þar sem ranglætið ræður lögum og lofum til lands og sjávar og stjórnvöldum er alls ekki hægt að treysta !
En maður trúir því samt og vonar innilega - að allir Júdasar mannlífsins hafni að lokum á versta hugsanlega stað, vegna allra misgerða sinna, glæpa og svikasamninga, og þá á ég við í svartasta helvíti !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook
13.12.2022 | 15:34
Nokkrar tölur um flóttamenn frá Úkraínu !
Hér eru tölur frá 6. desember síðastliðnum um þau lönd sem tekið hafa við flestum flóttamönnum frá Úkraínu. Hér verða nefnd þau tólf lönd sem eru þar efst á blaði með tölu þeirra flóttamanna sem þangað hafa leitað :
Rússland 2.852.395
Pólland 1.529.355
Þýskaland 1.021.667
Tékkland 467.862
Ítalía 173.231
Spánn 156.753
Bretland 147.800
Frakkland 118. 994
Slóvakía 102.873
Rúmenía 98.103
Moldavía 98.027
Austurríki 89.244
Ísland með sína 360 þúsund borgara, er skráð með 1976 flóttamenn frá Úkraínu og Bandaríkin, mesta björgunarríki veraldar, með sínar 332 milljónir, hafa tekið á móti 1610 flóttamönnum. Rússland, sem samkvæmt vestrænum fréttastofum er alfarið skilgreint sem ofsóknaraðilinn í þessu vonda dæmi, hefur þannig tekið á móti langstærsta hópnum af flýjandi fólki frá Úkraínu og aðrir komast þar ekki einu sinni í námunda !
Hvíta Rússland, eitt nágrannaríkið, hefur til dæmis ekki tekið á móti nema 17.260 flóttamönnum. En af hverju flýja úkraínskir borgarar í svo miklum mæli til Rússlands ? Gera má ráð fyrir að þar sé um að ræða í einhverjum mæli Rússa eða fólk af rússnesku bergi brotið, en fjöldinn er samt svo mikill og vekur ýmsar spurningar varðandi það sem er þarna í gangi, því yfirleitt flýr fólk helst þann aðila sem ofsækir það !
Eitt af því sem má telja að Úkraínustríðið hafi leitt í ljós, er að sjónvarpsstjörnur eru ekki heppilegir þjóðarleiðtogar. Að vera í valdahlutverki í veruleikanum er allt annað en að leika hetju í sjón-varpinu. Volodimir Zelensky hefði líklega aldrei átt að yfirgefa sjónvarpið þar sem hann gat verið hetja áfram á skjánum án ábyrgðar, með þeim leikbrögðum sem þar tíðkast !
En maðurinn er samt sem áður orðinn margföld hetja á Vesturlöndum og gengi vísast hokinn eins og hershöfðingi undir öllum þeim medalíum sem hefur verið hrúgað á hann þar á bæjum sem vænta mátti. En það er hvergi rétt gildis-viðmiðun að fá medalíur frá útlöndum, jafnvel ekki hérlendis !
Vonandi ganga þessar stríðshörmungar sem fyrst yfir og vonandi læra menn af því sem gerst hefur og varast að fara þar í fyrri spor. En ágangur Vesturveldanna til austurs verður að hætta. Það er eina leiðin til friðar í álfunni !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
- Afneitun á íslenskum fjölbreytileika !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 4
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 1053
- Frá upphafi: 397365
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 962
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)